Hæstiréttur íslands

Mál nr. 19/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                     

Miðvikudaginn 21. janúar 2015.

Nr. 19/2015.

Ákæruvaldið

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

Y og

Z

(Ólafur Björnsson hrl.)

Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur.

LH höfðaði mál fyrir héraðsdómi Suðurlands gegn X, Y og Z fyrir áfengis, lyfja- og tollalagabrot. Í úrskurði héraðsdóms var ákærunni vísað frá dómi þar sem LH hefði brostið heimild til þess að höfða málið í öðru umdæmi án þess að hafa fengið fyrirmæli þar um frá R, sbr. 2. og 4. mgr. 24. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með setningu laga nr. 88/2008 hefði ekki verið breytt því fyrirkomulagi eldri laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að lögreglustjóri höfði einvörðungu mál fyrir þeim héraðsdómi sem ætti lögsögu í umdæmi lögreglustjórans. Var varnarþingsreglum VI. kafla laga nr. 88/2008 leiddi að málið bar að höfða í öðru umdæmi, en það hefði hann gert án þess að R hefði tekið ákvörðun þar um. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. desember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. janúar 2015. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 15. desember 2014 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í t. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var lögreglustjórum veitt ákæruvald vegna þeirra brota sem talin voru í 1. mgr. 28. gr. laganna. Í 3. mgr. sömu greinar sagði síðan að lögreglustjóri vísaði máli til ákvörðunar ríkissaksóknara meðal annars ef hann teldi að mál ætti að höfða í öðru umdæmi. Í athugasemdum við þetta ákvæði í frumvarpi til laganna sagði að lögreglustjóri skyldi einungis höfða mál fyrir þeim héraðsdómi sem ætti lögsögu í umdæmi lögreglustjórans. Teldi hann að mál ætti fremur að höfða í öðru umdæmi bæri honum að vísa því til ákvörðunar ríkissaksóknara. Með 4. gr. laga nr. 84/1996 voru gerðar breytingar á reglum um ákæruvald lögreglustjóra án þess þó að haggað væri við því ákvæði að lögreglustjóri vísaði máli til ákvörðunar ríkissaksóknara ef hann teldi að mál ætti að höfða í öðru umdæmi.

Lög nr. 19/1991 voru leyst að hólmi með lögum nr. 88/2008. Af 1. mgr. 24. gr. laganna leiðir að lögreglustjóri höfðar önnur sakamál en þau sem ríkissaksóknari höfðar eftir nánar tilgreindum ákvæðum laganna. Þá segir í 2. mgr. sömu greinar að lögreglustjóri geti borið undir héraðssaksóknara álitaefni varðandi saksókn eða málsmeðferð að öðru leyti, svo sem ef hann telur að mál eigi að höfða í öðru umdæmi. Einnig er tekið fram í 4. mgr. greinarinnar að lögreglustjóri sem stýrt hefur rannsókn brots höfði sakamál vegna þess nema ríkissaksóknari eða héraðssaksóknari höfði mál eða annað leiði af reglum um varnarþing samkvæmt VI. kafla laganna. Í því tilviki tekur héraðssaksóknari ákvörðun um hvaða lögreglustjóri skuli höfða mál eða hvort hann geri það sjálfur. Embætti héraðssaksóknara hefur enn ekki verið komið á fót og gegnir ríkissaksóknari því hlutverki sem héraðssaksóknara er ætlað samkvæmt 2. og 4. mgr. 24. gr. laganna, sbr. 6. mgr. VII. ákvæðis til bráðabirgða með lögunum.

Með 2. og 4. mgr. 24. gr. laga nr. 88/2008 var ekki breytt því fyrirkomulagi eldri laga að lögreglustjóri höfðar aðeins mál fyrir þeim héraðsdómi sem á lögsögu í umdæmi lögreglustjórans. Af varnarþingsreglum VI. kafla laganna leiddi að mál þetta bar að höfða í öðru umdæmi en lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, en það gerði hann án þess að ríkissaksóknari hefði tekið ákvörðun þar um í samræmi við síðari málslið 4. mgr. 24. sömu laga. Til þess brast hann heimild og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjenda varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda varnaraðilans X, og Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda varnaraðilanna Z og Y,  186.000 krónur til hvors um sig. 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 15. desember 2014.

                Mál þetta er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu dagsettri 21. desember 2013 á hendur ákærðu, X, kt. [...], til heimilis að [...], Y, kt. [...], til heimilis að [...] og Z, kt. [...], til heimilis að [...].

„fyrir eftirgreind áfengis-, lyfja og tolllagabrota framin sunnudaginn 1. júlí 2012:

I.

                Gegn ákærðu X, Y og Z fyrir ólögmætan innflutning lyfja, áfengis og tóbaks, með því að hafa með komu [...]skipsins A, sem ákærðu Z og Y eru skipverjar á, til [...], sunnudaginn 1. júlí 2012, smyglað hingað til lands samtals 12 lítrum af léttvíni, 24 lítrum af sterku áfengi, 3 kartonum af Winston blue sígarettum, 200 stungulyfjaglös (svo) af vefaukandi sterum (samtals 740 mg) og 10.158 töflum er innihalda lyfið octopamine, án þess að gera tollgæslunni grein fyrir varningnum. Ákærðu Z og Y stóðu saman að skipulagningu innflutningsins. Ákærði Z greiddi fyrir varninginn og fékk hann afhentan erlendis, kom honum fyrir í skipinu og gekk frá honum í þar til gerða brúsa. Þegar skipið nálgaðist [...] kastaði ákærði Z varningnum af skipinu með aðstoð nafngreinds skipverja. Ákærði Y og meðákærði X sigldu með trillunni [...] út á haf og tóku brúsana úr sjónum. Ákærðu Y og X voru handteknir er þeir gengu af bryggju að landi í [...] með hluta af ofangreindum varningi. Ákærði Z var handtekinn við komu A í [...] í Reykjavík síðar sama dag. 

Telst brot ákærðu varða við 1. mgr. og 4. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 170. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 6. og 12. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi, 5. mgr., sbr. 1. og 2. mgr. 51. gr., sbr. 1. mgr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30/1963, 7. gr., sbr. 48. gr. lyfjalaga nr. 93/1994 og 1. gr. og 2. gr., sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 212/1998 um innflutning einstaklinga á lyfjum til eigin nota, allt sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að því er varðar ákærða X.

II.

                Gegn ákærða X fyrir brot gegn tollalögum, með því að hafa að [...] í [...], haft í vörslum sínum 68 stykki af vefaukandi sterum, 23 stykki af Kamagra töflum og 10 stykki af munntóbaki, sem ákærði vissi eða mátti vita að hefðu verið ólöglega flutt til landsins, sem fannst við leit á heimili X.

                Telst brot þetta varða við 1. mgr. 171. gr., sbr. 169. gr. tollalaga nr. 88/2005.

III.

                Gegn ákærða Y fyrir brot gegn tollalögum, með því að hafa í bifreiðinni [...] haft í vörslum sínum 424 stykki af Kamagra og 142 stykki af Kamagra Oral jelly (samtals 710 mg), sem ákærði vissi eða mátti vita að hefðu verið ólöglega flutt inn til landsins, sem lögreglumenn fundu við leit í bifreiðinni.

                Telst brot þetta varða við 1. mgr. 171. gr., sbr. 169. gr. tollalaga nr. 88/2005.

                Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu sakarkostnaðar. Krafist er upptöku á samtals 12 lítrum af léttvíni, 24 lítrum af sterku áfengi, 3 kartonum af Winston Blue sígarettum, 200 stungulyfjaglös (svo) (samtals 740 mg) af vefaukandi sterum, 10.158 töflum er innihalda lyfið octopamine, 424 stykkjum af Kamagra, 142 stykki (svo) af Kamagra Ora jelly (samtals 710 mg), 68 stykki (svo) af vefaukandi sterum, 23 stykki (svo) af Kamagra og 10 stykkjum af munntóbaki, með vísan til 3. mgr. 48. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, 1. mgr. 181. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 3. mgr. 28. gr. áfengislaga nr. 75/1998.“

                Mál þetta var þingfest þann 13. febrúar sl. og mætti ákærði X þá fyrir dóminn ásamt Páleyju Borgþórsdóttur hdl., sem skipuð var verjandi hans. Aðrir ákærðu mættu ekki í dóminn við það tækifæri. Þann 11. mars sl. mætti ákærði Z í dóminn ásamt Ólafi Björnssyni hrl., sem skipaður var verjandi hans og viðurkenndi ákærði að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök. Var málinu frestað til 20. mars sl. til flutnings um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga, en ekki varð af þinghaldi þann dag. Ekki hefur enn tekist að birta fyrirkall fyrir ákærða Y. Með tölvupósti frá 6. júní sl. og bréfi dagsettu 11. júní sl. gerðu verjendur þeirra X og Z þá kröfu að máli þessu yrði vísað frá dómi á þeim grundvelli að lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hefði verið óheimilt að höfða mál þetta á hendur ákærðu fyrir Héraðsdómi Suðurlands. Málflutningur um frávísunarkröfurnar fór fram þann 20. nóvember sl.

                Frávísunarkrafa verjendanna er á því byggð að lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki verið heimilt að höfða sakamál á hendur ákærðu fyrir Héraðsdómi Suðurlands þar sem það sé í andstöðu við ákvæði lögreglulaga nr. 90/1996, einkum 1. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 7. gr. laganna, sbr. einnig 5. gr. reglugerðar nr. 66/2007 um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna og lögregluumdæmi lögreglustjóra. Hafi einungis verið heimilt að höfða málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur eða framsenda það til lögreglustjórans í Vestmannaeyjum, ef höfða átti málið fyrir Héraðsdómi Suðurlands. Telja verjendurnir að þessi annmarki leiði til þess að vísa beri málinu frá dómi með vísan til 2. mgr. 159. gr., sbr. 4. mgr. 24. gr. og 50. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

                Af hálfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er á því byggt að gætt hafi verið meðalhófs með því að höfða málið fyrir Héraðsdómi Suðurlands, en mikið óhagræði hefði hlotist af því að höfða málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Þá sé ekkert í lögum sem banni lögreglustjóranum að höfða málið fyrir Héraðsdómi Suðurlands. Þá bendir sækjandi á að tveir ákærðu hafi sótt þing og hafi annar þeirra tekið afstöðu til sakarefnisins.

Niðurstaða.        

                Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er landinu skipt í 15 lögregluumdæmi. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fer með lögreglustjórn á svæði sem nær yfir Reykjavíkurborg, Seltjarnarneskaupstað, Mosfellsbæ, Kjósarhrepp, Kópavog, Garðabæ, Hafnarfjörð og Sveitarfélagið Álftanes. Sýslumenn með aðsetur í Vestmanneyjum og á Selfossi fara með lögreglustjórn á þeim stöðum. Þessari lagagrein hefur verið breytt með lögum nr. 51/2014, 3. gr., en þau öðlast gildi 1. janúar 2015. Eftir þá lagabreytingu verða lögregluumdæmin níu og munu lögreglustjórar með aðsetur í Vestmannaeyjum og á Selfossi fara með lögreglustjórn á þeim stöðum. Þessi lagabreyting hefur ekki áhrif á það álitaefni sem hér er til úrlausnar.

                Samkvæmt 24. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála höfða lögreglustjórar önnur sakamál en þau sem ríkissaksóknari eða héraðssaksóknari höfðar skv. 2. mgr. 21. gr. og 1. og 2. mgr. 23. gr., sbr. þó 3. mgr. þeirrar greinar. Í 2. mgr. 24. gr. sömu laga segir að lögreglustjóri geti borið undir héraðssaksóknara (í reynd ríkissaksóknara) álitaefni varðandi saksókn eða málsmeðferð að öðru leyti, svo sem ef hann telur að mál eigi að höfða í öðru umdæmi, hann telur sig vanhæfan eða mál er vandasamt úrlausnar. Þá segir í 4. mgr. sömu lagagreinar að lögreglustjóri sem stýrt hafi rannsókn brots höfði sakamál vegna þess nema ríkissaksóknari eða héraðssaksóknari höfði mál eða annað leiði af reglum um varnarþing skv. VI. kafla. Í því tilviki tekur héraðssaksóknari ákvörðun um hvaða lögreglustjóri skuli höfða mál eða hvort hann geri það sjálfur.

                Samkvæmt framansögðu verður að telja að meginreglan sé sú að lögreglustjórar höfði mál í sínu umdæmi og sé þeim einungis heimilt að höfða mál í öðrum umdæmum hafi þeir fengið um það fyrirmæli frá héraðssaksóknara eða ríkissaksóknara. Slík fyrirmæli liggja ekki fyrir í þessu máli og var lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu því óheimilt að höfða mál þetta fyrir Héraðsdómi Suðurlands. Ber því að vísa ákærunni frá dómi, sbr. 159. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

                Eftir þessum úrslitum verður allur kostnaður sakarinnar lagður á ríkissjóð, þar með talin þóknun skipaðra verjenda ákærðu, Páleyjar Borgþórsdóttur hdl., og Ólafs Björnssonar hrl., 700.000 krónur til hvors um sig að meðtöldum virðisaukaskatti.

 Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

                Ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu dagsettri 21. desember 2013 á hendur X, Y og Z, er vísað frá dómi.

                Allur kostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðra verjenda ákærðu, Páleyjar Borgþórsdóttur hdl., og Ólafs Björnssonar hrl., 700.000 krónur til hvors um sig að meðtöldum virðisaukaskatti.