Hæstiréttur íslands
Mál nr. 41/2003
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Fasteign
- Líkamstjón
|
|
Fimmtudaginn 25. september 2003. |
|
Nr. 41/2003. |
Stefanía Hákonardóttir(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún M. Árnadóttir hrl.) |
Skaðabótamál. Fasteign. Líkamstjón.
S, sem runnið hafði til í hálku á tröppum við vinnustað sinn, krafðist bóta af Í vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir við fallið. Talið var að aðstæður hafi ekki verið með þeim hætti að lögð yrði bótaábyrgð á vinnuveitanda S, en rekja mætti slysið til óhappatilviljunar. Var Í því sýknað af öllum kröfum S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. janúar 2003. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.794.345 krónur með 2% ársvöxtum af 2.913.210 krónum frá 31. október 1996 til 23. febrúar 2000, af 1.794.345 krónum frá þeim degi til 15. september 2000, en dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar úr hendi áfrýjanda fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. október 2002.
Mál þetta er höfðað 21. maí 2001 og dómtekið 3. október sl.
Stefnandi er Stefanía Hákonardóttir, til heimilis að Heiðarbakka 7, Keflavík.
Stefndi er íslenska ríkið.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda 1.794.345 krónur með 2% ársvöxtum af 2.913.210 krónum frá 31.10.1996 til 23.02.2000, en með 2% ársvöxtum af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til 15. 09. 2000 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi er taki mið af því að stefnandi er eigi virðisaukaskattsskyldur aðili.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfu stefnanda og að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati réttarins, en til vara að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar og málskostnaður látinn falla niður.
Málvextir
Mál þetta á rót sína að rekja til slyss er stefnandi varð fyrir 31. október 1996 en hún starfaði þá á skrifstofu Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Stefnandi var á leið til hádegisverðar frá vinnustað sínum og gekk út um suðurdyr byggingarinnar eftir steyptum gangstíg í átt að bílastæði við húsið. Á leiðinni eru þrjár tröppur. Stefnandi rann til í hálku á tröppunum að eigin sögn, datt út af gangstígnum og lenti með hægri öxl á steinsteyptum vatnsstokk, sem liggur undir og til hliðar við tröppurnar. Hlaut hún af þessu upphandleggsbrot undir hægri öxl.
Farið var með stefnanda á slysadeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, þar sem meiðsli hennar voru meðhöndluð. Þann 20. nóvember 1996 hóf stefnandi sjúkraþjálfun til 30. apríl 1997. Stefnandi var óvinnufær frá 31. október 1996 til 21. janúar 1997 og síðan að hálfu leyti til 1. febrúar 1997. Hún leitaði til bæklunarlæknis á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þann 30. september 1999 og sýndu röntgenmyndir óreglu í brotinu í upphandlegg og fékk stefnandi bólgustillandi lyf.
Sigurjón Sigurðsson læknir framkvæmdi örorkumat á stefnanda, dags. 22. nóvember 1999. Í niðurstöðu matsins segir: ,,Hér er um að ræða konu sem lendir í því að detta á hálku þegar hún var á leið í hádegismat. Hún bar fyrir sig hægri hendi og lenti síðan á hægri öxl og hlaut við þetta upphandleggsbrot (collum kirugigum fractura). Nú hefur brotið gróið með dálítilli þykknun og þrátt fyrir ýmiss konar meðferð svo sem sjúkraþjálfun hefur hún mjög skertar hreyfingar í öxlinni sem há henni til flestra verka”.
Í áverkavottorði Gunnars Gunnarssonar, dags. 6. október 2001, segir að stefnandi hafi vaxandi óþægindi frá meiðsli í öxl og broti. Í vottorðinu segir orðrétt: ,,Hún hefur afleiðingar tveggja áverka, annars vegar brot á öxl, þar sem afleiðingin er líklega að upphandleggsbeinið rekst undir herðablaðið og þar af leiðandi brengli það þar undir. Óljóst er hversu mikið þetta háir henni. Alla vega hefur hún ekki leitað til að fá sprautu í öxlina síðan hún var hjá undirrituðum. Auk þess ökklabrotnaði hún og er með skrúfu í ökklanum, sem rætt hefur verið um að fjarlægja, en hefur ekki verið framkvæmt. Þar sjást einnig teikn um lækkað liðbil í ökklanum, það er að um einhvers konar brjóskeyðingu sé að ræða. Getur það þýtt að ökklinn sé hægt versnandi og getur þurft á aðgerðum síðar meir að halda “
Í mati örorkunefndar, dags. 26. mars 2002, segir, að örorkunefnd telji að eftir 1. apríl 1997 hafi stefnandi ekki getað vænst frekari bata sem máli skipti af afleiðingum slyssins, sem hún varð fyrir 31. október 1996. Í niðurstöðu segir: „Tjónþoli var á slysadegi 46 ára gömul og starfaði við skrifstofustörf. Hún hefur ekki treyst sér að vinna sama starf áfram í fullri vinnu og varð sér úti um léttara starf, sem jafnframt er hlutastarf. Örorkunefnd telur að afleiðingar slyssins dragi úr getu tjónþola til að vinna við skrifstofustörf og að hún muni í framtíðinni hafa minna úthald til slíkrar vinnu og annarra álagsbundna vinnu í framtíðinni. Er varanleg örorka tjónþola vegna afleiðinga slyssins metin 15 af hundraði“.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi reisir kröfur sínar á því að Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli beri skaðabótaábyrgð á vinnubrögðum starfsmanna sinna samkvæmt ólögfestri reglu íslensks skaðabótaréttar. Þá er vísað til bótareglna skaðabótaréttar og reglna skaðabótaréttar um ábyrgð vinnuveitanda á aðstæðum á vinnustað. Stefndi beri ábyrgð á greiðslu skaðabótakröfu stefnanda á grundvelli laga nr. 110/1951 um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna.
Stefnandi telur í ljós leitt að aðstæður á leið stefnanda til vinnustaðar, einkum á göngustíg og tröppum þeim sem stefnandi féll í, hafi verið óforsvaranlegar og hættulegar og líkamstjón stefnanda sé bein afleiðing þess. Vindasamt sé á svæðinu auk þess sem snjór safnist þar gjarnan fyrir á vetrum. Fjöldi fólks hafi meitt sig og slasast áður í sömu tröppum og stefnandi féll í og við svipaðar aðstæður. Hafi starfsfólk Varnarliðsins ítrekað komið á framfæri beiðni um úrbætur við yfirmenn sína, svo sem að mokað yrði betur frá göngustígum og tröppum og þar yrði borið á salt eða sandur, síðast en ekki síst að sett yrði upp handrið við tröppurnar til að varna því að fólk dytti fram af þeim. Yfirmönnum stefnanda hafi verið fullkunnugt um hættuna, en þeir hafi skellt skollaeyrum við að sinna úrbótum. Þau viðbrögð séu ámælisverð þegar höfð eru í huga þau slys sem orðið höfðu áður með sama eða sambærilegum hætti og slys stefnanda. Stefnanda og öðrum starfsmönnum í byggingunni hafi verið uppálagt að fara um göngustíginn að og frá vinnu þrátt fyrir að fyrri slys höfðu sýnt að hætta var því samfara. Af hálfu stefnanda er á það bent að lítið hefði kostað að setja upp handrið á tröppurnar auk þess sem reglulegur snjómokstur, salt eða sandur hefði gert sama gagn. Vanrækslu yfirmanna Varnarliðsins á því að gæta að öryggi stefnanda hafi m.a. falist í broti gegn byggingarreglugerð nr. 441/1998, einkum 202.14 grein. Þá vísar stefnandi til ákvæða 199.3 greinar og annarra almennra ákvæða í 10. kafla nefndrar reglugerðar.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Af hálfu stefnda er því eindregið vísað á bug að slys stefnanda verði rakið til vanbúnaðar eða vanrækslu af hálfu vinnuveitenda hennar og sé ósannað að stefnandi hafi dottið í tröppunum sem koma við sögu í máli þessu. Stefnandi hafi verið tvísaga um það hvort henni hafi skrikað fótur í tröppunum eða neðar á göngustígnum. Í skýrslugjöf stefnanda fyrir lögreglu hinn 4. desember 1996 lýsi stefnandi atvikum svo, að snjóföl hafi verið á jörðu, laus í sér, hafi hún verið að ganga upp tröppurnar þegar hún missti skyndilega fótanna vegna hálkunnar og datt. Í skýrslugjöf hjá lögreglu 24. febrúar 2000 lýsi stefnandi atvikum þannig, að hún hafi verið að koma eftir stéttinni í átt að bifreiðastæðinu og nýbúin að ganga upp þessar tröppur þegar hún hafi allt í einu misst fótana og fallið og út af stéttinni og oltið á stéttarstokk, sem liggur þvert undir stéttinni, en nokkru neðar. Segir hún að mikil hálka hafi verið og mikill vindstrengur, en enginn snjóruðningur heldur föl með svelli undir. Glögglega megi sjá af ljósmyndum að vatnsstokkurinn liggi um það bil miðja vegu milli þrepa og bílastæðis undir göngustígnum sjálfum, en ekki undir og við hlið trappnanna. Það fái ekki þannig staðist að stefnandi hafi getað dottið úr tröppunum á vatnsstokkinn. Ekki sé unnt að fallast á að skortur á handriði við tröppurnar hafi brotið gegn ákvæðum skipulags- og byggingalaga en reglugerð nr. 441/1998 hafi ekki verið í gildi er slysið varð og þau ákvæði sem stefnandi vísar til eigi ekki við. Myndir sem fylgdu lögregluskýrslu beri ekki annað með sér en að leið sú sem stefnandi fór hafi verið greiðfær leið við venjulegar aðstæður. Megi vísa til framburðar Margrétar Jónsdóttur hjá lögreglu en hún minntist þess ekki að það hafi verið snjór á stéttinni, en taldi að það hefði getað verið hált.
Af vottorði Veðurstofu verði ráðið að jörð hafi verið auð að morgni 31. október en kl. 12 hafi vindur verið N 10,8 m/s, lítilháttar snjóél en úrkoma ekki mælanleg og frost 3 stig. Klukkan 15.00 hafi vindur verið NNA 10,3 m/s snjó- eða slydduél á síðustu klukkustund en ekki mælanleg úrkoma og frost 3,5 stig. Ósannað sé að hálka, sem stefnandi lýsi, hafi verið meiri en annars staðar á gönguleiðum í þéttbýli eða að slysið verði rakið til vanbúnaðar eða vanrækslu af hálfu vinnuveitanda stefnanda. Þannig fáist það ekki séð að slys stefnanda verði rakið til annars en eigin vangæslu hennar sjálfrar eða óhappatilviljunar. Verði því að sýkna stefnda af öllum kröfum hennar í málinu. Verði ekki á það fallist er þess krafist að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar. Í því sambandi er á því byggt að vangæsla stefnanda sjálfs leiði að minnsta kosti til þess að henni verði gert að bera tjón sitt að einhverju sjálf verði ekki á það fallist að eigin sök hennar leiði til sýknu.
Við aðalmeðferð gaf stefnandi skýrslu fyrir dómi svo og Haukur Örn Jóhannesson öryggismálafulltrúi Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.
Niðurstaða.
Umdeilt slys varð þann 31. október 1996 kl. 13.15. Lögregla var ekki kölluð á vettvang en Vinnueftirliti ríkisins tilkynnt um slysið 4. nóvember 1996. Tekin var lögregluskýrsla af stefnanda 4. desember 1996 auk þess sem lögreglurannsókn fór fram fyrri hluta árs 2000 þar sem skýrsla var tekin af stefnanda og samstarfsfólki hennar.
Stefnandi kvaðst fyrir dóminum hafa starfað á umræddum vinnustað frá 1994. Tvær aðkomuleiðir hafi verið inn í húsið og hafi hún notast við þá aðkomu sem ætluð sé starfsmönnum á þeirri skrifstofu sem hún starfaði í. Annars hefði hún þurft að ganga í gegnum ferðaskrifstofu í húsinu og hafi það ekki verið vel séð. Hún lýsti atvikum fyrir dómi svo, að hún hafi umrætt sinn verið komin upp efstu tröppuna þegar hún datt á hálku og út af stéttinni. Hún hafi lent á steinsteyptum stokki skammt frá tröppunum. Föl hafi verið á jörðu, mjög hált og hvasst. Ekki hafi verið búið að bera á salt eða sand og ekkert hafi verið til að halda sér í.
Vitnið, Haukur Örn, kvaðst hafa fengið tilkynningu um slysið sama dag og farið á vettvang. Hálkublettir hafi verið á stígnum. Ekki hafi verið talið nauðsynlegt að gera úrbætur á stígnum en fyrir um ári síðan hafi verið sett upp handrið við stíginn að frumkvæði Varnarliðsins. Þess beri að geta að þetta sé ekki aðalinngangur í húsið, en um hann sé gengið beint út á bílastæðið, heldur svokallaður neyðarútgangur. Beri starfsfólki að nota aðalinngang einkum þegar hvasst sé. Þá kvað hann engar upplýsingar fyrirliggjandi um slys á staðnum þrátt fyrir mikla notkun á stígnum fyrir þennan tíma þegar önnur starfsemi var í húsinu.
Í málinu liggja frammi ljósmyndir af vettvangi sem teknar voru við lögreglurannsókn. Þar getur að líta inngang þann sem stefnandi notaði umrætt sinn og merktum sem starfsmannainngangur. Enn fremur má sjá annan inngang í bygginguna sem sagður er ætlaður starfsmönnum „Tour Office“. Telur dómurinn ekki unnt að fallast á með vitninu, Hauki Erni, að inngangur sá er stefnandi notaði umrætt sinn hafi eingöngu verið neyðarinngangur heldur hafi hann almennt verið notaður af starfsfólki sem starfaði þarna megin í húsinu. Þykir það styrkja framburð stefnanda um notkun á þessum inngangi að nú hefur verið sett upp grindverk fram með öllum stígnum samkvæmt ljósmyndum sem frammi liggja í málinu.
Af vottorði veðurstofu að dæma hafði umræddan dag verið vægt frost og lítils háttar snjóél um kl. 12. Vindur var þá 10,8 m/s, sem telst kaldi, og fór lægjandi eftir því sem á daginn leið. Allhvasst var þó í einstaka hviðum.
Af hálfu stefnanda hefur ekki verið sýnt fram á að byggingarreglugerð hafi verið brotin með umbúnaði á tröppunum sem hér um ræðir. Kemur þá til skoðunar hvort vinnuveitandi stefnanda hafi brotið einhverjar sérstakar öryggisráðstafanir við gerð trappnanna eða gangstígsins til að koma í veg fyrir slys af því tagi er hér varð. Í framburði einstakra starfsmanna hjá lögreglu kemur fram að slys hafi áður orðið á gangstígnum en engin gögn eru til um það samkvæmt framburði vitnisins Hauks Arnar.
Stefnandi ber að hún hafi verið komin upp efstu tröppuna þegar hún datt og lenti á stokki. Ljósmyndum af vettvangi sýna að nokkur skref eru frá umræddum tröppum að stokknum. Þykir því nokkur vafi leika á því hvar stefnandi féll.
Það er mat dómsins að ekki hafi verið ljós slysahætta af stígnum eða tröppum þeim sem hér um ræðir þannig að viðhafa þyrfti sérstakan umbúnað af þeim sökum til að varna slysum. Stefnandi hafði starfað á vinnustaðnum frá árinu 1994 og gjörþekkti því aðstæður. Umræddan dag var kaldi og allhvasst í mestu vindkviðum. Þá var lítilsháttar föl á jörðu og vægt frost. Mátti henni því vera ljóst að búast mátti við hálkublettum á leiðinni auk vinds. Við þær aðstæður hefði því verið eðlilegra að nýta aðalinngang hússins enda hefur stefnandi borið fyrir dóminum að hún hafi ætíð haft vara á ef veður var leiðinlegt þar sem vindasamt var á svæðinu. Aðstæður voru því ekki með þeim hætti að lögð verði ábyrgð á slysinu á Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli en rekja má það til óhappatilviljunar. Verður bótaskylda vegna tjóns stefnanda því ekki lögð á vinnuveitenda stefnanda í málinu og ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.