Hæstiréttur íslands

Mál nr. 190/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


Þriðjudaginn 5. apríl 2011.

Nr. 190/2011.

Adakris UAB, útibú á Íslandi

(Gunnar Egill Egilsson hdl.)

gegn

Kambstáli ehf.

(Eyvindur Sólnes hrl.)

Kærumál. Málskostnaðartrygging.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um að K yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sem K hafði höfðað á hendur A til heimtu skuldar vegna viðskipta aðila. A gerði kröfu um málskostnaðartryggingu í fyrstu fyrirtöku málsins eftir þingfestingu þess. Fyrir Hæstarétti byggði A á því að krafan væri ekki of seint fram komin í skilningi b. liðar 1. mgr. 113. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. A hefði daginn eftir þingfestingu málsins verið upplýstur um það af hálfu lögmanns K að krafist hefði verið gjaldþrotaskipta á búi K. Krafan hefði því komið fram við fyrsta tækifæri eftir að tilefni gafst til. Í úrskurði héraðsdóms kom fram að tvö árangurslaus fjárnám höfðu þegar verið gerð hjá K þegar málið var þingfest. Í Hæstarétti sagði að ákvæði 1. mgr. 133. gr. laganna girtu ekki fyrir að hafa mætti uppi kröfu um málskostnaðartryggingu eftir þingfestingu máls ef sérstakt tilefni gæfist þá fyrst til þess en ekki var talið að það ætti við um atvik í málinu. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

                                                         Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. mars 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sem varnaraðili hafði höfðað gegn sóknaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og varnaraðila gert að leggja fram málskostnaðartryggingu að fjárhæð 2.000.000 krónur, en til vara aðra lægri fjárhæð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar en til vara að fjárhæð málskostnaðartryggingar verði ákveðin lægri en sóknaraðili krefst. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Ákvæði 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 girða ekki fyrir að hafa megi uppi kröfu um málskostnaðartryggingu eftir þingfestingu máls ef sérstakt tilefni gefst þá fyrst til þess. Samkvæmt því sem rakið er í hinum kærða úrskurði voru atvik ekki með þeim hætti og verður hann því staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Adakris UAB, útibú á Íslandi, greiði varnaraðila, Kambstáli ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2011.

Þetta mál, sem tekið var til úrskurðar 2. febrúar sl., um kröfu stefnda um máls­kostnaðartryggingu úr hendi stefnanda, er höfðað af Kambstáli ehf. kt. 680809-1780, Tröllakór 2, Kópavogi, á hendur Adakris UAB, kt. 700908-1780, Skútuvogi 1g, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 128.933.290 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 54.797.150 krónum frá 30. október 2009 til 20. desember 2009, af 128.933.290 krónum frá 20. desember 2009 til greiðslu­dags að frádregnum innborgunum sem stefndi innti af hendi þann 25. janúar 2010 að fjárhæð 16.326.576 krónur. Einnig er krafist málskostnaðar.

Málið var þingfest 7. desember 2010 og fékk stefndi þá, með samþykki stefnanda, frest til 18. janúar 2011 til þess að leggja fram greinargerð. Við fyrirtöku málsins þann dag krafðist stefndi málskostnaðar­tryggingar að fjárhæð 2.000.000 króna úr hendi stefnanda með vísan til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vegna líkinda fyrir ógjaldfærni stefnanda. Málinu var í kjölfarið frestað til 2. febrúar til munnlegs málflutnings um þessa kröfu stefnda.

Stefnandi krefst þess aðallega að kröfu stefnda um framlagningu máls­kostn­aðartryggingar verði hafnað en til vara að krafan verði lækkuð.

I

Stefndi vísar til þess að daginn eftir að þetta mál hafi verið þingfest hafi lögmaður stefnanda upplýst lögmann stefnda um það að sýslumaðurinn í Kópavogi hefði krafist gjaldþrotaskipta á búi stefnanda. Þessar upplýsingar hafi komið lög­manni stefnda verulega á óvart. Hafi sýslumaður gert kröfuna í kjölfar árang­urs­lauss fjárnáms sem farið hefði fram hjá stefnanda 9. desember sl. Fyrirsvars­menn stefnanda hafi farið þess á leit við sýslumanninn að hann drægi til baka kröfu um gjaldþrotaskipti á bú stefnanda og hafi sýslumaður fallist á það, þar sem fyrir­svars­menn stefnanda hafi sagst eiga von á að geta greitt opinber gjöld sín eftir að hafa unnið mál sem rekið væri fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Stefndi byggir á því að tilgangur 133. gr. laga um meðferð einkamála sé að vernda stefnda í málum þar sem hann sé nauðbeygður til að taka til varna en óljóst sé hvort stefnandi sé fær um að greiða málskostnað sem á hann kynni að falla í málinu. Í þessu máli verði að líta til þess Sýslu­maðurinn í Kópavogi muni strax krefjast gjaldþrotaskipta á búi stefnanda, tapi hann þessu máli. Því verði að líta á stefnanda sem þrotamann enda geti fátt komið í veg fyrir að það verði afdrif hans innan fárra vikna.

Stefndi vísar til þess að samkvæmt b-lið 1. mgr. 133. gr. sé gert ráð fyrir að krafa um málskostnaðartryggingu sé lögð fram við þingfestingu máls. Þetta sé þó ekki einhlítt enda komi fram í ummælum um ákvæðið í greinargerð að komi tilefni annars fyrst fram til kröfu um málskostnaðartryggingu eftir þingfestingu megi ekki telja umrædd orð 1. mgr. 133. gr. útiloka að hún yrði tekin til greina. Í þessu máli hafi krafa um máls­kostn­aðar­tryggingu verið lögð fram við fyrsta tækifæri eftir að stefnda hafi orðið ljóst að fram væri komin krafa um gjaldþrotaskipti á búi stefnanda. Það hafi stefnda orðið ljóst daginn eftir þingfestingu. Krafa um máls­kostn­aðar­tryggingu sé því ekki of seint fram komin í skilningi laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Stefndi telur uppfyllt það skilyrði b-liðar 1. mgr. 133. gr. að líkur séu leiddar að ógjaldfærni stefnanda. Samkvæmt ársreikningaskrá hafi stefnandi ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2009 og hafi því ekki hagað ársreikningaskilum sínum í samræmi við X. kafla laga um ársreikninga nr. 3/2006. Ekki verði því skorið úr um eignarstöðu hans á grundvelli fjárhags­upplýsinga, sem eigi samkvæmt lögum að vera almenningi aðgengilegar, þar sem þær liggi ekki fyrir.

Af framlögðum stofngögnum stefnanda sjáist að félagið hafi verið stofnað með lægsta mögulegt hlutafé. Framlagt stöðuyfirliti félagsins frá tollstjóra sýni að stefnandi skuldi um 29 milljónir í opinber gjöld. Stefndi telji það því hvíla á stefnanda að sýna fram á gjaldfærni sína.

Stefndi ítrekar að eina ástæða þess að stefnandi hafi ekki þegar verið úrskurðaður gjaldþrota sé að sýslumaður hafi ákveðið að bíða niðurstöðu þessa máls. Krafa stefnda um málskostnað úr hendi stefnanda sem á stefnanda kynni að falla í málinu myndi flokkast sem almenn krafa í bú stefnanda. Því eigi stefndi ekki nokkurn möguleika á því að sækja málskostnað úr hendi stefnanda.

Hagsmunir stefnda séu því sniðnir að vernd b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga um meðferð einkamála. Miðað við umfang málsins sé eðlileg fjárhæð málskostnaðar­tryggingar 2.000.000 króna.

II

Stefnandi byggir mótmæli sín á því að krafa stefnda sé of seint fram komin. Það sé meginregla 133. gr. að stefndi geti krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Á grundvelli ummæla í greinar­gerð með frumvarpi til laganna hafi verið fallist á í dómum að heimilt sé að hafa slíka kröfu uppi gefist ástæður til þess síðar. Samkvæmt þessu þurfi stefndi að sýna fram á að hann hafi fyrst átt þess kost að setja kröfuna fram svo seint sem raun varð.

Stefnandi telji stefnda hafa getað útvegað sér þau gögn, sem hann hafi nú lagt fram, löngu áður en málið var höfðað. Samskipti málsaðila eigi nokkurn aðdraganda eins og framlögð tölvuskeyti sýni. Því hafi stefndi ekki fyrst fengið tilefni til að krefjast málskostnaðar úr hendi stefnanda einum og hálfum mánuði eftir þingfestingu.

Þar sem heimild, til að koma með kröfu um málskostnaðartryggingu eftir þingfestingu máls, sé undantekning frá megin­regl­unni, verði að skýra hana mjög þröngt. Þannig megi sjá af dómaframkvæmd að undan­tekningin eigi einkum við þegar bú stefnanda hafi verið til gjald­þrota­skipta eftir þingfestingu. Það eigi ekki við í þessu tilviki. Stefnandi byggir á því að hann hafi gert greiðslu­samkomulag við tollstjóra og því hafi stefndi ekki hnekkt.

Í málinu liggi fyrir yfirlit úr vanskilaskrá Lánstrausts þar sem fram komi að gerð hafi verið þrjú árangurslaus fjárnám hjá stefnanda. Hið fyrsta 18. ágúst, næst 5. október og loks 9. desember. Upplýsingar úr skránni séu aðgengilegar öllum lögmönnum og það sé hluti af góðum starfsháttum þeirra að kanna fjárhagsstöðu stefnanda áður en gripið sé til varna. Lögmaður stefnda hafi því getað kannað þetta áður en málið var þingfest og þar með sett kröfuna fram við þingfestingu þess. Stefndi hafi því ekki sýnt fram á að hann hafi fyrst átt þess kost að koma fram með kröfuna svo seint sem raun varð. Sé unnt að sjá ógjaldfærni fyrir þá eigi undan­tekningin ekki við. Strax í september hafi verið komið árangurslaust fjárnám inn á vanskilaskrá Lánstrausts. Ekkert sé fram komið sem bendi til þess að stefndi hefði ekki getað komið fram með kröfuna við þingfestingu málsins.

Stefnandi mótmælir fjárhæð málskostnaðartryggingarinnar og telur hana of háa miðað við umfang málsins.

III

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 133. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, getur stefndi krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar megi leiða líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna kemur fram að samkvæmt upphafsorðum 1. mgr. 133. gr. verði stefndi að krefjast málskostnaðar­tryggingar við þingfestingu máls. Þá segir þar jafnframt að ganga verði út frá því að stefndi geti ekki komið fram slíkri kröfu á síðari stigum málsins hafi honum verið eða mátt vera kunnugt um tilefni hennar við þingfestingu.

Stefndi gerði kröfu um málskostnaðartryggingu 18. janúar 2011 þ.e. í fyrstu fyrirtöku málsins eftir þingfestingu þess. Þegar málið var þingfest 7. desember höfðu þegar verið gerð tvö árangurslaus fjárnám hjá stefnanda, 18. ágúst og 5. október 2010, sem bæði höfðu verið færð á vanskilaskrá Lánstrausts. Það síðara var einungis tveggja mánaða og því svo nýtt að það gat enn gefið mynd af greiðslugetu stefnanda á þingfestingardegi málsins. Þegar litið er til hlutverks vanskilaskrár Lánstrausts og þess hversu mikið lögmenn nýta sér þá skrá og eiga auðveldan aðgang að henni verður að telja að varnaraðili hefði mátt vita af ógjaldærni stefnanda þegar á þingfestingardegi. Því verður ekki fallist á þá röksemd hans að tilefni til að gera kröfu um framlagningu málskostnaðartryggingar hafi fyrst gefist við lestur tölvuskeytis frá lögmanni stefnanda 8. desember. Þar sem krafa stefnda þykir of seint fram komin verður að hafna henni.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hafnað er kröfu stefnda, Adakris UAB, um að stefnanda, Kambstáli ehf., verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar.