Hæstiréttur íslands
Mál nr. 169/2013
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Viðurkenningarkrafa
- Vinnusjúkdómur
|
|
Fimmtudaginn 16. janúar 2013. |
|
Nr. 169/2013. |
Reykjavíkurborg (Kristbjörg Stephensen hrl.) gegn Alberti Ríkarðssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Skaðabótamál. Viðurkenningarkrafa. Vinnusjúkdómur.
A höfðaði mál á hendur R til viðurkenningar á ætlaðri skaðabótaskyldu R vegna tjóns sem A taldi sig hafa orðið fyrir af völdum þess að hann hefði hrakist úr starfi sínu sem kennari við skólann L. Taldi A að astmasjúkdómur sem hann hefði um langt skeið glímt við hefði elnað meðan hann starfaði við skólann sökum ófullnægjandi starfsumhverfis. Hæstiréttur sýknaði R af kröfu A með skírskotun til þess að ekki hefði verið leitt í ljós að loftræsting í smíðastofum skólans hefði verið ófullnægjandi þannig að A hefði verið ókleift að gegna starfi sínu vegna vinnuaðstæðna.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Benedikt Bogason og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. mars 2013. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málsatvikum og málsástæðum aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir starfaði stefndi sem smíða- og myndmenntakennari við Laugarnesskóla frá árinu 1989 þar til hann sagði upp störfum 13. maí 2005. Stefndi vann einkum í smíðastofum í húsum sem voru á skólalóðinni, en fljótlega eftir að hann lét af störfum mun smíðakennslan hafa verið flutt í viðbyggingu við skólann. Voru þá umrædd hús á lóðinni tekin til annarra nota og að hluta rifin. Áður en stefndi hóf störf við skólann hafði hann um árabil glímt við astmasjúkdóm. Stefndi reisir málatilbúnað sinn á því sjúkdómur hans hafi elnað meðan hann starfaði við skólann vegna ófullnægjandi starfsumhverfis. Af þeim sökum hafi hann hrakist úr starfi hjá áfrýjanda og orðið fyrir tjóni. Leitar stefndi eftir því að bótaskylda áfrýjanda á því tjóni verði viðurkennd og var sú krafa tekin til greina með hinum áfrýjaða dómi.
Meðal gagna málsins eru skoðunarskýrslur Vinnueftirlits ríkisins vegna Laugarnesskóla á árunum 1996 til 2004. Í skýrslu eftirlitsins vegna skoðunar 14. október 1996 kom fram að smíðastofurnar væru orðnar heldur fornfálegar og ekki í samræmi við kröfur tímans. Einnig kom fram að afsog vantaði frá póleringavél og málmsmíðaborði og var veittur frestur til úrbóta til 10. janúar 1998. Þessi athugasemd og krafa um úrbætur vegna afsogs frá nefndum vélum var áréttuð í skýrslu eftirlitsins vegna skoðunar 26. nóvember 1997. Í næstu skýrslu vinnueftirlitsins vegna skoðunar 9. nóvember 1998 var felld niður að sinni athugasemd vegna afsogs frá málmsmíðaborði en ítrekuð krafa um að smíðastofur yrðu endurskipulagðar og aðlagaðar nútímakröfum. Ekkert var hins vegar vikið að afsogi frá póleringavél. Í síðari skýrslum eftirlitsins voru ekki gerðar athugasemdir við loftræstingu í smíðastofum. Í bréfi þess 30. mars 2007 kom aftur á móti fram að afsog hefði verið frá trésmíðavélum og loftræsting með opnanlegum gluggum en við það hefðu ekki verið gerðar athugasemdir. Einnig sagði í bréfinu að stjórnendur skólans hefðu upplýst við skoðun vinnueftirlitsins árið 1998 að áformað væri að reisa fljótlega nýja smíðastofu og að málmsmíðaaðstaða væri lítið notuð. Í því ljósi hefði það verið mat eftirlitsins að ekki væri ástæða til að halda til streitu kröfu um staðfundið afsog frá málmsmíðaborði.
Í aðilaskýrslu stefnda fyrir héraðsdómi kom fram að hann hefði ekki notað fyrrgreinda póleringavél og lítið kennt málmsmíði. Að því gættu og þar sem aðrar athugasemdir voru ekki gerðar við loftræstingu í smíðastofum skólans hefur ekki verið leitt í ljós að hún hafi verið ófullnægjandi þannig að stefnda hafi verið ókleift að gegna starfi sínu vegna vinnuaðstæðna. Í því tilliti breytir engu þótt fram hafi komið að húsnæðið hafi verið komið til ára sinna og að tímabært hafi verið að endurnýja það. Þá skiptir heldur ekki máli matsgerð tveggja lækna 4. maí 2011, sem stefndi aflaði til að meta hvort starfsvettvangurinn ætti þátt í þrálátum veikindum hans og elnun þeirra, enda er matsgerðin ekki byggð á skoðun matsmanna á aðstæðum eins og þær voru þegar stefndi starfaði við skólann heldur fyrrgreindum skýrslum Vinnueftirlits ríkisins. Þegar af þessari ástæðu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda.
Eftir atvikum er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Reykjavíkurborg, er sýknuð af kröfu stefnda, Alberts Ríkarðssonar, um að viðurkennt verði að áfrýjandi beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnda vegna starfsloka hans hjá áfrýjanda.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2012.
Mál þetta höfðaði Albert Ríkarðsson, kt. 291044-3639, Kambsvegi 6, Reykjavík, með stefnu birtri 23. maí 2012 á hendur Reykjavíkurborg, kt. 530269-7609. Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 23. nóvember sl.
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi beri skaðabótaábyrgð á fjártjóni stefnanda af ótímabærum starfslokum 13. maí 2005 vegna elnunar veikinda í öndunarfærum sem leiddi af ófullnægjandi aðbúnaði í starfsumhverfi stefnanda við Laugarnesskóla. Þá krefst hann málskostnaðar samkvæmt reikningi að fjárhæð 2.780.562 krónur.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.
Stefnandi er kennari að mennt og var kennari að aðalstarfi um árabil. Hann hóf störf sem handmenntakennari við Laugarnesskóla 1989, en lét af störfum vorið 2005. Mál þetta snýst, eins og kröfugerðin sýnir, um það að stefnandi telur að hann hafi hrakist úr starfi vegna þess að vinnuaðstæður hafi verið óboðlegar og gert honum ókleift að starfa, vegna asma, sem hann er haldinn.
Stefnandi var í fullu starfi frá byrjun, en í stefnu segir að hann hafi oft verið frá vegna veikinda. Staðfesti Jón Freyr Þórarinsson, fyrrverandi skólastjóri það í skýrslu sinni fyrir dómi. Þann 13. desember 2004 rituðu stefndi og skólastjóri Laugarnesskóla undir samkomulag um vinnuframlag stefnanda. Kemur fram að stefnanda sé ekki heimilt að vinna meira en 25% starf, vegna sjúkdóms síns. Samkomulagið skyldi gilda fyrstu sex mánuði ársins 2005. Þann 13. maí 2005 ritaði stefnandi uppsagnarbréf þar sem hann segir starfi sínu lausu. Segir þar að starfslokin séu af heilsufarsástæðum. Hætti stefnandi störfum 1. júní 2005.
Í stefnu er lýst veikindum stefnanda og ítrekuðum innlögnum á lungnadeildir. Hann hefur lagt fram þrjú læknisvottorð, auk matsgerðar dómkvaddra matsmanna, sem síðar verður rakin.
Í vottorði Svans Sveinssonar læknis, dags. 22. desember 2003, sgir að stefnandi hafi slæman asma, sem ekki sé á ofnæmisgrundvelli, heldur vegna óþols fyrir kulda, ryki, sterkri lykt og sérstaklega kvefpestum. Tekið er fram að hann þurfi að vera í hreinu lofti og vel loftræstu húsnæði.
Tvö vottorð Davíðs Gíslasonar, sérfræðings í lyflækningum og ofnæmissjúkdómum, liggja frammi. Í vottorði, dags. 11. maí 2005, segir að stefnandi hafi haft asma á háu stigi til margra ára og einkenni hans að jafnaði verið mun meiri og verri yfir vetrartímann, þegar hann hafi fengist við kennslu. Einkenni hans verði sérstaklega slæm þegar hann kvefist. Því hafi hann átt í vaxandi erfiðleikum með að sinna kennslu og hann sé í meiri hættu að veikjast þegar hann sé í margmenni. Segir loks í vottorðinu að læknirinn hafi eindregið ráðlagt stefnanda að hætta kennslu alveg.
Síðara vottorð Davíðs var ritað að beiðni lögmanns stefnanda og er dags. 20. júlí 2007. Þar segir orðrétt: „ [stefnandi] hefur oft á sjúkdómsferlinum sagt mér að hann hafi unnið í útihýsi frá aðalskólanum frá 1991, og að hann telji að þar hafi allar aðstæður verið mjög ófullnægjandi og skaðlegar heilsunni, sérstaklega við handmenntakennslu. Hann fór að finna fyrir asthma upp úr 1981 en einkenni hans ágerðust mikið á tíunda áratugnum og hann lá mörgum sinnum inni á Vífilsstaðaspítala Sjúkdómsgreining er Asthma bronchiale. [Stefnandi] er, fyrir asthmasjúkling að vera, óvanalega viðkvæmur í öndunarfærum gagnvart margs konar áreiti sem sem ryki, pestarlofti og kvefsýkingum. Þótt ég geti ekki fullyrt um vinnuaðstöðu hans í Laugarnesskóla, því ég hef aldrei skoðað hana, þá hefur hann ítrekað kvartað yfir því að aðstæður í kennslustofunni væru þannig aðþær hafi haft mjög slæm áhrif á asthma einkennin og svara ég því spurningu 2 játandi, að aðstæður á vinnustað hafi átt þátt í versnun einkennanna. Eins og þegar hefur komið fram, fékk hann fyrstu asthma einkenni alllöngu áður en hann fór að kenna við Laugarnesskóla og því voru aðstæður þar ekki orsök veikindanna þótt þær hafi haft áhrif á framvindu þeirra. Eftir að hann hætti kennslu hefur heilsufar hans batnað talsvert en [stefnandi] er þó ennþá afar viðkvæmur fyrir öllu áreiti og loftvegasýkingum, og hann hefur nokkrum sinnum legið inni á lungnadeild LSH eftir að hann hætti kennslu.“
Davíð staðfesti vottorð sín fyrir dómi. Hann sagði að stefnandi hefði haft astma á mjög háu stigi. Hann hefði oft kvartað við sig út af aðstæðum í kennslustofunni, en Davíð kvaðst ekki hafa skoðað þær. Stefnanda hefði liðið betur eftir að hann hætti störfum.
Að beiðni stefnanda voru læknarnir Sigurður Þór Sigurðsson og Stefán Þorvaldsson dómkvaddir þann 18. júní 2010 til að meta hvort starfsumhverfi í Laugarnesskóla hafi átt þátt í þrálátum veikindum [stefnanda] eða elnun þeirra. Stefndi kom fram sem matsþoli. Matsgerð þeirra er dags. 4. maí 2011.
Er matsmenn skoðuðu vettvang í Laugarnesskóla hafði aðstöðu verið breytt. Smíðastofur voru ekki lengur í afhýsinu sem svo er kallað, en í því var aðstaða fyrir starf með nemendum eftir reglulegan skólatíma. Þá höfðu allar vélar verið fjarlægðar. Loftræstitúður voru á byggingunni, en ekki loftræstikerfi. Þá voru opnanlegir gluggar.
Matsmenn höfðu framangreind læknisvottorð undir höndum, auk þess sem þeir skoðuðu stefnanda. Þá höfðu þeir afrit af skýrslum Vinnueftirlits ríkisins, dags. 14. október 1996, 26. nóvember 1997, 9. nóvember 1998 og 25. september 2000.
Í matsgerðinni segir orðrétt: „Erfitt er að meta aðstæður á vinnustað [stefnanda] með vissu. Aðstaða til smíðakennslu hefur verið færð úr því húsnæði sem hún var í áður og aðstaða hefur þar öll breyst allmikið. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá Vinnueftirliti má þó draga þær ályktanir að aðstaða hafi nokkuð verið komin til ára sinna og loftræsting einungis verið um glugga þó vissulega hafi verið til staðar afsog frá trésmíðavélum. Líklegt má telja að loft hafi verið nokkuð þungt í vinnuaðstöðunni og ryk nokkuð. Fram kemur að einkenni [stefnanda] hafi versnað töluvert eftir að hann hóf störf sem smíðakennari. Einnig hefur komið fram að einkenni hafi lagast í fríum og eftir að hann hætti störfum. Því má daga þá ályktun að vinnuaðstaða hafi valdið versnun á einkennum [stefnanda] að minnsta kosti tímabundið. Einkenni [stefnanda] hafa verið stöðug nú um nokkurt skeið og virðast hafa lagast allmikið eftir að hann hætti störfum. Líklegt má telja að ekki verði frekari breyting á sjúkdómsástandi nú en orðið er, hvorki til versnunar né batnaðar.“
Í samandreginni niðurstöðu svara matsmenn meginspurningu matsbeiðanda þannig að þeir telji að starfsvettvangur hafi haft óæskileg áhrif á sjúkdóm stefnanda og átt þátt í því að einkenni hans og sjúkdómur versnuðu til muna eftir að hann hóf störf sem myndmennta- og smíðakennari.
Matsmennirnir komu báðir fyrir dóm og staðfestu matsgerð sína. Báðir skýrðu þeir matsgerðina svo að með starfsvettvangi ættu þeir við aðstæður eins og þær sem stefnanda voru búnar í Laugarnesskóla. Þeir töldu að yfirleitt ættu asmasjúklingar að geta unnið við smíðar og smíðakennslu. Þá staðfestu þeir að stefnandi hefði verið greindur með asma áður en hann hóf störf í skólanum.
Stefnandi aflaði gagna frá Vinnueftirliti ríkisins um skoðanir á smíðastofum í Laugarnesskóla.
Í reglubundinni skoðun 20. mars 1996 er gerð athugasemd um öryggi við afréttara og einn rennibekk.
Í reglubundinni skoðun 14. október 1996 var sagt almennum orðum að smíðastofur væru fornfálegar. Þá var sagt að afsog vantaði frá póleringavél og koma skyldi upp afsogi frá málmsmíðaborði. Frestur var veittur til hvors tveggja til 10. janúar 1997.
Í reglubundinni skoðun 26. nóvember 1997 var átalið að engar úrbætur hefðu verið gerðar eftir síðustu skoðun. Aftur var gerð krafa um afsog frá póleringavél og málmsmíðaborði. Var veittur frestur til úrbóta til 10. janúar 1998.
Í reglubundinni skoðun 9. nóvember 1998 er bókað að ítrekuð sé krafa um að smíðastofur verði endurskipulagðar og aðlagaðar nútímakröfum.
Í reglubundinni skoðun 25. september 2000 segir að fyrirhugað sé að flytja smíðastofur í viðbyggingu sem ætlunin sé að reisa. Er óskað eftir tímasettri áætlun um það hvenær nýju smíðastofurnar verði teknar í notkun.
Loks er í reglubundinni skoðun 5. nóvember 2001 bókað að beðið verði með að framfylgja kröfum um aðbúnað, m.a. í smíðastofum.
Í skoðunarskýrslum árin 2002, 2003 og 2004 koma ekki fram athugasemdir um loft í smíðastofum.
Stefndi lagði fram afrit af skýrslum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar um eftirlit með húsnæði Laugarnesskóla. Í skýrslum þessum eru ekki gerðar athugasemdir við loftræstingu í smíðastofum. Í skýrslu 26. mars 2001 segir Gunnar Kristinsson heilbrigðisfulltrúi að loftræsting sé í lagi. Í skýrslu 13. febrúar 2003 segir orðrétt: „ hefur verið kvartað yfir loftræstingu í smíðastofu. Farið var yfir loftræstinguna þar og kom í ljós að hún á að vera í lagi. Ástæða kvörtunar er að annar smíðakennarinn er með astma og þolir illa ryk.“ Gunnar kom fyrir dóm og staðfesti að eftirlit heilbrigðiseftirlitsins miðaðist fyrst og fremst við aðstöðu nemenda í skólanum, ekki starfsmanna.
Stefnandi sagði í aðilaskýrslu sinni að hann hefði greinst með asma 1982. Hann hefði ekki háð sé fyrr en hann hóf störf í Laugarnesskóla. Aðbúnaður þar hefði ekki verið góður. Í smíðastofunum hafi ekki verið loftræsting og það hefði verið fúkki. Það hafi verið röð með opnanlegum gluggum uppi í kverk, en það hefði myndast hvirfill inni í stofunni ef gluggarnir voru opnaðir. Þá hefði vantað afsog frá vélunum. Hann kvaðst hafa gert margar tilraunir til að fá skólastjórnendur til að lagfæra aðstöðuna, en það hefði ekki verið gert. Myndmenntastofan hefði ekki verið betri fyrir sig, þar hefði verið sveppur í gluggum.
Stefnandi kveðst oft hafa verið lagður inn á sjúkrahús á meðan hann starfaði í skólanum. Ástand sitt hefði lagast fljótlega eftir að hann hætti. Hann hefði kennt smávegis í Ölduselsskóla og það hefði gengið vel. Aðstaðan þar væri góð.
Stefnandi sagði að það hefði verið lagt að sér að hætta. Hann hefði ekki viljað skrifa undir samning um skert vinnuframlag og breytt verkefni, en gert það eftir þrýsting. Það hefði svo ekki staðist neitt sem stefnt hefði verið að. Hann hefði loks sagt upp, eftir ráðleggingum Davíðs Gíslasonar læknis. Hann sagði að Helgi Grímsson skólastjóri hefði viljað að hann hætti.
Sérstaklega aðspurður kvaðst stefnandi hafa verið hættur í hestamennsku áður en hann byrjaði að kenna í Laugarnesskóla. Konan hans stundaði hestamennsku og hann hjálpað henni stundum.
Jón Freyr Þórarinsson var skólastjóri í Laugarnesskóla til 2001. Hann sagði að þegar stærri smíðastofan hefði verið byggð hefði ekki verið krafist loftræstingar. Hann kvaðst ekki muna eftir því að stefnandi eða Rúna Björg Garðarsdóttir hefðu kvartað yfir stofunni. Stefnandi hefði oft verið frá vinnu vegna veikinda. Það hefði verið vitað að hann var með asma. Ekki hefði verið rætt um að setja loftræstikerfi í smíðastofurnar. Það hefði verið sett afsog á vélarnar í stærri stofunni, en það hefði kostað margra ára baráttu.
Jón Freyr kannaðist við að Vinnueftirlitið hefði gert athugasemdir. Sagði hann þær m.a. hafa beinst að öryggi. Þá hefði staðið til að byggja nýtt hús við skólann og verið freistandi að fresta einhverjum framkvæmdum. Því hefði ekki verið brugðist við athugasemdum Vinnueftirlitsins.
Rúna Björg Garðarsdóttir grunnskólakennari gaf skýrslu. Hún hóf störf í Laugarnesskóla 1998 og var smíðakennari við hlið stefnanda. Hún sagði að það hefði verið vont loft, klóaklykt og fúkki í smíðastofunni. Það hafi ekki verið nein loftræsting, en frásog frá vélunum, sem hafi samt ekki náð öllu rykinu. Hún kvaðst hafa kvartað yfir aðstöðunni, en verið sagt að til stæði að byggja nýtt hús. Hún minntist þess ekki að hafa heyrt af athugasemdum Vinnueftirlitsins.
Þá gaf Helgi Grímsson skýrslu fyrir dóminum, en hann var skólastjóri frá 1. ágúst 2001 til ársloka 2004. Hann samdi við stefnanda um að hann færi í 25% starf, en hann kvaðst hafa vitað um veikindi hans. Það hefði verið gert eftir að stefnandi kom með læknisvottorð um að hann gæti ekki unnið meira en það. Þessi samningur hefði ekki verið gerður að ósk stefnanda.
Málástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi telur sig hafa aflað gagna sem staðfesti að skólayfirvöldum hafi verið ljóst, eða átt að vera ljóst, að starfsumhverfi sem stefnanda var búið hafi verið ófullnægjandi og farið í bága við reglur um hollustuhætti á vinnustöðum.
Stefnandi vísar til meginreglna skaðabótaréttar. Hann segir að stefnda hafi verið kunnugt um heilsufarsvandamál sín, hafi vitað eða mátti vita að aðbúnaðarinn væri líklegur til þess að valda stefnanda heilsutjóni. Stefndi hafi hvorki gert reka að því að lagfæra aðbúnað né upplýst stefnanda um vitneskju sína. Margvíslegar athugasemdir hafi um margra ára skeið verið gerðar, en stefndi ekki bætt úr.
Stefnandi telur að greiðsla stefnda á lausnarlaunum í samræmi við kjarasamning leysi hann ekki undan skaðabótaskyldu.
Stefnandi byggir á því að ófullnægjandi aðbúnaður á vinnustað hafi verið meðvirkandi orsök að elnun þrálátra veikinda sinna. Áður hafi sér gengið vel að halda sjúkdómnum í skefjum. Ef skólayfirvöld hefðu brugðist við alvarlegum og ítrekuðum athugasemdum Vinnueftirlitsins megi leiða að því líkur að heilsa sín hefði verið betri og ekki leitt til ótímabærra starfsloka.
Stefnandi telur að skólayfirvöld hafi bæði átt að bregðast við fyrirmælum Vinnueftirlitsins, en einnig hafi þau átt að hafa frumkvæði að því að tryggja öryggi starfsmanna sinna. Vísar hann hér til 13. gr. laga nr. 46/1980 og kafla V - VIII. Skýrar umsagnir Vinnueftirlitsins hefðu átt að gera skólayfirvöldum ljóst að veikindi istefnanda mætti rekja til aðbúnaðarins. Vanræksla skólayfirvalda hafi verið stórfellt brot á skráðum jafnt sem óskráðum hátternisreglum sem miði að því að vernda heilsu starfsmanna. Þá hafi það að færa stefnanda í skert starf á útmánuðum 2005 síst verið til þess fallið að búa honum betra starfsumhverfi.
Stefnandi byggir á því að framlögð matsgerð tveggja lungnalækna staðfesti að starfsvettvangur stefnanda hafi haft óæskileg áhrif á sjúkdóms hans og hafi átt þátt í því að einkenni hans og sjúkdómur versnuðu til muna eftir að hann hóf störf sem myndmennta- og smíðakennari. Hann bendir á að slegið hafi á einkennin eftir að hann hætti störfum. Frásogi frá vélum, loftræsting húsnæðis og öllum aðbúnaði hafi verið svo áfátt að hann hafi hrökklast úr starfi. Hann segir að skaðabætur megi dæma að fullu, þótt þáttur hins skaðabótaskylda hafi einungis verið meðvirkandi orsök.
Stefnandi segir það vera meginreglu að tjónvaldur beri ábyrgð á tjóni sem hann valdi, jafnt þótt hinir lögvörðu hagsmunir hafi verið óvenju viðkvæmir.
Í stefnu var krafist tiltekinnar fjárhæðar í bætur fyrir fjárhagslegt og einnig ófjárhagslegt tjón. Þar sem kröfugerð var breytt er ekki nauðsynlegt að fjalla um þessi atriði í dóminum.
Stefnandi vísar til almennra reglna skaðabótaréttar, skaðabótalaga nr. 50/1993 og laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980. Þá vísar hann til kjarasamnings Kennarasambands Íslands og launanefndar sveitarfélaga. Loks vísar hann til reglugerðar nr. 540/2011 um tilkynningu og skráningu atvinnusjúkdóma, reglugerðar nr. 390/2009 um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun á vinnustöðum, reglugerðar nr. 320/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndar starfs á vinnustöðum og reglugerðar nr. 534/2004 um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum efna á vinnustöðum, sbr. reglugerð nr. 286/2006.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir í fyrsta lagi á því að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni. Stefnandi hafi ekki mætt kröfum skaðabótalaga um mat á líkamstjóni og ófjárhagslegu tjóni. Hann hafi ekki sýnt fram á að geta sín til að afla tekna sé varanlega skert. Í greinargerð er nánar fjallað um meinta skerðingu á vinnugetu stefnanda, en ekki er nauðsynlegt að reifa nánar þetta atriði, eftir að stefnandi breytti kröfugerð sinni.
Stefndi byggir á því að hann hafi ekki sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi. Stefnandi vísi til aðbúnaðar á vinnustað án þess að skýra það nánar. Loftræsting í húsakynnum skólans hafi verið eins og víðast annars staðar, með opnanlegum gluggum. Á meðan stefnandi starfaði í skólanum hafi Vinnueftirlitið einungis gert þrjár athugasemdir er lutu að innilofti í smíðastofunni. Þær hafi fjallað um afsog frá póleringavél, afsog frá málmsmíðaborði og hlífar á vél og borðsög. Engar almennar athugasemdir hafi verið gerðar um loftræstingu. Í eftirlitsskýrslum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 26. mars 2001 og 13. febrúar 2003, sé sérstaklega tekið fram að loftræsting smíðastofu sé í lagi.
Þótt húsnæði sé komið til ára sinna sé það ekki hættulegt heilsu manna sem þar dveljist. Ekki sé vitað til þess að nokkur hafi veikst vegna ástands hússins. Hvorki Vinnueftirlitið né Heilbrigðiseftirlitið telji húsnæðið hættulegt. Kafa um afsog frá málsmíðaborði hafi verið felld niður 1998 og 2001 hafi verið ákveðið að bíða með að framfylgja kröfum er vörðuðu smíðastofuna. Fram komi í svari Vinnueftirlitsins við fyrirspurn stefnanda að ekki hafi verið ástæða til að gera athugasemdir við fyrirkomulag loftræstingar í smíðastofunni. Ekki hafi komið til þess að krafist væri lokunar stofunnar.
Stefndi byggir á því að ósannað sé að meint líkamstjón stefnanda sé sennileg afleiðing af háttsemi stefnda. Engin gögn liggi fyrir til sönnunar á orsakatengslum, hvorki læknisfræðileg gögn né önnur. Stefnandi beri hér sönnunarbyrðina.
Stefndi segir að matsgerðin staðfesti að starfsvettvangur stefnanda hafi haft óæskileg áhrif á sjúkdóm hans og átt þátt í því að einkenni versnuðu eftir að hann hóf störf sem myndmennta- og smíðakennari. Hér sé ekki talað um aðbúnað á vinnustað stefnanda í Laugarnesskóla. Þá sé ekki fram komið vottorð læknis sem staðfesti að asmaeinkenni stefnanda verði rakin til aðbúnaðar á vinnustaðnum.
Ekki er tilefni til að fjalla um varakröfu stefnda um lækkun á þessu stigi, nema að því leyti sem hún byggir á eigin sök stefnanda.
Meðábyrgð stefnanda, sbr. 1. mgr. 23. gr. a skaðabótalaga, byggir stefndi annars vegar á vali stefnanda á starfsvettvangi, smíðakennsla sé ekki heppilegt starf fyrir asmasjúkling. Þá hafi stefnandi sjálfur gengið illa um starfsstöð sína. Slæm umgengni hans hafi án efa haft áhrif á asma hans, en fram komi í kvörtun til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að annar smíðakennarinn sé með asma og þoli illa ryk. Þá hafi Heilbrigðiseftirlitið gert athugasemdir um slæma umgengni í smíðastofunni árin 2001 og 2005. Þá hafi stefnandi stundað hestamennsku. Það sé þekkt að ryk úr heyi og dýrahár geti haft slæm áhrif á þá sem séu veikir fyrir í öndunarfærum.
Niðurstaða
Stefnandi gerði samning við skólastjóra Laugarnesskóla um breytt starf og minna starfshlutfall þann 13. desember 2004. Með bréfi 13. maí 2005 sagði hann upp störfum og hætti. Ekki er skýrlega upplýst hversu mikið stefnandi hefur unnið síðan hann hætti í Laugarnesskóla, en það virðist hafa verið stopult.
Skýrlega kemur fram að heilsa stefnanda hefur lagast eftir að hann hætti störfum. Matsmenn draga þá ályktun af gögnum og atvikum, svo og eigin skoðun á stefnanda, að vinnuaðstæðurnar í smíðastofunni í Laugarnesskóla hafi haft neikvæð áhrif á heilsu stefnanda. Í matsgerð er orðalag um þetta atriði vissulega ónákvæmt eins og stefndi hefur borið fyrir sig, en í skýrslum beggja matsmannanna fyrir dóm kom fram að þeir teldu að stefnandi gæti og hefði getað unnið við smíðakennslu við betri aðstæður en voru í skólanum. Sömu ályktun dregur Davíð Gíslason, sérfræðingur í lyflækningum og ofnæmissjúkdómum, sem oft hefur annast stefnanda í veikindum hans. Hann tók þó fram að hann hefði aldrei skoðað aðstæður í skólanum.
Að framan eru raktar athugasemdir Vinnueftirlitsins. Lagðar hafa verið fram skýrslur eftirlitsins um nokkrar skoðanir, en ekki hefur verið gefið heildstætt yfirlit um allar skoðanir á smíðastofunni á þeim tíma sem stefnandi starfaði í skólanum. Fram kemur að afsog vantaði frá póleringavél og málmsmíðaborði. Var í tvígang gerð athugasemd við það, en svo virðist sem ekki hafi verið bætt úr. Jón Freyr Þórarinsson sagði í skýrslu sinni að afsog hefði verið sett á vélar, en ekki kom fram hvenær það hefði verið gert. Svo virðist sem um langt skeið hafi Vinnueftirlitið séð í gegnum fingur sér með ýmsa vankanta á smíðastofunni, vegna þess að ný yrði bráðlega reist. Ekki kemur fram í gögnum málsins nánari frásögn af nýbyggingu þessari og áætlunum um hana, en hafi aðstæður verið ófullnægjandi dugar ekki að benda á hugmyndir um byggingu nýs húss.
Stefnandi staðhæfir að það hafi verið vont loft í smíðastofunni og Rúna Björg Garðarsdóttir bar á sama veg og kvaðst hafa kvartað yfir aðstæðunum.
Að þessu sögðu verður að telja sannað að vinnuaðstæður í Laugarnesskóla hafi haft svo slæm áhrif á heilsu stefnanda að þær hafi orðið til þess að hann hætti störfum. Honum hafi verið ókleift að vinna við þær aðstæður sem voru í skólanum.
Ósannað er að aðrir þættir hafi haft umtalsverð neikvæð áhrif á heilsu stefnanda. Gögn og atvik benda til þess að heilsa stefnanda hafi batnað á sumrin þegar hann var ekki í skólanum og eftir að hann hætti störfum. Verður því að telja augljóst að orsakasamhengi sé milli vanrækslu skólayfirvalda og þess að stefnandi neyddist til að hætta störfum.
Yfirmenn skólans þekktu athugasemdir Vinnueftirlitsins, en létu hjá líða að bæta úr. Þeir vissu einnig um vanheilsu stefnanda og athugasemdir Rúnu Bjargar Garðarsdóttur. Stefnandi var ítrekað frá vinnu vegna veikinda. Þrátt fyrir þetta ástand var ekki reynt að finna bót á vinnuaðstæðum. Á vinnuveitanda hvílir sú skylda að tryggja starfsmönnum sínum að vinnuumhverfi þeirra sé öruggt og ekki heilsuspillandi. Eru skyldur þessar að nokkru lögfestar með lögum nr. 46/1980. Vegna þess að stefndi hefur vanrækt lög- og samningsbundna skyldu sína og þessi vanræksla leitt til þess að stefnandi neyddist til að láta af störfum, verður að viðurkenna bótaskyldu stefnda vegna hinna ótímabæru starfsloka. Er bótaábyrgðin nánar afmörkuð í dómsorði.
Ekki er unnt að fella ábyrgð að hluta til á stefnanda sjálfan, en niðurstaða dómsins er byggð á því að einfalt sé að búa aðstæður svo við smíða- og aðra handavinnukennslu að sjúkdómur stefnanda plagi hann ekki sérstaklega vegna starfsins.
Eftir þessum úrslitum verður að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað. Kostnaður af framangreindri matsgerð nam 883.867 krónum. Er málskostnaður í heild, að viðbættum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun, hæfilega ákveðinn 1.800.000 krónur.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Viðurkennd er bótaskylda stefnda, Reykjavíkurborgar, vegna fjártjóns stefnanda, Alberts Ríkarðssonar, af ótímabærum starfslokum hans í Laugarnesskóla 13. maí 2005.
Stefndi greiði stefnanda 1.800.000 krónur í málskostnað.