Hæstiréttur íslands
Mál nr. 669/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. september 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 26. september 2016, þar sem felld var úr gildi ákvörðun sóknaraðila 16. sama mánaðar um að varnaraðili skyldi sæta nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Sóknaraðili krefst þess að framangreind ákvörðun sín verði staðfest.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili er undir rökstuddum grun um að hafa framið refsivert brot og er að því leyti fullnægt skilyrði a. liðar 4. gr. laga nr. 85/2011 um heimild til nálgunarbanns. Í 1. mgr. 6. gr. laganna er mælt svo fyrir að nálgunarbanni skuli aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti og skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Þá segir í 2. mgr. sömu lagagreinar að við mat samkvæmt 1. mgr. sé heimilt að líta til þess hvort sakborningur hafi áður þurft að sæta nálgunarbanni sem og þess hvort háttsemi hans á fyrri stigum hafi verið þannig háttað að hætta sé talin á að hann muni fremja brot sem lýst er í 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að háttsemi varnaraðila á fyrri stigum hafi verið þannig háttað að hætta verði talin á að hann muni fremja brot gegn brotaþolum. Samkvæmt þessu eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin er með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Snorra Snorrasonar héraðsdómslögmanns, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 26. september 2016.
Lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur krafist þess að Héraðsdómur Vesturlands staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 16. september sl. um að varnaraðila, X, kt. [...], verði gert að sæta nálgunarbanni frá uppkvaðningu úrskurðar til 16. mars 2017, þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, [...], og B, kt. [...], að [...], á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus umhverfis heimili þeirra, mælt frá miðju hússins. Jafnframt að staðfest verði bann við því að varnaraðili veiti brotaþolum eftirför, nálgist þau á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- eða farsíma þeirra, sendi þeim tölvupóst eða setji sig á annan hátt í beint samband við þau eða ung börn þeirra.
Í greinargerð lögreglustjóra með framangreindri kröfu kemur fram að A hafi óskað eftir aðstoð lögreglu hinn 15. september 2016, um klukkan 20.30, vegna húsbrots og líkamsárásar sem átt hafi sér stað á heimili þeirra B að [...]. A og B hafi lýst atburðarás gærkvöldsins á þann veg að varnaraðili hafi ruðst inn í íbúð þeirra á miðhæð hússins, en hann sé búsettur á hæðinni fyrir neðan, jarðhæð hússins. Hafi varnaraðili kýlt í gegnum rúðu í útidyrahurð íbúðar þeirra og skorið sig illa á höndum. Hafi hann verið alblóðugur þegar hann kom þangað inn og blóð úr honum spýst um íbúðina. Lýsing A af atvikum hafi verið þannig að hún hafi verið ein í íbúðinni á þessum tíma, ásamt börnum sínum, C tíu ára og D átta ára. Hafi hún kallað til B, sem verið hafi utandyra, og hann komið skömmu síðar inn. Lýsing B af atvikum hafi verið á þann veg að varnaraðili hafi tryllst þegar hann kom inn og verið útataður í blóði. Hafi varnaraðili ráðist á hann og látið hnefahöggin dynja á honum, sem m.a. hafi leitt til áverka á enni, áverka við vinstra og hægra auga, auk þess sem hann hafi hlotið rispur á hálsi og skurð á hnakka. B hafi sagst hafa náð að koma sér frá varnaraðila og sagt honum að koma sér út en þá hafi varnaraðili tekið sér muni í hönd og hent þeim í áttina að honum, en að því búnu farið út úr íbúðinni.
Fram hafi komið hjá A að hún hefði ásamt börnunum horft á varnaraðila beita B ofbeldi og að börnin hefðu við það orðið svo skelfingu lostin að þau hafi falið sig á bak við sófa og og [...]. B og A hafi sagst vera í áfalli eftir atburðinn. Hafi þau talið sig vera í hættu og óttast að varnaraðili myndi valda þeim frekari skaða. Þau hefðu hins vegar ekkert gert á hlut varnaraðila. Sé krafa þeirra sú að varnaraðila verði refsað, auk þess sem þau krefjist nálgunarbanns.
Í framburðarskýrslu varnaraðila 16. september 2016 hafi hann skýrt frá því að hann hafi umrætt sinn farið upp stigaganginn, að íbúð B og A, og knúið þar dyra. Hafi ætlan hans verið sú að ná sáttum út af öðru máli, en hann hafi verið undir áhrifum áfengis. Telpa hafi komið til dyra og og nokkru síðar B einnig. Varnaraðili hafi þá lýst vilja til sátta gagnvart honum. Varnaraðili hafi verið með hægri höndina á steininum við hurðarkarminn og þá fundið fyrir því að einhver væri að stinga hann í puttana. Hafi hann talið að kona B hefði gert það. Í kjölfarið hafi dyrunum verið lokað á hann og hann svo fengið hurðina í hausinn. Hafi hann við það farið með handlegginn inn um glerið og dottið aftur fyrir sig og rotast. Hann hafi svo vaknað við að blóð úr honum gusaðist út. Hafi hann þá hlaupið niður til E, sambýliskonu sinnar, og hrunið þar niður á gólfið. Hann hafi hins vegar aldrei farið inn í íbúð B og A. Ef það blóð sem þar hafi fundist væri úr sér hafi þau borið það inn í íbúðina á meðan hann lá rotaður á ganginum. Væri framburður brotaþolanna um framangreind atvik því ekki réttur.
Með hliðsjón af framkominni beiðni brotaþola um nálgunarbann og annarra gagna málsins telji lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 fyrir því að beita nálgunarbanni séu uppfyllt, en varnaraðili liggi undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn brotaþolum þeim A og B, og börnum þeirra, á þann hátt að varði við 217., 231., 233. og 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það sé mat lögreglustjóra að hætta sé á að varnaraðili muni raska friði þeirra verði hann látinn afskiptalaus en varnaraðili hafi, með dómi Héraðsdóms Reykjaness hinn 20. maí á þessu ári, verið dæmdur til 30 daga fangelsisvistar, skilorðsbundið til tveggja ára, í óskyldu máli, m.a. fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Með hliðsjón af alvarleika málsins verði ekki séð að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti, eins og sakir standi, en skýringar þær sem varnaraðili hafi gefið lögreglu á atburðum séu fráleitar. Þá telji lögreglustjóri að verndarhagsmunir standi til þess að tryggja fjölskyldunni þann rétt að geta hafst við á heimili sínu og verið þar óhult gagnvart yfirvofandi ofbeldi af hálfu varnaraðila, en framkoma hans hafi m.a. haft þau áhrif á 10 ára gamalt barn á heimilinu að það missti þvag er það hafi orðið vitni að skelfilegri framkomu varnaraðili umrætt sinn. Gera megi ráð fyrir að barnið gleymi seint þessu kvöldi, en óvíst sé um sálræn áhrif þessa á brotaþola á þessu stigi. Þá séu hótanir varnaraðila til þess fallnar að vekja hjá brotaþolum ótta um líf sitt, heilbrigði og velferð.
Eftir atgang varnaraðila, sem virðist hafa skorið sig þegar hann braut glerrúðu í hurð íbúðar, séu blóðslettur á gólfum, hurðum og veggjum íbúðar brotaþola. Á vettvangi hafi varnaraðili hótað því að drepa B. Varnaraðili hafi gert hið sama á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, en til séu upptökur af því hjá lögreglu.
Með vísan til alls þessa, og á grundvelli 1. mgr. 3. gr. og 4. gr. laga nr. 85/2011, hafi lögreglustjóri, hinn 16. september 2016, tekið ákvörðun um nálgunarbann gagnvart varnaraðila til fimmtudagsins 16. mars 2017, kl. 16.00.
Varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola. Þá verði að teljast hætta á því að varnaraðilinn brjóti aftur gegn brotaþolum en framferði hans hafi verið ofsafengið, hættulegt og án nokkurs tilefnis. Telja verði kröfu um nálgunarbann réttmæta í ljósi atvika og til staðar sé brýn nauðsyn á að því að verja meiri hagsmuni fyrir minni, enda leikur ekki nokkur vafi á um atburðarásina í málinu. Verði ekki séð að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti. Þá sé varnaraðili ekki leigutaki þess húsnæðis þar sem hann sé skráður til heimilis. Með vísan til alls framangreinds, framlagðra gagna og laga nr. 85/2011, einkum 4., 6. og 12. gr., sé þess krafist að staðfest verði framangreind ákvörðun lögreglustjóra.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Verði ekki á það fallist krefst hann þess til vara að nálgunarbanninu verði markaður skemmri tími.
Niðurstaða
Eins og að framan er lýst byggir lögreglustjóri kröfu sína á 4. gr. laga nr. 85/2011, en þar kemur fram að heimilt sé að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola skv. a-lið. Í athugasemdum við þetta ákvæði í frumvarpi til laganna segir að við mat á því hvort hætta verði talin á því að maður muni fremja refsivert brot eða á annan hátt raska friði brotaþola verði að líta til fyrri háttsemi þess manns sem krafan beinist gegn og samskipta hans við þann sem vernda á með banninu. Þá segir í 6. gr. sömu laga að nálgunarbanni verði aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Skal skv. 2. mgr. 6. gr. sömu laga líta til þess hvort sakborningur hafi áður þurft að sæta nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili, sem og þess hvort háttsemi hans á fyrri stigum hafi verið þannig háttað að hætta sé talin á að hann muni fremja háttsemi sem lýst er í 4. gr.
Við úrlausn máls þessa verður ekki framhjá því horft að varnaraðili býr ekki á sama heimili og brotaþolar, heldur á næstu hæð fyrir neðan í sama fjöleignarhúsinu, og leiðir því af ákvörðun lögreglustjóra um nálgunarbann að varnaraðila er með því gert að flytja af heimili sínum á gildistíma bannsins. Samkvæmt a-lið 5. gr. umræddra laga er heimilt að beita brottvísun af heimili ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot gegn ákvæðum XXII. til XXIV. kafla almennra hegningarlaga og/eða 108. gr., 233. gr., 233. gr. b, 253. gr. og/eða 257. gr. sömu laga og verknaður hefur beinst að öðrum sem er honum nákominn og tengsl þeirra þykja hafa aukið á grófleika verknaðarins, enda varði brotið fangelsi allt að sex mánuðum, eða skv. b-lið ef hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola skv. a-lið.
Í málsgögnum liggur ekkert fyrir um fyrri afbrot, hótanir eða ögranir af hálfu varnaraðila gagnvart brotaþolum. Þá er óumdeilt að varnaraðili er ekki nákominn brotaþolum í skilningi framangreinds ákvæðis í 5. gr. laga nr. 85/2011. Með hliðsjón af því og öðru því sem að framan hefur verið rakið er það mat dómsins að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að lagaskilyrði séu fyrir því að fallast á kröfu hans um nálgunarbann gagnvart varnaraðila. Ber því að hafna kröfu sóknaraðila um að staðfest verði framangreind ákvörðun hans um nálgunarbann gagnvart varnaraðila.
Þóknun verjanda varnaraðila, Snorra Snorrasonar hdl., og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ómars Arnar Bjarnþórssonar hdl., þykir hæfilega ákveðin, að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og greinir í úrskurðarorði. Þóknunin greiðist úr ríkissjóði skv. 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á Vesturlandi, dags. 16. september 2016, um að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni frá uppkvaðningu úrskurðar til 16. mars 2017 skv. 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, 300.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, 220.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.