Hæstiréttur íslands

Mál nr. 95/2001


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Matsgerð
  • Gagnsök


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. september 2001.

Nr. 95/2001.

Þrotabú Samnor ehf.

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

gegn

Trétaki ehf.

(Árni Pálsson hrl.)

 

Verksamningur. Matsgerð. Gagnsök.

S gerði munnlegan samning við T um að annast trésmíði við endurbyggingu fasteignar. Þegar kom að uppgjöri fyrir verkið neitaði S að greiða eftirstöðvar reikninga T að fjárhæð 2.324.566 krónur, en S hafði áður greitt 20.377.484 krónur upp í verkið. T höfðaði mál á hendur S til heimtu skuldarinnar og óskaði S þá eftir því að dómkvaddur yrði maður til að meta hvert væri eðlilegt endurgjald fyrir verkið. Í matsgerð kom fram að aðilar væru ekki sammála um hvaða verkþætti T hefði innt af hendi, en að matsmaður hefði ákveðið að 31 verkþáttur af 89, sem T héldi fram að hann hefði sinnt til viðbótar því sem S hefði viðurkennt, yrði tekinn með í matið. Á þessum grunni taldi matsmaðurinn hæfilegt gjald fyrir þá verkþætti sem matsgerðin tók til vera 17.000.000 krónur. Á grundvelli matsgerðarinnar höfðaði S gagnsök og krafðist þess að T yrði gert að greiða sér 3.377.484 krónur eða mismuninn á samanlögðum greiðslum S til T og niðurstöðu matsgerðarinnar. Við aðalmeðferð málsins bar framkvæmdastjóri S að hann drægi ekki í efa að T hefði leyst af hendi alla þá verkþætti sem T hefði gert matsmanni grein fyrir, en ekki aðeins þá sem matsmaður hefði lagt til grundvallar niðurstöðu sinni. Hæstiréttur taldi ljóst að ekki hefðu komið til mats fjölmargir verkþættir, sem óumdeilt væri að T hefði sinnt í framkvæmdum við húsið. Jafnframt yrði að líta til þess að í skýrslu, sem matsmaður hefði gefið fyrir héraðsdómi, hefði komið fram að í matinu hefði ekki verið reiknað með kostnaði af heildarumsjón T með verkinu eða af því að T hefði í einhverju mæli orðið að liðsinna iðnaðarmönnum sem unnu að öðru en trésmíði. Samkvæmt meginreglu 5. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup bæri S að greiða T það verð, sem T krefðist, enda sannaði S ekki að það væri ósanngjarnt. S hefði viðurkennt að T hefði til viðbótar þeim verkþáttum, sem matsgerð tók til, leyst af hendi vinnu við alla þá verkþætti sem T héldi fram. S hefði þó allt að einu ekki krafist mats um þá vinnu. Vegna þessa og þar sem matsgerðin tæki ekki til kostnaðar af heildarumsjón T með verkinu eða af liðveislu hans við aðra iðnaðarmenn og álag á matsfjárhæð væri vanáætlað að mati sérfróðra meðdómenda, yrði ekki talið að S hefði sannað að endurgjald T væri svo ósanngjarnt að því yrði hrundið. Var S því gert að greiða kröfu T og gagnkröfu S hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. mars 2001. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.377.484 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. maí 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms var bú Samnor ehf., sem var stefndi og gagnstefnandi fyrir héraðsdómi, tekið til gjaldþrotaskipta og hefur þrotabú félagsins tekið við aðild að málinu fyrir Hæstarétti. Hér á eftir verður rætt jöfnum höndum um félagið og þrotabú þess sem áfrýjanda.

I.

Samkvæmt gögnum málsins keypti áfrýjandi með samningi 30. september 1997 allan eignarhluta Landsbanka Íslands í fasteigninni Hafnarstræti 100 á Akureyri. Sagði í samningnum að eignarhlutinn væri 88,35% af eigninni allri, en honum var þar lýst nánar meðal annars á þann hátt að um væri að ræða ófullbúna byggingu á eignarlóð og væri ráðgert að í henni yrðu innréttaðar tólf íbúðir. Liggur fyrir í málinu að veitingahús hafi áður verið rekið í húsinu, sem hafi síðan skemmst mikið í eldsvoða. Á undan áfrýjanda mun annar hafa gert samning um kaup á eignarhlutanum, en þau gengið til baka. Mun sá hafa byrjað framkvæmdir við endurbætur á eignarhlutanum, en þær verið skammt á veg komnar þegar horfið var frá kaupum hans.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi munu áfrýjandi og stefndi hafa munnlega gert samning í ágúst 1997, þar sem stefndi tók að sér að annast alla trésmíði við endurbyggingu eignarhluta áfrýjanda í húsinu að Hafnarstræti 100. Mun stefndi jafnframt hafa tekið að sér að hreinsa húsnæðið og sinna erindrekstri fyrir áfrýjanda á Akureyri, þar sem forráðamaður hans hafi ekki verið búsettur þar. Áfrýjandi mun á hinn bóginn hafa ráðið iðnaðarmenn til að leysa af hendi verk, sem lutu að öðru en trésmíði, og jafnframt lagt til allt efni til verka þeirra og stefnda. Óumdeilt er að aðilarnir sömdu um að áfrýjandi greiddi stefnda fyrir verk hans samkvæmt reikningum, sem gerðir yrðu á grundvelli tímavinnu.

Í málinu liggur fyrir að stefndi hófst handa við verkið í ágúst 1997. Á því ári gerði hann áfrýjanda reikninga vegna verksins að fjárhæð samtals 5.268.461 króna, sem greiddir voru án athugasemda. Í janúar 1998 gerði stefndi reikning fyrir 1.912.320 krónum, sem áfrýjandi greiddi 1.536.000 krónur inn á. Mismunurinn, 376.320 krónur, var sama fjárhæð og virðisaukaskattur samkvæmt reikningnum. Á tímabilinu frá febrúar til júlí beindi stefndi fimm reikningum til áfrýjanda fyrir samtals 11.773.023 krónum, sem voru greiddir með óverulegum töfum. Stefndi mun hafa lokið verkinu fyrir sitt leyti í júlí 1998, en lokareikning gerði hann ekki fyrr en í desember á því ári. Fjárhæð þess reiknings var 3.748.246 krónur. Áfrýjandi innti af hendi þrjár greiðslur inn á þann reikning á tímabilinu frá febrúar til maí 1999, alls 1.800.000 krónur. Áfrýjandi hefur á hinn bóginn ekki greitt eftirstöðvar þess reiknings, 1.948.246 krónur, auk þess sem ógreiddar eru áðurnefndar 376.320 krónur af reikningi frá janúar 1998. Eru þetta samtals 2.324.566 krónur.

Áfrýjandi kveðst á miðju ári 1999 hafa farið að gruna að reikningar stefnda væru of háir. Hann hafi því leitað til nafngreinds byggingartæknifræðings um útreikning á kostnaði af verki stefnda. Sá útreikningur liggur fyrir í málinu og er hann dagsettur 27. júlí 1999. Þar er verkið greint í 21 lið og eru áætlaðar magntölur vegna hvers þeirra, einingarverð síðan tilgreind og komist þannig að þeirri niðurstöðu að heildarverð fyrir trésmíði við húsið að Hafnarstræti 100 hefði átt að nema 13.100.000 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti miðað við verðlag í júní 1999. Að fengnum þessum útreikningi ritaði áfrýjandi bréf til stefnda 31. ágúst 1999, þar sem sá fyrrnefndi krafðist endurgreiðslu á því, sem hann hafði þegar greitt samkvæmt reikningum stefnda umfram 13.100.000 krónur. Þessu hafnaði stefndi með bréfi 26. október 1999 að undangengnum fundi aðilanna og krafðist greiðslu á fyrrgreindum eftirstöðvum reikninga sinna.

Með beiðni 25. janúar 2000 fór áfrýjandi þess á leit við Héraðsdóm Norðurlands eystra að dómkvaddur yrði maður til að meta „hvert var eðlilegt endurgjald (eðlilegur kostnaður) til Trétaks ehf. fyrir verk það ..., sem unnið var af starfsmönnum þess félags fyrir Samnor ehf. við fasteignina að Hafnarstræti 100, Akureyri“. Í matsbeiðninni var nánar lýst því verki, sem áfrýjandi taldi stefnda hafa sinnt og hann leitaði mats á. Matsmaður var dómkvaddur 11. febrúar 2000. Í matsgerð hans 26. mars 2000 greinir meðal annars að á matsfundi 2. sama mánaðar hafi stefndi talið fjölmörg atriði vanta inni í lýsingu í matsbeiðni á þeim verkþáttum, sem hann hafi unnið að. Hafi stefndi lagt þar fram lista um 89 verkþætti, sem hann taldi vanta, auk þess sem bent var í sex liðum á að engar sérteikningar hafi verið af húsinu, hann hafi haft með hendi verkstjórn, umsjón með verkinu, efnisútvegun, aðdrætti og aðstoð við aðra iðnaðarmenn og hafi hvorki verið aðstaða á lóð við húsið né bílastæði þar. Í framhaldi af matsfundinum hafi áfrýjandi mótmælt því, sem komið hafi fram í listanum. Segir síðan í matsgerðinni að matsmaðurinn hafi farið yfir þennan lista og ákveðið að 31 nánar tilgreindur liður af honum vegna vantalinna verkþátta yrði tekinn inn í matið, en að öðru leyti lýsti hann þeirri skoðun að „aðra liði í skránni getur matsmaður ekki tekið með í matinu þar sem ekki liggur fyrir hvort þeir hafi verið framkvæmdir af Trétaki ehf. eða hvert umfang þeirra hafi verið.“ Samkvæmt matsgerðinni magnreiknaði matsmaðurinn alla verkþætti, sem nánar var greint frá í fylgiskjali með henni, og áætlaði hæfilegt gjald fyrir vinnulið í hverju tilviki, en einingarverð, sem lögð væru til grundvallar, tækju mið af vinnu við nýbyggingar og reiknað væri með „frekar góðum aðstæðum.“ Hér hefði verið unnið við gamalt hús, þrengsli hafi verið mikil og erfitt um alla aðdrætti og að losna við rusl og afganga. Því væri rétt að leggja um það bil 10% við útreiknað verð vegna þessara aðstæðna. Á þessum grunni komst matsmaðurinn að þeirri niðurstöðu að hæfilegt gjald fyrir vinnulaun við þá verkþætti, sem taldir voru upp í fylgiskjali með matsgerðinni, væri 17.000.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Stefndi höfðaði málið með stefnu 24. janúar 2000 til heimtu fyrrnefndra 2.324.566 króna, sem eftir stóðu af reikningum hans til áfrýjanda vegna framkvæmda við húsið að Hafnarstæti 100. Var málið þingfest 24. febrúar 2000. Áfrýjandi höfðaði gagnsök í málinu 4. maí sama árs og krafðist þar greiðslu á 3.377.484 krónum, eða sem nam mismun á samanlögðum greiðslum hans til stefnda samkvæmt áðursögðu, 20.377.484 krónum, og niðurstöðu matsmanns um hæfilegt gjald fyrir verk stefnda.

II.

Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi bar framkvæmdastjóri áfrýjanda við aðalmeðferð málsins í héraði að hann drægi ekki í efa að stefndi hefði meðal annars leyst af hendi vinnu við alla verkliðina, sem hann gerði grein fyrir í áðurnefndum listum, sem lagðir voru fram á matsfundi, en ekki aðeins við þá, sem matsmaður tók tillit til í matsgerð sinni. Eftir þessu er ljóst að ekki komu til mats fjölmargir verkþættir, sem óumdeilt er að stefndi sinnti í framkvæmdum við húsið að Hafnarstræti 100. Jafnframt verður að líta til þess að í skýrslu, sem matsmaður gaf fyrir héraðsdómi, kom meðal annars fram að í einingarverðum, sem hann reisti niðurstöðu matsgerðar á, hafi verið reiknað með kostnaði af verkstjórn við þá verkþætti, sem metnir voru, en ekki af þeirri heildarumsjón með verkinu, sem stefndi hafði með höndum. Þá kom einnig fram að í matinu væri ekki reiknað með því að stefndi hafi í einhverjum mæli orðið að liðsinna iðnaðarmönnum, sem unnu að öðru en trésmíði.

Í yfirliti, sem stefndi lagði fram í héraði, telur hann að endurgjald fyrir vinnu að þeim 58 verkþáttum, sem ekki voru teknir til mats samkvæmt áðursögðu, hafi numið alls 2.037.443 krónum. Að auki hafi hann leyst af hendi 16 verkþætti til viðbótar fyrir samtals 379.103 krónur. Fyrir Hæstarétti heldur áfrýjandi fram að þessir verkþættir séu í meginatriðum innifaldir í því, sem metið var, en eftir geti þó staðið einstaka liðir, sem megi telja 506.000 krónur hæfilegt endurgjald fyrir, svo sem nánar er gerð grein fyrir í skriflegri samantekt hans.

Samkvæmt meginreglu 5. gr. áðurgildandi laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup ber áfrýjanda að greiða fyrir verk stefnda það verð, sem stefndi krefst, enda sanni áfrýjandi ekki að það sé ósanngjarnt. Í matsgerð var sem áður segir talið að hæfilegt gjald fyrir vinnu við þá verkþætti, sem hún tók til, væri 17.000.000 krónur. Áfrýjandi hefur eins og fyrr greinir viðurkennt að stefndi hafi þessu til viðbótar leyst af hendi vinnu við alla þá verkþætti, sem hann heldur fram. Áfrýjandi hefur þó allt að einu ekki krafist matsgerðar um þá vinnu. Vegna þeirrar sönnunarbyrði, sem áfrýjandi ber í málinu, verður að leggja til grundvallar að það endurgjald sé hæfilegt fyrir þessa verkþætti, sem stefndi hefur samkvæmt áðurgreindu haldið fram. Auk þessa tekur matsgerð sem fyrr segir ekki til kostnaðar af heildarumsjón stefnda með verkinu eða af liðveislu hans við aðra iðnaðarmenn en trésmiði. Þá verður og að gefa því gætur að héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, komst að þeirri niðurstöðu að það 10% álag, sem matsmaður bætti við matsfjárhæð vegna aðstæðna á verkstað, væri vanætlað. Þegar alls þessa er gætt er ekki unnt að líta svo á að áfrýjandi hafi sannað að það endurgjald, samtals 22.702.050 krónur, sem stefndi áskildi sér samkvæmt reikningum sínum fyrir vinnu við hús áfrýjanda, sé svo ósanngjarnt að því verði hrundið.

Samkvæmt framangreindu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um skyldu áfrýjanda til að greiða stefnda eftirstöðvar kröfu samkvæmt reikningum hans á hendur áfrýjanda, alls 2.324.566 krónur, með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir. Með því er um leið hafnað að stefnda beri að endurgreiða áfrýjanda hluta þess fjár, sem áfrýjandi greiddi stefnda samkvæmt reikningum hans. Er þá ekki úr því sem komið er ástæða til að vísa sérstaklega frá dómi kröfu áfrýjanda um þetta efni, þótt gagnsök hans fyrir héraðsdómi til heimtu þeirrar kröfu hafi verið höfðuð að liðnum fresti til þess samkvæmt 2. mgr., sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

 

Dómsorð:

Áfrýjandi, þrotabú Samnor ehf., greiði stefnda, Trétaki ehf., 2.324.566 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 4.124.566 krónum frá 1. febrúar 1999 til 2. sama mánaðar, af 3.324.566 krónum frá þeim degi til 4. mars sama árs, af 2.824.566 krónum frá þeim degi til 5. maí sama árs og af 2.324.566 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 12. desember 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 15. nóvember s.l., hefur Trétak ehf., kt. 551087-1239, Sunnuhlíð 3, Akureyri, höfðað hér fyrir dómi gegn Samnor ehf., kt. 631296-3789, Lækjarási 6, Garðabæ, með stefnu birtri þann 26. janúar 2000. 

Dómkröfur stefnanda í aðalsök eru þær, að aðalstefnda greiði því kr. 2.324.566,90 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25, 1987, frá 1. febrúar 1999 sem hér segir: Af kr. 4.124.566,90 frá 1. febrúar 1999 til 2. febrúar 1999, af kr. 3.324.566,90 frá þeim degi til 4. mars 1999, af kr. 2.824.566,90 frá þeim degi til 5. maí 1999, af kr. 2.324.566,90 frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum reikningi.

Dómkröfur stefnda í aðalsök eru aðallega, að aðalstefnda verði sýknað af öllum kröfum aðalstefnanda í málinu, en til vara að fjárkrafan í málinu verði lækkuð verulega.  Þá krefst aðalstefnda þess að því verði dæmdur málskostnaður samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefnanda í gagnsök eru, að gagnstefnda verði dæmt til greiðslu kr. 3.377.484,- með dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð frá 5. maí 1999.  Þá krefst gagnstefnandi þess jafnframt, að því verði dæmdur málskostnaður samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefnda í gagnsök eru aðallega þær, að gagnstefnda verði sýknað af öllum kröfum í gagnsök og að gagnstefnandi verði dæmt til greiðslu málskostnaðar, en til vara að gagnstefnda verði dæmt til að greiða aðra lægri fjárhæð að mati dómsins og að málskostnaður verði felldur niður.

Aðalstefnandi kveður málavexti vera þá, að í ágúst 1997 hafi aðalstefnda samið við aðalstefnanda um að það tæki að sér að sjá um endurbyggingu á fasteigninni Hafnarstræti 100 á Akureyri.  Verksvið aðalstefnanda hafi nánar tiltekið átt að vera, að sjá um alla trésmíði við endurbygginguna, hreinsa og gera húsið þannig að hægt væri að vinna í því og annast erindisrekstur fyrir aðalstefnda á Akureyri þar sem forsvarsmaður aðalstefnda hafi ekki verið þar búsettur.

Aðalstefnda hafi sjálft ráðið aðra iðnmeistara að verkinu svo sem múrara, pípulagningamenn, rafvirkja og málara.  Þeir aðilar hafi ekki á neinn hátt verið tengdir aðalstefnanda.

Verkið hafi hafist um miðjan ágúst 1997 og hafi verið unnið við það þar til um miðjan júlí 1998.  Á verktímanum hafi verið haft náið samstarf við framkvæmdastjóra aðalstefnda um hvernig verkið skyldi unnið og hafi hann komið til Akureyrar að jafnaði 2-3 í mánuði.  Á verktímanum hafi aðalstefnandi gert reikninga fyrir vinnu félagsins í samræmi við framvindu verksins og hafi  þeir verið greiddir án athugasemda af hálfu aðalstefnda.  Þess beri þó að geta, að reikningur frá því í janúar 1998 hafi verið greiddur að hluta, en svo virðist sem fjárhæð sem nemi virðisaukaskatti af vinnulið reikningsins hafi ekki verið greidd.  Reikning sem dagsettur sé 30. desember 1998 hafi aðalstefnda ekki greitt að fullu en félagið hafi greitt inn á hann kr. 1.800.000,-.  Aðalstefnda hafi ekki greitt síðasta reikninginn á réttum tíma þar sem það hafi borið fyrir sig, að hægar hefði gengið að selja íbúðir í húsinu, en gert hefði verið ráð fyrir.  Það hafi ekki verið fyrr en með bréfi dags. 31. ágúst 1999, að aðalstefnanda hafi borist tilkynning um að aðalstefnda teldi reikninga aðalstefnanda of háa og verk þess gallað.

Reynt hafi verið að ná samkomulagi um uppgjör en það ekki tekist og hafi aðalstefnandi því höfðað mál þetta.

Kröfur sínar í aðalsök kveðst aðalstefnandi byggja á því, að aðalstefnandi hafi í ágúst 1997 gert um það samning að það tæki að sér að vinna samkvæmt reikningi við endurnýjun fasteignarinnar að Hafnarstræti 100 á Akureyri.  Svo sem fram sé komið þá hafi aðalstefnandi tekið að sér alla trésmíðavinnu ásamt hreinsun og öðrum undirbúningi.  Aðalstefnandi hafi unnið verk sitt og lokið því í ágúst 1998.  Á verktímanum hafi aðalstefnda greitt athugasemdalaust inn á verkið og einnig eftir að verkinu lauk.  Engar athugasemdir hafi komið frá aðalstefnda fyrr en meira en ári eftir að verkinu lauk.  Í þessu sambandi skuli þess getið, að Reynald Jónsson byggingatæknifræðingur hafi haft umsjón með verkinu af hálfu aðalstefnda og tekið allar ákvarðanir um hvernig verkið skyldi unnið og þá hafi hann einnig annast allar greiðslur fyrir aðalstefnda.

Kveðst aðalstefnandi hafi tekið að sér umrætt verk í tímavinnu og hafi það gert aðalstefnanda reikninga í samræmi við það.  Telji aðalstefnandi því að aðalstefnda beri að greiða kröfu hans, sbr. til hliðsjónar ákvæði 5. gr. laga nr. 39, 1922.  Þau mótmæli sem fram hafi komið frá aðalstefnda séu einungis þess efnis, að reikningar aðalstefnanda hafi verið of háir, án þess að mótmælin væru rökstudd frekar.  Auk þess hafi mótmæli aðalstefnda komið allt of seint fram, sbr. til hliðsjónar ákvæði 52. og 54. gr. laga nr. 39, 1922.

Auk framangreindra málsástæðna kveðst aðalstefnandi byggja kröfur sínar í málinu á reglum kröfuréttarins um verksamninga og megi í því sambandi vísa til þeira samningsskilmála sem fram komi í ÍST-30, einkum köflum 30 og 32.

Um lagarök kveðst aðalstefnandi vísa til þeirrar meginreglu, að við gerða samninga beri að standa.  Kröfur um dráttarvexti styðjist við III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987, en kröfur um málskostnað við 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991.

Aðalstefnda kveður málavexti vera þá, að félagið sem þáverandi eigandi hússins að Hafnarstræti 100 á Akureyri, hafi ráðið aðalstefnanda í ágúst 1997 til þess að vinna að margháttuðum endurbótum á nefndri fasteign.  Munnlegur samningur aðila hafi verið sá, að greitt skyldi fyrir verkið samkvæmt eðlilegum og réttlátum reikningum aðalstefnanda.  Hafi verkefni aðalstefnanda verið að inna af hendi alla trésmíðavinnu við að koma húsinu í íbúðarhæft ástand.  Í húsinu hafi áður verið rekinn skemmtistaður, en það síðan skemmst mikið í eldsvoða.  Þegar aðalstefnda hafi eignast húsið með kaupsamningi við Landsbanka Íslands árið 1997, hafi fyrri eigandi verið búinn að láta hreinsa allar innréttingar og einangrun innan úr húsinu. 

Kveður aðalstefnda aðalstefnanda ekki hafa lagt efni til verksins og hafi reikningar aðalstefnanda allir verið vegna vinnu starfsmanna þess.  Verkefni aðalstefnanda hafi falist í því, að rífa þáverandi þak hússins, steypa upp í eldri stigagöt og slá upp og steypa nýjan stigagang upp í gegnum húsið frá jarðhæð og upp á 4. hæð.  Aðalstefnandi hafi séð um að reisa og ganga frá 5. hæð hússins, sem öll hafi verið byggð upp á ný.  Félagið hafi jafnframt innréttað 2. til og með 5. hæð hússins.  Þó hafi verið tekinn undan verkinu hluti innréttinga á 2. hæð, sem aðrir hafi unnið.  Þannig hafi aðalstefnandi séð um einangrun hússins, smíði og uppsetningu milliveggja, niðurtekningu lofta, lagningu parkets á gólf, ísetningu glugga og hurða, uppsetningu allra innréttinga, m.a. skápa í eldhús og svefnherbergi.  Þá hafi aðalstefnandi klætt 2., 3. og 4. hæð hússins að utanverðu, vestanmegin, með fiberklæðningu.

Engin málningarvinna, raflagnavinna, múrara- eða pípulagnavinna hafi verið hluti af verkefnum aðalstefnanda.  Þá hafi kjallari og jarðhæð hússins ekki verið hluti af verkefnum félagsins.

Vegna verkefna félagsins fyrir aðalstefnda hafi aðalstefnandi reikingsfært aðalstefnda fyrir alls kr. 22.702.050,-.  Alls hafi aðalstefnda greitt aðalstefnanda vegna þessa kr. 20.377.484,-, síðast kr. 500.000,- þann 5. maí 1999.

Kveður aðalstefnda að um mitt ár 1999 hafi vaknað hjá félaginu sá grunur, að reikningar aðalstefnanda væru of háir og hafi aðalstefnda því fengið Frey Jóhannsson, tæknifræðing hjá Almennu verkfræðistofunni, til að kostnaðarreikna verk það, sem aðalstefnandi hafi unnið.  Hafi niðurstaða Freys, dags. 27. júlí 1999, verið sú, að vinnan hefði átt að kosta alls kr. 13.100.000,-.  Samkvæmt því hafi aðalstefndi þá greitt aðalstefnanda kr. 7.277.484,- umfram það sem rétt hefði verið.  Aðalstefnda hafi og virst, að vinna aðalstefnanda væri ekki nægilega vönduð og að margháttaðir gallar væru á henni.  Hafi kaupendur íbúða í húsinu mikið kvartað við aðalstefnda vegna þessa.

Hinn 31. ágúst 1999 hafi lögmaður aðalstefnda ritað aðalstefnanda bréf þar sem hann hafi mótmælt reikningum aðalstefnanda umfram kr. 13.100.000,- og skorað á félagið að endurgreiða ofgreitt fé vegna verksins og ljúka verkum sínum að Hafnarstræti 100.  Þá hafi og verið boðað til fundar með aðilum um málið.  Sættir hafi ekki tekist og hafi aðalstefnda þá látið dómkveðja Pétur Torfason, verkfræðing, til að skoða og meta vinnu aðalstefnanda fyrir aðalstefnda.  Hafi niðurstaða matsmannsins verið sú, að vinnan hefði átt að kosta kr. 17.000.000,-.  Telur aðalstefnda því augljóst, að fjárhæðir reikninga þeirra, sem umkrafðir séu í málinu, séu bersýnilega ósanngjarnar og beri aðalstefnda því ekki að greiða reikningana.  Í málinu sé á því byggt, að heildar reikningar aðalstefnanda fyrir vinnu félagsins í þágu aðalstefnda hafi ekki átt að nema hærri fjárhæð en kr. 17.000.000,- og eigi því að sýkna aðalstefnda af kröfu aðalstefnanda.  Varakrafa aðalstefnda í málinu byggi á sömu málsástæðu.  Aðalstefnda kveðst telja, að félagið hafi ofgreitt aðalstefnanda vegna vinnu þess og hafi aðalstefnda höfðað gagnsakarmál af þeirri ástæðu.  Þá sé það álit aðalstefnda, að vinnu aðalstefnanda hafi verið í mörgu áfátt og áskilji félagið sér rétt til þess að gera kröfur á hendur aðalstefnanda þegar tjón aðalstefnda vegna þess liggi fyrir.

Til stuðnings kröfum sínum kveðst aðalstefnda vísa til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um efndir loforða og samninga.  Einnig vísist til 5. gr. i.f. laga um lausafjárkaup, nr. 39, 1922 með lögjöfnun.  Varðandi málskostnað vísist til 129. og 130. gr. laga nr. 91, 1991, um meðferð einkamála.

Kröfur sínar í gagnsök byggir gagnstefnandi á því, að gagnstefnandi hafi greitt gagnstefnda alls kr. 20.377.484,- vegna áðurlýstrar vinnu, grunlaust um að reikningarnir væru allt of háir, enda hafi verkefnið verið flókið og erfitt að átta sig á réttmæti reikninga.  Þannig hafi gagnstefnandi ofgreitt gagnstefnda stefnufjárhæð í gagnsök, þ.e. mismuninn á kr. 17.000.000,- skv. áðurnefndu mati Péturs Torfasonar, verkfræðings, og þeim kr. 20.377.484,- sem gagnstefnandi hafi greitt gagnstefnda.  Þegar gagnstefnandi hafi, með skoðun Freys Jóhannssonar, tæknifræðings, fengið þann grun staðfestan, að reikningar gagnstefnda væru allt of háir, hafi gagnstefnandi tilkynnt gagnstefnda þegar um það og krafið félagið um endurgreiðslu.

Eins og fram komi í aðalsök nemi reikningar þeir, er gagnstefndi hafi gert gagnstefnanda fyrir vinnu félagsins, samtals kr. 22. 702.050,-, en með vísan til framangreindrar matsgerðar telji gagnstefnandi fjárhæð þessara reikninga of háa svo nemi kr. 5.702.050,-.  Af þeirri fjárhæð hafi gagnstefnandi greitt alls kr. 3.377.484,- þar af síðast hinn 5. maí 1999, kr. 500.000,-.  Þessa fjárhæð, þ.e. kr. 3.377.484,-, telji gagnstefnandi því að gagnstefnda skuldi og krefjist gagnstefnandi því endurgreiðslu hennar með dráttarvöxtum frá síðasta greiðsludegi, þann 5. maí 1999.

Til stuðnings kröfum sínum í gagnsök kveðst gagnstefnandi vísa til reglna kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og samninga, og til 129. gr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991, varðandi málskostnað.  Einnig vísi gagnstefnandi til 5. gr. kaupalaga nr. 39, 1922, með lögjöfnun.  Um heimild til höfðunar gagnsakarmáls kveðst gagnstefnandi vísa til 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91, 1991.

Gagnstefnda kveðst vekja athygli á því, að gagnsökin sé ekki höfðuð innan þeirra tímamarka sem sett séu í 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91, 1991, um meðferð einkamála.  Málið hafi verið þingfest 24. febrúar s.l. og því síðan frestað til 13. apríl og loks hafi málið verið höfðað 4. maí.   Matsgerðin sem kröfurnar byggi á sé dagsett 26. mars 2000 þannig að mánaðarfrestur 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91, 1991, hafi verið liðinn við þingfestingu gagnsakarinnar.  Því hljóti að koma til álita að vísa gagnsökinni frá dómi.

Kveður gagnstefnda að eins og fram komi í stefnu þá hafi aðilar málsins samið um, að gagnstefnda tæki að sér sem verktaki alla trésmíðavinnu við fasteign gagnstefnanda að Hafnarstræti 100 á Akureyri.  Hafi verið svo um samið, að greiða ætti samkvæmt reikningi fyrir vinnu gagnstefnanda, sem nánar hafi falið í sér að greiða ætti fyrir verkið á grundvelli tímagjalds.  Vegna þess að Reynald Jónsson, byggingatæknifræðingur, sem hafi haft eftirlit með verkinu af hálfu gagnstefnanda, hafi verið búsettur í Reykjavík hafi starf gagnstefnanda fljótlega þróast í það að hafa umsjón með verkinu auk þess sem starfsmenn félagsins hafi unnið fjöldan allan af aukaverkum, sem ekki hafi beinlínis fallið undir trésmíðavinnu.  Jóhann Ólafur Þórðarson starfsmaður gagnstefnda hafi verið þessi umsjónarmaður og hafi hann séð um að framvinda verksins í heild væri með eðlilegum hætti.

Gagnstefnda kveður reikning hafa að jafnaði verið gerðan mánaðarlega af því, sem sendur hafi verið Reynald Jónssyni ásamt vinnuseðlum.  Á verktímanum hafi aldrei komið fram athugasemdir við þessa reikninga.  Það hafi ekki verið fyrr en með bréfi lögmanns gagnstefnanda, meira en ári eftir verklok, sem fram hafi komið athugasemd við reikningana.

Eins og fram hafi komið þá hafi eftirlitsmaður með verkinu af hálfu gagnstefnanda verið Reynald Jónsson, byggingatæknifræðingur, og hafi hann komið til Akureyrar 2-3 í mánuði á verktímanum og fylgst með framgangi verksins.  Hann hafi fengið í hendur vinnuseðla þar sem fram hafi komið sundurliðun á þeim tíma sem farið hafi í verkið.  Þrátt fyrir þetta hafi ekki verið gerðar neinar athugasemdir fyrr en meira en ár hafi verið liðið frá verklokum.

Gagnstefnda kveður að samkvæmt almennum reglum kröfuréttarins beri að gera athugasemdir í tilvikum sem þessum svo fljótt sem kostur er.  Ástæðan fyrir þeirri reglu sé sú, að unnt sé að tryggja sönnun um þau atriði sem ágreiningur stendur um.  Í þessu sambandi séu athyglisverðar reglur í ÍST-30 kafla 32, en samkvæmt grein 32.3 og 32.13.1 sé verkkaupa veittur skammur frestur til að gera athugasemdir við reikning.  Einnig sé rétt að hafa í huga regluna í 1. mgr. 52. gr., sbr. 54. gr. laga nr. 39, 1922.  Kveðst gagnstefnda ítreka, að sá maður sem eftirlit hafi haft með verkinu hafi bæði haft menntun og reynslu á sviði bygginga og hafi hann aldrei gert athugasemdir við reikninga meðan á verktímanum stóð.  Gagnstefnandi hafi fengið endurgreiddan virðisaukaskatt af allri vinnu gagnstefnda og í því hljóti að felast viðurkenning á réttmæti reikninganna.  Hafi gagnstefnandi átt einhverjar kröfur á hendur gagnstefnda þá hljóti þær að hafa fallið niður vegna framangreinds tómlætis.  Fram komi í matsgerð, að þegar hún sé gerð sé nánast útilokað að ganga úr skugga um hvað sé hvers í sambandi við byggingu hússins.  Eins og áður sé fram komið þá sé því haldið fram af gagnstefnda, að gagnstefnandi hafi orðið að mótmæla reikningum þegar í stað eða án ástæðulauss dráttar.  Það hafi ekki verið gert og því beri gagnstefnandi hallann af því og beri að sýkna gagnstefnda af öllum kröfum í málinu vegna þess.

Kveðst gagnstefnda mótmæla því, að matsgerð sú, sem gagnstefnandi byggi á, verði lögð til grundvallar í málinu.  Mótmæli þessi byggist á því, að matsmaður velji að leggja til grundvallar mati sínu svokölluð einingaverð, sem raunar séu ekki skýrð frekar, en aðilar hafi samið um tímagjald og einnig, að það sé einungis hluti af verkum gagnstefnda sem matið taki til.  Vegna þessa sé matsgerðin varla til upplýsingar í málinu og þar sem gagnstefnandi byggi ekki á annarri málsástæðu þá sé eðlilegt að sýkna gagnstefnda þegar af þessari ástæðu.

Aðila málsins greini ekki á um að samið hafi verið um að greiða skyldi fyrir verkið samkvæmt reikningi.  Samið hafi verið um tímavinnu en ekki einingaverð.  Ljóst sé, að ef matsgerðin verði lögð til grundvallar sé verið að breyta óumdeildum samningi aðila.  Slíkt verði ekki gert eftir verklok.

Gagnstefnda kveður að framangreind matsgerð segi því ekkert til um hvort gagnstefnandi hafi vanefnt samninginn af sinni hálfu.  Matsgerðin sé byggð á einingaverðum sem einungis taki til hluta þeirra verkefna, sem gagnstefnda hafi unnið.  Í málinu liggi frammi listi yfir verk sem ekki hafi verið tekið tillit til í matsgerðini, sem sýni ótvírætt að matsgerðin gefi litlar upplýsingar um umfang verksins.  Verði byggt á matsgerðinni þýði það breytingu á forsendum samningsgerðarinnar.

Komið sé fram í málinu, að forsvarsmaður gagnstefnda hafi fljótlega eftir að verkið hófst, þurft að taka að sér stjórnun á verkinu og að annast erindisrekstur fyrir gagnstefnanda á Akureyri.  Hann hafi þurft að sækja efni bæði vegna eigin verka og annarra.  Starfsmenn gagnstefnda hafi þurft að aðstoða aðra sem að verkinu hafi komið þannig að fráleitt sé að matsgerðin geti skorið úr eða veitt vísbendingu um eðlilegt endurgjald fyrir vinnu gagnstefnda.  Í matsgerðinni sé ekkert tillit tekið til þessara þátta, sem almennt séu metnir sérstaklega.  Í matsgerð komi fram, að einingaverðið sé miðað við nýbyggingar og frekar góðar aðstæður.  Aðstæður í því tilviki sem hér um ræði hafi verið þannig, að húsið hafi ekki haft lóð umfram þá sem það stóð á og hafi auk þess verið staðsett í miðbæ Akureyrar.  Húsið sé gamalt og hafi áður skemmst verulega í eldsvoða.  Engin aðstaða hafi verið til athafna utanhúss og hafi öll vinnuaðstæða því verið mjög slæm.  Matsmaður hafi leyst þetta í matsgerð með því að bæta 10 % ofan á magntölur fyrir nýbyggingar þar sem reiknað sé með frekar góðum aðstæðum, sem sé handhæg aðferð, en varla sett fram af nákvæmni enda hafi matsmanninum verið vorkun þar sem hann hafi verið fenginn til að meta umfang verks sem hafi verið löngu lokið og hann hafi engan kost haft á að staðreyna að umfangi.

Hvað varakröfu varðar þá kveðst gagnstefndi sérstaklega benda á þau sjónarmið sem rakin séu að framan varðandi verkþætti, sem matsmaður hafi ekki tekið tillit til í mati sínu og leiða eigi til lækkunar á kröfum gagnstefnanda.

Dráttarvaxtakröfu kveðst gagnstefnda mótmæla sérstaklega þar sem hún sé ekki í samræmi við lög nr. 25, 1987.

Skýrslur fyrir dómi gáfu Jóhann Þórðarson framkvæmdastjóri aðalstefnanda, Reynald Jónsson framkvæmdastjóri aðalstefnda, Gísli G. Gunnarsson byggingafræðingur, Magnús Guðmundsson trésmiður, Birgir Arason húsasmiður, Friðjón Hraundal Halldórsson húsasmiður, Guðmundur Bergsveinsson smiður, Tryggvi Gunnarsson múrarameistari, Jóhann Kristján Einarsson rafverktaki, Kristján Jóhannsson húsasmíðanemi, Pétur Torfason byggingaverkfræðingur, Brynjólfur Eiríksson verkamaður, Júlíus Baldvinsson málarameistari og Ólafur Baldursson pípulagningameistari.

Í matsbeiðni aðalstefnda, dags. 25. janúar 2000, til Héraðsdóms Norðurlands eystra kemur fram, að verkefni aðalstefnanda hafi snúist um að inna af hendi alla trésmíðavinnu við að koma húsinu að Hafnarstræti 100 á Akureyri í íbúðarhæft ástand.  Lýsti matsbeiðandi verkefni aðalstefnanda nánar á eftirfarandi hátt:  „Rífa burtu þáverandi þak hússins, steypa upp í eldri stigagöt og slá upp og steypa nýjan stigagang upp í gegnum húsið frá jarðhæð og upp á 4. hæð.  Einnig að reisa og ganga frá 5. hæð hússins, sem öll var byggð upp á nýtt.  Trétak ehf. sá einnig um að innrétta 2. til og með 5. hæð hússins, þó var tekinn undan hluti innréttinga 2. hæðarinnar, sem aðrir unnu.  Trétak ehf. sá um einangrun hússins, smíði og uppsettningu milliveggja, niðurtekningu lofta, lagningu parkets á gólf, ísetningu glugga og hurða, uppsetningu allra innréttinga, m.a. skápa í eldhús og svefnherbergi.  Trétak ehf. klæddi einnig með fiberklæðningu vesturhliðar 2., 3. og 4. hæða hússins að utanverðu.“

Eins og áður hefur komið fram var Pétur Torfason, verkfræðingur, dómkvaddur vegna hins umdeilda verks og honum falið, að láta í té skriflegt og rökstutt álit um eftirfarandi:  „Hvert var eðlilegt endurgjald (eðlilegur kostnaður) til Trétaks ehf. fyrir verk það skv. framangreindu, sem unnið var af starfsmönnum þess félags fyrir Samnor ehf. við fasteignina Hafnarstræti 100, Akureyri.“  Við matsskoðun lagði framkvæmdastjóri aðalstefnanda síðan fram lista með 95 númeruðum liðum sem hann taldi vanta í upptalningu matsbeiðanda um verkþætti þá, sem aðalstefnandi hefði unnið.

Við framkvæmd matsins fór matsmaður m.a. yfir nefndan lista og tók þá afstöðu, að ákveðnir liðir hans skyldu teknir inn í matið, en aðrir ekki.  Kvað matsmaður ástæður þess, að greindir liðir væru ekki teknir inn í mat hans vera þær, að ekki lægi fyrir hvort þeir hefðu verið framkvæmdir af aðalstefnanda eða hvert umfang þeirra hefði verið.

Niðurstöður matsmannsins í matsgerð hans, dags. 26. mars 2000, voru að öðru leyti eftirfarandi:  „Matsmaður hefur magnreiknað alla þá verkþætti sem fram koma í skrá um kostnað sem fylgir matsgerðinni.  Síðan hefur matsmaður áætlað hæfilegt gjald fyrir vinnulið hvers liðar og þannig fengið út áætlaðan kostnað við vinnuliðina fyrir upptalda liði.  Þar sem einingarverð í skránni er miðað við Byggingavísitölu í mars 2000 hefur matsmaður tekið tillit til breytinga á Byggingavísitölu frá maí 1998, sem líta má á sem miðbik verktímans, til dagsins í dag.

Einingaverð það sem matsmaður miðar við er hugsað fyrir nýbyggingar og reiknað er með frekar góðum aðstæðum.  Í því tilfelli sem hér um ræðir var verið að vinna í gömlu húsi.  Þrengsli voru mikil og erfiðleikar voru með alla efnisaðdrætti og við að losna við rusl og afganga.  Því telur matsmaður rétt og sanngjarnt að leggja á útreiknað verð u.þ.b. 10 % álag vegna áðurnefndra aðstæðna.

Þannig útreiknað telur matsmaður að hæfilegt gjald fyrir vinnulaun við upptalda liði í meðfylgjandi skrá sé 17.0 M.kr. með VSK.“

Í málinu liggur frammi listi frá framkvæmdastjóra aðalstefnanda, dags. 4. apríl 2000, þar sem m.a. eru tilgreind þau verk aðalstefnanda, sem hann telur að matsmaður hafi ekki tekið tillit til við mat sitt.  Framkvæmdastjóri aðalstefnda bar fyrir dómi, að hann drægi ekki í efa að aðalstefnandi hefði framkvæmt umrædd verk.  Með vísan til ofangreinds, framburðar Péturs Torfasonar fyrir dómi og umræddrar matsgerðar hans, liggur að mati dómsins fyrir, að matsgerðin sé ekki tæmandi um verk aðalstefnanda í þágu aðalstefnda við endurbætur á húsinu að Hafnarstræti 100 og til viðbótar þeim liðum, er matsmaður tók inn í matsgerðina, þurfi að taka mið af liðum, sem hann sleppti af áður tilgreindum ástæðum og fram koma á ofangreindum lista dags. 4. apríl 2000.

Það er álit hinna sérfróðu meðdómsmanna, að hið 10 % álag, sem matsmaður lagði ofan á matsfjárhæð vegna aðstæðna við húsið að Hafnarstræti 100, sé vanáætlað, en 10 % álagið hafi einkum verið hugsað vegna þrengsla utanhúss og erfiðleika við aðdrætti.  Þá ber einnig til þess að líta að aðstæður til vinnu innanhúss voru verulega erfiðari en alla jafna er við nýbyggingar.  Af þeim sökum verði að gera ráð fyrir enn frekara álagi á vinnulið verksins. 

Óumdeilt er í málinu, að verk aðalstefnanda var ekki unnið samkvæmt föstu tilboði heldur sömdu aðilar í upphafi um, að aðalstefnda skyldi greiða aðalstefnanda samkvæmt reikningum þess byggðum á tímavinnu.

Að framangreindu athuguðu er það niðurstaða dómsins, að ekki hafi verið sýnt fram á að reikningar aðalstefnanda vegna verksins hafi á nokkurn hátt verið ósanngjarnir, sbr. grunnrök 5. gr. laga nr. 39, 1922.  Þykir því verða að dæma aðalstefnda til að greiða stefnanda í aðalsök eftirstöðvar reikninga aðastefnanda í samræmi við ofangreint samkomulag aðila, þ.e. kr. 2.324.566,90 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25, 1987, frá 1. febrúar 1999 sem hér segir: Af kr. 4.124.566,90 frá 1. febrúar 1999 til 2. febrúar 1999, af kr. 3.324.566,90 frá þeim degi til 4. mars 1999, af kr. 2.824.566,90 frá þeim degi til 5. maí 1999, af kr. 2.324.566,90 frá þeim degi til greiðsludags.

Með vísan til niðurstöðu dómsins í aðalsök er gagnstefnda sýknað af öllum kröfum stefnanda í gagnsök.

Rétt þykir, með vísan til úrslita málsins, að aðalstefnda greiði aðalstefnanda, kr. 450.000,- í málskostnað og er virðisaukaskattur innfalinn í þeirri fjárhæð.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri, ásamt meðdómsmönnunum Herði Blöndal, byggingaverkfræðingi og Sigurði Hannessyni, byggingameistara.

D Ó M S O R Ð :

Stefnda í aðalsök, Samnor ehf., greiði stefnanda í aðalsök, Trétaki ehf., kr. 2.324.566,90 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25, 1987, frá 1. febrúar 1999 af kr. 4.124.566,90 til 2. febrúar s.á., af kr. 3.324.566,90 frá þ.d. til 4. mars s.á., af kr. 2.824.566,90 frá þ.d. til 5. maí s.á. og af kr. 2.324.566,90 frá þ.d. til greiðsludags og kr. 450.000.- í málskostnað.

Stefnda í gagnsök skal sýkn af öllum kröfum gagnstefnanda.

Málskostnaður í gagnsök fellur niður.