Hæstiréttur íslands
Mál nr. 58/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. janúar 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 7. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2017, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verið vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki fært fram haldbær rök fyrir kröfu sinni um frávísun málsins frá Hæstarétti og verður henni því hafnað.
B A Framleiðsla ehf. höfðaði mál þetta gegn varnaraðila með stefnu birtri 11. desember 2015 og var það þingfest 17. sama mánaðar. Krafðist félagið þess að varnaraðila yrði gert að greiða sér 1.516.969 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Varnaraðili tók til varna með greinargerð sem lögð var fram í þinghaldi 9. febrúar 2016 þar sem hann krafðist aðallega sýknu en til vara að fjárkrafa B A Framleiðslu ehf. yrði lækkuð.
Þegar málið var þingfest 17. desember 2015 hafði farið fram árangurslaust fjárnám hjá B A Framleiðslu ehf. 20. nóvember 2015, og voru upplýsingar um það færðar á svonefnda vanskilaskrá Creditinfo Lánstrausts hf. 10. desember sama ár. Þá kemur einnig fram í útskrift úr sömu skrá að árangurslaust fjárnám hafi farið fram hjá B A Framleiðslu ehf. 1. mars 2016 en upplýsingar um það voru færðar á skrána 3. sama mánaðar. Bú B A Framleiðslu ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 15. september 2016 og upplýsti lögmaður félagsins um það á dómþingi 11. nóvember sama ár. Varnaraðili krafðist þess við fyrirtekt málsins 9. desember 2016 að stefnanda yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Við þeirri kröfu varð héraðsdómur með hinum kærða úrskurði.
Sóknaraðili heldur því fram að krafa varnaraðila um málskostnaðartryggingu sé of seint fram komin þar sem honum hafi mátt vera kunnugt um bága fjárhagsstöðu B A Framleiðslu ehf. við þingfestingu málsins 17. desember 2015. Máli sínu til stuðnings vísar sóknaraðili meðal annars til þeirrar árangurslausu fjárnámsgerðar sem fram fór 20. nóvember 2015 og skráð var á svonefnda vanskilaskrá Creditinfo Lánstrausts hf. 10. desember 2015 eins og áður getur.
Samkvæmt 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 getur stefndi krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar ef leiða má líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu kostnaðarins. Í lögskýringargögnum er áréttað að stefndi verði að krefjast slíkrar tryggingar við þingfestingu máls og geti ekki komið slíkri kröfu fram á síðari stigum málsins hafi honum verið eða mátt vera kunnugt um tilefni hennar við þingfestingu. Ákvæði þetta hefur þó ekki verið talið girða fyrir að hafa megi síðar uppi slíka kröfu ef sérstakt tilefni gefst þá fyrst til þess. Sem fyrr segir var mál þetta þingfest 17. desember 2015 og samkvæmt útskrift úr vanskilaskrá þeirri sem sóknaraðili hefur vísað til voru gerð árangurslaus fjárnám hjá B A Framleiðslu ehf. 20. nóvember 2015 og 1. mars 2016. Upplýsingar þess efnis voru sem fyrr segir færðar á vanskilaskrána 10. desember 2015 og 3. mars 2016. Samkvæmt því verður ekki talið að varnaraðili hafi sýnt fram á að hann hafi fyrst átt þess kost að koma með kröfu um málskostnaðartryggingu, svo seint sem raun varð á, þannig að skilyrði séu til að víkja frá fyrrgreindri meginreglu 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Af þeim sökum verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Rétt er að ákvörðun um málskostnað í héraði í þessum þætti málsins bíði endanlegs dóms í því.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Varnaraðili, Húsfélagið Kleppsvegi 150, greiði sóknaraðila, þrotabúi B A Framleiðslu ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2017.
Mál þetta er höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 11. desember 2014, sem þingfest var 17. desember 2015.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.516.979 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. júlí 2015 til greiðsludags.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla. Í málinu gerir stefndi auk þess gagnkröfu til skuldajafnaðar vegna skaðabótakröfu sem stefnandi telur sig eiga á hendur stefnanda.
Þann 9. desember setti stefndi fram kröfu um að stefnandi legði fram málskostnaðartryggingu. Stefndi mótmælti kröfunni í þinghaldi 15. desember og var krafan tekin til úrskurðar þann dag.
I.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 15. september 2016 var bú stefnanda tekið til gjaldþrotaskipta. Fyrst fyrirtaka málsins eftir það var 12. október 2016 og lögðu lögmenn aðila þá fram gögn til stuðnings málsástæðum sínum, án þess að vikið væri sérstaklega að því að stefnandi hefði verið tekinn til gjaldþrotaskipta. Málið var því næst tekið fyrir 11. nóvember 2016. Í þinghaldi þann dag greindi lögmaður stefnanda frá því að stefnandi hefði verið tekinn til gjaldþrotaskipta og var málinu frestað í því skyni að afla upplýsinga um afstöðu skiptastjóra til áframhaldandi málareksturs. Málið var næst tekið fyrir í þinghaldi 9. desember 2016. Lagði stefnandi þá fram tölvupóst um að skiptastjóri gerði ekki athugasemd við að lögmaður stefnanda héldi áfram málarekstri fyrir hönd þrotabúsins. Dómurinn gerði athugasemd við afstöðu skiptastjóra, sem hann taldi ekki nægjanlega skýra, og fór fram á að aflað yrði formlegra upplýsinga um afstöðu skiptastjóra til þess hvort þrotabúið tæki við og haldi áfram málarekstri í eigin nafni, sbr. 3. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991. Í sama þinghaldi gerði lögmaður stefnda kröfu um að stefnandi legði fram málskostnaðartryggingu skv. b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991.
Í þinghaldi 15. desember 2016 lagði stefnandi fram yfirlýsingu skiptastjóra um að þrotabúið hafi tekið við aðildinni í samræmi við 3. tl. 22. gr. laga nr. 91/1991 og að Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl. hefði heimild til að reka málið áfram fyrir hönd þrotabúsins „án þess að kostnaður vegna reksturs málsins falli á þrotabúið“.
II.
Til stuðnings kröfu stefnda um málskostnaðartryggingu er sem fyrr segir vísað til b-liðar 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991. Tekið er fram að ekkert sé fram komið sem styðji að þrotabúið eða kröfuhafar þess séu reiðbúnir eða hafi getu til þess að standa undir þeim kostnaði sem af máli þessu hefur hlotist og kunni að hljótast. Því teljist skilyrði ákvæðisins uppfyllt.
Af hálfu stefnanda var framkominni kröfu um málskostnaðartryggingu mótmælt sem of seint fram kominni.
III.
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, getur stefndi krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar, ef leiða má líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu hans. Þetta lagaákvæði hefur í réttarframkvæmd verið skýrt þannig að komi fyrst fram tilefni til kröfu um málskostnaðartryggingu eftir þingfestingu máls girði ákvæðið ekki fyrir að hafa megi uppi slíka kröfu síðar undir rekstri máls, enda sé þeirri kröfu haldið fram svo fljótt sem verða má.
Mál þetta var þingfest 17. desember 2015 og verður ekki séð af gögnum málsins að neitt hafi legið fyrir um ógjaldfærni stefnanda á þeim tíma. Í þinghaldi 11. nóvember 2016 gerði stefnandi grein fyrir því að bú stefnanda hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta og að aflað yrði upplýsinga um um afstöðu skiptastjóra til áframhaldandi málareksturs fyrir næsta þinghaldi í málinu. Í næsta þinghaldi bárust upplýsingar frá skiptastjóra en af þeim var enn ekki hægt að ráða um ábyrgð á kostnaði af rekstri málsins. Í sama þinghaldi gerði stefndi kröfu um að málskostnaðartrygging yrði lögð fram í málinu með vísan til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Verður því ekki fallist á að krafa stefnda um málskostnaðartryggingu sé of seint fram komin.
Bú stefnandi hefur nú verið tekið til gjaldþrotaskipta. Af því leiðir að verulegar líkur eru á að stefnandi sé ófær um að greiða hugsanlegan málskostnað. Engar upplýsingar liggja fyrir um eignastöðu þrotabúsins eða afstöðu kröfuhafa til ábyrgðar á kostnaði af málarekstrinum þrátt fyrir að ítrekað hafi verið óskað eftir upplýsingum um þetta atriði frá skiptastjóra. Þá er yfirlýsing skiptastjóra um að málareksturinn geti haldið áfram „án þess að kostnaður vegna reksturs málsins falli á þrotabúið“ þýðingarlaus enda verður einvörðungu aðilum máls gert að greiða gagnaðila málkostnað sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Þrotabú stefnanda er nú aðili að málinu sbr. 3. mgr. 33. gr. sömu laga.
Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að stefnandi hefur ekki lagt fram gögn sem sýna fram á að eða gera sennilegt, að hann sé fær um að standa straum af kostnaði við málarekstur þennan. Verður krafa stefnda um framlagningu málskostnaðartryggingu því tekin til greina.
Með hliðsjón af gögnum málsins og umfangi þess þykir fjárhæð málskostnaðartryggingar hæfilega ákveðin 800.000 kr. og skal hún lögð fram í formi reiðufjár, bankabókar eða bankatryggingar innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu þessa úrskurðar.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Stefnandi, þrotabú B A framleiðslu ehf., skal innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu þessa úrskurðar, leggja fram tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli þessu, að fjárhæð 800.000 krónur, í formi reiðufjár, bankabókar eða bankatryggingar.