Hæstiréttur íslands
Mál nr. 322/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 15. júlí 2002. |
|
Nr. 322/2002. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Böðvar Bragason lögreglustjóri) gegn X (Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. l. nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. júlí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júlí 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 22. júlí nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærðar úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júlí 2002
Ár 2002, fimmtudaginn 11. júlí, er á dómþing Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Sigurði Halli Stefánssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991 úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 22. júlí 2002, kl. 16.00
Í greinargerð lögreglustjóra segir að í nótt um kl. 2.38 hafi lögreglu verið tilkynnt um grunsamlegar ferðir þriggja manna á bifreiðastæði við Dalsel. Hafi vitni séð þrjá menn fara inn í og reyna að komast inn í bifreiðar. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi hún séð framangreindan X á vettvangi og passaði lýsing vitnis á klæðaburði eins mannanna við klæðaburð X. Þegar kærði hafi orðið lögreglu var hafi hann hlaupið í burtu en náðst skömmu síðar. Reyndist hann hafa meðferðis greiðslukort sem stolið hafði verið úr bifreið í Reykjavík nóttina áður.
Í skýrslu lögreglunnar greinir frá því að í kvöld hafi verið gerð húsleit á heimili kærða og við þá leit fundist þýfi úr bifreiðum og íbúðarhúsnæði.
Rannsókn málsins sá á frumstigi, m.a. eigi lögregla eftir að finna þýfinu stað og taka m.a. frekari skýrslur af kærða. Vegna rannsóknarhagsmuna þyki nauðsynlegt að X sæti gæsluvarðhaldi meðan á rannsókn málsins stendur yfir svo að hann fái ekki tækifæri til að spilla sakargögnum eða hafa samband við aðra þá sem tengst geti málinu eða komist undan.
Kærða liggur undir grun, sem á grundvelli rannsóknargagna telst rökstuddur, um brot sem getur varðað hann fangelsisrefsingu skv. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.
Samkvæmt framangreindu og með vísun í a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 um meðferð opinberra mála er fallist á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, kt. [ ], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 22. júlí 2002, kl. 16.00.
Sigurður Hallur Stefánsson.