Hæstiréttur íslands

Mál nr. 244/2005


Lykilorð

  • Alferðir
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. nóvember 2005.

Nr. 244/2005.

Dóra Bryndís Hjördísardóttir

(Örn Höskuldsson hrl.)

gegn

Ferðaskrifstofu Íslands hf.

(Valgeir Pálsson hrl.)

 

Alferðir. Líkamstjón. Skaðabætur. Gjafsókn.

D krafði F hf. um greiðslu bóta á grundvelli 13. gr. laga nr. 80/1994 um alferðir vegna áverka í andliti er hún hlaut árið 1999 í alferð, sem hafði verið keypt hjá félaginu. Hlaut D áverkana er hún rakst í kafi í stiga við sundlaug gistihússins þar sem hún dvaldist. Ekki var talið að viðhlítandi gögn lægju fyrir um tildrög slyssins og aðstæður í sundlauginni. Þótti því ósannað að slysið yrði rakið til vanbúnaðar á stiganum og var F hf. því sýknað af kröfu D.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. júní 2005. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 5.787.375 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.281.560 krónum frá 24. júlí 1999 til 24. september sama ár og af 5.787.375 krónum frá þeim degi til 14. júní 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af síðastgreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að krafa áfrýjanda verði lækkuð og beri 4,5% ársvexti frá 16. september 2000 til þess dags, sem dómur er kveðinn upp í Hæstarétti, en dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags. Að því frágengnu beri dæmd fjárhæð 4,5% ársvexti frá 16. september 2000 til 16. september 2004, en dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags. Í báðum síðastnefndu tilvikunum krefst stefndi þess að málskostnaður falli niður.

Áfrýjandi hefur stefnt Tryggingamiðstöðinni hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi hlaut áfrýjandi verulega áverka í andliti 24. júlí 1999 þegar hún var stödd ásamt fjölskyldu sinni í Portúgal í svokallaðri alferð, sem keypt hafði verið hjá stefnda. Áfrýjandi, sem þá var tæplega 13 ára að aldri, var í sundlaug við gistihús, sem fjölskyldan dvaldist á, þegar hún rakst í kafi utan í stiga upp úr lauginni. Skarst hún mjög í andliti og sködduðust í henni tennur. Af þessum áverkum hlaut áfrýjandi varanlega örorku og varanlegan miska, sem hún krefst skaðabóta fyrir ásamt bótum fyrir þjáningar, en óumdeilt er að hún njóti vegna þessa atviks réttar til greiðslu úr hendi stefnda samkvæmt ákvæðum 13. gr. laga nr. 80/1994 um alferðir ef skilyrðum er fullnægt fyrir bótaskyldu.

Í málinu liggja ekki fyrir viðhlítandi gögn um nánari tildrög að slysi áfrýjanda og aðstæður í sundlauginni, þar sem atvik gerðust. Er þannig ósannað að slysið verði rakið til vanbúnaðar á áðurnefndum stiga. Samkvæmt þessu verður að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Dóru Bryndísar Hjördísardóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. febrúar 2005.

             Mál þetta, sem var dómtekið 25. janúar  sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Dóru Bryndísi Hjördísardóttur, Barrholti 5, Mosfellsbæ gegn Ferðaskrifstofu Íslands hf., Lágmúla 4, Reykjavík og Tryggingamiðstöðinni hf., Aðalstræti 6-8,  Reykjavík  til   réttargæslu, með stefnu birtri 16. september 2004.

             Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefnda verði dæmd til þess að greiða stefnanda bætur að fjárhæð 5.787.375 krónur ásamt vöxtum samkvæmt skaðabótalögum, 4,5 % frá slysdegi 24.07.1999 af  1.281.560 krónum til 24.09.1999  en af 5.787.375 krónum frá þeim degi til 14.06.2004 en með dráttarvöxtum samkvæmt l. nr. 38/2001 frá þeim degi og til greiðsludags.  Þá  er  þess  krafist      stefnda  verði   dæmd  til   greiðslu  málskostnaðar  ásamt virðisaukaskatti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.  Ekki eru gerðar kröfur á hendur réttargæslustefnda.

             Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega að vera sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins. Til vara er krafist verulegrar lækkunar á stefnufjárhæð og málskostnaður verði látinn niður falla. Ef bætur verða að einhverju leyti tildæmdar er þess krafist að þær beri 4,5% ársvexti frá 16.09.2000 til endanlegs dómsuppsögudags, en beri dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautavara er þess krafist, að tildæmd bótafjárhæð beri 4,5% ársvexti frá 16.09.2000 til 16.09.2004, en dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar, enda engum kröfum beint að honum.

 

Málavextir.

             Stefnandi var ásamt fjölskyldu sinni í sumarfríi í Portúgal.  Ferðin var svonefnd alferð, þ.e. keypt var flug og gisting hjá stefnda.  Þann 24. júlí 1999 slasaðist stefnandi, sem þá var 13 ára, á andliti er hún rakst á stiga í sundlaug við Hótel Apartamento Alagoamar í bænum Albufeira í Portúgal. Stefnandi lýsir slysinu þannig að  hún hafi stungið sér til sunds og á leiðinni úr kafi hafi hún rekist á stigann upp úr lauginni.  Hún skarst  mjög illa í andliti einkum í kringum nef og út á kinn vinstra megin auk þess sem þrjár tennur í henni brotnuðu og einhverjar losnuðu. Alls munu átta tennur hafa skaddast. Á vettvang kom fararstjóri, þ.e. starfsmaður stefndu en ekki fór fram nein rannsókn á vettvangi eða aðstæðum á slysstað.  Stefnandi hefur í kjölfarið þurft að gangast undir lýtaaðgerðir m.a. sumarið 2000, þar sem vinstri nasavængur var lagfærður og reynt að bæta loftflæði um vinstri nös.

Sigurjón Sigurðsson læknir mat læknisfræðilegar afleiðingar slyssins og er niðurstaða hans sú að þjáningar án rúmlegu væru 5 mánuðir, varanlegur miski 20 % og

varanleg örorka 20 %.

             Dómkrafa stefnanda sundurliðast á eftirfarandi hátt:

Þjáningabætur án rúmlegu kr. 990 x 154 dagar                                 "                 152.460.-

Varanlegur miski kr. 5.645.000 x 20%                                                 "              1.129.100.-

Varanleg örorka 1.385.000.- x 16.266 x 20 %                                      "              4.505.815.-

Alls                                                                                                         "              5.787.375.-

 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi telur að orsök slyssins megi rekja til vanbúnaðar á tröppum þeim sem liggja upp úr sundlauginni. Stefnandi telur að stigi sá sem hún rakst á hafi verið þannig úr garði gerður, að hann hafi verið hættulegur. Hafi neðri brún þrepa stigans verið svo skörp, að hættulegt sé þeim sem rekast upp undir þrepin eins og sjáist best af því slysi sem hún varð fyrir. Hafi samferðafólk hennar sem skoðaði stigann eftir slysið borið að orsök slyssins hafi verið sú að tröppurnar hafi verið svo beittar.

Stefnandi telur að óforsvaranlegt sé að selja sumarleyfisferðir með hótelgistingu þar sem börnun sé hætta búin við að fara í sundlaugina. Alkunna sé hve mjög börn hafa gaman af að fara í sundlaugar, ekki síst þar sem sól er og mikill hiti.

Stefnandi kveðst vera með varanlegan miska og varanlega örorku eftir slys þetta og beri andlitslýti eftir það, auk þess sem afleiðingar þess muni geta haft mikil áhrif á starfsval hennar í framtíðinni. Kveðst stefnandi vera með stöðugan höfuðverk eftir slysið og forðist hún umgengni við annað fólk vegna lýta þeirra sem hún hefur á andliti eftir slysið. Þá sé hún orðin mjög gleymin eftir slysið og hafi það haft áhrif á vinnugetu hennar.

Stefnandi telur að um sé að ræða vanefnd á framkvæmd þess samnings sem gerður var um ferðina og beri hin stefnda ferðaskrifstofa ábyrgð á tjóni því sem hún varð fyrir vegna þeirra áverka sem hún fékk umrætt sinn. Stefnandi bendir á að enginn reki hafi verið gerður að því að rannsaka slys þetta eða vettvang þess af hálfu hinna stefndu þrátt fyrir að starfsmaður stefnda hafi komið á staðinn er slysið varð. Stefnandi telur því, að stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að ekki hafi verið um vanrækslu af hálfu hótelsins að ræða umrætt sinn.

TM hf., tryggingafélag stefnda, hefur neitað bótaskyldu sinni þar sem það telur að ekki sé um að ræða sök hjá ferðaskrifstofunni þar sem ekki hafi verið lögð fram gögn um að frágangur umrædds stiga hafi verið óforsvaranlegur. Telur félagið að um sé að ræða óhappatilvik sem baki ferðaskrifstofunni ekki skaðabótaábyrgð.

Varðandi lagarök vísar stefnandi til 12. og 13. gr. 1. nr. 80/1994 um alferðir. Um útreikning skaðabótakröfu vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993. Um málskostnað vísar stefnandi til 129. gr. og 130. gr. l. nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Málsástæður og lagarök stefnda.

             Stefndi bendir í fyrsta lagi á tildrög slyssins eins og þau koma fram í gögnum málins.  Þannig kveðst stefnandi í lögregluskýrslu 15. október 1999 hafa stungið sér til sunds, en þegar hún hafi komið upp hafi hún rekið andlitið í neðanverðan stiga í sundlauginni. Í læknisvottorði Ingvars Ingvarssonar heilsugæslulæknis, frá 15. október 1999, segir að stefnandi hafi verið að stinga sér til sunds og rekið sig harkalega í stiga. Í læknisvottorði Rafns A. Ragnarssonar lýtalæknis, frá 25. mars 2002, kemur fram að stefnandi hafi í umrætt sinn stungið sér til sunds í sundlaug hótelsins og hlotið áverkann þannig að andlitið hafi klemmst milli sundlaugarbotns og stiga „sem ekki náði með einhverjum hætti alveg niður á botninn“. Í örorkumati Sigurjóns Sigurðssonar læknis, frá 14. júní 2004, segir að slysið hafi atvikast þannig að stefnandi hafi stungið sér til sunds í sundlauginni. Þegar hún var á leið upp aftur hafi hún rekið andlitið í neðri hluta stiga, sem náði ekki niður á botn, og við það skorist illa í andlitinu auk þess að hljóta tannáverka. Stefndi telur að ætla verði eins og  tildrögum slyssins og þeim andlitsáverkum sem stefnandi hlaut hefur verið lýst, að stefnandi hafi á einhvern hátt stungið sér eða spyrnt sér af miklu afli í átt að stiganum og haft andlitið á undan. Stefndi telur að ekki verði  með nokkru móti séð að stiginn, gerð hans eða lögun, hafi valdið því hversu illa stefnandi skarst í andlitinu og tennur sködduðust. Stefndi telur að ekkert bendi til þess, að umræddur stigi hafi verið vanbúinn eða haldinn einhverjum galla. Þá vísar stefndi því á bug sem röngu og tilhæfulausu að stiginn hafi verið hættulegur. Sérstaklega er mótmælt sem röngu, að neðri brúnir á þrepum stigans hafi að einhverju leyti verið svo skarpar að hættulegt hafi verið að rekast upp undir þrepin; eða að orsök slyssins hafi verið sú „að tröppurnar hafi verið svo beittar“. Stefndi leggur áherslu á að slysið verði fyrst og síðast rakið til þess hversu hratt stefnandi kom að stiganum og þá um leið hversu harkalega hún skall af þeim sökum á stigaþrepin.

Stefndi hafnar þeirri málsástæðu stefnanda að um vanefnd á framkvæmd þess samnings sem gerður var um ferðina hafi verið að ræða og því beri stefndi ábyrgð á því tjóni sem hún hlaut í slysinu. Stefndi heldur því fram að grundvallarskilyrði þess að stefnandi geti átt skaðabótarétt úr hendi stefnda skv. 13. gr.  laga nr.  80/1994  sé, að  sýnt  sé fram á að meiðsli hennar hafi verið rakin til ófullnægjandi ferðar. Í þessu felist að stefnandi verður fyrst af öllu að sanna að stigi sá, sem hún rakst á, hafi verið vanbúinn eða haldinn annars konar ágalla og að slysið verði rakið til vanbúnaðarins eða gallans. Að öðrum kosti getur bótaregla 13. gr. ekki komið til álita. Stefndi telur að samkvæmt gögnum málsins sé ekki minnsta vísbending um, að stiginn hafi verið vanbúinn eða haldinn einhverjum ágalla, hvað þá að slíkt teljist sannað að lögum. Stefndi telur því af og frá að bótaskylda stefnda verði í máli þessu reist á reglum laga um alferðir.

Stefndi mótmælir eindregið þeim sjónarmiðum stefnanda, að þar sem stefndi hafi ekki hlutast til um rannsókn á slysinu og slysavettvangi, þá beri hann sönnunarbyrðina um það að slysið hafi ekki hlotist af völdum vanrækslu af hálfu hótelsins. Stefndi heldur því fram að á honum hvíldi engin sérstök skylda til að hlutast til um að rannsókn á slysinu færi fram. Þá liggi heldur ekkert fyrir um að slík skylda hafi hvílt á hóteli því sem í hlut átti. 

Varðandi varakröfu stefnda um lækkun bóta er annars vegar vísað til eigin sakar stefnanda og hins vegar þess að bótakröfur séu allt of háar einkum vegna þess að fyrirliggjandi örorkumat sé allt of hátt.

Varðandi eigin sök ítrekar stefndi að stefnandi hafi skollið á stiganum af miklu afli. Verður það aðallega rakið til þess að stefnandi hefur stungið sér eða spyrnt sér frá laugarbakkanum eða botni laugarinnar af svo miklu afli í námunda við stigann að hún hefur verið á óvenju miklum hraða er hún lenti á stiganum. Hún hefur því sýnt verulegt aðgæsluleysi í umrætt sinn, jafnvel þótt hún hafi verið einungis tæpra 13 ára gömul. Hún verður að sæta því samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar að bótakröfur verði lækkaðar verulega vegna eigin sakar.

Þá bendir stefndi á að stefnandi hafi einhliða óskað eftir því örorkumati sem hún byggir bótakröfur sínar á. Það er illa rökstutt og ógjörningur að átta sig á hvaða sjúkdómseinkenni það nákvæmlega eru sem talin eru leiða til þeirrar háu örorku sem metin er. Af hálfu stefnda er því mótmælt að af fyrirliggjandi læknisfræðilegum gögnum verði ráðið að höfuðverk, gleymsku og slakan námsárangur megi rekja til afleiðinga slyssins. Er því mótmælt að umrætt örorkumat verði lagt til grundvallar við ákvörðun bóta í málinu. Stefndi áskilur sér rétt til að afla nýs mats undir rekstri málsins, annað hvort hjá örorkunefnd eða fá dómkvadda matsmenn til að meta örorkuna að nýju.

Þá gerir stefndi athugasemdir við útreikning þjáningabóta. Samkvæmt örorkumati verður ekki betur séð en stefnandi hafi náð að jafna sig á tveimur mánuðum og heilsufar verið orðið stöðugt 24. september 1999. Ekki eru því skilyrði til að greiða þjáningabætur fyrir lengra tímabil en 63 daga, sbr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Stefndi telur ekki skilyrði fyrir dráttarvöxtum fyrr en í fyrsta lagi frá endanlegum dómsuppsögudegi í málinu og vísar til  síðari málsliðar 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.

Stefndi bendir á að rúm fimm ár liðu frá því slysið varð uns stefnandi höfðaði málið, lagði fram örorkumat og gerði fyrst formlega bótakröfu á hendur stefnda. Er af og frá að lagagrundvöllur sé fyrir því að krafa stefnanda geti borið dráttarvexti fyrr en í fyrsta lagi frá þeim degi sem mál þetta var höfðað. Með vísan til 4. mgr. 5. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, er þess krafist til þrautavara að dráttarvextir reiknist frá þeim degi eða 16. september 2004, en þann dag var stefna árituð af lögmanni fyrir hönd stefnda.

Hvað sem öllu líður þá eru vextir skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum eldri en fjögurra ára við höfðun málsins 16. september 2004 fyrndir, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Upphafsdagur ófyrndra vaxta getur því í fyrsta lagi verið 16. september 2000.

Málskostnaðarkröfur stefnda, bæði í aðalkröfu og varakröfu, eru reistar á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Forsendur og niðurstaða.

             Af hálfu stefnanda er aðallega byggt á því að stiginn við sundlaugina við hótel Apartamento Alagoamar hafi verið vanbúinn og þar af leiðandi beri stefndi ábyrgð á tjóni stefnanda og er vísað til 13. gr. laga um alferðir nr. 80/1994.  Af hálfu stefnda hefur því ekki verið mótmælt að nefnd lög eigi við, en aðallega er byggt á því að ósannað sé að stiginn hafi verið vanbúinn eða haldinn ágöllum. 

             Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 80/1994 um alferðir 13. gr. er tekið fram, að farkaupi, það er stefnandi í þessu tilviki, beri að sýna fram á að um tjón eða slys hafi verið að ræða og að orsakasamhengi sé fyrir hendi. Því er það stefnanda að sýna fram á vanbúnað stigans og er þetta einnig í samræmi við venjulegar reglur í skaðabótarétti. Stefnandi hefur forræðið yfir því hvernig hann sannar málatilbúnað sinn.  Í málinu vísar hann, til stuðnings þessari málsástæðu sinni, til vitnisburðar fjögurra einstaklinga, það er móður stefnanda og þriggja sumarleyfisgesta.  Sáu þau þó ekki hvernig slysið átti sér stað, þar sem þau voru öll stödd á sundlaugarbakkanum, en ekki undir vatnsborðinu.  Vitnunum ber ekki saman um það hvort stefnandi hafi hoppað út í sundlaugina eða stungið sér, en stefnandi hefur sjálf fyrir lögreglu lýst slysinu á þann veg, að hún hafi stungið sér í laugina.  Slíkt var bannað samkvæmt varúðarskilti sem var við laugina. Dómurinn lítur svo á, að vitnisburður þessara fjögurra einstaklinga sanni ekki að um vanbúnað á stiganum hafi verið að ræða. Ekkert liggur fyrir um að þau hafi sérþekkingu á sundlaugarstigum. Af framlögðum ljósmyndum að dæma virðist hér vera um venjulegan sundlaugarstiga að ræða og vottorð liggur fyrir í málinu frá framleiðanda að stiginn sé framleiddur samkvæmt tilgreindum stöðlum um sundlaugarstiga.  Þá liggja einnig fyrir gögn frá opinberum aðilum í Portúgal að um fjögurra stjörnu hótel sé að ræða.  Ekkert er komið fram um það, að þessi eini stigi þar sem óhappið átti sér stað  hafi verið frábrugðinn öðrum stigum við laugina, en þeir munu vera fjórir.  Því lítur dómurinn svo á, að stefnanda hafi ekki tekist að sanna ætlaðan vanbúnað á stiganum. Verður því ekki fallist á, að alferðin hafi verið ófullnægjandi og verður bótakrafan þar af leiðandi ekki byggð á lögum um alferðir nr. 80/1994.

             Dómurinn lítur svo á, að ekki sé til staðar lagaskylda á hendur stefnda fyrir því að láta rannsaka óhappið sérstaklega þegar það átti sér stað.  Því verður bótaábyrgð ekki byggð á því atriði.

             Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins, að stefnanda hafi ekki tekist að sanna rétt sinn til skaðabóta úr hendi stefnda og er dómkröfum því hafnað.

             Eftir atvikum er rétt, að málskostnaður milli aðila falli niður.  Gjafsóknar-kostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmannsins, Arnar Höskuldssonar hrl., sem er hæfilega ákveðin 320.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun þóknunarinnar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

             Af hálfu stefnanda flutti málið Örn Höskuldsson hrl.

             Af hálfu stefnda flutti málið Valgeir Pálsson hrl.

             Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ

           Stefndi, Ferðaskrifstofa Íslands hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Dóru Bryndísar Hjördísardóttur, í máli þessu. 

          Málskostnaður milli aðila fellur niður.

         Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 320.000 krónur greiðist úr ríkis­sjóði.