Hæstiréttur íslands
Mál nr. 191/2000
Lykilorð
- Líkamsárás
- Brot gegn valdstjórninni
- Tilraun
- Manndráp
|
|
Fimmtudaginn 21. september 2000. |
|
Nr. 191/2000. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Ragnari Davíð Bjarnasyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Líkamsárás. Brot gegn valdstjórninni. Tilraun til manndráps.
R var ákærður fyrir líkamsárás, brot gegn valdstjórninni og tilraun til manndráps. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og refsingu ákærða. Af hálfu ákærða var skírskotað til refsilækkunarheimilda 4. tl. 1. mgr. 74. og 75. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 vegna brots gegn 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Ekki var á það fallist að ákærði hefði orðið fyrir árás eða áreitni sem gefið hafi tilefni til slíkrar geðæsingar að skýrt geti það athæfi hans að grípa til hnífs og beita honum. Beiting framangreindra refsilækkunarheimilda var því ekki talin koma til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.
Málinu var áfrýjað með stefnu 8. maí 2000 að ósk ákærða, sem krefst sýknu af lið II í ákæru, en mildunar refsingar að öðru leyti.
Ákæruvaldið krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða og jafnframt þyngingar á refsingu.
Skaðabótaþætti málsins hefur ekki verið áfrýjað.
Í II. lið ákæru máls þessa er ákærða gefið að sök að hafa valdið lögreglumanni meiðslum með því að veita honum högg í andlitið með höfði sínu þegar lögreglumaðurinn hugðist handjárna ákærða í framhaldi handtöku hinn 8. júlí 1999. Sprakk efri vör lögreglumannsins og los kom á framtönn í efri gómi. Í héraðsdómi er rakinn framburður ákærða og vitna um þetta atvik. Hefur ákærði haldið því fram að hann hafi óvart rekið höfuðið í andlit lögreglumannsins er lögreglumenn hafi verið að togast á við hann þar sem hann sat inni í lögreglubifreið. Sá, sem fyrir meiðslunum varð, og starfsfélagi hans, er kom honum til aðstoðar, hafa hins vegar báðir lýst því ákveðið að ákærði hafi viljandi skellt höfðinu í andlit hins fyrrnefnda og ítrekað reynt að gera það aftur. Aðrir voru ekki vitni að atviki þessu.
Við handtökuna, sem fram fór af lögmætu tilefni, hafði ákærði sýnt ákafan mótþróa, er leiddi til þess, að rétt þótti að setja hann í handjárn og höfðu þeir lögreglumenn, sem sendir voru á vettvang, séð ástæðu til að kalla eftir liðsauka, áður en það var gert. Héraðsdómari mat skýringu ákærða um að hann hafi óvart rekið höfuðið í andlit lögreglumannsins ótrúverðuga og sakfelldi hann á grundvelli vættis lögreglumannanna. Þykja ekki efni til þess að hnekkja því mati og verður niðurstaða héraðsdóms um þennan lið ákæru staðfest.
Til stuðnings kröfu um mildun refsingar hefur af hálfu ákærða einkum verið skírskotað til refsilækkunarheimilda 4. tl. 1. mgr. 74. gr. og 75. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 vegna atferlis þess, sem tilgreint er í III. lið ákæru og hann var sakfelldur fyrir í héraðsdómi. Var hann talinn sannur að sök um brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga með því að hafa stungið Andra Gíslason með stórum veiðihnífi tveimur stungum aðfaranótt 3. nóvember 1999, eins og nánar er lýst í héraðsdómi.
Í héraðsdómi er rakinn framburður ákærða og vitna um þennan atburð. Af honum verður ráðið að til orðahnippinga og einhverra ýtinga eða pústra hafi komið milli ákærða annars vegar og hins vegar Andra Gíslasonar og manns, sem með honum var. Telur ákærði að sér hafi stafað ógn af Andra. Ekki hefur þó komið fram, að ákærði hafi orðið fyrir árás eða áreitni, sem gefið hafi tilefni til slíkrar geðæsingar að skýrt geti það athæfi hans að grípa til hnífs og stinga Andra. Verður ekki á það fallist að ofangreindum ákvæðum hegningarlaga verði beitt til lækkunar á refsingu ákærða.
Að þessu athuguðu, en að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms, verður ákvörðun hans um refsingu ákærða staðfest. Frá refsingunni ber að draga með fullri dagatölu gæsluvarðhaldsvist hans frá 3. nóvember 1999 til 31. mars 2000 og frá 5. júní 2000 til þessa dags.
Staðfest er ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað. Jafnframt verður ákærði dæmdur til greiðslu áfrýjunarkostnaðar eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Ragnar Davíð Bjarnason, sæti fangelsi í 3 ár og 6 mánuði. Frá refsingunni skal draga með fullri dagatölu gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 3. nóvember 1999 til 31. mars 2000 og frá 5. júní 2000 til uppkvaðningar dóms þessa.
Staðfest er ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2000.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 20. janúar sl. á hendur ákærða, Ragnari Davíð Bjarnasyni, kt. 151182-5429, Meðalholti 4, Reykjavík "fyrir eftirgreind hegningarlagabrot framin í Reykjavík árið 1999:
I
Fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 4. apríl, við veitingastaðinn Dubliners í Hafnarstræti, slegið Þorbjörn Unnar Oddsson, kennitala 011272-2909, í höfuðið svo hann féll í götuna og sló ákærði hann nokkur högg í höfuðið þar sem hann lá á götunni. Við höggin hlaut Þorbjörn Unnar skurð á augabrún sem sauma þurfti saman.
Telst þetta varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr., 10. gr. laga nr. 20, 1981.
II
Fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa, fimmtudaginn 8. júlí, í lögreglubifreið við Rauðalæk 49, veitt lögreglumanninum Sveini Benedikt Rögnvaldssyni högg í andlitið með höfði sínu, er hann hugðist handjárna ákærða sem þá var handtekinn. Við höggið sprakk efri vör Sveins Benedikts og los kom á hægri framtönn í efri gómi.
Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 101, 1976.
III
Fyrir tilraun til manndráps með því að hafa, aðfaranótt miðvikudagsins 3. nóvember, í sundi við Hafnarstræti 20, stungið Andra Gíslason, kennitala 021078-4849, tveimur hnífsstungum, annarri í vinstri síðu svo af hlaust skurður að rifbeini þar sem hnífslagið stöðvaðist, og lífshættulegri stungu í kviðarhol vinstra megin er gekk inn í vöðvalög magans og upp í gegnum lifrina. Hlaut Andri verulegar innvortis blæðingar sem stöðvaðar voru í skurðaðgerð stuttu seinna en þá reyndust vera 900 millilítrar af blóði og blóðlifrum í kviðarholi hans.
Telst þetta varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Andri Gíslason krefst miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 1.000.000 með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 3. nóvember 1999 til 29. nóvember 1999 og með dráttarvöxtum skv. III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist kostnaðar við lögmannsaðstoð eftir mati dómara eða skv. síðar framlögðum reikningi auk álags er nemi virðisaukaskatti af þóknuninni."
Kafli I
Málavextir
Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar voru lögreglumenn aðfaranótt sunnudagsins 4. apríl 1999, kukkan 3.20, á eftirlitsferð suður Naustin að Hafnarstræti þegar þeir sáu að tveir menn voru að veitast að þeim þriðja. Lögreglumennirnir óku í átt að mönnum þessum og hugðust stöðva átökin en þá sáu þeir að Ragnar Davíð Bjarnason sló Þorbjörn Unnar Oddsson fast högg í höfuðið þannig að Þorbjörn féll í götuna. Ragnar hélt þá áfram að berja Þorbjörn í höfuðið, ein tíu til fimmtán högg með sýnilega miklum krafti, þar sem Þorbjörn lá svo til hreyfingarlaus á gangstéttinni. Þegar Ragnar og félagi hans urðu varir við lögreglumenn tóku þeir til fótanna og hlupu austur Hafnarstrætið. Lögreglumaður hljóp þá á eftir Ragnari og náði honum skömmu síðar við hús Héraðsdóms Reykjavíkur við Lækjartorg. Kölluðu lögreglumennirnir eftir aðstoð og fengu þeir lögreglumenn á bifreið til þess að flytja Ragnar á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Félagi Ragnars komst undan á hlaupum og vildi Ragnar ekki gefa upp hver hann var. Lögreglumenn fluttu Þorbjörn á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur.
Í læknisvottorði Hlyns Þorsteinssonar læknis, dagsettu 28. apríl 1999, segir að Þorbjörn Unnar hafi verið með dálítinn skurð utanvert á vinstri augabrún, u.þ.b. 1 sm langan en ekki mjög djúpan. Augnhreyfingar hafi verið eðlilegar og eðlilegt skyn í andliti svo og eðlilegar vöðvahreyfingar í andliti. Hann hafi verið vakandi og skýr og ekki hafi fundist nein merki sem bentu til áverka á miðtaugakerfi. Nokkur áfengislykt hafi verið úr vitum hans.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í málinu fyrir dómi.
Ákærði hefur sagt að hann muni lítið eftir þessu atviki en hann kveðst þó ekki hafa verið ölvaður. Hann segist hafa verið þarna á gangi með einhverjum strák og hafi þá komið til slagsmála við ókunnan mann sem hafi ætlað að ráðast á þá. Kveðst hann hafa kýlt manninn a.m.k. tvö högg í andlitið en ekki hafi hann slegið hann eftir að hann var fallinn. Við lögregluyfirheyrslu neitaði ákærði því einnig að hafa slegið manninn liggjandi.
Þorbjörn Unnar Oddsson hefur skýrt frá því að hann hafi fengið sér nokkra bjóra á veitingastaðnum Dubliners í Hafnarstræti. Þegar hann fór út af staðnum hafi tveir ungir menn komið að honum og beðið hann um peninga. Hann hafi sagst ekki eiga neina peninga og spurt mennina hvort þeir kæmu af fjöllum og sagt þeim að þeir ættu að leita sér að vinnu. Hann hafi svo reynt að ganga í burtu en mennirnir hafi þá ráðist á hann og slegið hann mörg högg í höfuðið. Hafi hann verið vankaður eftir árásina og misst meðvitund í lögreglubifreið á leiðinni á sjúkrahús.
Ásmundur Kristinn Ásmundsson, aðstoðarvarðstjóri í lögreglunni, hefur sagt að hann hafi séð átök þriggja manna fyrir utan krána Dubliners í Hafnarstræti. Hafi einn þeirra skyndilega slegið annan hinna í götuna og svo slegið hann nokkrum sinnum þar sem hann lá í götunni. Kveðst hann ekki muna til þess að þriðji maðurinn hafi slegið manninn. Hafi lögreglumaður sem var með vitninu í lögreglubílnum elt árásarmanninn og náð að handtaka hann.
Þórbjörn Sigurðsson lögreglumaður hefur sagt að hann hafi séð úr lögreglubílnum að ungur maður sló annan mann mikið högg í höfuðið þannig að hann féll í götuna og lét svo höggin dynja á manninum þar sem hann lá í götunni. Árásarmennirnir hafi síðan hlaupið í burtu er þeir urðu varir við lögreglumennina en Þórbjörn segist hafa elt þann sem veitti höggin og náð honum við Dómhús Reykjavíkur.
Niðurstaða
Ákærði hefur viðurkennt fyrir dómi að hafa slegið Þorbjörn Unnar Oddsson tvisvar sinnum í andlitið. Hann neitar því hins vegar að hafa slegið hann eftir að hann var fallinn í götuna. Þorbjörn Unnar Oddsson hefur staðfastlega borið að ákærði og annar maður hafi ráðist á sig og slegið mörg högg í höfuðið. Frásögn hans er studd vætti lögreglumannanna sem báðir hafa auk þess borið að ákærði hafi haldið áfram að slá hann þar sem hann lá í götunni. Þegar allt þetta er haft í huga telur dómurinn sannað að ákærði hafi veitt Þorbirni Unnari þann áverka sem lýst er í ákæru með því að slá hann í höfuðið svo hann féll á götuna og slá nokkur högg í höfuðið þar sem hann lá. Telst ákærði hafa brotið gegn 217. gr. almennra hegningarlaga.
Kafli II
Málavextir
Samkvæmt skýrslu lögreglunnar í Reykjavík, fimmtudaginn 8. júlí sl., fóru lögreglumenn þann dag að Rauðalæk 49 hér í borg til þess að handtaka ákærða, Ragnar Davíð, og Önnu Stefaníu Kristmundsdóttur sem talin voru geta tengst ráni í versluninni Grill-Vídeó. Þegar þangað kom sáu þeir ákærða á bifreiðastæðinu við húsið og Önnu Stefaníu ganga upp tröppur hússins. Settist ákærði inn í lögreglubílinn til þeirra en Anna Stefanía vildi það ekki. Var hún þá handtekin og ákærða tilkynnt að hann væri það líka en hann rauk út úr bílnum aftur. Kom til átaka út af þessu og var liðsauki kvaddur til aðstoðar lögreglumönnunum. Hlaut einn lögreglumannanna, Sveinn Benedikt Rögnvaldsson, sem var með ákærða í bílnum, áverka á andlit við það að höfuð ákærða skall framan í hann. Ákærði var settur í handjárn. Samkvæmt skýrslu lögreglunnar reyndi íbúi á Rauðalæk 49, náinn frændi ákærða, Tryggvi Snorrason, að hindra störf lögreglunnar. Voru hin handteknu svo flutt á lögreglustöðina við Hverfisgötu.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið um þetta fyrir dómi.
Ákærði neitar því að hafa vísvitandi stangað lögreglumanninn. Hafi áverkinn orðið við það að hann hafi verið að togast á við lögreglumenn inni í lögreglubifreið þegar annar þeirra hafi sleppt honum og hafi þá höfuð hans skollið og lent með hvirfilinn í andlit hins lögreglumannsins. Þetta hafi ekki verið harður skellur og engan áverka að sjá á lögreglumanninum eftir þetta.
Þröstur Egill Kristjánsson lögreglumaður kveðst hafa ásamt öðrum lögreglumanni fært ákærða aftur inn í lögreglubílinn. Þegar færa átti hann í handjárn hafi hann streist á móti og stangað lögreglumann, sem sat inni í lögreglubifreiðinni, í andlitið.
Sveinn Benedikt Rögnvaldsson hefur sagt að þegar ákærði var færður í lögreglubílinn hafi átt að handjárna hann. Ákærði hafi verið æstur en vitnið kveðst hafa beðið hann um að snúa sér við svo unnt væri að handjárna hann en hann neitað. Kveðst hann þá hafa beðið Þröst Egil, félaga sinn, að aðstoða sig við að handjárna ákærða. Hafi Þröstur opnað bílinn til þess að taka ákærða út svo unnt væri að færa hann í járn en sjálfur hafi hann setið vinstra megin við ákærða og haldið í vinstri höndina á honum. Hafi ákærði þá stangað hann svo að sprakk á honum vör og hægri framtönn í efri gómi losnaði. Eftir þetta hafi ákærði margreynt að stanga hann aftur en hann getað haldið ákærða frá sér. Sé útilokað að um slys hafi verið að ræða.
Tryggvi Snorrason, sem fyrr er nefndur, hefur skýrt svo frá að hann hafi sent ákærða út með rusl. Hafi tveir lögreglumenn ráðist á ákærða og leikið hann hart. Hafi þeir legið fimm á ákærða inni í lögreglubílnum. Hann kveðst ekki hafa séð að ákærði stangaði lögreglumann en daginn eftir hafi lögreglumaður sagt við sig í síma að þetta hafi ekki verið neitt, "þetta hafi verið nudd".
Ástríður Helga hefur skýrt frá því að hún hafi orðið vör við átök inni í lögreglubílnum. Hafi ákærði legið í aftursætinu en lögreglumennirnir verið nokkrir á honum. Hún kveðst hafa opnað farþegadyrnar að framan og beðið lögreglumennina að sleppa ákærða. Þeir hafi svo fært ákærða út úr bílnum. Hún segist ekki hafa séð að ákærði stangaði lögreglumanninn.
Niðurstaða
Mikið ber á milli í frásögnum ákærða og lögreglumannanna af atburðinum. Ákærði hefur borið því við að það hafi verið óviljaverk að höfuðið skall framan í Svein Benedikt. Sá síðarnefndi hefur hins vegar eindregið borið að ákærði hafi stangað sig viljandi í andlitið og styðst sú frásögn við vætti Þrastar Egils Kristjánssonar lögreglumanns. Dómarinn telur skýringu ákærða ótrúverðuga og telur sannað með vætti lögreglumannanna að ákærði hafi veitt Sveini Benedikt þann áverka sem lýst er í ákæru með því að stanga hann vísvitandi í andlitið og telst hann hafa brotið gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.
Kafli III
Málavextir
Miðvikudagsnóttina 3. nóvember sl. voru lögreglumenn sendir á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur við Fossvog vegna manns er þangað hafði komið með stungusár eftir eggvopn. Reyndist það vera Andri Gíslason, kt. 021078-4849. Hafði Andri verið látinn gangast undir bráðaaðgerð þar sem hann hefði verið með tvö stungusár. Hafði annað þeirra gengið inn í lifur og valdið mikilli blæðingu. Piltur að nafni Kristján Halldór Jensson gaf sig fram við lögreglu og kvaðst hafa orðið vitni að því að maður sem kallaður væri Raggi sænski hefði stungið Andra við veitingastofuna Nonnabita í Hafnarstræti. Varð þetta til þess að ákærði var handtekinn á Rauðalæk 49. Kannaðist hann við að eiga hlut að þessum áverka á Andra. Lagt var hald á föt Andra Gíslasonar til rannsóknar svo og hníf þann sem ákærði hefur kannast við að hafa verið með og hafi valdið áverkanum. Meðal gagna málsins er vottorð Þorvaldar Jónssonar, læknis á slysadeild, sem gerði að áverka Andra Gíslasonar. Segir þar að við komu á sjúkrahúsið hafi hjartsláttarhraði piltsins verið 100-110 slög á mínútu en reglulegur. Blóðþrýstingur og öndunartíðni hafi verið innan eðlilegra marka og öndunartíðni sömuleiðis. Engir öndunarerfiðleikar hafi heldur verið. Pilturinn hafi verið með tvö stungusár, bæði með hreinlegum, ótættum skurðbörmum og án mars í kring. Hafi sárin verið um 3 sm á lengd, hvort um sig. Annað þeirra hafi verið beint niður af vinstri holhönd yfir níunda rifi en hitt beint niður af miðju vinstra viðbeini 3 sm fyrir ofan nafla og hafi blóð vætlað úr báðum skurðsárunum. Fyrrnefnda sárið hafi reynst vera grunnt og ná inn að rifi en sárið á kviðveggnum að framanverðu hafi náð gegnum kviðvegginn og inn í kviðarhol. Hafi þegar verið gert að þessu sári. Í kviðarholi hafi verið rúmlega 900 ml af fersku blóði og blóðlifrum. Á innanverðum kviðveggnum hafi verið sár um 1 sm ofar en húðsárið og 3 sm nær miðlínu. Á magaveggnum framanverðum hafi verið 3 sm langur skurður niður í vöðvalög magans en þó ekki í gegnum magavegginn allan og óveruleg blæðing úr skurðinum. Beint upp af því sári hafi verið 4 sm langur skurður í vinstra lifrarblaði sem að hluta hafi gengið í gegnum lifrina þannig að á efra borðinu var skurðurinn 2 sm að lengd og blæddi úr lifraráverkanum. Ekki hafi fundist aðrir áverkar á kviðarholslíffærum. Af áverkanum megi sjá að sá sem hann veitti hafi verið rétthendur og að lagið hafi gengið upp á við. Áverkar sem þessir séu í eðli sínu lífshættulegir en þar sem Andri hafi komist fljótt á sjúkrahús til aðgerðar muni endanlegar líkamlegar afleiðingar áverkans að öllum líkindum engar verða. Á það er bent að í sömu stungustefnu og einungis um 3 sm lengra hefði lagið gengið inn í hjarta. Hafi um sama eggvopn verið að ræða sem beitt var á vinstri síðu, hefði það gengið í gegnum vinstra lunga og sennilega inn í hjarta líka hefði ekki rif orðið fyrir. Tekið var blóð til alkóhólrannsóknar úr Andra og reyndist það hafa 0,35 o/oo af vínanda.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið við aðalmeðferð málsins.
Ákærði hefur sagt að hann hafi verið staddur nálægt veitingasölunni Nonnabitum í Hafnarstræti ásamt fleirum, meðal annars Andra Condit og stelpum. Ákærði kveðst ekki hafa verið ölvaður, einungis verið búinn að drekka nokkra sopa af áfengi þarna um kvöldið. Hafi þá Kristján Halldór Jensson, piltur sem ákærði kallar Spesa, og Andri Gíslason komið. Kveður hann þessa menn hafa verið búna að neyta fíkniefna. Kristján Halldór hafi þá byrjað að rífast við ákærða upp úr þurru og viljað slást og tekið upp flösku. Strákarnir hafi verið ógnandi og hafi ákærði verið hræddur um að þeir myndu berja hann. Fyrst hafi Kristján tekið í hálsmálið á ákærða. Hafi Andri Gíslason komið og byrjað að rifja upp gamalt atvik sem átt hafði sér stað milli þeirra tveggja og ýtt honum upp að vegg og kveðst ákærði þá hafa tekið upp hníf og ógnað honum. Andri hafi þá reynt að fella hann en hnífurinn, sem hann hélt á, hafi óvart stungist í Andra við það. Ákærði kveðst hafa orðið hræddur við þetta og í seinni tvö skiptin kveðst hann hafa otað hnífnum að Andra til þess að ógna honum. Kveðst hann ekki hafa orðið var við að hnífurinn styngist þá í Andra. Nokkru eftir þetta hafi hann hlaupið á brott. Í lögregluskýrslu sem tekin var af ákærða síðar um daginn að viðstöddum verjandanum skýrði hann svo frá að í stimpingunum við Andra hefði hann tekið hnífinn úr vinstri buxnavasa sínum og fært hann í hægri hendi sína og stungið Andra með honum í vinstri síðuna. Þessa skýrslu staðfesti ákærði sem efnislega rétta fyrir dómi um kvöldið þegar hann var úrskurðaður í varðhald og var þá verjandinn einnig viðstaddur. Hann hefur gefið þá skýringu á þessu við aðalmeðferðina að skýrslan væri "orðaleikur" og lögreglan hafi lagt honum orð í munn. Þá hafi hann verið í "sjokki" og ósofinn. Ákærði kveðst hafa verið með hnífinn í buxnavasanum en engin sérstök ástæða hafi verið fyrir því að hann var með hann.
Vitnið, Andri Kalman Condit, var yfirheyrður í gegnum síma þar sem hann býr í Svíþjóð. Hann kveðst hafa verið staddur inni á Nonnabitum ásamt ákærða en ákærði hafi síðan farið út. Stuttu síðar hafi hann sjálfur farið út og séð að tveir menn, Kristján Halldór og Andri Gíslason, héldu ákærða uppi við vegg og ógnuðu honum. Kristján hafi verið með flösku í hendinni en Andri Gíslason hótað að drepa hann. Hafi hann ráðist á ákærða sem hafi verið afkróaður. Hafi ákærði þá tekið upp hníf til að verja sig og hafi Andri Gíslason óvart hlaupið á hnífinn. Það hafi þó ekki virst halda aftur af honum og hann haldið áfram að ráðast að ákærða. Ákærði hafi otað hnífnum frá sér til þess að geta komist í burtu en hnífurinn hafi lent tvisvar sinnum til viðbótar í Andra Gíslasyni.
Pétur Axel Pétursson kveðst hafa verið að skemmta sér á Kaffi Thomsen með fleirum. Þegar þau hafi komið út hafi þau séð ákærða og fleira fólk fyrir utan Nonnabita. Kristján Halldór hafi verið að rífast við ákærða og togað í hann en síðan hafi Andri Gíslason komið þarna á milli. Hafi Andri Gíslason haldið í hægri öxl ákærða en Andri Condit hafi staðið á milli og reynt að stía þeim í sundur. Hann kveðst ekki hafa séð að Andri Gíslason hafi reynt að fella ákærða. Það næsta sem hann hafi séð var að hönd sveiflaðist skyndilega í átt að Andra Gíslasyni. Hafi Andri Gíslason lyft upp bolnum sem hann var í og hann þá séð að hann var með stungusár og um leið að ákærði var með hníf. Kristján Halldór hafi þá tekið upp glerflösku og ákærði hlaupið í burtu. Vitnið kveðst ekki hafa veitt því athygli að þessir menn væru ölvaðir eða að þeir hefðu neytt fíkniefna þetta kvöld.
Ragnheiður Sigurðardóttir hefur skýrt frá því að hún hafi verið á Kaffi Thomsen ásamt Pétri Axel Péturssyni, Kristjáni og Andra Gíslasyni. Þegar þau komu út af staðnum hafi þau hitt þar fleira fólk. Hún hafi séð að Kristján Halldór hafi farið að rífast við ákærða en síðan hafi Andri Gíslason komið þar að. Hafi henni virst sem ákærði ýtti við Andra Gíslasyni og þegar hann gekk í burtu hafi hún séð að hann var með hníf í hendi. Hafi hann sagt "ég er með hníf, ég er með hníf". Hún kveðst ekki kannast við að Andri Gíslason væri í fíkniefnaneyslu.
Andri Gíslason hefur gefið skýrslu fyrir dóminum. Hann kveðst hafa verið búinn að drekka tvo bjóra umrætt kvöld. Hafi hann verið að koma út af Kaffi Thomsen ásamt öðru fólki þegar hann sá kunningjakonu sína, Berglindi, hjá Nonnabitum beint á móti Kaffi Thomsen. Hafi vinur hans, Kristján Halldór, verið að tala við Berglindi. Sjálfur hafi hann gengið að Andra Condit, sem hann kannaðist við, en vissi þá ekki fyrr til en Kristján Halldór og ákærði voru farnir að tuskast þar á götunni. Hafi hann heyrt ákærða segja að hann ætlaði ekki "að bakka". Segist hann hafa gengið til þeirra og reynt að ganga á milli þeirra og stilla til friðar, enda hefðu þeir Kristján Halldór verið á leiðinni annað og ekki nennt að standa í svona smámálum. Ákærði hafi verið afskaplega reiður og ekki viljað láta sér segjast og gripið margsinnis í sig en hann sagt við hann að þeir nenntu ekki að standa í þessu. Ákærði hafi gripið í sig með báðum höndum og kveðst hann þá einnig hafa gripið í hann með báðum höndum og sagt við hann "vertu rólegur". Neitar hann því að hafa reynt að fella ákærða og segist hafa verið sallarólegur sjálfur og ekki verið með neinar ógnanir í garð ákærða. Meðan hann hélt í ákærða hafi hann fengið hnífinn í magann en ákærði þá verið búinn að sleppa takinu af honum. Segist hann hafa fundið til nístandi sársauka er hnífurinn stakkst í hann. Hann hafi hrökklast undan laginu en ákærði þá lagt til hans aftur í síðuna og í þriðja sinn í öxlina. Vitnið kveðst hafa verið lengi að ná sér andlega og líkamlega og væri hann með ljót ör á líkamanum.
Vitnið, Kristján Halldór Jensson, var yfirheyrður í gegnum síma en hann dvelst í Noregi. Hann kveðst hafa verið að koma út af skemmtistað og hafi krakkar verið við áfengisdrykkju fyrir utan eða inni á Nonnabitum. Hann kveðst hafa gefið sig á tal við stúlku sem hann þekki og heiti Berglind. Ákærði hafi verið þarna á fylleríi og verið að rífast við fólk og kveðst hann hafa lent í rifrildi við hann. Þeir hafi ýtt eitthvað hvor við öðrum og hafi Andri Gíslason þá gengið á milli og reynt að fá Ragnar í burtu. Hafi þeir félagar ekki ógnað ákærða. Kveðst hann hafa séð að ákærði var með höndina við buxurnar en hann segist ekki hafa hugsað út í þetta en telur að ákærði hafi verið að leita eftir hnífnum meðan hann var að rífast við ákærða. Þegar Andri Gíslason hafi verið að ýta ákærða frá sér kveðst hann hafa séð hnífinn þjóta að Andra sem hrökklast hafi frá. Hafi hann fyrst haldið að ákærði hefði náð að stinga Andra. Hann segir útlilokað að hnífurinn hafi rekist óviljandi í Andra Gíslason.
Berglind Heiða Guðmundsdóttir hefur skýrt frá því að hún hafi verið ölvuð þegar atburðurinn varð og muni hún ekki vel eftir honum. Hún kveðst hafa hitt Andra Gíslason, Kristján o.fl. fyrir utan Nonnabita og verið að tala við Kristján þegar lætin byrjuðu. Hafi hún séð að Ragnar og Andri Gíslason voru að ýta hvor við öðrum og hafi stimpingar þeirra borist út að horninu á Hafnarstræti og Lækjartorgi og hópur fólks fylgt þeim. Hafi Andri Condit reynt að stöðva stimpingarnar og sjálf hafi hún reynt að róa Kristján niður þar sem hann ætlaði að skipta sér af stimpingum ákærða og Andra Gíslasonar. Þá kveðst vitnið ekki vita um hvað þeir ákærði og Andri Gíslason voru að deila en hún kveðst ekki hafa séð það að ákærði væri að egna menn til illinda eða hóta fólki þarna. Hún telur að ákærða hafi staðið ógn af Andra Gíslasyni. Hún muni eftir að hafa séð Andra Gíslason hrökklast til baka frá ákærða og segja "rólegur maður, slappaðu af". Hafi ákærði þá staðið við húsvegg og verið mjög reiður en Andri Condit þá staðið aðeins afsíðis. Hún álítur að ákærði hafi tekið upp hnífinn og stungið Andra Gíslason. Taldi hún engar líkur á að Andri Gíslason hafi gengið á hnífinn. Hún kveðst ekki hafa séð að neinn þarna hafi verið undir áhrifum fíkniefna.
Þorvaldur Jónsson læknir, sem gerði að áverka Andra Gíslasonar, hefur komið fyrir dóm og staðfest vottorðið sem greinir hér að framan. Telur hann að Andri hafi komist undir læknishendur innan við hálftíma frá því að hann varð fyrir áverkanum. Áverki eins og þessi sé ólíklegur til að hætta að blæða af sjálfu sér en ef það gerist væri það eftir að viðkomandi væri kominn í lost og blóðþrýstingur orðinn það lágur að blæðingin hætti af þeim sökum. Sé þetta lífshættulegur áverki í eðli sínu. Vitnið hefur séð hníf þann sem um ræðir og telur að hnífurinn hafi ekki gengið inn að hjöltum en nógu langt inn til þess að valda þeim áverka sem Andri Gíslason varð fyrir.
Niðurstaða
Ákærði viðurkenndi við yfirheyrslu hjá lögreglu að hafa stungið Andra Gíslason í magann þar sem hann taldi sér ógnað. Framburður hans fyrir dómi sama dag verður ekki skilinn öðru vísi en að hann hafi þar staðfest þessa játningu. Í meðferð málsins fyrir dómi hefur hann horfið frá þessum framburði og haldið því fram að hnífurinn hafi óvart stungist í Andra Gíslason er hann reyndi að fella ákærða. Skýring ákærða á þessum breytta framburði er ekki trúverðug og ber að hafna henni. Þykir vera sannað með játningum ákærða og skýrslum þeirra Andra Gíslasonar, Kristjáns Halldórs Jenssonar, Péturs Axels Péturssonar og Berglindar Heiðu Guðmundsdóttur, að ákærði hafi tvisvar sinnum vísvitandi lagt með hnífi til Andra og valdið honum þeim áverkum sem greinir hér að framan og einnig er lýst í ákæru málsins. Telja verður að kviðáverkinn hafi verið lífshættulegur einn sér en jafnframt verður að líta á atlögu ákærða í heild, þ.e. bæði hnífslögin, og telja að ákærða hafi hlotið að vera ljóst að langlíklegast væri að Andri Gíslason hlyti bana af þessu tilræði. Hefur ákærði með háttsemi sinni gerst sekur um tilraun til manndráps og brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.
Refsing.
Ákærði hefur til þessa hlotið tvo refsidóma. Í júní í fyrra var hann dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás. Þá var hann dæmdur í janúar á þessu ári í 10 mánaða fangelsi fyrir rán en 8 mánuðir af þeirri refsingu voru skilorðsbundnir en jafnframt var fyrri dómurinn dæmdur upp. Refsing ákærða nú verður hegningarauki við síðari dóminn og að nokkru leyti við þann fyrri einnig. Ber að dæma upp skilorðshluta síðari dómsins. Ákærði var ekki fullra 17 ára þegar hann framdi brotin sem hér um ræðir og árás hans var gerð af litlu tilefni. Þykir refsingin með vísan til 2. tl. 74. gr. almennra hegningarlaga vera hæfilega ákveðin fangelsi í 3½ ár. Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 3. nóvember sl., samtals 155 daga.
Skaðabætur
Andri Gíslason hefur krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.000.000 kr. með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25,1987 frá 3. nóvember 1999 til 29. nóvember 1999 og með dráttarvöxtum skv. III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist kostnaðar við lögmannsaðstoð eftir mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi auk álags er nemi virðisaukaskatti af þóknuninni. Ákærði krefst aðallega frávísunar bótakröfu en sýknu til vara.
Fyrir liggur að Andri Gíslason var stunginn með hnífi í kvið og brjóst og hlaut lífshættulegt sár. Árás sú sem hann varð fyrir er til þess fallin að valda honum andlegu áfalli. Þykir því rétt að dæma honum miskabætur úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50,1993, sem hæfilega þykja ákveðnar 250.000 krónur. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða Andra Gíslasyni lögfræðikostnað að fjárhæð 30.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ákærði verður því dæmdur til að greiða Andra Gíslasyni miskabætur og lögfræðikostnað, samtals að fjárhæð 280.000 krónur, auk almennra vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25,1987 frá 3. nóvember 1999 til 29. nóvember 1999 og með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Dæma ber ákærða til að greiða verjanda sínum, Sveini Andra Sveinssyni hæstaréttarlögmanni, málsvarnarlaun sem ákveðast 300.000 krónur, sem dæmdar eru án virðisaukaskatts.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Ragnar Davíð Bjarnason, sæti fangelsi í 3½ ár. Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 3. nóvember sl., alls 155 daga.
Ákærði greiði Andra Gíslasyni 280.000 krónur með almennum vöxtum frá 3. nóvember 1999 til 29. nóvember 1999 og með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði skipuðum verjanda sínum, Sveini Andra Sveinssyni hæstaréttarlögmanni, 300.000 krónur í málsvarnarlaun.