Hæstiréttur íslands

Mál nr. 599/2012


Lykilorð

  • Aðild
  • Samningur
  • Vextir


Fimmtudaginn 7. mars 2013.

Nr. 599/2012.

Jervistone Ltd.

(Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Grímur Sigurðsson hrl.)

Aðild. Samningur. Vextir.

Fallist var á kröfu L hf. á hendur J til heimtu skuldar samkvæmt lánssamningi J við SK. Talið var nægilega sannað að með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hefði eignum SK, þ. á m. kröfunni á hendur J, verið ráðstafað til SS, eignir hvers og skuldir L hefði síðar tekið yfir. Þá var hvorki talið að á L hf. hefði hvílt skylda til að ráðstafa tryggingum til greiðslu kröfunnar, né að krafa L hf. hafi fallið niður fyrir tómlæti. Þá voru málsástæður J, sem reistar voru á ógildingarreglum laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og óskráðum reglum um brostnar forsendur, ekki taldar studdar gildum rökum og krafa J, sem höfð var uppi til skuldajafnaðar, var talin vanreifuð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. september 2012. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en vara að hún verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi gerði 11. apríl 2006 samning við Sparisjóðinn í Keflavík þar sem sá síðarnefndi veitti honum lán að fjárhæð 2.250.000 bresk pund „til fjármögnunar á hlutabréfakaupum í almennum rekstri“ og skyldi það endurgreitt í einu lagi 22. apríl 2007 með nánar tilgreindum vöxtum. Til tryggingar láninu voru lánveitanda veðsett „seljanleg hlutabréf í ýmsum fyrirtækjum sem skráð eru í Kauphöll að verðmæti sem mun aldrei vera lægra en 120% af heildarfjárhæð lánsins.“ Í samningnum kom fram að gerður skyldi sérstakur veðsamningur og að öll hlutabréf sem veðsett yrðu samkvæmt samningnum yrðu skráð á nafn lánveitanda. Í febrúar 2007 var gerður viðauki við samninginn meðal annars um hækkun lánsfjárhæðarinnar í 3.375.000 bresk pund.

Samkvæmt gögnum málsins var lán þetta veitt með svokallaðri lánalínu, sem áfrýjandi gat að nánar tilteknum skilyrðum uppfylltum dregið á fram til 2. apríl 2007. Óumdeilt er að áfrýjandi endurgreiddi ekki lánið á gjalddaga 22. apríl 2007, svo og að hann hafi eftir þann tíma haldið áfram að draga á lánalínuna og jafnframt að greiða inn á skuldina. Við síðustu innborgun áfrýjanda 21. ágúst 2009 mun skuldin hafa numið 2.255.432,96 breskum pundum.

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010 var öllum eignum Sparisjóðsins í Keflavík ráðstafað til Spkef sparisjóðs, nema þeim sem sérstaklega yrðu undanskildar í skýrslu, sem Fjármálaeftirlitið hafði falið endurskoðunarfyrirtæki að vinna. Þá tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun 5. mars 2011 um að afturkalla starfsleyfi Spkef sparisjóðs frá og með 7. sama mánaðar, en þann dag tæki stefndi, sem þá hét NBI hf., við rekstri, eignum og skuldum sparisjóðsins.

Stefndi höfðaði mál þetta 21. apríl 2011 til heimtu þeirrar fjárhæðar, sem að framan er getið.

II

Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti, þar sem stefndi hafi ekki sannað að hann sé eigandi kröfunnar. Eins og að framan greinir var öllum eignum Sparisjóðsins í Keflavík ráðstafað til Spkef sparisjóðs með ákvörðum Fjármáleftirlitsins 22. apríl 2010, nema þeim sem sérstaklega væru undanskildar í skýrslu endurskoðunarfyrirtækis sem Fjármáleftirlitið hafði fengið til áðurgreindra starfa. Á grundvelli þeirrar ákvörðunar féllu kröfur sem Sparisjóðurinn í Keflavík átti til Spkef sparisjóðs, nema þær væru sérstaklega undaskildar. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 1. nóvember 2011 var bú Sparisjóðsins í Keflavík tekið til gjaldþrotaskipta. Meðal gagna málsins er bréf skiptastjóra þrotabúsins 5. mars 2012, þar sem staðfest er að með ákvörðum Fjármáleftirlitsins hafi öll útlán flust yfir í Spkef sparisjóð og að engin slík útlán hafi verið undanskilin með áðurnefndri skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins. Þar sem þessi yfirlýsing er gefin fyrir hönd þrotabúsins, sem ella væri eigandi kröfunnar, eru með henni færðar nægilegar sönnur á að krafan hafi ekki verið undanskilin við flutning eigna yfir til Spkef sparisjóðs. Með þessu og þar sem ágreiningslaust er að allar eignir Spkef sparisjóðs hafi flust til stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 5. mars 2011 er þessari málsástæðu áfrýjanda hafnað.

Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína í annan stað á því að lengi vel hafi andvirði hinna handveðsettu bréfa dugað til greiðslu skuldarinnar. Sparisjóðnum í Keflavík hafi borið að ráðstafa hinum handveðsettu bréfum til greiðslu lánsins, enda hafi þau verið skráð á nafn hans. Þar sem sparisjóðurinn hafi ekki gætt þessa sé krafan fallin niður. Eins og að framan er rakið er krafan sem mál þetta varðar reist á lánssamningi áfrýjanda og sparisjóðsins 11. apríl 2006. Með ákvæðum hans var engin skylda lögð á sparisjóðinn til að grípa til þeirra ráðstafana er að ofan getur og verður sýknukröfu áfrýjanda á þessum grunni því hafnað. Þá eru heldur engin rök til að telja að tómlæti sparisjóðsins við að gera að öðru leyti reka að innheimtu kröfunnar hafi valdið brottfalli hennar.

Málsástæður áfrýjanda fyrir kröfu um sýknu á grundvelli 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eða óskráðra reglna um brostnar forsendur eru engum gildum rökum studdar og er þeim því hafnað. Þá er bótakrafa sem áfrýjandi hefur uppi til skuldajafnaðar með öllu vanreifuð og kemur ekki til frekari skoðunar.

Eins og að framan er rakið skyldi lánið samkvæmt samningi áfrýjanda og Sparisjóðsins í Keflavík endurgreitt 22. apríl 2007. Þar sem lánið hafði þannig fyrirfram ákveðinn gjalddaga er kröfuhafa heimilt að krefja áfrýjanda um dráttarvexti af því frá og með gjalddaga samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Stefndi krefst dráttarvaxta af kröfunni frá 21. ágúst 2009 og kveðst í þeim efnum taka mið af þeim degi er áfrýjandi greiddi síðast inn á lánið. Stefndi hefur forræði á kröfu sinni og er frjálst að miða dráttarvaxtakröfu sína við síðara tímamark en lög framast leyfa. Áfrýjanda ber því að greiða kröfufjárhæðina með þeim dráttarvöxtum sem stefndi krefst. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Jervistone Ltd., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2012.

Mál þetta, sem var dómtekið 11. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af NBI hf., nú Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík á hendur Jervistone Ltd., skrásettu á Bresku Jómfrúaeyjum með skráningarnúmer 541378, Trident Trust Co. (BVI) Ltd., Trident Chambers, P.O. Box 146, Road Town Tortola, VG1110 Virgin Islands, með stefnu dagsettri 8. apríl 2011.

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði honum 2.255.432,96 sterlingspund, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af stefnufjárhæðinni frá 21. ágúst 2009 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og til vara að dómkröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Þá er krafist málskostnaðar.

                Upphaflega krafðist stefndi þess að málinu yrði vísað frá dómi. Héraðsdómur varð við þeirri kröfu hinn 1. desember sl. Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 678/2012 var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Málavextir

Snemma árs 2006 óskaði Jón Ólafsson eftir því að Sparisjóðurinn í Keflavík myndi lána félagi í hans eigu allt að 4.500.000 sterlingspund (500.000.000 kr.) í formi lánalínu. Lánsfénu yrði öllu varið til kaupa á erlendum hlutabréfum, skráðum í Bretlandi og skyldu hlutabréfin standa til tryggingar láninu og voru þau hlutabréf skráð á nafni Sparisjóðsins, sbr. grein 10.1 í lánssamningi. Félagið er stefndi og ber nafnið Jervistone Ltd. (einnig nefnt Jervistone Holdings Ltd.) og er skráð á Bresku Jómfrúaeyjum. Skráningarnúmer félagsins er 541378 og var Jón Ólafsson tilgreindur sem sérstakur fjárfestingaráðgjafi þess.

Erindi Jóns var tekið fyrir hjá Sparisjóðnum í Keflavík og í kjölfarið voru Jóni send drög að lánasamningi, þar sem gert var ráð fyrir að lánveiting til félagsins væri m.a. háð eftirfarandi þremur skilyrðum: að Jón yrði sjálfskuldarábyrgðaraðili að láninu, að fullnægjandi gögn yrðu afhent um stefnda, Jervistone Ltd. og að fullnægjandi umboð til að binda stefnda yrðu lögð fram.

Hinn 21. febrúar 2006 voru Jóni send drög að lánasamningnum. Hann óskaði þá meðal annars eftir því að ábyrgð hans á lánasamningnum yrði einföld í stað sjálfskuldarábyrgðar. Því var hafnað og var lánssamningur milli stefnda og Sparisjóðsins í Keflavík undirritaður hinn 11. apríl 2006 og nam fjárhæð hans 2.250.000 sterlingspundum. Sama dag undirritaði Jón Ólafsson yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð, þar sem hann gekkst í sjálfskuldarábyrgð til tryggingar á skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum, afleiðusamningum og öðrum skuldbindingum sem stefndi gengist undir gagnvart Sparisjóðnum í Keflavík, þ.m.t. samkvæmt lánasamningi að fjárhæð GBP 2.250.000 auk vaxta og alls kostnaðar.

Í kjölfar undirritunar lánasamningsins og sjálfskuldarábyrgðarinnar hóf stefndi að draga á lánið en um svokallaða lánalínu var að ræða, eða yfirdráttarlán.

Hinn 31. janúar 2007 nam skuld stefnda við Sparisjóðinn í Keflavík á grundvelli framangreinds lánssamnings samtals 2.263.907,29 sterlingspundum, og var skuldin þá því orðin hærri en hámarksfjárhæð samkvæmt samningnum. Af því tilefni var undirritaður viðauki við lánasamninginn í febrúar 2007.

Samkvæmt viðaukanum var hámarksfjárhæð samningsins hækkuð í 3.375.000 sterlingspund. Jafnframt var vaxtagjalddögum fjölgað þannig að vextir skyldu greiðast mánaðarlega.

Gjalddagi lánsins samkvæmt lánssamningnum var 22. apríl 2007. Stefndi greiddi lánið ekki upp á þeim degi. Stefndi hélt áfram að nýta lánalínuna, auk þess sem fjölmargar innborganir inn á skuldina áttu sér stað eftir gjalddaga lánsins.

Síðasta innborgun inn á skuldina var hinn 21. ágúst 2009 og nam hún 6.440 sterlingspundum. Eftir það nam skuld stefnda við Sparisjóðinn í Keflavík samtals 2.255.432,96 sterlingspundum og er það stefnufjárhæð málsins.

Í ljósi þess að stefndi hefur ekkert greitt af skuldbindingum sínum við Sparisjóðinn í Keflavík er dómsmál þetta höfðað til innheimtu fjárkröfu stefnanda á grundvelli lánasamningsins og viðaukans við hann.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefnda á lánasamningi við Sparisjóðinn í Keflavík, dags. 11. apríl 2006. Þá hafi sérstaklega verið aukið við samninginn með undirritun viðauka við lánasamninginn, frá í febrúar 2007. Skylda stefnda til endurgreiðslu lánsins á grundvelli framangreindra löggerninga sé skilyrðislaus.

Til sönnunar fjárkröfu sinni á hendur stefnda vísar stefnandi til fyrrnefnds lánasamnings milli félagsins og Sparisjóðsins í Keflavík, forvera stefnanda, sem og viðauka við hann. Þá vísar stefnandi til yfirlits yfir stöðu lánsins, eða lánalínunnar, á hverjum tíma, en á yfirlitinu sjáist allar inn- og útborganir á lánið, vaxtafærslur og staða skuldarinnar.

Sparisjóðurinn í Keflavík er gagnaðili lánasamningsins við stefnda frá 11. apríl 2006, og viðaukans frá í febrúar 2007. Hinn 22. apríl 2010 tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun að ráðstafa tilteknum eignum og skuldum Sparisjóðsins í Keflavík, til Spkef sparisjóðs. Hluti af þeim eignum sem ráðstafað var til Spkef sparisjóðs með ákvörðuninni var krafan á hendur stefnda. Með ákvörðuninni tók Spkef sparisjóður því við öllum réttindum og skyldum samkvæmt framangreindum löggerningum.

Hinn 7. mars 2011 tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun að afturkalla starfsleyfi Spkef sparisjóðs og var honum slitið frá og með þeim degi. Frá þeim tíma tók stefnandi þessa máls, NBI hf. við rekstri, eignum og skuldbindingum Spkef sparisjóðs. Þar með tók NBI hf. við öllum réttindum og skyldum samkvæmt framangreindum löggerningum og er því réttur stefnandi málsins.

Stefnandi vísar til meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og meginreglna kröfuréttar, sem og til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti, enda sé NBI hf. ekki eigandi kröfunnar. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 22. apríl 2010, hafi einhverjum eignum Sparisjóðsins í Keflavík verið ráðstafað til SpKef sparisjóðs en ekki þeim eignum sem sérstaklega væru undanskildar í skýrslu sem Fjármálaeftirlitið hafi falið endurskoðunarfyrirtæki að vinna. Stefnandi hafi ekki lagt fram neinar sönnur þess að ætluð krafa á hendur stefnda hafi verið á meðal þeirra eigna sem fluttar hafi verið til SpKef sparisjóðs. Hvað þá heldur sönnur um að NBI hf. sé nú eigandi ætlaðrar kröfu. Beri því að sýkna stefnda vegna aðildarskorts stefnanda.

Stefndi krefst sýknu m.a. þar sem Sparisjóðurinn hafi algerlega brugðist skyldum sínum til að halda kröfum sínum til haga en Sparisjóðurinn hefði hæglega getað gengið að veðunum eftir gjalddaga lánsins og fengið fullar heimtur upp í kröfur sínar. Vegna háttsemi Sparisjóðsins sjálfs varðandi meðhöndlun bréfanna megi stefndi líta svo á að varsla þeirra hjá bankanum hafi á gjalddaga fullnægt greiðsluskyldu hans skv. lánasamningnum á þeim degi eða á einhverju síðara tímamarki. Sparisjóðurinn hafi ekkert gert á meðan virði handveðsins rýrnaði í umsjón sjóðsins sem hafi jafnframt verið sá eini aðili sem heimild hafði til að ráðstafa og þar með vernda virði handveðsins þar sem bréfin hafi verið skráð á nafn Sparisjóðsins. Því til viðbótar hafi Sparisjóðurinn ekki gjaldfellt lánið á gjalddaga og setið aðgerðalaus hjá um árabil eftir gjalddagann. Sparisjóðurinn hafi viðurkennt með fyrirvara (de facto viðurkennt) þessa ábyrgð sína með því að láta hjá líða í um fjögur ár eftir gjalddaga að gjaldfella og/eða innheimta lánið.

Stefndi byggir jafnframt á því að í raun hafi Sparisjóðnum verið skylt að gæta bæði eigin hagsmuna sem og hagsmuna stefnda sem viðskiptavinar sparisjóðsins og ráðstafa hinum handveðsettu bréfum til endurgreiðslu lánsins, enda hafi hlutabréfin verið skráð á nafn Sparisjóðsins en ekki stefnda sem hafi því ekki verið kleift að selja þau til endurgreiðslu lánsins. Með vísan til 1. gr. lánasamnings aðila hafi það verið hreinn og klár tilgangur lánasamningsins að stunda skyldi hlutabréfaviðskipti fyrir andvirðið. Sé því enn sterkari skylda Sparisjóðsins fyrir hendi, að ráðstafa bréfunum upp í greiðslu hinnar gjaldföllnu afborgunar eða að selja hin handveðsettu bréf til endurgreiðslu lánsins á gjalddaga eða a.m.k. á meðan veðandlagið nægði enn til greiðslu lánsins. Með því að gera það ekki hafi Sparisjóðurinn brotið gegn samningnum og bakað stefnda þannig tjón sem síðan hafi aukist með athafnaleysi Sparisjóðsins sem hafi setið aðgerðarlaus hjá, um árabil, á meðan verðmæti handveðsins minnkaði. Allt að einu sé þar með réttur Sparisjóðsins til innheimtu skuldarinnar niður fallinn vegna tómlætis og háttsemi sparisjóðsins sjálfs. Háttsemi Sparisjóðsins hafi brotið þannig gegn lánasamningnum og sérstaklega yfirlýstum tilgangi hans. Á slíkri háttsemi verði sparisjóðurinn sjálfur að bera ábyrgð.

Stefndi vekur athygli á því að honum hafi ekki verið skilað neinu af handveðsettum hlutabréfum sem hafi verið veðandlag lánasamningsins né hafa slíkt skil verið boðuð af stefnanda í kjölfar málssóknar þessarar.

Stefndi vísar til tómlætis Sparisjóðsins sem hvorki hafi innheimt lánið eftir gjalddaga, gert nokkurn reka að því að framlengja það eða stýra þeim eignum, hlutabréfum, sem til grundvallar lánveitingunni lágu. Skipti þar í raun engu hvort tómlætið hafi verið tilkomið af viljaleysi eða getuleysi sparisjóðsins til að stýra eignunum og komast hjá tjóni á handveðinu. Slíkt sé allt að einu ekki á ábyrgð stefnda.

Stefndi byggir á því að tómlæti Sparisjóðsins og sú háttsemi sem lýst sé hér að framan, hafi leitt til aukinnar og óþarfrar áhættu fyrir stefnda og leiði jafnframt til þess að skyldur stefnda skv. samningnum séu niðurfallnar á grundvelli meginreglna samningaréttar um ógilda löggerninga, sbr. III. kafli laga nr. 7/1936, einkum 33. og 36. gr. laganna. Háttsemi bankans sem að ofan er lýst sé jafnframt ósanngjörn og andstæð góðri viðskiptavenju. Eigi ofangreint einnig við um gjaldfellingu og innheimtu á téðu láni, einkum með tilliti til þess að ekki séu boðuð nein skil á téðu handveði, eða því sem eftir sé af því.

Þá byggir stefndi á brostnum forsendum. Það hafi verið yfirlýstur tilgangur samningsins að andvirði lánsins skyldi notað til hlutabréfakaupa. Til tryggingar samningnum hafi handveð verið í hlutabréfum sem skráð hafi verið á nafn Sparisjóðsins og því hafi stefndi ekki getað sýslað með þau bréf, þ.m.t. hafi stefndi ekki getað selt bréfin til endurgreiðslu á láninu á gjalddaga. Bréfunum hafi ekki verið skilað til stefnda né hafi stefnandi boðað að afhenda stefnda bréfin í tengslum við málsókn þessa. Það hafi verið augljós ákvörðunarástæða stefnda, enda beri samningur aðila þess ýmis merki, að hlutabréfaviðskiptin sem andvirði lánsins hafi verið ráðstafað til, stæðu undir endurgreiðslu á láninu á gjalddaga. Þetta hafi Sparisjóðurinn, viðsemjandi stefnda vitað, eða mátt a.m.k. vera það ljóst, og önnur niðurstaða en sú að fallast á að samningurinn sé niður fallinn vegna brostinna forsendna sé ósanngjörn. Til viðbótar við þetta hafi það verið forsendur samninga að Sparisjóðurinn gætti trúnaðarskyldu sinnar gagnvart stefnda og misfæri ekki með handveðin sem hafi verið til tryggingar réttum efndum á lánasamningnum og uppfyllti skyldur sínar við eignastýringu fyrir hönd stefnda. Sparisjóðurinn hafi ekki uppfyllt neitt ofangreint.

Stefndi vísar til andskýringarreglu samningaréttarins en samningar og allir löggerningar í tengslum við lánveitinguna hafi verið einhliða samdir af Sparisjóðnum. Skuli þeir því túlkaðir stefnanda í óhag sé minnsti vafi fyrir hendi um merkingu tiltekinna ákvæða eða túlkun löggerninganna, þ.m.t. lánasamninganna, í heild. Hvað þetta varði bendir stefndi einnig á að skv. 10. gr. lánasamningsins, skyldi gerður sérstakur veðsamningur (e. pledge agreement) milli aðila til að kveða nánar á um útfærslu handveðsins til tryggingar lánssamningnum. Slíkur veðsamningur hafi aldrei verið gerður við stefnda af hálfu Sparisjóðsins og skuli það túlkað Sparisjóðnum og þar með stefnanda í óhag.

Stefndi byggir á því að Sparisjóðurinn hafi ekki gætt skyldna sinna, hvorki hvað varði skyldur Sparisjóðsins til að stýra eignum stefnda né skyldum til að varðveita handveðið og forða því frá tjóni. Sparisjóðurinn beri sjálfur ábyrgð á því tjóni sem hafi orðið vegna þessa, enda beri hann skyldu til að varðveita veðandlag með fullnægjandi hætti. Hafi sparisjóðurinn þar með misfarið með handveðið og brotið gegn trúnaðarskyldu sinni gagnvart stefnda sem hafi verið viðskiptavinur hans.

Stefndi vísar til meginreglna laga, þ.m.t. meginreglna samningaréttar, eðli máls og sanngirnisraka varðandi það að sú niðurstaða að láta hann bera endurgreiðsluskyldu á téðu láni sé klárlega óeðlileg og ósanngjörn m.a. með tilliti til kringumstæðna. Stefndi hafi aldrei getað ráðstafað hinum handveðsettu bréfum eða selt þau þar sem þau hafi ávallt verið skráð á nafn Sparisjóðsins. Sparisjóðurinn hafi ekki sinnt um að innheimta lánið og hafi ekki sinnt um að forða handveði frá tjóni. Sparisjóðurinn einn hafi verið í aðstöðu til að afstýra tjóni á veðinu og hefði haft til þess öll tækifæri löngu eftir gjalddaga lánsins sem sparisjóðurinn hafi ekki sinnt að innheimta. Það væri klárlega ósanngjarnt að láta stefnda bera ábyrgð á þeirri háttsemi sparisjóðsins. Styðji sú staðreynd að Sparisjóðurinn hafi aldrei innheimt lánið, um árabil, fullyrðingar stefnda.

Stefndi vísar til þess að NBI hf. hafi höfðað sérstakt mál gegn Jóni Ólafssyni, sjálfskuldarábyrgðaraðila, til innheimtu á sömu skuld og hann stefni nú stefnda til greiðslu á. Stefna í máli Jóns Ólafssonar hafi verið árituð 5. júlí s.l. í Héraðsdómi Reykjavíkur en Jón Ólafsson hafi nú krafist endurupptöku í því máli. Hins vegar hafi stefnandi enga fyrirvara gert á innheimtu skuldarinnar, hvorki gagnvart Jóni Ólafssyni né gagnvart stefnda, og því virðist kröfugerð stefnanda gera ráð fyrir því að bankinn fái kröfur sínar greiddar að fullu bæði frá stefnda og frá Jóni Ólafssyni. Þar að auki sé ekki boðuð yfirfærsla á eignasafni því sem liggi til grundvallar handveði og skráð sé á nafn Sparisjóðsins. Byggt sé á því að skuldari geti haldið að sér höndum ef handveði sé ekki skilað við efndir og hafi málinu ekki verið vísað frá af þessum sökum sé krafist sýknu m.t.t. þessa.

Fari svo ólíklega að lánasamningur aðila sem og gjaldfelling og innheimta hans verði talin stefnanda heimil byggir stefndi á því að hann eigi bótakröfu á hendur stefnanda sem hann geti skuldajafnað án sjálfstæðs dóms gegn dómkröfu stefnanda. Byggir stefndi þá kröfu á því tjóni sem áður rakin háttsemi Sparisjóðsins hafi valdið stefnda. Hin tjónsvaldandi háttsemi hafi m.a. falist í að misfara með handveð, broti á trúnaðarskyldum við stefnda sem viðskiptavin, að varðveita ekki handveð með tryggum hætti og að sinna ekki eignastýringarskyldum sínum og er vísað til framangreinds. Fari svo ólíklega að stefnandi teljist eiga einhverja kröfu á stefnda þá komi til skuldajafnaðar krafa stefnda vegna tjóns hans sem m.a. hafi orðið af því að handveðið hafi rýrnað í umsjá Sparisjóðsins. Hvað þennan þátt varði vísar stefndi til sakarreglunnar og reglna um vinnuveitandaábyrgð enda hafi stefndi orðið fyrir beinu fjártjóni vegna hinnar ólögmætu og saknæmu háttsemi starfsmanna Sparisjóðsins sem áður sé lýst í greinargerð þessari. M.a. sé vísað til þess að verðmæti handveðsettra hlutabréfa stefnda hafi lækkað um 3.079.090 sterlingspund frá 30. júlí 2007 til 31. mars 2011. Ef Sparisjóðurinn hefði innheimt lánið í samræmi við góða starfshætti og ekki setið aðgerðarlaus hjá á meðan verðmæti handveðsins hafi hríðlækkað án þess að stefndi fengi rönd við reist, þar sem bréfin hafi verið skráð á nafn Sparisjóðsins, þá hefði skuldin greiðst að fullu og gott betur. Stefndi krefst því sýknu af kröfu NBI hf. þar sem krafa stefnda til skuldajafnaðar sé að lágmarki jafnhá stefnufjárhæðinni. Verði talið að bótakrafa stefnda til skuldajafnaðar sé lægri en dómkrafa í stefnu þá komi bótakrafan til lækkunar dómkröfum stefnanda, sbr. þrautavarakröfu stefnda.

Mótmælt sé upphafstímum vaxta í stefnu. Um lagarök annarra krafna vísast til ákvæða laga nr. 7/1936, einkum 33. og 36. gr., almennra reglna um brostnar forsendur og meginreglna kröfuréttar

Niðurstaða

                Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti, enda sé stefnandi ekki eigandi kröfunnar. Því er hafnað af hálfu stefnanda.

                Í málinu krefst stefnandi greiðslu skuldar samkvæmt framlögðum lánasamningi frá 11. apríl 2006 og viðauka við hann og eru samningarnir á milli stefnda, sem lántaka og Sparisjóðsins í Keflavík, sem lánveitanda. Lánveitandinn fór í þrot og með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins dags. 22. apríl 2010 er eignum og skuldum Sparisjóðs Keflavíkur ráðstafað til Spkef sparisjóðs. Ákvörðunin er tekin á grundvelli heimildar í VI. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. IV. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009. Í 1. tl. ákvörðunarinnar er tekið fram að öllum eignum Sparisjóðsins í Keflavík hverju nafni sem þær nefnast, svo sem fasteignum, lausafé, reiðufé, eignarhlutum í öðrum félögum og kröfuréttingum, sé ráðstafað til Spkef sparisjóðs þegar í stað nema þegar þær séu sérstaklega undanskildar í skýrslu samkvæmt 10. tl. ákvörðunarinnar. Í nefndum 10. tl. segir að nánari sundurliðun þeirra eigna og skuldbindinga sem ráðstafað sé samkvæmt ákvörðuninni muni fram fara í sérstakri skýrslu sem Fjármálaeftirlitið hafi falið endurskoðunarfyrirtæki að vinna. Skýrsla þessi liggur ekki fyrir í málinu. Stefnandi hefur lagt fram yfirlýsingu Ólafs Arnar Svanssonar hæstaréttarlögmanns og skiptastjóra bús Sparisjóðsins í Keflavík. Þar kemur fram að hann staðfesti að öll útlán Sparisjóðs Keflavíkur hafi verið færð yfir í Spkef sem og ábyrgðir vegna þeirra enda „engin slík útlán eða ábyrgðir undanskilinn í skýrslu þeirri sem vísað er til…“ Yfirlýsing þessi var lögð fram í þinghaldi 22. mars 2012 og var henni ekki mótmælt af hálfu stefnda. Málsástæður stefnda er fram komu við aðalmeðferð málsins varðandi yfirlýsingu þessa eru því of seint fram komnar, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála, enda þeim mótmælt af hálfu stefnanda. Verður yfirlýsingin því lögð til grundvallar í málinu. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 5. mars 2011 tók NBI hf., sem nú heitir Landsbankinn, við rekstri eignum og skuldbindingum Spkef sparisjóðs. Ákvörðunin er tekin á grundvelli heimildar í VI. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. IV. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009. Með vísan til þess sem að framan greinir er kröfu stefndu um sýknu vegna aðildarskorts hafnað.

                Í 3. gr. nefnds samnings frá 11. apríl 2006 og viðauka við hann er kveðið á um endurgreiðslu láns þess er stefndi fékk hjá Sparisjóði Keflavíkur. Um sé að ræða loforð stefnda til greiðslu lánsins og við það ber honum að standa. Stefndi er alþjóðlegt viðskiptafyrirtæki en stefnandi er bankastofnun. Því er hafnað að stefnandi eigi að bera hallann af samningsgerðinni í ljósi stöðu sinnar og þess að hann hafi samið samninginn, en ósannað er að Sparisjóðurinn hafi einhliða samið hann. Samningurinn er saminn á ensku en stefndi er einnig sérfræðiaðili á þessu sviði og með búsetu erlendis. Þá verður ekki séð að ætlaður skortur á gerð sérstaks veðsamnings hafi þýðingu hér, en vanreifað er á hvern hátt það geti verið.

                Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti þar sem hvorki hafði verið gerður reki að því að innheimta lánið eftir gjalddaga, framlengja það eða stýra þeim hlutabréfum sem lágu til grundvallar lánveitingunni. Þessu er hafnað. Fyrir liggur að gjalddagi lánsins var 22. apríl 2007. Stefndi greiddi lánið ekki upp á þeim degi og hélt áfram að nýta sér lánalínuna og greiða inn á lánið. Í gögnum málsins liggja fyrir tölvupóstsamskipti lögmanna málsaðila er hefjast í febrúar 2009, þar sem þeir eru að vinna að frekari samningum milli aðila. Fram kemur að í gildi sé lánasamningurinn frá 11. apríl 2007 og viðauki við hann. Samskipti lögmannanna enda þannig að hinn 21. ágúst 2009 spyr lögmaður stefnanda hverju það sæti að engin skjöl hafi verið undirrituð af stefnda og er þá átt við nýja samninga. Við þessu fékkst ekki svar en síðasta innborgunin frá stefnda kom sama daginn. Svo virðist sem stefndi hafi þá ákveðið að hætta að nýta sér lánalínuna. Engin tilkynning liggur fyrir í málinu um þessa ákvörðun hans né heldur hafði hann frumkvæði að því að greiða upp lánið, sem komið var fram yfir gjalddaga. Ekki liggur fyrir að stefndi hafi gefið fyrirmæli um að selja hlutabréf þau er hann hafði sett af handveði eða að gera aðrar ráðstafandir vegna lánsins og hinna veðsettu hlutabréfa. Í ljósi atvika málsins hvílir skyldan á stefnda. Því er hafnað að stefnandi hafi misfarið með handveðið eða ekki varðveitt það sem skyldi. Þá er engin stoð fyrir því í gögnum málsins að stefnandi hafi brotið gegn trúnaðarskyldum sínum eða ekki sinnt þeirri skyldu sinni að stýra eignum stefnda, en enginn slíkur eignastýringasamningur liggur fyrir heldur einungis samningur um lán til handa stefnda.

                Samkvæmt lánasamningnum lofar stefndi að greiða lánið, en setur auk þess hlutabréfin að handveði fyrir skuld sinni. Því er um tvenns konar réttarsamband að ræða. Stefnandi treysti á endurgreiðslu samningsins samkvæmt láninu. Hefði stefndi viljað selja hlutabréfin til að standa skil á láninu bar honum að tilkynna stefnanda það. Alkunna er að sveiflur geta verið á virði hlutabréfa og geta þær stafað af ýmsum ástæðum. Áhættan af virði hlutabréfanna er hjá stefnda. Því er öllum sjónarmiðum stefnda hafnað um að stefnandi hafi átt að selja hlutabréfin á meðan virði þeirra var hærra en skuldin. Þá eru engin efni til að skila hinum handveðsettu hlutabréfum fyrr en lánið er greitt.

                Með vísan til þess sem að framan greinir á tilvísun stefnanda til III. kafla laga nr. 7/1936, einkum 33. og 36. gr. ekki við. Þá er haldlaus málsástæða stefnda byggð á brostnum forsendum. Þeirri málsástæðu stefnda að verið sé að innheimta skuldina bæði hér í þessu máli og í öðru dómsmáli á hendur Jóni Ólafssyni er hafnað og vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 678/2012.

                Með vísan til þess sem að framan greinir ber stefnda að greiða lán sitt samkvæmt lánasamningi aðila og viðauka við hann. Stefndi hefur krafist lækkunar þar sem hann telur sig eiga bótakröfu á hendur stefnanda. Stefndi byggir kröfuna á sakarreglunni og reglum um vinnuveitandaábyrgð. Því er hafnað að skilyrði bótaábyrgðar sé fyrir hendi. Ekki hefur á nokkurn hátt verið sýnt fram á það að háttsemi stefnanda hafi verið með saknæmum og ólögmætum hætti.

                Niðurstaða málsins er því sú að stefnda ber að greiða stefnanda dómkröfu málsins eins og hún er fram sett. Í greinargerð stefnda er upphafstíma vaxta mótmælt, án rökstuðnings. Gjalddagi lánsins samkvæmt samningum var 22. apríl 2007. Eins og að framan er rakið var lánalínan þó virk allt til 21. ágúst 2009 er stefndi greiddi síðustu innborgunina. Því er tekin til greina dráttarvaxtakrafa stefnanda eins og hún er sett fram í dómkröfu málsins.

                Með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað eins og fram er tekið í dómsorði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Jervistone Ltd., greiði stefnanda, Landsbankanum, 2.255.432,96 sterlingspund, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 21. ágúst 2009 til greiðsludags og 900.000 kr. í málskostnað.