Hæstiréttur íslands
Mál nr. 610/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Úthlutun söluverðs
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. september 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 10. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. september 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að frumvarp 24. nóvember 2016 til úthlutunar söluverðs fasteignarinnar Grjótás 6 í Garðabæ, yrði breytt á þá leið að kröfur varnaraðilans Arion banka hf. yrðu lækkaðar. Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og frumvarpinu aðallega breytt á þá leið að ,,Arion banki hf. fái greiddar samtals 44.031.911 krónur ... og sóknaðili fái til úthlutunar 17.370.474 krónur af söluverðinu, en til vara að greiðsla Arion banka hf. verði lækkuð verulega og úthlutað verði upp í kröfu sóknaraðila sem nemur lækkaðri kröfu Arion banka hf.“ Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Arion banki hf. krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Egill Ragnar hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Ágreiningur málsaðila lýtur að úthlutun söluverðs fasteignarinnar Grjótás 6 í Garðabæ sem seld var nauðungarsölu 11. október 2016 en varnaraðilinn Egill Ragnar var gerðarþoli. Varnaraðilinn Arion banki hf. var hæstbjóðandi með boð að fjárhæð 67.000.000 krónur. Samkvæmt frumvarpi að úthlutunargerð söluverðs eignarinnar 24. nóvember 2016 voru teknar til greina kröfur varnaraðilans Arion banka hf., en þær voru byggðar á tveimur veðskuldabréfum á 1. og 2. veðrétti eignarinnar. Kröfur samkvæmt bréfunum höfðu verið endurútreiknaðar á grundvelli 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og námu þær samtals 65.317.232 krónum. Sundurliðuðust kröfurnar á þann veg samkvæmt frumvarpinu að til greiðslu vegna skuldabréfs nr. 715286 komu 24.882.582 krónur en 40.434.650 krónur vegna skuldabréfs nr. 715958. Ekkert greiddist hins vegar upp í kröfu sóknaraðila á 3. veðrétti að fjárhæð 17.370.474 krónur.
Sóknaraðili byggir á því að innifaldir í kröfum varnaraðila Arion banka hf. hafi verið vextir sem fallið hafi í gjalddaga meira ári áður en beiðni um nauðungarsölu var sett fram, sbr. b. lið 5. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð, og hafi því ekki átt að vera tryggðir með aðalkröfunni og koma til úthlutunar greiðslu þeirra svo sem gert var í frumvarpi að úthlutunargerðinni. Af hálfu varnaraðila er því á hinn bóginn haldið fram að kröfur hans séu í samræmi við fyrirmæli 18. gr. laga nr. 38/2001 um endurútreikning lána með ólögmætum áskilnaði um vexti og annað endurgjald, sbr. einkum 5. mgr. greinarinnar, sem miði við að mynda skuli nýjan höfuðstól að loknum útreikningi. Þannig hafi endurútreiknaðir vextir sem mynduðu nýjar eftirstöðvar skuldarinnar ekki verið fallnir í gjalddaga í skilningi b. liðar 5. gr. laga nr. 75/1997.
Frekari málavöxtum og málatilbúnaði aðila er lýst með greinargóðum hætti í hinum kærða úrskurði.
II
Í 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, sem lögfest var með 1. gr. laga nr. 151/2010, er mælt fyrir um þá aðferð sem leggja beri til grundvallar við endurútreikning krafna sem hafa að geyma ákvæði um ólögmæta vexti og eða verðtryggingu. Skal þá upphaflegur höfuðstóll skuldar vaxtareiknaður samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 18. gr. laganna og frá höfuðstól og áföllnum vöxtum skal draga þær fjárhæðir sem inntar hafa verið af hendi fram að uppgjörsdegi í vexti, hvers kyns vanskilaálögur og afborganir miðað við hvern innborgunardag. Þannig útreiknuð fjárhæð myndar eftirstöðvar skuldarinnar og skulu þá upphaflegir eða síðar ákvarðaðir endurgreiðsluskilmálar gilda að því er varðar lánstíma, gjalddaga og aðra tilhögun á greiðslu skuldar, allt að teknu tilliti til þeirra breytinga sem leiðir af ákvæðum 18. gr. laganna.
Í málinu liggur fyrir endurútreikningur varnaraðilans Arion banka hf. 17. febrúar 2015 í samræmi við þetta á þeim þeim tveimur veðskuldabréfum sem fyrr er getið og um er deilt í málinu. Er vafalaust af þeim endurútreikningum að gjaldföllnum vöxtum að fjárhæð 6.361.154 krónum er bætt við höfuðstól endurútreiknings á láni nr. 715286 og 14.010.442 krónum með sama hætti bætt við endurútreiknaðan höfuðstól láns nr. 715958. Þá liggur fyrir að vextirnir gjaldféllu að langstærstum hluta meira en ári áður en nauðungarsölubeiðni varnaraðilans Arion banka hf. var móttekin 16. september 2015.
Fyrrgreind ákvæði 18. gr. laga nr. 38/2001, sem mæla fyrir um tilhögun endurútreiknings lána vegna ólögmæts áskilnaðar um vexti og verðtryggingu, verða ekki talin fá haggað þeim afdráttarlausu fyrirmælum b. liðar 5. gr. laga nr. 75/1997 að forgangsréttur veðhafa fyrir gjaldföllnum vöxtum gagnvart síðari veðhöfum haldist ekki lengur en í eitt ár nema annað leiði af samningi þeim sem til veðréttarins stofnaði en á því er ekki byggt í málinu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 25. apríl 2017 í máli nr. 198/2017. Samkvæmt þessu verður fallist á kröfu sóknaraðila þannig að honum verði úthlutað 17.370.474 krónum upp í kröfu sína á 3. veðrétti eignarinnar, en óumdeilt er að vextir að þeirri fjárhæð hafi fallið á kröfu varnaraðilans Arion banka hf. fyrir 16. september 2014. Að sama skapi lækkar úthlutun til varnaraðilans sem því nemur. Verður því ekki fallist á kröfu sóknaraðila að öðru leyti enda hefur hann fengið fjárkröfu sína að fullu tekna til greina með þessari breytingu.
Varnaraðilanum Arion banka hf. verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Frumvarpi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 24. nóvember 2016 um úthlutun söluverðs fasteignarinnar að Grjótási 6 í Garðabæ, með fastanúmerið 225-8307, við nauðungarsölu er breytt á þann veg að sóknaraðili, þrotabú VBS eignasafn hf. skal fá úthlutað samtals 17.370.474 krónum af söluverðinu.
Varnaraðilinn, Arion banki hf., greiði sóknaraðila samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. september 2017
Beiðni sóknaraðila um úrlausn dómsins barst Héraðsdómi Reykjaness 6. febrúar 2017. Málið var tekið til úrskurðar að afloknum munnlegum málflutningi 21. ágúst 2017.
Sóknaraðili er þrotabú VBS eignasafns hf., Suðurlandsbraut 6, Reykjavík.
Varnaraðilar eru Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík, og Egill Ragnar Sigurðsson, Grjótási 6, Garðabæ.
Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 25. janúar 2017, þess efnis að frumvarp til úthlutunar söluverðs fasteignarinnar Grjótás 6, Garðabæ, fastanúmer 225-8307, dags. 24. nóvember 2016, skuli standa óbreytt, verði felld úr gildi og að fumvarpinu verði breytt þannig: Aðallega að Arion banki hf. fái greiddar samtals 44.031.911 krónur, samkvæmt 4. tl. og 5. tl. frumvarpsins, og að sóknaraðili fái til úthlutunar 17.370.474 krónur af söluverðinu, en til vara að greiðsla til Arion banka hf. verði lækkuð verulega og að sóknaraðila verði úthlutað upp í kröfu sína fjárhæð sem nemur lækkaðri kröfu Arion banka hf.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili Arion banki hf. krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 25. janúar 2017, í nauðungarsölumáli nr. 304/2015, þess efnis að frumvarp að úthlutunargerð á söluverði fasteignarinnar Grjótás 6, Garðabæ, fastanr. 225-8307, standi óbreytt, verði staðfest. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Þingsókn féll niður af hálfu varnaraðila Egils Ragnars Sigurðssonar 3. maí 2017 án þess að greinargerð væri lögð fram af hans hálfu.
I.
Hinn 30. maí 2007 gáfu varnaraðili Egill Ragnar Sigurðsson og Heiða Jóhannsdóttir út veðskuldabréf nr. 715286 til Frjálsa fjárfestingarbankans að jafnvirði 14.000.000 króna, til helminga í svissneskum frönkum og japönskum jenum. Samkvæmt skilmálum veðskuldabréfsins skyldi endurgreiða skuldina með 480 afborgunum, í fyrsta skipti þann 2. september 2007. Lánið skyldi bera vexti samkvæmt nánari útlistun í skuldabréfinu. Til tryggingar greiðslu á skuldinni var fasteignin að Grjótási 6 í Garðabæ, fastanúmer 225-8307, þá eign varnaraðila Egils Ragnars og Heiðu Jóhannsdóttur, sett að veði með öðrum veðrétti og uppfærslurétti. Hinn 30. júní 2008 var gerður viðauki við skuldabréfið þar sem ákveðið var að lánið skyldi eftirleiðis greiða með 470 afborgunum á eins mánaðar fresti en þar af skyldu fyrstu tólf vera vaxtagjalddagar.
Hinn 6. september 2007 gáfu sömu aðilar út veðskuldabréf nr. 715958 til Frjálsa fjárfestingarbankans að jafnvirði 21.000.000 króna, til helminga í svissneskum frönkum og japönskum jenum. Samkvæmt skilmálum veðskuldabréfsins skyldi endurgreiða skuldina með 480 afborgunum, í fyrsta skipti þann 2. nóvember 2007. Lánið skyldi bera vexti samkvæmt nánari útlistun í skuldabréfinu. Til tryggingar greiðslu á skuldinni var áðurgreind fasteign að Grjótási 6 í Garðabæ sett að veði með öðrum veðrétti og uppfærslurétti. Hinn 30. júní 2008 var gerður viðauki við skuldabréfið þar sem ákveðið var að lánið skyldi eftirleiðis greiða með 472 afborgunum á eins mánaðar fresti en þar af skyldu fyrstu tólf vera vaxtagjalddagar.
Í ársbyrjun 2011 voru ofangreind lán endurreiknuð á grundvelli bráðabirgðaákvæðis X í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í framhaldinu var niðurstaða endurútreikningsins, sem gerður var eftir fyrirmælum 18. gr. laganna, kynnt lántökum, sbr. ákvæði XI til bráðabirgða. Við endurútreikninginn varð nýr höfuðstóll láns nr. 715286 19.131.520 krónur, og nýr höfuðstóll láns nr. 715958 30.368.781 króna, miðað við 4. júlí 2011. Skuldina skyldi endurgreiða í samræmi við upphaflega eða síðar ákvarðaða endurgreiðsluskilmála, að teknu tilliti til þeirra breytinga sem af ákvæði 18. gr. fyrrgreindra laga leiddi, sbr. 4. málsl. 5. mgr. ákvæðisins. Lántakar hvorki staðfestu endurgreiðslufyrirkomulag lánsins né skrifuðu undir ný skuldaskjöl því til staðfestingar og var lánunum því sjálfkrafa breytt í óverðtryggð lán með jöfnum afborgunum í íslenskum krónum.
Hinn 6. janúar 2012 var gerður viðauki við bæði skuldabréfin þar sem ákveðið var að varnaraðili Egill Ragnar skyldi eftirleiðis vera einn greiðandi beggja skuldabréfa. Í viðaukunum sagði að lánin hefðu upphaflega verið bundin við gengi erlendra mynta en væru nú í íslenskum krónum í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar Íslands og lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Lánin væru óverðtryggð með jöfnum afborgunum og bæru breytilega vexti Seðlabanka Íslands. Fram kom að eftirstöðvar láns nr. 715286 væru 19.686.594 krónur en eftirstöðvar láns nr. 715958 væru 31.245.117 krónur, miðað við 4. janúar 2012.
Með heimild í lögum nr. 125/2008 tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun 21. mars 2009 að taka yfir vald stofnfjárfundar SPRON, og víkja stjórn sjóðsins og skipa skilanefnd yfir hann. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var enn fremur stofnað sérstakt hlutafélag, Drómi hf., kt. 710309-1670, sem tók við eignum SPRON. Ákvörðun þessi náði einnig til eigna dótturfélags SPRON, Frjálsa fjárfestingarbankans hf. Þann 31. desember 2013 fékk varnaraðili fyrrgreind veðskuldabréf nr. 715286 og nr. 715958, á fyrsta og öðrum veðrétti fasteignarinnar að Grjótási 6, framseld frá Dróma hf.
Í febrúar 2015 kynnti varnaraðili Arion banki hf. endurskoðaðan endurútreikning lánanna tveggja, miðað við 17. febrúar 2015. Endurútreikningurinn var gerður eftir fyrirmælum 18. gr. laga nr. 38/2001 en með hliðsjón af forsendum dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og nr. 464/2012 sem kveðnir voru upp á árinu 2012 og vörðuðu endurútreikning gengistryggðra lána að teknu tilliti til útgefinna fullnaðarkvittana fyrir greiðslum vaxta. Endurútreikningurinn fór þannig fram að sérhver afborgun, sem greidd hafði verið af höfuðstól lánsins, var færð til frádráttar upphaflegum höfuðstól lánsins í íslenskum krónum. Ef vextir væru fullgreiddir fyrir tiltekið vaxtatímabil var ekki krafist viðbótarvaxta á því tímabili, enda taldist lántaki hafa fullnaðarkvittun fyrir greiðslu vaxta á því tímabili. Fyrir vaxtatímabil sem engir vextir voru greiddir báru kröfurnar óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands, sbr. 3. mgr. 18. gr., sbr. 1. málsl. 4. gr., laga nr. 38/2001, sbr. jafnframt dóma Hæstaréttar í málum nr. 471/2010 og 518/2011. Endurútreikningur lánanna var tvískiptur, þar sem varnaraðili Egill Ragnar varð sem áður segir einn skuldari lánanna frá 6. janúar 2012 en fyrir þann tíma var hann annar tveggja greiðenda, sbr. 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001.
Var það niðurstaða endurútreiknings varnaraðila Arion banka hf. á láni nr. 715286 að eftirstöðvar þess væru 21.603.657 krónur miðað við 17. febrúar 2015, þar af næmu uppsafnaðir óverðtryggðir vextir Seðlabanka Íslands, á þeim vaxtatímabilum sem engir vextir voru greiddir, samtals 6.361.154 krónum. Þá var það niðurstaða endurreiknings á láni nr. 715958 að eftirstöðvar þess væru 36.119.781 króna miðað við 17. febrúar 2015, þar af næmu uppsafnaðir óverðtryggðir vextir Seðlabanka Íslands, á þeim vaxtatímabilum sem engir vextir voru greiddir, samtals 14.010.442 krónum. Mynduðu eftirstöðvarnar nýjan höfuðstól lánanna miðað við 17. febrúar 2015 og skyldi endurgreiða í samræmi við upphaflega eða síðar ákvarðaða endurgreiðsluskilmála, sbr. 4. málsl. 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, í fyrsta skipti 1. mars 2015. Varnaraðili Egill Ragnar innti engar greiðslur af hendi á þeim degi og voru lánin í kjölfarið felld í gjalddaga.
Með beiðni, dagsettri 31. ágúst 2015, fór varnaraðili Arion banki hf. þess á leit við sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að fasteignin að Grjótási 6 yrði seld nauðungarsölu. Beiðnin var móttekin hjá embættinu 16. september 2015. Nauðungarsala á fasteigninni fór fram 11. október 2016 og var varnaraðili Arion banki hf. hæstbjóðandi í eignina með boð að fjárhæð 67.000.000 króna.
Samkvæmt frumvarpi að úthlutargerð á söluverði fasteignarinnar, dagsettu 24. nóvember 2016, voru kröfur varnaraðila Arion banka hf. er byggðust á áðurnefndum veðskuldabréfum á 1. og 2. veðrétti eignarinnar, og miðuðust við endurútreikninginn 17. febrúar 2015, teknar til greina, auk krafna ríkissjóðs Íslands um sölulaun og lögveðskrafna Garðabæjar. Ekkert fékkst hins vegar greitt upp í kröfu sóknaraðila á 3. veðrétti að fjárhæð 17.370.474 krónur. Sóknaraðili andmælti frumvarpinu með bréfi dagsettu 5. desember 2016, þar sem fram kom sú afstaða sóknaraðila að frumvarpið væri í andstöðu við b-lið 5. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Með bréfi varnaraðila Arion banka hf. til sýslumanns 20. janúar 2017 kom varnaraðilinn á framfæri athugasemdum sínum. Vegna þessa var haldinn fundur á skrifstofu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 25. janúar sama ár. Á fundinum hafnaði sýslumaður mótmælum sóknaraðila og stóð því frumvarp að úthlutun á nauðungarsöluandvirði fasteignarinnar óhaggað. Í kjölfarið lýsti sóknaraðili því yfir að sú ákvörðun sýslumanns yrði borin undir dómstóla.
II.
Sóknaraðili byggir á því að í frumvarpi að úthlutunargerð söluandvirðis fasteignarinnar sé farið út fyrir þann forgangsrétt til úthlutunar sem lög heimili, sbr. b-lið 5. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð, en samkvæmt ákvæðinu skuli forgangsréttur veðhafa fyrir vöxtum ekki haldast lengur en í eitt ár frá gjalddaga þeirra.
Sóknaraðili bendir á að við endurútreikning varnaraðila Arion banka hf. hafi gjaldfallnir vextir verið höfuðstólsfærðir með þeim hætti að krafa bankans innihaldi gjaldfallna vexti í andstöðu við b-lið 5. gr. laga. nr. 75/1997. Með öðrum orðum hafi gjaldföllnum vöxtum, sem ekki njóti forgangsréttar, verið komið í búning höfuðstóls svo að tryggja mætti þeim forgang með kröfu varnaraðila Arion banka hf. Í umþrættu frumvarpi fáist því vextir af kröfu varnaraðila Arion banka hf., sem ekki ættu að njóta lögbundins forgangsréttar við úthlutun, greiddir af andvirði hinnar nauðungarseldu eignar.
Sóknaraðili kveður veðskjöl marka forgangsrétt sem ráðist af fjárhæð veðskjals, samningsvöxtum og dráttarvöxtum, sem geti, samkvæmt b-lið 5. gr. laga nr. 75/1997, að hámarki verið vextir sem fallið hafa í gjalddaga á einu ári áður en beiðni um nauðungarsölu veðsettrar eignar sé sett fram eða kröfu lýst á uppboði. Nauðungarsölubeiðni varnaraðila Arion banka hf., dagsett 31. ágúst 2015, sé móttekin af sýslumanni 16. september 2015. Sóknaraðili kveður bersýnilegt af lestri ákvæðisins að forgangsréttur fyrir gjaldföllnum vöxtum haldist ekki, gagnvart síðari veðhöfum, lengur en eitt ár frá gjalddaga vaxtanna nema sérstaklega sé um það samið. Þeirri reglu verði ekki haggað nema með skýru lagaboði. Þá vísar sóknaraðili til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi til laga nr. 75/1997 um samningsveð.
Sóknaraðili kveður höfuðstól krafna varnaraðila Arion banka hf. upphaflega hafa verið að jafnvirði 21.000.000 króna (skuldabréf nr. 715958) og 14.000.000 króna (skuldabréf nr. 715286). Lánin hafi í upphafi verið óverðtryggð og bundin við gengistryggingu erlendra gjaldmiðla. Í málinu sé óumdeilt að ógreiddir vextir hafi verið höfuðstólsfærðir við endurútreikning á lánunum yfir í krónur. Af útreikningum varnaraðilans sé ljóst að leiðréttur höfuðstóll láns nr. 716286, án höfuðstólsfærslu vaxta, hafi verið 13.548.423 krónur og jafnframt að gjaldföllnum vöxtum að fjárhæð 6.361.154 krónur hafi verið bætt við framangreindan höfuðstól lánsins 17. febrúar 2015. Jafnframt sé ljóst að endurreiknaður höfuðstóll láns nr. 715958, án höfuðstólsfærslu vaxta, hafi verið 20.568.072 krónur og að gjaldföllnum vöxtum að fjárhæð 14.010.442 krónur hafi verið bætt við höfuðstól þess láns 17. febrúar 2015. Samtals nemi því vextir sem hafi verið höfuðstólsfærðir 20.371.596 krónum, sem að öllu leyti hafi fallið í gjalddaga fyrir 16. september 2014 eða meira en ári áður en nauðungarsölubeiðni varnaraðila Arion banka hf. hafi verið móttekin af sýslumanni. Þar sem vextirnir njóti ekki forgangs með aðalkröfunni samkvæmt b-lið 5. gr. laga nr. 75/1997 beri að breyta frumvarpi sýslumanns á þann veg að lækka úthlutun til varnaraðila Arion banka hf. um þá fjárhæð og að sóknaraðili fái sömu fjárhæð greidda upp í lýsta kröfu sína á 3. veðrétti.
Sóknaraðili mótmælir sem röngum þeim skilningi varnaraðila Arion banka hf. að endurútreikningur lánanna sé í samræmi við 4. málsl. 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 og að þar sem endurreiknaður höfuðstóll hafi legið fyrir 17. febrúar 2015, sem greiða hafi átt af í fyrsta skipti 1. mars 2015, verði ekki litið svo á að fyrir þann tíma hafi vextir lánanna fallið í gjalddaga í skilningi b-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1997. Sóknaraðili bendir á að í athugasemdum með frumvarpi að lögunum komi fram að tilgangur þeirrar reglu að forgangsréttur veðhafa fyrir vöxtum gagnvart síðari veðhöfum haldist ekki lengur en í eitt ár sé að koma í veg fyrir að veðhafi geti veitt skuldara óhæfilegan gjaldfrest á kostnað annarra veðhafa. Reglan auðveldi einnig mönnum að ganga úr skugga um hverjar skuldbindingar hvíli á tilteknum veðrétti eignar. Yrði fallist á röksemdir varnaraðila Arion banka hf. væri það í bága við ofangreindan tilgang. Engin rök standi til þess að ákvæði 4. málsl. 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 veiti veðhafa ríkari rétt. Sóknaraðili kveður varnaraðila Arion banka hf. ekki hafa sýnt fram á að hvikað hafi verið frá skýru ákvæði b-liðar 5. gr. laga nr. 75/1997 með síðari löggjöf tengdu erlendum lánum og endurútreikningi þeirra en koma hefði þurft skýrt fram ef vilji löggjafans hafi staðið til þess að hagga því ákvæði.
Að ofangreindu virtu telur sóknaraðili að miða verði við að varnaraðili Arion banki hf. fái úthlutað í samræmi við eftirstöðvar höfuðstóls lánanna, það er annars vegar 13.548.423 krónur og hins vegar 20.568.072 krónur, auk dráttarvaxta frá 16. september 2014, það er ári fyrir uppboðsbeiðni bankans, fram til uppboðsdags, 11. október 2016. Uppreiknaðar nemi kröfur varnaraðila Arion banka hf. því annars vegar 17.531.000 krónum og hins vegar 26.500.911 krónum, eða samtals 44.031.911 krónum. Er þess krafist að frumvarpinu verði breytt með þeim hætti að bankanum verði úthlutað sú fjárhæð en sóknaraðila verði úthlutað því sem eftir standi af söluverðinu að fullu upp í kröfur sínar.
Um lagarök vísar sóknaraðili til VIII. og XIII. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sérstaklega 1. mgr. 52. gr. þeirra, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 75/1997 um samningsveð og meginreglna kröfu- og veðréttar. Krafa um málskostnað er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991.
III.
Varnaraðili Arion banki hf. mótmælir öllum málsástæðum og röksemdum sóknaraðila. Varnaraðili byggir á því að kröfur hans í söluandvirði fasteignarinnar að Grjótási 6 séu í samræmi við fyrirliggjandi gögn málsins og fyrirmæli laga, þar með talið 2. mgr. 49. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, b-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð og 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. einnig dóma Hæstaréttar Íslands er varði endurútreikning gengistryggðra lána að teknu tilliti til útgefinna fullnaðarkvittana fyrir greiðslu vaxta.
Varnaraðili kveður óumdeilt að kröfur hans á hendur varnaraðila Agli Ragnari samkvæmt lánum nr. 715286 og nr. 715958 falli undir ákvæði til bráðabirgða X. kafla laga nr. 38/2001 og jafnframt að kröfurnar hafi falið í sér ólögmæta gengistryggingu. Þegar svo hátti til leiði af fyrirmælum 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. einkum 1., 3. og 5. mgr. þess ákvæðis, að vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laganna skuli reikna á upphaflegan höfuðstól skuldar, í íslenskum krónum, frá og með stofndegi viðkomandi kröfu. Þegar tekið hafi verið tillit til þeirra greiðslna sem inntar hafi verið af hendi vegna skuldarinnar, myndi þannig útreiknuð fjárhæð eftirstöðvar skuldarinnar, sem endurgreiða skuli í samræmi við það sem fram komi í 4. málslið 5. mgr. 18. gr. laganna. Þar sem endurútreikningur lánanna hafi endanlega legið fyrir 17. febrúar 2015 leiði af þessu og skilmálum lánanna, sbr. viðauka við lánin, dagsetta 30. júní 2008, að greiða hafi átt af endurreiknuðum höfuðstól lánanna í fyrsta skipti þann 1. mars 2015 og síðan á eins mánaðar fresti út lánstímann.
Varnaraðili byggir á því að af orðalagi 18. gr. laga nr. 38/2001, og greinargerð með frumvarpi því sem varð að ákvæðinu, verði ekki annað ráðið en að endurreiknaðar eftirstöðvar skuldar, í samræmi við ákvæðið, myndi í raun nýjan höfuðstól skuldar, sem endurgreiða skuli í samræmi við upphaflega, eða síðar ákvarðaða, endurgreiðsluskilmála viðkomandi láns. Varnaraðili byggir á því að þeir endurreiknuðu vextir sem myndað hafi eftirstöðvar viðkomandi skuldar, fyrir 17. febrúar 2015, hafi ekki verið fallnir í gjalddaga í skilningi b-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1997, líkt og haldið sé fram af sóknaraðila. Allt innheimtuferli lánanna frá endurútreikningi endurspegli þetta, þ.m.t. kröfulýsingar varnaraðila í söluandvirði fasteignarinnar þar sem fram komi að kröfurnar hafi verið í vanskilum frá 2. mars 2015, að kröfurnar hafi gjaldfallið á þeim degi og að dráttarvaxta sé krafist frá þeim tíma.
Varnaraðili byggir á því að fullt samræmi sé að þessu leyti milli 18. gr. laga nr. 38/2001 og b-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1997, og að túlkun lagaákvæðanna saman, meðal annars að teknu tilliti til tilgangs beggja, myndi ákveðna samfellu. Vandséð sé hvernig önnur skýring samrýmist fyrrgreindum lagaákvæðum og hagsmunum lántaka. Hvað sem því líði sé 18. gr. laga nr. 38/2001 sérákvæði um útreikning uppgjörskrafna vegna ólögmætrar verðtryggingar lánssamninga í formi gengistryggingar, sem gangi þar með framar b-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1997, auk þess að um yngra ákvæði sé að ræða.
Varnaraðili bendir á það að með setningu laga nr. 38/2014, um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, hafi löggjafarvaldið tekið af skarið með að umtalsverðan tíma hafi tekið að marka stefnu við úrlausn mála er tengist uppgjöri í kjölfar endurútreiknings gengistryggðra lána, enda eigi réttarágreiningurinn sér vart hliðstæðu á íslenskum fjármálamarkaði. Þetta ætti sóknaraðila, sem fjármálafyrirtæki í slitameðferð, að vera fullkunnugt um. Í engu tilviki hafi varnaraðili veitt lántökum óeðlilegan gjaldfrest á greiðslum af lánum sínum heldur hafi varnaraðili fylgt fyrirmælum laga, og síðar dómafordæmum Hæstaréttar, við endurútreikning lánanna.
Varnaraðili tekur fram í þessum sambandi að ef hann hefði ekki endurskoðað fyrri endurreikning lánanna 17. febrúar 2015 hefði hann lýst hærri fjárhæð í söluandvirði fasteignarinnar við uppboðið þann 11. október 2016 en raunin hafi verið. Í því tilviki hefði lýst fjárhæð láns nr. 715286 að lágmarki numið 26.411.757 krónum, þ.e. endurreiknaðar eftirstöðvar lánsins þann 4. júlí 2011 að fjárhæð 19.131.520 krónur, auk dráttarvaxta frá 14. september 2014 til 11. október 2016, að fjárhæð 7.280.237 krónur. Að sama skapi hefði lýst fjárhæð láns nr. 715958 að lágmarki numið 41.925.204 krónum, þ.e. endurreiknaðar eftirstöðvar lánsins þann 4. júlí 2011 að fjárhæð 30.368.781 króna auk dráttarvaxta að fjárhæð 11.556.423 krónur. Þetta sýni að endurskoðun endurreiknings lánanna hafi bæði verið lántökum og öðrum veðhöfum fasteignarinnar að Grjótási 6 til hagsbóta.
Með vísan til alls þess sem að framan greinir telur varnaraðili óhjákvæmilegt að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 25. janúar 2017, í nauðungarsölumáli nr. 304/2015, þess efnis að frumvarp að úthlutunargerð á söluverði fasteignarinnar Grjótás 6, Garðabæ, fastanr. 225-8307, standi óhaggað.
Um lagarök vísar varnaraðili til meginreglna kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og efndir samninga, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 3., 4. og 18. gr. og ákvæða til bráðabirgða X., XI. og XIV. , b-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð og laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Krafa varnaraðila um málskostnað styðst við 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Eins og að framan greinir var fasteign varnaraðila Egils Ragnars að Grjótási 6 í Garðabæ seld nauðungarsölu 11. október 2016. Varnaraðili Arion banki hf. lýsti tveimur kröfum í söluverðið. Annars vegar vegna veðskuldabréfs upphaflega að jafnvirði 14.000.000 króna, sem útgefið var 30. maí 2007 af varnaraðila Agli Ragnari og Heiðu Jóhannsdóttur, með 1. veðrétti í eigninni, og hins vegar vegna veðskuldabréfs upphaflega að jafnvirði 21.000.000 króna, sem útgefið var 6. september 2007 af sömu aðilum, með 2. veðrétti í eigninni. Í frumvarpi að úthlutunargerð á söluverði fasteignarinnar féllst sýslumaður á kröfur varnaraðila Arion bank hf. eins og þeim var lýst. Samkvæmt 4. lið frumvarpsins skyldi varnaraðilinn því fá greiddar 24.882.582 krónur vegna veðskuldabréfs á 1. veðrétti og samkvæmt 5. lið frumvarpsins 40.434.650 krónur vegna veðskuldabréfs á 2. veðrétti. Í málinu leitar sóknaraðili úrlausnar héraðsdóms um þá ákvörðun sýslumanns 25. janúar 2017 að hafna athugasemdum hans við kröfur varnaraðila Arion banka hf. og að frumvarpið skyldi standa óhaggað. Sóknaraðili reisir kröfur sínar í málinu á því að frumvarpið geri ráð fyrir því að vextir á kröfur Arion banka hf., sem ekki ættu að njóta forgangsréttar við úthlutun samkvæmt b-lið 5. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð, fáist greiddar af andvirði hinnar nauðungarseldu eignar.
Fyrir liggur að við endurútreikning varnaraðila Arion banka hf. á áðurgreindum lánum átti varnaraðili Arion banki hf. kröfu á hendur varnaraðila Agli Ragnari vegna ógreiddra vaxta. Bæði við endurútreikning 4. júlí 2011 og við leiðréttan endurútreikning 17. febrúar 2015 lagði varnaraðili Arion banki hf. áfallna en ógreidda vexti af lánunum, fram að viðkomandi degi, við höfuðstól lánanna þannig að það myndaði nýjan höfuðstól. Hefur varnaraðili stutt heimild sína til þessa við 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Í 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010 sem tóku gildi 29. desember 2010, er kveðið á um aðferð sem leggja skal til grundvallar þegar gengið er til uppgjörs vegna krafna sem hafa haft að geyma ákvæði um ólögmæta vexti og verðtryggingu. Samkvæmt ákvæðinu skal við ákvörðun endurgreiðslu eða útreikning á stöðu skuldar, eins og á við í því tilviki sem hér um ræðir, vaxtareikna upphaflegan höfuðstól kröfu miðað við vexti samkvæmt 4. gr. laganna. Frá höfuðstól og áföllnum vöxtum skal síðan draga þær fjárhæðir sem inntar hafa verið af hendi fram að uppgjörsdegi sem vextir, hvers kyns vanskilaálögur og afborganir miðað við hvern innborgunardag. Í ákvæðinu segir síðan að þannig útreiknuð fjárhæð myndi eftirstöðvar skuldarinnar og skuli þá upphaflegir eða síðar ákvarðaðir endurgreiðsluskilmálar gilda að því er varði lánstíma, gjalddaga og aðra tilhögun á greiðslu skuldar, allt að teknu tilliti til þeirra breytinga sem leiði af ákvæðum greinarinnar.
Samkvæmt gögnum málsins endurreiknaði varnaraðili lán varnaraðila Egils Ragnars í samræmi við fyrirmæli 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 hinn 4. júlí 2011, þ.e. reiknaðir voru vextir samkvæmt 1. málslið 4. gr. laganna á upphaflegan höfuðstól lánanna og dregin frá sú fjárhæð sem greidd hafði verið inn á lánin. Myndaði þannig útreiknuð fjárhæð nýjan höfuðstól skuldarinnar á uppgjörsdegi. Að gengnum dómi Hæstaréttar Íslands 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011, þar sem því var hafnað að kröfuhafi gæti á grundvelli laga nr. 151/2010 átt tilkall til viðbótarvaxta fyrir liðna tíð, bar varnaraðila Arion banka hf. að leiðrétta þann endurútreikning með hliðsjón af niðurstöðu dómsins. Endurskoðaður endurútreikningur fór sem áður segir fram 17. febrúar 2015. Verður fallist á það með varnaraðila Arion banka hf. að sú aðgerð hans að mynda nýjan höfuðstól skuldar við endurútreikninga lánanna eigi stoð í 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Var honum því rétt að lýsa kröfum í söluandvirði fasteignarinnar Grjótáss 6 er tóku mið af endurskoðuðum endurútreikningi lánanna og verður ekki talið að ákvæði b-liðar 5. gr. laga nr. 75/1997 hafi staðið því í vegi.
Samkvæmt b-lið 5. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð eru vextir af skuld, sem fallið hafi í gjalddaga á einu ári áður en beiðni um nauðungarsölu veðsettrar eignar er sett fram, tryggðir með aðalkröfunni, nema annað leiði af samningi þeim sem til veðréttarins stofnaði. Samkvæmt gögnum málsins gjaldfelldi varnaraðili Arion banki hf. lán varnaraðila Egils Ragnars 2. mars 2015. Frá og með endurútreikningi lánanna 17. febrúar 2015 fram til 2. mars sama ár reiknuðust samningsvextir af kröfunum en frá þeim degi dráttarvextir. Beiðni varnaraðila Arion banka hf. um nauðungarsölu á Grjótási 6, Garðabæ, var móttekin hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 16. september 2015. Vextir af kröfum varnaraðila Arion banka hf. í söluandvirðið hafa því að engu leyti glatað forgangsrétti.
Með hliðsjón af öllu framangreindu ber að hafna bæði aðal- og varakröfu sóknaraðila í málinu og skal ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 25. janúar 2017, í nauðungarsölumáli nr. 304/2015, þess efnis að frumvarp að úthlutunargerð á söluverði fasteignarinnar Grjótás 6, Garðabæ, fastanr. 225-8307, standi óbreytt, staðfest.
Með hliðsjón af málsúrslitum og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, skal sóknaraðili greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfum sóknaraðila, þrotabús VBS eignasafns hf., um að frumvarp til úthlutunar söluverðs fasteignarinnar Grjótás 6, Garðabæ, fastanúmer 225-8307, dags. 24. nóvember 2016, verði breytt á þá leið að kröfur varnaraðila Arion banka hf. samkvæmt 4. tl. og 5. tl. frumvarpsins verði lækkaðar, er hafnað og er frumvarpið staðfest.
Sóknaraðili skal greiða varnaraðila Arion banka hf. 300.000 krónur í málskostnað.