Hæstiréttur íslands
Mál nr. 95/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Sakarefni
- Dómstóll
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Fimmtudaginn 23. mars 2000. |
|
Nr. 95/2000.
|
Jóhann Þorsteinsson og Friðþjófur Jóhannsson (Magnús Thoroddsen hrl.) gegn íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) |
Kærumál. Sakarefni. Dómstólar. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Talið var að dómkrafa J og F lyti ekki að lögmæti tiltekinnar athafnar eða ákvörðunar stjórnvalds, heldur miðaði hún að því að dómstólar kvæðu á um tiltekin réttindi þeim til handa. Var fallist á með héraðsdómara, að það væri ekki í valdi dómstóla að úthluta J og F þeim réttindum, sem þeir gerðu kröfu um, eða kveða nú á um tilvist þeirra. Var því staðfest sú niðurstaða héraðdómara að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 3. mars 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2000, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og málinu vísað heim í hérað til löglegar meðferðar. Þeir krefjast einnig kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og greinir í úrskurði héraðsdómara krefjast sóknaraðilar þess að viðurkennt verði að fiskiskipið Dýri BA 98 eigi rétt á að fá úthlutað án nokkurrar skerðingar reiknuðu þorskaflahámarki byggðu á veiðireynslu skipsins fiskveiðiárin 1995/1996, 1996/1997 og 1997/1998, miðað við tvö bestu ár þess af árunum 1996, 1997 og 1998. Samkvæmt gögnum málsins hafa sóknaraðilar ekki sótt um til stjórnvalda að fá að stunda veiðar með þorskaflahámarki á yfirstandandi fiskveiðiári. Dómkrafa sóknaraðila lýtur þannig ekki að lögmæti tiltekinnar athafnar eða ákvörðunar stjórnvalds, heldur miðar hún að því að dómstólar kveði á um tiltekin réttindi sóknaraðilum til handa á grundvelli 1. mgr. 65. gr. og 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. og 13. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Fallist verður á með héraðsdómara að það sé ekki á valdi dómstóla að úthluta sóknaraðilum þeim réttindum, sem þeir gera kröfu um, eða kveða nú á um tilvist þeirra. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Eftir þessum úrslitum verða sóknaraðilar dæmdir í sameiningu til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Jóhann Þorsteinsson og Friðþjófur Jóhannsson, greiði í sameiningu varnaraðila, íslenska ríkinu, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2000.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 21. janúar s.l. að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda, er höfðað með stefnu birtri 21. júní s.l.
Stefnendur eru Jóhann Þorsteinsson, kt. 240828-3919, Logafold 130, Reykjavík og Friðþjófur Jóhannsson, kt. 250164-4409, Vindási 2, Reykjavík.
Stefndi er sjávarútvegsráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins.
Dómkröfur stefnenda eru þær að viðurkennt verði með dómi að báturinn Dýri BA-98, skipaskrárnúmer 6739, eigi rétt á að fá úthlutað reiknuðu þorskaflahámarki byggðu á veiðireynslu hans fiskveiðiárin 1995/96, 1996/97 og 1997/98, miðað við tvö bestu ár bátsins af árunum 1996, 1997 og 1998, án nokkurrar skerðingar. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi og að stefnendum verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. Til vara er krafist sýknu af öllum kröfum stefnenda og að þeim verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.
Málavextir.
Stefnendur lýsa málavöxtum svo í stefnu að þeir séu eigendur og útgerðarmenn bátsins Dýra BA-98, skipaskrárnúmer 6739. Mun vera um að ræða svokallaðan krókabát sem var smíðaður árið 1986, en á þeim tíma giltu engar veiðitakmarkanir fyrir bátinn. Stefnendur gerðu bátinn út á grásleppu- og handfæraveiðar og árið 1991 létu þeir lengja bátinn til þess að hann hentaði betur til þessara veiða. Mun núverandi stærð bátsins vera 5,97 brúttótonn. Stefnendur segja ekkert hafa bent til á þessum tíma að næstu þrjú ár yrðu notuð sem viðmiðunarár að því er úthlutun aflaheimilda varðaði og stunduðu þeir því áfram grásleppuveiði ásamt þorskveiðum á handfæri.
Með lögum nr. 83/1995 hafi verið gerð sú breyting á lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða að frá og með því fiskveiðiári sem hófst 1. september 1995 skyldu útgerðir allra krókabáta velja milli þess að stunda veiðar með þorskaflahámarki og þess að stunda veiðar með viðbótarbanndögum. Fiskistofa kynnti stefnendum og öðrum útgerðarmönnum þessar breytingar með bréfi 22. júní 1995 og gaf þeim kost á að velja fyrir 25. júlí sama ár um það, hvort þeir vildu stunda veiðar með þorskaflahámarki eða viðbótarbanndögum/sóknardögum. Skyldi þorskaflahámarkið miðað við veiðireynslu viðkomandi báts almanaksárin 1992, 1993 og 1994, miðað við tvö bestu árin, en þó með tæplega 30% skerðingu. Vegna þess hvernig útgerð bátsins hafði verið hagað töldu stefnendur sér ekki annað fært en að velja sóknardaga og treysta því að þeir gæfu meiri afla. Mun sú hafa orðið raunin, enda voru sóknardagar þá 129.
Stefnendur munu hafa sótt um lán til Byggðastofnunar árið 1996 til endurbóta á báti sínum en sóknardögum hafði verið fækkað í 84 fyrir fiskveiðiárið 1996/1997, sbr. 3. gr. laga nr. 105/1996 um breytingu á lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða. Töldu stefnendur á þeim tíma að ekki yrði um frekari niðurskurð á sóknardögum að ræða og var lánsfjárhæðin miðuð við 84 sóknardaga eða 3.000.000 króna til 12 ára. Með lögum nr. 144/1997 um breytingu á lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða var gerð sú breyting að sóknardögum á fiskveiðiárinu 1997/1998 var fækkað í 40 fyrir krókabáta, sem veiddu með handfærum en í 32 daga fyrir þá, sem stunduðu veiðar með handfæri og línu, sbr. 2. mgr. í ákvæði til bráðabirgða I. Með lögum nr. 1/1999 um breyting á lögum nr 38/1990 um stjórn fiskveiða var sóknardögum fækkað í 23 á fiskveiðiárunum 1998/1999 og 1999/2000 (án takmarkana á heildarafla), sbr. ákvæði til bráðabirgða I in fine, ellegar skyldu sóknardagar verða ýmist 32 fyrir þá, sem veiddu með handfæri og línu, en 40 dagar fyrir þá, sem eingöngu stunduðu veiðar með handfæri. Í báðum tilvikum mátti þorskafli þó eigi vera meiri en 30 lestir hvort fiskveiðiár miðað við óslægðan fisk.
Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 1/1999 skyldi fjöldi sóknardaga ákveðinn fyrir hvert fiskveiðiár, í fyrsta sinn fyrir fiskveiðiárið sem hefst 1. september 2000, með því að reikna meðalþorskafla á hvern leyfðan sóknardag næstliðins fiskveiðiárs og deila þeirri tölu í hámarksþorskafla þessara báta á fiskveiðiárinu. Sóknardögum skyldi fækka eða fjölga um heila daga og sleppa broti. Sóknardögum megi þó aldrei fækka um meira en 25% ( fært niður í 10% með lögum nr. 9/1999) milli fiskveiðiára.
Þeim krókabátum, sem veitt hafa samkvæmt sóknardagakerfinu með þorskaflaþaki, verði frá og með 1. september 2000 úthlutað krókaaflahlutdeild í þorski, ýsu, ufsa og steinbít og frá og með fiskveiðiárinu sem hefst 1. september 2000 munu þeir stunda veiðar í krókaaflamarkskerfi.
Samkvæmt 3. mgr. ákvæða til bráðabirgða I í lögum nr. 1/1999 sé heildarþorskaflaviðmiðun krókabáta 13,75% af ákvörðuðum heildarþorskafla. Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 448/1998 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 1998/1999 sé leyfilegur heildarafli þorsks 250.000 lestir. 13.75% af þeirri tölu séu 34.375 lestir og að viðbættum 601 lest skv. 3. og 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 1/1999, sé um að ræða 34.976 lestir. Þar af sé samanlagt þorskaflahámark þeirra báta, sem þann kost hafa valið, 12,64%, heildarþorskaflaviðmiðun þeirra báta, sem stunda veiðar með dagatakmörkunum og nota línu og handfæri 0,18% og heildarþorskaflaviðmiðun þeirra báta, sem stunda veiðar með dagatakmörkunum og nota handfæri eingöngu 0,93%. Samkvæmt 4. mgr. síðastgreinds bráðabirgðaákvæðis skal þeirri 0,93% hlutdeild í hámarksþorskafla, sem komið hefur í hlut síðasttalinna báta auk aflahlutdeildar í þorski, sem nemur 506 lestum miðað við óslægðan fisk, skipt á milli báta á grundvelli aflareynslu, þannig að 80% séu miðuð við aflareynslu fiskveiðiárin 1996/1997 og 1997/1998 og 20% séu miðuð við reiknað þorskaflahámark skv. 2. gr. laga nr. 83/1995. Þó skuli enginn bátur fá minni aflaheimild en 500 kg miðað við óslægðan fisk. Sams konar ákvæði sé einnig að finna í 3. mgr. að því er varðar 0,18% hlutdeildina, nema að því er varðar aukaaflahlutdeild í þorski, en í því tilviki er hún 95 lestir.
Samkvæmt 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II skuli samanlögð hlutdeild krókabáta í hámarksafla af ýsu, ufsa og steinbít vera jöfn meðalhlutdeild þeirra í heildarafla af hverri þessari tegunda almanaksárin 1996, 1997 og 1998 og skuli hún skiptast milli veiðikerfa þeirra í sömu innbyrðis hlutföllum og þorskur. Í flokki báta sem stundað hafi veiðar með þorskaflahámarki skuli hlutdeild af ýsu, ufsa og steinbít skiptast í hlutfalli við veiðar hvers báts um sig á þessum árum og skuli í þeim samanburði miðað við tvö bestu ár hvers báts af árunum 1996, 1997 og 1998. Við útreikning þennan skuli afli árið 1998 margfaldaður með tveimur. Í flokkum báta sem stundað hafi veiðar með dagatakmörkunum skuli hlutdeild af ýsu, ufsa og steinbít skiptast jafnt milli báta innan hvors flokks um sig.
Stefnendur benda á þá mismunun er þeir telja vera gerða á milli krókabáta á þorskaflahámarki og sóknardagabátanna. Í fyrra tilvikinu sé miðað við aflareynslu þriggja ára, en í hinu síðara sé aðeins miðað við aflareynslu tveggja ára. Þá sé aflahlutdeild í ýsu, ufsa og steinbít skipt jafnt milli sóknardagabáta, meðan aflahlutdeild í þessum fisktegundum sé skipt milli krókabáta á þorskaflahámarki miðað við tvö bestu ár hvers báts af árunum 1996, 1997 og 1998 og afli ársins 1998 margfaldaður með tveimur.
Stefnendur upplýsa að afli Dýra BA-98 hafi árið 1996 verið 48.983 kg, árið 1997 hafi aflinn numið 76.250 kg og árið 1998 var aflinn 63.165 kg. Samkvæmt þessu sé meðalþorskafli tveggja bestu áranna 69.707 kg. Í bréfi Fiskistofu til stefnanda Friðþjófs dagsettu 24. mars 1999 sé áætlað krókaaflamark bátsins 21.552 kg fyrir fiskveiðiárið 1998/1999. Jafngildi þetta um 70% skerðingu á meðalafla bátsins tvö síðustu fiskveiðiárin. Stefnendur hafi því valið þann kost með bréfi til Fiskistofu dagsettu 13. apríl 1999 að velja sóknardaga með þorskaflaþaki til 1. september 2000, en krókaaflamark frá og með 1. september 2000. Stefnendur gerðu skriflegan fyrirvara og töldu skilyrði laganna nr. 1/1999 um breytingu á lögum nr. 38/1990, sbr. lög nr. 9/1999, fela í sér ólögmæta skerðingu á atvinnuréttindum og brjóta í bága við jafnræðisreglu íslenskra laga og stjórnarskrár. Jafnframt áskildu stefnendur sér rétt til höfðunar bótamáls svo og til endurvals á milli veiðikerfa frá og með því fiskveiðiári er hefst 1. september nk.
Málsástæður og lagarök stefnenda.
Stefnendur byggja á því að þeir séu útgerðarmenn og hafi um áratugaskeið haft atvinnu sína og lifibrauð af sjósókn. Nú geri þeir út krókabátinn Dýra BA-98 og hafi gert svo frá árinu 1986. Frá 1. janúar 1991 hafi eigendum krókabáta gefist kostur á að velja milli tveggja veiðikerfa, sbr. lög nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, ákvæði til bráðabirgða II, sbr. og 8. gr. reglugerðar nr. 465/1990 um veiðar í atvinnuskyni: annars vegar aflamark, þar sem bátar voru kvótasettir í öllum kvótabundnum fisktegundum þar sem aflareynsla á tímabilinu 1987, 1988 og 1989 réði aflamarki hvers báts og hins vegar banndagakerfi, þar sem eigendum krókabáta var frjálst að róa með línu og handfæri utan ákveðinna tímabila, er gerði samtals 52 banndaga fram til 31. ágúst 1991. Stefnendur völdu banndagakerfið og næstu þrjú fiskveiðiár, frá 1. september 1991 til 31. ágúst 1994 voru banndagar 82 á hverju fiskveiðiári. Á þessum fiskveiðiárum hafi leyfilegur heildarafli þorsks verið 265.000 lestir árið 1991, 205.000 lestir árið 1992 og 155.000 lestir árið 1993, sbr. reglugerðir um veiðar í atvinnuskyni. Með 2. gr. laga nr. 87/1994 hafi banndögum fjölgað í 136 frá og með fiskveiðiárinu sem hófst 1. september 1994 og með lögum nr. 83/1995 voru lögfestir 40 viðbótarbanndagar frá upphafi fiskveiðiársins 1. september 1995 til 1. febrúar 1996. Þá tók við sóknardagakerfi hjá þeim bátum sem róið höfðu í viðbótarbanndagakerfinu frá 1. september 1995. Tímabilinu frá 1. febrúar 1996 til loka fiskveiðiársins 31. ágúst sama ár hafi verið skipt í þrjú veiðitímabil þar sem heimilt var að stunda róðra samtals í 47 daga. Með lögum nr. 105/1996 hafi sóknardagar krókabáta, sem reru með handfærum eingöngu, verið ákveðnir 84 fyrir fiskveiðiárið 1996/1997, en ef þeir veiddu einnig með línu skyldi hver dagur margfaldaður með tölunni 1,9 á tímabilinu frá 1. maí til 1. september, en með tölunni 1,35 á öðrum tíma. Á þessu fiskveiðiári hafi leyfilegur heildarafli þorsks verið hækkaður í 186.000 lestir. Með lögum nr. 144/1997 hafi fiskveiðiheimild sóknardagabáta enn verið skert eins og að framan er rakið, þrátt fyrir þá staðreynd að á fiskveiðiárinu 1997/1998 var leyfilegur heildarafli á þorski ákveðinn 218.000 lestir. Með lögum nr. 1/1999 hafi sóknardögum enn verið fækkað eins og rakið var í málavaxtalýsingu hér að framan. Stefnendur telja löggjafann með þessum hætti sífellt leyfa sér að ganga á hlut þeirra manna er róa í sóknardagakerfinu á meðan hlutur allra annarra skipa vex með hækkandi heildarþorskaflaheimildum, en leyfilegur heildarafli á þorski fiskveiðiárið 1998/1999 sé 250.000 lestir, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 448/1998.
Stefnendur byggja á því að eftir allar þær skerðingar sem þeir hafi mátt þola undanfarin ár á heimildum sínum til fiskveiða, sé nú svo komið að þeir geti ekki lengur lifað á þessari atvinnu sinni. Atvinnufrelsið sé verndað í 75. gr. stjórnarskrárinnar en rétturinn til atvinnu sé tvímælalaust eitt veigamesta mannréttindaákvæði hennar. Þennan rétt megi því aðeins skerða að almenningshagsmunir krefjist. Við mat á því hvað séu almenningshagsmunir beri að leggja málefnalegan mælikvarða til grundvallar og geti geðþótti aldrei verið grundvöllur slíks mats. Þá megi aldrei skerða atvinnufrelsið með þeim hætti að mönnum, sem eins er ástatt um, sé freklega mismunað. Slíkt bryti ekki einungis gegn atvinnufrelsinu heldur einnig gegn jafnræðisákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar. Ekki verði séð að nein málefnaleg rök liggi til grundvallar þeirri mismunun er stefnendur og aðrir í sóknardagakerfinu hafi orðið að þola miðað við útgerðarmenn krókabáta í þorskaflahámarkskerfinu, svo og aðra útgerðarmenn, er hafi notið góðs af auknum leyfilegum heildarþorskafla.
Sú regla hafi verið við lýði í lögum um stjórn fiskveiða að ráðherra ákveði skiptingu hámarksafla milli skipa, m.a. með hliðsjón af fyrri veiðum þeirra, stærð eða gerð, sbr. 11. gr. laga nr. 97/1985, 1. mgr. 12. gr. laga nr. 3/1988, sjá og 10. gr., 2. mgr. B, sömu laga. Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/1990 séu ákvæði um það að aflahlutdeild skuli úthlutað á grundvelli aflareynslu þriggja veiðitímabila. Í 7. gr. reglugerðar nr. 274/1993 sé sams konar ákvæði um þriggja ára aflareynslu á tímabilinu 1. janúar 1991 til 31. desember 1993. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 1/1999 bregði nú svo við að aðeins skuli miðað við aflareynslu tveggja fiskveiðiára (1996/1997 og 1997/1998) þegar færa á krókabáta úr sóknardagakerfinu yfir í þorskaflahámarkskerfið. Hins vegar sé miðað við þriggja ára aflareynslu báta sem veiða með þorskaflahámarki þegar þeim er úthlutað aflahlutdeild af ýsu, ufsa og steinbít, en aflahlutdeild í sömu fisktegundum skuli skipt jafnt milli báta í sóknardagakerfinu, innan hvors flokks fyrir sig. Stefnendur telja hér um gríðarlega mismunun að ræða á milli báta í sóknardagakerfinu og þeirra sem eru á þorskaflahámarki.
Stefnendur byggja á því að með því að fækka þeim dögum ár eftir ár, sem stefnendum er heimilt að róa til fiskjar, geti þeir ekki lengur stundað atvinnu sína með lífvænlegum hætti. Sú skerðing atvinnuréttinda, er þeir hafi orðið fyrir með lögum nr. 1/1999 um breyting á lögum nr. 38/1990, sbr. og 2. gr. laga nr. 9/1999, brjóti bæði í bága við 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi og jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.
Stefnendur vísa um málskostnað til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi rökstyður frávísunarkröfu sína með því að kröfugerð stefnenda lúti að viðurkenningu á réttindum sem ekki sé stoð fyrir í settum lögum, en með lögum nr. 38/1990 séu veiðar krókabáta á þorski og öðrum tegundum sjávardýra takmarkaðar. Kröfugerðin sé miðuð við atriði sem ekki er fjallað um í gildandi rétti og hafi stefnendur ekki beint til stjórnvalda að fjalla um þau réttindi sem krafist er viðurkenningar á. Samkvæmt lögum nr. 36/1992 annist Fiskistofa framkvæmd laga um stjórn fiskveiða. Með kröfugerð stefnenda sé ætlast til að dómstóll taki ákvörðun sem heyra myndi undir framkvæmdavaldið, en setji áður ímyndaða réttarreglu henni til stuðnings og fari þannig einnig inn á valdsvið löggjafans. Sé málatilbúnaður stefnenda því ráðagerð um að dómstóll fari út fyrir valdsvið sitt. Af þessum sökum telur stefndi með vísan til 2. gr. og 61. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 24. gr. og 25. gr. laga nr. 91/1991, að vísa beri málinu frá dómi. Þá kunni lögvarðir hagsmunir að vera liðnir undir lok sé miðað við liðið eða yfirstandandi fiskveiðiár.
Stefndi byggir á því að kröfugerð stefnenda uppfylli ekki kröfur um skýrleika sem áskilið er í 25. gr. og 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. meginreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað. Viðurkenningarkrafa stefnenda sé ekki aðeins beiðni um lögfræðilega álitsgerð, heldur um stefnumótun og lagasmíð. Stefnendur lýsi í máli sínu almennri óánægju með lög um stjórn fiskveiða, einkum þegar nær dregur eiginlegum málsástæðum í stefnu, þótt örðugt sé að ráða í hvernig þær geti stutt viðurkenningarkröfu stefnenda. Virðist sem til þess sé ætlast af dóminum að hann geri breytingar á lögum nr. 1/1999 og nr. 9/1999 um breytingu á lögum nr. 38/1990 eða endurveki að einhverju leyti brottfallin lög og geri þau gildandi með þeim breytingum sem þjóna myndi kröfugerð þeirra.
Þá byggir stefndi á því að kröfugerð stefnenda sé haldin þeim annmarka að dóminum sé látið eftir að velja tvö bestu veiðiár bátsins af þremur án nákvæmari greinargerðar. Sé kröfugerðin því valkvæð í eðli sínu, andstætt d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Óljóst sé til hvers sé vísað með orðunum "reiknuðu þorskaflahámarki" og hverjum verði eftirlátið að reikna það út eða velja viðmiðunarár. Beri að líta til þess að þorskaflahámarkskerfið muni falla niður eftir lok þessa fiskveiðiárs, en ekki sé ljóst af kröfunni hvenær eða til hve langs tíma þorskaflahámarki skuli úthlutað eða á hvaða fiskveiðiári. Kröfugerðin geti ekki samrýmst gildandi ákvæðum laga um stjórn fiskveiða þar sem villst er á fiskveiðiári annars vegar og almanaksári hins vegar, auk þess sem krafan er andstæð ákvæðum laga nr. 38/1990 um að heimildir til veiða á umræddum tegundum eru takmarkaðar við hvert fiskveiðiár. Þetta geri kröfugerðina óljósa og ekki tæka til dómsálagningar. Orðin "án nokkurrar skerðingar", eða til hvers þau vísa séu ekki nægjanlega útskýrð í stefnu og hafi ekki svo nákvæma skírskotun að viðurkenningardómur geti gengið þess efnis.
Stefndi byggir einnig á því að málsástæður stefnenda séu óljósar og uppfylli ekki skilyrði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Verði trauðla ráðið af stefnu á grundvelli hvaða laga eða reglna stefnendur móti viðurkenningarkröfu sína, en víst er að þau efnislegu réttindi, sem gert er tilkall til, eigi sér ekki stoð í ákvæðum stjórnarskrárinnar, heldur lúti úthlutun veiðiheimilda og hvernig veiðum skuli hagað ákvæðum í lögum. Þá séu ekki lögð fram gögn um svokallaða veiðireynslu bátsins á þeim árum sem stefnendur miða kröfu sína við, annars vegar með skírskotun til fiskveiðiára og hins vegar almanaksára, en að mati stefnda blanda stefnendur þessu saman.
Niðurstaða.
Stefnendur gera í máli þessu þá dómkröfu að viðurkennt verði með dómi að báturinn Dýri BA-98 eigi rétt á að fá úthlutað reiknuðu þorskaflahámarki byggðu á veiðireynslu hans fiskveiðiárin 1995/96, 1996/97 og 1997/98, miðað við tvö bestu ár bátsins af árunum 1996, 1997 og 1998, án nokkurrar skerðingar.
Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, sbr. 6. gr. laga nr. 36/1992 um Fiskistofu, ræðst aflamark skips á hverju veiðitímabili eða vertíð af leyfðum heildarafla viðkomandi tegundar og hlutdeild skipsins í þeim heildarafla skv. 2. mgr. greinarinnar, sbr. þó ákvæði 9. gr. Skal Fiskistofa senda sérstaka tilkynningu vegna hvers skips um aflamark þess í upphafi veiðitímabils eða vertíðar. Samkvæmt I. kafla laga um Fiskistofu starfar Fiskistofa að stjórnsýsluverkefnum á sviði sjávarútvegsmála og heyrir hún undir sjávarútvegsráðherra. Fiskistofa annast framkvæmd laga um stjórn fiskveiða og eftirlit með fiskveiðum svo sem nánar er kveðið á í lögum um það efni.
Af framansögðu er ljóst að það heyrir undir stjórnvöld en ekki dómstóla að veita veiðileyfi og úthluta aflahlutdeild. Ekki verður af gögnum málsins ráðið að stefnendur hafi gert reka að því að beina til réttra stjórnvalda kröfugerð um rýmri aflaheimildir sér til handa en upplýst er að stefnendur gerðu skriflegan fyrirvara til Fiskistofu m.a. um höfðun bótamáls eins og að framan er rakið. Kröfugerð stefnenda lýtur því ekki að lögmæti tiltekinnar stjórnvaldsákvörðunar heldur virðist þess farið á leit við dóminn að lagt verði mat á tilteknar breytingar sem gerðar hafa verið á lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða. Kröfugerð stefnenda er því andstæð 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og verður því ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari, kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.