Hæstiréttur íslands
Mál nr. 344/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Niðurfelling máls
- Málskostnaður
|
|
Þriðjudaginn 15. júní 2010. |
|
Nr. 344/2010. |
Theodór Marrow Kjartansson (Hlöðver Kjartansson hrl.) gegn BYR hf. (enginn) |
Kærumál. Niðurfelling máls. Málskostnaður.
B hf. höfðaði mál á hendur T en felldi málið niður. Krafa T um málskostnað var lögð í úrskurð dómara sem úrskurðaði að B hf. skyldi greiða T 94.125 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti. T kærði þann úrskurð til Hæstaréttar. Var þar meðal annars litið til þess að krafa B hf. um niðurfellingu málsins kom fram eftir að T hafi skilað greinargerð í málinu, eftir að hafa fengið nokkrum sinnum frest í því skyni. Þá var tekið tillit til þess að B hf. höfðaði tvö samkynja mál á hendur T sem hlutu sömu meðferð og þetta mál. Þegar þessi atriði og umfang málsins voru virt var B hf. gert að greiða T 200.000 krónur í málskostnað í héraði auk kærumálskostnaðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. maí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. maí 2010, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um málskostnað í máli varnaraðila á hendur sóknaraðila, sem var fellt niður. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að „varnaraðili verði dæmdur til að greiða sóknaraðila hærri málskostnað en ákveðinn var í héraðsdómi og að skaðlausu fyrir héraðsdómi og kærumálskostnað.“
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði varnaraðili mál á hendur sóknaraðila og krafðist 7.726.672 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. janúar 2009 til greiðsludags. Þá krafðist varnaraðili staðfestingar á veðrétti samkvæmt tveimur tryggingarbréfum. Málið var þingfest 4. nóvember 2009. Sóknaraðili lagði fram greinargerð 3. mars 2010 þar sem hann krafðist aðallega frávísunar málsins, til vara sýknu, en að því frágengnu lækkunar á fjárkröfu varnaraðila. Málið var tekið fyrir alls átta sinnum í héraði áður en varnaraðili krafðist á dómþingi 5. maí 2010 að það yrði fellt niður, en sóknaraðili málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Gekk hinn kærði úrskurður í framhaldi af því.
Krafa sóknaraðila um málskostnað í héraði, samtals að fjárhæð 1.127.939 krónur, er reiknuð út sem hlutfall af fjárhæð stefnukröfu með dráttarvöxtum til 5. maí 2010, eða 15% af 3.500.000 krónum en síðan 5% af 6.275.118 krónum. Þá er krafist 60.000 króna í svokallað grunngjald, auk 229.183 króna í virðisaukaskatt.
Varnaraðili höfðaði tvö önnur samkynja mál á hendur sóknaraðila, sbr. hæstaréttarmálin nr. 342/2010 og 343/2010, en sömu lögmenn unnu fyrir aðila í þeim málum. Í kæru til Hæstaréttar vísar sóknaraðili einnig til tímagjalds lögmanns síns vegna útseldrar vinnu í þessum málum öllum, án þess að sundurgreina þann kostnað sérstaklega vegna hvers máls fyrir sig. Fram kemur að lögmaður hans hafi unnið við þessi mál „samtals a.m.k. 32 klst.“
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að dæma varnaraðila til greiðslu málskostnaðar. Við ákvörðun um fjárhæð hans verður meðal annars litið til þess að krafa varnaraðila um niðurfellingu máls kom fram eftir að sóknaraðili hafði skilað greinargerð í málinu, en í fyrrgreindum fjölda vinnustunda lögmanns hans við málin þrjú eru taldar tíu klukkustundir vegna þingsóknar til að fá fresti í þessu skyni. Þegar þessi atriði og umfang málsins eru virt verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn verður eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákvæði hins kærða úrskurðar um niðurfellingu málsins skal vera óraskað.
Varnaraðili, BYR hf., greiði sóknaraðila, Theodóri Marrow Kjartanssyni, 200.000 krónur í málskostnað í héraði og 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. maí 2010.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 5. maí sl., er höfðað með birtingu stefnu 20. október 2009.
Stefnandi er BYR hf., kt. 620410-0200, Borgartúni 18, Reykjavík, áður Byr sparisjóður, kt. 610269-2229, sama stað.
Stefndi er Theodór Marrow Kjartansson, kt. 290742-4719, Marargrund 11, Garðabæ.
Upphaflegar dómkröfur stefnanda voru þær að stefnda yrði gert að greiða 7.726.672 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. janúar 2009 til greiðsludags. Þá var þess krafist að stefnanda yrði heimilt að færa dráttarvexti upp á höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001. Þá krafðist stefnandi þess að staðfestur yrði veðréttur hans samkvæmt veðtryggingarbréfum, útg. 3. október 2005 að fjárhæð 2.500.000 krónur og útg. 21. desember 2005 að fjárhæð 2.000.000 krónur, allsherjarveði, tryggðum upphaflega með 8. og 9. veðrétti í Marargrund 11, Garðabæ, fasteignamatsnúmer 207-1695 og uppfærslurétti, en framangreint tryggingarbréf standi samkvæmt efni sínu til tryggingar efndum stefnda Theodórs Marrow Kjartanssonar gagnvart stefnanda.
Þá krafðist stefnandi málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi ásamt virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Upphaflegar dómkröfur stefnda voru þær aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, en til vara að stefndi yrði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi yrði í báðum tilvikum dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að meðtöldum virðisaukaskatti. Til þrautavara var þess krafist að kröfur stefnanda yrðu lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður. Yrðu dómkröfur stefnanda teknar til greina var þess krafist til þrautaþrautavara að málskostnaður yrði felldur niður.
Samkvæmt yfirlýsingu Jóns Finnbogasonar framkvæmdastjóra Byrs hf., dags. 27. apríl 2010, sbr. dskj. nr. 10, var eignum og skuldum Byrs sparisjóðs, kt. 610269-2229, ráðstafað til Byrs hf., kt. 620410-0200, með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hinn 22. apríl 2010. Í yfirlýsingunni segir ennfremur að Byr hf. taki við aðild í öllum málum sem Byr sparisjóður hafi áður átt aðild að og tengist kröfum sparisjóðsins á hendur öðrum, nema annað sé sérstaklega tilkynnt. Gildi það jafnt við meðferð þeirra fyrir dómstólum, sýslumönnum eða öðrum stjórnvöldum.
Með vísan til c-liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að fella mál þetta niður.
Stefnandi greiði stefnda 94.125 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti. Við ákvörðun málskostnaðar er tekið tillit til tildæmds málskostnaðar í samkynja málum málsaðila nr. E-4607 og 4608/2009, sem þingfest voru sama dag og þetta mál og hafa einnig verið felld niður að kröfu stefnanda.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Mál þetta er fellt niður.
Stefnandi, BYR hf., greiði stefnda, Theodór Marrow Kjartanssyni, 94.125 krónur í málskostnað.
Ragnheiður Bra