Hæstiréttur íslands

Mál nr. 392/2005


Lykilorð

  • Kjarasamningur
  • Vinnusamningur
  • Laun


Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. febrúar 2006.

Nr. 392/2005.

Impregilo SpA Ísland, útibú

(Reynir Karlsson hrl.)

gegn

Helga Þórðarsyni

(Logi Guðbrandsson hrl.)

 

Kjarasamningur. Vinnusamningur. Laun.

Aðilar deildu um hvort H, sem vann sem kranamaður hjá I, ætti rétt á 17% álagi á laun sín samkvæmt kjarasamningi. Talið var sannað að H hefði unnið við aðstæður sem féllu undir lýsingu ákvæðis 15.3.4. í samningnum, sem mælti fyrir um greiðslu 17% álags á laun, þrátt fyrir að krani væri ekki meðal þeirra tækja sem sérstaklega var tekið fram að 15. kafli samningsins ætti við um. Þá var ekki fallist á með I að svokallaður biðtími félli utan þeirrar vinnu sem fjallað væri um í fyrrnefndu ákvæði samningsins, enda væru þar einvörðungu svokölluð ferðalaun undanskilin greiddum launum. I var því dæmdur til að greiða H umdeilt álag.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. ágúst 2005. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að krafan verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningur í máli þessu snýst um hvort stefndi, er vann sem kranamaður hjá áfrýjanda á tímabilinu frá 20. október 2003 og fram í miðjan júlí 2004, eigi rétt á 17% álagi á laun sín samkvæmt grein 15.3.4. í þágildandi kjarasamningi frá árinu 2000 milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfyrirtækja og Landsvirkjunar annars vegar og Alþýðusambands Íslands, Starfsgreinasambands Íslands, Samiðnar og Rafiðnaðarsambands Íslands hins vegar um kaup og kjör við virkjunarframkvæmdir á vegum Landsvirkjunar.

Með vísan til forsendna héraðsdóms er á það fallist að stefndi hafi átt rétt á 17% álagi á laun sín samkvæmt grein 15.3.4. í áðurnefndum kjarasamningi.

Áfrýjandi hefur mótmælt því að álagið hafi getað komið á svokallaðan biðtíma, það er þær vinnustundir sem kraninn var ekki í notkun, enda geti sá tími hvað sem öðru líði ekki hafa fallið undir grein 15.3.4. kjarasamningsins. Í grein 15.2.2. sagði að „tveir menn skuli skiptast á um að stjórna krana, þegar unnið er við samfelldar hífingar eða við erfiðar aðstæður svo sem þungar hífingar, stöðuga steypuvinnu og blindhífingar yfir vinnandi mönnum, og aðrar þær hífingar sem krefjast aðgæslu“. Í grein 15.3.4. sagði síðan: „Þegar einn maður annast stjórn stórvirkrar vinnuvélar og ekki er beitt tveggja manna kerfi sbr. 15.2.2., ... skal greitt 17% álag á greidd laun viðkomandi starfsmanns (þó ekki ferðalaun).“ Fram er komið að stefndi var ávallt einn við stjórn krana og vann hann því ekki eftir því tveggja manna kerfi sem lýst er í grein 15.2.2. kjarasamningsins. Er ekki fallist á með áfrýjanda að svokallaður biðtími falli utan þeirrar vinnu sem fjallað er um í grein 15.3.4, enda eru þar einvörðungu svokölluð ferðalaun undanskilin greiddum launum. Áfrýjandi hefur heldur ekki lagt fram nein gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni að aðrir starfsmenn hans, er nutu 17% álagsins samkvæmt kjarasamningi, hafi sætt frádrætti vegna biðtíma. Mótmælum hans við kröfu stefnda reistum á þessum sjónarmiðum er því samkvæmt framansögðu hafnað.  Hinn áfrýjaði dómur verður því staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Impregilo SpA Ísland, útibú, greiði stefnda, Helga Þórðarsyni, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 19. júlí 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 24. júní sl., er höfðað 8. mars 2005.

Stefnandi er Helgi Þórðarson, kt. 061054-3169, Skálanesgötu 1a, Vopnafirði.

Stefndi er Impregilo SpA, útibú á Íslandi, kt. 530203-2980, Lyngási 4, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða honum skuld að fjárhæð kr. 468.365,- ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, af kr. 5.637,- frá 01.11.2003 til 01.12.2003, af kr. 53.596,- frá 01.12.2003 til 01.01.2004, af kr. 112.276,- frá 01.01.2004 til 01.02.2004, af kr. 139.871,- frá 01.02.2004 til 01.03.2004, af kr. 205.843,- frá 01.03.2004 til 01.04.2004, af kr. 260.123,- frá 01.04.2004 til 01.05.2004, af kr. 320.966,00 frá 01.05.2004 til 01.06.2004, af kr. 380.529,- frá 01.06.2004 til 01.07.2004, af kr. 428.305, frá 01.07.2004 til 01.08.2004 og af kr. 468.365,- frá 01.08.2004 til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Þá er krafist málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

Stefndi krefst þess aðallega að verða alfarið sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að dæma honum málskostnað.

I.

Stefnandi hóf störf fyrir stefnda í októbermánuði 2003. Í ráðningarsamningi hans kemur fram að starfsheiti hans sé kranamaður og að hann taki laun samkvæmt svokölluðum virkjanasamningi en það er samningur á milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfyrirtækja og Landsvirkjunar annars vegar og Alþýðusambands Íslands, Starfsgreinasambands Íslands, Samiðnar og Rafiðnaðarsambands Íslands hins vegar um kaup og kjör við virkjunarframkvæmdir á vegum Landsvirkjunar. Þá var í gildi virkjanasamningur frá árinu 2000, en nýr samningur var gerður 19. apríl 2004.

Stefnandi kveðst hafa stýrt 30 til 90 tonna krönum á öllu Kárahnjúkasvæðinu, mest við mjög erfiðar aðstæður í gljúfrinu. Stærstur hluti starfs hans hafi falið í sér mjög krefjandi hífingar, bæði þungar hífingar og blindhífingar yfir mönnum. Reglulega hafi hann svo unnið vaktir við stöðuga steypuvinnu.

Þegar stefnandi fékk sína fyrstu launagreiðslu kom í ljós að hann hafði ekki fengið greitt álag, sem hann telur sig eiga rétt á, með vísan til virkjanasamningsins greina 15.2.2. og 15.3.4.

Tilvitnaðar greinar eru svohljóðandi: 15.2.2. Tveir munn skulu skiptast á um að stjórna krana, þegar unnið er við samfelldar hífingar eða við erfiðar aðstæður svo sem þungar hífingar, stöðuga steypuvinnu og blindhífingar yfir vinnandi mönnum, og aðrar þær hífingar sem krefjast aðgæslu og er þá öðrum kranamanninum skylt að annast bendingar. 15.3.4. Þegar einn maður annast stjórn stórvirkrar vinnuvélar og ekki er beitt tveggja manna kerfi sbr. 15.2.2., 15.2.3. og 15.2.4. skal greitt 17% álag á greidd laun viðkomandi starfsmanns (þó ekki ferðalaun). Við uppskipti á bónus skal einnig miða við 17% álag á greitt kaup þeirra, sem einir annast stjórn stórvirkra vinnuvéla. ...

Stefnandi kveður trúnaðarmann sinn hafa bent sér á að álagið, sem hann ætti hiklaust rétt á, væri ekki greitt ofan á laun hans. Hann hafi í beinu framhaldi gert athugasemdir við launafulltrúa stefnda. Þá hafi hann leitað til yfirtrúnaðarmanns sem muni hafa farið fram á leiðréttingu. Þá hafi hann snemma á árinu 2004 einnig haft samband við almennan trúnaðarmann sinn en sá hafi ítrekað rætt málið við launafulltrúann en árangurs. Þá hafi hann verið í sambandi við framkvæmdastjóra AFLS Starfsgreinafélags Austurlands. Allir þessir aðilar geti staðfest að hann hafi ekki sýnt af sér neitt tómlæti.

Stefnandi kveður verkstjóra sinn, Guiseppe Andolina, hafi um miðjan júní 2004 boðið honum launahækkun og að auki það 17% álag eins og hann hafði krafist. Hafi hann undirritað skjal þar að lútandi eftir að hafa gengið úr skugga um að það skaðaði ekki stöðu hans vegna kröfu um álag á laun liðinna mánaða. Síðan hafi komið í ljós að útibússtjóri stefnda hafi neitað að hækka laun hans. Stefnanda hafi þá verið nóg boðið og hafi hann sagt upp störfum um leið og hann fékk nýtt starf eða hinn 13. júlí 2004 með einnar viku uppsagnarfresti.

Reiknað 17% álag á laun hans fyrir tímabilið frá október 2003 til júlí 2004 sé kr. 433.671, Alm.líf kr. 26.020, Sér.líf kr. 8.673 eða alls samtals kr. 468.365 sem sé stefnukrafan.

Meðal gagna málsins er yfirlýsing Guiseppe Andolina þar sem m.a. kemur fram að þær hífingar sem að stefnandi framkvæmdi meðan hann var undir hans stjórn flokkist ekki undir skilgreiningar í kafla 15.2.2. virkjanasamnings, þ.e. hann hafi ekki unnið við samfelldar hífingar eða við stöðuga steypuvinnu. Hugsanlega sé hægt að flokka einstaka hífingar sem hann framkvæmdi undir erfiðar hífingar en í þeim tilfellum hafi ávallt verið menn sem leiðbeindu við hífinguna.

Stefnandi freistaði þess að fá kröfu sína viðurkennda með því að skjóta henni til afgreiðslu svonefndrar fastanefndar um framkvæmd virkjanasamningsins og var fjallað um málið á tveimur fundum nefndarinnar í júnímánuði 2004, án þess að samkomulag næðist.

Í fundargerð 3. júní segir orðrétt: Ágreiningur er um hvort stjórnendur krana eigi rétt á greiðslu álags skv. 15. kafla. Kranar koma ekki fram í upptalningu í grein 15.1. og heldur Impregilo því fram að kranamenn eigi þ.a.l. ekki rétt á slíkum greiðslum. Fulltrúar stéttarfélaganna benda hins vegar á að fjallað sé sérstaklega um vinnutilhögun við kranavinnu í grein 15.2.2. auk þess sem vísað sé til greinar 15.3.4. þar sem fjallað sé um álagsgreiðslurnar. Aðilar eru sammála um að fresta afgreiðslu málsins til 15. júní n.k. kl. 10:30. Í fundargerð fundarins 15. júní segir orðrétt: Fjallað var um málið á síðasta fundi fastanefndar. Aðilar náðu ekki samkomulagi um túlkun þessa ákvæðis og var ákveðið að leggja málið undir dóm Félagsdóms.

Frá því að leggja málið fyrir Félagsdóm var síðar fallið og ákveðið að höfða mál þetta.

II.

Stefnandi byggir kröfur sínar á 15. kafla virkjunarsamnings. Byggir stefnandi á að hann eigi rétt á að fá greitt álag á laun samkvæmt grein 15.3.4., sbr. grein 15.2.2. í virkjanasamningi en störf hans hafi fallið undir greinina. Stærsti hluti starfs hans hafi falið í sér mjög krefjandi hífingar. Hann hafi unnið á 30, 50 eða 90 tonna krana og einna mest ofan í gili Jökulsár á Dal þar sem aðstæður séu ávallt mjög krefjandi. Hann hafi reglulega unnið við samfelldar hífingar, oft við þungar hífingar, blindhífingar yfir mönnum o.s.frv. Það að verkstjóri hans, Guiseppe Andolina, hafi í júni 2004 samþykkt að greiða honum umkrafið álag þrátt fyrir að ágreiningur hafi verið um túlkun ákvæða virkjanasamningsins staðfesti að skilningur hans hafi verið að vinna stefnanda ætti undir ákvæðið. Þá hafi Júlíus Sigþórsson samstarfsmaður stefnanda, sem hafi unnið sömu störf og hann, ávallt fengið greitt 17% álag á sín laun. Það hafi ekki verið fyrr en með bréfi lögmanns stefnda dags. 23. febrúar 2005 sem því hafi verið haldið fram að störf stefnanda féllu ekki undir grein 15.2.2., en fyrir þann tíma hafi ekki verið ágreiningur um eðli starfa stefnanda.

Stefnandi mótmælir því áliti stefnda að þar sem að kranar séu ekki taldir upp meðal þeirra stórvirku vinnuvéla sem taldar séu upp í grein 15.1.1. þá eigi kranamenn ekki rétt á þeirri sérstöku álagsgreiðslu sem stjórnendur þeirra vinnuvéla sem beinlínis séu upp taldir í kaflanum eigi rétt á. Af hálfu verkalýðshreyfingarinnar hafi verið bent á að fjallað sé sérstaklega um vinnutilhögun við kranavinnu í grein 15.2.2., en síðan sé vísað til þeirrar greinar í grein 15.3.4. sem fjalli um álagsgreiðslur. Efnislega sé fjallað um störf kranamanna í kaflanum út frá þeim sérstöku öryggissjónarmiðum sem hann byggi á og því fyrirkomulagi um greiðslu sérstaks álags ef ekki sé beitt tveggja manna kerfi við stjórn tækja við þau hættulegu störf sem þar greinir. Umrætt gildissviðsákvæði kaflans víki ekki til hliðar ákvæði sem sé skýrt að efni til og hafi verið ágreiningslaust samkvæmt virkjanasamningnum frá árinu 1978. Stefnandi túlki ákvæðin á sama hátt og fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar og byggi kröfu sínar á þeim. Benda megi á kröfum hans til stuðnings að við endurskoðun gildissviðsákvæðisins hafi aldrei þótt ástæða til þess að breyta þeim, enda muni hingað til ekki hafa verið ágreiningur um túlkun þessara ákvæða.

Augljóst sé af 15. kafla í heild að kranar og stjórnendur þeirra eigi undir kaflann. Í grein 15.2.2. sé ítarlega fjallað um vinnu á krana og hvaða störf flokkist undir að vera verulega krefjandi. Í grein 15.3.4. segi svo orðrétt:  Þegar einn maður annast stjórn stórvirkrar vinnuvélar og ekki er beitt tveggja manna kerfi sbr. 15.2.2, 15.2.3. og 15.2.4. skuli greitt 17% álag á greidd laun viðkomandi starfsmanns (þó ekki ferðalaun). Með tilvísuninni í grein 15.2.2 verði að telja að gildissvið kaflans hafi á mjög skýran og afdráttarlausan hátt verið víkkað út frá því að þar eigi aðeins undir tæki samkvæmt grein 15.1.1. Eigi þetta við hvort sem beitt sé orðalagstúlkun eða markmiðstúlkun, eða hvers konar öðrum lögskýringarleiðum.

III.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að það ákvæði kjarasamningsins sem stefnandi byggir kröfu sína á feli ekki í sér rétt til handa stjórnendum kranabifreiða til álagsgreiðslna. Gildissvið 15. kafla kjarasamningsins sé ákvarðað í grein 15.1. undir fyrirsögninni Flokkun vinnuvéla. Í grein 15.1.1. segi: Ákvæði þessa kafla gilda um stjórnendur eftirtalinna tækja: Gröfur stærri en 30 tonn, hjólaskóflur stærri en 28 tonn og jarðýtur stærri en 25 tonn. Eftir gildistöku samningsins frá 19. apríl 2004 gildir ákvæðið einnig um efnisflutningavagna 30 tonn og stærri og borvagna utan ganga. Byggir stefndi á að ljóst sé að ákvæði kaflans eigi einungis við um þau tæki sem talin séu upp í greininni, sem skilgreini og afmarkar gildissvið kaflans að öðru leyti.

Framangreindur skilningur sé enn áréttaður í upphafsákvæði kafla 15.2. um vinnutilhögun, þar sem segi í gr. 15.2.1.: Til að auka öryggi í starfi og bæta nýtingu tækis skal beitt tveggja manna kerfi á stórvirkum vinnuvélum skv. grein 15.1.1. við aðstæður sem tilgreindar eru í greinum 15.2.2., 15.2.3. og 15.2.4. hér á eftir. ... Samkvæmt ákvæðinu skuli einungis beita tveggja manna kerfi á þeim stórvirku vinnuvélum sem upp séu taldar í áður greindu ákvæði greinar 15.1.1. Kranar séu ekki þar á meðal og árétti þetta enn að kranar falli ekki undir gildissvið ákvæðisins um tveggja manna kerfi og greiðslur því tengdar.

Stefnandi virðist einnig byggja á ákvæði greinar 15.2.2. sem fjalli um öryggisráðstafanir við sérlega vandasama vinnu kranamanna, þar sem sú skylda er lögð á atvinnurekanda að láta tvo menn skiptast á um stjórnun krana og bendingar ef aðstæður eru eins og þar er til greint.

Fyrir liggi yfirlýsing verkstjóra þar sem fram komi að hann hafi ekki talið starf stefnanda falla að þessari lýsingu nema hugsanlega um mjög stuttan tíma í senn. Þá muni enda ekki tíðkast lengur að fylgja þessu ákvæði beinlínis enda hafi efnislega samhljóða ákvæði fyrir löngu verið fellt úr almennum kjarasamningum.

Það sem sýnilega valdi ruglingi og sé tilefni kröfugerðar stefnanda sé ákvæði greinar 15.3.4. þar sem segi: Þegar einn maður annast stjórn stórvirkrar vinnuvélar og ekki er beitt tveggja manna kerfi sbr. 15.2.2., 15.2.3. og 15.2.4. skal greiða 17% álag á greidd laun viðkomandi starfsmanns (þó ekki ferðalaun). ...

Tilvísun þessa ákvæðis til greinar 15.2.2. komi undarlega fyrir sjónir, þar sem grein 15.1. afmarki gildissvið kaflans við tiltekin tæki og kranar sem um er fjallað í grein 15.2.2., séu ekki þar á meðal. Einnig, að í grein 15.2.1. sé krafa um tveggja manna kerfi algerlega bundin við tæki sem tilgreind eru í grein 15.1. Því sé engin almenn skylda til að viðhafa skiptivinnu við stjórn krana samkvæmt samningnum heldur frávik.

Stefndi byggir á að tveggja kosta sé völ við skýringu á tilvísun greinar 15.3.4. til kranavinnu skv. grein 15.2.2. Sú fyrri sé að um sé að ræða vangá við textagerð; þess hafi ekki verið gætt að fella niður tilvísunina þegar bíl- og beltakranar hafi verið felldir út úr upptalningu á þeim tækjum sem væru andlag álagsgreiðslna, en það muni hafa gerst við samningsgerðina 1997. Það verði að teljast augljós skýring í ljósi þeirrar þróunar að í almennum kjarasamningum muni ekki lengur vera ákvæði um skiptivinnu kranamanna eða sérstakar álagsgreiðslur þeim til handa sé ekki unnið í tveggja manna kerfi, svo sem áður hafi verið. En virkjanasamningurinn sé sérkjarasamningur sem beri að túlka til samræmis við hina almennu kjarasamninga ef vafi komi upp um efni eða gildissvið.

Síðari skýringarkosturinn kynni að vera sá að greiða beri umrætt 17% álag á vinnu kranamanna við þær aðstæður sem lýst er í grein 15.2.2. Sá kostur sé þó afar fjarlægur því tilvitnað ákvæði kveði á um að við þar tilgreindar aðstæður beri tveimur mönnum að skiptast á um stjórn kranans og reyni þá augljóslega ekki á greiðslu sérstaks álags fyrir það eitt að vera einn við stjórn tækisins. Þó að sá skýringarkostur væri valinn að segja ákvæðið mæla fyrir um greiðslu álags í þeim tilvikum að skylt sé að viðhafa skiptivinnu skv. grein 15.2.2. þá myndi það allt að einu ekki skapa stefnanda neinn rétt, því að sögn næsta yfirmanns hans féllu störf hans ekki undir efnislýsingu greinarinnar nema þá hugsanlega í algerum undantekningartilvikum og þá um skamma stund í senn.

Stefndi mótmælir því að öll vinna stefnda í yfir 2100 vinnustundir hafi falist í samfelldum frávikum frá því sem almennt er í starfi kranamanns og lýst er sem undantekningu í grein 15.2.2. Þótt hugsanlegt sé að einhver hluti starfa hans hafi gefið tilefni tilskiptivinnu þá liggi engar sannanir fyrir um það hver sá hluti hafi verið.

Stefndi tekur fram að Júlíus Sigurþórsson hafi verið ráðinn sem stjórnandi þungavinnuvéla almennt, og ráðningarkjör hans miðuð við að hann fengi 17% álag á laun sín. Hvort hann hafi síðan verið látinn vinna á tækjum sem ekki kröfðust greiðslu á umræddu álagi hafi alfarið verið á valdi atvinnurekandans.

Þá mótmælir stefndi því sem þýðingarlausu fyrir úrslit málsins að yfirmaður stefnanda hafi viljað koma á móts við óskir hans um hækkun launa.

Loks mótmælir stefndi því að álagsgreiðslur geti komið til á aðrar vinnustundir en þær sem falla beint að efnislýsingu greinar 15.2.2.

IV.

Í máli þessu er um það deilt hvort stefnandi, sem starfaði hjá stefnda frá október 2003 til júlí 2004 við stjórn 30 til 90 tonna krana, eigi rétt á 17% álagi ofan á laun sín samkvæmt grein 15.3.4. svokallaðs virkjanasamnings.

Samkvæmt virkjanasamningunum frá 2000 og núgildandi samningi, sem tók gildi 19. apríl 2004, kafla 15 Stjórnendur stórvirkra vinnuvéla, grein 15.1., Flokkun vinnuvéla, grein 15.1.1. eru kranar ekki meðal þeirra vinnuvéla sem kveðið er á um að ákvæði kaflans gildi um. Þrátt fyrir það er fjallað um stjórnun krana í grein 15.2.2. í kafla 15.2., Vinnutilhögun, en þar er kveðið á um að tveir menn skuli skiptast á um að stjórna krana við þar tilgreindar aðstæður, þ.e. þegar unnið er við samfelldar hífingar eða við erfiðar aðstæður svo sem þungar hífingar, stöðuga steypuvinnu og blindhífingar yfir vinnandi mönnum, og aðrar þær hífingar sem krefjast aðgæslu og er þá öðrum kranamanni skylt að annast bendingar.

Fyrir liggur að í virkjanasamningum til ársins 1997 voru bíla- og beltakranar meðal þeirra tækja sem ákvæði 15. kafla tók til. Samningurinn frá 1997 tilgreinir hins vegar ekki krana meðal þeirra tækja sem kaflinn gildir um. Hins urðu engar breytingar á efnisákvæði kaflans um vinnutilhögun við stjórn krana, þ.e. grein 15.2.2.

Ekkert er við að styðjast í máli þessu um ástæður þess að kranar hafa ekki frá því fyrir 1997 verið meðal þeirra tækja sem sérstaklega er kveðið á um að 15. kafli virkjanasamninga gildi um, annað en framburður Davíðs Jóhannesson, trúnaðarmanns við Kárahnjúka og nefndarmanns í samninganefnd um virkjanasamning, en hann heldur því fram að ákvæðið um bíla- og beltakrana hafa fallið brott fyrir slysni við samningsgerðina 1997. Þá ber hann að samningsaðilar við síðustu samningsgerð hafi talið óþarft að bæta krönum við upptalninguna í gildissviðsákvæðinu þar sem svo augljóst væri að 15. kafli samningsins gilti um þá. 

Ákvæði greinar 15.2.2. virkjanasamnings um stjórnun krana tekur ekki til annarra tækja og er því sérákvæði um stjórnun krana. Vegna ákvæðis greinar 15.2.2. er ljóst að gildissviðsafmörkun greinar 15.1. er ekki tæmandi og að ákvæði 15. kafla taka til krana eftir því sem við á.

Í grein 15.2.2. er kveðið á um að tveir menn skuli skiptast á um að stjórna krana, við þær aðstæður er þar greinir. Í kafla 15.3., Almenn ákvæði, grein 15.3.4. er síðan kveðið á um að þegar einn maður annist stjórn stórvirkrar vinnuvélar og ekki er beitt tveggja manna kerfi sbr. 15.2.2., 15.2.3. og 15.2.4. skuli greitt 17% álag á greidd laun viðkomandi starfsmanns. Tilvísunin ákvæðisins til greinar 15.2.2. þykir ekki verða skýrð öðru vísi en svo að þegar einn maður stjórnar krana, sem er stórvirk vinnuvél, við þær aðstæður er þar greinir skuli greiða 17% álag á laun.

Ákvæðin um skiptivinnu og greiðslu álags þegar einn maður stjórnar krana eru hliðstæð ákvæði greinar 15.2.1. þar sem kveðið er á um að til að auka öryggi í starfi og bæta nýtingu tækis skuli beitt tveggja manna kerfi á stórvirkum vinnuvélum skv. grein 15.1.1. við aðstæður sem tilgreindar séu í greinum 15.2.2., 15.2.3. og 15.2.4. Við aðrar aðstæður annist einn maður stjórn vinnuvélar enda komi þá til greiðsla skv. grein 15.3.4. þ.e. 17% álag á greidd laun. Þykir mega ætla að sömu sjónarmið búi að baki ákvæðunum.

Stefndi hefur gefið ítarlega lýsingu á hversu erfiðar og vandasamar hífingar hafi ávallt verið í gljúfrinu við Kárahnjúka og mikið af mönnum í kring. Sama hafi gilt um aðrar hífingar fyrir stefnanda. Lýsingar stefnanda fá stoð í framburði vitnisins Júlíusar Sigurþórssonar, sem ber að aðstæður hafi ávallt verið erfiðar við hífingarnar, en hann vann einnig sem kranamaður hjá stefnda við sömu störf og stefnandi og naut 17% álags á laun sín eins og vitnið Hannes Sigurður Guðmundsson sem starfaði sem krana- og hjólaskóflumaður hjá stefnda. Falla þessar lýsingar að þeim aðstæðum sem lýst er í grein 15.2.2. Þykir því verða við það að miða að sannað sé að stefnandi hafi unnið við aðstæður sem flokkast undir lýsingu greinarinnar en álit Giuseppe Andolina verkstjóra stefnanda þykir ekki fá því haggað.

Er það því niðurstaða dómsins að stefnda hafi borið á grundvelli virkjanasamningsins að greiða stefnanda 17% álag á laun og að álagið greiðist á greidd laun samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins. Samkvæmt því og þar sem ekki er tölulegur ágreiningur í málinu verða dómkröfur stefnanda teknar til greina eins og krafist er og greinir í dómsorði.

Eftir niðurstöðu málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 400.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

             Þorgerður Erlendsdóttir dómstjóri kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Stefndi, Impregilo SpA, útibú á Íslandi, greiði stefnanda Helga Þórðarsyni, kr. 468.365,- ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, af kr. 5.637,- frá 01.11.2003 til 01.12.2003, af kr. 53.596,- frá 01.12.2003 til 01.01.2004, af kr. 112.276,- frá 01.01.2004 til 01.02.2004, af kr. 139.871,- frá 01.02.2004 til 01.03.2004, af kr. 205.843,- frá 01.03.2004 til 01.04.2004, af kr. 260.123,- frá 01.04.2004 til 01.05.2004, af kr. 320.966,00 frá 01.05.2004 til 01.06.2004, af kr. 380.529,- frá 01.06.2004 til 01.07.2004, af kr. 428.305, frá 01.07.2004 til 01.08.2004 og af kr. 468.365,- frá 01.08.2004 til greiðsludags.

             Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.