Hæstiréttur íslands
Mál nr. 491/2005
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 15. júní 2006. |
|
Nr. 491/2005. |
Ákæruvaldið(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari) gegn Gunnari Arnari Ásbjörnssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Skilorð.
G var sakfelldur í héraði fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa haft fíkniefni í vörslum sínum og selt slík efni í ágóðaskyni. Hann var einnig sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti. Var refsing hans ákveðin fangelsi í fimm mánuði og þar af fjórir mánuðir skilorðsbundnir. Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og refsingu G var staðfest í Hæstarétti. Þegar litið var til sakaferils G, sem hafði í fjögur skipti frá árinu 2001 sætt viðurlögum fyrir fíkniefnalagabrot, var hins vegar talið rétt að fresta skilorðsbundið fullnustu tveggja mánaða af refsingu hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. nóvember 2005 af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða fyrir sakargiftir, sem greinir í ákærum 13. janúar og 28. febrúar 2005, svo og í II., III. og IV. kafla ákæru 4. maí sama ár, en að ákærði verði sakfelldur fyrir þá háttsemi, sem I. kafli síðastnefndrar ákæru tekur til. Þess er og krafist að refsing ákærða verði þyngd frá því, sem ákveðið var í hinum áfrýjaða dómi.
Ákærði krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og refsingu hans, fangelsi í fimm mánuði. Þegar litið er á hinn bóginn til sakaferils ákærða, sem í fjögur skipti hefur frá árinu 2001 sætt viðurlögum fyrir fíkniefnalagabrot, er rétt að fresta skilorðsbundið fullnustu tveggja mánaða af refsingu hans.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Gunnar Arnar Ásbjörnsson, sæti fangelsi í 5 mánuði, en fresta skal fullnustu 2 mánaða af þeirri refsingu og hún falla niður að því leyti að liðnum 2 árum frá uppsögu þessa dóms haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 13. september 2005.
Mál þetta höfðaði sýslumaðurinn á Akranesi með ákæru 13. janúar 2005 á hendur ákærða, Gunnari Arnari Ásbjörnssyni, kt. 180380-5749, Þverholti 5 í Reykjavík. Málið var dómtekið 30. ágúst sama ár.
Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða „fyrir eftirgreind umferðar- og fíkniefnalagabrot, framin á árinu 2004, með því að hafa:
1.
Fimmtudaginn 28. október um kl. 22:23, ekið bifreiðinni PJ-853, sviptur ökurétti, vestur Akrafjallsveg, uns lögreglan stöðvaði aksturinn á Akrafjallsvegi skammt austan við Móa, Innri Akraneshreppi.
Brot ákærða skv. 1. lið ákærunnar þykir varða við 1. mgr. 48. gr. sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 sbr. 186. gr. laga nr. 82/1998.
2.
Að kvöldi föstudagsins 12. nóvember, haft í vörslum sínum 3,13 g af amfetamíni, 8 töflur með fíkniefninu MDMA og 10,72 g af hassi í herbergi sínu að Vesturgötu 24, Akranesi, en lögreglan fann efnin við húsleit og lagði hald á þau.
3.
Að kvöldi föstudagsins 10 desember, haft í vörslum sínum 8,86 g af amfetamíni, 9,87 g af hassi, 0,55 g af tóbaksblönduðu hassi og 1,35 g af kókaíni í herbergi sínu að Vesturgötu 24, Akranesi, en lögreglan fann efnin við húsleit og við leit á ákærða og lagði hald á þau.
Brot ákærða skv. 2. og 3. tl. ákærunnar þykja varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75/1982, sbr. lög nr. 13/1985, sbr. 166. gr. laga nr. 82/1998, sbr. lög nr. 68/2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar, nr. 233/2001, um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 848/2002, sbr. auglýsingu um bann við vörslu og meðferð ávana- og fíkniefnis, nr. 232/2001.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þess er jafnframt krafist að ofangreind samtals 11,99 g af amfetamíni, 8 töflur með fíkniefninu MDMA, 20,59 g af hassi, 0,55 g af tóbaksblönduðu hassi og 1,35 grömmum af kókaíni verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“
Málið er einnig höfðað með ákæru 28. febrúar 2005 en þar eru ákærða gefin að sök „eftirgreind fíkniefnalagabrot, framin á árinu 2005 á Akranesi, með því að hafa:
I.
Sunnudaginn 16. janúar haft í vörslum sínum 0,97 g af amfetamíni á bifreiðastæði við Vesturgötu 24 er lögreglumenn höfðu afskipti af honum en lögreglan fann efnið við leit á honum og lagði hald á það.
II.
Sunnudaginn 16. janúar haft í vörslum sínum 0,57 g af amfetamíni, 2,45 g af hassi og 0,81 g af tóbaksblönduðu kannabisefni í herbergi sínu að Vesturgötu 24 en lögreglan fann efnin við húsleit og lagði hald á þau í framhaldi af handtöku ákærða vegna brots skv. I. lið ákærunnar.
III.
Laugardaginn 22. janúar haft í vörslum sínum 1,86 g af kókaíni á móts við Vesturgötu 47 er lögreglumenn höfðu afskipti af honum en lögreglan fann efnið við leit á honum og lagði hald á það.
IV.
Laugadaginn 22. janúar haft í vörslum sínum 3,52 g af hassi í herbergi sínu að Vesturgötu 24 en lögreglan fann efnið við húsleit og lagði hald á þau í framhaldi af handtöku ákærða vegna brots skv. III. lið ákærunnar.
Brot ákærða teljast varða við 2. gr. sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 75/1982 sbr. lög nr. 13/1985 sbr. 166. gr. laga nr. 82/1998 sbr. lög nr. 68/2001 og 2. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni sbr. reglugerð nr. 848/2002 en III. liður ákærunnar varðar að auki við auglýsingu um bann við vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 232/2001.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þess er jafnframt krafist að ofangreind samtals 1,54 g af amfetamíni, 5,97 g af hassi, 0,81 g af tóbaksblönduðu kannabisefni og 1,86 g af kókaíni, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. “
Þá er málið höfðað með ákæru 4. maí 2005 en þar eru ákærða gefin að sök „eftirgreind fíkniefnabrot framin á Akranesi, með því að hafa:
I.
Á tímabilinu september 2004 og fram í miðjan janúar 2005 í ágóðaskyni selt neðangreindum og ónafngreindu fólki samtals 680 g af kannabisefnum, 45 töflur með fíkniefninu MDMA, 5 g af kókaíni og 27 g af amfetamíni. Hluta efnana seldi ákærði eins og nánar er tiltekið hér að neðan:
1. Laugardaginn 25. september 2004 selt A, kt. [...], 1 g af amfetamíni.
2. Laugardaginn 25. eða sunnudaginn 26. september 2004 selt B kt. [...] 3-5 g af kannabisefni.
3. Fimmtudaginn 14. október 2004 selt ónafngreindri stúlku 2 g af amfetamíni á kr. 8.000,-.
4. Föstudaginn 15. október 2004 selt C, kt. [...], 5 g af kannabisefni.
5. Laugardaginn 30. október 2004, að Vesturgötu 24, selt D, kt. [...], 6 töflur með fíkniefninu MDMA á kr. 13.000,-.
6. Sunnudaginn 31. október 2004 selt E, kt. [...], 1 g af amfetamíni og 5 g af kannabisefni.
7. Fimmtudaginn 4. nóvember 2004, við verslun Olís á Esjubraut, selt F, kt. [...], 5 g af kannabisefni á kr. 9.000,-.
8. Fimmtudaginn 4. nóvember 2004 selt G, kt. [...], 5 g af kannabisefni á kr. 9.000,-.
9. Mánudaginn 8. nóvember 2004 selt E, kt. [...], 1 g af amfetamíni á kr. 4.500,-.
10. Föstudaginn 12. nóvember 2004 selt H, kt. [...], 2 g af amfetamíni á kr. 10.000,-.
11. Laugardaginn 4. desember 2004 selt B, kt. [...], 5 g af kannabisefni.
12. Laugardaginn 11. desember 2004, fyrir utan Garðabraut [...], selt A, kt. [...] 2 g af amfetamíni.
13. Föstudaginn 24. desember 2004 selt I, kt. [...], 10 g af kannabisefni og 5 g af amfetamíni fyrir kr. 35.000,-.
14. Laugardaginn 8. janúar 2005 selt J, kt.[...], 1 g af kókaíni á kr. 15.000,-.
II.
Fimmtudaginn 3. febrúar 2005 haft í vörslum sínum allt að 1 g af amfetamíni í plastpoka í bifreiðinni ZU-955 þar sem henni var ekið í norðurátt í Hvalfjarðar-göngum en er lögreglumenn hugðust hafa afskipti af ákærði sturtaði hann efninu úr pokanum út um glugga bifreiðarinnar þannig að það dreifðist um akbrautina og á hlið bifreiðarinnar en lögreglan fann 0,02 g af efninu á akbrautinni og á hlið bifreiðarinnar og lagði hald á það.
III.
Fimmtudaginn 3. febrúar 2005 haft í vörslum sínum 2.82 g af kannabisefni og 0,62 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni í herbergi sínu að Vesturgötu 24 en lögreglan fann efnin við húsleit og lagði hald á þau í framhaldi af handtöku ákærða vegna brots skv. II. lið ákærunnar.
IV.
Laugardaginn 12. mars 2005 haft í sínum vörslum samtals 8,03 g af hassi að Vesturgötu 24 en 5,09 g af efninu kom hann fyrir í bifreiðinni OI-291 og 2,94 g af efninu í herbergi að Vesturgötu 24 en bæði bifreiðin og herbergið tilheyrði bróður ákærða, K, kt. [...]. Lögreglan fann efnin við leit í bifreiðinni og í húsleit að Vesturgötu 24 í framhaldi af handtöku K á Innnesvegi og lagði hald á þau.
V.
Brot ákærða skv. öllum liðum ákærunnar teljast varða við 2. gr. sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og sbr. 6. gr. laganna að því er varðar meðferð ákærða á hassinu og MDMA, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 75/1982 sbr. lög nr. 13/1985 sbr. 166. gr. laga nr. 82/1998 sbr. lög nr. 68/2001 og 2. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu um bann við vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 232/2001 að því er varðar meðferð ákærða á kókaíni.
VI.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þess er jafnframt krafist að ofangreind samtals 0,02 g af amfetamíni, 10,85 g af hassi, 0,62 g af tóbaksblönduðu hassi verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“
Af hálfu ákærða er gerð sú krafa að honum verði gerð svo væg refsing sem lög frekast leyfi og sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.
I.
Ákæra 13. janúar 2005
Ákærði kom fyrir dóm 6. maí og 24. ágúst 2005 og játaði skýlaust að hafa framið öll þau brot sem greinir í þessari ákæru en játning hans er studd sakargögnum. Verður málið að þessu leyti dæmt samkvæmt skýlausri játningu ákærða. Um málavexti er skírskotað til ákæru.
Samkvæmt framansögðu verður ákærði sakfelldur fyrir þau brot sem honum eru gefin að sök í þessari ákæru en brotin eru réttilega færð til refsiákvæða í ákæru.
II.
Ákæra 28. febrúar 2005
Ákærði kom fyrir dóm 6. maí og 24. ágúst 2005 og játaði skýlaust að hafa framið öll þau brot sem greinir í þessari ákæru en játning hans er studd sakargögnum. Verður málið að þessu leyti dæmt samkvæmt skýlausri játningu ákærða. Um málavexti er skírskotað til ákæru.
Samkvæmt framansögðu verður ákærði sakfelldur fyrir þau brot sem honum eru gefin að sök í þessari ákæru en brotin eru réttilega færð til refsiákvæða í ákæru.
III.
Ákæra 4. maí 2005
A.
Ákæruhlutar II-IV
Ákærði kom fyrir dóm 6. maí og 24. ágúst 2005 og játaði skýlaust að hafa framið öll þau brot sem greinir í þessum hlutum ákærunnar. Er játning hans studd sakargögnum og verður málið að þessu leyti dæmt samkvæmt skýlausri játningu ákærða. Um málavexti er skírskotað til ákæru.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ákærði sakfelldur fyrir þau brot sem honum eru gefin að sök í þessum hlutum ákærunnar. Varða brotin við 1. mgr. 2. gr., sbr. 1. mgr. 5. og 6. gr. laga um ávana og fíkniefni, nr. 65/1974, með áorðnum breytingum, og 1. mgr. 2., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, nr. 233/2001, með áorðunum breytingum.
B.
Ákæruhluti I
1.
Haustið 2004 bárust lögreglunni á Akranesi upplýsingar um að ákærði stundaði fíkniefnasölu þar í bæ. Taldi lögregla einnig að þekktir fíkniefnaneytendur vendu komur sínar reglulega til ákærða, auk þess sem fram hefði komið við hlustun á síma L, bróður ákærða, að samvinna væri með þeim bræðrum um dreifingu fíkniefna undir forustu ákærða. Af þessu tilefni fór lögreglan fram á heimild dómsins til að hlusta síma ákærða og var fallist á þá beiðni með úrskurði dómsins frá 23. september 2004. Tók sú heimild til tímabilsins frá uppkvaðningu úrskurðarins til 15. nóvember sama ár. Með úrskurði dómsins þann dag var heimildin síðan framlengd til 15. janúar 2005. Með úrskurði dómsins 21. desember 2004 var heimild lögreglu til að hlusta síma ákærða framlengd til 15. mars 2005 en auk þess tók sú heimild til annars símanúmers sem ákærða var talin hafa í notkun.
Fyrr í þessum dómi hefur ákærði verið sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot sem framin voru á tímabilinu 12. nóvember 2004 til 12. mars 2005. Þykir rétt samhengisins vegna að gera nokkra grein fyrir þeim brotum.
Hinn 12. nóvember 2004 fór lögregla að heimili ákærða að Vesturgötu 24 á Akranesi til að framkvæma leit vegna gruns um að í kjallara hússins væru geymd fíkniefni. Á vettvangi hittist ákærði fyrir og vísaði lögreglu á 3,13 g af Amfetamíni, 8 töflur með fíkniefninu MDMA og 10,72 g af hassi. Í yfirheyrslu hjá lögreglu sama dag viðurkenndi ákærði að eiga efnin og sagði þau vera til eigin nota.
Næst fór lögregla á heimili ákærða 10. desember 2004 til að leita að fíkniefnum. Í herbergi ákærða og á honum fundust í það sinn 8,86 g af amfetamíni, 9,87 g af hassi, 0,55 g af tóbaksblönduðu hassi og 1,35 g af kókaíni. Í kjölfarið var ákærði yfirheyrður og viðurkenndi hanna að eiga efnin, sem hann ætlaði til eigin nota.
Hinn 16. janúar 2005 handtók lögregla ákærða fyrir utan heimili hans að Vesturgötu 24 vegna gruns um að hann væri með fíkniefni í sínum vörslum. Í umrætt sinn hafði ákærði á sér 0,97 g af amfetamíni en við húsleit á heimili hans fundust 0,57 g af amfetamíni, 2,45 g af hassi og 0,81 g af tóbaksblönduðu hassi. Ákærði var í kjölfarið yfirheyrður og kannaðist við að eiga efnin og sagði þau til eigin neyslu.
Ákærði var næst handtekinn 22. janúar 2005 þegar lögreglumenn höfðu afskipti af honum þar sem hann var staddur á Vesturgötu. Reyndist ákærði hafa á sér 1,86 g af kókaíni en auk þess fundust við leit á heimili hans 3,52 g af hassi. Við yfirheyrslu hjá lögreglu játaði ákærði að eiga efnin, sem hann ætlaði til eigin neyslu.
Hinn 3. febrúar 2005 stöðvaði lögregla akstur bifreiðarinnar ZU-955 þar sem henni var ekið norður Hvalfjarðargöng en ákærði var farþegi í bifreiðinni. Varð lögregla vör við að ákærði tæmdi innhald poka út um hliðarrúðu en um var að ræða um 1 g af amfetamíni. Í kjölfarið leitaði lögregla á heimili ákærða og fann 2,82 g af kannabisefni og 0,62 g af tóbaksblönduðu kannabisefni. Við yfirheyrslu hjá lögreglu sama dag kannaðist ákærði við að eiga þau efni sem fundust hjá honum og meira til svo sem síðar verður nánar rakið.
Þá fann lögregla 8,03 g af hassi í eigu ákærða við leit 12. mars 2005 á heimili hans og í bifreiðinni OI-291 í eigu bróður ákærða. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 8. apríl 2005 játaði ákærði að eiga þessi efni.
2.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu 3. febrúar 2005 greindi ákæri frá því að hann hefði deginum áður farið til Reykjavíkur og keypt þar 6 „búta“ af hassi og 1 g af amfetamíni en hluti af þeim efnum höfðu fundist við leit hjá ákærða og þegar hann var staðinn af því að losa sig við efni út um hliðarrúðu á bifreið. Kvaðst ákærði hafa notað hluta af efnunum og gefið af þeim.
Ákærði greindi frá því að hann hefði ekki selt neitt af ráði af fíkniefnum síðan um miðjan janúar 2005 vegna afskipta lögreglu en fram að því hefði hann selt um 20 „búta“ á viku. Nánar aðspurður sagðist ákærði hafa selt fíkniefni í meira eða minna mæli frá því um maí eða júní 2004. Um magn af seldum fíkniefnum sagði ákærði að það hefði verið breytilegt allt frá 20 g af hassi á viku upp í 50 g þegar mest var. Þó tók ákærði fram að hann hefði ekki selt efni í hverri einustu viku. Ákærði kvaðst ekki geta áætlað heildarmagn af seldum efnum en tók fram að í þrjú til fjögur skipti hefði salan farið upp í 50 g af hassi á viku. Um verðið sagði ákærði að hann hefði keypt hvert gramm á um 1.500 krónur en selt á 2.500 krónur.
Aðspurður um önnur efni sagðist ákærði lítið hafa selt af amfetamíni. Taldi hann sig hafa haft það efni í tvær til þrjár helgar um 10 g í hvert sinn sem hann hefði selt fyrir utan 2-3 g sem hann hefði neytt sjálfur. Kom fram hjá ákærða að hann hefði selt grammið af amfetamín á um 3.500-5.000 krónur en fyrir hvert gramm hefði hann greitt 2.000-2.500 krónur.
3.
Hér á eftir verða rakin þau samtöl í og úr farsíma ákærða sem lögregla hlustaði á og tók upp í þágu rannsóknar málsins. Samhliða verður einnig rakin frásögn ákærða um samtölin við yfirheyrslu hjá lögreglu 20. febrúar 2005 og framburðir þeirra sem taldir voru viðmælendur ákærða fyrir dómi og hjá lögreglu. Frásögn ákærða fyrir dómi verður síðan rakin í kafla 5 hér að neðan.
Samtal 25. september 2004 kl. 19.30. Í samtalinu er talið að ákærði og A ræði saman. Viðmælandinn segist vera allslaus uppi á Skaga og biður um greiða fram á mánudag. Er viðmælandinn þá spurður hvort hann eigi við „Slagið“ og er því játað. Einnig er sagt við viðmælandann fjögur og fimm og samþykkir hann það. Þá kemur fram í samtalinu að viðmælandinn hafi nýlega keypt sér bifreið á 2.000.000 krónur.
Um þetta samtal sagði ákærði við yfirheyrslu hjá lögreglu að hann hefði verið að ræða við A, en honum kvaðst ákærði hafa lánað 1 g af amfetamíni. Nokkrum dögum eftir samtalið sagði ákærði að A hefði greitt sér 4.500 krónur fyrir efnið. Aðspurður sagðist ákærði ekki geta svarað því hve oft A hefði keypt af honum amfetamín frá september 2004.
Vitnið A sagði fyrir dómi að hann myndi ekki eftir þessu samtali en taldi þó ekki útilokað að hann væri viðmælandinn. Þá kannaðist vitnið við að hafa keypt bifreið um þetta leyti fyrir 2.000.000 krónur. Aðspurður um hvað átt væri við með „slag“ sagði vitnið að það gæti átt við fíkniefni. Í skýrslutöku hjá lögreglu 11. apríl 2005 fullyrti hins vegar A að hann hefði í umrætt sinn keypt 1 g af amfetamín af ákærða og fengið kaupverðið lánað í nokkra daga. Um skýringu á breyttum framburði sagði A að hann hefði verið ölvaður þegar samtalið átti að hafa farið fram.
Samtal 26. september 2004 kl. 00.37. Í samtalinu er talið að ákærði og B ræði saman. Er viðmælandanum sagt að maður sé að koma að hitta hann en þá segir viðmælandinn að það þýði ekkert þar sem allt sé búið. Er viðmælandinn þá spurður: „Líka bútarnir ?“ Einnig er sagt við viðmælandann að það sé eins gott að hann sé með þetta „skrifað niður einhvers staðar“. Því næst segir viðmælandinn að hann geti ekki sótt meira. Undir lok samtalsins biður viðmælandinn um að maður að nafni Binni komi til sín með „eina kúlu“ en rödd sem talin er ákærða segir að það sé búið.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu um þetta samtal sagði ákærði að viðmælandinn hefði verið B og rætt væri um fíkniefni. Um hvað átt sé við þegar B segir í samtalinu að allt sé búið sagði ákærði að átt væri við 3-5 g af hassi sem hann hefði látið B hafa.
Vitnið B kannaðist hvorki við rödd sína né að hafa átt þetta samtal við ákærða. Einnig gat vitnið ekki skýrt efni samtalsins nánar. Þá sagðist vitnið hafa verið í neyslu á þessu tímabili en tók fram að ákærði hefði ekki útvegað vitninu fíkniefni. Í skýrslutöku hjá lögreglu 19. apríl 2005 sagði B hins vegar að fíkniefnaneysla hans á tímabilinu september 2004 til janúar 2005 hefði verið um 3 g af hassi á viku en megnið af efninu hefði hann keypt hjá ákærða. Samanlagt taldi B að hassmagnið sem hann keypti af ákærða á tímabilinu hafi verið að minnsta kosti 60 g. Þá sagðist B í nokkur skipti hafa notað amfetamín um helgar og á böllum en það efni hefði hann einnig fengið hjá ákærða. Fyrir dómi kannaðist ákærði ekki við þessa frásögn sína hjá lögreglu og tók fram að á þessum tíma hefði hann verið í mikilli neyslu. Að öðru leyti gat B ekki skýrt þetta misræmi.
Samtal 4. október 2004 kl. 19.22. Í samtalinu er talið að ákærði og M ræði saman. Rödd sem talin er ákærða segir svo í samtalinu: „Það er níu frá þér og fjögur og fimm frá N.“ Sama rödd spyr síðan: „Var ekki kúla líka ?“ og „Var ekki boltar líka ?“ Viðmælandinn játar því og segir að það hafi bara verið hjá sér. Rödd sem talin er ákærða svarar þá: „Já, já auðvitað, auðvitað nú man ég hvað þetta er. Það er bara svona ... níu og fjögur og fimm.“ Því er síðan svarað játandi.
Um þetta samtal sagði ákærði hjá lögreglu að rætt hefði verið um skuld M og N bróður hans vegna fíkniefnaviðskipta. Ákærði greindi frá því að N hefði skuldað honum fyrir 1 g af amfetamíni og M fyrir annað hvort 1 g af amfetamíni eða 2 e-töflur eða 2 g af amfetamíni og eina e-töflu.
Símtal 14. október 2004 kl. 22.54. Samtalið er milli stúlku sem ekki eru vituð deili á og ákærða að því er talið er. Í samtalinu segir rödd sem talin er ákærða að hann geti örugglega „græjað eitthvað spítt fyrir ykkur ef þið viljið“. Viðmælandinn heyrist þá segja við nærstadda: „Hann á, [...] á spítt.“ og síðan spyr viðmælandinn: „Áttu ekki kúlur ?“ en því er svarað neitandi og sagt ekki fyrr en á morgun. Í samtalinu spyr viðmælandinn síðan: „Tvö grömm ?“ og er því svarað: „Það er bara átta“.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu neitaði ákærði að greina frá því hver viðmælandinn væri í samtalinu. Hins vegar sagði ákærði að í þessu tilviki hefði hann haft milligöngu með því að útvega 2 g af amfetamíni hjá manni sem var með honum í þetta tiltekna skipti. Fyrir efnið hefðu verið greiddar 8.000 krónur sem runnu óskipt til mannsins.
Símtal 15. október 2005 kl. 00.15. Samtalið er milli karlmanns sem ekki eru sögð deili á og ákærða að því er talið er. Í samtalinu segir rödd sem talin er ákærða að hann sé á leiðinni upp úr göngunum og komi eftir smá. Síðan spyr sama rödd: „Heyrðu, hvað er það einn eða tveir eða þrír eða ?“ og er því svarað fimm og játað.
Hjá lögreglu sagði ákærði að þetta samtal hefði verið við C sem hefði verið að biðja um 5 g af hassi til kaups. Kvaðst ákærði hafa selt C það magn af hassi.
Símtal 28. október 2004 kl. 17.37. Samtalið er milli óþekkts karlmanns og ákærða að því er talið er. Í samtalinu er spyr sú rödd sem talin er ákærða hvort ekki sé í lagi að „kíkja á“ viðmælandann og „taka rúnt suður“. Viðmælandinn spyr þá hvort hann sé ekki í bænum en því er svarað: „Nei, nei, ég er að bara að bíða eftir jákvæðu svari frá þér“. Því er svarað þannig: „Ég á hérna 21 sem þú mátt fá sko“. Því svarar rödd ákærða að því er talið er með samþykki og að hann komi og taki það á eftir.
Ákærði sagði hjá lögreglu að þetta samtal hefði verið milli hans og manns að nafni O sem byggi í Reykjavík. Kvaðst ákærði hafa keypt af honum 21 g af hassi í þetta sinn. Ákærði sagðist ekki muna hvað hann greiddi fyrir efnið.
Símtal 30. október 2004 kl. 21.36. Í samtalinu er ákærði talin ræða við D. Í samtalinu spyr konan hvort sá sem hún ræði við muni eftir því sem þau voru að ræða í gær. Karlmaðurinn svarar þá: „Já þarna fótboltana“. Hann er síðan spurður hvort það sé ekki hægt áður en hann fari í bæinn. Því er svarað játandi og þá spyr konan: „Like six or so ?“ Því er svarað játandi en undir lok samtalsins spyr konan hvað hún eigi að koma með marga. Er þeirri spurningu svarað þannig: „Heyrðu ... Sex... hafðu það bara ... bara þrettán, þá verða það tvö og eitthvað eitt tvö eða eitthvað“. Konan spyrð þá hvort þau séu sátt við það og er því svarað játandi.
Um þetta samtal sagði ákærði hjá lögreglu að hann hefði verið að ræða við D, vinkonu sína, en hún hefði verið að biðja hann um að selja sér e-töflur. Kvaðst ákærði hafa selt henni 6 töflur fyrir 13.000 krónur.
Vitnið D taldi fyrir dómi að hún hefði í samtalinu verið að ræða við ákærða en tók fram að hún myndi lítið eftir þessu. Vitnið taldi mögulegt að umræðuefni samtalsins væru fíkniefni. Tók D fram að hún hefði verið í annarlegu ástandi þegar símtalið fór fram. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 12. apríl 2004 fullyrti vitnið hins vegar afdráttarlaust að samtalið fjallaði um kaup á 6 e-töflum og fyrir þær hefði vitnið greitt 13.000 krónur. Fyrir dómi treysti vitnið sér ekki til að staðfesta þann framburð.
Símtal 31. október 2004 kl. 01.04. Í samtalinu eru ákærði og E taldir ræða saman. Í samtalinu kynnir viðmælandinn sig sem [...] og spyr að því hvort þetta hafi ekki allt gengið eins og í sögu. Því er játað en síðan spyr viðmælandinn: „Ert þú búinn að ná á hann ?“ Því er svarað játandi og síðan sagt: „Svo tölum við bara saman á mánudaginn“. Í kjölfarið spyr rödd sem talin er ákærða: „Vantar þig eitthvað brúnt með þessu ?“ Hefjast síðan umræður um hvort talað hafi verið um „brúnt“ eða „hvítt“. Að lokum er viðmælandinn spurður: „Þú varst að tala um brúnt þá ?“ og því er svarað: „Já fimm svoleiðis og eitt hinsegin“. Rödd sem talin er ákærða svarar þá: „Glæsilegt ég redda þessu“ og að lokum „Við heyrumst þá bara á mánudaginn“.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu greindi ákærði frá því að viðmælandi sinn í þessu samtali hefði verið E. Ákærði sagði að samtalið fjallaði um sölu á 5 g af hassi og 1 g af amfetamíni, sem hann hefði selt E.
Vitnið E sagðist vita til þess fyrir dómi að ákærði hefði selt fíkniefni á Akranesi. Vitnið kvaðst hins vegar ekki hafa keypt fíkniefna af ákærða. Þá sagðist vitnið hvorki þekkja rödd sína á upptöku af samtalinu né kannast við að hafa átt þetta samtal við ákærða. Hins vegar kannaðist vitnið við að ganga stundum undir nafninu [...]. Þá útilokaði vitnið ekki að samtalið snérist um fíkniefni. Í skýrslutöku hjá lögreglu 12. apríl 2005 var framburður vitnisins á sömu lund.
Símtal 4. nóvember 2004 kl. 17.43. Í samtalinu er talið að ákærði ræði við F. Viðmælandinn nefnir þann sem hann ræðir við [...] og spyr hvort hann vilji koma við hjá sér á vinnustað upp í Olíunesti. Því er játað og síðan spyr viðmælandinn: „Tvo ?“ Það er sagt minnsta mál og spyr þá viðmælandinn aftur: „Fimm ?“ Rödd sem talin er ákærða segir þá: „Þú færð fimm á níu“ og er því að lokum svarað „Tekið“.
Hjá lögreglu sagði ákærði að þetta símtal hefði verið við F. Kvaðst ákærði í þetta tiltekna skipti hafa selt honum 5 g af hassi á 9.000 krónur.
Vitnið F greindi frá því fyrir dómi að hann og ákærði væru að ræðast við í samtalinu og umræðuefnið hefði verið kaup á fíkniefnum. Kvaðst vitnið hafa keypt 5 g af hassi af ákærða fyrir 9.000 krónur en efnið sagðist vitnið hafa fengið afhent á heimili ákærða. Í skýrslutöku hjá lögreglu 11. apríl 2005 bar vitnið á sama veg að þessu leyti. Einnig sagði F hjá lögreglu að á tímabilinu október til nóvember 2004 hefði hann keypt um 4 g af amfetamíni og 20 „búta“ af hassi en fyrir þetta taldi vitnið sig hafa greitt um 40.000 til 50.000 krónur. Fyrir dómi staðfesti vitnið þennan framburð.
Símtal 4. nóvember 2004 kl. 20.04. Í samtalinu eru ákærði og G taldir ræða saman. Viðmælandinn nefnir þann sem hann ræðir við [...] og spyr hvort hægt sé að komast í þetta hjá þér. Rödd sem talin er ákærða segir síðan að hann sé að fara út en spyr: „Hérna hvað ert þú að spá í mörgum ?“ Að lokum segir viðmælandinn að hann taki fimm á níu og því er svarað: „Er það ekki. Cool“ og „Bjalla bara í þig á eftir“.
Ákærði sagði hjá lögreglu að hann hefði í þessu samtali verið að ræða við G. Greindi ákærði frá því að í þetta sinn hefði hann selt G 5 g af hassi á 9.000 krónur. Einnig sagði ákærði að G hefði nokkrum sinnum keypt af honum hass og þá alltaf 5 g í einu. Í allt hefði G keypt af honum fjögur til fimm skipti og því næmi magnið samtals 20-25 g.
Vitnið G kannaðist við fyrir dómi að hann hefði verið að ræða við ákærða í samtalinu. Vitnið kaus hins vegar að tjá sig ekki um efni samtalsins að öðru leyti en því að verið gæti að umræðuefnið hefði verið hass. Í skýrslutöku hjá lögreglu 14. apríl 2005 sagði vitnið hins vegar að samtalið fjallaði um 5 g af hassi sem vitnið hefði keypt af ákærða fyrir 9.000 krónur og fengið afhent skömmu síðar sama dag. Einnig greindi vitnið frá því hjá lögreglu að hafa tvívegs á tímabilinu október til desember 2004 keypt hass af ákærða 1-3 g í hvert sinn en þann framburð hjá lögreglu staðfesti vitnið fyrir dómi. Undir lok yfirheyrslu fyrir dómi sagði vitnið að í öll þau þrjú skipti sem hann hefði haft samband við ákærða hefði hann fengið fíkniefni.
Símtal 8. nóvember 2004 kl. 15.40. Samtalið er milli karlmanns sem ekki eru sögð deili á og ákærða að því talið er. Í samtalinu spyr viðmælandinn hvað þetta hafi aftur verið mikið og er því svarað: „Fjögur og fimm“. Viðmælandinn spyr síðan: „Hvað hérna ... og [...], borgaði hann þessi fimm þarna ?“. Því er svarað játandi og þá segir viðmælandinn: „Já, já. Spjalla ég bara við hann um það.“
Hjá lögreglu sagði ákærði viðmælanda sinn í þessu samtali hafa verið E sem keypt hefði 1 g af amfetamíni. Einnig sagði ákærði að fram kæmi í samtalinu að P hefði verið búinn að borga 5 g af hassi sem hann hefði fengið.
Símtal 11. nóvember 2004 kl. 21.12. Samtalið er talið á milli ákærða og Q. Í upphafi er spurt eftir Gunnari og því svarað játandi en síðan kynnir viðmælandinn sig sem Q. Rödd sem talin er ákærða spyr þá: „Tvíburi“ en því er svarða: „Nei, hinn, [...]. Heyrðu ég talaði við ... ... hérna áttu nokkuð brúnt, eða ?“ Viðmælandinn spyr síðan hvað mikið fyrir eitt og er því svarað: „Ha, two bara“. Að lokum ákveða þeir sem ræða saman að hittast.
Um þetta samtal sagði ákærði hjá lögreglu að það hefði verið við Q og kvaðst ákærði hafa selt Q 1 g af hassi.
Vitnið Q gaf skýrslu fyrir dómi og neitaði að svara því hvort hann hefði keypt fíkniefni af ákærða. Vitnið sagði hins vegar vita til þess að ákærði hefði selt fíkniefni á Akranesi. Fyrir dómi staðfesti vitnið framburð sinn hjá lögreglu 11. apríl um að hann hefði ætlað að kaupa 1 g af hassi en ákærði hefði ekki getað útvegað efnið þegar á reyndi. Þá staðfesti Q að samtal hér að ofan væri milli hans og ákærða.
Símtal 12. nóvember 2004 kl. 14.10. Í samtalinu er talið að ákærði og H ræði saman. Í upphafi samtalsins er ákærði ávarpaður Gunnar og viðmælandinn kynnir sig [...]. Að því búnu spyr viðmælandinn: „Ertu með eitthvað fyrir mig ?“ og er því svarað: „Já ef þú er með pening“. Því er játað og segist viðmælandinn vera með tíkall. Aðspurður hvað hann vilji svarar viðmælandinn: „Ég vil eitthvað gott sko, góðan skít“. Er hann þá spurður „Stuð ?“ og svarar: „Nei. Hraða“. Rödd sem talin er ákærða svarar þá: „Spítt“. Að því búnu ákveða þeir sem ræða saman að hittast eftir að viðmælandinn hefur komið við í banka.
Símtal 12. nóvember 2004 kl. 14.18. Í samtalinu eru ákærði og H taldir ræða saman. Rödd sem talin er ákærða spyr: „Varstu að spá í einu eða tveimur eða þú...?“ og er því svarað: „Tveimur“. Því er játað og samtalinu síðan lokið.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu sagði ákærði að þessi tvö samtöl hefði hann átt við H og umræðuefnið hafi verið 2 g að amfetamíni, sem ákærði kvaðst hafa selt H fyrir 10.000 krónur.
Símtal 29. nóvember 2004 kl. 18.37. Í símtalinu er talið að ákærði og H ræði saman. Í upphafi samtalsins segir viðmælandinn: „blessaður Gunni“. Í framhaldi af því fer viðmælandinn að ræða um málamiðlun og segir: „Um að borga þetta þá bara þú veist þessi fjögur sem tvö. Skilurðu ? Tvö og fimm þá stykkið bara því að þetta var ekki það gott.“ Um þetta er síðan þráttað í löngu máli en meðal annars segir rödd sem talin er ákærða: „Það er ekki mér að kenna að þið séuð að taka þetta hreint sko. Það eru allir aðrir hæstánægðir með þetta. Svínvirkar á mig.“ og „Ég var vakandi í tvo og hálfan sólahring“. Að lokum er rætt um 12.000 krónur sem málamiðlun og um greiðslu á þeirri fjárhæð.
Ákærði greindi frá því um þetta samtal við yfirheyrslu hjá lögreglu að hann hefði lánað H og R 4 g af amfetamíni í tveimur hlutum sama kvöld, 2 g í hvort sinn. Þeir hefðu síðan orðið óánægðir með gæði efnisins og ekki viljað borga. Tók ákærði fram að ekki enn hefði verið borgað fyrir efnið.
Símtal 4. desember 2004 kl. 00.13. Samtalið er talið milli ákærða og B. Í samtalinu segir rödd sem talin er ákærða: „Einn eða fimm eða ?“ og er því svarað: „Bara eins mikið og ... já helst.“ Því er játað og samtalinu þar með lokið.
Hjá lögreglu sagði ákærði að viðmælandi hans í þessu samtali væri B. Hann hefði verið að biðja sig um 5 g af hassi og sagðist ákærði hafa látið hann fá það magn af efninu.
Vitnið B kannaðist hvorki við rödd sína né að hafa átt þetta samtal við ákærða. Einnig kvaðst vitnið ekki átta sig á efni samtalsins.
Símtal 4. desember 2004 kl. 0.19. Samtalið er milli karlmanns sem ekki eru vituð deili á og ákærða. Í samtalinu spyr rödd sem talin er ákærða: „Hvað viltu fá mörg ?“ og er því svarað „Tvö“. Þeir sem ræðast við ljúka síðan samtalinu með því að ákveða að ræða sama síðar en fram kemur að viðmælandinn sé á Mörkinni.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu sagðist ákærði ekki vera viss um hver væri viðmælandi hans í þessu samtali en taldi það vera S. Ákærði greindi frá því að viðmælandinn hefði verið að biðja um 2 g af amfetamíni en ákærði kvaðst ekki muna almennilega eftir þessu tilviki.
Símtal 11. desember 2004 kl. 00.51. Í samtalinu er talið að ákærði og A ræði saman. Eftir að viðmælendur höfðu rætt um að berja mætti mann að nafni [...] segir rödd sem talin er ákærða: „Þar eru tvö til“. Því er svarað: „Heyrðu ætlarðu að láta mig hafa þau ?“. Eftir að því er játað ákveða viðmælendurnir að hittast.
Um þetta samtal sagði ákærði hjá lögreglu að viðmælandi hans hefði verið A og umræðuefnið hefði verið 2 g af amfetamíni sem ákærði hefði afhent A.
Vitnið A kvaðst fyrir dómi ekki muna eftir þessu samtali eða geta skýrt það nánar. Í skýrslutöku hjá lögreglu fullyrti vitnið hins vegar að til hefði staðið að kaupa 2 g af kókaíni en efnið hefði hann ekki fengið þar sem lögregla hefði lagt hald á það hjá ákærða í kjölfar handtöku. Um skýringu á breyttum framburði sagði A að hann hefði verið ölvaður þegar samtalið átti að hafa farið fram.
Símtal 18. desember 2004 kl. 16.47. Í samtalinu er talið að ákærði og Guðni Rúnar Skúlason ræði saman. Í samtalinu segir rödd sem talin er ákærða: „Og hérna bara henda í hann einu essi sko.“ Skömmu síða segir sama rödd: „Já, meinar þessu brúna“. Eftir það er rætt um krít og hvort megi lána. Í samtalinu segir einnig rödd talin ákærða: „Voru ekki þrír af þessu þú mátt fá þarna sko ... jú þú mátt alveg taka einn af .. einn svoleiðis“.
Ákærði sagði hjá lögreglu um þetta samtal að viðmælandinn væri T. Um sölu á 1 g af amfetamíni hefði verið að ræða sem T hefði afhent ónefndum manni. Auk þess hefði T geymt fyrir ákærða 3 g af hassi ætluð til eigin neyslu og fyrir T og nafngreinda stúlku.
Vitnið T taldi fyrir dómi að samtalið væri milli sín og ákærða. Að öðru leyti gat vitnið ekkert borið um samtalið.
Símtal 23. desember 2004 kl. 18.44. Samtalið er talið á milli ákærða og I. Viðmælandinn spyr hvort sá sem hann ræðir við geti talað og er því játað. Einnig er vísað til fyrra samtals sem viðmælendur höfðu átt. Því næst spyr viðmælandinn: „Ok heyrðu mig vantar tíu brúna“ og er því svarað: „Minnsta mál“. Þá spyr viðmælandinn: „Og .. og ... hérna ss..ss..sss..sss ?“ Því er svarað: „Þetta er allt í lagi“ og þá segir viðmælandinn „Já þú veist hvað ég er að meina“. Eftir að því er játað ákveða þeir sem ræða saman að ræða saman síðar.
Símtal 23. desember 2004 kl. 23.31. Talið er að ákærði og I ræða saman í samtalinu. Í upphafi ræða viðmælendur um að hittast en síðan spyr rödd sem talin er ákærða: „Var það ekki bara tíu ?“ og er því svarað: „Jú, tíu brún og hérna fimm hvít“. Eftir að viðmælandinn hefur rætt um að útvega peninga spyr rödd sem talin er ákærða: „Þú ert að ræða um ess hvítt ekki joð ?“ Viðmælandi virðist ekki skilja og er þá spurður „Kók ?“. Því er svo svarað: „Nei, ekki að tala um það“. Að lokum segir rödd sem talin er ákærða: „Nei, fínt. Já ég hringi í þig á eftir og græja þetta“.
Hjá lögreglu sagði ákærði um þessi tvö samtöl að viðmælandi hans hefði verið I. Greindi ákærði frá því að I hefði keypt af honum 10 g af hassi og 5 g af amfetamíni. Ákærði kvaðst hafa selt efnin á 35.000 krónur af því þau hefðu verið pöntuð með fyrirvara. Að öðrum kosti hefði sama magn kostnað 40.500 krónur.
Vitnið I taldi að umrædd samtöl væru milli hans og ákærða. Vitnið gat hins vegar ekki skýrt efni símtalanna en útilokaði ekki að þau snérust um fíkniefni. Í skýrslutöku hjá lögreglu sagði vitnið hins vegar að fyrra símtalið fjallaði um kaup á 10 g af hassi og 5 g af amfetamíni sem vitnið keypti af ákærða. Einnig greindi vitnið frá því að það hefði fengið efnin um nóttina eða daginn eftir. Vitnið gat takmarkað skýrt misræmi milli framburðar hjá lögreglu og fyrir dómi en tók þó fram að hann hefði sagt lögreglu að sér hefðu ekki verið afhent nein fíkniefni.
Símtal 27. desember 2004 kl. 05.46. Í samtalinu er talið að ákærði og U ræði saman. Í upphafi spyr viðmælandinn: „Ég var að spá í áttu eitthvað eitt gramm eða eitthvað ?“ Rödd sem talin er ákærða svarar að hann geti örugglega grafið eitthvað upp og spyr síðan: „Ertu ekki að tala um örvandi ?“ Því er játað en síðar í samtalinu spyr viðmælandinn: „Í leiðinni áttu einhverjar svona sígarettur svona spes“ og er því játað. Undir lok samtalsins ákveða viðmælendurnir að hittast eftir klukkustund.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu sagði ákærði að þetta samtal hefði verið við U. Ákærði kvaðst hvorki muna eftir samtalinu né að hafa hitt U.
Símtal 8. janúar 2004 kl. 00.27. Símtalið er talið á milli ákærða og J. Eftir að hafa heilsast spyr viðmælandinn: „Er það Gunni ?“ og er því svarað játandi. Kynnir viðmælandinn sig þá sem J og spyr síðar í samtalinu: „Kóla ?“ og er því játað. Viðmælandi spyr næst: „Hvaða prís ?“ og er því svarað 15. Undir lokin ákveða viðmælendur að ræða saman aftur.
Um þetta samtal sagði ákærði við yfirheyrslu hjá lögreglu að viðmælandi hans hefði verið J, sem keypt hefði 1 g af kókaíni af ákærða á 15.000 krónur.
Símtal 8. janúar 2005 kl. 19.48. Talið er að samtalið sé á milli ákærða og B. Í samtalinu er rætt um að eitthvað sé undir kodda viðmælandans sem [...] sæki síðar. Rödd sem talin er ákærða segir meðal annars í samtalinu: „Svo er mælitæki inni hjá [...]“ og „Þetta eru akkúrat fjögur og [...] leikur eitthvað við þetta“.
Ákærði sagði um þetta samtal hjá lögreglu að viðmælandi hans hefði verið B. Ákærði sagðist hafa falið 4 g af amfetamíni undir koddanum hjá B og sagðist hafa verið að vísa honum á þau til að A gæti farið til B og sótt efnið. Ákærði sagði að A hefði síðan bætt einhverju út í efnið til að drýgja það þannig að magnið hefði verið um 6-8 g. Þó sagðist ákærði ekki muna nákvæmlega hvernig þetta var.
Vitnið B kannaðist hvorki við rödd sína né að hafa átt þetta samtal við ákærða.
Vitnið A kannaðist ekki við fyrir dómi að til hefði staðið að hann sækti 4 g af amfetamíni hjá B í umrætt sinn. Í skýrslu hjá lögreglu kannaðist vitnið þó við að hafa átt að sækja þetta efni hjá B en úr því hefði ekki orðið.
Símtal 16. janúar 2005 kl. 01.15. Samtalið er talið á milli ákærða og V. Í upphafi samtalsins spyr viðmælandi: „Er þetta Gunnar ?“ og er því játað en síðan kynnir viðkomandi sig sem V. Eftir stutt spjall um sameiginlega kunningja spyr viðmælandinn: „Áttu eitthvað ?“ og er því svarað: „Ekkert brúnt sko“. Þá segir viðmælandinn: „Ekkert brúnt, nei, ég er að tala um einhverja hressingu sko“. Eftir að hafa rætt um Jólasveininn, Gonna og Ellu frænku segir viðmælandinn: „Ég var að spekúlera hvort að fá hjá þér eitt“ og er því svarað „Var það ekki bara hérna ... Speedo“. Því er játað og undir lok samtals ákveða viðmælendur að hafa aftur samband símleiðis.
Hjá lögreglu sagði ákærði um þetta samtal að hann hefði ætlað að selja V 1 g af amfetamíni en hann hefði ekki fengið efnið sökum þess að ákærði hefði verið handtekinn með efnið á sér þegar hann var að fara að afhenda það.
Vitnið V sagði fyrir dómi að símtalið væri milli hans og ákærða. Um efni samtalsins sagði vitnið að það fjallaði um amfetamín sem vitnið ætlaði að kaupa af ákærða. Hins vegar sagðist vitnið aldrei hafa fengið efnið í hendur en fyrr um daginn hafði ákærði verið handtekinn með 0,97 g af amfetamíni, svo sem nánar er rakið í ákæru 28. febrúar 2005.
4.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu 20. febrúar 2005 var ákærði spurður nánar um sölu og dreifingu fíkniefna. Eftir að hafa hlustað á upptökur af þeim símtölum sem hér hafa verið rakin sagði ákærði að framburður hans hjá lögreglu 3. sama mánaðar væri líklega ekki alveg réttur. Taldi ákærði sig hafa vanáætlað selt magn fíkniefna og nær lagi að sala hans á hassi á tímabilinu júní til desember 2004 hefði verið 40 g á viku og stundum meira. Ákærða var bent á að frá september til loka desember 2004 væru rúmlega 17 vikur og miðað við það væri um að ræða sölu á 680 g af hassi. Kvaðst ákærði gera sér grein fyrir þessu og taldi sig hafa selt þetta magn á tímabilinu.
Aðspurður um sölu á e-töflum sagði ákærði að hann hefði aðeins selt lítilræði af því efni eða að hámarki um 40-45 töflur á tímabilinu frá september 2004 til loka janúar 2005. Ákærði kvaðst stundum hafa keypt e-töflur fyrir vinahóp, sem hefði verið að taka þær inn saman. Kvaðst ákærði sárasjaldan hafa selt út fyrir þann hóp þannig að þetta hafi meira verið „redding“ fyrir vini ákærða.
Um kókaín sagði ákærði að hann hefði fyrir jólin 2004 keypt efni sem dugað hafi í 15 slög, þ.e. 15 g af efninu. Kvaðst ákærði hafa verið tekin af lögreglu með 2 g hann sjálfur hefði notað 8 g en selt um 5 g.
Við yfirheyrsluna var ákærða bent á að hann hefði í framburði sínum um hljóðrituð símtöl játað að hafa selt 27 g af amfetamín á tímabilinu september 2004 til loka desember 2004. Um þetta sagði ákærði að hann hefði hagað sölu á amfetamíni þannig að sumar helgar hefði hann selt svolítið og aðrar ekki neitt. Taldi ákærði sig hafa selt þessi 27 g og ef til vill eitthvað lítilræði til viðbótar.
5.
Fyrir dómi þvertók ákærði fyrir að hafa á tímabilinu september 2004 til janúar 2005 selt í ágóðaskyni samtals 680 g af kannabisefnum, 45 töflur með fíkniefninu MDMA, 5 g af kókaíni og 27 g af amfetamíni. Ákærði tók fram að hann hefði á þessu tímabili ekki lagt stund á sölu fíkniefna heldur eingöngu í einhver skipti útvegað kunningjum hass og amfetamín samhliða kaupum til eigin neyslu. Hefðu þá aðrir fengið að fljóta með þegar hann sjálfur var að nálgast fíkniefni. Aðspurður um kókaín og e-töflur sagði ákærði að hann hefði hvorki selt slík efni né útvegað það fyrir aðra. Ákærði tók fram að hann áttaði sig ekki á hvert magn efnanna í heild hefði verið en það sem kæmi fram í ákæru væri fjarri öllu lagi.
Ákærði sagðist hafa lent í slysi haustið 2004 og verið á bótum upp frá því. Á þessu tímabili hefði hann verið í mikilli neyslu fíkniefna og neytt kannabis frá 0,5 g upp í 2-3 g á dag. Annarra fíkniefna sagðist ákærði hins vegar ekki hafa neytt að staðaldri. Ákærði sagðist hafa fengið efnið á góðu verði og fjármagnað neyslu með eigin fé og bótum.
Við aðalmeðferð málsins voru spilaðar fyrir ákærða upptökur af símtölum í og úr fjarsíma hans sem lögregla hlustaði á og tók upp í þágu rannsóknar málsins. Ákærði kvaðst ekki muna neitt af þessum samtölum eða kannast ekki við þær raddir sem teknar voru upp. Þó tók ákærði fram að hugsanlega væri um hann að ræða en hann ræki ekki minni til þess og neitaði sök. Aðspurður um hvor ákærði kannaðist við mann að nafni [...] í samtali 11. desember 2004, sem rætt var um að mætti berja, sagði ákærði að hann þekkti [...] sem hann hefði lengi átt í útistöðum við.
Aðspurður um ástæður þess að ákærði hefði fyrir dómi breytt framburði sínum frá því hann gaf skýrslu hjá lögreglu 3. og 20. febrúar 2005 sagði ákærði að hann hefði verið beittur þingunum af lögreglu. Við fyrri skýrsluna hefðu lögreglumenn staðið öskrandi yfir ákærða og lagt honum orð í munn. Við þá skýrslutöku hefði ákærði ekki notið aðstoðar lögmanns, sem þó hefði komið undir lok skýrslutökunnar. Við síðari skýrslutökuna hefði ákærði eingöngu fengið að ræða stutta stund símleiðis við lögmann. Honum hefði jafnframt verið hótað gæsluvarðhaldi og því hefði hann játað á sig brotin eftir að hafa verið í haldi lögreglu í sex tíma.
6.
Vitnið Jónas Hallgrímur Ottósson, varðstjóri, greindi frá því fyrir dómi að lögreglu hefðu borist upplýsingar um fíkniefnasölu ákærða og að hann seldi hass, kókaín, amfetamín og e-töflur. Í þágu rannsóknar málsins hefði sími ákærða verið hlustaður auk þess sem ítrekað hafi verið leitað á heimili ákærða. Vitnið sagði að lögregla hefði ekki orðið vör við að aðrir en ákærði notuðu þann síma sem lögregla hlustaði. Vitnið tók skýrslu af ákærða 20. febrúar 2005 og fullyrti að ekki hefði komið til umræðu að krafist yrði gæsluvarðhalds yfir ákærða eða að honum hefði á nokkurn hátt verið ógnað. Þvert á móti hefði ákærði verið samvinnuþýður og vel fyrir kallaður. Þá tók vitnið fram að ákærði hefði upphaflega ekki viljað ræða við lögmann en að ábendingu lögreglu hefði ákærði haft samband símleiðis við lögmann sem ákærði ráðfærði sig við. Loks sagði vitnið að ákærði sjálfur hefði áætlað vikulega sölu sína af hassi 40 g.
Vitnið Viðar Stefánsson, lögreglufulltrúi, yfirheyrði ákærða 3. febrúar 2005 í kjölfar handtöku. Vitnið greindi frá því fyrir dómi að lögregla hefði fengið upplýsingar um að ákærði væri að koma frá Reykjavík með fíkniefni og því hefði hann verið handtekinn í Hvalfjarðargöngunum. Vitnið kvaðst ekki muna eftir ástandi ákærða en fullyrti að hann hefði ekki verið yfirheyrður ef hann hefði verið ófær um að gefa skýrslu. Þá sagði vitnið að ákærði hefði tjáð sig greiðlega. Aðspurður sagði Viðar að gæsluvarðhald hefði ekki komið til umræðu. Loks sagði vitnið að reynt hefði verið að hafa samband við lögmann ákærða án árangurs en vitnið sagðist hafa kallað til lögmann frá Akranesi. Einnig tók vitnið fram að framburður ákærða hefði ekki breyst eftir að hann ráðfærði sig við lögmann.
Vitnið Jón Ólafsson, yfirlögregluþjónn, var viðstaddur yfirheyrslu yfir ákærða 3. febrúar 2005. Vitnið sagði fyrir dómi að ekki hefði náðst í lögmann ákærða en lögmaður hefði síðan verið kallaður til frá Akranesi eftir að ákærði fór að játa á sig sakargiftir. Vitnið fullyrti að gæsluvarðhald hefði ekki komið til umræðu við yfirheyrsluna. Um ástand ákærða við yfirheyrsluna sagði vitnið að ekkert hefði verið athugavert við það.
Vitnið Arnar Geir Magnússon, varðstjóri, var viðstaddur yfirheyrsluna yfir ákærða 20. febrúar 2005 og sagði fyrir dómi að ákærði hefði verið samvinnufús og viljað gera hreint fyrir sínum dyrum. Þá hefði gæsluvarðhald ekki komið til umræðu.
7.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu 20. febrúar 2005 játaði ákærði að hafa á tímabilinu júní til desember 2004 selt um 40 g af hassi á viku og stundum meira. Var ákærða þá bent á að frá september til loka desember væru rúmlega 17 vikur og miðað við það væri um að ræða 680 g af hassi. Kvaðst ákærði gera sér grein fyrir þessu og taldi sig hafa selt þetta magn á þessu tímabili. Aðspurður um e-töflur taldi ákærði sig að hámarki hafa selt 40-45 töflur. Þá játaði ákærði að hafa um jólin keypt 15 g af kókaíni, auk þess sem hann gekkst við sölu á 27 g af amfetamíni.
Sá hluti ákæru sem hér er fjallað um er reistur á þessum framburði ákærða hjá lögreglu. Fyrir dómi hefur ákærði hins vegar dregið framburð sinn til baka og segir það magn sem tilgreint er í ákæru fjarri öllu lagi.
Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, skal dómur reistur á þeim sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Er þetta í samræmi við meginreglu opinbers réttarfars um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi. Með hliðsjón af þessu hefur skýrsla sakbornings hjá lögreglu almennt ekki sönnunargildi nema hún sé studd öðrum gögnum.
Þegar ákærði tjáði sig hjá lögreglu 20. febrúar 2005 um magn seldra fíkniefna á tímabilinu september 2004 fram í miðjan janúar 2005 hafði hann hlýtt á upptökur lögreglu af 25 símtölum, sem talin voru snerta fíkniefnasölu ákærða. Þær upplýsingar sem þar komu fram voru þó ekki nema um óverulegan hluta af því efni sem ákærði kannaðist við að hafa selt hjá lögreglu. Að þessu gættu verður ekki annað ráðið efnislega af skýrslu ákærða en um hafi verið að ræða lauslegt mat hans á áætluðu magni af seldum fíkniefnum á lengra tímabili. Þá verður ekki litið hjá því að ákærði naut ekki aðstoðar verjanda og átti eingöngu kost á að ræða símleiðis við lögmann í upphafi skýrslutöku.
Að réttu lagi gat framangreind skýrsla ákærða ekki gefið tilefni til annars en málið sætti ítarlegri rannsókn lögreglu, eins og gert var að nokkru leyti með því að yfirheyra þá sem taldir voru viðmælendur ákærða. Sú rannsókn rennir á hinn bóginn hvergi nægum stoðum undir allt það magn fíkniefna sem ákærði játaði að hafa selt og saksókn miðast við. Þá stoðar ekki fyrir ákæruvaldið, eins og hreyft var við aðalmeðferð málsins, að benda á aðrar upptökur af símtölum ákærða með upplýsingum um frekari sölu fíkniefna, en þessi sönnunargögn hafa ekki verið lögð fram í málinu.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki talið sannað að ákærði hafi selt það magn af fíkniefnum sem getur í upphafi ákæruhlutans og verður ákærði ekki sakfelldur fyrir það ákæruatriði. Eins og ákæra er úr garði gerð kemur hins vegar til úrlausnar hvort ákærði verði sakfelldur fyrir þau brot sem honum eru gefin að sök að hafa framið á Akranesi í 1.-14. tölul. I. hluta ákærunnar.
Í 1. tölul. er ákærða gefið að sök að hafa selt A 1 g af amfetamíni 25. september 2004. Í skýrslutökum hjá lögreglu voru ákærði og og A einróma í framburði sínum um að sá síðarnefndi hafi keypt 1 g af amfetamíni af ákærða og fengið efnið afhent gegn greiðslufresti. Kemur sá framburður að öllu leyti heim og saman við efni símtals sem snertir þennan tölulið ákæru. Þá verður breyttur framburður ákærða sem fyrir dómi talinn fyrirsláttur en þar mundi hann hvorki eftir einstökum samtölum sem lögregla tók upp undir rannsókn málsins né taldi sig þekkja rödd sína. Þá getur engu breytt í þessu tilliti þótt A hafi dregið nokkuð úr framburði sínum fyrir dómi en þar kannaðist hann við að hafa á þessum tíma keypt bifreið fyrir 2.000.000 krónur, eins og kom fram í samtalinu, auk þess sem hann taldi ekki útilokað að hann væri viðmælandinn. Samkvæmt þessu er sannað gegn neitun ákærða að hann hafi selt A 1 g af amfetamíni fyrir 4.500 krónur.
Ákærða er gefið að sök í 2. tölul. að hafa laugardaginn 25. eða sunnudaginn 26. september selt B 3-5 g af kannabisefni. Í skýrslutöku hjá lögreglu sagði ákærði að umræðuefnið í símtali við B, sem varðar þennan ákærulið, hafi verið 3-5 g af hassi sem ákærði hefði látið B fá. Þennan framburð eins og annan um I. hluta ákæru hefur ákærði dregið til baka. Fyrir dómi kannaðist B hvorki við rödd sína í símtalinu né að hafa átt þetta samtal við ákærða. Þá var B ekki yfirheyrður hjá lögreglu um það tilvik sem þessi töluliður ákærunnar tekur til heldur almennt um viðskipti hans og ákærða. Að þessu gættu fær frásögn ákærða hjá lögreglu ekki næga stoð í öðrum gögnum málsins gegn neitun hans fyrir dómi og verður ákærði því sýknaður af þessum tölulið ákærunnar.
Í 3. tölul. er ákærða gefið að sök að hafa selt ónafngreindri stúlku 2 g af amfetamíni 14. október 2004. Í skýrslutöku hjá lögreglu sagði ákærði að hann hefði í þessu tilviki haft milligöngu um að útvega þetta efni. Fyrir dómi dró ákærði framburð sinn til baka. Þá nýtur ekki við framburðar stúlkunnar sem ákærði á að hafa rætt við í símtali um þetta tilvik. Liggur því ekki fyrir hvort efnið var afhent í samræmi við það sem kom fram í símtalinu. Samkvæmt þessu þykir sök ákærða ekki hafin yfir skynsamlegan vafa og verður hann því sýknaður af þessum ákærulið.
Ákærða er gefið að sök í 4. tölul. ákæru að hafa selt C 5 g af kannabisefni 15. október 2004. Í skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndi ákærði að hann hefði í þessu tilviki selt C þetta mikið magn af kannabis. Fyrir dómi var sá framburður hins vegar dreginn til baka. Hvorki reyndist unnt að fá C til skýrslutöku hjá lögreglu eða fyrir dómi til að staðfesta símtal um þetta tilvik og að fyrirhuguð viðskipti hefðu gengið eftir. Að því virtu þykir frásögn ákærða hjá lögreglu ekki fá nægjanlega stoð í öðrum gögnum þannig að til álita komi að leggja hana til grundvallar gegn neitun ákærða fyrir dómi. Verður ákærði því sýknaður af þessum tölulið.
Í 5. tölul. er ákærði sakaður um að hafa 30. október 2004 selt D 6 töflur með fíkniefninu MDMA á 13.000 krónur. Við skýrslugjöf hjá lögreglu viðurkenndu bæði ákærði og D að hún hefði keypt efnið af ákærða fyrir nefnda upphæð. Ákærði hefur fyrir dómi dregið þennan framburð til baka. Einnig hefur D hefur D dregið úr framburði sínum fyrir dómi en staðfesti þó að hún hefði átt símtal við ákærða þar sem fjallað var um þetta tilvik. Hvorki ákærði né D hafa getað skýrt með viðhlítandi hætti breyttan framburð sinn fyrir dómi en framburður þeirra hjá lögreglu kemur að öllu leyti heim og saman við efni samtalsins sem lögregla hlustaði á og tók upp. Að þessu virtu þykir sannað gegn neitun ákærða að hann hafi selt D 6 töflur af fíkniefninu MDMA fyrir 13.000 krónur.
Í 6. tölul. er ákærða gefið að sök að hafa 31. október 2004 selt E 1 g af amfetamíni og 5 g af kannabisefni. Í skýrslutöku hjá lögreglu játaði ákærði að hafa selt E þetta magn fíkniefna. Þann framburð hefur ákærði hins vegar dregið til baka fyrir dómi. Hvorki fyrir dómi né hjá lögreglu kannaðist E við að hafa verið viðmælandi ákærða í því símtali sem snýr að þessum ákærulið. Að þessu gættu liggur því ekki fyrir nánari lýsing á því hvort og hvenær fíkniefni voru afhent eins og ætla má að staðið hafi til miðað við fyrrgreint símtal sem lögregla tók upp. Samkvæmt þessu fær frásögn ákærða hjá lögreglu ekki næga stoð í öðrum gögnum málsins þannig að til álita komi að leggja hana til grundvallar gegn neitun ákærða fyrir dómi. Verður ákærði því sýknaður af þessum tölulið.
Ákærða er í 7. tölul. er ákærða gefið að sök að hafa 4. nóvember 2004 selt F 5 g af kannabis á 9.000 krónur. Hjá lögreglu játaði ákærði brotið en dróg framburð sinn til baka fyrir dómi. Fyrir dómi og hjá lögreglu kannaðist F við að hafa átt það samtal við ákærða sem snertir þennan ákærulið og gekkst við því að hafa keypt 9 g af hassi af ákærða fyrir 9.000 krónur. Kemur sá framburður að öllu leyti heim og saman við símtalið og frásögn ákærða að þessu leyti hjá lögreglu. Þykir því frásögn ákærða hjá lögreglu eiga sér næga stoð í öðru sem hefur komið fram við rannsókn málsins og verður hann gegn neitun sinni fyrir dómi fundinn sekur um þennan tölulið ákærunnar.
Í 8. tölul. er ákærða gefið að sök að hafa selt G 5 g af kannabis 4. nóvember 2004. Í skýrslutöku hjá lögreglu gekkst ákærði við að hafa selt G 5 g af kannabis en dró þann framburð sinn til baka fyrir dómi. Fyrir dómi og hjá lögreglu gekkst G við að hafa átt það símtal við ákærða sem snýr að þessum tölulið ákæru. Hjá lögreglu kannaðist G við að hafa í umrætt sinn keypt 5 g af hassi af ákærða á 9.000 krónur. Fyrir dómi dró G nokkuð úr framburði sínu en gekkst þó að lokum við því að hafa þrisvar keypt fíkniefni af ákærða og var á honum að skilja að þetta tilvik væri eitt þeirra. Samkvæmt þessu kemur frásögn ákærða hjá lögreglu að öllu leyti heim og saman við framburð G og símtal þar sem snertir þennan tölulið ákæru. Þykir sök ákærða því sönnuð og verður hann fundinn sekur um þetta brot þrátt fyrir neitun hans fyrir dómi.
Í 9. tölul. er ákærða gefið að sök að hafa 8. nóvember 2004 selt E 1 g af amfetamíni. Í skýrslutöku hjá lögreglu játaði ákærði brotið en dró framburð sinn til baka fyrir dómi. Hvorki fyrir dómi né hjá lögreglu kannaðist E við að hafa keypt fíkniefni af ákærða. Að þessu gættu og þar sem símtal það snertir þennan tölulið ákæru er óljóst verður ekki talið að frásögn ákærða hjá lögreglu fái næga stoð í öðrum gögnum málsins þannig að hún verði lögð til grundvallar gegn neitun ákærða fyrir dómi. Verður ákærði því sýknaður af þessum tölulið ákæru.
Ákærða er gefið að sök í 10. tölul. ákæru að hafa selt H 2 g af amfetamíni 12. nóvember 2004. Í skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndi ákærði að hann hefði í þessu tilviki selt H þetta mikið magn af amfetamín. Fyrir dómi var sá framburður hins vegar dreginn til baka. Hvorki reyndist unnt að fá H til skýrslutöku hjá lögreglu né að leiða hann fyrir dómi til að staðfesta símtöl um þetta tilvik og að fyrirhuguð viðskipti hefðu gengið eftir. Að því virtu þykir frásögn ákærða hjá lögreglu ekki fá nægjanlega stoð í öðrum gögnum þannig að til álita komi að leggja hana til grundvallar gegn neitun ákærða fyrir dómi. Verður ákærði því sýknaður af þessum tölulið.
Í 11. tölul. er ákærða gefið að sök að hafa selt B 5 g af kannabis 4. desember 2004. Í skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndi ákærði brotið en dró þann framburðinn til baka fyrir dómi. Fyrir dómi kannaðist B hvorki við rödd sína í símtali sem snertir þennan tölulið ákærunnar né að hafa átt þetta samtal við ákærða. Þá var B ekki yfirheyrður hjá lögreglu um það tilvik sem þessi töluliður ákærunnar tekur til heldur almennt um viðskipti hans og ákærða. Að þessu gættu fær frásögn ákærða hjá lögreglu ekki næga stoð í öðrum gögnum málsins gegn neitun hans fyrir dómi og verður ákærði því sýknaður af þessum tölulið ákærunnar.
Ákærða er í 12. tölul. gefið að sök að hafa selt A 2 g af amfetamíni 11. desember 2004. Í skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndi ákærði brotið en dró játningu sína til baka fyrir dómi. Fyrir dómi mundi A ekki eftir því símtali sem snertir þennan ákærulið. Hjá lögreglu fullyrti hann hins vegar að til hefði staðið að kaupa af ákærða 2 g af kókaíni en efnið hefði hann aldrei fengið þar sem það hefði verið haldlagt í kjölfar handtöku ákærða. Hvorki verður ráðið af fyrrgreindu símtali né framburði ákærða og vitnisins hjá lögreglu um hvaða efni var að ræða né heldur hvort það hafi verið afhent. Samkvæmt þessu er ekki sannað gegn neitun ákærða að hann hafi framið það brot sem honum er gefið að sök í þessum tölulið ákæru.
Í 13. tölul. er ákærða gefið að sök að hafa 24. desember 2004 selt I 10 g af kannabis og 5 g amfetamíni fyrir 35.000 krónur. Í skýrslutöku hjá lögreglu greindi ákærði frá því að hann hefði selt I þetta magn af umræddum efnum fyrir tilgreinda fjárhæð. Fyrir dómi dró ákærði hins vegar þann framburð til baka. Vitnið I kannaðist við fyrir dómi að samtöl þau sem snerta þennan tölulið ákæru væru milli hans og ákærða og útilokaði hann ekki að efni símtalanna hefði snúist um fíkniefni. Hann neitaði aftur á móti að hafa keypt fíkniefni af ákærða. Hjá lögreglu greindi I hins vegar frá því að hann hefði keypt efnin af ákærða og fengið þau afhent. Hvorki ákærði né I hafa getað gefið skýringu á breyttum framburði sínum fyrir dómi. Þá var framburður I fyrir dómi í senn reikull og mótsagnarkenndur. Að þessu gættu þykir ekki varhugavert að leggja til grundvallar framburð ákærða hjá lögreglu sem er í samræmi við þau símtöl sem snerta þennan ákærulið og samhljóða framburði I hjá lögreglu. Samkvæmt þessu er sannað gegn neitun ákærða að hann hafi framið það brot sem honum er gefið að sök í þessum tölulið ákæru.
Ákærða er gefið að sök í 14. tölul. gefið að sök að hafa 8. janúar 2005 selt J 1 g af kókaíni á kr. 15.000 krónur. Í skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndi ákærði þetta brot en dró játningu sína til baka fyrir dómi. Hvorki reyndist unnt að fá J til skýrslutöku hjá lögreglu né að leiða hann fyrir dómi til að staðfesta símtal um þetta tilvik og að fyrirhuguð viðskipti hefðu gengið eftir. Að því virtu þykir frásögn ákærða hjá lögreglu ekki fá nægjanlega stoð í öðrum gögnum þannig að til álita komi að leggja hana til grundvallar gegn neitun ákærða fyrir dómi. Verður ákærði því sýknaður af þessum tölulið.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið hefur ákærði verið sakfelldur fyrir þau brot sem greinir í 1., 5., 7., 8. og 13 tölul. ákæruhluta I. Varða brotin við 1. mgr. 2. gr., sbr. 1. mgr. 5. og 6. gr. laga um ávana og fíkniefni, nr. 65/1974, með áorðnum breytingum, og 1. mgr. 2., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, nr. 233/2001, með áorðunum breytingum.
IV.
Ákvörðun viðurlaga o.fl.
Svo sem hér hefur verið rakið hefur ákærði unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, og 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, nr. 233/2001.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann á árunum 1997 til 2004 gengist undir sjö sektargerðir lögreglustjóra og hlotið fjóra dóma fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Þar af eru þrír dómar vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni á árunum 2000 og 2001 og var ákærða í öllum þeim dómum gerð sekt samtals að fjárhæð 395.000 krónur. Síðasta færsla á sakavottorði ákærða er sektargerð lögreglustjóra 13. október 2004 vegna brota á lögum um ávana- og fíkniefni, en þá gekkst ákærði undir að greiða sekt að fjárhæð 43.000 krónur.
Samkvæmt ákærum málsins hefur ákærði verið sakfelldur fyrir vörslur á 37,41 g af kannabis, 1,98 g af tóbaksblönduðu kannabis, 14,53 g af amfetamíni, 3,21 g af kókaíni og 8 töflum með fíkniefninu MDMA. Þá hefur ákærði verið sakfelldur fyrir sölu á 20 g af kannabis, 6 g af amfetamíni og 6 töflum með fíkniefninu MDMA.
Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að ákærði hefur þrívegis áður hlotið dóma fyrir fíkniefnabrot og í eitt skipti gengist undir lögreglustjórasátt vegna brots af því tagi. Þá hefur ákærði í málinu verið sakfelldur fyrir sölu fíkniefna, auk þess sem brot hans varða ýmsar tegundir fíkniefna. Að þessu virtu þykir refsing ákærða, sem tiltekin verður eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga, hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði. Eftir atvikum þykir rétt að fresta fullnustu 4 mánaða af refsingunni og falli hún niður að tveimur árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Með vísan til þeirra greina sem í ákærum greinir verður fallist á kröfu um upptöku á haldlögðum fíkniefnum, svo sem nánar er rakið í dómsorði.
Ákærði greiði 300.000 krónur í sakarkostnað, sem nemur þóknun skipaðs verjanda hans Hilmars Ingimundarsonar, hrl., auk virðisaukaskatts.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, Gunnar Arnar Ásbjörnsson, sæti fangelsi í 5 mánuði. Fresta skal fullnustu 4 mánaða af refsingunni og falli hún niður að tveimur árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Upptæk skal gera 37,41 g af kannabis, 1,98 g af tóbaksblönduðu kannabis, 13,55 g af amfetamíni, 3,21 g af kókaíni og 8 töflur með fíkniefninu MDMA.
Ákærði greiði 300.000 krónur í sakarkostnað.