Hæstiréttur íslands
Mál nr. 147/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Innsetningargerð
|
Fimmtudaginn 17. mars 2011. |
|
|
Nr. 147/2011. |
þrotabú GH1 hf. (Guðrún Helga Brynleifsdóttir hrl.) gegn Capacent ehf. (enginn) |
Kærumál. Innsetningargerð.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni þrotabús G hf. um að því yrði heimilað að fá með beinni aðfaragerð umráð allra eigna þrotabúsins, ásamt öllu tilheyrandi lausafé, sem væru í vörslum C ehf. og afhentar höfðu verið C ehf. samkvæmt samningi aðila. Í Hæstarétti var talið að í beiðni þrotabúsins um aðför væru slíkir annmarkar á tilgreiningu þeirra muna sem það leitaði heimildar til að fá tekna úr umráðum C ehf. með beinni aðfarargerð, að óhjákvæmilegt væri að hafna beiðninni af sjálfsdáðum sbr. 1. mgr. 10. gr. laga og 2. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Hæstiréttur staðfesti því niðurstöðu hins kærða úrskurðar og hafnaði beiðni um aðför þrotabús G hf. hjá C ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. mars 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2011, þar sem var „vísað á bug“ beiðni sóknaraðila um að sér yrði heimilað að fá með beinni aðfarargerð „umráð allra eigna gerðarbeiðanda í vörslum gerðarþola, sem voru afhentar gerðarþola samkvæmt samningi aðila dagsettum 15. september 2010, um rekstur gerðarbeiðanda ásamt öllu tilheyrandi lausafé“. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að í beiðni sóknaraðila um aðför séu slíkir annmarkar á tilgreiningu þeirra muna, sem hann leitar heimildar til að fá tekna úr umráðum varnaraðila með beinni aðfarargerð, að óhjákvæmilegt sé að beiðninni verði af sjálfsdáðum hafnað, sbr. 1. mgr. 10. gr. og 2. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989, enda væri ekki á grundvelli hennar unnt að ákveða nægilega til hvaða muna gerðin ætti að taka. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest á þann hátt, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Beiðni sóknaraðila, þrotabús GH1 hf., um aðför hjá varnaraðila, Capacent ehf., er hafnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2011.
Með aðfararbeiðni, móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 15. desember sl., krefst sóknaraðili, þrotabú GH1 hf., kt. 580800-3350, Borgartúni 25, Reykjavík, þess að úrskurðað verði að umráð allra eigna sóknaraðila í vörslum varnaraðila, Capacent ehf., kt. 550910-0630, Borgartúni 27, Reykjavík, sem hafi verið afhentar varnaraðila samkvæmt samningi aðila dagsettum 15. september 2010, um rekstur sóknaraðila ásamt öllu tilheyrandi lausafé, skuli veitt sóknaraðila með aðför samkvæmt 1. mgr. 78. gr., sbr. 73. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Jafnframt krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Sóknaraðili reisir beiðni sína á 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Samkvæmt 2. mgr. þess ákvæðis skal héraðsdómari, þegar honum hefur borist beiðni samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins, athuga hvort lög leiði til þess að beiðninni verði þegar vísað á bug áður en málið er þingfest.
Í beiðni sinni tilgreinir sóknaraðili þá muni sem hann óskar afhendingar á með því að vísa til allra eigna sinna sem hafi verið afhentar varnaraðila með samningi dagsettum 15. september 2010. Þessi samningur er meðal gagna málsins. Samkvæmt honum er Capacent hf., sem nú hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta undir heitinu GH1 hf., seljandi og CC 200 ehf., sem nú ber heitið Capacent ehf., kaupandi.
Í fyrsta kafla samningsins, grein 1.1., er samið um það að seljandi selji og kaupandi kaupi „Allan rekstur seljanda ásamt öllu tilheyrandi lausafé s.s. borðum, stólum og skápum og öðrum eignum, þar með talið öllum gagnagrunnum, hugbúnaði, hugverkum, kröfur vegna verka í vinnslu (kröfur sem munu myndast vegna vinnu sem starfsmenn Capacent hafa innt af hendi fyrir afhendingu hins selda hafi reikningur ekki þegar verið gefinn út vegna þeirrar vinnu), tölvum, tölvubúnaði, símum, símstöðvum, bókhaldskerfum og öðrum kerfum og forritum, möppur, bréfsefni, lausnir, markaðsefni, skilti til að nota inni og úti, viðskiptasambönd og annað sem Capacent hefur notað í rekstri sínum (hér eftir „hið selda“).“
Í 10. gr. laga nr. 90/1989 um aðför eru fyrirmæli um hvernig aðfararbeiðni skuli úr garði gerð. Samkvæmt ákvæðinu skal í aðfararbeiðni tiltekið nákvæmlega hvers sé krafist með aðfarargerð.
Aðfararheimild, sem sóknaraðili hyggst ná fram með aðfararbeiðni sinni, á að vera unnt að fullnægja á grundvelli 73. gr. laga nr. 90/1989 um aðför með því að sýslumaður taki það sem aðfararheimildin hljóðar um úr umráðum varnaraðila og afhendi það sóknaraðila.
Þegar lesin eru saman beiðni um aðför og áðurnefndur samningur, sem er grundvöllur beiðninnar og nánari útfærsla hennar, verður ljóst að það lausafé, sem sóknaraðili krefst að verði tekið úr vörslum varnaraðila, er ekki svo skýrt skilgreint sem nauðsyn ber til, til þess að ekki leiki vafi á því hvað það er sem sýslumanni ber að taka úr vörslum varnaraðila, yrði fallist á kröfu sóknaraðila.
Aðfararbeiðnin þykir því ekki uppfylla skilyrði 10. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og því verður henni þegar vísað á bug, sbr. 2. mgr. 78. gr. sömu laga.
Málskostnaður úrskurðast ekki.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Aðfararbeiðni þrotabús GH1 hf. er vísað á bug.