Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-299
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Sjálfskuldarábyrgð
- Ógilding samnings
- Fjármálafyrirtæki
- Trúnaðarskylda
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Með beiðni 30. október 2019 leitar Sindri Sindrason eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 4. sama mánaðar í málinu nr. 825/2018: Sindri Sindrason gegn Landsbankanum hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Landsbankinn hf. leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðanda og öðrum tilgreindum einstaklingi verði gert að greiða sér óskipt 27.723.216 krónur auk dráttarvaxta vegna sjálfskuldarábyrgðar þeirra að fjárhæð 30.000.000 krónur. Með lánssamningi 20. nóvember 2009 lánaði gagnaðili Samtímalist ehf. 110.790.380 krónur vegna kaupa á fasteign að Skólavörðustíg 40 og samhliða gekkst leyfisbeiðandi undir fyrrnefnda sjálfskuldarábyrgð. Sama dag og fyrrnefnt lán var veitt gaf Samtímalist ehf. einnig út veðskuldabréf til gagnaðila að fjárhæð 5.050.505 krónur. Er óumdeilt að tryggingarbréf nr. 525222 að fjárhæð 110.000.000 krónur, útgefið af Samtímalist ehf. 7. nóvember 2008 til gagnaðila, með veði í fasteigninni að Skólavörðustíg 40, stóð meðal annars til tryggingar fyrrnefnda láninu. Enn fremur gaf Samtímalist ehf. út tryggingarbréf til handa gagnaðila að fjárhæð 25.000.000 krónur þar sem heildarvörubirgðir félagsins voru settar að veði til tryggingar framangreindum lánum. Leyfisbeiðandi var hluthafi í Samtímalist ehf. Fasteigninni að Skólavörðustíg 40 var árið 2012 ráðstafað til félagsins S40 ehf. Samkvæmt samkomulagi mun S40 ehf. hafa tekið að sér að reisa nýbyggingu á lóðinni og skyldu félögin skipta með sér þeim hagnaði sem eftir stæði þegar framkvæmdum lyki og eignin hefði í heild sinni verið seld. Veitti gagnaðili því félagi framkvæmdalán og var tryggingarbréfi að fjárhæð 173.500.000 krónur því til tryggingar þinglýst á 1. veðrétt fasteignarinnar. Þá veittu eigendur S40 félaginu framkvæmdalán samtals að fjárhæð 20.000.000 krónur sem færð voru á 2. veðrétt fasteignarinnar. Óumdeilt er að leyfisbeiðandi féllst á að framangreind tryggingarréttindi gengju framar tryggingarbréfi nr. 525222 sem áður hafði hvílt á 1. veðrétti eignarinnar og færðist það bréf á 3. veðrétt. Á eftir því eða á 4. veðrétt fasteignarinnar hvíldi svo hitt veðskuldabréfið útgefið af Samtímalist ehf. til gagnaðila að fjárhæð 5.050.505 krónur. Sérstakt samkomulag var gert milli Samtímalistar ehf. og eigenda S40 ehf. um ráðstöfun væntanlegs söluandvirðis fasteignarinnar en þar kom fram að til stæði að „byggja húsið, selja húsnæðið og greiða upp / inn á áhvílandi skuldir, semsagt framkvæmdarlánið sem þarf að veita, framlag húsbyggjandans og loks núverandi lóðlán“ en það vísaði til þess láns sem leyfisbeiðandi var að hluta í ábyrgð fyrir. Þá kom fram í samkomulagi að eigendur S40 ehf. myndu stýra framkvæmdum og færu með fullt ákvörðunarvald varðandi félagið og fasteignina. Skólavörðustígur 40 var síðar seldur í nokkrum hlutum og við sölu hvers eignarhluta samþykkti gagnaðili að aflétta veðböndum af þeim.
Bú Samtímalistar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2016 og lauk skiptum án þess að greiðsla fengist upp í allar lýstar kröfur og var þar á meðal krafa gagnaðila vegna lánsins sem leyfisbeiðandi var í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Leyfisbeiðandi telur að gagnaðili hafi brotið á sér með því að leyfa S40 ehf. að verja rúmum 24 milljónum af söluverði eignanna til að greiða óveðtryggðar skuldir félagsins sem í gögnum málsins voru tilgreindar sem „ógreiddir reikningar og framkvæmdir“. Einnig telur leyfisbeiðandi að gagnaðila hafi verið óheimilt að ráðstafa þeim greiðslum sem hann fékk vegna sölu eignarinnar til greiðslu veðskuldabréfs Samtímalistar ehf. sem hvíldi á fjórða veðrétti áður en lánið á þriðja veðrétti væri að fullu greitt. Þá telur leyfisbeiðandi að gagnaðili hafi vanrækt að nýta þá tryggingu lánsins sem fólst í lausafjárveði í eignum Samtímalistar ehf. Leyfisbeiðandi byggir kröfu sína um sýknu á því að krafa á hendur sér sé fallin á brott þar sem gagnaðili hafi brotið gegn trúnaðarskyldum gagnvart sér með því að heimila greiðslu fyrrnefndra skulda áður en greiðslum væri ráðstafað inn á lánið sem hvíldi á 3. veðrétti fasteignarinnar. Héraðsdómur tók kröfu gagnaðila til greina og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með áðurnefndum dómi meðal annars með vísan til þess að samkomulag milli Samtímalistar ehf. og eigenda S40 ehf. yrði ekki jafnað til fullnustugerðar og hafi gagnaðila því ekki á þeim grundvelli borið skylda til að ráðstafa eftir veðröð þeim greiðslum sem bárust inn á áhvílandi skuldir.
Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi til skýringa á trúnaðarskyldum fjármálastofnana gagnvart ábyrgðarmönnum þannig að ráðstöfun andvirðis veðsettra eigna fari fram samkvæmt lögum um samningsveð eða samþykki allra hagsmunaaðila en sé ekki háð einhliða ákvörðun fjármálafyrirtækisins. Einnig telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé rangur að efni til meðal annars með vísan til þess að Landsréttur hafi misskilið efnisatriði málsins og því hafi rangar forsendur verði lagðar til grundvallar niðurstöðu dómsins. Loks telur leyfisbeiðandi málið varða mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í máli þessu geti haft fordæmisgildi og þá sérstaklega varðandi heimild lánadrottins gagnvart ábyrgðarmanni til að ráðstafa fjármunum inn á lán óháð veðröð þeirra. Er umsókn leyfisbeiðanda því tekin til greina.