Print

Mál nr. 278/2016

Íslenska ríkið (Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.)
gegn
Guðrúnu Sigurðardóttur (Jón Sigurðsson hrl.)
og gagnsök
Lykilorð
  • Opinberir starfsmenn
  • Ráðningarsamningur
  • Riftun
  • Áminning
  • Skaðabætur
  • Miskabætur
Reifun

G hóf störf hjá embætti umboðsmanns skuldara haustið 2010 og starfaði hún þar fram í maí 2015 þegar ráðningarsamningi hennar var rift. Tilefni þess voru ávirðingar G sem fólust í því að hún hafði haft afskipti af þremur málum fyrrverandi eiginmanns síns sem höfðu verið til meðferðar hjá embættinu. G höfðaði mál gegn Í og krafðist bóta vegna uppsagnarinnar. Var tekið fram að þótt afskipti G af fyrrnefndum málum hefðu verið brot gegn ríkum trúnaðarskyldum hefði G í starfi sínu ekki tekið ákvarðanir í málunum og ekki lægi fyrir að hún hefði notfært sér upplýsingarnar í eigin þágu eða hefði miðlað þeim til annarra. Var því talið að ávirðingar sem G höfðu verið gefnar að sök hefðu ekki getað haft í för með sér fyrirvaralausan brottrekstur. Af þeim sökum hefði riftun ráðningarsamningsins verið ólögmæt. Var Í gert að greiða G bætur vegna fjártjóns og miska.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. apríl 2016. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda, en til vara að þær verði lækkaðar. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.

Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 9. júní 2016. Hún krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 20.652.208 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. október 2014 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi hóf gagnáfrýjandi störf hjá embætti umboðsmanns skuldara haustið 2010 og var hún fastráðin með samningi 25. janúar 2011. Þar starfaði gagnáfrýjandi til 11. mars 2014 þegar henni var veitt ótímabundið leyfi frá störfum. Ráðningarsamningi hennar var síðan rift með bréfi umboðsmanns skuldara 15. maí sama ár. Tilefni þess voru ávirðingar gagnáfrýjanda sem fólust í því að hún hafði afskipti af þremur málum fyrrverandi eiginmanns síns sem voru til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara. Í fyrsta lagi var um að ræða svokallað ráðgjafarmál sem gagnáfrýjandi stofnaði 27. desember 2012 og fór með. Aðallega laut málið að því að óska eftir að starfsmenn Arion banka hf. könnuðu hvort skuldara stæði til boða fyrirgreiðsla hjá bankanum. Vinnslu þessa máls mun hafa lokið 4. apríl 2013. Í öðru lagi var um að ræða ráðgjafarmál sem stofnað var 16. júlí 2013, en einu afskipti gagnáfrýjanda af því máli voru að hún skoðaði rafræn gögn þess 6. ágúst það ár. Loks var í þriðja lagi um að ræða mál sem var stofnað 11. desember 2013 vegna umsóknar skuldara um greiðsluaðlögun. Afskipti gagnáfrýjanda af því máli voru að hún skoðaði ítrekað rafræn gögn málsins og sótti skattframtal skuldara frá ríkisskattstjóra og vistaði rafrænt með gögnum málsins.

II

Af hálfu gagnáfrýjanda er byggt á því að riftun á ráðningarsamningi hennar hjá umboðsmanni skuldara hafi verið ólögmæt. Af þeim sökum hafi skaðabótaábyrgð fallið á aðaláfrýjanda vegna fjártjóns hennar og miska. Aðaláfrýjandi reisir hins vegar málatilbúnað sinn á því að gagnáfrýjandi hafi með fyrrgreindum ávirðingum vanefnt ráðningarsamning sinn svo verulega að heimilt hafi verið að rifta honum og víkja gagnáfrýjanda fyrirvaralaust úr starfi.

Fallist verður á það með héraðsdómi að framganga gagnáfrýjanda í starfi sínu hjá umboðsmanni skuldara með því að skoða rafræn gögn í málum fyrrverandi eiginmanns síns hjá embættinu og hafa önnur afskipti af þeim hafi falið í sér brot gegn starfsskyldum hennar og misnotkun á aðstöðu sem hún naut vegna starfsins. Í ljósi þess að gagnáfrýjandi skoðaði gögnin ítrekað er að engu hafandi sú skýring hennar að um mistök hafi verið að ræða vegna lesblindu. Þótt í þessu hafi falist brot gegn ríkum trúnaðarskyldum er þess þó að gæta að gagnáfrýjandi mun í starfi sínu ekki hafa tekið ákvarðanir í málunum og ekki liggur fyrir að hún hafi notfært sér upplýsingarnar í eigin þágu eða miðlað þeim til annarra.

Um starfslok manns sem ráðinn er í þjónustu ríkisins fer eftir því sem segir IX. kafla laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Verður endir bundinn á ráðningu með uppsögn af hálfu ríkisins, en sú ráðstöfun er þó háð því skilyrði eftir 1. mgr. 44. gr. laganna að starfsmanni hafi áður verið gefið færi á að bæta ráð sitt með áminningu ef ástæður uppsagnar eiga rætur að rekja til þeirra ávirðinga sem raktar eru í 21. gr. laganna. Þá skal samkvæmt 45. gr. laganna víkja ríkisstarfsmanni, sem ráðinn hefur verið í starf, fyrirvaralaust úr því ef hann hefur verið sviptur með fullnaðardómi rétti til að gegna því eða hann hefur játað að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi sem ætla má að hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með aðilum er ágreiningslaust að ekki voru fyrir hendi skilyrði 45. gr. laga nr. 70/1996 til að umboðsmanni skuldara væri skylt að víkja gagnáfrýjanda úr starfi fyrirvaralaust. Aftur á móti deila aðilar um hvort heimild standi til í frekari mæli, en þar er gert ráð fyrir, að víkja ríkisstarfsmanni úr starfi á grundvelli almennra reglna vinnuréttar. Án þess að leysa þurfi úr því hvort slík heimild kunni að vera fyrir hendi er ljóst að ávirðingar, sem gagnáfrýjanda voru gefnar að sök, gátu ekki haft í för með sér fyrirvaralausan brottrekstur ef slík heimild getur á annað borð verið fyrir hendi eftir ólögfestum reglum. Af þeim sökum var riftun ráðningarsamningsins ólögmæt. Ber aðaláfrýjandi ábyrgð á því tjóni sem gagnáfrýjandi hefur orðið fyrir vegna þeirrar ráðstöfunar.

III

Við ákvörðun bóta vegna fjártjóns ber að líta til þess að gagnáfrýjandi var orðin 53 ára þegar henni var vikið úr starfi. Jafnframt liggur fyrir að henni hefur reynst örðugt um vik að finna sér starf sem hæfir menntun hennar, en hún hefur nýtt sér þann tíma sem hún hefur verið án atvinnu til að afla sér frekari menntunar. Þá er þess að gæta að hún fékk greidd laun frá því henni var veitt ótímabundið leyfi frá störfum 11. mars 2014 þar til henni var vikið úr starfi 15. maí sama ár með riftun ráðningarsamnings. Aftur á móti verður ekki fallist á það með aðaláfrýjanda að lækka beri bætur til gagnáfrýjanda vegna þess að hún hafi brotið af sér í starfi, enda gátu ávirðingar hennar að réttu lagi ekki varðað öðru en að hún sætti áminningu og héldi starfinu ef annað og meira kæmi ekki til. Að öllu þessu virtu eru bætur til gagnáfrýjanda vegna fjártjóns hennar metnar að álitum 8.000.000 krónur.

Svo sem hér hefur verið rakið var brottvikning gagnáfrýjanda úr starfi hjá umboðsmanni skuldara ólögmæt. Þá er þess að gæta að henni var gert þegar í stað að viðstöddum samstarfsmönnum að yfirgefa vinnustaðinn 11. mars 2014 í kjölfar fundar með umboðsmanni skuldara og mannauðsstjóra embættisins. Var þessi framganga meiðandi í garð gagnáfrýjanda og á hún því rétt á miskabótum samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð þeirra bóta.

Samkvæmt framansögðu verður aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjanda 8.500.000 krónur með dráttarvöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað verður staðfest.

Aðaláfrýjanda verður gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, greiði gagnáfrýjanda, Guðrúnu Sigurðardóttur, 8.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. október 2014 til greiðsludags.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað skal vera óraskað.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2016.

Mál þetta sem dómtekið var 18. desember 2015 var höfðað 28. október 2014 af hálfu Guðrúnar Sigurðardóttur, Þinghólsbraut 53, Kópavogi á hendur fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra, f.h. íslenska ríkisins, Arnarhváli við Lindargötu, Reykjavík, til greiðslu launa, orlofs og fébóta vegna riftunar á ráðningarsamningi aðila.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefnda verði gert að greiða stefnanda 20.652.208 krónur, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 28. október 2014 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum dómkröfum stefnanda, en til vara stórfelldrar lækkunar þeirra. Jafnframt krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi hóf störf á embætti umboðsmanns skuldara haustið 2010 og var þá með BA-próf í lögfræði. Hún varð fastráðinn starfsmaður embættisins með ráðningarsamningi, dags. 25. janúar 2011. Upphaflega sinnti hún starfi ráðgjafa en frá 1. nóvember 2011 til 30. september 2013 gegndi hún starfi deildarstjóra ráðgjafaþjónustu. Þann 1. október 2013 tók hún við starfi hópstjóra á þjónustusviði. Með bréfi 15. maí 2014 rifti umboðsmaður skuldara ráðningarsamningi við stefnanda.

Mál þetta snýst um ágreining aðila um lögmæti riftunar stefnda á ráðningarsamningnum og skyldu stefnda til að greiða stefnanda bætur af því tilefni.

Stefndi lýsir málavöxtum svo að upphaf málsins megi rekja til ábendingar sem borist hafi embætti umboðsmanns skuldara í tölvupósti laugardaginn 8. mars 2014. Í tölvupóstinum sem var framsendur á Ástu S. Helgadóttur, umboðsmann skuldara, mánudaginn 10. mars, hafi verið vakin athygli á tengslum stefnanda við A, sendanda tölvupóstsins, en mál hans var til meðferðar hjá stofnuninni. Þá þegar hafi rannsókn hafist á aðkomu tveggja starfsmanna stofnunarinnar að málum A, en það voru stefnandi, sem er fyrrverandi eiginkona A, og Andrés Júlíus Ólafsson, sérfræðingur hjá umboðsmanni skuldara, núverandi sambýlismaður stefnanda. Við rannsókn málsins hafi verið farið yfir öll mál A sem umboðsmaður hefur haft til meðferðar, en þau hafi verið alls þrjú frá 27. desember 2012. Öll gögn málanna hafi verið skoðuð og kannað hvaða starfsmenn hefðu unnið í málunum eða skoðað gögn sem þar væri að finna og rætt við þá starfsmenn sem höfðu komið að vinnslu málanna. Rannsóknin hafi leitt eftirfarandi í ljós:

Þann 27. desember 2012 hafi stefnandi stofnað ráðgjafarmál hjá umboðsmanni skuldara vegna A, þ.e. mál nr. 7255 og verið ábyrgðarmaður á málinu. Af málaskrá stofnunarinnar og yfirliti yfir notkun á tölvukerfi megi sjá að aðeins tveir starfsmenn umboðsmanns skuldara komu að málinu. Friðbjörn Berg hafi framkvæmt eina uppfærslu í málinu og farið í sama skipti í upplýsingaflipa til að skoða gögn. Stefnandi hafi annast alla aðra vinnu í málinu. Hún hafi vistað gögn í málinu, sótt gögn í þrjú skipti í gegnum vefþjónustu frá ríkisskattstjóra, Landsbanka, Arion banka, Íslandsbanka, Motus og LÍN. Þá hafi hún sent tölvuskeyti til starfsmanna Arion banka þar sem hún hafi óskað eftir því að A fengi sértæka skuldaaðlögun vegna fasteignar hans, en stefnandi hafi sjálf átt 50% í fasteigninni á móti A og þau borið sameiginlega ábyrgð á þeim veðskuldum sem á fasteigninni hvíldu. Svar hafi borist frá starfsmanni Arion banka 2. apríl 2013 þar sem fram koma tilteknar ráðleggingar og afstöðu bankans lýst að öðru leyti. Ekki hafi verið unnið í málinu eftir það. 

Þann 16. júlí 2013 hafi annað ráðgjafarmál vegna A verið stofnað hjá umboðsmanni skuldara, mál númer 201307141. Ábyrgðarmaður á málinu hafi verið Ingunn Árnadóttir, en aðrir starfsmenn sem komið hafi að því hafi verið Davor Purusic og Borgný Haraldsdóttir. Afskipti stefnanda af málinu hafi verið þau að hún hafi skoðað upplýsingaflipa og skuldaflipa málsins 6. ágúst 2013, án þess að umrædd gögn snertu starf hennar á nokkurn hátt. Málinu hafi lokið með tilteknum hætti, en það hafi varðað greiðsluaðlögun, sem A hafi sótt um.

Nýtt mál hafi verið skráð í kerfi stofnunarinnar og fengið númerið 14229. Ingunn Árnadóttir hópstjóri á þjónustusviði hafi verið ábyrgðarmaður málsins, en hún hafi óskað eftir því við Steinar Örn Steinarsson lögfræðing að hann færi með málið. Aðrir starfsmenn sem komu að því hafi verið Ólöf Marín Úlfarsdóttir, Elín Snæbjörnsdóttir og Andrés Júlíus Ólafsson. Málinu hafi lokið með því að umsókn A um greiðsluaðlögun hélt áfram til frekari meðferðar. Ekki hafi verið á verksviði stefnanda að vinna í máli númer 14229. Engu að síður hafi hún sótt skattframtal A fyrir tekjuárið 2012 frá ríkisskattstjóra í gegnum vefþjónustu og vistað það með gögnum í málinu þann 13. janúar 2014. Sama dag hafi stefnandi skoðað gögn í málinu, farið inn í upplýsingaflipa og flett síðan upp gögnum er varði skuldir, framfærslu, framtöl, laun og skýrslur A. Þann 20. janúar 2014 hafi stefnandi skoðað gögn í máli 14229 er varði eignir og skuldir A og þann 22. janúar hafi hún skoðað gögn í málinu er varði skuldir hans. Þann 6. febrúar 2014 hafi stefnandi tvívegis skoðað gögn í máli 14229. Kl. 10:23 hafi hún skoðað gögn er varði eignir og skuldir A og kl. 10:50 hafi hún skoðað gögn er varði framfærslu og tekjur A. Þann 5. mars 2014 hafi stefnandi þrívegis skoðað gögn í máli 14229. Fyrst upplýsingar um framfærslu og tekjur A kl. 15:22, næst upplýsingar um skuldir A kl. 15:48 og loks upplýsingar um eignir hans kl. 15:56.

Í stefnu lýsir stefnandi tildrögum aðkomu sinnar að fyrsta málinu svo að A hafi leitað til hennar í desember 2012 og óskað eftir ráðgjöf í tengslum við fjármál sín, en hluti af starfsskyldum stefnanda hafi verið að sinna almennri ráðgjöf til einstaklinga sem leituðu til stofnunarinnar. Þegar annað málið var til meðferðar hafi A haft samband við stefnanda og óskað eftir því að hún færi með honum yfir málið, sem hún hafi gert. Hún hafi jafnframt tilkynnt A að í ljósi þess að málið yrði unnið innandyra af hálfu embættisins, þar sem sértækri skuldaaðlögun hafði verið hafnað, gæti hún ekki átt frekari aðkomu að málinu. Um þriðja málið kveðst stefnandi ekki hafa haft vitneskju fyrr en A hafi sjálfur upplýst hana um það 11. janúar 2014, en það mál varðar umsókn A um formlega greiðsluaðlögun og var stofnað haustið 2013 meðan stefnandi var í veikindaleyfi.

Lýsingum aðila í stefnu og greinargerð ber ekki saman um vitneskju yfirmanna stefnanda um framangreind mál A og aðkomu stefnanda að þeim málum áður en embættinu barst tölvupóstur hans 8. mars 2014 og rannsókn málsins hófst. Stefnandi kveðst í tengslum við fyrsta málið hafa upplýst næstráðandi yfirmann sinn, Margréti Valdimarsdóttur, sviðsstjóra ráðgjafasviðs, um tengsl sín við A og hafa fengið munnlegt samþykki hennar til að senda fyrirspurn til banka um hvort mál hans uppfyllti skilyrði sértækrar skuldaaðlögunar. Þá kveður stefnandi Margréti hafa, að beiðni stefnanda, upplýst Ástu S. Helgadóttur, umboðsmann skuldara, um að mál númer 201307141 væri til meðferðar hjá embættinu og að hún myndi ekki koma að meðferð þess. Stefndi kveður Margréti aldrei hafa veitt samþykki fyrir því að stefnandi stofnaði og ynni í máli fyrrverandi eiginmanns síns og kveður Margréti aldrei hafa upplýst Ástu S. Helgadóttur um mál hans. Staðfesti Margrét þetta í vitnaskýrslu sinni fyrir dóminum, en kvaðst sjálf hafa vitað af þessum tengslum og því hafa sagt sig frá máli númer 201307141 þar sem hún hafði áður verið yfirmaður stefnanda. Í stefnu kveðst stefnandi hafa upplýst Jón Óskar Þórhallsson yfirmann sinn um að A væri með mál til meðferðar hjá embættinu og kveðst einnig hafa beðið A að nefna það við Jón Óskar. Þetta hafi verið í tengslum við viðræður þeirra um hugsanleg störf A fyrir embættið, sem ekki varð af. Stefndi lýsir málavöxtum svo að Jón Óskar hafi ekki vitað af því að mál A væri til meðferðar hjá embættinu. Ásta S. Helgadóttir umboðsmaður skuldara hafi heldur ekki haft vitneskju um það. Þau kváðust bæði í skýrslum sínum fyrir dóminum ekki hafa vitað að A ætti mál þar til meðferðar, en bæði vissu um tengsl A og stefnanda. A kvað í framburði sínum fyrir dóminum það ekki hafa komist til tals við Jón Óskar að hann ætti mál til meðferðar hjá embættinu þegar þeir hafi rætt um hugsanleg störf hans fyrir embættið.

Þann 11. mars 2014 var stefnandi boðuð til fundar með umboðsmanni skuldara, Ástu S. Helgadóttur, og Guðrúnu Sigurjónsdóttur, mannauðsstjóra embættisins. Fyrir fundinn var stefnandi ekki upplýst um fundarefnið. Samkvæmt því sem greinir í minnisblaði embættisins um fundinn var stefnanda tjáð að alvarleg ábending hefði borist sem gæti varðað brot hennar í starfi og að hún yrði send í ótímabundið leyfi frá störfum meðan málið yrði rannsakað. Stefnanda virðist hvorki hafa verið kynnt efni ábendingarinnar á fundinum né henni afhent afrit hennar.

Þann 26. mars 2014 var stefnanda tilkynnt að rannsókn málsins hefði leitt í ljós að hún hefði haft aðkomu að þremur málum fyrrverandi eiginmanns síns sem voru í vinnslu hjá embætti umboðsmanns, nánar tiltekið tvö ráðgjafarmál og svo hið eiginlega greiðsluaðlögunarmál. Var það mat umboðsmanns að stefnandi hefði með aðkomu sinni að málum fyrrum eiginmanns síns brotið gegn hæfisreglum stjórnsýslulaga og siðareglum embættisins þar sem kveðið sé á um að starfsmaður megi ekki notfæra sér stöðu sína eða upplýsingar fengnar í starfi í eiginhagsmunaskyni. Þá hafi hún brotið gegn ákvæðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og almennum trúnaðarskyldum við vinnuveitanda sinn og háttsemin fari í bága við 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 um þagnarskyldu opinberra starfsmanna og 4. gr. laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010 um þagnarskyldu starfsmanna umboðsmanns skuldara. Í bréfinu lýsti stefndi því að hann teldi stefnanda hafa brotið verulega gegn starfsskyldum sínum og umboðsmaður hefði því til skoðunar að rifta ráðningarsambandi við hana. Var stefnanda veittur réttur til andmæla og gefinn tveggja vikna frestur til þess.

Þann 31. mars 2014 sendi stefnandi umboðsmanni bréf þar sem óskað var eftir tilgreindum gögnum málsins. Þau gögn voru afhent stefnanda þann 3. apríl 2014. Þann 8. apríl 2014 óskaði stefnandi eftir framlengingu á andmælafresti til 16. apríl 2014. Sá frestur var veittur. Þann 15. apríl 2014 kom stefnandi andmælum sínum á framfæri við embætti umboðsmanns skuldara þar sem skorað var á embættið að falla frá boðaðri riftun á ráðningarsamningi aðila og bent á að enginn lagalegur grundvöllur væri til riftunar á ráðningarsamningi hennar sem félli undir lög nr. 70/1996. Í andmælabréfinu var farið ítarlega yfir atvik máls af hálfu stefnanda og ávirðingum í bréfi frá 26. mars svarað og skýringar veittar. Meðal þess sem fram kom í bréfinu var að það hafi komið fyrir að stefnandi hafi óviljandi farið inn í mál A þegar hún vegna starfs síns ætlaði að opna mál annars manns sem hafði svipaða kennitölu.

Stefnanda var boðið að koma til fundar við umboðsmann og var sá fundur haldinn 8. maí 2014 að viðstöddum lögmanni stefnanda og lögmanni embættisins. Samkvæmt fundargerð sem lögmaður embættisins ritaði var á fundinum rætt um uppflettingar stefnanda í tölvukerfi umboðsmanns, sem stefnandi kvaðst hafa framkvæmt bæði óvart og viljandi. Rætt var um siðareglur umboðsmanns og fram kom af hálfu stefnanda að ef hún teldist hafa brotið gegn starfsmannalögum nr. 70/1996 þá ætti það í mesta lagi að varða áminningu í samræmi við 21. gr. laganna. Eftir fundinn óskaði stefnandi eftir því að fá að skoða tölvusamskipti sín við aðra starfsmenn umboðsmanns sem vörðuðu trúnaðarbrot hennar og skoðaði þau 12. maí 2014.

Með bréfi dags. 15. maí 2014 var ráðningarsamningi stefnanda við umboðsmann rift frá og með þeim degi vegna þess að háttsemi hennar væri svo veruleg vanefnd á ráðningarsamningi hennar við umboðsmann skuldara að hjá því yrði ekki komist. Í bréfi umboðsmanns er háttsemi stefnanda lýst nánar þannig að stefnandi hafi í fyrsta lagi brotið starfsskyldur með því að vera ábyrgur starfsmaður ráðgjafarmáls fyrrverandi eignmanns síns og hafa í tengslum við það mál leitað eftir sértækri skuldaaðlögun fyrir hann, meðan þau hafi átt saman fasteign og bæði borið ábyrgð á veðskuldum sem á henni hvíldu. Í öðru lagi felist brot stefnanda í því að hafa á tímabilinu frá 6. ágúst 2013 til 7. mars 2014 ítrekað skoðað skjöl er vörðuðu ráðgjafarmál fyrrverandi eiginmanns hennar og síðar skoðað umsókn hans um greiðsluaðlögun í tölvukerfum umboðsmanns skuldara, þar á meðal gögn um viðkvæmar fjárhagsupplýsingar, án þess að slík skoðun væri nauðsynleg vegna starfs hennar. Að auki hafi stefnandi brotið starfsskyldur sínar með því að nota aðgang sinn í tölvukerfi umboðsmanns skuldara til að sækja skattframtal fyrrverandi maka síns fyrir tekjuárið 2012 í gagnagrunn ríkisskattstjóra og vista upplýsingar um það inn í málsgögn umboðsmanns með umsókn hans um greiðsluaðlögun. Með þessari háttsemi hafi stefnandi brotið hæfisreglur stjórnsýslulaga. Þá hafi stefnandi brotið gegn almennri trúnaðarskyldu sinni við vinnuveitanda og meginreglum laga um almennar starfsskyldur og háttsemi í stjórnsýslunni. Einnig sé hegðun stefnanda í andstöðu við ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, þar sem skilyrði 7. gr. og 1. mgr. 8. gr. laganna hafi ekki verið uppfyllt og vinnsla stefnanda á umræddum persónuupplýsingum því ekki heimil.

Með bréfi þann 20. maí 2014 óskaði stefnandi eftir skriflegum rökstuðningi fyrir ákvörðun umboðsmanns skuldara um riftun ráðningarsamnings og barst sá rökstuðningur með bréfi dags. 2. júní 2014. Þann 20. júní 2014 ritaði lögmaður stefnanda bréf til umboðsmanns þar sem riftun ráðningarsamnings var mótmælt. Þá var samhliða því gerð krafa um fébætur, laun umfram uppsagnarfrest sem og miskabætur. Með bréfi dags. 1. júlí s.á. hafnaði umboðsmaður öllum kröfum stefnanda um fé- og miskabætur.

Við aðalmeðferð málsins komu stefnandi og umboðsmaður skuldara, Ásta S. Helgadóttir, fyrir dóm og gáfu skýrslur. Þá komu fyrir dóminn vitnin Ingunn Árnadóttir, starfsmaður umboðsmanns skuldara, A, fyrrverandi eiginmaður stefnanda, Áslaug Árnadóttir, lögmaður umboðsmanns skuldara, Margrét Valdimarsdóttir, sviðsstjóri umboðsmanns skuldara, Guðrún Sigurjónsdóttir, fyrrverandi mannauðsstjóri umboðsmanns skuldara, Eva Gunnlaugsdóttir, fyrirverandi yfirmaður upplýsingamála hjá umboðsmanni skuldara, Halldór Karl Valdimarsson, framkvæmdastjóri þjónustuskrifstofu Stéttarfélags lögfræðinga, og Jón Óskar Þórhallsson, fyrrverandi fjármálastjóri umboðsmanns skuldara.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því að embætti umboðsmanns skuldara hafi einhliða og með ólögmætum hætti rift ráðningarsamningi stefnanda, þar sem engar forsendur hafi verið að lögum til riftunar. Ákvörðun stjórnvaldsins sé jafnframt ógild að stjórnsýslurétti. Með því að grípa til riftunar hafi stefndi bakað stefnanda tjón sem stefndi beri fébótaábyrgð á. Stefnandi reisi málatilbúnað sinn einnig á því að hún eigi samningsbundna fjárkröfu á hendur stefnda um efndir á ráðningarsamningi aðila, auk launatengdra greiðslna sem og greiðslna vegna áunnins en ótekins orlofs.

Engin lagaskilyrði til riftunar

Stefnandi reisir dómkröfur sínar á því að engin lagaskilyrði hafi verið til staðar fyrir riftun. Riftun hafi ekki sjáanlega verið byggð á neinni reglu sem heimili riftun ráðningarsamnings, sbr. riftunarbréf stefnda dags. 15. maí 2014. Svo sem ráðið verði af bréfum stefnda til stefnanda virðist riftun vera byggð á einhvers konar almennum mælikvörðum embættisins um háttsemi starfsmanns í starfi, án þess þó að með nokkrum hætti sé í ljós leitt að slíkir mælikvarðar geti varðað svo íþyngjandi ákvörðun sem riftun og fyrirvaralaus slit á ráðningarsamningi sé.

Um réttarsamband stefnanda og stefnda hafi gilt lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ákvæði 1. mgr. 45. gr. laga nr. 70/1996 kveði á um að starfsmanni skuli vikið úr starfi fyrirvaralaust ef hann hefur verið sviptur með fullnaðardómi rétti til að gegna því starfi. Starfsmanni skuli og vikið úr starfi fyrirvaralaust hafi hann játað að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi sem ætla megi að hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Ákvæðið sé skýrt að þessu leyti og verði ekki túlkað á annan veg en svo að um tæmandi upptalningu sé að ræða á þeim tilvikum sem geti leitt til fyrirvaralausrar uppsagnar.

Í svarbréfi stefnda til lögmanns stefnanda, dags. 1. júlí 2014, þar sem fjárkröfum sé hafnað vísi stefndi til bréfs síns dags. 2. júní 2014, og til þess að:

Guðrún hafi vanefnt ráðningarsamning sinn svo verulega að stofnuninni hafi verið heimilt að rifta ráðningarsamningnum. Því hafnar umboðsmaður skuldara öllum kröfum Guðrúnar um fé- og miskabætur.

Vanefndir á ráðningarsamningi, hvort sem þær eru verulegar eður ei, geti ekki í skilningi ákvæðis 45. gr. laga nr. 70/1996 réttlætt fyrirvaralausa uppsögn. Stefnandi hafi hvorki orðið uppvís að refsiverðri háttsemi líkt og áskilnaður sé gerður um, né verið svipt með fullnaðardómi rétti til að gegna starfi sínu. Af framangreindu sé ljóst að skilyrðum til fyrirvaralausrar uppsagnar sé ekki með nokkru móti fullnægt. Því sé um ólögmæta riftun á ráðningarsamningi stefnanda að ræða. Stefndi hafi með riftuninni brotið í verulegu gegn lögvörðum rétti stefnanda sem ríkisstarfsmanns sem verndaður sé í stjórnsýslulögum og í lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Brot gegn ákvæðum stjórnsýslulaga

Ákvörðun stefnda um riftun á ráðningarsamningi stefnanda hafi brotið í verulegu gegn ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sé því ógild að efni og formi. Þá verði að telja að við undirbúning og aðdraganda þeirrar ákvörðunar hafi stefndi brotið í bága við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga og vandaða stjórnsýsluhætti og þar með vegið að lögvörðum rétti stefnanda sem ríkisstarfsmanns.

Fyrir fund aðila þann 11. mars 2014 hafi stefnanda ekki verið tilkynnt um meðferð máls á hendur sér, skv. 14. gr. stjórnsýslulaga né fengið að kynna sér gögn málsins, sbr. 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga. Gögnin hafi stefnandi svo ekki fengið afhent fyrr en liðlega þremur vikum eftir að henni hafi verið vikið frá störfum, eftir að hún hafi sjálf óskað eftir þeim. Stefnandi hafi ekki verið upplýst um að hverjum eða um hvað ábendingin snerist heldur hafi hún verið látin geta sér til um það sjálf á fundinum og þráspurð hvort hún gæti gert sér í hugarlund um hvað málið snerist.

Þá verði að telja það óeðlilega stjórnsýsluhætti, að ritað hafi verið minnisblað á fundinum í stað fundargerðar, einkum í ljósi þess að á fundinum hafi tveir starfsmenn embættisins setið á móti stefnanda einum. Síðar meir hafi komið í ljós að ýmsum atriðum hafi verið sleppt í minnisblaðinu, er vörðuðu stefnanda og sjónarmið hennar er fram komu á fundinum. Eðlilegra hefði verið að rita fundargerð þar sem stefnanda hefði verið gefinn kostur á að kynna sér efni hennar í lok fundar og gera viðeigandi athugasemdir og í kjölfarið hefðu allir fundarmenn ritað nafn sitt undir.

Verði að telja framangreinda háttsemi og framferði við stefnanda á fundinum brjóta í bága við vandaða stjórnsýsluhætti sem og tilkynninga- og upplýsingarétt stefnanda, sbr. 14. og 15. gr. stjórnsýslulaga. Með þessu hafi stefnandi verið svipt rétti sínum til að koma athugasemdum sínum á framfæri þá þegar, benda á misskilning eða ónákvæmni í gögnum máls og jafnframt benda á heimildir sem væru betri grundvöllur að ákvörðun málsins.

Í bréfum stefnda til stefnanda, dags. 15. maí og 2. júní 2014, bregði svo við að riftun sé byggð m.a. á efnisatriðum sem ekki hafi verið borin á borð sérstaklega í bréfi, dags. 26. mars 2014, þegar riftun hafi verið boðuð og andmælaréttur veittur. Í riftunarbréfi og rökstuðningsbréfi sé þannig m.a. byggt sérstaklega á því að stefnandi hafi „brotið gegn almennri trúnaðarskyldu“ við vinnuveitanda og einnig að hún hafi „brotið gegn meginreglum laga um almennar starfsskyldur og háttsemi í stjórnsýslunni, en starfsmönnum ríkisins ber að gæta ákveðinna viðmiða í daglegum störfum sínum“. Undir síðara atriði sé þess einnig getið að umrædd viðmið byggi „á skráðum og óskráðum réttarreglum sem gilda um störf og starfshætti ríkisstarfsmanna“. Þrátt fyrir þetta sé ekki greint frá því í bréfinu hverjar þær „skráðu og óskráðu“ réttarreglur séu. Ákvörðun um riftun sé samkvæmt þessu að meginstefnu til byggð á því að stefnandi hafi brotið gegn almennum mælikvörðum um háttsemi og starfsskyldur ríkisstarfsmanna, án þess að í nokkru sé vikið að því hvort og hvaða skráðu reglur þar að lútandi hafi verið brotnar, hvað þá sýnt fram á að reglur hafi verið brotnar sem heimili svo verulega íþyngjandi ákvörðun gagnvart stefnanda að ráðningarsamningi sé rift. Óumdeilt sé að stefnanda hafi ekki verið veitt tækifæri til að skila andmælum við þessum ávirðingum, líkt og stjórnvaldinu hafi borið skylda til að gera, sbr. 1. mgr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Þegar af þeirri ástæðu hafi stefndi brotið í bága við framangreinda andmælareglu stjórnsýslulaga og verði því ákvörðunin um riftun talin ógild.

Andmælum stefnanda hafi ekki verið svarað að neinu leyti, nema umboðsmaður hafi að því er virðist fallið frá hluta þeirra ástæðna er upphaflega hafi verið byggt á, og sé ekki unnt að túlka það á annan hátt en að fallist sé á sjónarmið stefnanda sem sett hafi verið fram í andmælabréfi þann 15. apríl 2014 í þeim efnum. Rökstuðningi stefnanda er lúti að broti gegn siðareglum embættisins sem og yfirferð og rökstuðningi vegna málsmeðferðar embættisins hafi því ekki í neinu verið svarað af hálfu stefnda. Með því að virða athugasemdir og andmæli stefnanda að vettugi með framangreindu móti verði að telja að stefndi hafi sem stjórnvald brotið gegn lögbundinni skyldu sinni til að rannsaka mál og upplýsa til fullnustu áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Vart verði dregin önnur ályktun af þessu algjöra skeytingarleysi um andmæli aðila máls, en að niðurstaðan hafi verið fyrir fram ákveðin.

Stefnandi telji að stefndi hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni til fulls, m.a. í tengslum við útskýringar stefnanda á uppflettingum í kerfum embættisins er stefnandi hafi farið línuvillt og flett óafvitandi upp fyrrum eiginmanni sínum. Stefndi hafi ekki rannsakað þann þátt málsins m.a. með því að prenta út uppflettingar í kerfum stefnda í því máli sem hún raunverulega hafi ætlað að fletta upp í. Í raun hafi ekki farið fram óháð rannsókn á atvikum málsins yfirhöfuð. Eina rannsóknin sem farið hafi fram af hálfu stefnda sé að prentaðar hafi verið úr kerfum stefnda uppflettingar stefnanda í hinu tiltekna máli. Þá hafi verið farið yfir tölvupóst stefnanda að henni viðstaddri. Við þá yfirferð hafi Jón Óskar yfirmaður stefnanda verið viðstaddur. Telja verði óeðlilegt að tilgreindur Jón Óskar komi að eða hlutist til um rannsókn málsins af hálfu stefnda enda hafi hann komið að málinu á fyrri stigum, stefnandi hafi upplýst hann um tengsl sín við fyrrverandi eiginmann sinn og auk þess hafi Jón Óskar leitað til hans vegna ráðgjafar fyrir embættið. Draga megi óhlutdrægni Jóns Óskars til að fara með eða koma að rannsókn málsins verulega í efa, sbr. 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga.

Telja verði að stefndi hafi ekki með fullnægjandi hætti aflað nægjanlegra upplýsinga um allar þær aðstæður og atvik sem þýðingu kynnu að hafa þegar afstaða hafi verið tekin til þess hvort rifta skyldi ráðningarsamningi stefnanda. Hafa verði í huga í þeim efnum um hversu verulega íþyngjandi ákvörðun sé að ræða gagnvart stefnanda og því verði að gera enn ríkari kröfur til þess að málið sé að fullu upplýst áður en ákvörðun er tekin í þá veru að rifta ráðningarsamningi. Stefndi hafi með háttsemi sinni við undanfara að ákvörðun um riftun brotið í verulegum atriðum gegn rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga sem og vönduðum stjórnsýsluháttum og verði því ákvörðunin um riftun talin ógild þegar af þeim ástæðum.

Ákvörðun stefnda hafi ekki samrýmst 12. gr. stjórnsýslulaga, þar sem mælt sé fyrir um að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Óumdeilt sé að riftun ráðningarsamnings sé verulega íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun. Í ljósi þess verði að túlka þröngt heimild vinnuveitanda til að rifta ráðningarsamningi, að því gefnu að fyrir hendi séu efnislegar forsendur til riftunar, sé sú heimild tæk yfirhöfuð, sbr. áðurnefnt ákvæði 45. gr. laga nr. 70/1996, auk þess að gera verði strangar kröfur til málsmeðferðar. Málsmeðferð við undirbúning og aðdraganda að riftun ráðningarsamnings stefnanda af hálfu stefnda sé haldin verulegum annmörkum og hafi ekki verið sýnt fram á að atvik réttlæti svo íþyngjandi ákvörðun sem riftun sé. Að gefnum útskýringum og rökstuðningi stefnanda fyrir atvikum málsins og í ljósi þess að lokað hafi verið fyrir aðgang stefnanda í kerfum stefnda strax þann 11. mars 2014 verði að telja að stefndi hafi farið offari við þá ákvörðun að rifta ráðningarsamningi stefnanda. Verði ekki annað séð en hvorki hafi laga- né efnisrök hnigið að því að rifta ráðningarsamningi stefnanda vegna umrædds atviks.

Þá verði jafnframt að horfa til þess að stefnandi kveðst hafa upplýst næstráðandi yfirmann sinn, Margréti Valdimarsdóttur, um tengsl sín við títtnefndan umsækjanda og þá staðreynd að hann væri fyrrverandi eiginmaður sinn. Þá muni stefnandi jafnframt hafa upplýst Jón Óskar Þórhallsson, fjármálastjóra stefnda og síðar næstráðandi yfirmann sinn, um umrædd tengsl. Aukreitis er ítrekað að engin efnisleg ákvörðun hafi verið tekin í málinu af hálfu stefnanda. Stefnandi hafi á forstigum málsins ekki getað með nokkru móti haft áhrif á framgang greiðsluaðlögunarferlis hins tiltekna umsækjanda. Eina aðkoma stefnanda að málinu hafi verið vegna umsóknar um sértæka skuldaaðlögun en þegar ljóst hafi verið að umsækjandi hafi ekki uppfyllt skilyrði þar um hafi stefnandi tilkynnt honum að hún gæti ekki haft frekari aðkomu að málinu þar sem það yrði unnið innanhúss hjá embættinu. Stefnandi hafi ekki haft vitneskju um að síðar meir hefði umsækjandanum verið beint í farveg greiðsluaðlögunar. Slíka vitneskju hafi stefnandi ekki fengið fyrr en umsækjandi hafi upplýst hana sjálfur þar um. Verði því að telja að stefndi hafi farið mun strangar í sakirnar en nauðsyn hafi borið til í skilningi meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Allar þær ávirðingar og ástæður sem gefnar séu upp fyrir riftuninni af hálfu stefnda séu ástæður sem gætu í besta falli heyrt undir ákvæði 21. gr. laga nr. 70/1996, en á því ákvæði hafi ekki verið byggt og stefnanda ekki veitt áminning sem starfsmanni. Það hversu langt hafi verið gengið með ákvörðuninni hafi falið í sér verulega röskun á högum stefnanda, hvort tveggja tekjulega og á stöðu hennar.

Stefnandi reisi kröfur sínar einnig á því að stefndi hafi með ákvörðun sinni brotið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Þegar stjórnvöld taki íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun þurfi hún að eiga sér skýra lagastoð samkvæmt lögmætisreglunni. Lagastoð til grundvallar ákvörðun stefnda um riftun skorti í máli þessu. Ljóst sé að skilyrði 45. gr. laga nr. 70/1996 séu ekki uppfyllt til fyrirvaralausrar uppsagnar, enda hafi stefndi ekki byggt á því ákvæði. Þá sé ekki vísað til lagaheimildar í bréfum stefnda hvorki þar sem fyrirhuguð riftun sé boðuð né þegar ráðningarsamningi hafi svo formlega verið rift. Stefndi hafi því ekki vísað til þess á hvaða lagaheimild hann byggi svo íþyngjandi ákvörðun sem riftun sé. Ákvörðun um riftun sé ólögmæt af þeim sökum.

Ekki um verulega vanefnd á ráðningarsamningi að ræða

Samkvæmt reglum vinnuréttar sé talið að vinnuveitanda á almennum vinnumarkaði sé unnt að rifta ráðningarsamningi, m.ö.o. að víkja starfsmanni fyrirvaralaust úr starfi, vegna verulegra vanefnda hans á skyldum sínum samkvæmt ráðningarsamningi eða annarra alvarlegra brota starfsmanns í starfi. Sambærilega reglu sé ekki að finna í lögum um ríkisstarfsmenn, þ.m.t sé ekki kveðið á um eiginlega heimild til riftunar á ráðningarsamningi starfsmanna ríkisins í lögum nr. 70/1996 að undanskildu ákvæði 45. gr. laganna. Stefnandi byggi á því að um tæmandi upptalningu sé að ræða sem réttlæti riftun á ráðningarsamningi starfsmanna ríkisins. Ef almenn sjónarmið vinnuréttar ættu við hvað ríkisstarfsmenn varði megi í raun telja að lagaákvæðið sé óþarft. Verði ekki fallist á framangreind sjónarmið stefnanda, sé á því byggt að almenn riftunarheimild vegna verulegra vanefnda eigi ekki við í tilviki stefnanda, enda sé einungis unnt að beita henni í algjörum undantekningartilvikum þegar ríkisstarfsmenn séu annars vegar. Byggi stefnandi í þeim efnum á því að þær ávirðingar og ástæður sem stefndi hafi vísað til til grundvallar ákvörðun sinni um riftun séu ekki svo verulegar að réttlætt geti riftun á ráðningarsamningi aðila. 

Tildrög þessa máls hafi verið ábending sem borist hafi embættinu frá fyrrverandi eiginmanni stefnanda. Þær ávirðingar er þar hafi verið settar fram séu ekki þær sömu og stefndi hafi byggt málatilbúnað sinn á varðandi grundvöll riftunar ráðningarsamnings. Þær ávirðingar sem bornar hafi verið á stefnanda í tilgreindri ábendingu hafi ekkert með störf hennar hjá stefnda að gera, enda varði þær úttekt hennar af bankareikningi sem sé í nafni stefnanda og á kennitölu hennar. Aðgangur eða úttektarheimildir stefnanda af reikningnum séu ekki í neinum tengslum við störf hennar, en hún hefði eftir sem áður tekið út af reikningnum hvort sem hún starfaði hjá stefnda eður ei. Sé því um algjörlega óskyld mál að ræða. Í raun sé með öllu óskiljanlegt að stefndi hafi ráðist í umræddar aðgerðir sem hafi endað með riftun á ráðningarsamningi stefnanda vegna ábendingarinnar, enda ljóst að þær ávirðingar geti ekki með nokkru móti talist svo verulegar að réttlætt geti riftun, þar sem þær séu alls kostar ótengdar starfi stefnanda.

Í bréfi stefnda til stefnanda þar sem fyrirhuguð riftun á ráðningarsamningi er boðuð, dags. 26. mars 2014, byggi stefndi að meginefni til á því að stefnandi hafi brotið gegn siðareglum embættis umboðsmanns skuldara. Síðar virðist stefndi hafa fallið frá þeirri ástæðu enda hvorki byggt á því í bréfi þar sem stefnanda er tilkynnt um riftun ráðningarsamnings né í rökstuðningsbréfi stefnda, dags. 2. júní 2014. Verði það ekki túlkað á annan veg en svo að stefndi hafi fallist á sjónarmið stefnanda um siðareglur í bréfi, dags. 15. apríl 2014. Vísað sé til laga nr. 70/1996 í umræddum siðareglum og nauðsynjar þess að áminna starfsmann áður en til starfsmissis kemur, sbr. ákvæði 44. gr. og 21. gr. laganna. Því sé ljóst að tilvísun stefnda til umræddra reglna til grundvallar riftun sé ekki tæk, hvort sem staðið hefði verið réttilega að setningu þeirra eður ei.

Þá sé ýmsum ávirðingum haldið uppi gagnvart stefnanda í áðurnefndu bréfi, dags. 26. mars 2014, sem stefnandi hafi hrakið, m.a. að stefnandi hafi nýtt sér fjárhagslegar upplýsingar úr málaskrá embættisins við gerð skilnaðarsamnings síns, sem þó hafði verið lokið við og lagður hafði verið fram hjá sýslumanni tveimur árum áður en atvik þessa máls áttu sér stað. Verði ekki betur séð en að málið hafi verið illa ígrundað og óupplýst af hálfu stefnda áður en ákvörðun um riftun hafi verið tekin og að atvik máls hafi í besta falli verið á þann veg að áminning á grundvelli 21. gr. laga nr. 70/1996 hafi verið tæk.

Í rökstuðningsbréfi stefnda fyrir riftun á ráðningarsamningi, dags. 2. júní 2014 vísi stefndi til þess að stefnandi hafi brotið gegn hæfisreglum stjórnsýslulaga með aðkomu að máli fyrrum eiginmanns síns. Málatilbúnaði stefnda á þá leið sé alfarið hafnað. Stefnandi kveðst hafa upplýst Margréti Valdimarsdóttur, sviðsstjóra ráðgjafasviðs, og næstráðandi yfirmann sinn, strax í upphafi um tengsl sín við viðkomandi umsækjanda, þ.e. að hann væri fyrrverandi eiginmaður sinn. Þá kveðst stefnandi hafa fengið samþykki Margrétar fyrir því að senda fyrirspurn til Arion banka, sem verið hafi viðskiptabanki fyrrum eiginmanns hennar, um hvort mál hans uppfyllti skilyrði sértækrar skuldaaðlögunar. Stefnandi hafi því uppfyllt lagaskyldur sínar skv. 1. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga með tilkynningu til yfirmanns síns. Málið mun hafa verið sent til Arion banka eftir að samþykki Margrétar lá fyrir en þá hafði gagnaöflun í því verið lokið. Þá var málinu lokað í kerfum embættisins af hálfu stefnanda um leið og erindið mun hafa verið sent til Arion banka. Síðari aðkoma stefnanda að málinu hafi verið lítilfjörleg og skipti þar sköpum sú staðreynd að stefnandi hafi enga efnislega ákvörðun tekið í málinu né haft áhrif á framgang þess. Ekki sé því hætt við að ómálefnaleg sjónarmið hafi haft áhrif á ákvörðun í skilningi 2. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga þar sem engin ákvörðun hafi verið tekin af hálfu stefnanda í málinu. Málatilbúnaði stefnda í þeim efnum sé vísað á bug. Þá sé því alfarið hafnað á sama grundvelli að stefnandi hafi vanefnt verulega skyldur sínar samkvæmt ráðningarsamningi með því að brjóta starfsskyldur sínar ítrekað, líkt og stefndi hafi haldið fram. Umrædd atvik geti ekki með nokkru móti réttlætt svo íþyngjandi ráðstöfun sem riftun er.

Stefndi hafi í síðari bréfum sínum, þ.e. þar sem riftun er tilkynnt, dags. 15. maí 2014, og í rökstuðningsbréfi sínu, dags. 2. júní 2014, bætt við til grundvallar riftun tilvísan til meginreglna laga um almennar starfsskyldur og háttsemi í stjórnsýslunni sem og brot gegn almennri trúnaðarskyldu. Verði ekki betur séð en að stefndi sé með þessu að reyna vega upp á móti því að meginhluti þeirra málsástæðna er hann hafi boðað í upphafi til grundvallar riftun hefðu verið hraktar af hálfu stefnanda. Slík almenn viðmið sem mælikvarði um háttsemi og starfsskyldur ríkisstarfsmanna geti ekki orðið grundvöllur að riftun ráðningarsamnings.

Þá hafni stefnandi því að hún hafi farið á svig við ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga enda hafi stefnandi gefið skýringar á aðkomu sinni að málinu á fyrri stigum, sem hún kveðst hafa upplýst Margréti yfirmann sinn um og fengið samþykki fyrir og síðar meir Jón Óskar og uppfyllt þar með lagaskyldu sína í skilningi 1. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi stefnandi gefið skýringar á síðari uppflettingum sínum í málinu en um mistök hafi verið að ræða af hennar hálfu þar sem hún hafi farið línuvillt í kerfum embættisins. Stefnandi hugðist fletta upp umsækjanda hjá embætti umboðsmanns á Akureyri sem hafi sama fyrri hluta í kennitölunni og fyrrverandi eiginmaður stefnanda. Stefnandi hafi gert stefnda grein fyrir framangreindum mistökum af sinni hálfu í andmælabréfi sínu. Í það minnsta hafi sjónarmiðum stefnanda í þá veru ekki verið svarað að neinu leyti. Stefndi hafi verið upplýstur um að stefnanda hætti til að fara línuvillt í málum vegna lesblindu enda hafi stefnandi upplýst Evu Gunnlaugsdóttur þar um á upplýsingatæknifundi á vegum embættisins. Verði ekki dregin önnur ályktun af því en sú að málið hafi ekki verið rannsakað til hlítar af hálfu stefnda. Á því geti stefnandi ekki borið nokkra ábyrgð.  

Að öllu framanrituðu virtu verði ekki séð að atvik þessa máls réttlæti svo íþyngjandi ráðstöfun gagnvart stefnanda sem riftun sé. Þá hafi stefnda ekki með nokkru móti tekist að sýna fram á að stefnandi hafi verulega vanefnt skyldur sínar samkvæmt ráðningarsamningi. Þá sé riftun ekki tæk nema að undangenginni áminningu í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar, hvað viðkomi hinum almenna vinnumarkaði, nema sakir séu þeim mun meiri. Þær þurfi jafnframt að liggja ljósar fyrir við brottrekstur og beri atvinnurekanda að sýna fram á þær. Óumdeilt sé að stefnanda hafi ekki verið veitt áminning við undanfara og ákvörðun um riftun ráðningarsamnings og verði því að telja að ákvörðun stefnda um riftun sé ólögmæt. Á þeirri ólögmætu riftun á ráðningarsamningi stefnanda beri stefndi bótaábyrgð.

Þá byggi stefnandi á því að beiting riftunar sé vart tæk í þeim tilvikum þegar atvik séu með þeim hætti að þau geti fallið innan ákvæðis 21. gr. laga nr. 70/1996, líkt og eigi við í þessu tilviki. Þar sé beinlínis mælt fyrir um meðferð máls og veitingu áminningar sem síðar geti orðið grundvöllur að uppsögn skv. 44. gr. laga nr. 70/1996 ef starfsmaður bætir ekki ráð sitt.

Verði ekki fallist á málsástæður stefnanda um að atvik málsins séu ekki með þeim hætti að til verulegra vanefnda teljist og efnisleg skilyrði riftunar því ekki tæk byggi stefnandi á því að formlegum skilyrðum til riftunar sé ekki fullnægt enda hafi stefndi í verulegu brotið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga og ekki viðhaft vandaða stjórnsýsluhætti við meðferð málsins.

Sundurliðaður útreikningur dómkröfu

Stefnandi krefjist bóta vegna hinnar ólögmætu riftunar, greiðslu fyrir áunnið orlof auk miska, sbr. eftirfarandi sundurliðun. Í tengslum við þær kröfur vísist sérstaklega til þess að stefndi hafi hvorki greitt stefnanda laun til samræmis við umsaminn uppsagnarfrest né greiðslur fyrir áunnið orlof. Dómkrafa stefnanda er sundurliðuð svo:

1. Skaðabætur vegna riftunar á ráðningarsamningi:                                                 18.152.208 kr.

2. Miskabætur:                                                                                                   2.500.000 kr.

Samtals                                              20.652.208 kr.

1) Skaðabætur vegna riftunar á vinnusamningi:

Bætur fyrir ólögmæta riftun eða uppsögn ráðningarsamnings eigi ekki að ákvarðast með sama hætti og bætur fyrir missi launa í uppsagnarfresti. Tjón vegna ólögmætrar riftunar sé annars eðlis og verði að ákvarða bætur að álitum. Gerð sé krafa um bætur miðað við 21 mánaðar laun, að teknu tilliti til launatengdra greiðslna, sem sé til samræmis við dómaframkvæmd. Til grundvallar kröfu um bætur sem nemi launum í 21 mánuð vísi stefnandi til þess að hún hafi verið atvinnulaus allt frá 11. mars 2014 er hún hafi verið leyst ótímabundið frá störfum. Þá hafi nánast reynst ógerningur fyrir stefnanda að finna sér annað starf við hæfi en líkt og þekkt sé, sé atvinnuleysi meðal lögfræðinga mikið. Atvinnuhorfur séu því afar slæmar fyrir stefnanda. Þá verði jafnframt að horfa til þess að stefnandi sé á sextugsaldri og hafi starfað á afar sérhæfðu sviði hjá embætti umboðsmanns skuldara. Því hafi stefnanda reynst verulega örðugt að fá starf sem hæft geti menntun hennar, reynslu og kjörum sem hún hafi haft í fyrra starfi. Ekki verði séð að breyting verði þar á. Framsetning launakröfu taki mið af meðaltali heildarlauna stefnanda síðastliðna sex mánuði áður en ráðningarsamningi var rift, þ.e. frá nóvember 2013 til og með apríl 2014. Framangreint tímabil gefi því raunsanna mynd af meðaltali heildarlauna stefnanda sem samanstandi af föstum mánaðarlaunum, yfirvinnu og orlofi af yfirvinnu. Til viðbótar komi svo launatengd gjöld. Heildarstarfsgreiðslur til stefnanda á mánuði hafi numið 756.342 krónum (658.902 + 97.606). Samkvæmt yfirliti stefnanda eru föst mánaðarlaun 503.809 krónur, yfirvinna 137.055 krónur og orlof af yfirvinnu 17.872 krónur, samtals 658.736 krónur. Launatengd gjöld, þ.e. framlag í lífeyrissjóð ásamt mótframlagi vinnuveitanda, orlof, gjald í starfsmenntunarsjóð, styrktarsjóð, orlofssjóð og endurhæfingarsjóð, eru samtals 97.606 krónur.

Að auki sé gerð krafa um laun í uppsagnarfresti sem nemi þremur mánuðum, sbr. 41. gr. laga nr. 70/1996 sbr. og ákvæði í ráðningarsamningi stefnanda. Alls sé því farið fram á að stefndi bæti stefnanda tjón sem nemi launum í 24 mánuði og nemi heildar fjártjónskrafa því 24 sinnum 756.342 krónum, sem séu 18.152.208 krónur.

2) Miskabótakrafa:

Stefnandi vísi til framangreindrar málsmeðferðar og framkomu forsvarsmanns stefnda í þeim efnum, m.a. á fundi aðila þann 11. mars 2014. Á fundinum hafi stefnandi verið þráspurð um atvik án þess þó að vera upplýst um það hvað málið snerist um, en umboðsmaður hafi iðulega yppt öxlum þegar stefnandi hafi reynt að fá frekari upplýsingar. Hafi framkoma umboðsmanns verið á allan hátt niðurlægjandi í garð stefnanda. Verði að telja að framganga stefnda í málinu hafi verið illa ígrunduð og aðallega byggð á óstaðfestri ábendingu frá fyrrverandi eiginmanni stefnanda sem ekki hafi tengst störfum hennar á neinn hátt. Eftir þessa aðför hafi stefnandi þurft að leita sér áfallahjálpar og sé enn þann dag í dag með hjálp sálfræðings að vinna úr áfallinu og þeirri niðurlægingu sem hún hafi orðið fyrir. Þá hafi stefnandi haft veður af því að málið hafi verið rætt innanhúss við starfsmenn embættisins og upplýst í þeim efnum að ráðningarsamningi stefnanda hafi verið rift. Hafi málið í heild, undanfari þess og framkoma stefnda valdið stefnanda andlegum áhyggjum, kvíða og sárindum, rýrt starfsheiður hennar og jafnframt álit annarra, svo sem fyrrum samstarfsfólks. Þá hafi aðgerðir stefnda skaðað verulega möguleika stefnanda á að geta fundið sér annað starf við hæfi, m.a. með tilliti til meðmæla, en stefnandi hafi allt fram til þess að mál þetta hafi komið upp starfað við góðan orðstír hjá embættinu. Að framangreindu virtu verði að telja að stefndi hafi með háttsemi sinni og framferði í garð stefnanda valdið henni miska og beri þannig ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn æru og persónu stefnanda í skilningi b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og beri af þeim sökum að greiða stefnanda miskabætur . Í samræmi við framangreint þyki miskabætur hæfilega ákvarðaðar 2.500.000 krónur.

Stefnandi krefjist dráttarvaxta af kröfufjárhæð frá birtingu stefnu, 28. október 2014, sbr. ákvæði 4. mgr. 5. mgr. laga nr. 38/2001.

Stefnandi vísi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, vinnuréttar og stjórnsýsluréttar. Vísað sé til ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, til orlofslaga nr. 30/1987 og til ákvæða kjarasamnings Stéttarfélags lögfræðinga við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Stefnandi vísi einnig til almennu skaðabótareglunnar og til 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi krefjist dráttarvaxta, í samræmi við ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. einnig 4. mgr. 5. gr. og 9. gr. þeirra laga. Krafa um málskostnað styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr. laganna. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði byggi á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og til að tryggja skaðleysi sitt sé henni nauðsynlegt að fá skattinn dæmdan úr hendi stefnda. Íslenska ríkinu sé stefnt til varnar í málinu, en ekki vinnuveitanda stefnanda samkvæmt ráðningarsamningi, þ.e. embætti umboðsmanns skuldara, sbr. og 5. mgr. 17. gr. laga um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi hafnar öllum málsástæðum stefnanda. Stefndi byggi sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi ítrekað brotið starfsskyldur sínar á alvarlegan hátt og þar af leiðandi hafi verið lögmætt að segja henni upp störfum á grundvelli þeirra lagaheimilda sem varðað hafi starfsskyldur hennar.

Í gögnum málsins komi fram að stefnandi hafi viðurkennt, á fundi þann 11. mars 2014, að hún hafi sótt upplýsingar úr tölvukerfi umboðsmanns um fyrrum eiginmann sinn, væntanlega í þeim tilgangi að fá upplýsingar um fjárhagsstöðu hans og til að gæta eigin hagsmuna. Auk þess hafi skoðun stefnanda verið það umfangsmikil að hún geti ekki hafa verið óviljandi í öllum tilvikum eins og stefnandi haldi nú fram. Þannig hafi stefnandi þann 6. ágúst 2013 flett upp upplýsingum í eitt skipti án þess að umrædd gögn snertu starf hennar á nokkurn hátt. Þá hafi stefnandi þann 13. janúar, 20. janúar, 22. janúar, tvívegis þann 6. febrúar og í þrígang þann 5. mars á árinu 2014 flett upp gögnum í málum sem vörðuðu fyrri eiginmann hennar, allt án þess að gögnin snertu starf hennar á nokkurn hátt.

Í ljósi framangreindrar háttsemi stefnanda sé á því byggt að hún hafi orðið uppvís að grófum og alvarlegum ávirðingum. Koma þar til brot á ábyrgðar- og trúnaðarskyldum samkvæmt IV. kafla laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þar sem m.a. sé kveðið á um skyldu starfsmanns til að gæta að réttsýni í starfi sínu og skyldu hans til forðast að hafast nokkuð það að í starfinu sem sé honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað geti rýrð á það starf eða starfsgrein er hann vinni við, sbr. 14. gr. laganna. Verði einnig við túlkun á þessum ákvæðum að líta til XIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 139. gr., um framferði sem teljist ólögmætt og andstætt trúnaðarskyldum. Þótt um refsiákvæði sé að ræða feli það einnig í sér viðmið um ólögmæta háttsemi í einkaréttarlegu samhengi og hvort trúnaðarbrot eða brot á skyldum starfsmanna sem undir lög nr. 70/1996 heyra séu alvarleg.

Almennar réttarreglur í stjórnsýslu geri ákveðnar kröfur til háttsemi ríkisstarfsmanna, svo sem stjórnsýslulög, upplýsingalög og ákvæði almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi. Auk þess hafi verið settar almennar siðareglur af ýmsum toga um ríkisstarfsmenn og þar á meðal um starfsmenn stefnda. Vísað sé til almennra siðareglna starfsmanna ríkisins og siðareglna umboðsmanns skuldara sem settar hafi verið með heimild í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 70/1996. 

Með lögum nr. 86/2010 hafi verið gerð breyting á lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins með það að markmiði að lögfesta umgjörð um siðareglur og samhæfa störf þeirra aðila innan stjórnsýslunnar sem vinni að bættum vinnubrögðum hennar. Samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna hafi unnið að undirbúningi og innleiðingu siðareglna, nú síðast fyrir starfsmenn ríkisins. Almennar siðareglur starfsmanna ríkisins hafi verið staðfestar af fjármála- og efnahagsráðherra 22. apríl 2013 sem siðareglur nr. 49/2013 og umboðsmaður hafi sett sér sínar eigin siðareglur dags. 1. október 2013. Báðir bálkarnir byggi á lögum nr. 70/1996. Siðareglur þessar hafi verið kynntar starfsmönnum umboðsmanns eftir setningu þeirra og hafi stefnanda átt að vera fullkunnugt um þær.

Uppflettingar stefnanda hafi varðað mál fyrrverandi eiginmanns hennar. Meðal annars hafi verið beðið um sértæka skuldaaðlögun vegna fasteignar við Ásholt í Reykjavík og hafi stefnandi sjálf verið eigandi að 50% hlut í fasteigninni og borið ábyrgð á þeim veðskuldum sem á fasteigninni hvíldu. Stefnandi hafi oftsinnis skoðað skjöl er varðað hafi ráðgjafarmál fyrrverandi eiginmanns hennar. Síðar hafi hún skoðað umsókn hans um greiðsluaðlögun í tölvukerfum umboðsmanns, þar á meðal gögn um viðkvæmar fjárhagsupplýsingar, án þess að slík skoðun væri nauðsynleg vegna starfs hennar. Að auki liggi fyrir að stefnandi hafi notað aðgang sinn að tölvukerfi umboðsmanns til að sækja skattframtal fyrrverandi maka síns fyrir tekjuárið 2012 í gagnagrunn ríkisskattstjóra. Í engum tilvikum hafi stefnandi fengið leyfi hjá yfirmönnum sínum til þess að vinna í málum fyrrum maka síns og séu fullyrðingar stefnanda um annað rangar.

Stefndi byggi sýknukröfu sína á því að lagaskilyrði hafi verið fyrir hendi til riftunar á ráðningarsambandi stefnanda. Lýst hafi verið brotum stefnanda á starfsskyldum þeim sem leitt hafi til uppsagnar hennar. Trúnaðarbresturinn hafi verið alvarlegur, hann hafi bæði brotið í bága við ákvæði ýmissa laga og siðareglur sem gilt hafi um starfsemi umboðsmanns. Málsástæður stefnanda um ætlað ósamræmi í því tilliti styðji ekki kröfur hennar.

Réttarsamband aðila sé reist á samningi, en aðrir starfsmenn ríkisins en embættismenn séu ráðnir til starfa með ráðningarsamningi, sbr. 41. gr. laga nr. 70/1996. Í lögum nr. 70/1996 sé fjallað um ýmis atriði er tengist réttindum og skyldum samningsaðila en þau marki lögskiptum samningsaðila ákveðinn farveg og skilgreini réttindi og skyldur þeirra að því marki sem fyrirmæli laganna nái. Þegar þeim sleppi ráðist réttarsamband þeirra hins vegar í öllum meginatriðum af ráðningar- og kjarasamningi sem og almennum reglum vinnuréttar. Lögin séu samkvæmt þessu ekki nauðsynlegur grundvöllur lögskipta aðila eða valdheimilda forstöðumanna og annarra stjórnenda hjá ríkinu gagnvart starfsmönnum ríkisins. Því sé almennt ekki unnt að gagnálykta frá fyrirmælum þeirra þannig að ekki megi grípa til ráðstafana sem ekki sé getið sérstaklega í lögunum. Þvert á móti geti reglur reistar á framangreindum grundvelli gilt um atriði sem lögin taki ekki til. 

Stefnandi hafi verið ráðinn til starfa ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Í 43. gr. laga nr. 70/1996 sé kveðið á um rétt forstöðumanna ríkisstofnana til að segja starfsmanni upp eftir því sem fyrir sé mælt í ráðningarsamningi. Í 45. gr. laganna segi að starfsmanni skuli vikið úr starfi fyrirvaralaust hafi hann verið sviptur með fullnaðardómi rétti til að gegna því starfi sínu sem og hafi hann játað að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi sem ætla megi að hafi í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt almennum reglum vinnuréttar geti vinnuveitandi almennt gripið til riftunar ráðningarsamnings hafi starfsmaður hans vanefnt verulega skyldur sínar samkvæmt samningnum. Ekki sé sérstaklega vikið að þessu úrræði í lögum nr. 70/1996. Stefndi byggi á því að ekki verði dregin sú ályktun af 45. gr. laganna, sem mæli fyrir um skyldu til frávikningar starfsmanns við tilteknar aðstæður, að óheimilt sé að rifta ráðningarsamningi á öðrum grunni en þar sé lýst. Í ljósi fyrirmæla laga nr. 70/1996 sé á því byggt að sama regla gildi um beitingu þessa vanefndaúrræðis í lögskiptum sem lögin taki til og í öðrum vinnuréttarsamböndum. Leiði grunnrök 45. gr. starfsmannalaganna einnig til þeirrar niðurstöðu að verulegar vanefndir heimili riftun.

Trúnaðarbrestur sem leiði af grófum og alvarlegum ávirðingum starfsmanns verði ekki bættur og geti því áminning samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 ekki átt við um slík tilvik. Jafnframt sé á því byggt að trúnaðarbrestur flokkist undir „aðrar ástæður“ í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 44. gr. en þar sé kveðið á um uppsögn án undanfarandi áminningar. Tekið sé fram í ákvæðinu að aðrar ástæður geti „svo sem“ verið þær að verið sé að fækka starfsmönnum vegna hagræðingar. Að mati stefnda takmarkist orðasambandið „aðrar ástæður“ ekki við rekstrarlegar ástæður. Fleira komi til. Til dæmis hafi verið talið að til annarra ástæðna teljist þau tilvik þegar starfsmaður glati almennu eða sérstöku skilyrði fyrir ráðningu í starf sem og atvik sem komi upp á reynslutíma. Stefndi meti trúnaðarbrot stefnanda það alvarlegt að stefnandi hafi með brotum sínum glatað rétti til starfs hjá umboðsmanni. Embætti umboðsmanns sýsli með afar viðkvæm persónuleg málefni.

Háttsemi stefnanda sem leitt hafi til uppsagnar úr starfi hafi brotið gegn ýmsum ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sem starfsmaður stjórnsýslunnar hafi hún ekki gætt ákvæða 1. og 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaganna. Hún hafi án vafa verið vanhæf til meðferðar þeirra mála sem vörðuðu fyrrverandi maka hennar. Auk þess hafi hún augljóslega brotið almenna trúnaðarskyldu sem byggi á óskráðum réttarreglum sem gildi um störf og starfshætti ríkisstarfsmanna. Stefnandi hafi misnotað vald sitt hjá umboðsmanni og nýtt það, a.m.k. að einhverju leyti í eigin þágu. Stefnanda, sem sé með BA-próf í lögfræði, hafi átt að vera fullkunnugt um að háttsemi hennar stríddi gegn lögum og var brot á trúnaðarskyldum.

Umboðsmanni hafi þann 8. mars 2014 borist ábending um ávirðingar stefnanda. Sú ábending hafi verið könnuð og á fundi með stefnanda þann 11. mars þar á eftir hafi henni verið gerð grein fyrir því að verið væri að rannsaka hana, sbr. skilyrði 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þegar umboðsmanni berist almennt upplýsingar sem varði starfsmenn embættisins þurfi að gæta að rannsóknarskyldu, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1993, og afla viðhlítandi upplýsinga um hvort tilefni sé til að taka slík mál til frekari meðferðar. Það hafi verið forstöðumanns með stuðningi annarra starfsmanna að hlutast til þar um og engin efni séu til að bera brigður á hæfi þeirra. Þegar slíkar upplýsingar liggi fyrir þurfi að meta hvort ástæða sé til að halda áfram með málið eða láta það falla niður. Veita verði stjórnvaldi ákveðið svigrúm til að meta upplýsingar sem því berast á þennan hátt, rannsaka þær og leggja mat á hvort ástæða sé til að fara með málið lengra. Í þessu máli hafi liðið tiltölulega skammur tími frá því að ábending hafi borist þar til stefnandi hafi verið boðuð á fund þann 11. mars 2014. Eftir það hafi stefnandi fengið eðlilegan tíma til andmæla að mati stefnda. Auk þess hafi stefnandi fengið þau gögn sem óskað hafi verið eftir og hafi andmælaréttur hennar og aðgangur að gögnum verið virtur á þann hátt sem hún sjálf hafi viljað. Ekki sé auðvelt að sjá hvernig umboðsmaður hafi brotið meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna varðandi málsmeðferð í máli stefnanda. Umboðsmaður hafi einfaldlega ekki getað gengið skemur í málinu.

Stefnanda hafi verið veittur andmælaréttur og aðgangur að gögnum. Stefnandi hafi sannanlega komið á framfæri andmælum sínum sjálf og með aðstoð lögmanns. Málið hafi verið ítarlega rannsakað af hálfu umboðsmanns. Í engu hafi verið brotið gegn 14. eða 15. gr. stjórnsýslulaga af hálfu umboðsmanns. Ákvörðun umboðsmanns um starfslok stefnanda hafi byggt á þeim efnisatriðum sem kynnt hefðu verið stefnanda og henni verið fullkunnugt um. Engan veginn sé unnt að fallast á að mál stefnanda hafi ekki verið rannsakað til hlítar eða að einstakir starfsmenn umboðsmanns hafi ekki verið til þess hæfir. Ekki séu bornar brigður á að prentaður hafi verið út tölvupóstur og kannað að henni viðstaddri hvernig hún hafi farið inn á mál þau sem til skoðunar voru. Málið hafi verið rannsakað með fullnægjandi hætti í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og andmælaréttur veittur, sbr. 13. gr. sömu laga. Frásagnir stefnanda af fundum séu ekki réttar að mati stefnda, en fyrir liggi að stefnanda hafi verið fullkunnugt um frá upphafi og kynnt um hvað málið snerist. Engin efni séu til að gera athugasemdir við fundargerðir eða að háttur á þeim styðji kröfur stefnanda.

Ásamt öðru byggi stefndi sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi brotið ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Stefnandi hafi ítrekað skoðað skjöl í tölvukerfum umboðsmanns um hagi fyrrverandi eiginmanns síns, án heimildar og án þess að slík skoðun væri nauðsynleg vegna starfs hennar. Aðallega sé vísað til ákvæða 7. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 sem lesa beri saman við önnur ákvæði laga sem stefndi byggi á.

Stefndi hafni allri kröfugerð stefnanda um skaðabætur vegna meints fjártjóns vegna riftunar á ráðningarsamningi stefnanda. Stefndi hafni líka allri tölulegri kröfugerð stefnanda. Aðallega byggi stefndi sýknukröfu sína á því að stefnanda hafi verið sagt upp störfum á lögmætan og málefnalegan hátt vegna trúnaðarbrests og alvarlegra brota í starfi. Af þeirri ástæðu eigi hún ekki lögvarinn rétt til skaðabóta vegna riftunar á ráðningarsamningi. Stefnandi geri kröfu um bætur sem miðaðar séu við laun í 21 mánuð að viðbættu þriggja mánaða uppsagnartímabili auk launatengdra fjárhæða. Stefndi hafni þessum viðmiðunum auk þess sem launatengd gjöld geti ekki verið hluti bótakröfu. Samkvæmt ráðningarsamningi hafi stefnandi átt þriggja mánaða uppsagnarfrest vegna starfsloka, ef til kæmi. Þetta ákvæði eigi þó ekki við ef forsendur eru til að segja viðkomandi upp störfum fyrirvaralaust vegna alvarlegra ávirðinga eins og hér eigi við. Enn langsóttari sé krafa stefnanda um laun í 21 mánuð. Mótmælt sé kröfum um áunnið orlof eða orlof á yfirvinnu.

Stefnandi hafi notið óskertra launa frá 11. mars 2014 þegar hún hafi verið leyst frá störfum ótímabundið. Það tímabil hafi staðið til 15. maí 2014. Þann dag hafi ákvörðun  verið tekin um uppsögn stefnanda. Þessa launatímabils sé ekki getið í kröfugerð stefnanda. Ekki séu heldur neinar upplýsingar um hugsanlegar bætur frá t.d. atvinnuleysistryggingum, lífeyrissjóði o.fl. Engar staðfestingar liggi fyrir um laun eða launaleysi, um bætur eða annað frá 15. maí 2014. Stefnanda beri að takmarka tjón sitt en þær upplýsingar liggi ekki á lausu. Stefnandi vísi til þess að hún hafi verið atvinnulaus í 11 mánuði og reynst hafi ógerningur að afla sér annars starfs við hæfi sökum aldurs og atvinnuleysis í hópi lögfræðinga. Fullyrðingar þessar hafi ekki verið sannreyndar á neinn hátt og sé þess krafist að stefnandi ráði bót á því. Ekki liggi heldur fyrir hvort stefnandi hafi verið við t.d. nám eftir að hún hætti störfum. Að öðru leyti verði að skoða kröfugerð stefnanda með það í huga að hún hafi ekki getað vænst þess að halda starfi sínu til venjulegra starfsloka opinbers starfsmanns. Forstöðumaður ríkisstofnunar hafi rétt til þess að segja upp starfsmanni í samræmi við ákvæði fyrirliggjandi ráðningarsamnings, sbr. 1. mgr. 43 gr. laga nr. 70/1996.

Stefnandi krefjist miskabóta að fjárhæð 2.500.000 krónur úr hendi stefnda. Miskabótakröfunni sé alfarið mótmælt. Að mati stefnda séu engar forsendur fyrir því að verða við kröfu þessari. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að skilyrði b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1996 eigi við í málinu. Umboðsmaður hafi komið málefnalega fram í málinu og sýnt stefnanda fulla virðingu við uppsögnina. Stefnandi hafi fengið nægilegan tíma til andmæla og aðgang að þeim gögnum sem hún hafi sóst eftir.

Til stuðnings varakröfu sé málatilbúnaði stefnanda mótmælt. Komi til bótaskyldu séu málsbætur stöðuveitanda augljósar. Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé andmælt. Um málskostnaðarkröfu sé vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um lögmæti riftunar umboðsmanns skuldara á ráðningarsamningi sem gerður var við stefnanda 25. janúar 2011. Ráðningarsamningurinn er ótímabundinn og segir þar m.a. að uppsagnarfrestur sé þrír mánuðir og miðist uppsögn við mánaðamót. Þá segir í samningnum að um réttindi og skyldur starfsmanns fari eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og skuli þau lög liggja til grundvallar við gerð ráðningarsamningsins auk kjarasamnings stéttarfélags, sem tilgreint er í samningnum að sé stéttarfélag lögfræðinga. Auk laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um ákvarðanir stefnda um slit á ráðningarsamningi við stefnanda.

Í sérstökum kafla hér að framan er því lýst hvaða ávirðingar stefnanda stefndi lagði til grundvallar slitum á ráðningarsamningi sem byggðu á rannsókn sem gerð var á embætti umboðsmanns skuldara á aðkomu stefnanda að málum fyrrum eiginmanns hennar, A. Tilefni rannsóknarinnar var tölvupóstur frá honum þar sem athygli umboðsmanns var vakin á því að stefnandi hefði tekið fjármuni út af bankareikningi þar sem inn væru lagðar húsaleigutekjur af eign sem þau ættu saman. Tiltók A að stefnandi væri starfsmaður embættisins, sem veitt hefði honum greiðsluskjól, hún gengi á hlut annarra kröfuhafa með þessari aðgerð og að hann teldi um að ræða augljóst brot á siðareglum opinberra starfsmanna.

Við sönnunarfærslu fyrir dóminum og af gögnum málsins þykir upplýst að stefnandi hafi komið að, flett upp og skoðað mál fyrrum eiginmanns síns svo sem rannsókn stefnda leiddi í ljós, þótt ósannað sé að það hafi í öllum tilvikum verið með vilja gert. Ekki hafa verið færðar sönnur á að stefnandi hafi í eigin fjárhagslega þágu eða til skaða fyrir stefnda, A sjálfan eða aðra kröfuhafa hans, notfært sér upplýsingar sem hún aðeins hefði haft aðgang að í starfi sínu hjá stefnda eða miðlað þeim upplýsingum. Þá verður ekki séð að stefnandi hafi í starfi sínu tekið neinar ákvarðanir í málum A. Gegn andmælum yfirmanna stefnanda er ósannað að þeir hafi vitað af eða veitt samþykki fyrir aðkomu stefnanda að málum fyrrum eiginmanns hennar. Fallist er á það með stefnda að framganga stefnanda feli í sér brot á starfsskyldum og að stefnanda, sem er löglærð, hafi mátt vera það fullljóst að athuganir hennar á málum A, þótt samþykki hans lægi fyrir um sumar þeirra, fælu í sér misnotkun á aðstöðu sem hún hafði vegna starfs síns og að þær athuganir samræmdust ekki starfsskyldum hennar. Breytir engu þar um hvort stefnandi hafi í raun kynnt sér sérstaklega þær siðareglur sem umboðsmaður skuldara hafði sett starfsmönnum sínum með stoð í lögum nr. 70/1996 þann 1. október 2013.

Í IV. kafla laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins greinir frá skyldum þeirra. Ef starfsmaður hefur í starfi sínu orðið uppvís að þeim ávirðingum, sem eru tilgreindar í 21. gr., skal forstöðumaður stofnunar veita honum skriflega áminningu, en áður skal þó gefa starfsmanni kost á að tala máli sínu sé það unnt. Þær ástæður sem þar eru tilgreindar eru að starfsmaður hafi sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hafi ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hafi verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess hafi að öðru leyti þótt ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu. Ákvæðið felur því í sér matskennda mælikvarða m.a. á því hvaða athafnir starfsmanns teljist ósamrýmanlegar starfi og undir það geta t.d. fallið athafnir sem leiða til þess, að mati forstöðumanns stofnunar, að trúnaðarbrestur verði milli starfsmanns og vinnuveitanda.

Þegar litið er til þeirra athafna stefnanda sem upplýst er að hafi verið ástæður slita stefnda á ráðningarsambandi við stefnanda, þá þykir ljóst að þau slit eiga rætur að rekja til ástæðna sem falla undir 21. gr. laga nr. 70/1996. Um starfslok er fjallað í IX. kafla laganna, en samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skal veita starfsmanni áminningu samkvæmt 21. gr. og gefa honum kost á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar.

Svo sem rakið er í kafla um málsatvik hér að framan var stefnandi boðuð á fund með umboðsmanni skuldara og mannauðsstjóra 11. mars 2014. Fundarboðið var fyrirvaralaust og án þess að stefnanda væru fyrir fram veittar upplýsingar um fundarefni eða gefinn kostur á að hafa trúnaðarmann með sér til fundarins. Þar var henni tilkynnt að hún færi í ótímabundið leyfi meðan rannsókn stæði yfir og var henni í beinu framhaldi gert að yfirgefa vinnustaðinn. Með bréfi rúmum tveimur vikum síðar var henni gefinn kostur á að andmæla fyrirhugaðri riftun á ráðningarsamningi. Að mótteknum andmælum stefnanda var henni ásamt lögmanni sínum boðið til fundar við umboðsmann skuldara og lögmann embættisins. Á fundinum þann 8. maí 2014 var samkvæmt fundargerð, sem lögmaður embættisins ritaði, m.a. rætt um uppflettingar stefnanda í tölvukerfi umboðsmanns, sem stefnandi kvaðst hafa framkvæmt bæði óvart og viljandi. Viku síðar, með bréfi dags. 15. maí 2014, var ráðningarsamningi stefnanda við umboðsmann skuldara rift og henni tilkynnt að starfslok yrðu nú þegar. Í bréfinu var lýst þeirri aðkomu og uppflettingum stefnanda sem að framan greinir og fram kemur að það sé niðurstaða umboðsmanns að stefnandi hafi með þeirri háttsemi vanefnt skyldur sínar samkvæmt ráðningarsamningi svo verulega með því að brjóta starfsskyldur sínar ítrekað að ekki verði hjá því komist að rifta samningnum. Frá þeim degi sem bréfið er ritað hefur stefnandi engar launagreiðslur fengið frá stefnda.

Í greinargerð stefnda kemur fram að stefndi meti trúnaðarbrot stefnanda það alvarlegt að hún hafi með brotum sínum glatað rétti til starfs hjá umboðsmanni. Stefndi vísar til þess að trúnaðarbrestur sem leiði af alvarlegum ávirðingum starfsmanns verði ekki bættur og geti því áminning samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 ekki átt við um slík tilvik. Jafnframt sé á því byggt að trúnaðarbrestur flokkist undir „aðrar ástæður“ í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 44. gr. um uppsögn án undanfarandi áminningar og að heimilt sé að segja stefnanda upp störfum eftir því sem fyrir sé mælt í ráðningarsamningi, sbr. 43. gr. laga nr. 70/1996. Stefndi fór þó ekki þá leið að segja upp ráðningarsamningi án undanfarandi áminningar, heldur rifti ráðningarsamningi við stefnanda, bótalaust og án launa í uppsagnarfresti. Hvorki var í riftunartilkynningu né eftirfarandi rökstuðningsbréfi vísað til framangreindra ákvæða laga nr. 70/1996.

Um heimild sína til að rifta ráðningarsamningi vísar stefndi til þess að samkvæmt almennum reglum vinnuréttar geti vinnuveitandi almennt gripið til riftunar ráðningarsamnings hafi starfsmaður hans vanefnt verulega skyldur sínar samkvæmt samningnum og að sama regla gildi um beitingu þessa vanefndaúrræðis í lögskiptum sem lög nr. 70/1996 taki til og í öðrum vinnuréttarsamböndum, þótt ekki sé sérstaklega vikið að þessu úrræði í lögunum. Í ljósi sérstöðu réttarsambands starfsmanna við ríkið sem vinnuveitanda, þar sem réttarstaða starfsmanna ríkisins ræðst að miklu leyti af lagareglum, verður ekki fallist á að ríkið sem vinnuveitandi eigi val um það hvort hann fari að fyrirmælum laga nr. 70/1996 við slit á ráðningarsambandi við starfsmann eða beiti þeirri ólögfestu almennu riftunarheimild vinnuréttar sem stefndi vísar til, telji hann starfsmann hafa vanefnt starfsskyldur sínar verulega, heldur ber stefnda að fara að starfsmannalögum og stjórnsýslulögum við starfslok ríkisstarfsmanna.

Með riftun ráðningarsamningsins, án undangenginnar áminningar, braut stefndi gegn skýrum fyrirmælum laga nr. 70/1996 um starfslok í tilefni af brotum á starfsskyldum sem fela í sér ávirðingar sem 21. gr. laganna tekur til. Riftun stefnda á ráðningarsamningnum var stjórnvaldsákvörðun, sem var hluti af stjórnsýslu stefnda. Með þeirri ráðstöfun telst stefndi jafnframt hafa brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, enda var stefnanda ekki gefinn kostur á að bæta ráð sitt. Samkvæmt framansögðu var riftun ráðningarsamningsins ólögmæt og veitir stefnanda rétt til skaðabóta frá stefnda vegna fjártjóns hennar.

Stefnandi átti samkvæmt ráðningarsamningi þriggja mánaða uppsagnarfrest frá næstu mánaðamótum eftir uppsögn. Hefði starfslok stefnanda borið að með uppsögn 15. maí 2014 hefði hún því notið launa í uppsagnarfresti frá þeim degi til 31. ágúst s.á. Samkvæmt upplýsingum stefnanda um mánaðarleg meðallaun hennar hefðu laun hennar samtals á þessu tímabili, án tillits til launatengdra gjalda, numið ríflega 2,3 milljónum króna. Réttur hennar til skaðabóta er rýmri en sem nemur þeim tíma. Bætur verða ákvarðaðar að álitum í samræmi við dómvenju um bætur til handa þeim er sæta ólögmætri uppsögn eða frávikningu úr starfi, sbr. dóm Hæstaréttar 18. mars 2004 í máli nr. 275/2003 og dóma í málum réttarins nr. 128/2010, nr. 121/2013 og nr. 172/2014.

Ber við ákvörðun á fjárhæð skaðabóta vegna fjártjóns að taka tillit til þess að stefnandi er á sextugsaldri og starfaði á sérhæfðu sviði hjá embætti umboðsmanns skuldara. Stefnanda hefur reynst örðugt um vik að fá starf sem hæft geti menntun hennar, reynslu og kjörum sem hún hafði í fyrra starfi. Einnig þarf að líta til þess að stefnandi hefur nýtt þann tíma sem hún hefur verið án atvinnu til að stunda meistaranám í lögfræði sem aukið getur möguleika hennar á að fá starf við hæfi, en ekki verður horft fram hjá því að nokkurt atvinnuleysi er nú meðal lögfræðinga. Þá er upplýst að hún stendur nú að rekstri fasteignasölu þótt ekki verði samkvæmt gögnum málsins séð að sá rekstur hafi skilað henni tekjum enn sem komið er í námunda við þær tekjur sem hún naut hjá stefnanda. Eru skaðabætur vegna fjártjóns stefnanda hæfilega ákveðnar 6.000.000 króna.

Framganga stefnda við riftun ráðningarsamningsins, sem eins og áður greinir fól í sér brot á meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og skýrum fyrirmælum starfsmannalaga um skyldu til að veita starfsmanni áminningu og gefa honum færi á að bæta ráð sitt, var meiðandi í garð stefnanda og fól í sér ólögmæta meingerð gagnvart henni. Henni var m.a. gert að taka saman og yfirgefa vinnustað sinn fyrirvaralaust og að viðstöddum samstarfsmönnum og þurfti hún að leita sér hjálpar hjá sálfræðingi í kjölfar þessa áfalls. Hún á því rétt til miskabóta samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þykja þær hæfilega ákveðnar 500.000 krónur.

Framangreindar bótafjárhæðir skulu svo sem krafist er bera dráttarvexti frá höfðun máls þessa til greiðsludags, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

Stefndi verður með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðinn er 1.500.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Guðrúnu Sigurðardóttur, 6.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. október 2014 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.