Hæstiréttur íslands
Mál nr. 211/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Réttindaröð
|
|
Mánudaginn 6. maí 2013. |
|
Nr. 211/2013. |
LBI hf. (Herdís Hallmarsdóttir hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Ólafur Örn Svansson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Réttindaröð.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem krafa L hf. við slit fjármálafyrirtækisins LB hf. var viðurkennd með stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið. 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í kjölfar þess að Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar LB hf., vék frá stjórn þess og skipaði skilanefnd var innlend starfsemi LB hf. flutt yfir í L hf. Áður en til þess kom höfðu starfsmönnum LB hf. orðið á þau mistök að framkvæma ekki fyrirmæli viðskiptamanna bankans um að selja hlutdeildarskírteini í tilteknum verðbréfasjóðum áður en lokað var fyrir viðskipti með umrædd skírteini. Biðu viðskiptamenn LB hf. tjón vegna þessa og var það bætt af L hf. Í kjölfarið lýsti L hf. kröfu við slit LB hf. sem nam þeirri fjárhæð sem greidd hafði verið til fyrrum viðskiptamanna LB hf. vegna mistakanna. Talið var að fyrir hefði legið samkomulag um að LB hf. bæri endanlegan kostnað af þeim greiðslum sem L hf. innti af hendi skömmu eftir fall LB hf. Varðandi áframhaldandi greiðslur L hf. vegna mistakanna var talið að L hf. hefði mátt ætla að samkomulagið gilti áfram. Meðal annars var vísað til þess hvers eðlis samband LB hf. og L hf. hefði verið á þessum tíma, mistök starfsmanna LB hf. hefðu ekki verið á ábyrgð L hf. og að LB hf. hefði mátt vera ljóst að breytingar á greiðslunum hefðu verið til þess fallnar að skaða viðskiptahagsmuni L hf. og torvelda rekstur hans. Var því fallist á kröfu L hf. og hún viðurkennd með stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Helgi I. Jónsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. mars 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. mars 2013, þar sem krafa varnaraðila að fjárhæð 435.335.587 krónur var viðurkennd við slit sóknaraðila sem búskrafa samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu varnaraðila verði hafnað en til vara að hún verði lækkuð. Í báðum tilvikum er gerð krafa um málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur en til vara að krafa sóknaraðila njóti stöðu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit sóknaraðila. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Eins og ítarlega er rakið í úrskurði héraðsdóms á málið rætur að rekja til samskipta skilanefndar sóknaraðila og varnaraðila vegna svonefndra „mistakamála“, en þessi samskipti urðu á síðari hluta árs 2008 og fyrri hluta 2009. Umrædd mistök munu einkum hafa orðið föstudaginn 3. október 2008, næsta virka dag fyrir fall sóknaraðila 6. sama mánaðar, og er lýst svo að fyrirmæli, sem viðskiptavinir höfðu sent sóknaraðila, voru ekki framkvæmd sem leiddi til tjóns fyrir þá þegar verðbréfa- og fjárfestingasjóðir lokuðu fyrir innlausn. Eins og málið liggur fyrir er ekki ágreiningur með aðilum um að með því að framkvæma ekki fyrirmælin hafi verið brotið á þeim viðskiptamönnum sóknaraðila sem sannanlega komu kröfu sinni um innlausn á framfæri 3. október 2008.
Varnaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt minnisblað Stefáns H. Stefánssonar 23. október 2008, en hann mun á þeim tíma hafa verið í senn stjórnarformaður Landsvaka hf. og starfsmaður varnaraðila. Í því er fjallað um áðurnefnd „mistakamál“ og samskipti málsaðila vegna þeirra frá bankahruni í byrjun október 2008 til þess dags þegar minnisblaðið er dagsett. Þar segir meðal annars að 21. sama mánaðar hafi leiðréttingar verið gerðar þannig að sóknaraðili hafi eignast hlutdeildarskírteini og hlutabréf fyrir framsal, en viðskiptamönnum verið greitt út af reikningi varnaraðili sem lánaði sóknaraðila fyrir viðskiptunum. Kostnaður vegna mistakanna hafi verið skráður á sóknaraðila sem mismunur endanlegs uppgjörs bréfanna og kostnaðar við að kaupa þau. Ekki er fram komið um nein viðbrögð sóknaraðila af þessu tilefni. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, LBI hf., greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 500.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. mars 2013.
Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, beindi slitastjórn varnaraðila, LBI hf. (áður Landsbanki Íslands hf.), Austurstræti 16, Reykjavík, til dómsins 22. nóvember 2011 með vísan til 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 120. gr. sömu laga. Sóknaraðili er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík. Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 5. febrúar sl.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkennt verði að krafa hans að fjárhæð 435.335.587 krónur njóti stöðu samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit varnaraðila, en til vara að krafan njóti stöðu samkvæmt 113. gr. laganna við slitin. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði hafnað, en til vara að hún verði lækkuð. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Málsatvik
Atvik máls þessa eru í ýmsum atriðum umdeild, en efnislegur ágreiningur aðila málsins lýtur að meginstefnu að því hvort varnaraðili hafi skuldbundið sig til þess að bera kostnað af tjóni vegna mistaka starfsmanna Landsbanka Íslands hf., eins og varnaraðili nefndist þegar atvik málsins áttu sér stað, við afgreiðslu viðskiptafyrirmæla handhafa hlutdeildarskírteina í sjóðum bankans 3. október 2008, en sóknaraðili telur sig hafa bætt þessum aðilum þetta tjón á tímabilinu október 2008 til september 2009.
A
Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar varnaraðila 7. október 2008, vék stjórn hans frá og skipaði honum skilanefnd. Fór hún samkvæmt 4. mgr. 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., með allar heimildir stjórnar og málefni sóknaraðila, þar á meðal með rekstur hans og umsjón eigna. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var innlend starfsemi varnaraðila flutt yfir til sóknaraðila sem hafði verið stofnaður sérstaklega í þessu skyni.
Í kjölfar þess að sóknaraðili var stofnaður bárust fjölmargar kröfur frá viðskiptamönnum um leiðréttingu vegna mistaka sem átt höfðu sér stað hjá varnaraðila við afgreiðslu viðskiptafyrirmæla vegna hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóðum. Samkvæmt greinargerð sóknaraðila var að stærstum hluta um að ræða viðskiptamenn sem höfðu sent varnaraðila viðskiptafyrirmæli föstudaginn 3. október 2008 um innlausnir úr peningamarkaðssjóðum sem reknir voru af dótturfélagi varnaraðila, Landsvaka hf. Segir að mistökin hafi falist í því að viðskiptafyrirmælin hafi ekki verið framkvæmd þennan dag, en ekki hafi verið opnað fyrir innlausnir úr sjóðunum eftir mánudaginn 6. október 2008. Er víða í gögnum málsins vísað til þessara mála sem „mistakamála“.
Hinn 17. október 2008 beindi Fjármálaeftirlitið þeim tilmælum til rekstrarfélaga verðbréfasjóða Kaupþings banka hf., Glitnis banka hf. og varnaraðila að slíta öllum peningamarkaðssjóðum og greiða út eignir í formi innlána í hlutfalli við eign hvers og eins þannig að jafnræðis væri gætt. Í framhaldi af því var unnið að slitum á öllum peningamarkaðssjóðum Landsvaka hf. og handhöfum svokallaðra „Peningabréfa Landsbankans“ greidd út innlausnarverðið. Samkvæmt gögnum málsins var innlausnarverð á bilinu 60-74,1% eftir mynt sjóðs. Fyrir liggur að 25. október 2008 sendi Landsvaki hf. skilanefnd varnaraðila erindi með tillögu að uppgjöri vegna viðskipta varnaraðila við Landsvaka hf. á árinu 2008.
B
Í ljósi þeirrar stöðu sem komin var upp vegna umræddra mistaka fór Stefán H. Stefánsson, framkvæmdastjóri eignastýringar sóknaraðila og stjórnarformaður Landsvaka hf., á fund skilanefndar varnaraðila 13. október 2008. Samkvæmt tölvupósti sem ritari skilanefndarinnar, Eggert Páll Ólafsson, sendi Eyrúnu Einarsdóttur, starfsmanni á endurskoðunarsviði sóknaraðila, og ber það með sér að hafa verið sendur kl. 12:08, færði skilanefndin eftirfarandi ákvörðun til bókar:
kl. 11:48 mætti á fund skilanefndar Stefán H. Stéfánsson og fór yfir stöðu mála varðandi fyrirmæli um innlausn í sjóðum sem ekki voru afgreidd með réttum hætti. Búið er að fara yfir þessi mál innanhúss, í flestum tilfellum eru tölvupóstar en í sumum tilfellum símtöl. Skilanefnd hefur ákveðið að ef fyrirmæli hafa borist fyrir kl. 16, og innri endurskoðun fari yfir málið og staðfesti að beiðnin hafi borist fyrir kl. 16 og að upphæðir séu réttar á fylgiskjali Leidrettingar061008-ágv2.xlsx, muni GLÍ kaupi hlutdeildarskirteinin eins og beðið var sannanlega um, þ.e. innlausnin verði framkvæmd eins og beðið var um. Innri endurskoðun er falið að staðfesta þetta við skilanefndina fyrir lok dags á morgun, 14. október 2008.
Í tölvupósti sem Eggert Páll Ólafsson sendi starfsmönnum sóknaraðila 21. janúar 2009 er að finna sömu bókun, þó þannig að orðalagi 4. málsliðar hefur verið breytt með eftirfarandi hætti:
[...] Skilanefnd hefur ákveðið að ef fyrirmæli hafa borist fyrir kl. 16, og innri endurskoðun fari yfir málið og staðfesti að beiðnin hafi borist fyrir kl. 16 og að upphæðir séu réttar á fylgiskjali (Leidrettingar061008-ágv2.xlsx(, geri GLÍ ekki athugasemdir við að NBI greiði viðskiptavinum eins og innlausn hafi farið fram og slíkt gæti hugsanlega haft áhrif á verðmat á Landsvaka og tengdum eignum. [...]
Í afriti fundargerðar vegna fundar skilanefndar stefnanda 13. október 2008 er 4. málsliður umræddrar bókunar svohljóðandi:
[...] Skilanefnd hefur ákveðið að innri endurskoðun fari yfir málið og staðfesti að beiðnin hafi borist fyrir kl. 16 og að upphæðir séu réttar á fylgiskjali (081013-008 Fyrirmæli um innlausn í sjóðum sem ekki voru afgreidd með réttum hætti).
Samkvæmt skýrslu Eggerts Páls Ólafssonar, ritara skilanefndar varnaraðila, fyrir dómi var á þeim tíma sem hér um ræðir ekki fast verklag við staðfestingu bókana skilanefndar. Bókanir voru yfirleitt sendar fundarmönnum í lok dags eða næsta dag. Hins vegar voru fundargerðir hvorki undirritaðar né sérstaklega bornar upp til staðfestingar á næsta fundi og ekki var óalgengt að bókanir væru leiðréttar síðar að beiðni skilanefndarmanna. Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna eftir því að skilanefndin hefði ákveðið að bera kostnað af svokölluðum mistakamálum. Jafnframt taldi vitnið að tölvupósturinn sem sendur var Eyrúnu Einarsdóttur 13. október 2008 hefði fremur falið í sér drög en fullmótaða ákvörðun. Endanleg ákvörðun hefði þannig fremur komið fram í tölvupósti vitnisins 21. janúar 2009 en tölvupóstinum 13. október 2008.
Í framhaldi af framangreindum tölvupósti 13. október 2008 vann innri endurskoðun sóknaraðila lista yfir umrædd „mistakamál“ og skilaði uppfærðum lista til skilanefndar 14. október 2008, ásamt minnisblaði um stöðu mála. Samkvæmt minnisblaðinu höfðu fleiri mál borist, einkum frá ráðgjöfum og sérfræðingum í verðbréfa-og lífeyrisþjónustu, einkabankaþjónustu og eignastýringarsviði á meðan skoðun innri endurskoðunar stóð. Var talið æskilegt að skilanefndin tæki afstöðu til þeirra mála til að meta hvort taka ætti þau til frekari skoðunar. Samkvæmt skjali sem fylgdi tölvupóstinum sundurliðuðust kröfurnar með eftirfarandi hætti:
|
|
Innlausnir |
|
Peningabréf ISK |
3.791.934.637,69 |
|
Peningabréf Erlend |
250.209.263 |
|
Innlend hlutabréf |
38.427.445 |
|
Erlend hlutabréf |
41.297.265 |
|
Fyrirtækjabréf |
61.721.165 |
|
Samtals |
4.183.589.774,71 |
Í framhaldi af sendingu þessa tölvupósts kveðst sóknaraðili hafa lagt grundvöll að verklagi við afgreiðslu þessara mála og hóf að greiða viðskiptamönnum í samræmi við þau viðskiptafyrirmæli sem þeir höfðu gefið 3. október 2008. Telur sóknaraðili, gegn andmælum varnaraðila, að þessi framkvæmd hafi notið samþykkis skilanefndar. Sóknaraðili hefur einnig vísað til þess að varnaraðili hafi á þessum tíma ekki haft bankareikninga á eigin nafni þannig að honum væri sjálfum unnt að greiða viðkomandi viðskiptavinum og hafi aðkoma sóknaraðila því verið nauðsynleg. Var uppgjörið með þeim hætti að viðskiptin voru framkvæmd í samræmi við viðskiptafyrirmæli 3. október 2008; viðskiptavinur fékk andvirði verðbréfanna greidd og afsalaði sóknaraðila viðkomandi verðbréfum.
Samkvæmt framburði Sigrúnar I. Sigurðardóttur, starfsmanns innri endurskoðunar sóknaraðila og Þórðar Jónssonar, starfsmanns í fjárhagsdeildar sóknaraðila, fyrir dómi voru greiðslur til viðskiptamanna vegna mistakamála skuldfærðar beint á reikning sóknaraðila fyrir 8. október 2008, en á þessum tíma voru reikningar varnaraðila í vörslum sóknaraðila. Þannig hafi verið litið á að um væri að ræða ógreidda skuld sem sóknaraðili hefði tekið yfir frá varnaraðila. Í skýrslu Þórðar kom einnig fram að þær greiðslur sem voru skuldfærðar með þessum hætti hafi komið inn í lokauppgjör milli málsaðila, þ.e. til lækkunar á þeirri greiðslu sem sóknaraðili innti af hendi með skuldabréfi til slitabús varnaraðila fyrir innlenda starfsemi hans í desember 2009. Eftir að verðbréfsjóðum hafi verið slitið eftir október 2008 hafi greiðslur til viðskiptamanna einungis miðast við þann mismun sem var á útgreiddu innlausnarvirði verðbréfa og gengi þeirra 3. október 2008. Þessi mismunur, sem sóknaraðili hafi greitt út, hafi verið færður varnaraðila til skuldar með það fyrir augum að gera þetta upp við varnaraðila síðar ásamt fleiri kröfum. Á þessum tíma hafi starfsmenn sóknaraðila ekki getað fært greiðslur beint inn í stofnefnahagsreikning varnaraðila líkt og átt hafi við um greiðslurnar sem inntar voru af hendi í október 2008.
Í greinargerð sóknaraðila segir að verklag við meðferð umræddra mistakamála hafi verið á þá leið að innri endurskoðun hafi borist mál frá bæði starfsmönnum sóknaraðila og skilanefndar varnaraðila. Innri endurskoðun hafi vísað þeim málum sem ekki hafi verið unnt að staðfesta til lögfræðiráðgjafar sóknaraðila til frekari umfjöllunar, en samskipti við skilanefnd hafi að miklu leyti farið fram fyrir tilstuðlan lögfræðiráðgjafar sóknaraðila. Skilanefnd hafi á hverjum tíma verið upplýst um þær kröfur frá viðskiptavinum sem borist höfðu. Sambærileg lýsing á málsatvikum kom fram í skýrslum áðurnefndrar Sigrúnar I. Sigurðardóttur og Borgars Þórs Einarssonar, starfsmanns lögfræðisviðs. Í skýrslum þeirra kom einnig fram að stærstur hluti umræddra mála hefði borist í október 2008 en mál hefðu verið að berast allt til mars 2009. Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð sóknaraðila fóru síðustu greiðslur til viðskiptamanna þó fram í september 2009.
Meðal gagna málsins er talsverður fjöldi tölvupóstsamskipta starfsmanna málsaðila síðasta hluta ársins 2008 og fyrsta hluta ársins 2009. Þar á meðal er tölvupóstur 30. október 2008 frá starfsmanni sóknaraðila þar sem fram kemur að búið sé að undirbúa allt til að keyra leiðréttingar vegna mistakamálanna í gegn en að það vanti endanlegt samþykki skilanefndar. Einnig liggur fyrir tölvupóstur starfsmanna sóknaraðila 13. nóvember 2008 þar sem meðal annars kemur fram að skilanefnd varnaraðila hafi ekki tekið formlega afstöðu til málsins.
Hinn 7. janúar 2009 sendi framangreindur Borgar Þór skilanefnd varnaraðila tölvupóst um uppgjör vegna mistakamála. Meðfylgjandi tölvupóstinum var minnisblað hans ásamt niðurstöðum innri endurskoðunar sóknaraðila vegna mistakamálanna. Í minnisblaðinu sagði meðal annars að sóknaraðili greiddi viðskipavinum bætur eða leiðrétti færslur eftir atvikum þar sem bótaskylda eða skylda til leiðréttingar væri hafin yfir allan vafa. Kostnaður vegna þessa yrði dregin frá skuldabréfi gagnvart varnaraðila við fjárhagslegt uppgjör milli félaganna. Greiðslur sóknaraðila vegna þessa yrðu gerðar með fyrirvara um hugsanlega riftun af hálfu kröfuhafa í væntanlegt þrotabú varnaraðila. Einnig kom fram í minnisblaðinu að yfirlit það sem fylgdi póstinum væri ekki endanlegt þar sem enn væri til úrlausnar nokkur fjöldi mála. Yfirlitið ber með sér að raunkostnaður við greiðslur þeirra mála sem þar koma fram sé 368.631.267 krónur en málin séu alls 113 talsins. Í gögnum málsins eru ekki upplýsingar um að varnaraðili hafi svarað þessu erindi sóknaraðila.
Í tölvupóstsamskiptum starfsmanna sóknaraðila 29. janúar 2009 kemur fram að vafi sé um hvort fyrir liggi staðfesting á því frá skilanefnd „að heildarfjárhæðin sem verður greidd út fari sem „afsláttur“ upp í skuldabréfið“ og komu þar enn fram, af hálfu sóknaraðila, sömu tillögur og áður greinir í minnisblaðinu 7. janúar 2009. Í minnisblaðinu frá 21. janúar 2009 er einnig lögð áhersla á viðskiptahagsmuni sóknaraðila af því að umræddar kröfur viðskiptamanna séu greiddar, enda ljóst að engar líkur séu á því að þeir nái fram kröfum sínum með lýsingu þeirra við slit varnaraðila. Ekkert samþykki barst frá varnaraðila í kjölfar framangreinds erindis sóknaraðila.
Í tölvupósti sem framangreindur Borgar Þór sendi starfsmönnum varnaraðila 5. mars 2009 var vísað til sameiginlegs fundar og teknar saman helstu niðurstöður. Kemur þar meðal annars fram að sóknaraðili hyggist áfram hafa sama hátt á úrlausn mála eða eins og segir orðrétt í tölvupóstinum: „Innri endurskoðun í umboði Skilanefndar tekur öll mál til skoðunar og afgreiðir sem samþykkt, hafnað eða álitamál. Málum sem hafnað er eða teljast álitamál er skotið Lögfræðiráðgjafar sem leggur endanlegt mat á málið áður en það er afgreitt til skilanefndar.“ Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að varnaraðili hafi staðfest þennan skilning starfsmannsins.
Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð sóknaraðila voru samskipti við starfsmenn skilanefndar mikil allt það tímabil sem unnið var að úrlausn umræddra mála og er í því sambandi vísað til tíðra tölvupóstssamskipta starfsmanna málsaðila sem gögn liggja fyrir um í málinu.
Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð sóknaraðila bárust yfir 300 erindi til innri endurskoðunar sóknaraðila en af af þeim voru 245 samþykkt og greiðsla innt af hendi af hálfu sóknaraðila. Hefur sóknaraðili lagt fram yfirlit þar sem meðal annars koma fram upplýsingar um viðskiptamann, fjárhæðir og stutt lýsing á eðli mistaka.
C
Með úrskurði héraðsdóms 5. desember 2008 var varnaraðila veitt heimild til greiðslustöðvunar. Með lögum nr. 44/2009, þar sem breytt var nokkrum ákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, var varnaraðili tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009 þegar lögin öðluðust gildi, en frestdagur ver 15. nóvember 2008. Héraðsdómur skipaði bankanum slitastjórn 29. sama mánaðar og hófst slitameðferð eftir reglum B hluta XII. kafla laga nr. 161/2002 hinn 22. nóvember 2010 samkvæmt úrskurði héraðsdóms þann dag, en með úrskurðinum lauk sjálfkrafa greiðslustöðvun bankans. Slitastjórn gaf út innköllun til skuldheimtumanna félagsins 30. apríl 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 30. október sama ár þegar sóknaraðili lýsti kröfu sinni.
Í kröfulýsingu sóknaraðila er lýst kröfu að heildarfjárhæð 7.136.870.161 króna og er kröfunni lýst sem „forgangskröfu“ með vísan til 110. gr. laga nr. 21/1991. Segir í kröfulýsingu að með vísan til samkomulags við skilanefnd varnaraðila hafi sóknaraðili greitt viðskiptavinum bætur eða leiðrétt eftir atvikum færslur þar sem bótaskylda eða skylda til leiðréttingar var hafin yfir allan vafa. Kostnaður vegna þessa hafi átt að vera hluti af fjárhagslegu uppgjöri milli félaganna. Kröfum einstakra viðskiptavina sé nánar lýst í fylgiskjali með kröfulýsingunni. Þá segir undir yfirskriftinni „umboð“ að á grundvellli samkomlags sóknaraðila við ofangreinda aðila hafi hann umboð til að lýsa kröfu fyrir hönd kröfuhafanna.
Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfu sóknaraðila með vísan til þess að ekki yrði ráðið af kröfulýsingu að skilyrðum 110. gr. laga nr. 21/1991 væri fullnægt eða krafan væri nægilega rökstudd eða studd gögnum. Taldi slitastjórn að kröfulýsing sóknaraðila uppfyllti ekki áskilnað 2. og 3. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 þannig að hægt væri að taka afstöðu til kröfunnar og var henni því alfarið hafnað. Ekki er ástæða til að gera sérstaka grein fyrir fundum málsaðila í því skyni að jafna ágreining sinn áður en slitastjórn varnaraðila vísaði málinu til héraðsdóms 22. nóvember 2011 sem fyrr segir.
D
Samkvæmt greinargerð sóknaraðila kom við athugun í ljós að í kröfulýsingu hafði ekki verið tekið tillit til þeirra fjármálagerninga sem viðskiptavinir höfðu látið af hendi við uppgjör viðskiptanna og dragast áttu frá kröfum gegn varnaraðila. Verður ráðið af greinargerðinni að krafa sóknaraðila miðist þannig ekki við þær fjárhæðir sem greiddar voru út til viðskiptamanna heldur þessar fjárhæðir að frádregnu endanlegu virði þeirra verðbréfa sem voru í þeirra eigu.
Í greinargerð sóknaraðila er einnig áréttað að við endanlegt uppgjör sem fram hafi farið á milli málsaðila vegna uppskiptingar varnaraðila hafi ekki verið tekið tillit til þeirra krafna vegna mistakamála sem bæst höfðu við eftir október 2008. Þrátt fyrir uppgjör aðila standi því eftir krafa sóknaraðila vegna þeirra mistakamála sem gerð voru upp eftir október 2008. Nemi raunkostnaður sóknaraðila, sem varnaraðila beri að greiða 435.335.587 krónum sem sé kröfufjárhæð málsins.
Undir meðferð málsins skoraði varnaraðili á sóknaraðila að leggja fram sundurgreint yfirlit yfir kostnað og greiðslur sóknaraðila vegna mistakamálanna, þ.e. annars vegar sundurliðað yfirlit yfir kostnað og greiðslur sóknaraðila vegna meintra mistaka við innlausnir hlutdeildarskírteina í sjóðum Landsvaka hf. og hins vegar sundurliðað yfirlit yfir kostnað og greiðslur sóknaraðila vegna meintra mistakamála sem ótengd eru sjóðum Landsvaka hf. Af þessu tilefni lagði sóknaraðili fram minnisblað um bókahaldslega meðferð svonefndra mistakamála ásamt fylgiskjölum sem meðal annars höfðu að geyma yfirlit yfir þá tegund verðbréfa sem leiðréttingar tengdust og samantekt um fjárhæðir. Ekki er ástæða til að rekja þessi skjöl lið fyrir lið.
Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóm sem vitni Sigrún I. Sigurðardóttir, starfsmaður innri endurskoðunar sóknaraðila, Þórður Jónsson, þáverandi starfsmaður á fjárhagssviði sóknaraðila, Ársæll Hafsteinsson, þáverandi meðlimur í skilanefnd varnaraðila, Borgar Þór Einarsson, þáverandi sérfræðingur á lögfræðisviði sóknaraðila, Stefán H. Stefánsson, þáverandi stjórnarformaður Landsvaka hf. og framkvæmdastjóri eignarstýringar sóknaraðila, Eggert Páll Ólason, þáverandi ritari skilanefndar sóknaraðila, Jón Kristinn Sverrisson, þáverandi sérfræðingur hjá lögfræðisviði sóknaraðila, og Stefán R. Guðmundsson, lögfræðingar hjá varnaraðila.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir aðalkröfu sína á því að um búskröfu sé að ræða sem falli undir 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Eins og áður greini hafi öll málefni varnaraðila verið sett undir skilanefnd, sem skipuð var í skjóli opinbers valds og hafi verið ætlað að leggja drög að aðgerðum til skuldaskila sóknaraðila. Hafi skilanefndinnni meðal annars verið falið að stýra rekstri varnaraðila, gæta eigna hans og hámarka virði þeirra til hagsbóta fyrir alla kröfuhafa. Á tímabilinu frá 7. október 2008 til 22. apríl 2009 hafi varnaraðili því verið í aðstöðu sem leggja má að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans.
Í framhaldi þess að sóknaraðila bárust kröfur frá viðskiptamönnum um greiðslu eða leiðréttingu vegna þess að viðskiptafyrirmæli sem gefin höfðu verið á síðustu starfsdögum varnaraðila höfðu ekki verið framkvæmd hafi sóknaraðili sérstaklega leitað samþykkis skilanefndar varnaraðila fyrir því að uppgjör færi fram. Sóknaraðili telur að með beinu samþykki skilanefndar og því verklagi sem komst á í framhaldinu með aðkomu starfsmanna varnaraðila njóti krafa hans um endurgreiðslu rétthæðar búskröfu. Jafna megi samþykki skilanefndar varnaraðila við það að krafan hafi orðið til með samningi við skiptastjóra í skilningi þessa ákvæðis. Líta verði á samninga sem skilanefnd gerði fyrir lagasetningu um slitameðferð fjármálafyrirtækja, sem ráðstafanir skiptastjóra í skilningi 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Ljóst sé því að skilanefnd hafi í raun farið með skiptastjórn þrotabús varnaraðila, sbr. orðalag laga nr. 129/2008, sem og 1. gr. laga nr. 44/2009. Vísar sóknaraðili þessu til stuðnings til nýlegra fordæma Hæstaréttar.
Sóknaraðili vísar einnig til þess að greiðslan hafi verið í nánu samstarfi við starfsmenn skilanefndar varnaraðila sem voru upplýstir um þau mál sem voru til meðferðar og sáu um samskipti við þá viðskiptamenn þar sem kröfum var hafnað. Með samþykki skilanefndar varnaraðila og aðkomu starfsmanna varnaraðila að frágangi mála hafi sóknaraðili með réttu mátt vænta þess að sú krafa sem mál þetta snýst um yrði greidd. Gagnaðilar skilanefndar hafi mátt treysta skuldbindingargildi þeirra samninga sem skilanefnd kom að. Ljóst sé því að varnaraðili sé bundinn af þeim samningum sem skilanefndin gerði.
Þótt krafa sóknaraðila hafi verið gerð upp að hluta miðað við það uppgjör við viðskiptavini sem fram fór í október 2008 standi eftir krafa vegna þeirra leiðréttinga sem fram fóru eftir það tímamark og gerðar voru með vitund og samþykki varnaraðila.
Varakröfu sína byggir sóknaraðili á því að hann eigi sannanlega kröfu á hendur varnaraðila vegna milligöngu hans fyrir hönd varnaraðila um uppgjör við viðskiptamenn. Því beri að staðfesta kröfuna og rétthæð hennar samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. um gjaldþrotaskipti o.fl.
Um lagarök er vísað til laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., auk meginreglna samninga- og kröfuréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga, skuldbindingargildi samninga og samningsfrelsi.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Í fyrsta lagi byggir varnaraðili á að aðild sóknaraðila að málinu sé með öllu vanreifuð og beri að hafna kröfum sóknaraðila þegar af þeirri ástæðu og/eða með vísan til aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vísar varnaraðili til þess að það sé með öllu óljóst hvort sóknaraðili hafi lýst hinni umþrættu kröfu á hendur varnaraðila í eigin nafni sem kröfuhafi eða hvort sóknaraðili hafi lýst kröfunni í umboði einstakra hlutdeildarskírteinishafa sem áttu aðild að hinum meintu mistakamálum. Verði sóknaraðili að bera hallann af óskýrleika í málatilbúnaði sínum um þetta atriði. Komi sóknaraðili fram í eigin nafni sem raunverulegur kröfuhafi hinnar umþrættu kröfu vísar varnaraðili til þess að ekkert liggi fyrir um hvort einstakir hlutdeildarskírteinishafar hafi framselt meintar kröfur sínar á hendur varnaraðila til sóknaraðila. Beri þegar af þeirri ástæðu að hafna öllum kröfum sóknaraðila á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Í öðru lagi er kröfu sóknaraðila og fjárhæð hennar sérstaklega mótmælt sem vanreifaðri og telur varnaraðili að hafna beri öllum kröfum sóknaraðila af þeirri ástæðu. Sóknaraðili virðist byggja fjárhæð kröfunnar á framlögðum útreikningi sem sé óundirritaður, ódagsettur og án allra forsendna. Sé slitastjórn varnaraðila ómögulegt með öllu að staðreyna réttmæti fjárhæðarinnar og þar með þá útreikninga sem sóknaraðili byggi kröfu sína á en varnaraðili vekur athygli á að höfuðstólsfjárhæð hinnar umþrættu kröfu sóknaraðila hafi lækkað um 6.701.534.574 krónur frá því henni var upphaflega lýst. Þá vísar varnaraðili til upphaflegra sjónarmiða sinna fyrir höfnun kröfunnar og ítrekaðra ágreiningsfunda málsaðila þar sem sóknaraðila hafi gefist kostur á að skýra kröfu sína og leggja fram frekari gögn án þess að hann hafi nýtt þau tækifæri. Eins og málið liggi fyrir sé þannig erfitt ef ekki ógerningur fyrir varnaraðila að taka til varna í málinu svo að með góðu móti geti talist, svo og fyrir dómara að dæma um réttmæti kröfunnar. Beri þegar af þeirri ástæðu að hafna öllum kröfum sóknaraðila.
Í þriðja lagi hafnar varnaraðili því að sýnt hafi verið fram á samþykki skilanefndar varnaraðila við þeim greiðslum sem sóknaraðili innti af hendi vegna framangreindra mála eða að samkomulag hafi komist á milli aðila á grundvelli þess sem greinir í tölvupósti ritara skilanefndar 13. október 2008. Þá er því alfarið mótmælt að tilgreindur tölvupóstur feli í sér bókun um það sem fram fór á fundi skilanefndar 13. október 2008 og vísar varnaraðili því til stuðnings til bókunar í fundargerð skilanefndar varnaraðila sem áður er gerð grein fyrir. Samkvæmt bókuninni hafi innri endurskoðun sóknaraðila verið falið að staðfesta að meint mistök hefðu átt sér stað við innlausnir tilgreindra hlutdeildarskírteinishafa í sjóðum Landsvaka hf. en engar frekari ákvarðanir um framhald málanna hafi verið teknar á fundinum, þ.e. hvorki um greiðslur varnaraðila né um gerð samkomulags við sóknaraðila vegna uppgjörs hinna meintu mistakamála. Í öðrum gögnum, svo sem fundargerðum skilanefndar sem varnaraðili hafi lagt fram, komi heldur ekkert fram sem styðji fullyrðingar sóknaraðila um samkomulag málsaðila þessa efnis. Tillögur sóknaraðila um uppgjör vegna hinna svokölluðu mistakamála hafi þannig hvorki 13. október 2008 né síðar verið samþykktar af hálfu skilanefndar varnaraðila.
Varnaraðili bendir á að af minnisblaði sem starfsmaður sóknaraðila tók saman þann 16. október 2008, og ber yfirskriftina „Bótaskylda vegna mistaka við framkvæmd viðskiptafyrirmæla, megi ráða að ekkert samkomulag hafi verið komið á milli aðila þann dag, en þar segir eftirfarandi: „Af ákvörðun FME um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. verður ekki ráðið hvort bótaskylda vegna þessara mistaka færist yfir á Nýja Landsbanka Íslands hf. Með hliðsjón af samfellu í viðskiptasambandi við þessa viðskiptavini verður að telja eðlilegt að Nýi Landsbanki Íslands hf. taki við bótaskyldunni, auk þess sem hafa verður í huga að bótaskylda starfsmanna og yfirmanna kann að verða virk ef bætur nást ekki á grundvelli húsbóndaábyrgðar.“ Varnaraðili vísar einnig til þess að starfsmaður sóknaraðila hafi sent starfsmanni skilanefndar varnaraðila tölvupóst 30. október 2008, sem hafi borið yfirskriftina „Mistakamálin“, þar sem fram komi að búið sé að undirbúa allt til að keyra leiðréttingar í gegn en að það vanti endanlegt samþykki skilanefndar. Stefán H. Stefánsson, þáverandi starfsmaður sóknaraðila og stjórnarformaður Landsvaka hf., hafi fengið sent afrit af tölvupóstinum. Ekkert samþykki varðandi keyrslu tilgreindra leiðréttinga hafi borist frá varnaraðila.
Varnaraðili vísar jafnframt til þess að áframhaldandi samskipti hafi verið á milli starfsmanna sóknaraðila og skilanefndar Landsbanka Íslands hf. í nóvember 2008. Þannig sé að finna samskipti 13. nóvember 2008 þar sem starfsmenn sóknaraðila velta vöngum yfir því hvort skilanefnd varnaraðila sé hætt afskiptum af hinum meintu mistakamálum og af þessu verði ráðið að engin formleg afstaða hafi verið tekin til þessara mála. Þannig segir eftirfarandi: „Ef nýi bankinn ákveður að borga mistökin, þá verður það nýi bankinn sem ákveður útgreiðslu. Ef nýi bankinn ákveður að borga ekki mistökin, þá eiga viðskiptavinir bara kröfu á gamla bankann. Nýi bankinn hefur enn ekki tekið afstöðu til útgreiðslu.“
Þá vísar varnaraðili til þess að frekari samskipti á milli starfsmanna aðila 29. janúar 2009 sýni að starfsmenn hafi velkst í vafa um það hvort fyrir lægi staðfesting á því frá skilanefnd „að heildarfjárhæðin sem verður greidd út fari sem „afsláttur“ upp í skuldabréfið“. Í viðhengi hafi verið að finna minnisblað 21. janúar 2009 sem starfsmenn sóknaraðila hafi tekið saman fyrir bankastjóra sóknaraðila, en þar hafi komið fram sömu tillögur um uppgjör á milli aðila vegna mistakamálanna og fram komu í framangreindu minnisblaði 7. janúar 2009. Af minnisblaðinu megi ráða að sóknaraðili hafi ákveðið að greiða kröfur viðskiptamanna vegna eigin hagsmuna og án skuldbindinga frá varnaraðila.
Verði talið að samkomulag hafi komist á milli aðila vegna greiðslna sem sóknaraðili innti af hendi til eigin viðskiptavina í október 2008 vegna hinna svokölluðu mistakamála byggir varnaraðili á því að á grundvelli framangreindra samskipta megi ráða að sóknaraðili hafi talið þörf á samþykki skilanefndar varnaraðila vegna síðari greiðslna sem sóknaraðili innti af hendi til tilgreindra aðila. Byggir varnaraðili á því að ekki hafi komið til slíks frekara samþykkis af hálfu varnaraðila, þ.e. hvorki af hálfu skilanefndar né af hálfu aðstoðarmanns í greiðslustöðvun. Vísar varnaraðili sérstaklega til þess að 5. desember 2008 hafi varnaraðili fengið heimild til sérstakrar greiðslustöðvunar í samræmi við ákvæði laga nr. 129/2008 með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Eftir þann tíma hafi því þurft atbeina og samþykki aðstoðarmanns bankans í greiðslustöðvun hafi greiðslur sóknaraðila til þriðju aðila átt að leggja greiðsluskyldu á herðar varnaraðila gagnvart sóknaraðila. Byggir varnaraðili á að ekkert slíkt samþykki aðstoðarmanns í greiðslustöðvun liggi fyrir. Beri því að hafna öllum kröfum sóknaraðila enda komi fram í málatilbúnaði sóknaraðila að ætlað uppgjör á milli aðila hafi þegar farið fram vegna kostnaðar sem hlotist hafði við uppgjör við viðskiptamenn sem fram fór í október 2008.Varnaraðili áréttar að hafi sóknaraðili haldið áfram að afgreiða málin með þeim hætti sem hann heldur fram í málatilbúnaði sínum, þ.e. eftir 5. desember 2008 og síðar eftir 29. apríl 2009, hafi sóknaraðili gert það á eigin ábyrgð og áhættu og á eigin kostnað.
Enn fremur mótmælir varnaraðili þeirri staðhæfingu sóknaraðila, sem rangri og ósannaðri, að eftir að kröfulýsingarfresti við slit varnaraðila lauk, þ.e. þann 30. október 2009, hafi farið fram uppgjör milli sóknaraðila og varnaraðila vegna þess kostnaðar sem hlotist hafði við uppgjör sóknaraðila við viðskiptavini í október 2008. Vísar varnaraðili til þess að ekki hafi verið tekið tillit til framangreinds kostnaðar í fjárhagslegu uppgjöri milli sóknaraðila og varnaraðila í desember 2009. Gögn hafi ekki verið lögð fram af hálfu sóknaraðila til staðfestingar á því að tekið hafi verið tillit til kostnaðarins og mótmælir varnaraðili tilgreindri staðhæfingu alfarið sem rangri og ósannaðri.
Varnaraðili mótmælir því að af aðkomu skilanefndar varnaraðila eða annarra starfsmanna varnaraðila hafi sóknaraðili mátt vænta þess að sú krafa sem er rót þessa máls yrði greidd. Þá vísar varnaraðili til þess að helstu skyldur skilanefndar hafi verið að gæta hagsmuna varnaraðila og kröfuhafa hans en nefndin hafi verið skipuð í skjóli opinbers valds og ætlað samkvæmt heiti sínu að leggja drög að aðgerðum til skuldaskila varnaraðila. Skilanefnd hefði því aldrei samþykkt að bera kostnað vegna þessara mála enda bryti slíkt samþykki freklega í bága við meginreglu gjaldþrotaréttarins um jafnræði kröfuhafa við þá sameiginlegu fullnustugerð sem felist í gjaldþrotaskiptum og slitameðferðum fjármálafyrirtækja.
Varnaraðili hafnar því einnig að unnt sé að líta til dóms Hæstaréttar frá 22. mars 2012 í máli réttarins nr. 112/2012 sem fordæmisgefandi vegna þess sakarefnis sem uppi sé í málinu. Kröfurnar, sem talist hefðu almennar kröfur ef þeim hefði verið lýst við slit varnaraðila, hafi stofnast fyrir frestdag og eigi því að teljst almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Telur varnaraðili að þetta sjónarmið fái stuðning í minnisblaði sóknaraðila 21. janúar 2009 þar sem segi eftirfarandi: „Að lokum er rétt að taka fram að við úrlausn þessa álitaefnis standa tveir slæmir [kostir] til boða. Annars vegar að mismuna þeim viðskiptavinum NBI hf. sem talið er að eigi réttmæta bótakröfu vegna mistaka í tíð Landsbanka Íslands hf. Hins vegar er mögulegt að skiptastjóri sem kemur að búi Landsbanka Íslands hf. muni líta svo á að verið sé að mismuna kröfuhöfum Landsbanka Íslands hf. með því að bæta tjón þessara viðskiptavina sem eiga í raun almenna kröfu á Landsbanka Íslands hf.“ Varnaraðili telur þetta einnig styðja þá málsástæðu sína að teljist sóknaraðili eiga kröfu gegn varnaraðila sé aðeins um að ræða almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Til vara krefst varnaraðili þess að dómkröfur sóknaraðila verði stórlega lækkaðar. Vísar varnaraðili til þess að hluti dómkrafna sóknaraðila varði meint mistök vegna viðskipta, þ.e. kaup og sölu, með verðbréf og aðra fjármálagerninga sem séu með öllu ótengd hlutdeildarskírteinum í sjóðum Landsvaka hf. Í sundurliðun á fjárkröfu sóknaraðila komi til að mynda fram að kostnaður sóknaraðila vegna mistakamála tengdum hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. sé að fjárhæð 27.814.346 krónur og hlutabréfum í Straumi-Burðarás Fjárfestingarbanka hf. að fjárhæð 28.799.236 krónur. Ógerningur sé fyrir varnaraðila að fara ofan í hverja og eina færslu á yfirliti sóknaraðila sem sé ómögulegt með öllu að staðreyna réttmæti fjárhæða og þar með þá útreikninga sem sóknaraðili grundvallar kröfu sína á. Gerir varnaraðili því fyrirvara við fjárhæð dómkrafna sóknaraðila að þessu leyti. Að öðru leyti gerir varnaraðili fyrirvara um réttmæti útreikninga á fjárhæð kröfu sóknaraðila. Einkum bendir varnaraðili á að af gögnum málsins megi draga þá ályktun að sóknaraðili leitist við að fá endurgreiddar þær fjárhæðir sem hann greiddi viðskiptamönnum í október 2008.
Varðandi lagarök vísar varnaraðila til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum. Þá vísar varnaraðili til almennra meginreglna samninga- og kröfuréttar.
Niðurstaða
Ekki verður á það fallist með varnaraðila að svo miklir annmarkar séu á kröfulýsingu sóknaraðila 30. október 2009 að hafna beri kröfu hans af þeim sökum. Þá verður ekki talið að þær breytingar til lækkunar sem sóknaraðili hefur gert á fjárhæð kröfu sinnar, svo og skýringar hans og viðbætur um grundvöll kröfunnar eftir að afstaða varnaraðila kom fram, séu ósamrýmanleg 117. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Að þessu virtu telur dómari einnig haldlausar varnir varnaraðila byggðar á aðildarskorti.
A
Í málinu er ágreiningslaust að verðbréfasjóðir sem reknir voru af Landsvaka hf. voru ekki meðal þeirra eigna sem fluttar voru til sóknaraðila með ákvörðun Fjármálaeftirlitisins 9. október 2008. Hins vegar liggur fyrir að sóknaraðili tók þennan dag við innlendri fjármálastarfsemi varnaraðila, þ. á m. við viðskiptasambandi við þorra viðskiptamanna hans. Fram er komið í málinu að starfsmenn sóknaraðila töldu brýnt, þegar frá upphafi hins nýja banka, að bæta það tjón sem viðskiptamenn höfðu orðið fyrir þegar fyrirmæli þeirra um sölu hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóðum voru ekki afgreidd af starfsmönnum varnaraðila föstudaginn 3. október 2008. Jafnframt liggur fyrir að þess var farið á leit við skilanefnd varnaraðila 13. október 2008 að viðskiptamönnum yrði bætt tjón vegna þessara „mistakamála“, eins og þau eru jafnan nefnd í gögnum málsins. Eins og aðstæðum málsaðila var háttað í október 2008 gat slík aðgerð hins vegar ekki farið fram með öðrum hætti en þeim að sóknaraðili innti af hendi greiðslu til umræddra viðskiptamanna og endurkrefði varnaraðila að því loknu um hana með einhverjum hætti.
Óumdeilt er að hinn 13. október 2008 samþykkti skilanefnd varnaraðila að innri endurskoðun sóknaraðila færi yfir umrædd mistakamál samkvæmt tilkynningum viðskiptamanna og kannaði hvort fyrirmælin hefðu borist fyrir kl. 16 3. október 2008. Samkvæmt samþykkt nefndarinnar skyldi innri endurskoðun einnig kanna hvort hinar tilkynntu fjárhæðir væru réttar. Að mati dómsins er ekki ástæða til að draga í efa gögn sóknaraðila sem sýna að í framhaldi af þessari ákvörðun hafi hann greitt tilteknum viðskiptamönnum fjárhæðir sem svöruðu til innlausnarverðs hlutdeildarskírteina þeirra í verðbréfasjóðum 3. október 2008.
Vitnið Þórður Jónsson, sem gegndi starfi sérfræðings í fjárhagsdeild sóknaraðila eftir stofnun hans, hefur borið fyrir dóminum að þær fjárhæðir sem greiddar voru viðskiptavinum á framangreindum grundvelli í október 2008 hafi verið skuldfærðar beint á reikning varnaraðila, en reikningshald varnaraðila mun á þessum tíma enn hafa verið í umsjón starfsmanna sóknaraðila. Jafnframt voru fjárhæðirnar færðar til eignar í reikningshaldi sóknaraðila með það fyrir augum að þessar fjárhæðir kæmu til frádráttar greiðslu sóknaraðila til varnaraðila við endanlegt uppgjör málsaðila sem fram fór í árslok 2009. Með vísan til skýrslu vitnisins, sem dómurinn telur trúverðuga, er nægilega fram komið að við lokauppgjör málsaðila í árslok 2009 hafi umræddar greiðslur sóknaraðila komið til frádráttar þeirri greiðslu sem hann innti af hendi til slitabús varnaraðila í formi skuldabréfs. Samkvæmt þessu gengur dómurinn út frá því að kostnaður vegna þeirra mistakamála sem fyrir lágu í október 2008, og sóknaraðili tók að sér að fara yfir og greiða til viðskiptamanna, hafi í raun verið borinn af varnaraðila.
Að þessu virtu, svo og með hliðsjón af atvikum málsins í heild, telur dómurinn að skilanefnd varnaraðila hafi mátt vera fullkunnugt um umræddar greiðslur sóknaraðila til viðskiptamanna vegna svonefndra mistakamála í október 2008 og þá einnig að þessum greiðslum væri ætlað að koma til lækkunar á greiðslu sóknaraðila við fyrirhugað lokauppgjör aðila. Er þá sömuleiðis litið til þess að varnaraðili hefur engin gögn lagt fram um að hann hafi á nokkru stigi málsins mótmælt því að tekið yrði tillit til þessara greiðslna við það uppgjör málsaðila sem áður greinir eða lagt fram önnur gögn um nánari atriði þess uppgjörs sem stutt gætu þær fullyrðingar hans um þetta efni sem frá er greint í umfjöllun um málsástæður og lagarök varnaraðila hér að framan.
B
Af atvikum málsins er ljóst að af hálfu sóknaraðila var eftir október 2008 haldið áfram að greiða viðskiptamönnum greiðslur sem svöruðu til þess tjóns sem þeir höfðu orðið fyrir vegna umræddra mistaka, en líkt og áður greinir eru það einungis þessar greiðslur sem aðilar deila um í máli þessu. Þannig liggur fyrir að umræddum greiðslum sóknaraðila var haldið áfram eftir að sjóðum á vegum Landsvaka hf. hafði verið slitið, þeir gerðir upp og andvirðinu skipt á milli handhafa hlutdeildarskírteina. Miðuðust greiðslur sóknaraðila þá við að bæta þann mismun sem var á þessum greiðslum og gengi hlutdeildarskírteina í sjóðum 3. október 2008. Fram er komið í málinu að á þessum tíma höfðu starfsmenn sóknaraðila ekki lengur umsjón með reikningshaldi varnaraðila og var því ekki lengur um það að ræða að starfsmenn sóknaraðila færðu fjárhæðirnar milliliðalaust varnaraðila til skuldar í bókum hans.
Gögn málsins bera með sér að eftir því sem fram leið á árið 2008 og fyrstu mánuði 2009 hafi starfsmenn sóknaraðila, við fleiri tækifæri, óskað eftir formlegri staðfestingu á þeirri afstöðu varnaraðila frá október 2008 sem áður greinir. Yfirlýsing þess efnis var hins vegar ekki gefin af hálfu varnaraðila. Þótt ýmis gögn málsins, einkum breytingar sem gerðar voru á fundargerð skilanefndar 13. október 2008, beri með sér að breytingar kunni að hafa orðið á huglægri afstöðu skilanefndarmanna til málsins, verður ekki fram hjá því litið að af hálfu varnaraðila var aldrei brugðist við málaumleitan sóknaraðila með því að tilkynna honum um að horfið hefði verið frá þeirri afstöðu sem mótuð hafði verið í október 2008 og að sóknaraðili bæri nú einn kostnað af því að bæta fyrir umrædd mistök. Því síður voru tekin af tvímæli um að umræddum kröfum viðskiptamanna sóknaraðila bæri nú að beina milliliðalaust til varnaraðila og einhliða greiðslur af hálfu sóknaraðila væru þannig heimildarlausar og alfarið á ábyrgð hans.
C
Eins og áður greinir telur dómurinn að leggja beri til grundvallar að fyrir hafi legið fullnægjandi samþykki skilanefndar varnaraðila við því að varnaraðili bæri endanlegan kostnað af þeim greiðslum sem sóknaraðili innti af hendi til viðskiptamanna í október 2008 vegna svonefndra mistakamála. Við mat á því hvort skilanefnd skuldbatt sig til að greiða einnig þann kostnað sem hlaust af frekari greiðslum sóknaraðila til umræddra viðskiptamanna, þ.e. greiðslum eftir október 2008, er óhjákvæmilegt að líta til þess að samskipti málsaðila fyrstu mánuðina eftir uppskiptingu Landsbanka Íslands hf., eins og varnaraðili nefndist þá,9. október 2008 einkenndust af gagnkvæmum hagsmunum aðila af því að yfirtaka sóknaraðila á innlendri fjármálastarfsemi bankans heppnaðist og honum tækist að reka þessa starfsemi með sem eðlilegustum hætti. Er það álit dómsins að með hliðsjón af þessu viðvarandi og óvenju nána sambandi málsaðila hafi skylda þeirra til að taka tillit til hagsmuna hvors annars við framkvæmd gagnkvæmra samninga sín á milli verið sérstaklega rík.
Við mat á sambandi málsaðila verður einnig að horfa til þess að mistök starfsmanna varnaraðila 3. október 2008 voru ekki á ábyrgð sóknaraðila og þar af leiðandi var bersýnilega ósanngjarnt að hann bæri einn kostnað af því að bæta fyrir þau, sbr. grunnrök 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986 og 1. gr. laga nr. 14/1995. Að lokum mátti varnaraðila vera ljóst að síðari breytingar á meðferð við afgreiðslu svonefndra mistakamála og mismunun viðskiptamanna samfara því var til þess fallin að skaða viðskiptahagsmuni sóknaraðila og torvelda rekstur hans.
Samkvæmt framangreindu, svo og að teknu tilliti til áðurnefndrar yfirlýsingar skilanefndar 13. október 2008 og þeirrar framkvæmdar við meðferð svonefndra mistakamála sem hún lagði grunninn að, telur dómurinn að brýnt hafi verið skilanefnd varnaraðila að tilkynna sóknaraðila með afdráttarlausum hætti um þá afstöðu sína að varnaraðili samþykkti ekki greiðslur sóknaraðila til viðskiptamanna. Eins og atvikum var háttað gat það ekki haggað þessari skyldu varnaraðila að honum var veitt heimild til greiðslustöðvunar 5. desember 2008 og skipuð slitastjórn 29. apríl 2009. Í ljósi þess að ekki var um neinar afdráttarlausar tilkynningar eða skýra fyrirvara að ræða af hálfu varnaraðila er það álit dómsins að sóknaraðili hafi réttilega mátt ætla að áðurnefnt samkomulag 13. október 2008 hafi gilt áfram um greiðslur til viðskiptamanna vegna þess tjóns sem þeir höfðu orðið fyrir vegna mistaka starfsmanna Landsbanka Íslands hf., eins og varnaraðili nefndist þá, við afgreiðslu viðskiptafyrirmæla um sölu á hlutdeildarskírteinum í sjóðum bankans 3. október 2008.
D
Með vísan til dóms Hæstaréttar 22. mars 2012 í máli nr. 112/2012 verður að leggja til grundvallar að á þeim tíma sem atvik málsins áttu sér stað hafi varnaraðili verið í aðstöðu sem leggja má að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans að því er varðar stofnun krafna og mat á því tímamarki sem við er miðað í 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í ljósi umrædds fordæmis Hæstaréttar þykir ekki varhugavert að leggja áðurgreint samþykki skilanefndar til jafns við samninga skiptastjóra í skilningi umrædds ákvæðis. Er því fullnægt skilyrðum til að viðurkenna kröfu sóknaraðila sem búskröfu samkvæmt fyrrgreindu ákvæði laga nr. 21/1991.
Af hálfu sóknaraðila hafa verið lögð fram yfirlit um greiðslur til einstakra viðskiptamanna þar sem fram koma upplýsingar um fjárhæðir sem greiddar voru til nafngreindra viðskiptamanna. Þá hafa verið lögð fram afrit bréfa til einstakra viðskiptamanna þar sem tilgreind er sú fjárhæð sem sóknaraðili innti af hendi auk þess sjóðs sem um var að ræða. Einnig liggur fyrir í málinu skjal, sem sóknaraðili hefur lagt fram að áskorun varnaraðila, þar sem fram kemur heildarsundurliðun kröfu sóknaraðila eftir þeim sjóðum sem krafan grundvallast á. Af hálfu varnaraðila hefur ekki með neinum hætti verið rökstutt hvaða tilteknu atriði þessara gagna hann telur röng eða ófullnægjandi. Að þessu virtu, og með tilliti til þess hvernig samningssambandi aðila var háttað, þykja þessi gögn renna nægilegum stoðum undir grundvöll og fjárhæð kröfu sóknaraðila. Er því ekki unnt að fallast á kröfu varnaraðila um lækkun aðalkröfu sóknaraðila sem verður samkvæmt þessu að fullu tekin til greina.
Eftir úrslitum málsins verður varnaraðili úrskurðaður til að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn, að teknu tilliti til umfangs og eðlis málsins, tvær milljónir króna og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Það athugast að greinargerð varnaraðila er úr hófi löng og felur í sér ítrekaðar endurtekningar. Er þetta í andstöðu við fyrirmæli 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem hér eiga við og mæla fyrir um að málsástæður og lagarök í greinargerð séu sett fram á gagnorðan og skýran hátt þannig að samhengi þeirra sé ljóst.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Hannes J. Hafstein hdl.
Af hálfu varnaraðila flutti málið Sölvi Davíðsson hdl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður úrskurðinn upp.
ÚRSKURÐARORÐ:
Krafa sóknaraðila, Landsbankans hf., að fjárhæð 435.335.587 krónur, skal njóta stöðu búskröfu samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit varnaraðila, LBI hf.
Varnaraðili greiði sóknaraðila tvær milljónir króna í málskostnað.