Hæstiréttur íslands

Mál nr. 473/2004


Lykilorð

  • Skuldamál
  • Greiðslukort
  • Söluverð
  • Fyrning


Miðvikudaginn 4

 

Miðvikudaginn 4. maí 2005.

Nr. 473/2004.

Sigurður Pétur Hauksson

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

gegn

Greiðslumiðlun hf.

(Lúðvík Örn Steinarsson hrl.)

 

Skuldamál. Greiðslukort. Söluverð. Fyrning.

G hf. krafðist þess að S greiddi sér eftirstöðva kaupverðs samkvæmt sex nánar tilgreindum kaupsamningum með eignarréttarfyrirvara. Hafði S undirritað alla kaupsamningana sem kaupandi og átti G hf., sem hafði fengið umrædda samninga framselda, því kröfu á hendur honum á grundvelli þeirra. Þá var bent á að S hefði með áritun sinni á kortumsókn sem handhafi svonefnds aukakorts og athugasemdalausri notkun þess undirgengist skilmála um kortið og ætti G hf. því einnig á grundvelli þeirra kröfu á hendur S um greiðslu eftirstöðva kaupverðs umræddra kaupsamninga. Ekki var fallist á að kröfur G hf. væru fyrndar. Þá var ekki talið skipta neinu fyrir úrlausn málsins að S hefði verið úrskurðaður gjaldþrota     árið 1992, að kröfunum hefði að hálfu G hf. verið fyrst beint að eiginkonu S eða að G hf. hefði ekki neytt heimildar í samningunum til að rifta þeim. Var því fallist á kröfur G hf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 22. september 2004. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 3. nóvember sama ár og áfrýjaði hann öðru sinni 30. nóvember 2004 samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi höfðaði stefndi mál þetta í héraði til heimtu eftirstöðva kaupverðs samkvæmt sex nánar tilgreindum kaupsamningum með eignarréttarfyrirvara. Um er að ræða svonefnda raðgreiðslusamninga og er meginmál þeirra samhljóða. Samkvæmt 1. gr. skilmála kaupsamninganna lofar kaupandi að kaupa og seljandi að selja tilgreinda muni. Þá lofar kaupandi að greiða kaupverð þeirra með þeim kjörum er í samningunum greinir. Jafnframt heimilar kaupandi samkvæmt 3. gr. skilmálanna að VISA-kortareikningur hans, sem tilgreindur er í samningunum, verði skuldfærður fyrir mánaðarlegum afborgunum. Áfrýjandi undirritaði alla umrædda kaupsamninga sem kaupandi og á stefndi, sem fengið hefur umrædda samninga framselda, því kröfu á hendur honum á grundvelli samninganna sex fyrir ógreiddum eftirstöðvum kaupverðs samkvæmt þeim.

 Eiginkona áfrýjanda var korthafi þess VISA-greiðslukorts sem heimilað var að skuldfæra afborganir samkvæmt samningunum. Áfrýjandi var hins vegar handhafi svonefnds aukakorts og gaf rithandarsýnishorn sem slíkur á umsókn um kortið. Jafnframt heimilaði hann með áritun sinni á umsóknina að tilgreindur bankareikningur hans yrði skuldfærður fyrir úttekt af kortinu. Samkvæmt skilmálum á bakhlið umsóknarinnar gilda þeir fyrir handhafa aukakorts, sem telst einnig korthafi samkvæmt þeim. Þá er sérstaklega tekið fram í skilmálunum að aukakorthafi beri til jafns við korthafa ábyrgð á greiðslu úttekta sinna með kortinu. Áfrýjandi hefur með áritun sinni á kortumsóknina og athugasemdalausri notkun kortsins undirgengist þessa skilmála og á stefndi því einnig á grundvelli þeirra kröfu á hendur áfrýjanda um greiðslu eftirstöðva kaupverðs umræddra kaupsamninga.

Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína fyrir Hæstarétti í fyrsta lagi á því að kröfur stefnda séu fyrndar. Skoraði hann á stefnda að leggja fram frekari gögn fyrir Hæstarétt varðandi framsal á umræddum kröfum til hans og um greiðslu afborgana af kaupsamningunum eftir 30. október 1999. Varð stefndi við þeirri áskorun. Af þeim gögnum sést að stefndi greiddi þáverandi eigendum krafna samkvæmt umræddum samningunum upp eftirstöðvar þeirra fyrir árslok 1999 og fékk þá framselda á nánar tilteknum dögum síðari hluta þess árs. Fyrir liggur einnig samkvæmt þessum gögnum að eftir að umræddu greiðslukorti var lokað með uppsögn Landsbanka Íslands hf. 10. september 1999 sendi áfrýjandi eiginkonu stefnda greiðsluseðla vegna afborgana samkvæmt kaupsamningunum sex vegna gjalddaga þeirra 30. október og 30. nóvember 1999 og voru þeir greiddir 29. desember sama ár. Þá sést af þessum gögnum að afborganir þær sem í gjalddaga féllu 30. desember 1999 voru greiddar 23. febrúar 2000. Samkvæmt 41. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð fyrnist krafa stefnda samkvæmt samningunum á fjórum árum frá þeim degi sem hún varð gjaldkræf. Hefur framsal á kröfum samkvæmt umræddum samningum til stefnda engin áhrif á greiðsluskyldu áfrýjanda eða gjalddaga á þeim greiðslum sem honum bar að inna af hendi. Framsalið hefur því ekki þýðingu fyrir upphaf fyrningarfrests á umræddum kröfum. Samkvæmt framansögðu hefur verið staðið í skilum með afborganir samkvæmt samningunum fram til afborgana þeirra er gjaldféllu 31. janúar 2000 og varðar krafa stefnda í máli þessu einungis þann hluta kaupverðs, sem féll í gjalddaga þann dag og síðar samkvæmt ákvæðum samninganna. Því voru ekki liðin fjögur ár frá gjalddaga neins hluta umræddra krafna þegar fyrningarfrestur var rofinn með höfðun þessa máls 15. janúar 2000 og er krafa stefnda ófyrnd.

Engu skiptir fyrir úrlausn þessa máls að áfrýjandi hafi verið úrskurðaður gjaldþrota árið 1992, að kröfum vegna vanskila á eftirstöðvum kaupverðs samkvæmt umræddum samningum hafi af hálfu stefnda fyrst verið beint að eiginkonu áfrýjanda eða að stefndi hafi ekki neytt heimildar í samningunum til að rifta þeim. Eru varnir áfrýjanda sem á þessu byggjast því haldlausar. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest enda hefur áfrýjandi hvorki andmælt útreikningi á kröfu stefnda né heimild hans til að krefjast dráttarvaxta af allri fjárhæðinni frá 31. janúar 2000.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Sigurður Pétur Hauksson, greiði stefnda, Greiðslumiðlun hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2004.

Mál þetta var höfðað 15. janúar 2004 og dómtekið 14. þ.m.

Stefnandi er Greiðslumiðlun hf. – VISA ÍSLAND, Álfabakka 16, Reykjavík.

Stefndi er Sigurður Pétur Hauksson, Espigerði 6, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér skuld að fjárhæð 1.400.937 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. janúar 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

I

Stefnandi kveður umkrafða skuld vera tilkomna vegna sex kaupsamninga með eignarréttarfyrirvara sem þannig er lýst í stefnu:

 “I. Kaupsamningur með eignarréttarfyrirvara nr. 0576153, dags. 17.03.1999. Um er að ræða raðgreiðslusamning vegna VISA-greiðslukorts nr. 4539-8618-0012-3439. Andlag kaupsamningsins var P-II 400 (128k) örgj., 64MB vinnslum., 6,4GB h. disk, sem stefndi, Sigurður Pétur Hauksson, keypti af Tæknibæ ehf. Samtals skuld stefnda vegna kaupanna nam í upphafi kr. 1.312.500,00 og skyldi greiða skuldina með 36 mánaðarlegum afborgunum í fyrsta skipti 30.04.1999. Vextir skv. samningnum skyldu vera breytilegir, upphaflega 13,1%. Vextir á höfuðstól skyldu reiknast frá undirskrift samningsins, eins og hann væri hverju sinni. Ef um breytilega vexti væri að ræða skyldu þeir miðast við vegið meðaltal af vöxtum af almennum skuldabréfum viðskiptabanka og sparisjóða, sbr. tilkynningar Seðlabanka Íslands, eins og þeir væru þá er útreikningur hverrar greiðslu skyldi fara fram. Samningur þessi var framseldur til Greiðslumiðlunar hf. – VISA ÍSLAND, sbr. áritanir á skjalið. Þar sem greiðslufall varð af afborgunum skv. samningnum greiddi stefnandi bréfið upp og námu eftirstöðvar skuldarinnar á uppgreiðsludegi 31.01.2000, kr. 984.378,00.

II. Kaupsamningur með eignarréttarfyrirvara nr. 0576154, dags. 17.03.1999. Um er að ræða raðgreiðslusamning vegna VISA-greiðslukorts nr. 4539-8618-0012-3439. Andlag kaupsamningsins var P-II 400 (128k) örg., 64MB vinnslum, 6,4GB h.disk, sem stefndi, Sigurður Pétur Hauksson, keypti af Tæknibæ ehf. Samtals skuld stefnda vegna kaupanna nam í upphafi kr. 314.546,00 og skyldi greiða skuldina með 36 mánaðarlegum afborgunum í fyrsta skipti 30.04.1999. Vextir skv. samningnum skyldu vera breytilegir, upphaflega 13,1%. Vextir á höfuðstól skyldu reiknast frá undirskrift samningsins, eins og hann væri hverju sinni. Ef um breytilega vexti væri að ræða skyldu þeir miðast við vegið meðaltal af vöxtum af almennum skuldabréfum viðskiptabanka og sparisjóða, sbr. tilkynningar Seðlabanka Íslands, eins og þeir væru þá er útreikningur hverrar greiðslu skyldi fara fram. Samningur þessi var framseldur til Greiðslumiðlunar hf. – VISA ÍSLAND, sbr. áritanir á skjalið. Þar sem greiðslufall varð af afborgunum skv. samningnum greiddi stefnandi bréfið upp og námu eftirstöðvar skuldarinnar á uppgreiðsludegi 31.01.2000, kr. 235.912,00.

III. Kaupsamningur með eignarréttarfyrirvara nr. 0586998, dags. 14.02.1999. Um er að ræða raðgreiðslusamning vegna VISA-greiðslukorts nr. 4539-8618-0012-3439. Andlag kaupsamningsins var Kaup á Matterhorn, Else borði og Como stólum, sem stefndi, Sigurður Pétur Hauksson, keypti af Rúmfatalagernum hf. Samtals skuld stefnda vegna kaupanna nam í upphafi kr. 76.949,00 og skyldi greiða skuldina með 30 mánaðarlegum afborgunum í fyrsta skipti 28.02.1999. Vextir skv. samningnum skyldu vera breytilegir, upphaflega 12,4%. Vextir á höfuðstól skyldu reiknast frá undirskrift samningsins, eins og hann væri hverju sinni. Ef um breytilega vexti væri að ræða skyldu þeir miðast við vegið meðaltal af vöxtum af almennum skuldabréfum viðskiptabanka og sparisjóða, sbr. tilkynningar Seðlabanka Íslands, eins og þeir væru þá er útreikningur hverrar greiðslu skyldi fara fram. Samningur þessi var framseldur til Búnaðarbanka Íslands hf. sem síðar framseldi heimildarskjalið til Greiðslumiðlunar hf. – VISA ÍSLAND, sbr. áritanir á skjalið. Þar sem greiðslufall varð af afborgunum skv. samningnum greiddi stefnandi bréfið upp og námu eftirstöðvar skuldarinnar á uppgreiðsludegi 31.01.2000, kr. 51.300,00.

IV. Kaupsamningur með eignarréttarfyrirvara nr. 0583549, dags. 11.02.1999. Um er að ræða raðgreiðslusamning vegna VISA-greiðslukorts nr. 4539-8618-0012-3439. Andlag kaupsamningsins var húsbúnaður skv. vörunótu nr. 1-00803685, sem stefndi, Sigurður Pétur Hauksson, keypti af Miklatorgi hf./IKEA. Samtals skuld stefnda vegna kaupanna nam í upphafi kr. 71.292,00 og skyldi greiða skuldina með 18 mánaðar­legum afborgunum í fyrsta skipti 28.02.1999. Vextir skv. samningnum skyldu vera breytilegir, upphaflega 12,7%. Vextir á höfuðstól skyldu reiknast frá undirskrift samningsins, eins og hann væri hverju sinni. Ef um breytilega vexti væri að ræða skyldu þeir miðast við vegið meðaltal af vöxtum af almennum skuldabréfum viðskiptabanka og sparisjóða, sbr. tilkynningar Seðlabanka Íslands, eins og þeir væru þá er útreikningur hverrar greiðslu skyldi fara fram. Samningur þessi var framseldur til Íslandsbanka hf. sem síðar framseldi heimildarskjalið til Greiðslumiðlunar hf. – VISA ÍSLAND, sbr. áritanir á skjalið. Þar sem greiðslufall varð af afborgunum skv. samningum greiddi stefnandi bréfið upp og námu eftirstöðvar skuldarinnar á uppgreiðsludegi 31.01.2000, kr. 31.688,00.

V. Kaupsamningur með eignarréttarfyrirvara nr. 0583552, dags. 14.02.1999. Um er að ræða raðgreiðslusamning vegna VISA-greiðslukorts nr. 4539-8618-0012-3439. Andlag kaupsamningsins var húsbúnaður skv. vörunótu nr. 1-00803728, sem stefndi, Sigurður Pétur Hauksson, keypti af Miklatorgi hf./IKEA. Samtals skuld stefnda vegna kaupanna nam í upphafi kr. 34.252,00 og skyldi greiða skuldina með 12 mánaðarlegum afborgunum í fyrsta skipti 28.02.1999. Vextir skv. samningnum skyldu vera breytilegir, upphaflega 12,7%. Vextir á höfuðstól skyldu reiknast frá undirskrift samningsins, eins og hann væri hverju sinni. Ef um breytilega vexti væri að ræða skyldu þeir miðast við vegið meðaltal af vöxtum af almennum skuldabréfum viðskiptabanka og sparisjóða, sbr. tilkynningar Seðlabanka Íslands, eins og þeir væru þá er útreikningur hverrar greiðslu skyldi fara fram. Samningur þessi var framseldur til Íslandsbanka hf. sem síðar framseldi skjalið til Greiðslumiðlunar hf. – VISA ÍSLAND, sbr. áritanir á skjalið. Þar sem greiðslufall varð af afborgunum skv. samningum greiddi stefnandi bréfið upp og námu eftirstöðvar skuldarinnar á uppgreiðsludegi 31.01.2000, kr. 5.709,00.

VI. Kaupsamningur með eignarréttarfyrirvara nr. 0302598, dags. 20.06.1998. Um er að ræða raðgreiðslusamning vegna VISA-greiðslukorts nr. 4539-8618-0012-3439. Andlag kaupsamningsins var Hreingerningarvél, sem stefndi, Sigurður Pétur Hauksson, keypti af Rainbow Air á Íslandi ehf. Samtals skuld stefnda vegna kaupanna nam í upphafi kr. 174.216,00 og skyldi greiða skuldina með 36 mánaðarlegum afborgunum í fyrsta skipti 31.08.1998. Vextir skv. samningnum skyldu vera breytilegir. Vextir á höfuðstól skyldu reiknast frá undirskrift samningsins, eins og hann væri hverju sinni. Ef um breytilega vexti væri að ræða skyldu þeir miðast við vegið meðaltal af vöxtum af almennum skuldabréfum viðskiptabanka og sparisjóða, sbr. tilkynningar Seðlabanka Íslands, eins og þeir væru þá er útreikningur hverrar greiðslu skyldi fara fram. Samningur þessi var framseldur til Rekstrarfélagsins Fjárvangs hf. sem síðar framseldi skjalið til Greiðslumiðlunar hf. – VISA ÍSLAND, sbr. áritanir á skjalið. Þar sem greiðslufall varð af afborgunum skv. samningnum greiddi stefnandi bréfið upp og námu eftirstöðvar skuldarinnar á uppgreiðsludegi 31.01.2000 kr. 91.950,00.”

Þar sem vanefndir stefnda á greiðsluskyldu sinni til stefnanda séu stórfelldar og viðvarandi og fyrirsjáanlegt að hann mundi ekki greiða umsamdar afborganir kveður stefnandi forsendur fyrir áframhaldandi afborgunum samkvæmt hinum um­sömdu greiðslufyrirkomulögum hafa brostið og þar af leiðandi hafi stefnanda verið heimilt að gjaldfella heimildarskjölin.

Samtals nemi skuld stefnda við stefnanda samkvæmt framangreindum kaup­samningum með eignarréttarfyrirvara 1.400.937 krónum.

Hvað varðar greiðsluskyldu stefnda vísar stefnanda til ákvæða 1. gr. framan­greindra kaupsamninga með eignarréttarfyrirvara þar sem m.a. komi fram að kaupandi lofi að “greiða umsamið kaupverð skv. ofanskráðu...”  Óumdeilt sé í málinu að stefndi hafi verið aðili téðra kaupsamninga, undirritað þá og undirgengist þær skyldur sem greini í samningunum.

Stefndi hafi verið aukakorthafi Kristínar S. Halldórsdóttur, samanber korta­umsókn dags. 6. apríl 1998.  Auk þess sem greiðsluskylda stefnda sé byggð á þeim heimildarskjölum sem að framan sé lýst og stefndi sé aðili að vísar stefnandi kröfum sínum til stuðnings til b. liðs 1. gr. viðskiptaskilmála stefnanda þar sem segi:  “Unnt er að fá útgefið aukakort, eitt eða fleiri, á sama kortareikning, með samþykki korthafa.  Viðskiptaskilmálar þessir gilda einnig fyrir handhafa slíkra aukakorta og telst hann einnig korthafi skv. þeim.”  Þá er vísað til ákvæðis b. liðar 7. gr viðskiptaskilmálanna þar sem segi að aukakorthafi beri “á sama hátt ábyrgð á greiðslu úttekta sinna með kortinu til jafns við aðalkorthafa.”

Í stefnu segir að bú Kristínar S. Halldórsdóttur hafi verið tekið til gjald­þrotaskipta og hafi skiptum í því verið lokið.  Af þeim sökum sé málssókn þessari ekki beint að henni jafnframt.

Stefnandi vísar til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga sem fái m.a. lagastoð í 45. og 51. gr. laga n.r 50/2000 en um gjalddaga kröfunnar er einkum vísað til meginreglu 49. gr. sömu laga.  jafnfram er vísað til eldri kaupalaga nr. 39/1922, 5., 6. og 28. gr. og til 12. gr. þeirra laga um gjalddaga.

II

Stefndi vísar til þess, sbr. framlagða kortaumsókn Kristínar S. Halldórsdóttur, að einungis aðalkorthafi hafi þurft að undirrita og jafnframt að samþykkja viðskipta­skilmála stefnanda samhliða rithandarsýnishorni sínu en stefndi, sem sé aukakorthafi, hafi aðeins verið látinn rita rithandarsýnishorn sitt en ekki verið gert að samþykkja viðskiptaskilmálana.   Því geti hann  ekki verið bundinn af þeim samningi heldur beri að líta svo á að hann hafi aðeins haft umboð eða prókúrurétt til að gera umrædda kaupsamninga fyrir hönd aðalkorthafa.  Að auki hafi “útgefandi” hafnað öllum umsóknum stefnda um að fá kreditkort, m.a. vegna þess að hann hafi verið úrskurðaður gjaldþrota 30. september 1996.  Ljóst megi vera að stefndi hafi í besta falli haft stöðu ólögráða einstaklings.  Um það er vísað til ákvæða viðskiptaskilmála stefnanda um fjölskyldukort.  Þar segi m.a. að forráðamaður ólögráða einstaklings geti óskað eftir að fá útgefið fjölskyldukort fyrir hönd þess ólögráða, sem hann fari með forræði yfir, og séu úttektir fjölskyldukorthafa gerðar í umboði aðalkorthafa og á hans ábyrgð.

Sýknukrafa stefnda er einnig studd við það að krafa stefnanda sé fyrnd samkvæmt 3. gr. laga nr. 14/1905 þar sem liðið hafi meira en 4 ár frá því að “útgefandi” sagði upp umræddum kortasamningi og þar til hann stefndi í málinu.

III

Að því leyti sem hér að framan er af hálfu stefnanda vitnað til efnis kaup­samninga með eignarréttarfyrirvara og viðskiptaskilmála, sem fylgja kortaumsókn, er það í samræmi við framlögð gögn.

Með notkun aukakorts síns í framangreindum viðskiptum gerðist stefndi samningsaðili stefnanda á grundvelli viðskiptaskilmála hans, sem stefnda máttu vera ljósir, og ber hann ábyrgð á greiðslu úttekta sinna með kortinu til jafns við aðal­korthafa, sbr. b. lið 7. gr. viðskiptaskilmálanna.

Ekki var um að ræða fjölskyldukort enda er ekki fram komið að stefndi sé ólögráða og hefur málsástæða hans, sem að þessu lýtur, ekki þýðingu um úrslit málsins fremur en það að stefnandi hafi hafnað umsóknum stefnda um að fá kreditkort (sem aðalkorthafi).  Það, sem stefndi heldur fram um uppsögn kortasamnings 10. september 1999, styðst við útprentun úr tölvukerfi Landsbankans en hefur ekki þýðingu um samskipti aðila málsins.  Upphaf fyrningarfrests kröfu stefnanda á hendur stefnda miðast við þann dag er stefnandi eignaðist gjaldkræfa kröfu á hendur stefnda á uppgreiðsludegi 31. janúar 2000.   Fjögurra ára fyrningartími var því eigi fullnaður er stefna var birt 15. janúar 2004, sbr. 3. gr., 1. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 11. gr. laga nr.14/1905.

Samkvæmt framangreindu er niðurstaða málsins sú að fallast beri á kröfur stefnanda.  Dæma ber stefnda til að greiða stefnanda 1.400.937 krónur með vöxtum eins og fram kemur í dómsorði og málskostnað sem er ákveðinn 300.000 krónur.

Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Sigurður Pétur Hauksson, greiði stefnanda, Greiðslumiðlun hf. – VISA ÍSLAND, 1.400.937 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. janúar 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags og 300.000 krónur í málskostnað.