Hæstiréttur íslands

Mál nr. 100/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Félagsslit
  • Verðbréfafyrirtæki
  • Kröfulýsing
  • Málsástæða
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. apríl 2003.

Nr. 100/2003.

Burnham International á Íslandi hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

gegn

Framtaki fjárfestingarbanka hf.

(Gestur Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Félagsslit. Verðbréfafyrirtæki. Kröfulýsing. Málsástæður. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun máls frá héraðsdómi.

 

Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem viðurkennd var við félagsslit B skaðabótakrafa F. Forveri F hafði gert samning árið 1997 við forvera B um „vörslu, umsýslu og ávöxtum tiltekinna fjármuna“ F. B var svipt starfsleyfi til verðbréfaviðskipta í nóvember 2001 og tekið til skipta eftir reglum um slit fyrirtækja í verðbréfaþjónustu. Á kröfulýsingarfresti kom m.a. fram krafa frá F þar sem lýst var sem almennri kröfu „kröfu skv. Burnhamsvíxli“. Í síðara bréfi F til skiptastjóra reisti F sömu kröfu einnig á þeirri málsástæðu að B væri skaðabótaskylt gagnvart sér. Á skiptafundi í apríl 2002 viðurkenndi skiptastjóri kröfu F sem almenna kröfu, en hafnaði bótaábyrgð B vegna viðskiptanna. Var talið að F gæti ekki nú haldið kröfu sinni, sem þegar hafði verið viðurkennd, til streitu með málsókn fyrir dómi til þess eins að fá úr því leyst hvort það skyldi gert á grundvelli einnar málsástæðu sinnar fremur en annarrar, sbr. meginreglu 1. mgr. 98. gr. laga um meðferð einkamála. Hafði F því ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, svo sem það hafði verið lagt fyrir dómstóla, og var málinu vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. mars 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2003, þar sem viðurkennd var við félagsslit sóknaraðila skaðabótakrafa varnaraðila að fjárhæð 5.240.000 krónur með nánar tilteknum vöxtum. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og áðurgildandi 59. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti með áorðnum breytingum. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði að viðurkenna fyrrgreinda kröfu varnaraðila og að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð og málskostnaður á báðum dómstigum falli niður.

Varnaraðili, sem áður mun hafa heitið Eignarhaldsfélagið Alþýðubankinn hf. og Þróunarfélag Íslands hf., krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.

I.

Samkvæmt gögnum málsins gerði varnaraðili, sem þá hét Eignarhaldsfélagið Alþýðubankinn hf., samning 23. desember 1997 við Handsal hf. um „vörslu, umsýslu og ávöxtun tiltekinna fjármuna“ varnaraðila. Í sérstökum viðauka við samninginn var kveðið á um það hvers konar verðbréf félagið mætti kaupa í þágu varnaraðila. Að því er innlend verðbréf varðaði kom þar fram að með nánari takmörkunum mættu þetta vera skuldabréf útgefin af sveitarfélögunum eða með ábyrgð þeirra, skuldabréf banka eða annarra fjármálastofnana, óveðtryggð skuldabréf fyrirtækja og skuldabréf tryggð með fasteignaveði. Fólst í ákvæðum samningsins að slík viðskipti væru ekki háð samþykki varnaraðila hverju sinni. Á grundvelli þessa samnings virðist varnaraðili hafa síðan átt viðskipti óslitið við Handsal hf. þar til þau atvik gerðust, sem rakin eru hér síðar, en þegar nokkuð var liðið á þetta tímabil var nafni félagsins breytt í Burnham International á Íslandi hf.

Í yfirliti frá sóknaraðila til varnaraðila 23. janúar 2001 um verðbréf þess síðarnefnda í vörslum félagsins í lok undangengins árs kom fram að varnaraðili hafi þá átt þar verðbréf að andvirði samtals 119.239.477 krónur, þar á meðal víxil, sem þar var tilgreindur með lýsingunni „S004048 Burnham Int.L“, að nafnverði 5.000.000 krónur. Þessa víxils og annarra samsvarandi var eftir þetta getið í mánaðarlegum yfirlitum um verðbréfaeign varnaraðila í vörslum sóknaraðila, en þó þannig að númer víxla urðu önnur þegar fram liðu stundir og fjárhæðir ekki þær sömu. Í síðasta yfirlitinu, sem tók mið af verðbréfaeign varnaraðila 28. nóvember 2001, var getið um víxil af þessum toga, sem bar númerið S004203 og var að nafnverði 5.240.000 krónur.

Sóknaraðili mun hafa verið sviptur starfsleyfi til verðbréfaviðskipta 27. nóvember 2001. Sama dag mun hafa gengið úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur um að félagið væri tekið til skipta eftir reglum um slit fyrirtækja í verðbréfaþjónustu, sbr. áðurnefnda 59. gr. laga nr. 13/1996, eins og þeim hafði verið breytt með 7. gr. laga nr. 163/2000. Skiptastjóri, sem skipaður var til að fara með félagsslitin, gaf út innköllun vegna þeirra. Á kröfulýsingarfresti kom meðal annars fram krafa frá varnaraðila í bréfi 14. janúar 2002, þar sem sagði að lýst væri „kröfu skv. Burnhamsvíxli að höfuðstól kr. 5.240.000 pr. 19. september 2001 auk dráttarvaxta frá gjalddaga til greiðsludags og innheimtuþóknunar“. Sagði enn fremur að kröfunni væri lýst sem almennri kröfu og að hún væri reist á yfirliti um fjárvörslu fyrir varnaraðila og ljósriti af víxli, en frumrit hans yrði sent skiptastjóra þegar varnaraðila hefði borist það.

Í málinu liggur fyrir annað bréf varnaraðila til skiptastjórans, einnig dagsett 14. janúar 2002, þar sem vísað var til þess að varnaraðili hafi lýst kröfu á hendur sóknaraðila samkvæmt víxli, sem félagið væri greiðandi að. Varnaraðili kvað sóknaraðila munu hafa stofnað til þessarar skuldbindingar á árinu 2001 með því að taka til sín fjármuni, sem hann hafi haft í vörslum sínum fyrir varnaraðila, og notað þá til að kaupa víxil, sem hann sjálfur væri greiðandi að. Varnaraðila væri ókunnugt um hver stjórnenda sóknaraðila hafi ákveðið þessi kaup, en varnaraðili teldi á hinn bóginn ljóst að þau hafi verið sóknaraðila óheimil, bæði samkvæmt áðurnefndum samningi frá 23. desember 1997 og ákvæðum III. kafla laga nr. 13/1996. Teldi því varnaraðili bæði félagið og starfsmenn þess skaðabótaskylda við sig af þessum sökum, en tjón hans væri óljóst vegna óvissu um hvort eitthvað kynni að fást greitt upp í víxilkröfu hans á hendur sóknaraðila. Sagði síðan eftirfarandi í bréfinu: „Upplýst er að verðbréfafyrirtækið var með í gildi hjá Sjóvá-Almennum tryggingum vátryggingu sem tryggir viðskiptamenn þess fyrir tjóni við aðstæður sem þessar. Samkvæmt skilmálum tryggingarinnar skal setja fram kröfu gegn forsvarsmönnum verðbréfafyrirtækisins (directors and officers) áður en krafa er gerð á hendur vátryggjandanum. Slík krafa er hér með sett fram. Er þess hér með óskað að þér gerið þeim forsvarsmönnum félagsins, sem hér kunna að hafa átt hlut að máli, kunnugt um kröfu þessa.“

Í skrá um lýstar kröfur á hendur sóknaraðila, sem skiptastjóri gerði 14. mars 2002, greindi hann frá þeirri afstöðu að hafna ætti áðurnefndum kröfum varnaraðila, sem væru „bótakröfur-víxill“ að fjárhæð 5.240.000 krónur. Á skiptafundi, sem skiptastjóri hélt 22. sama mánaðar, komu fram mótmæli varnaraðila gegn þessari afstöðu. Skiptafundur var haldinn á ný 19. apríl 2002 til að leitast við að jafna ágreining um lýstar kröfur, þar á meðal kröfu varnaraðila. Í fundargerð var eftirfarandi tekið fram varðandi umfjöllun um þessa kröfu og tvær aðrar, sem sams konar ágreiningur stóð um: „Skiptastjóri ákveður að breyta afstöðu sinni og samþykkja kröfurnar sem almennar kröfur með þeim fjárhæðum sem koma fram í kröfulýsingum. Skiptastjóri viðurkennir þó ekki að Burnham á Íslandi hf. hafi bakað sér bótaábyrgð vegna þeirra viðskipta sem liggja að baki kröfunum. Lögmenn kröfuhafa mótmæla þessari afstöðu skiptastjóra og telja að um bótaskylt tjón sé að ræða sem falli undir þær tryggingar sem Burnham á Íslandi hf. hafi keypt af Sjóvá-Almennum hf.“ Var enn ákveðið að reyna að jafna þennan ágreining á síðari skiptafundi, sem var haldinn 20. ágúst 2002. Sú viðleitni bar ekki árangur og beindi skiptastjóri ágreiningsefninu til Héraðsdóms Reykjavíkur 27. sama mánaðar. Af þessu tilefni var mál þetta þingfest þar fyrir dómi 20. september 2002.

II.

Með bréfi 4. desember 2002 tilkynnti skiptastjóri Héraðsdómi Reykjavíkur að farið yrði með slit á sóknaraðila eftir ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti, þar sem eignir félagsins muni ekki nægja til að efna viðurkenndar kröfur. Samkvæmt þessu og með vísan til 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 gilda almennar reglur laga nr. 21/1991 meðal annars um lýstar kröfur á hendur sóknaraðila, meðferð þeirra og réttaráhrif þeirrar málsmeðferðar.

Samkvæmt þeim meginreglum, sem búa meðal annars að baki ákvæðum 116. gr. og 117. gr. laga nr. 21/1991, hefur lýsing kröfu fyrir skiptastjóra við gjaldþrotaskipti, eftirfarandi meðferð hans á kröfunni og eftir atvikum úrlausn dómstóla um viðurkenningu hennar í máli samkvæmt 5. þætti laganna samsvarandi áhrif og ef einkamál væri höfðað um kröfuna, það hlyti meðferð fyrir dómi og niðurstaða væri þar fengin eftir almennum reglum, eftir atvikum með dómsúrlausn. Í áðurnefndri kröfulýsingu varnaraðila 14. janúar 2002 gerði hann kröfu um að viðurkenndur yrði réttur hans til greiðslu úr hendi sóknaraðila á 5.240.000 krónum með dráttarvöxtum frá 19. september 2001 og innheimtukostnaði og yrði þessum rétti hans skipað í réttindaröð eftir 113. gr. laga nr. 21/1991. Í þessu bréfi til skiptastjóra reisti varnaraðili kröfu sína á þeirri málsástæðu að hann ætti kröfurétt á hendur sóknaraðila samkvæmt víxli. Í síðara bréfi frá sama degi reisti varnaraðili á hinn bóginn sömu kröfu einnig á þeirri málsástæðu að sóknaraðili væri skaðabótaskyldur gagnvart sér. Á skiptafundi 19. apríl 2002 lýsti skiptastjóri sem áður segir þeirri afstöðu að hann viðurkenndi kröfu varnaraðila sem almenna kröfu með fyrrgreindri fjárhæð. Með þessu samþykkti sóknaraðili þá kröfu, sem gerð var á hendur honum. Getur varnaraðili ekki nú haldið kröfu sinni, sem þegar er viðurkennd, til streitu með málsókn fyrir dómi til þess eins að fá úr því leyst hvort það skuli gert á grundvelli einnar málsástæðu sinnar fremur en annarrar, sbr. meginreglu 1. mgr. 98. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hefur varnaraðili því ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þessa máls, svo sem það hefur verið lagt fyrir dómstóla. Verður málinu því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2003.

                Mál þetta var þingfest fyrir 20. september 2002 og tekið til úrskurðar 3. febrúar sl.

                Sóknaraðili er Þróunarfélag Íslands hf. áður Eignarhaldsfélag Alþýðubankans hf., kt. 420171-0139, Síðumúla 28, Reykjavík, en varnaraðili þrotabú Burnham International á Íslandi hf., kt. 550191-1729, Vegmúla 2, Reykjavík.

                Dómkröfur sóknaraðila eru að viðurkennd verði skaðabótakrafa sóknaraðila á hendur varnaraðila að höfuðstól 5.240.000 kr. samkvæmt „kröfulýsingu (bótakröfu) sóknaraðila á hendur varnaraðila dags. 14. janúar 2002."  Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

                Dómkröfur varnaraðila eru aðallega að kröfum sóknaraðila verði hafnað og sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað samkvæmt mati dómsins.  Til vara er þess krafist að fjárhæð skaðabótakröfu sóknaraðila verði lækkuð en málskostnaður verði í því tilviki felldur niður.

Helstu málavextir eru að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2001 var bú varnaraðila tekið til opinberra skipta en félagið var svipt starfsleyfi sama dag, sbr. 62. gr. laga nr. 13/1996, sbr. 7. gr. laga nr. 163/2000.  Sigurmar K. Albertsson hrl. var skipaður skiptastjóri.

                Sóknaraðili lýsti kröfu að höfuðstól 5.240.000 kr. í búið 14. janúar 2002. Kröfuna telur sóknaraðili byggða á svonefndum Burnhamsvíxli, sem varnaraðili hafði samþykkt, en varnaraðili hafi ráðstafað fjármunum, er hann hafði í fjárvörslum fyrir sóknaraðila, til kaupa á víxlinum.  Samtímis var af hálfu sóknaraðila lýst yfir að kaup víxilsins hafi verið heimildarlaus „og félagið sjálft og stjórnendur þess séu bótaskyldir vegna þess tjóns sem kröfuhafinn verði fyrir."

                Í bréfi skiptastjóra til lögmanns sóknaraðila 11. mars 2002 hafnaði hann bótaábyrgð varnaraðila og starfsmanna hans.  Skiptastjóri áréttaði þessa afstöðu sína á skiptafundi 22. mars 2002 og var þessu viðhorfi hans mótmælt.  Á skiptafundi 19. apríl 2002 var þess freistað að jafna þennan ágreining.  Ákvað skiptastjóri að samþykkja kröfuna sem almenna kröfu en ítrekaði höfnun bótaábyrgðar.  Fundi var þá frestað í þeim tilgangi að reyna enn frekar að komast að samkomulagi.  Á skiptafundi 20. ágúst 2002 varð að sögn skiptastjóra hins vegar ljóst að ekki tækist að jafna ágreininginn.  Var því í bréfi skiptastjóra til héraðsdóms 27. ágúst 2002 krafist úrlausnar dómsins um bótaskyldu varnaraðila gagnvart sóknaraðila með vísun til 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, en á skiptafundinum 22. mars 2002 hafði verið ákveðið að með skipti á búi varnaraðila skyldi fara samkvæmt ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991.

Sóknaraðili byggir á því að kaup varnaraðila í nafni sóknaraðila á víxil sem varnaraðili var sjálfur greiðandi að, eins og hér hafi gerst, sé brot á lögum um verðbréfaviðskipti nr. 13/1996, einkum III. kafla laganna, en sérstaklega þó 15. gr. og 19. gr. laganna.  Varnaraðili hafi hvorki gætt skyldu sinnar um fyllstu óhlutdrægni gagnvart sóknaraðila sem viðskiptavinar né haft vara á að hann nyti jafnræðis um upplýsingar, verð og  önnur viðskiptakjör í þessu sambandi.  Þá hafi varnaraðili ekki framfylgt þeirri skyldu fyrirtækis í verðbréfaþjónustu að halda fjármunum sóknaraðila tryggilega aðgreindum frá sínum eigin fjármunum.  Varnaraðili hafi með umdeildri ráðstöfun sinni brotið gegn fjárvörslusamningi aðila og ekkert umboð haft frá sóknaraðila til að ráðstafa fjármunum sóknaraðila á þann hátt sem hér hafi orðið.  Þessi ráðstöfun varnaraðila sé saknæm og ólögmæt og hafi valdið sóknaraðila tjóni sem telja megi að varnaraðili hafi átt að sjá fyrir.

                Þá byggir sóknaraðili á því að fjárvörslusamningur aðila hafi verið saminn af varnaraðila og teljist til staðlaðra samningsskilmála.  Beri því að túlka hann sóknaraðila í hag.  Á það eigi einnig að líta að varnaraðili hafi haft yfir að ráða  sérfræðiþekkingu á sviði verðbréfaviðskipta.  Er varnaraðili lét sóknaraðila kaupa umræddan víxil, hafi forsvarsmönnum varnaraðila verið ljós fjárhagsleg staða fyrirtækisins og vitað að miklar líkur voru á því að víxillinn fengist aldrei greiddur.

Varnaraðili byggir á því að honum hafi verið heimilt að kaupa eigin víxla á þann hátt sem liggi fyrir í málinu að hafi verið gert.  Hafi hann haft þessa heimild samkvæmt fjárvörslusamningi aðila en auk þess hafi starfsmenn varnaraðila haft stöðugt samband við starfsmenn sóknaraðila og rætt þessi kaup sérstaklega við þá.  Eins og fjárvörsluyfirlit sem lagt hafi verið fram í máli þessu bera með sér séu fjölmörg fordæmi fyrir því að sóknaraðili hafi keypt eigin víxla af varnaraðila.  Í samræmi við ákvæði 3. kafla fjárvörslusamnings aðila um upplýsingagjöf varnaraðila til sóknaraðila, hafi mánaðarlega verið send út fjárvörsluyfirlit um allar hreyfingar á fjárvörslureikningi sóknaraðila þar sem þessi viðskipti komi fram ásamt yfirliti yfir víxileign félagsins.  Eins og sjá megi af framlögðum fjárvörsluyfirlitum hafi skilmerkilega verið greint frá kaupum á eigin víxlum varnaraðila og niðurgreiðslu á þeim en auk þess hafi yfirlit yfir víxileign sóknaraðila verið afhent honum.  Þá hafi ekki einungis verið keyptir eigin víxlar af sóknaraðila, heldur einnig af öðrum fyrirtækjum, eins og sjá megi af þessum gögnum.  Sóknaraðili hafi aldrei gert athugasemdir við þessi verðbréfakaup, enda hafi þau í öllum tilvikum hlotið samþykki hans.

Víxill er liggi fyrir í málinu ber með sér að hafa verið gefinn út 19. júní 2001.  Hafa verði í því sambandi í huga að víxillinn sé framlengingarvíxill á eldri víxlum sem keyptir hafi verið af sóknaraðila miklu fyrr.  Af þessu leiði að skilyrðum bótaskyldu um orsakatengsl og sennilega afleiðingu sé ekki fullnægt.

Fari svo að dómur geti ekki fallist á að umrædd viðskipti hafi fallið innan heimilda fjárvörslusamnings aðila og telji ósannað að sóknaraðili hafi samþykkt sérstaklega umrædd viðskipti, þá er því haldið fram að athugasemdalaus framkvæmd þessara viðskipta jafngildi samþykki, a.m.k. hafi varnaraðili í öllu falli mátt ætla að svo væri.  Í þessu sambandi er af hálfu varnaraðila lögð áhersla á þá staðreynd að sóknaraðili starfar sem lánastofnun á grundvelli laga nr. 123/1993.  Um sé að ræða sérfróðan aðila um verðbréfaviðskipti og verður því að gera sérstaklega ríkar kröfur til hans í því ljósi.  Sóknaraðili hafi þannig verið grandsamur í lagalegum skilningi um þessi viðskipti.  Hafi hann ekki samþykkt þessi viðskipti berum orðum þá hafi hann í öllu falli gert það með því að gera engar athugasemdir.

Þá er sérstaklega mótmælt að varnaraðili hafi með umræddum viðskiptum brotið gegn ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti nr. 13/1996 og mótmælt að starfsmenn hans hafi á nokkurn hátt hagað sér með saknæmum hætti í þessum viðskiptum.  Einnig er mótmælt að sóknaraðili hafi orðið fyrir tjóni sem rekja megi til saknæmrar hegðunar starfsmanna varnaraðila eða annarra aðila á hans vegum.  Staðhæft er að varnaraðili hafi ávallt gætt fyllstu óhlutdrægni í samskiptum sínum við sóknaraðila og hagað störfum sínum þannig að sóknaraðili sem og aðrir viðskiptamenn varnaraðila nytu jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör í verðbréfaviðskiptum á vegum varnaraðila, sbr. 15. gr. laga nr. 13/1996.  Sóknaraðili hafi ávallt, eins og gögn málsins beri raunar með sér, fengið greinargóðar upplýsingar um þau viðskipti sem fram hafi farið fyrir hans hönd, sbr. 15. gr. sömu laga og 3. kafla fjárvörslusamnings aðila.  Varnaraðili hafi fengið skriflegt umboð í samræmi við skilyrði 19. gr. laga nr. 13/1996 og sé þar enga takmörkun að finna á heimild til kaupa á eigin víxlum varnaraðila.  Sóknaraðili geti því ekki borið við umboðsskorti nú, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 13/1996.

Áréttað sé að þess hafi verið gætt af hálfu varnaraðila að halda fjármunum sóknaraðila á sérstökum aðgreindum reikningi sem hafi verið skráður á nafn sóknaraðila, sbr. áskilnað 1. mgr. 19. gr. laga nr. 13/1996.  Þetta megi sjá af þeim fjárvörsluyfirlitum sem liggja fyrir í málinu.

Af hálfu varnaraðila er mótmælt að varnaraðili hafi komið því til leiðar að sóknaraðili hafi keypt víxla þegar fjárhagsleg staða varnaraðila var slæm eða fyrirsjáanlegt var að þeir myndu ekki greiðast.  Á þeim tíma sem upphafleg víxilkaup   áttu sér stað hafi fjárhagsleg staða varnaraðila verið slík að engin ástæða hafi verið til að ætla að fyrirtækið lenti í greiðsluerfiðleikum eða gjaldþrotaskiptum.  Því er jafnframt mótmælt að túlka beri allan vafa um efni samningsskilmálanna varnaraðila í óhag.  Í þessu samhengi sé í fyrsta lagi á því byggt að enginn vafi sé um efni þeirra.  Í öðru lagi hafi hér alls ekki verið um staðlaða samningsskilmála að ræða.  Þvert á móti hafi þessi samningur, eins og sjá megi af efni hans, verið sérsniðinn fyrir sóknaraðila enda hafi sóknaraðili jafnt og varnaraðili staðið að samningu hans og þeirra viðauka sem samningnum fylgja.  Í þriðja lagi sé bent á þá staðreynd að sóknaraðili njóti sérfræðiþekkingar á því sviði sem hér sé verið að fjalla um ekki síður en varnaraðili.  Sóknaraðili verði þannig sjálfur að bera halla af öllum vafa sem kunni að koma upp um efni hans, fari svo að dómur telji slíkan vafa vera fyrir hendi.

Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi með eigin aðgerðarleysi og gáleysi stuðlað að meintu tjóni.  En verði fullyrðingu sóknaraðila um að ekki hafi verið heimilt að eiga viðskipti með umrædda eigin víxla varnaraðila talin rétt, er byggt á því, að sóknaraðili hefði átt að bregðast við strax og láta starfsmenn varnaraðila vita að hann teldi þessi viðskipti stangast á við ákvæði fjárvörslusamnings aðila, einkum í ljósi þess sem hafði viðgengist í þessum efnum athugasemdalaust um langan tíma.  Verði ekki fallist á af þessum sökum að sóknaraðili hafi með öllu glatað umdeildri kröfu á hendur varnaraðila, er þess til vara krafist að kröfufjárhæð sóknaraðila verði lækkuð vegna eigin sakar og vanrækslu hans að takmarka meint tjón sitt.

Sigrún Eysteinsdóttir gaf skýrslu fyrir rétti, en hún var framkvæmdastjóri hjá Burnham International á Íslandi hf.  Aðspurð kvaðst hún vera löggiltur verðbréfamiðlari og hafa BA próf í hagfræði.  Hafi hún hafið störf hjá Burnham International á Íslandi hf. í árslok 1999.   Hún sagði m.a. að fjárvörslusamningur sóknaraðila við félagið hafi ekki verið staðlaður af fjárvörsluaðila heldur hafi þessi samningur verið saminn í sameiningu af báðum aðilum að frumkvæði sóknaraðila.

Aðspurð kvaðst Sigrún hafa átt samskipti við Sigurð Jón Björnsson hjá sóknaraðila út af umdeildum víxilkaupum og hafi félagið haft fulla heimild til að eiga þessi viðskipti samkvæmt fjárvörslusamning aðila og einnig á grundvelli þess að kaup þessi voru samþykkt af sóknaraðila.  Sóknaraðili hafi fengið mánaðarlega yfirlit yfir viðskipti félagsins fyrir sóknaraðila og aldrei gert neinar athugsemdir varðandi umdeild víxilkaup. 

Er Sigrún var spurð, hvort hún hefði haft samband við Sigurð Jón í tilefni af umræddum víxilviðskiptum, fullyrti hún að svo hefði verið og sagði einnig að það væri „pottþétt að ég talaði við hann upphaflega áður en þessi viðskipti áttu sér stað."

Hún sagði að sóknaraðili hafi átt frumkvæði að því að fá sent mánaðarlega yfirlit yfir viðskipti Burnham International á Íslandi hf. fyrir sóknaraðila, en venja hefði verið hjá félaginu að senda fjárvörsluþegum yfirlit tvisvar ári.  Aðspurð hvort einhvern tímann hafi verið gerðar athugsemdir af hálfu sóknaraðila [út af umræddum víxilviðskiptum] kvað hún svo ekki vera.  Bókari hjá sóknaraðila, er hún hafi haft mikið samband við, hafi einungis gert athugsemdir við bókhaldsleg atriði.  Hún upplýsti að upphaf umræddra víxilviðskipta hafi verið víxil, sem gefinn var út í október 2000.  Hann hafi tvívegis verið framlengdur, fyrst í mars 2001 og síðan í júní 2001.

Aðspurð kvaðst Sigrún hafa tekið ákvörðun um umrædd víxilviðskipti og taldi sig hafa haft heimild til þess í fjarvörslusamningi aðila.  Hún hafi borið þessa ákvörðun undir Sigurð Jón en ekki leitað eftir formlegri staðfestingu.

Sigurður Jón Björnsson, forstöðumaður fjármálasviðs hjá Þróunarfélagi Íslands hf. [er áður hét Eignarhaldsfélag Alþýðubankans hf.] gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann upplýsti að hann væri ekki stjórnarmaður í félaginu, en hann hafi séð um fjárvörslusamning félagsins við Burnham International á Íslandi hf.  Hann kvaðst ekki hafa samþykkt fyrir hönd sóknaraðila kaup á svonefndum Burnhamvíxli að fjárhæð 5.240.000 kr., sem gefinn var út 19. júní 2001 til greiðslu 19. september 2001. Hann kvaðst að vísu hafa samþykkt í einhverjum tilfellum víxilkaup fyrir hönd sóknaraðila en aldrei kaup á víxli af fjárvörsluaðilanum sjálfum enda hafi ekki verið eftir því leitað.  Slíkt hefði aldrei komið til greina, hvað þá að framlengja þannig víxilskuld nokkrum sinnum.

                Aðspurður sagði Sigurður að sóknaraðili hafi fengið fjárvörsluyfirlit mánaðar-lega frá Burnham International á Íslandi hf.  Hann sagði að sitt eftirlit með þessu hafi verið með þeim hætti að í tengslum við uppgjör félagsins, sem félagið er með endurskoðuð á sex mánaða fresti, hafi hann farið yfir röð allra hreyfinga [á viðskiptum Burnham International á Íslandi hf. fyrir sóknaraðila]  frá upphafi árs.  Hafi hann í framhaldi haft samband við fjárvörsluaðilann og gert athugsemdir og óskað eftir að hlutir yrðu leiðréttir.  Fjöldi slíkra leiðréttinga hafi verið gerður að tilmælum hans en illa hafi gengið að koma þessum víxlum út.  Kvaðst hann fyrst hafa orðið var við víxilkaupin þegar hann fór yfir tólf mánaða yfirlitið fyrir árið 2000 í lok janúar/febrúar 2001.  Þá hafi strax verið gerðar athugasemdir við þessa víxla og óskað eftir að þeir yrðu teknir út, losaðir úr fjárvörslunni, og önnur verðmæti sett í staðinn sem ættu betur heima þar.

Kolbrún Kolbeinsdóttir gaf skýrslu fyrir rétti.  Kvað hún starfsvið sitt hjá Burnham International á Íslandi hf. síðustu níu mánuði af starfstíma félagsins hafa verið að sjá um fjárvörsluþegana og vera í samskiptum við þá.  Lagður var fyrir Kolbrúnu fjárvörslusamningur aðila og kvaðst hún kannast við hann.  Kvað hún þennan samning ekki vera í hefðbundnu formi fjárvörslusamninga á vegum Burnham International á Íslandi hf.  Aðspurð kvaðst Kolbrún hafa orðið vitni að því að Eignarhaldsfélag Alþýðubankans hf. átti hlut í því að semja skjalið.

                Kolbrún kvaðst hafa séð um að senda út fjárvörsluyfirlit til sóknaraðila mánaðalega auk áramótasundurliðunar.  Kvaðst hún hafa átt samskipti við Sigurð Jón  hjá sóknaraðila í því sambandi og talað við stúlku hjá sóknaraðila, Sigrúnu að nafni, er sá um bókhaldið.  Hafi þau haft gott eftirlit með yfirlitunum og farið vel yfir þau, en aldrei hafi þau gert athugsemdir um einstakar fjárfestingar. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa fengið samþykki Sigurðar Jóns til kaupa á svonefndum Burnhamsvíxlum.

 

Niðurstaða:  Varnaraðili telur skriflega heimild til kaupa á eigin víxlum fyrir fjármuni sóknaraðila í vörslu Burnham International á Íslandi hf. liggja í ákvæðum fjárvörslusamnings aðila en þar segir í viðauka C er varðar innlend skuldabréf 2.2, þ.e. í hvaða innlendum skuldabréfum fjárvörsluaðila var heimilt að ráðstafa fjármunum fjárvörsluþega:

Bankar og aðrar fjármálastofnanir.  Skuldabréf banka, sparisjóða, lánasjóða og fjárfestingastofnana með trausta eiginfjárstöðu, enda starfi þær samkvæmt sérstökum lögum eða séu undir eftirliti bankaeftirlits Seðlabanka íslands.

En í 1.3. gr. samningsins undir fyrirsögninni Verkefni, skyldur aðila og umboð segir m.a.:

Stjórn EFA [Eignarhaldsfélag Alþýðubankans hf.] veitir Fjárvörsluaðila fullt umboð til að ráðstafa því fé sem EFA afhendir Fjárvörsluaðila og vera skal í vörslu hans á hverjum tíma eins og kveður á um í samningi þessum, þ. á m. er Fjárvörsluaðila heimilt að framselja verðbréf í nafni sjóðsins, útbúa og undirrita skjöl fyrir hönd EAF ... og skal um slíka gerninga fara samkvæmt gildandi lagaákvæðum, samanber einnig grein 2.2. og grein 4.1 í viðauka C.

 

Í 15. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 13/1996, sbr. 6. gr. laga nr. 99/2000 segir í 1. mgr. að fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skulu gæta fyllstu óhlutdrægni gagnvart viðskiptamönnum sínum í starfsemi sinn og beri þeim ávallt að haga störfum sínum þannig að viðskiptamenn njóti jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör í verðbréfaviðskiptum.  Skulu viðskiptamönnum, að teknu tilliti til þekkingar þeirra, veittar greinargóðar upplýsingar um þá kosti sem þeim standa til boða.  Í 2. mgr. segir m.a. að fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skulu sýna fram á að 1. mgr. sé fylgt og að komið sé í veg fyrir hagsmunaárekstra með skýrum aðskilnaði einstakra starfssviða þeirra.

                Þó að framangreind lagaákvæði skjóti ekki beinlínis loku fyrir að fyrirtæki í verðbréfaþjónustu ráðstafi fjármunum viðskiptamanna sinna með því að lána sjálfu sér þá fjármuni, verður að telja að ábyrgð verðbréfaþjónustunnar á því að vörslufé glatist ekki viðskiptamanni sé - við slíkar aðstæður - allt önnur og meiri heldur en ábyrgð verðbréfaþjónustu á tapi, sem viðskiptamaður hennar þarf að þola vegna miðlunar verðbréfaþjónustunnar á fjármunum hans til annarra og almennu verðfalli á markaðinum.  Verulega rík hætta sé á hagsmunaárekstrum milli sjálfrar verðbréfa-þjónustunnar og viðskiptamannsins, þegar verðbréfaþjónustan tekur sjálf lán hjá viðskiptamanninum.  Gildir þar hið gamla lögmál að hver er sjálfum sér næstur.

Víxill sá, er hér um ræðir, var gefinn úr 19. júní 2001 til greiðslu 19. september 2001.  Samkvæmt árshlutareikningi Burnham International á Íslandi hf. fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2001 var tap af rekstri félagsins á tímabilinu er nam 72.700.000 kr.  Bókfært eigið fé nam 114.100.000 kr. „en þá hefur verið eignfærð reiknuð skatta-inneign að fjárhæð 125.000.000 kr. vegna yfirfæranlegs skattalegs taps félagsins."  Þá tjáir endurskoðandinn að framsetning árshlutareikningsins og þar með mat eigna sé byggt á þeirri forsendu að um áframhaldandi rekstur félagsins verði að ræði á sviði verðbréfaviðskipta en forsenda þess sé að það takist að bæta rekstrarafkomu félagsins.

                Svo sem fjárhagsstöðu Burnham International á Íslandi hf. er hér lýst, var með öllu óforsvaranlegt af félaginu að ráðstafa fjármunum sóknaraðila, sem það hafði í vörslum, til kaupa á víxli 19. júní 2001 fyrir eigin reikning, enda var félagið ekki lengur fjárfestingastofnun „með trausta eiginfjárstöðu".  Skiptir það engu máli þó að um framlengingu á víxilskuld hafi verið að ræða.  Og ósannað er gegn neitun Sigurðar Jóns Björnssonar, forstöðumanns fjármálasviðs hjá Þróunarfélagi Íslands hf., að sóknaraðili hafi á þeim tíma samþykkt þessi kaup.

                Samkvæmt framansögðu verður viðurkennd skaðabótakrafa á hendur varnaraðila  eins og í úrskurðarorði greinir.

                Rétt er að varnaraðili greiði sóknaraðila 300.000 kr. í málskostnað.

                Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Viðurkennd er skaðabótakrafa sóknaraðila, Þróunarfélags Íslands hf., er áður hét Eignarhaldsfélag Alþýðubankans hf., að höfuðstól 5.240.000 kr. með dráttarvöxtum frá 14. janúar 2002 til greiðsludags.

                Varnaraðili greiði sóknaraðila 300.000 kr. í málskostnað.