Hæstiréttur íslands

Mál nr. 425/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Mánudaginn 8

 

Mánudaginn 8. nóvember 2004.

Nr. 425/2004.

K

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

gegn

M

(Helgi Birgisson hrl.)

 

Kærumál. Vitni. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Hafnað var kröfu K um að A, fyrrum sambúðarkona M, yrði kvödd fyrir dóm sem vitni í máli þar sem M og K deildu um forsjá tveggja sona þeirra.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. október 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2004, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að A verði kvödd fyrir dóm sem vitni í máli varnaraðila á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og henni verði leyft að leiða fyrrnefnda konu sem vitni í málinu til skýrslugjafar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar en til vara að hann verði felldur niður.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, K, greiði varnaraðila, M, 100.000 krónur í kærumálskostnað.  

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2004.

             Í þinghaldi 29. september sl. lýstu lögmenn málsaðila öflun sýnilegra sönnunargagna lokið.  Þá lýsti lögmaður stefndu því yfir að A, fyrrverandi sambýliskona stefnanda, yrði leidd sem vitni í málinu.  Lögmaður stefnanda mótmælti því að A kæmi fyrir réttinn sem vitni.  Lögmennirnir tjáðu sig um þetta og lögðu síðan ágreining þennan í úrskurð.

 

Aðilar þessa máls, M og K, deila um forsjá sona sinna, X og Y.

Auk margra almennra gagna, sem og gagna frá sálfræðingum og opinberum aðilum, liggur fyrir í málinu ítarleg álitsgerð dómkvaddra sérfræðinga sem greinir m.a. frá skoðun þeirra og mati á forsjáhæfi aðila, persónulegum eiginleikum og högum hvors aðila fyrir sig, svo og barnanna, tengsl aðila við börnin, tengsl barnanna innbyrðis o.fl.  Þá liggur fyrir í málinu bréf A frá 4. desember 2003 þar sem hún fer nokkrum orðum um sambúð sína við stefnanda á árunum 1998 og þar til hún yfirgaf heimili hans í ágúst 2001 og áreitni hans síðan.  Í lok bréfsins segir: „Ótal margar ljótar og grimmar sögur er hægt að segja af [M] sem of langt yrði hér að segja hér frá.  Þér er hinsvegar velkomið að hafa samband við mig ef að þú vilt fá frekari upplýsingar því frá mörgu er frá að segja.“

 

Ályktunarorð: Í ljósi þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu verður ekki séð að A geti upplýst eitthvað sem máli skiptir til sönnunar á málsástæðum stefndu.  Er því fallist á kröfu stefnanda með vísun til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

             Hafnað er að A verði leidd sem vitni í málinu.