Hæstiréttur íslands

Mál nr. 460/1998


Lykilorð

  • Hlutafélag
  • Einkahlutafélag
  • Sameining
  • Samruni


                                                         

Miðvikudaginn 12. maí 1999.

Nr. 460/1998.

Valgarður Stefánsson ehf.

(Árni Pálsson hrl.)

gegn

Guðrúnu Valgarðsdóttur

(Jóhannes Sigurðsson hrl.)

og gagnsök

Hlutafélög. Einkahlutafélög. Sameining. Samruni.

G var einn af hluthöfum í einkahlutafélaginu VS þegar ákveðið var að einkahlutafélagið VB yrði sameinað VS. Tillaga um sameiningu var samþykkt á hluthafafundi í VS með atkvæðum allra hluthafa nema G, sem greiddi atkvæði gegn sameiningunni. Í kjölfarið krafðist G þess að VS leysti til sín hlut hennar í félaginu og byggði hún kröfuna á 106. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Talið var að um hefði verið að ræða samruna félagana með yfirtöku VS á VB. Í ljósi þess og þess að ekki var stofnað nýtt félag við samrunann var 106. gr. einkahlutafélagalaga ekki talin geta náð til G og var VS sýknað af kröfum hennar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. nóvember 1998. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 27. janúar 1999. Hún krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 11.271.500 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 7. desember 1996 til greiðsludags. Til vara krefst hún 6.960.900 króna með sömu dráttarvöxtum og í aðalkröfu, en að því frágengnu að héraðsdómur verði staðfestur. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti og að ákvæði héraðsdóms um málskostnað verði staðfest.

I.

Gagnáfrýjandi er meðal hluthafa í aðaláfrýjanda. Er rakið í héraðsdómi, að á árinu 1996 hafi verið ákveðið að einkahlutafélagið Valdemar Baldvinsson yrði sameinað Valgarði Stefánssyni ehf. Var haldinn hluthafafundur í síðastnefnda félaginu 10. október það ár, þar sem greidd voru atkvæði um svohljóðandi tillögu: „Hluthafafundur í Valgarði Stefánssyni ehf. samþykkir á grundvelli fyrirliggjandi gagna samruna Valdemars Baldvinssonar ehf. við félagið.“ Fór svo að tillagan var samþykkt með atkvæðum annarra hluthafa en gagnáfrýjanda, sem greiddi atkvæði gegn henni. Í fundargerð greinir að 81,8% atkvæða hafi verið með tillögunni, en 18,2% á móti.

Gagnáfrýjandi krafðist þess þegar í kjölfarið að aðaláfrýjandi leysti til sín hlut hennar í félaginu, en verðmæti hlutarins taldi hún nema 19.722.381 krónu. Reisti hún kröfuna á því að slík skylda hvíldi á aðaláfrýjanda samkvæmt 106. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Aðaláfrýjandi mótmælti því að sér væri skylt að innleysa hlut gagnáfrýjanda samkvæmt tilvitnaðri lagagrein. Taldi hann að við sameiningu tveggja einkahlutafélaga væri slík skylda einungis fyrir hendi gagnvart hluthöfum í yfirteknu félagi, sem slitið sé í framhaldi af því. Skylda til innlausnar væri hins vegar ekki fyrir hendi hjá yfirtökufélaginu gagnvart hluthöfum í því félagi.

II.

Meðal málsgagna er samrunaáætlun stjórna áðurnefndra einkahlutafélaga, sem dagsett er 26. júní 1996. Segir í 1. gr. hennar, að stjórnir félaganna séu sammála um að sameina félögin undir nafni Valgarðs Stefánssonar ehf. á grundvelli XIV. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Gildi samþykktir Valgarðs Stefánssonar ehf. um hið sameinaða félag, og miðist sameining við 1.  janúar 1996. Í 2. gr. segir síðan, að við sameiningu fái hluthafar í Valdemar Baldvinssyni ehf. eingöngu hluti í Valgarði Stefánssyni ehf. í skiptum fyrir hluti sína í fyrrnefnda félaginu þannig, að fyrir alla hluti í því félagi, 2.000.000 krónur, sem þeir láti af hendi, fái þeir hluti að nafnverði 1.124.870 krónur í Valgarði Stefánssyni ehf. Hlutafé hins sameinaða félags eftir sameiningu verði 15.012.870 krónur. Loks segir í 4. gr. að frá samrunadegi taki Valgarður Stefánsson ehf. við öllum tekjum og greiði öll gjöld vegna Valdemars Baldvinssonar ehf. Kemur fram í bréfi endurskoðenda 26. júní 1996 til stjórna félaganna, að ofangreint skiptihlutfall sé þannig fengið, að miðað sé við innra virði hlutanna á sameiningardegi.

Í héraðsdómsstefnu kemur fram, að sameining félaganna hafi leitt til þess að hlutdeild gagnáfrýjanda í aðaláfrýjanda lækkaði úr 18,024% heildarhlutafjárins í 16,67%. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kom jafnframt fram, að ekki hafi aðrar breytingar verið gerðar á samþykktum félagsins en sú að hlutfé hækkaði.

III.

Gagnáfrýjandi styður kröfur sínar þeim rökum, að enginn munur sé í raun á hluthöfum, sem lendi í minnihluta, hvort heldur þeir séu meðal eigenda yfirtökufélags eða þess félags, sem yfirtekið er. Þeir séu settir í sömu aðstöðu og ekkert tilefni sé til að gera mun á réttarstöðu þeirra að því er varðar heimild til að krefjast innlausnar. Orðalag 106. gr. eða annarra greina laga nr. 138/1994 styðji heldur ekki að hluthöfum, sem orðið hafi í minnihluta, sé í öðru tilvikinu gert hærra undir höfði en í hinu. Þá sé ljóst, að sameining raski valdahlutföllum innan yfirtökufélagsins, sem hluthafar þurfi ekki að sætta sig við. Þá styðji þróun, sem orðið hafi í löggjöf um vernd minnihluta, kröfur hennar. Eru rök hennar um skýringu þeirra greina laga nr. 138/1994, sem hér koma til álita, að öðru leyti rakin í héraðsdómi.

Aðaláfrýjandi telur hins vegar að skýr munur sé gerður samkvæmt 106. gr. laganna á stöðu minnihluta í hlutafélögum, sem sameinuð eru. Sé ókleift að skilja orðalag greinarinnar með öðrum hætti en þeim að einungis hluthöfum í yfirteknu félagi, sem síðan sé slitið, sé veittur réttur til að krefjast innlausnar, enda hafi þeir mótmælt sameiningunni. Ástæða mismunar að þessu leyti sé sú, að aðstaða minnihluta sé ólík, eftir því til  hvors félagsins sé litið. Þegar félag sé sameinað öðru og því slitið í kjölfarið sé venjan sú að greiða hluthöfum í yfirteknu félagi með hlutabréfum í yfirtökufélaginu. Með ákvæðinu sé gagngert stefnt að því að tryggja slíkum minnihlutaeigendum að geta krafist greiðslu í peningum í stað þess að taka við hlutum í félagi, sem þeir hafi alls ekki óskað eftir að eiga hlut í. Að því er varði yfirtökufélagið séu hluthafar á hinn bóginn líkt settir og þegar hlutafé sé aukið, en við þær aðstæður geti þeir ekki krafist innlausnar. Hluthafar geti í ýmsum tilvikum þurft að hlíta því að vera bornir atkvæðum án þess að öðlast sérstakan rétt af því tilefni. Þeir verði áfram hluthafar í því félagi, sem ekki sé slitið, og sú staða sé hér fyrir hendi. Að því er varði sérstaklega gagnáfrýjanda breyti aukning hlutafjárins vegna sameiningarinnar nær engu um stöðu hennar innan félagsins. Sjónarmið aðaláfrýjanda um skýringu laganna eru að öðru leyti rakin í héraðsdómi.

IV.

Í XIV. kafla laga nr. 138/1994 er fjallað um samruna einkahlutafélaga o.fl. Kemur fram í 94. gr., að ákvæði kaflans gilda meðal annars um samruna þegar einkahlutafélagi er slitið án skuldaskila með þeim hætti að félagið er algerlega sameinað öðru einkahlutafélagi með yfirtöku eigna og skulda (samruni með yfirtöku). Er ljóst að einkahlutafélagið Valdemar Baldvinsson var sameinað aðaláfrýjanda með þeim hætti, sem þarna greinir. Var síðan fyrrnefnda félaginu slitið, en ekki var stofnað nýtt félag af þessu tilefni.

Þegar virt er orðalag 1. málsl. 106. gr. laga nr. 138/1994 þykir mega fallast á með aðaláfrýjanda að með því sé vísað til félaga, sem um ræðir í 1. mgr. 94. gr. laganna, og yfirtekin eru af öðrum félögum og síðan slitið. Ekki var um að ræða að nýtt félag væri stofnað við samruna tveggja einkahlutafélaga og getur lagagreinin heldur ekki fyrir þær sakir náð til gagnáfrýjanda. Þessi skýring fær jafnframt stoð í því að hluthafar í yfirteknu félagi, sem andvígir eru sameiningu, eru ekki í sömu aðstöðu við sameininguna og þeir hluthafar í yfirtökufélagi, sem ekki samþykkja hana. Þá hefur gagnáfrýjandi ekki skotið stoðum undir að með setningu laga nr. 138/1994 hafi verið stefnt að því að breyta að þessu leyti réttarstöðu minnihluta í yfirtökufélagi frá því sem var meðan lög nr. 32/1978 um hlutafélög giltu.

Samkvæmt þessu verður sýknukrafa aðaláfrýjanda tekin til greina. Rétt þykir að hvor málsaðili beri sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Valgarður Stefánsson ehf., er sýkn af kröfum gagnáfrýjanda, Guðrúnar Valgarðsdóttur.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 22. október 1998.

Ár 1998, fimmtudaginn 22. október, var dómþing Héraðsdóms Norðurlands eystra sett í dómsal embættisins að Hafnarstræti 107, Akureyri, og haldið af Ásgeiri Pétri Ásgeirssyni, héraðsdómara. Fyrir var tekið: Mál nr. E-272/1997: Guðrún Valgarðsdóttir gegn Valgarði Stefánssyni ehf.

Er nú í málinu upp kveðinn svofelldur dómur:

Mál þetta, sem dómtekið var þann 27. ágúst síðast liðinn, hefur Einar S. Hálfdánarson, hdl., höfðað með stefnu útgefinni í Reykjavík 25. ágúst 1997 og birtri 27. sama mánaðar og þingfestri 4. september 1997 fyrir hönd Guðrúnar Valgarðsdóttur, kt. 131031-4919, Þinghólsbraut 68, Kópavogi, á hendur Valgarði Stefánssyni ehf., kt. 430167-0149, Hjalteyrargötu 12, Akureyri.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að innleysa hlut stefnanda í stefnda og til að greiða stefnanda kr. 11.271.500,-. Til vara að stefndi verði dæmdur til að innleysa hlut stefnanda í stefnda og til að greiða stefnanda kr. 6.800.000,-. Þá er krafist dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 7. desember 1996 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins. Við aðalmeðferð málsins kom fram ný varakrafa stefnanda, sem var mótmælt af stefnda og er henni því vísað frá dómi skv. 1. mgr. 111. gr. eml. nr. 91/1991.

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt reikningi eða mati.

Stefnandi lýsir málsástæðum og öðrum atvikum svo að hann telji sig knúinn til að höfða mál þetta til að fá skorið úr skyldu stefnda til að innleysa hlut stefnanda í Valgarði Stefánssyni ehf. 

Þann 10. janúar 1996 hafi verið boðað til hluthafafundar í Valgarði Stefánssyni ehf., sem haldinn skyldi samdægurs hér á Akureyri, samanber dómsskjal nr. 4. Var fundarefnið ákvarðanataka um samruna hlutafélaganna Valdemars Baldvinssonar ehf. og Valgarðs Stefánssonar ehf., sbr. dskj. nr. 4. 

Þann 22. janúar 1996 óskaði Einar S. Hálfdánarson, hdl., eftir því f.h. stefnanda með bréfi til stefnda að haldinn yrði skriflega boðaður hluthafafundur um fyrirhugaðan samruna félagsins og óskaði eftir að fyrir fundinum lægi samrunaáætlun og önnur nauðsynleg gögn sem lög gera kröfu til að fyrir liggi við ákvörðun um samruna tveggja félaga. Jafnframt var óskað eftir að fyrir fundinum lægi formleg tillaga um samrunann, sbr. dskj. nr. 6. Þann 12. ágúst 1996 ítrekaði Einar S. Hálfdánarson, hdl., f.h. stefnanda framkomna ósk 10. og 22. janúar 1996 og að á dagskrá fundarins verði svofelld tillaga: „Hluthafafundur í Valgarði Stefánssyni ehf. samþykkir, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, samruna félagsins við Valdemar Baldvinsson ehf.“, sbr. dskj. nr. 12.

Var aðalfundundur stefnda og jafnframt hluthafafundur boðaður að Hjalteyrargötu 12, Akureyri fimmtudaginn 10. október 1996 kl. 16:00, sbr. dskj. nr. 14. Svo sem fram komi í bókun aðalfundar, sbr. dskj. nr. 17 og 18, fór fram skrifleg atkvæðagreiðsla um tillöguna og var tillagan samþykkt með 113.660 atkvæðum eða 81,8%, af hlutafé en á móti voru 25.302 atkvæðum eða 18,2% af hlutafé, þ.e.a.s. samþykkt gegn atkvæðum stefnanda.

Fylgiskjöl og ársreikningur á dskj. nr. 20 beri með sér að hlutur stefnanda í Valgarði Stefánssyni ehf. var um 18,02% eða nánar tiltekið 18,024%.

Með símskeyti dags. 06.11.1996 fór Einar S. Hálfdánarson, hdl., þess á leit við stefnda fyrir hönd stefnanda að hlutur hennar í félaginu yrði innleystur á grundvelli 106. gr. laga nr. 138/1994, sbr. dskj. nr. 19. Í framhaldi af því fór lögmaður stefnanda þess á leit með matsbeiðni dags. í Reykjavík 18. nóvember 1996 til Héraðsdóms Norðurlands eystra að dómkvaddir yrðu hæfir og óvilhallir matsmenn til að meta verðmæti hluta stefnanda í stefnda, þar sem 13. þ.m. hefði stefndi hafnað kröfu stefnanda um innlausn. 

Stefndi gerði þá kröfu að hafnað yrði að dómkveðja matsmenn og var úrskurður uppkveðinn hér í dómi þann 20. mars 1997, þar sem kröfu stefnanda um dómkvaðningu matsmanna var hafnað. Þann 17. apríl 1997 var úrskurði þessum hnekkt í Hæstarétti og krafa stefnanda um dómkvaðningu matsmanna tekin til greina. Þann 28. apríl 1997 voru dómkvaddir matsmenn hér í dómi þeir Björgólfur Jóhannsson, löggiltur endurskoðandi, og Jón Hallur Pétursson, viðskiptafræðingur. 

Er matsgerð þeirra dags. á Akureyri 2. júlí 1997 og liggur frammi á dskj. nr. 33. Í niðurstöðu matsmanna ganga þeir út frá ársreikningi Valgarðs Stefánssonar ehf. fyrir árið 1995. Eigið fé á þeim tíma kr. 51.009.974,- og að teknu tilliti til skattaskuldbindinga á óskattlagt er eigið fé í árslok 1995, kr. 50.114.182,-. Þá meta þeir húsnæði Valgarðs Stefánssonar ehf. að Hjalteyrargötu 12 á Akureyri á kr. 35.000.000,- og mat bifreiða kr. 2.770.000,- og verðmæti sumarbústaðar við bókfært verð hans kr. 2.839.378,-. Að teknu tilliti til þessara eigna og skattaskuldbindinga á þær fjárhæðir telja þeir upplausnarvirði Valgarðs Stefánssonar ehf. kr. 62.536.851,-. 

Við mat þetta bætist síðan viðskiptavild félagsins teljist hún einhver. Í matsgerðinni segir að viðskiptavild sé almennt skilgreind sem verðmæti falið í framtíðarhagnaði af rekstri félags. Sé því ljóst að viðskiptavild sé háð huglægu mati og geti ekki talist áþreifanleg eign og verði ekki sýnileg fyrr en viðskipti eigi sér stað, sem sýni þá hvað aðilji sé tilbúinn að greiða fyrir hlutdeild í framtíðarafkomu viðkomandi félags. Miðað við þær forsendur sem liggja fyrir um rekstur Valgarðs Stefánssonar ehf. sé ekki hægt að meta viðskiptavild mikils ef nokkurs. 

Telja matsmenn að aðalverðmæti félagsins sé fólgið í áþreifanlegum eignum þess. Ef ekki standi til að leysa félagið upp sé ólíklegt að kaupandi fyndist sem tilbúinn væri að greiða upplausnarverð fyrir það. Ástæður séu einkum tvær, 18% hlutur veiti óveruleg áhrif á stjórnun félagsins og afkoma félagsins á árunum 1994 og 1995 gefi nær enga ávöxtun á upplausnarverðmæti þess. Eignarhlutdeild stefnanda í félaginu sé 18,024% samkvæmt gögnum sem fyrir matsmenn hafi verið lögð. 

Endanleg niðurstaða matsmanna er að upplausnarverð Valgarðs Stefánssonar ehf. sé kr. 62.536.000,-. Með tilliti til þess hve arðsemi Valgarðs Stefánssonar ehf. hafi verið lítil á undanförnum árum telja þeir hæfilegt að meta eignarhluta Guðrúnar Valgarðsdóttur á sem nemur 60% af áætluðu upplausnarverðmæti eða kr. 6.800.000,-.

Vitnið Jón Hallur Pétursson staðfesti matsgjörðina fyrir dómi. Hann bar þó að láðst hefði að taka tillit til yfirfæranlegs taps við útreikning á verðmæti félagsins og hefði það hækkað matið eitthvað að hans sögn.

Taldi lögmaður stefnanda að það hefði hækkað matið um kr. 900.000,-.

Stefnandi byggir fjárkröfur sínar á niðurstöðu matsmannanna þ.e.a.s. aðalkrafan kr. 11.271.500,- er 18,024% af upplausnarverðinu kr. 62.536.000,-, sem stefnandi telur vera fullar bætur sér til handa og varakrafan niðurstaða matsmannanna um 60% af áætluðu upplausnarverði eða kr. 6.800.000,-.

Krafa stefnanda um innlausn er byggð á 106. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög er hljóðar svo:

,,Hluthafar í því félagi eða félögum sem sameinuð eru öðrum, er hafa greitt atkvæði gegn samruna eða sameiningu í nýtt félag, eiga kröfu á því að hlutir þeirra verði innleystir ef skrifleg krafa er gerð um það innan mánaðar frá því að hluthafafundurinn var haldinn. Nú hefur þess verið farið á leit við hluthafa fyrir atkvæðagreiðslu að þeir sem nota vilja innlausnarréttinn gefi til kynna vilja sinn í því efni og er innlausnarrétturinn þá bundinn því skilyrði að hlutaðeigendur hafi gefið yfirlýsingu þar um á hluthafafundinum. Félagið skal kaupa hlutina af þeim á verði sem svarar til verðmætis hlutanna og ákveðið skal, sé ekki um samkomulag að ræða, af matsmönnum, dómkvöddum á heimilisvarnarþingi félagsins. Hvor aðili um sig getur borið ákvörðun matsmanna undir dómstóla. Mál verður að höfða innan þriggja mánaða frá því að mat hefur farið fram.“

Stefnandi telur ofangreint ákvæði vera nokkurs konar eyðuákvæði vegna þess að það vísar til þeirra aðila sem þannig er ástatt um sem segir í greininni. Efnisreglurnar um þá ákvörðunartöku sem vísað er til sé að finna í öðrum greinum laganna; inntak ákvæðisins geti því breyst án þess að orðalagi ákvæðisins sjálfs sé breytt.  Þetta sé vel þekkt aðferð við lagasetningu. Ákvæðið sé að öðru leyti byggt á sjónarmiðum um minnihlutavernd sem hafi fengið síaukið vægi í félagaréttinum á undanförnum árum.

Samkvæmt orðum greinarinnar og almennri málvenju eigi hún við bæði um yfirtökufélag og yfirtekið félag, vegna þess að hvort um sig sé félag er sameinað sé öðru félagi. Vísast m.a. um þetta til nákvæmlega sama orðalags í, annars vegar 1. mgr. og hins vegar 2. mgr. 99. greinar laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Enginn munur sé á aðstöðu hluthafa í yfirteknu félagi og yfirtökufélagi yfirleitt nema í þeim tilvikum þar sem hluthöfum í yfirtekna félaginu er greitt út með reiðufé. Að öðrum kosti sé spurningin aðeins um að velja félaginu nafn og kennitölu því að það sé ekkert skilyrði að yfirtökufélagið sé minna en yfirtekna félagið. Hluthafar í báðum félögunum eru eins settir o.s.frv. Þeir séu því í nákvæmlega sömu aðstöðu. Sé það nær undantekningarlaust hluthafafundur sem taki ákvörðun um sameiningu, því nær alltaf þurfi að breyta samþykktum í hinu sameinaða félagi, nema þegar hluthöfum í yfirtekna félaginu sé greitt með reiðufé fyrir hlut sinn.

Væri skilningur stefnda ráðandi væri hluthöfum þar sem andstaða væri í öðrum hluthafahópnum við sameiningu í lófa lagið að kalla félagið þar sem andstaða væri við sameininguna yfirtökufélag og komast þannig hjá ákvæðum 106 gr. laga nr. 138/1994 um innlausn.

Samruni félaga sé m.a. leið til að breyta hluthafahópi án þess að hluthafar geti haft endanleg áhrif á það. Í þessu tilfelli geti hluthafarnir ekki haft áhrif með því að neyta forkaupsréttar og væri þannig hægt að breyta valdahlutföllum, eins og raunar í þessu tilfelli, og komast þannig hjá þeim áhrifum sem forkaupsrétti sé ætlað að hafa undir venjulegum kringumstæðum. Þetta sé með öðrum orðum skerðing á rétti einstakra hluthafa. Af þessu leiði að lagareglur sem rétta hlut hluthafa sem sæti skerðingu, eins og 106. gr. geri, eigi að túlkast rúmt. Engar efnislegar ástæður finnast til að túlka greinina þrengra en orðalag hennar gefi til kynna. Stefnandi vísar til réttlætissjónarmiða til stuðnings sjónarmiða um innlausn.

Stefndi mótmælir skilningi stefnanda á 1. ml. 106. gr. laga nr. 138/1994. Reglan sé efnislega þannig að hluthafar í félagi sem sameinað er öðru og greitt hafi atkvæði gegn samruna eigi kröfu á því að hlutur þeirra verði innleystur. Í þessu sambandi sé rétt að vekja athygli á hvernig taka eigi ákvörðun um samruna félaga samkvæmt lögum nr. 138/1994. Samkvæmt 1. mgr. 99. gr. laganna beri að taka þessa ákvörðun á hluthafafundi í því félagi sem er yfirtekið. Undantekningu frá þessari reglu sé að finna í 104. gr. laganna, sem ekki eigi við í þessu tilfelli. Rétt sé að hafa þetta í huga því að samkvæmt 1. ml. 106. gr. séu það hluthafar sem greitt hafa atkvæði gegn samruna sem eigi innlausnarréttinn. Sé síðan litið til 2. mgr. 99. gr. laganna þá sé það meginregla að í yfirtökufélaginu þ.e. stefnda sé það stjórn félagsins sem tekur ákvörðun um samruna. Í ljósi þessa sýnist augljóst að átt sé við hluthafa í yfirtekna félaginu í 1. ml. 106. gr. laga nr. 138/1994, en ekki hluthafa í yfirtökufélaginu eins og stefnandi haldi fram, því að hluthafar yfirtökufélagsins koma ekki að ákvörðuninni nema í undantekningartilvikum. 

Heldur stefndi því fram að sé reglan í 1. ml. 106. gr. skýrð samkvæmt orðanna hljóðan eigi hún við um hluthafa í yfirtekna félaginu. 

Sé litið til eldri laga um hlutafélög nr. 32/1978, þ.e. XIV. kafla þeirra laga, sé ekki nokkur vafi á því að 1. ml. 106. gr. laga nr. 138/1994 feli ekki í sér innlausnarrétt fyrir hluthafa í yfirtökufélaginu. Í 128. gr. eldri hlutafélagalaga hafi verið samhljóða ákvæði og nú í 106. gr. laga nr. 138/1994. Í greinargerð með eldri lögunum, þ.e.a.s. 126. gr. lagafrumvarpsins hafi verið tekin af öll tvímæli um að túlka bæri innlausnarheimildina eins og stefndi haldi fram. Varðandi innlausnarfjárhæðina tekur stefndi fram að samkvæmt 106. gr. laga nr. 138/1994 beri félagi að kaupa hlut á því verði, sem svarar til verðmætis hans og skal ákveðið af dómkvöddum matsmönnum. Stefnandi hafi lagt fram matsgerðina, en geri allt að einu kröfu um miklu hærri fjárhæð en matsmenn telji vera verðmæti hlutar stefnanda. 

Rökin sem stefnandi færi fram séu að því er virðist byggð á því að stefnandi eigi rétt á skaðabótum. Þetta sjónarmið eigi alls ekki við því að væri innlausnarskyldan fyrir hendi, þá fæli hún í sér skyldu til að kaupa hlut stefnanda en ekki greiða skaðabætur. 

Af hálfu stefnda er niðurstöðu matsmanna um verðmæti hlutans ekki mótmælt. 

Við kröfugerð stefnanda hefur stefndi það að athuga að hann mótmælir því að í málinu verði dæmt um greiðsluskyldu hans. Telur stefndi að í málinu verði einungis dæmt um það hvort innlausnarskylda hvíli á honum og ef svo þá á hvaða verði. Sérstaklega er dráttarvaxtakraöfunni mótmælt að því er varðar upphafstíma. 

Álit dómsins.

Stefndi benti á að málatilbúnaði stefnanda sé þannig háttað að frávísun gæti varðað ex officio. Dómurinn telur málatilbúnað stefnanda ekki vera haldinn slíkum annmörkum að frávísun varði. Stefnandi byggir kröfu sína um innlausn hlutar síns í Valgarði Stefánssyni ehf. á 106. gr. laga nr. 138/1994, sem segir: „Hluthafar í því félagi sem sameinuð eru öðrum, er hafa greitt atkvæði gegn samruna eða sameiningu í nýtt félag, eiga kröfu á því að hlutir þeirra verði innleystir“. Samkvæmt orðanna hljóðan virðist sem svo að það eigi bæði við um yfirtöku- og yfirtekin félög, þar sem bæði eru félög sem sameinuð eru öðru félagi. 

Í eldri lögum þ.e. l. nr. 32/1978 var sambærilegt ákvæði sbr. það sem að framan er rakið af stefnda. 

Hér gildir hin gamla setning: „Greinargerðir eru ekki lög.“ (Motiverne er ikke lov.) 

Ef löggjafinn hefði ætlað 106. gr. laga nr. 138/1994 að gilda einungis um yfirtekin félög hefði honum verið í lófa lagið að kveða skýrlega á um það í greininni eins og gert er t.d. í 100. gr. sömu laga. Hefði það verið ætlunin hefði greinin væntanlega hljóðað eitthvað á þá leið: „Hluthafar í einu eða fleiri yfirteknum félögum, er hafa greitt atkvæði gegn samruna eða sameiningu í nýtt félag, eiga kröfu á því að hlutir þeirra verði innleystir o.s.frv.“ 

Þannig telur dómurinn að 106. gr. laga nr. 138/1994 sé ætlað að gilda um bæði yfirtekin og yfirtökufélög í þeim tilvikum er hluthafafundur tekur ákvörðunina sbr. 99. gr. sömu laga.

Þessi niðurstaða er eðlileg í ljósi aukinnar áherslu á minnihlutavernd á síðari árum, sem fram kemur bæði í lagasetningu og tilskipunum Evrópusambandsins. Eðlilegt þykir að sami réttur til innlausnar gildi um hluthafa í yfirtöku og yfirteknu félögunum, sem lýst hafa andstöðu við sameiningu.

Telja verður að sjónarmið um minnihlutavernd eigi sérstaklega við þegar um einkahlutafélög er að ræða, þar sem oft er um að ræða fáa hluthafa og aukin hætta á að meirihlutavaldi sé misbeitt. Víða í lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög er byggt á sjónarmiðum um minnihlutavernd, sbr. t.d. 18. gr., 60. gr., 69. gr.,70. gr. og 2. mgr. 76. gr. laganna.

Þegar um samruna sem þennan er að ræða skerðist hlutur hluthafa í yfirtökufélaginu, því hluthafar yfirtekna félagsins öðlast hlut í hinu sameinaða félagi. Vegna þessa getur slíkur samruni verið allt eins íþyngjandi fyrir hluthafa í yfirtökufélagi og yfirteknu félagi. Eins þarf slík sameining ekki alltaf að vera hagkvæm fyrir hluthafa í yfirtekna félaginu. Í þessu máli virðist vera sem önnur sjónarmið en hagkvæmnissjónarmið ráði ferðinni, því svo virðist sem sameiningin sé í raun óarðvænleg skv. mati hinna dómkvöddu matsmanna. 

Samkvæmt þessu telur dómurinn að taka verði til greina kröfu stefnanda um innlausn í stefnda á grundvelli 106. gr. laga nr. 138/1994. Matsmenn hafa metið verðmæti hlutar stefnanda í stefnda á kr. 6.800.000,-. Ber að leggja það mat til grundvallar í þessu máli. Þá ber stefnda að greiða stefnanda dráttarvexti skv. III. kafla vaxtalaga frá stefnubirtingardegi 27. ágúst 1997 til greiðsludags og kr. 800.000,- í málskostnað og er virðisaukaskattur innifalinn í þeirri fjárhæð.

Dóminn kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, Valgarður Stefánsson ehf., innleysi hlut stefnanda, Guðrúnar Valgarðsdóttur, með kr. 6.800.000,- ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 27. ágúst 1997 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda kr. 800.000,- í málskostnað og er virðisaukaskattur innifalinn í þeirri fjárhæð.