Hæstiréttur íslands

Mál nr. 434/1998


Lykilorð

  • Fiskveiðibrot


Fimmtudaginn 11

Fimmtudaginn 11. mars 1999.

Nr. 434/1998.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Tómasi Sæmundssyni og

Einari Birni Tómassyni

(Sigurbjörn Magnússon hrl.)

Fiskveiðibrot.

T og E voru ákærðir fyrir brot gegn lögum um umgengni um nytjastofna sjávar fyrir að hafa ekki látið vigta við löndun 227 kg af humri sem þeir höfðu veitt, en þeir töldu þess ekki þörf þar sem um verðlausan úrgangsfisk væri að ræða. Talið var sannað að þeir hefðu brotið gegn ákvæðum laganna, en samkvæmt þeim sé skylt að láta vigta allan afla sem landað er, óháð verðmæti hans. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. október 1998 samkvæmt áfrýjun ákærðu og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing ákærðu verði þyngd.

Ákærðu krefjast aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara vægustu refsingar, sem lög leyfa.

Í héraðsdómi er því lýst, að ákærði Tómas hafi 14. ágúst 1997 ekið með humaraflann, sem ákæra í málinu lýtur að, fram hjá hafnarvog í Sandgerði, „þar sem hinn hluti aflans var veginn.“ Hið rétta mun vera að á þessum tíma hafi verið staðið þannig að verki við uppskipun humarafla í Sandgerðishöfn, að vigtarmönnum var gefin upp áætluð þyngd hans. Framlögð gögn sýna að annar humar, sem landað var sama dag úr skipi ákærða Tómasar, Hafnarbergi RE 404, var tilkynntur vigtarmönnum í Sandgerðishöfn, sem skráðu áætlaða þyngd hans 650 kg í dagbók sína. Við vigtun á vinnslustað reyndist sá humarafli vera alls 584 kg.

Ákærðu hafa báðir viðurkennt að þeir hafi ekki ætlað að láta vigta þann humar, sem um ræðir í ákæru. Þetta hafi verið úrgangshumar, sem ekki var hæfur til vinnslu, og heimilt hafi verið að fleygja honum. Þess í stað hafi þeir ætlað að hirða hann til einkanota fyrir áhöfn skipsins og talið að ekki væri þörf að vigta verðlausan úrgang.

Ákærðu bera fyrir sig í fyrsta lagi að þegar atvik málsins gerðust hefði ekki tíðkast um árabil að vigta humarafla eftir löndun á hafnarvog, heldur hafi vigtarmenn beðið skipshöfn um áætlun á þyngd aflans, sem hafi síðan verið ekið á vinnslustað. Þetta stafi af því að mikill ís og sjór sé með aflanum við uppskipun og gefi það því ranga mynd að vigta hann þegar eftir löndun á hafnarvog. Þess í stað hafi tíðkast að löggiltur vigtarmaður vigtaði humarafla á vinnslustað, þegar sjór og ís hafi verið skilinn frá. Þessi framkvæmd hafi verið í samræmi við reglugerð nr. 261/1992 um vigtun á humri, sem ákærðu telja enn í gildi, enda hafi hún ekki verið felld niður með nýrri reglugerðum, nr. 427/1993 og nr. 618/1994 um vigtun sjávarafla. Humarinn, sem ákæra tekur til, hafi að kröfu eftirlitsmanns Fiskistofu þrátt fyrir allt verið veginn á verkunarstað, líkt og annar humarafli skipsins í umræddri ferð, og reynst vera 227 kg. Því hafi þeir ekki brotið gegn lögum nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar með háttsemi sinni, heldur hafi ákærði Tómas í mesta lagi gerst sekur um tilraun til brots með því að aka þessum hluta aflans fram hjá hafnarvog. Í málinu sé ekki ákært fyrir tilraun til brots.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1996, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 618/1994, er skylt að vega allan afla á hafnarvog þegar við löndun. Fyrirtækið Haraldur Böðvarsson hf. hafði á þessum tíma endurvigtunarleyfi fyrir humar. Þetta leyfi veitti aðeins heimild til endanlegrar vigtunar afla að undangenginni vigtun á hafnarvog. Vigtun hjá vinnslustöðinni gat því ekki komið í stað lögboðinnar vigtunar á hafnarvog og breytir þar engu hvort tíðkast hafi önnur og eftir atvikum ólögmæt framkvæmd í þeim efnum við uppskipun í Sandgerðishöfn. Á fyrrgreinda röksemd ákærðu verður því ekki fallist. Ekki stoðar þeim heldur að bera fyrir sig að þeir hafi farið eftir ákvæðum eldri reglugerðar nr. 261/1992, þar sem ný reglugerð hafði tekið gildi þegar atvik málsins gerðust. Að auki sinntu ákærðu heldur ekki skyldum sínum samkvæmt þeirri eldri, enda tilkynntu þeir ekki hafnaryfirvöldum í Sandgerðishöfn um áætlaða þyngd humaraflans, sem er ákæra í málinu varðar, á sama hátt og þeir tilkynntu um annan humarafla úr sömu veiðiferð.

Ákærðu bera fyrir sig í öðru lagi að þeim hafi ekki verið skylt að láta vigta þann hluta aflans, sem ákært er fyrir, þar sem heimilt hafi verið samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996 að varpa fyrir borð afla, sem sýktur er, selbitinn eða skemmdur á annan hátt. Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 350/1996 um nýtingu afla og aukaafurða sé einnig heimilt að varpa frá borði tilteknum fiskúrgangi, enda verði hann ekki nýttur með arðbærum hætti.

Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996 er sú meginregla að skylt sé að hirða og koma með að landi allan afla. Með hliðsjón af þessu og reglum um meðferð afla í 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laganna verður að telja að ávallt sé skylt að láta vigta allan afla, sem landað er, óháð verðmæti hans. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna er skipstjóra skylt að láta vigta hverja tegund sérstaklega og ber jafnframt að tryggja að réttar og fullnægjandi upplýsingar um aflann berist til vigtarmanns. Samkvæmt 10. gr. laganna er ökumanni skylt að flytja óveginn afla rakleiðis frá skipshlið að hafnarvog nema undanþága hafi verið veitt. Með háttsemi sinni braut ákærði Tómas gegn 10. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1996, og ákærði Einar Björn gegn 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Hafa þeir unnið til refsingar með brotum sínum samkvæmt 23. gr. laganna. Verður niðurstaða héraðsdóms um refsingu þeirra og sakarkostnað staðfest.

Ákærðu greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærðu, Tómas Sæmundsson og Einar Björn Tómasson, greiði í sameiningu allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 130.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra fyrir Hæstarétti, Sigurbjörns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 130.000 krónur.

Héraðsdómur Reykjavíkur 2. október 1998.

Ár 1998, föstudaginn 2. október, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 519/1998: Ákæruvaldið gegn Tómasi Sæmundssyni og Einari Birni Tómassyni sem tekið var til dóms hinn 30. september sl. að lokinni aðalmeðferð.

                Málið er höfðað með ákæru Ríkislögreglustjóra, dagsettri 15. maí sl. á hendur ákærðu, Tómasi Sæmundssyni, Skildinganesi 45, Reykjavík, kt. 150436-2659, og Einari Birni Tómassyni, Ásvallagötu 61, Reykjavík, kt. 010570-3369, „fyrir brot gegn lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, þann 14. ágúst 1997 í Sandgerði.

                I. Ákærða Tómasi sem útgerðarmanni Hafnarbergs RE-404 með skipaskrárnr. 617, er gefið að sök að hafa eftir löndun í Sandgerðishöfn úr Hafnarbergi þann 14. ágúst 1997, ekið á bifreið útgerðarinnar UH-137 með 227 kg af humarskottum, sem voru hluti af uppskipuðum afla skipsins, fram hjá hafnarvigt í Sandgerðishöfn að humarvinnslu Haraldar Böðvarssonar hf. í Keflavík, án þess að láta vigta þann afla.

                Telst þetta varða við 10. gr., sbr. 23. gr. laga nr. 57,1996 um umgengni um nytjastofna sjávar.

                II. Ákærða Einari Birni sem skipstjóra á Hafnarbergi RE-404, er gefið að sök að hafa við uppskipun í Sandgerðishöfn í fyrrgreint skipti ekki látið vigta 227 kg af  humarskottum af afla skipsins sem meðákærði Tómas flutti með bifreið sinni fram hjá hafnarvigt Sandgerðishafnar.

                Telst þetta varða við 1. mgr. 9. gr., sbr. 23. gr. laga nr. 57,1996.

                Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar fyrir framangreind brot”.

Málavextir.

                Fimmtudagsmorguninn 14. ágúst sl. kom v/s Hafnarberg RE 404 úr humarveiðiferð til hafnar í Sandgerði og var aflanum landað úr skipinu þennan morgun. Skipstjóri var ákærði Einar Björn, sonur meðákærða Tómasar. Ákærði, Tómas, sem á og gerir út skipið var viðstaddur löndunina. Fyrir liggur að ákærðu höfðu sammælst um það að hluti aflans, sem þeir segja að hafi verið ósöluhæfur úrgangshumar, yrði ekki veginn, heldur yrði honum skipt á milli áhafnar skipsins. Var þessum hluta aflans, sem ekki er vefengt að hafi vegið 227 kílógrömm, skipað upp á pallbíl ákærða, Tómasar, og ók ákærði með hann fram hjá hafnarvoginni í Sandgerði, þar sem hinn hluti aflans var veginn. Þrjú vitni, Rúnar Jónsson veiðieftirlitsmaður, Agnar Breiðfjörð Þorkelsson verkstjóri, og Jóhannes Margeir Ingiþórsson vigtarmaður, sem skoðuðu lauslega þann hluta aflans sem ekki var veginn, segja að þar hafi verið um að ræða óflokkaðan humar. Að sögn Rúnars var humarinn vafalaust vinnsluhæfur að miklum hluta en þeir Agnar Breiðfjörð og Jóhannes Margeir hafa sagt hann að mestu leyti verið lélegan eða ónýtan en innan um hafi verið góður humar.

                Ákærðu neita sök og telja að þeim hafi verið heimilt að taka umræddan humar fram hjá vog þar sem um úrkast hafi verið að ræða. Í 2., 5. og 6. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar nr. 57, 1996 kemur fram sú meginregla að skylt sé að hirða og koma með til lands allan sjávarafla sem íslensk skip afla í efnahagslögsögu Íslands og landa honum í innlendri höfn. Skal aflinn allur veginn á löggiltri hafnarvog í löndunarhöfn.  Í lagagreinunum eru tilgreind nokkur afbrigði frá þessu en þau hafa ekki þýðingu fyrir mál þetta. Verður að telja að lagaskylda þessi hvíli jafnt á skipstjóra fiskiskips sem útgerðarmanni. Þá er í 1. mgr. 9. gr. laganna sú skylda enn fremur lögð á hendur skipstjóra fiskiskipsins að halda afla aðgreindum eftir tegundum og láta vega hverja tegund fyrir sig. Loks er í 10. gr. laganna sérregla um skyldu ökumanns til þess að aka rakleiðis frá skipshlið að hafnarvog. Að þessu athuguðu ber að sakfella ákærðu fyrir brot gegn 5. og 6. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar með því að láta ekki vega 227 kg af humri úr afla Hafnarbergs á hafnarvoginni í Sandgerði í umrætt sinn. Koma 9. og 10. gr. laganna ekki til álita í þessu máli.

Refsing og sakarkostnaður.             

                Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laganna um umgengni um nytjastofna sjávar skal refsing fyrir fyrsta brot gegn lögunum ekki vera lægri en 400.000 krónur. Ber að dæma hvorn ákærðu um sig til þess að greiða 400.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi 50 daga fangelsi í stað sektarinnar greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.

                Dæma ber ákærðu til þess að greiða óskipt allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 50.000 krónur, og málsvarnarlaun til verjanda síns, Magnúsar Helga Árnasonar hdl., 50.000 krónur.

                Mál þetta sótti Jón Snorrason saksóknari.     

Dómsorð:

                Ákærðu, Tómas Sæmundsson og Einar Björn Tómasson, greiði hvor um sig 400.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi 50 daga fangelsi í stað sektarinnar greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.

                Ákærðu greiði óskipt allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 50.000 krónur og málsvarnarlaun til verjanda síns, Magnúsar Helga Árnasonar hdl., 50.000 krónur.