Hæstiréttur íslands
Mál nr. 184/1999
Lykilorð
- Lögmaður
- Uppgjör
- Siðareglur
- Dráttarvextir
- Skriflegur málflutningur
|
|
Fimmtudaginn 9. desember 1999. |
|
Nr. 184/1999. |
Friðmey Helga Sveinsdóttir (Erla S. Árnadóttir hrl.) gegn Kristjáni Stefánssyni (enginn) |
Lögmenn. Uppgjör. Siðareglur. Dráttarvextir. Skriflegur málflutningur.
Á árinu 1988 fól F lögmanninum K að innheimta fyrir sig bætur vegna líkamstjóns, sem hún hafði orðið fyrir í umferðarslysi. Samdi K um bætur við vátryggingafélagið S og tók hann við bótunum með fyrirvara um frekari málsókn. Tók F við uppgjöri K á bótunum daginn eftir. K höfðaði síðan mál fyrir hönd F gegn S og vátryggingartaka til heimtu fjár sem dregið var af bótunum vegna skattfrelsis örorkubóta. Árið 1993 voru F dæmdar frekari bætur, sem K tók við fyrir hennar hönd. F kvað sér ekki hafa verið kunnugt um málsóknina fyrr en á árinu 1998 og hafi hún krafið K um greiðslu bótanna strax og dómsniðurstaðan hafi orðið henni ljós. Í kjölfarið greiddi K F dæmdar bætur auk vaxta, sem hann reiknaði í samræmi við vexti af innlánsreikningi í viðskiptabanka, sem bundinn er í fimm ár, að frádreginni málflutningsþóknun. Höfðaði F dómsmál á hendur K og krafðist dráttarvaxta af bótafénu. Fallist var á þá niðurstöðu héraðsdóms að F hefði verið kunnugt um málsókn sína gegn S. Talið var að ráðstafanir K til að gera F viðvart um að greiðsla samkvæmt dómnum biði hennar hefðu verið ófullnægjandi, en jafnframt var talið að það hefði hvílt á F að vitja greiðslunnar til K og væri því ekki heimild í lögum fyrir að dæma F dráttarvexti af fénu. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest og K sýknaður af kröfum F um greiðslu dráttarvaxta af bótafénu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. maí 1999. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 710.915 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. júní 1998 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt hér fyrir dómi.
Stefndi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I.
Áfrýjandi mun hafa orðið fyrir líkamstjóni í umferðarslysi á árinu 1988. Fól hún stefnda, sem er starfandi hæstaréttarlögmaður, að fá greiddar bætur úr ábyrgðartryggingu bifreiðar hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands hf. Samdi stefndi um bætur við vátryggingafélagið og veitti þeim viðtöku 8. maí 1989. Í kvittun fyrir bótunum gerði stefndi fyrirvara um fjárhæð, sem félagið taldi eiga að draga frá greiðslu til áfrýjanda vegna skattfrelsis örorkubóta, og áskildi henni þar rétt til að krefjast frekari bóta með málsókn. Áfrýjandi tók við uppgjöri úr hendi stefnda daginn eftir og fékk þá greiddar 1.385.924 krónur.
Stefndi höfðaði mál fyrir áfrýjanda 1. júní 1989 gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og vátryggingartaka og krafðist þar greiðslu á fjárhæð, sem dregin hafði verið frá bótum til hennar af fyrrgreindri ástæðu. Með dómi Hæstaréttar 1. apríl 1993 voru áfrýjanda dæmdar 400.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum, auk 200.000 króna í málskostnað. Í kjölfar dómsins tók stefndi við greiðslu frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. á 1.303.848 krónum. Áfrýjandi kveður sér hafa verið ókunnugt um málsóknina þar til á fyrri hluta árs 1998, þegar hún leitaði til vátryggingafélagsins til að kanna hvort hún ætti kost á frekari bótum vegna slyssins. Í kjölfarið krafði hún stefnda um greiðslu bótanna. Stefndi greiddi áfrýjanda 1.088.620 krónur 8. júní 1998. Samkvæmt uppgjöri stefnda er þar um að ræða bætur, vexti og málskostnað samkvæmt fyrrnefndum dómi Hæstaréttar að frádreginni þóknun stefnda fyrir flutning málsins ásamt virðisaukaskatti. Af mismuninum reiknaði síðan stefndi vexti, sem hann kveður vera í samræmi við vexti af bundnum innlánsreikningi í viðskiptabanka. Áfrýjandi tók við þeirri greiðslu sem innborgun, en höfðaði síðan mál þetta á hendur stefnda. Krafa hennar er sundurliðuð í hinum áfrýjaða dómi, en meginhluti kröfunnar á rætur að rekja til dráttarvaxta, sem áfrýjandi telur stefnda bera að greiða af bótafénu frá viðtöku þess, að frádregnum þeim vöxtum, sem stefndi stóð skil á.
II.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lagður úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna 4. október 1999 vegna kæru áfrýjanda til nefndarinnar vegna starfshátta stefnda og meðferðar hans á mótteknu bótafé. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að tilraunir stefnda til að koma skilaboðum til áfrýjanda um bótauppgjör í kjölfar fyrrnefnds dóms í máli hennar gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. hafi verið algjörlega ófullnægjandi og ekki í samræmi við þær skyldur, sem á honum hvíldu sem starfandi lögmanni. Var stefndi talinn hafa brotið með þessu gegn 1. mgr. 14. gr. siðareglna Lögmannafélags Íslands og var honum veitt áminning.
III.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður fallist á þá niðurstöðu hans að áfrýjanda hafi verið kunnugt um fyrrnefnda málsókn gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Ráðstafanir stefnda til að gera henni viðvart um að greiðsla samkvæmt dóminum biði hennar voru hins vegar alls ófullnægjandi. Þrátt fyrir þetta verður ekki litið framhjá því að eftir meginreglum fjármunaréttar hvíldi á áfrýjanda að vitja greiðslunnar til stefnda. Er hvorki í 9. gr. vaxtalaga né öðrum ákvæðum laga heimild til að dæma áfrýjanda dráttarvexti af fénu vegna tímabilsins, sem hún lét hjá líða að krefjast greiðslu þess. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Friðmeyjar Helgu Sveinsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 100.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. febrúar 1999.
I.
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 9. september 1998 og dómtekið 2. þ.m.
Stefnandi er Friðmey Helga Sveinsdóttir, kt. 050664-8139, Vesturvör 27, Kópavogi.
Stefndi er Kristján Stefánsson, kt. 010345-3169, Frostaskjóli 81, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 710.915 krónur, auk dráttarvaxta frá 8. júní 1998 til greiðsludags og málskostnaðar.
Stefndi krefst þess aðallega, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til greiðslu málskostnaðar, en til vara, að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði lagður á hana eða felldur niður.
II.
Á árinu 1988 fól stefnandi stefnda, sem starfrækir lögmannsskrifstofu hér í borg, að krefja Sjóvá-Almennar tryggingar hf. um skaðabætur vegna umferðarslyss. Stefndi samdi um bæturnar við tryggingarfélagið og veitti þeim viðtöku þann 8. maí 1989 með fyrirvara varðandi frádrátt vegna staðgreiðslu skatta, og var áskilinn réttur til innheimtu með málssókn. Daginn eftir tók stefnandi við uppgjöri og fékk greiddar 1.385.924 krónur frá stefnda. Upphafleg stefnukrafa málsins laut m.a. að því uppgjöri, þannig að stefndi hefði ekki staðið stefnanda skil á 400.000 krónum, sem hann hefði móttekið frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf., en frá þeirri kröfu var fallið við aðalmeðferð málsins.
Einn frádráttarliða uppgjörsins hljóðar um 50.000 krónur „vegna væntanlegs máls”. Stefnandi bar, að hún hefði „ekkert lesið af viti”; bar hún því við, að hún hefði hlotið skólamenntun sína í Bandaríkjunum og ekki flust til Íslands fyrr en 1987. Auk þess hefði stefndi sagt, að málið væri búið og að hún fengi ekki „meiri pening”. Því hefur stefndi borið á móti. Stefndi kveður ákveðið hafa verið í samráði við stefnanda að höfða mál til heimtu frekari bóta og er það tapaðist að áfrýja til Hæstaréttar, þar sem stefnanda voru dæmdar bætur þ. 1. apríl 1993 (mál nr. 141/1990), 400.000 krónur auk vaxta og 200.000 króna í málskostnað.
Í stefnu segir, að á síðustu mánuðum hafi komið í ljós, að örorka stefnanda sé meiri en gert hefði verið ráð fyrir. Hún hafi því farið að kanna, hvort hún ætti hugsanlega rétt á frekari bótum og haft samband við Sjóvá-Almennar tryggingar hf. Þar hafi henni verið tjáð, að stefnandi hefði móttekið fyrir hennar hönd 1.303.848 krónur þann 6. apríl 1993, eftir að dómur hefði gengið í Hæstarétti í máli hennar gegn félaginu. Er það í samræmi við framlagða skaðabótakvittun-. Segir um þetta í stefnu, að stefnandi hafi ekkert heyrt um það mál og ekki fengið skil á þeim bótum sem henni voru dæmdar.
Stefnandi leitaði til lögmanns, sem reit stefnda innheimtubréf þ. 29. apríl 1998 og krafði hann um greiðslu samkvæmt Hæstaréttardóminum frá 1. apríl 1993, samtals 2.379.467 krónur, að meðtöldum innheimtukostnaði að upphæð 169.093 krónur.
Á fundi með lögmanni stefnanda 15. maí 1998 lagði stefndi fram drög eða tillögu að uppgjöri, sem kvað á um greiðslu á 856.696 krónum til stefnanda. Reiknað var með sparisjóðsvöxtum frá apríl 1993 til maí 1998 að upphæð 35.348 krónur, þannig að samtals bæri stefnda að greiða stefnanda 856.696 krónur. Þessu var hafnað af hálfu stefnanda og sendi lögmaður hennar stefnda innheimtubréf, dags. 22. maí 1998, þar sem hann var krafinn um greiðslu á 2.142.756 krónum, að meðtöldum innheimtukostnaði.
Þann 8. júní 1998 sendi stefndi lögmanni stefnanda 1.088.620 krónur, sem var veitt viðtaka upp í kröfuna, og var greiðslan samkvæmt einhliða uppgjöri stefnda, svohljóðandi:
|
Mótteknar bætur skv. dómi Hæstaréttar Íslands |
kr. 1.303.848 |
|
Málskostnaður |
kr.390.000 |
|
24,5% virðisaukaskattur |
kr. 95.550 |
|
Inneign |
kr. 818.298 |
|
|
kr.1.303.848 |
|
Inneign |
kr. 818.298 |
|
Áfallnir vextir og verðbætur. |
|
|
Vextir miðast við reikning sem er bundinn í 5 ár |
kr. 270.322 |
|
Til greiðslu |
kr. 1.088.620 |
III.
Til stuðnings kröfu sinni vísar stefnandi til almennra reglna kröfuréttarins, og eigi hún kröfu á stefnda vegna vangoldins vörslufjár, sem hann tók við og bar að standa stefnanda skil á þá þegar. Telur hún, að hún eigi rétt á dráttarvöxtum af hinni vangoldnu fjárhæð.
Krafa stefnanda er þannig sundurliðuð:
|
Dæmdar bætur skv. Hrd. dags 1/4 1993 gr. frá Sjóvá Alm. 6/4 1993 |
kr. 1.303.848 |
|
málskostnaður stefnda skv. dómi |
kr.- 249.000 |
|
Samtals |
kr. 1.054.848 |
|
Málskostnaður stefnda fyrir Hr. og Hérd. 191.000x2 |
kr. 382.000 |
|
24,5% virðisaukaskattur |
kr. 93.590 |
|
útlagður kostnaður |
kr. 34.400 |
|
innborgun stefnanda skv. uppgjöri |
kr.- 50.000 |
|
gr. málskostn. skv. dómi |
kr.- 249.000 |
|
Samtals |
kr. 210.990 |
|
Málskostnaður stefnda umfram dóm |
kr.- 210.990 |
|
drv. 6/4 1993 - 8/6 1998 af 843.858 |
kr. 955.677 |
|
innborgun 8/6 1998 frá stefnda |
kr.- 1.088.620 |
|
Samtals |
kr. 710.915 |
IV.
Stefndi vísar til þess, að samkvæmt uppgjöri beri inneign stefnanda verðbætur og vexti miðað við bundna reikninga og á þann hátt hafi stefnandi notið hæstu ávöxtunar. Hún eigi því engar kröfur á hendur stefnda. Á þeim grundvelli er sýknukrafa sett fram.
Til stuðnings varakröfu sinni vísar stefndi til þess, að hann hafi á sínum tíma gert tilraunir til að ná sambandi við stefnanda, en það hafi ekki tekist og stefnandi hafi ekki borið sig eftir að ná sambandi við stefnda, hugsanlega vegna þess að hún hafi óttast, að mál hennar fyrir Hæstarétti hafi tapast eins og í héraði, með þeim afleiðingum, að henni bæri að greiða honum málskostnað. Greiðsla vörslufjárins hafi hins vegar farið fram, þegar þess hafi verið óskað, með sanngjörnum vöxtum, þannig að stefnandi hafi verið skaðlaus af þeirri greiðslutöf, sem stefnda verði þó ekki kennt um. Stefnandi hafi farið með greiðslu samkvæmt uppgjöri stefnda sem innborgun og varið henni einhliða til greiðslu á dráttarvöxtum. Samkvæmt framangreindu telur stefndi hins vegar, að réttur hennar til dráttarvaxta hafi aldrei verið fyrir hendi, og þótt svo hefði verið, væru þeir að hluta til fyrndir.
V.
Megin ágreiningur aðila lýtur að vaxtaákvörðun, þ.e. stefnandi krefst dráttarvaxta í stað „vaxta og verðbóta af reikningi, sem er bundinn í 5 ár”, en útreikningur þeirrar fjárhæðar, sem þannig er fundin af hálfu stefnda, sætir ekki ágreiningi.
Eins og fyrr greinir, hefur það uppgjör, sem stefnandi tók við úr hendi stefnda í maí 1989 og staðfesti með undirskrift sinni, að geyma liðinn „vegna væntanlegs máls 50.000 krónur”, þ.e. stefndi tók fyrir fram greiðslu upp í kostnað vegna máls, sem var síðan höfðað 1. júní 1989. Stefnanda mátti því vera ljós fyrirhuguð málssókn og verður að teljast útilokað, að áfrýjun málsins hafi verið ráðin án vitundar og vilja hennar. Stefndi bar, að eftir að hann tók við umræddri greiðslu frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. í apríl 1993, hefði hann hringt í heimilisfang, sem stefnandi hefði gefið upp í Hafnarfirði, og einnig átt símtal við eiginkonu ættingja stefnanda, en hún hefði sagt, að stefnandi væri stödd erlendis. Stefnandi hefur borið, að auðvelt hefði verið að ná til sín. Samkvæmt búsetuvottorði þjóðskrár Hagstofu Íslands var lögheimili stefnanda að Mjölnisholti 8, Reykjavík frá 10. febrúar 1993 til 28. júní s.á. og frá þeim degi að Vesturvör 27, Kópavogi. Frá 14. maí 1990 til 1. október 1991 hafði stefnandi aðsetur í Bretlandi, eftir því sem fram kemur í vottorðinu. Stefndi hefur ekki fært fram sönnur að því, að hann hafi reynt að koma greiðslunni í hendur stefnanda, en á hinn bóginn verður að leggja til grundvallar, að í því efni hafi hún einnig sýnt tómlæti.
Niðurstaða málsins að þessu leyti er sú, að vextir þeir og verðbætur, sem stefndi reiknaði stefnanda í lokauppgjöri þeirra á milli, hafi verið sanngjörn og hæfileg og að stefnandi hafi ekki átt rétt á dráttarvöxtum. Krafa stefnanda að þessu leyti er því ekki tekin til greina.
Í uppgjörsdrögum stefnda, sem hann lagði fram á fundi með lögmanni stefnanda 15. maí 1998, er með útreikningi sýnt fram á, að hann eigi rétt á málskostnaði samtals að upphæð 382.000 krónur og er virðisaukaskattur á þá fjárhæð 93.590 krónur. Hins vegar er ekki rökstudd sú hækkun, sem verður á málskostnaðinum samkvæmt lokauppgjöri, þ.e. í 390.000 krónur og samsvarandi hækkun á virðisaukaskatti, í 95.550 krónur. Dæma ber stefnda til að greiða stefnanda þann mismun, 9.960 krónur, sem hér um ræðir, ásamt vöxtum og verðbótum. Til grundvallar verður lagt, í samræmi við kröfugerð stefnanda, að útlagður kostnaður stefnda hafi numið 34.400 krónum, en dæma ber stefnda til að greiða stefnanda mismun þeirrar fjárhæðar og 50.000 króna, sem stefnandi hafði greitt honum fyrir fram, eða 15.600 krónur auk vaxta og verðbóta. Samtala framangreindra fjárhæða, 25.560 krónur með sömu hækkun og að öðru leyti er lögð til grundvallar í lokauppgjöri stefnda (270.322 x 25.560 : 818.298), nemur 34.004 krónum.
Samkvæmt þessu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda 34.004 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. júní 1998 til greiðsludags og málskostnað, sem er ákveðinn 100.000 krónur.
Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, Kristján Stefánsson, greiði stefnanda, Friðmeyju Helgu Sveinsdóttur, 34.004 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. júní 1998 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 100.000 krónur í málskostnað.