Hæstiréttur íslands
Mál nr. 106/2003
Lykilorð
- Veiðiheimildir
- Samningsveð
- Skip
|
|
Fimmtudaginn 13. nóvember 2003. |
|
Nr. 106/2003. |
Börkur Hrafn Árnason og Bjartur í Vík ehf. (Jón Magnússon hrl.) gegn Árna Stefáni Björnssyni (Páll Arnór Pálsson hrl.) og Árni Stefán Björnsson gegn Berki Hrafni Árnasyni Bjarti í Vík ehf. Sigurjóni Guðbjartssyni Árna Guðbjartssyni og Vík sf. |
Veiðiheimildir. Samningsveð. Skip.
Á átti veðrétt í fiskiskipinu S og krafðist nauðungarsölu. Kom í ljós að leyfi til veiða í atvinnuskyni á sóknardögum, sem fylgt hafði skipinu, hafði verið framselt og skráð á annað fiskiskip. Talið var að framsalið hefði verið í andstöðu við 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð þar sem ekki var leitað samþykkis Á eða annarra veðhafa. Var ljóst samkvæmt fyrirliggjandi verðmati, sem ekki hafði verið mótmælt, að við framsal veiðiheimildanna rýrnaði verðgildi skipsins svo að Á gat ekki vænst fullnustu veðkröfu sinnar við nauðungarsölu. Var Á talið rétt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að verja veðrétt sinn og koma í veg fyrir að veðinu yrði spillt með ólögmætum verknaði og stuðla þannig að því að það veiti honum umsamin tryggingaréttindi. Honum var því rétt að standa að málsókninni þótt ekki væri til þess bein heimild í settum lögum. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um ógildingu framsalsins og um ógildingu á skráningu Fiskistofu á leyfinu yfir á annað skip.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.
Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 27. mars 2003. Þeir krefjast sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 11. júní 2003. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms að öðru leyti en því að aðaláfrýjendum og gagnstefndu verði gert í sameiningu að greiða sér málskostnað í héraði ásamt málskostnaði fyrir Hæstarétti.
Gagnstefndu, Sigurjón Guðbjartsson, Árni Guðbjartsson og Vík sf., krefjast þess að héraðsdómur verði staðfestur og gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða þeim málskostnað fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins gaf Sigríður G. Halldórsdóttir út skuldabréf 5. júní 1998 til Rakkaness ehf. að fjárhæð 6.464.000 krónur. Átti að greiða skuldina, sem var bundin vísitölu neysluverðs, með tilteknum vöxtum á tíu árum með þremur árlegum afborgunum, í fyrsta sinn 5. október 1998. Til tryggingar skuldinni var fiskiskipið Kristín HF 12 með skipaskrárnúmeri 6886 sett að veði með uppfærslurétti að baki tveimur veðskuldum við Byggðastofnun frá 10. október 1997, annarri að fjárhæð 21.696 þýsk mörk og hinni 875.000 krónur, auk þess sem heimilað var að framar stæði í veðröð skuld við Landsbanka Íslands að fjárhæð 3.400.000 krónur. Skuldabréfið, sem var þinglýst 2. júlí 1998, var framselt 1. desember sama ár til gagnáfrýjanda. Það ber með sér að fyrstu fimm afborganirnar hafi verið greiddar af skuldinni til og með gjalddaga 5. febrúar 2000.
Af framlögðum gögnum úr þinglýsingabók verður ráðið að nafngreindur maður hafi 26. apríl 1999 fengið afsal fyrir áðurnefndu skipi, sem fékk þá heitið Sigrún GK 217, en hann hafi 18. ágúst sama ár afsalað því til Gullfaxa ehf. Á þeim tíma hvíldu eingöngu fyrrnefndar veðskuldir við Byggðastofnun á skipinu framar skuldabréfi gagnáfrýjanda í veðröð. Að baki því var síðar þinglýst tveimur veðskuldabréfum, sem voru gefin út 18. ágúst 1999 og samtals að fjárhæð 8.985.593 krónur. Skuldabréf gagnáfrýjanda var áritað 28. febrúar 2000 um að Gullfaxi ehf. hafi tekið að sér greiðslu skuldarinnar, svo og að útgefandi bréfsins væri leystur undan henni.
Fyrir liggur í málinu að Fiskistofa skráði 1. september 2000 flutning á leyfi fyrir Sigrúnu GK 217 til veiða í atvinnuskyni á sóknardögum yfir á fiskiskipið Einar HU 13 með skipaskrárnúmeri 6702. Var þetta gert á grundvelli ódagsettrar tilkynningar til Fiskistofu frá Gullfaxa ehf. Óumdeilt er að ekki var leitað samþykkis gagnáfrýjanda fremur en annarra veðhafa í fiskiskipinu Sigrúnu fyrir þessari ráðstöfun.
Samkvæmt gögnum úr þinglýsingabók var Einar HU 13 í eigu gagnstefnda Víkur sf. á þeim tíma, sem framangreint veiðileyfi var flutt á skipið. Gagnstefndu Sigurjón Guðbjartsson og Árni Guðbjartsson voru sameigendur að því félagi, sem gaf út afsal fyrir skipinu 17. maí 2001 til aðaláfrýjandans Bjarts í Vík ehf. Aðaláfrýjendum og gagnstefndu ber saman um að munnlegur samningur hafi verið gerður í ágúst 2000 milli aðaláfrýjandans Barkar Hrafns Árnasonar og gagnstefnda Víkur sf. um kaup þess fyrrnefnda á skipinu, en aðaláfrýjandinn Bjartur í Vík ehf., sem stofnað var 27. nóvember 2000 og Börkur er í forsvari fyrir, hafi gengið inn í kaupin í hans stað. Í málinu liggur fyrir reikningur að fjárhæð 8.500.000 krónur, sem gefinn var út af Kvóta- og skipasölunni ehf. 18. september 2000 á hendur aðaláfrýjandanum Berki vegna kaupa á „veiðileyfi“, en ekki var þar getið um hver ráðstafaði leyfinu á þennan hátt eða af hvaða skipi. Í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi greindi þessi aðaláfrýjandi frá því að sér hafi ekki verið kunnugt um af hvaða skipi veiðileyfið var fengið fyrr en mál þetta var höfðað.
Gagnáfrýjandi kveður lögmann hafa frá því í lok ágúst 2000 staðið að tilraunum til að innheimta fyrir sig kröfu samkvæmt skuldabréfinu frá 5. júní 1998. Hafi meðal annars verið beðið um nauðungarsölu á fiskiskipinu Sigrúnu til fullnustu á skuldinni, en þá hafi komið fram að veiðileyfi þess hefði verið ráðstafað. Sýslumaður hafi ákveðið að skipið yrði selt án veiðileyfis, en gagnáfrýjandi þá óskað eftir því að nauðungarsölu yrði frestað, enda útséð að söluverð skipsins án slíks leyfis myndi ekki hrökkva fyrir kröfu hans. Í framhaldi af þessu leitaði gagnáfrýjandi eftir því við Fiskistofu með bréfi 5. október 2001 að veiðileyfið yrði aftur skráð á fiskiskipið Sigrúnu, þar sem ráðstöfun leyfisins hefði verið í andstöðu við ákvæði 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Þessu erindi hafnaði Fiskistofa 25. sama mánaðar með því að ekki væri á færi hennar að skera úr því hvort brotinn hafi verið réttur á gagnáfrýjanda með þessari ráðstöfun.
Samkvæmt útreikningi, sem gagnáfrýjandi hefur lagt fram um fjárhæð kröfu sinnar samkvæmt skuldabréfinu frá 5. júní 1998, nam hún samtals 7.072.485 krónum 25. nóvember 2002 að meðtöldum áföllnum vöxtum og kostnaði, en að teknu tilliti til innborgana, sem fengust á skuldina í september 2000 og maí 2001. Þá hefur gagnáfrýjandi einnig lagt fram verðmat fyrirtækisins Báta og búnaðar, sem dagsett er sama dag, á fiskiskipinu Sigrúnu. Kemur þar fram að andvirði skipsins án veiðileyfis hafi á matsdegi verið á bilinu 3.000.000 til 3.500.000 krónur, en í ágúst 2000 3.500.000 til 4.000.000 krónur. Ef skipinu fylgdi á hinn bóginn veiðileyfi og það hefði fengið úthlutað 21 sóknardegi á yfirstandandi fiskveiðiári væri söluverðið á matsdegi á bilinu 18.000.000 til 19.000.000 krónur.
Fyrir héraðsdómi beindi gagnáfrýjandi kröfum sínum að aðaláfrýjendum og gagnstefndu, auk Gullfaxa ehf. Síðastnefnt félag tók þar ekki til varna, en með hinum áfrýjaða dómi var því gert ásamt aðaláfrýjendum að þola ógildingu á því framsali veiðileyfis, sem að framan er lýst, ásamt skráningu þess á fiskiskipið Einar. Samkvæmt málatilbúnaði gagnáfrýjanda var bú Gullfaxa ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 20. desember 2002, en þrotabúi félagsins hefur ekki verið stefnt fyrir Hæstarétt.
II.
Í 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 felst bann við því að eigandi veðsetts hlutar skilji frá honum réttindi til atvinnurekstrar, sem stjórnvöld hafa úthlutað lögum samkvæmt og opinberlega eru skráð á hlutinn, nema því aðeins að þeir, sem eiga veðrétt í honum, gefi þinglýst samþykki fyrir þeirri ráðstöfun. Með þessari bannreglu er þeim, sem fær veðrétt í slíkum hlut, veitt sú vernd að án samþykkis hans getur eigandi hlutarins ekki ráðstafað réttindum til atvinnurekstrar, sem tengd eru hlutnum á þennan hátt, og rýrt með því verðgildi hans og þá tryggingu, sem veðhafi nýtur. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, sbr. 5. gr. sömu laga eins og þeim var breytt með 1. gr. laga nr. 1/1999, var veiðileyfi, sem fengið var fyrir fiskiskipið Sigrúnu GK 217 en síðan fært af því á Einar HU 13, megin forsendan fyrir því að nota mætti fyrrnefnda skipið til veiða í atvinnuskyni hér við land. Í hinum áfrýjaða dómi er rakið í einstökum atriðum að veiðileyfi þessu var úthlutað lögum samkvæmt af stjórnvaldi, tengt tilteknu skipi og skráð opinberlega. Svo sem ráðið verður af áðurgreindu verðmati frá 25. nóvember 2002 var verðgildi fiskiskipsins Sigrúnar sem tækis til atvinnurekstrar og þar með gildi þess sem trygging fyrir veðkröfu gagnáfrýjanda í verulegum atriðum háð því hvort fyrir hendi væri leyfi til að nota það við veiðar í atvinnuskyni. Að öllu þessu virtu orkar ekki tvímælis að leyfi þetta verður talið til réttinda til nýtingar í atvinnurekstri í skilningi 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997. Var því óheimilt að skilja þetta leyfi frá skipinu án samþykkis gagnáfrýjanda.
Í málinu liggur ekki annað fyrir en að veðskuldirnar tvær við Byggðastofnun, sem áður var getið, hvíli enn á fiskiskipinu Sigrúnu og standi þar framar veðskuldabréfi gagnáfrýjanda í réttindaröð. Athugasemdum hefur hvorki verið hreyft við fyrrgreindum útreikningi gagnáfrýjanda á kröfu sinni samkvæmt skuldabréfinu, sem hann kveður hafa numið alls 7.072.485 krónum 25. nóvember 2002, né við áðurnefndu verðmati á skipinu, en samkvæmt matinu var verðmæti skipsins þann dag ekki meira en 3.500.000 krónur ef því fylgdi ekki veiðileyfi og ekki minna en 18.000.000 krónur ef slíkt leyfi væri fyrir hendi. Af þessu er ljóst að gagnáfrýjandi getur ekki vænst fullnustu á skuldinni við nauðungarsölu skipsins nema með því að endurheimt verði veiðileyfi fyrir það. Gagnáfrýjandi nýtur vegna veðréttar síns í skipinu réttar til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að verja þessi óbeinu eignarréttindi sín, þar á meðal að koma í veg fyrir að veðinu verði spillt með ólögmætum verknaði og stuðla þannig að því að það veiti honum umsamin tryggingarréttindi. Honum er því rétt að standa að málsókn þessari þótt ekki sé til þess bein heimild í settum lögum. Eru ekki efni til að fallast á með aðaláfrýjendum að gagnáfrýjanda hefði fyrir höfðun þessa máls borið að láta reyna á það hvort eða að hvaða leyti hann gæti fengið fullnustu á veðkröfu sinni með nauðungarsölu skipsins, enda á hann rétt á því að nauðungarsala, ef til hennar kemur, taki í einu lagi til alls þess, sem háð er veðrétti hans.
Veðskuldabréfi gagnáfrýjanda var sem áður segir þinglýst á skipið, sem síðar fékk nafnið Sigrún GK 217. Af þeim sökum gátu aðaláfrýjendur ekki unnið rétt af gagnáfrýjanda þótt aðaláfrýjandinn Börkur kunni að hafa verið grandlaus um veðréttindi hans við kaupin á veiðileyfi skipsins.
Fyrir Hæstarétti leitar gagnáfrýjandi staðfestingar á þeirri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að ógilt sé framsal Gullfaxa ehf. á leyfi fyrir Sigrúnu GK 217 til veiða í atvinnuskyni og skráning þess leyfis á Einar HU 13 hjá Fiskistofu 1. september 2000. Nægilegt var að beina þessari dómkröfu að Gullfaxa ehf. og aðaláfrýjendum, enda var löggerningur um framsalið milli þess félags og aðaláfrýjandans Barkar og leyfið nú tengt skipi í eigu aðaláfrýjandans Bjarts í Vík ehf. Voru því engin efni til að hafa þessa kröfu jafnframt uppi á hendur Fiskistofu, svo sem aðaláfrýjendur halda fram. Að efni til beinist dómkrafa þessi að því að fá hrundið framsali á veiðileyfi fiskiskipsins Sigrúnar og gera þannig gagnáfrýjanda sem líkast settan og ef ráðstöfun þessi hefði aldrei verið gerð. Aðaláfrýjendur verða ekki leystir undan þessari kröfu þótt vandkvæðum geti verið háð að gengnum dómi um hana að fá greitt úr því hvernig háttað verði framvegis heimildum til að nýta fiskiskipið Einar til veiða í atvinnuskyni. Þá getur það heldur ekki orðið aðaláfrýjendum til hagsbóta þótt Sigrúnu GK 217 kunni eins og sakir standa að skorta haffærisskírteini, svo sem þeir halda fram, þannig að skilyrðum 5. gr. laga nr. 38/1990 með áorðnum breytingum sé ekki fullnægt nú til að skrá á það veiðileyfi.
Samkvæmt öllu framangreindu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest, þar með talin ákvæði hans um málskostnað. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður milli gagnáfrýjanda og gagnstefndu, en aðaláfrýjendur verða dæmdir til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað hér fyrir dómi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Aðaláfrýjendur, Börkur Hrafn Árnason og Bjartur í Vík ehf., greiði í sameiningu gagnáfrýjanda, Árna Stefáni Björnssyni, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Að öðru leyti fellur málskostnaður fyrir Hæstarétti niður.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 30. desember 2002.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 2. desember s.l., hefur Árni Stefán Björnsson, Nesbala 32, Seltjarnarnesi, höfðað hér fyrir dómi gegn Gullfaxa ehf., Hlíðarvegi 48, Ólafsfirði, Bjarti í Vík ehf., Grundarbraut 34, Ólafsvík, og Sigurjóni Guðbjartssyni, Hólabraut 5, Skagaströnd og Árna Guðbjartssyni, Ásgarði, Skagaströnd persónulega og f.h. sameignarfélagsins Víkur sf. útgerð, með stefnu birtri 4. og 6. febrúar 2002, en gegn Berki Hrafni Árnasyni, Grundarbraut 34, Ólafsvík með sakaukastefnu áritaðri um birtingu 12. ágúst 2002.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega, að ógilt verði með dómi ódagsett framsal stefnda Gullfaxa ehf. á leyfi Sigrúnar GK-217, skipaskrárnúmer 6886 til veiða í atvinnuskyni á sóknardögum til stefnda Víkur sf. útgerð, þá eiganda Einars HU-13, skipaskrárnúmer 6702. Þess er jafnframt krafist að skráning flutnings leyfis til veiða í atvinnuskyni af Sigrúnu GK-217, skipaskrárnúmer 6886, yfir á Einar HU-13, skipaskrárnúmer 6702, er fram fór hjá Fiskistofu 1. september 2000 á grundvelli framsalsins, verði ógilt með dómi og leyfið skráð aftur á Sigrúnu GK-217.
Til vara krefst stefnandi þess, að stefndu verði allir dæmdir til að greiða stefnanda in solidum kr. 5.917.168,- auk dráttarvaxta frá 15. janúar 2002 til greiðsludags, gegn afhendingu skuldabréfs nr. A 3423, útgefnu 5. júní 1998 af Sigríði G. Halldórsdóttur, upphaflega að fjárhæð kr. 6.464.000,-, tryggðu með veði í Sigrúnu GK-217, skipaskrárnúmer 6886.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu.
Stefndu Vík sf., Sigurjón Guðbjartsson, Árni Guðbjartsson, Börkur Hrafn Árnason og Bjartur í Vík ehf. gera þær dómkröfur, að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda og þeim dæmdur málskostnaður úr hans hendi.
Stefndi Gullfaxi ehf. hefur ekki sótt þing í málinu og var félaginu þó löglega stefnt. Ber að dæma málið samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91, 1991 að því er stefnda Gullfaxa ehf. varðar.
Í máli þessu er um það deilt hvort ógilda beri framsal á leyfi til veiða í atvinnuskyni á sóknardögum með vísan til 4. tl. 3. gr. laga um samningsveð nr. 75, 1997.
Málsatvik eru þau, að 5. júní 1998 gaf Sigríður Halldórsdóttir út veðskuldabréf að fjárhæð kr. 6.464.000,- til Rakkaness ehf., tryggt með 4. veðrétti í krókaleyfisbátnum m/b Kristínu HF-12 (6886), nú Sigrún GK-217. Veðskuldabréfið var framselt til stefnanda 1. desember 1998. Með yfirlýsingu dags. 28. febrúar 2000 fór fram skuldskeyting og tókst stefnda Gullfaxi ehf. á hendur ábyrgð á greiðslu skuldabréfsins, en félagið var þá orðið eigandi Sigrúnar GK-217.
Umrætt skuldabréf hefur verið í vanskilum frá gjalddaga þess 5. júní 2000 og hafa innheimtuaðgerðir staðið yfir frá 30. ágúst 2000. Þegar leið að nauðungarsölu Sigrúnar GK-217 var upplýst, að leyfi til veiða í atvinnuskyni á sóknardögum, sem skráð hafði verið á bátinn, hefði verið framselt og skráð á Einar HU-13. Sýslumaðurinn í Ólafsfirði, sem uppboðsmálið hefur til meðferðar, lýsti af þessu tilefni yfir, að þar sem engin veiðiréttindi væru skráð á bátinn yrði hann boðinn upp án tillits til þeirra. Að fenginni yfirlýsingu sýslumanns frestaði stefnandi uppboðsaðgerðum.
Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu fór ofangreint framsal fram á grundvelli ódagsettrar yfirlýsingar, en skráning flutningsins hjá Fiskistofu fór fram 1. september 2000. Á þeim degi var stefnda Vík sf. skráð eigandi Einars HU-13. Það er hins vegar upplýst í greinargerð stefndu, að Einar HU-13 var seldur stefnda Berki Hrafni vegna óstofnaðs hlutafélags hans í ágúst 2000. Þann 27. nóvember 2000 var einkahlutafélagið Bjartur í Vík stofnað og afsalaði Vík sf. bátnum til félagsins með löggerningi dags. 17. maí 2001.
Stefnandi sendi Fiskistofu erindi dags. 5. október 2001 og óskaði eftir því að umrædd veiðiréttindi yrðu færð aftur yfir á Sigrúnu GK-217. Með bréfi dags. 25. s.m. hafnaði Fiskistofa erindi stefnanda með þeim rökum, að stofnunin teldi sér ekki heimilt að verða við beiðni stefnanda án ógildingardóms um framsalið.
Upplýst er í greinargerðum stefndu, að stefndi Börkur Hrafn keypti þau veiðiréttindi, sem áður voru skráð á Sigrúnu GK-217, og nýtt eru nú af stefnda Bjarti í Vík ehf., við útgerð Einars HU-13.
Í málinu liggur fyrir yfirlýsing Fiskistofu þess efnis, að vegna flutnings veiðiheimilda hafi Sigrún GK-217 ekki haft neinar veiðiheimildir í atvinnuskyni á fiskveiðiárinu 2000/2001.
Á Einar HU-13 hefur verið þinglýst yfirlýsingu, dags. 9. október 2001, um að stefnandi hafi uppi kröfur um ógildingu framsals veiðiréttinda þeirra, sem skráð eru á bátinn.
Stefnandi kveðst byggja aðalkröfu sína á því, að samkvæmt 2. ml. 4. tl. 3. gr. laga nr. 75, 1997 um samningsveð sé óheimilt að skilja réttindi, sem skráð séu opinberri skráningu, frá veðsettu fjárverðmæti, án þinglýsts samþykkis þeirra, sem veðréttindi eiga í viðkomandi fjárverðmæti. Í 4. tl. 3. gr. séu nefnd tvö dæmi um réttindi sem falli undir ákvæðið, aflahlutdeild fiskiskips og greiðslumark bújarðar. Segir stefnandi ekki um tæmandi talningu að ræða í ákvæðinu og heldur hann því fram, að leyfi til veiða í atvinnuskyni á sóknardögum, eins og skráð hafi verið á Sigrúnu GK-217, falli undir ákvæðið.
Heldur stefnandi því fram, að framsal á réttindum, sem skráð hafi verið á Sigrúnu GK-217, og skráning þeirra yfir á Einar HU-13, hafi farið fram án þess að aflað væri þinglýsts samþykkis stefnanda. Framsalið hafi því verið óheimilt samkvæmt ofangreindu ákvæði laga nr. 75, 1997 og því verði stefndu að þola dóm um ógildingu þess.
Stefnandi segist hafa lögvarða hagsmuni af því, að fá framsal og flutning leyfis af Sigrúnu GK-217, til veiða í atvinnuskyni á sóknardögum, ógilt með dómi, þar sem verðmæti bátsins án réttindanna standi ekki undir fullnustu kröfu hans. Með réttindin skráð á bátinn sé krafa stefnanda mun betur tryggð þar sem skráning réttindanna margfaldi verðmæti veðandlagsins.
Varakröfu sína kveður stefnandi byggja á því, að ef ekki verði fallist á aðalkröfu hans eigi hann engu að síður kröfu til skaðabóta vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefndu. Stefndu hafi borið að gæta að því að veðhafar yrðu ekki fyrir tjóni, en með saknæmum hætti hafi þeir farið á svig við lögbundnar reglur 3. gr. laga nr. 75, 1997, sem leitt hafi til verulegrar rýrnunar á veðtryggingu stefnanda. Stefnandi geri því þá kröfu til vara, að stefndu greiði honum andvirði veðskuldabréfs hans auk dráttarvaxta og kostnaðar, sem hann hafi þurft að leggja í vegna innheimtu bréfsins, gegn afhendingu veðskuldabréfsins.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til I. kafla laga um samningsveð nr. 75, 1997, einkum 3. gr. auk almennra reglna kröfu- og skaðabótaréttar.
Stefndu Vík sf., Börkur, Sigurjón og Árni segja kröfu stefnanda um ógildingu framsals veiðileyfis Sigrúnar GK-217 skorta lagastoð. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfu stefnanda um ógildingu framsals leyfisins.
Stefnda Bjartur í Vík ehf. segist byggja sýknukröfu sína á því, að í stefnu séu engar kröfur gerðar á hendur félaginu. Miðað við málatilbúnað stefnanda sé óskiljanlegt af hverju því sé stefnt. Stefnda tekur hins vegar fram, að máli skipti fyrir félagið að ekki verði fallist á kröfur stefnanda þar sem það geri út bátinn Einar HU-13. Félagið hafi því hagsmuni af því að framsal veiðileyfisins verði ekki ógilt.
Stefndi Börkur byggir á því, að hann hafi keypt umrætt veiðileyfi fullu verði og aldrei fengið vitneskju um að einhverjir annmarkar væru á sölu veiðileyfisins. Honum hafi verið kaupin heimil og beri hann enga ábyrgð á meintum vanefndum seljanda. Engar skráðar kvaðir eða annmarkar hafi tengst kaupum stefnda. Hann hafi ekkert beint samband haft við forsvarsmenn stefnda Gullfaxa ehf. heldur átt kaupin og samninga um verð veiðileyfisins við starfsmann Kvóta- og skipasölunnar ehf.
Þá tekur stefndi Börkur fram, að engin skilyrði séu til að ógilda framsal veiðileyfisins þar sem það hafi verið fyrirvaralaust og framsalshafi grandlaus. Framsalið hafi átt sér stað í lok ágúst 2000 og hafi stefnandi ekkert aðhafst til að veðið yrði selt eða gengið að skuldara veðskuldabréfsins, stefnda Gullfaxa ehf., á því tímabili.
Stefndi Börkur kveður kaup hans á veiðileyfinu ekkert hafa með umrædda veðskuld að gera. Útilokað sé að með kaupum á veiðileyfi verði grandlaus kaupandi ábyrgur fyrir veðskuld, sem honum sé algerlega óviðkomandi.
Stefndu Vík sf., Sigurjón og Árni kveða aðalkröfu málsins ekki snerta þá þar sem þeir eigi ekki bátinn Einar HU-13 eða nýti veiðileyfi Sigrúnar GK-217. Leyfið hafi ekki verið framselt til stefnda Víkur sf. eða eigenda þess og þá hafi þeir ekki greitt fyrir leyfið. Umræddir aðilar hafi því aldrei orðið eigendur veiðileyfisins, en stefnda Vík sf. hafi verið búið að selja Einar HU-13 þegar umrædd viðskipti með veiðileyfi Sigrúnar GK-217 hafi átt sér stað, þó svo þinglýsing bátsins yfir á nýjan eiganda kunni að hafa farið fram síðar. Hið rétta sé að veiðileyfið hafi verið framselt af stefnda Gullfaxa ehf. til stefnda Barkar.
Þá byggja stefndu Vík sf., Bjartur í Vík ehf., Sigurjón og Árni á því, að þeir hafi aldrei átt nein viðskipti við stefnda Gullfaxa ehf. með veiðileyfi af Sigrúnu GK-217. Ekkert samningssamband sé eða hafi verið milli þeirra og stefnanda, hvorki beint né í gegnum þriðja aðila.
Stefndu allir segjast ekki hafa tekið að sér greiðslu umræddrar veðskuldar og hafi því ekkert með hana að gera. Stefndu hafna því að þeir hafi komið fram gagnvart stefnanda með saknæmri og ólögmætri háttsemi. Kveðast þeir ekkert hafa aðhafst í málinu hvað varðar umrætt veð. Fullyrðingar um annað séu rangar og ósannaðar.
Stefndu halda því fram, að greiðsluskylda á skuldabréfi geti ekki orðið til vegna skaðverks. Skaðabótakrafa sé sjálfstæð krafa en ekki krafa um greiðslu veðskuldabréfs. Þá geri stefnandi ekki grein fyrir því í málatilbúnaði sínum hvaða skaðabótasjónarmið geti hér komið til greina. Jafnframt verði að líta til þess, að stefnandi hafi ekki sýnt fram á tjón. Ekki hafi verið leitað eftir fullnustu í bátnum Sigrúnu GK-217 og því liggi ekki fyrir hvort stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna framsals veiðileyfis af bátnum.
Stefndu byggja á því, að af lögskýringargögnum með lögum nr. 75, 1997 verði ekki ráðið að það hafi verið ætlun löggjafans að ákvæði 3. gr. laganna tæki til veiðileyfis fiskiskips. Í greinargerð með frumvarpi til laganna sé ekki tilgreint að veiðileyfi falli undir ákvæðið. Þá séu í lögum um stjórn fiskveiða og reglugerðum varðandi stjórn fiskveiða engin ákvæði varðandi réttarstöðu veðhafa í tengslum við flutning veiðileyfis. Hefði það verið ætlun löggjafans að fella veiðileyfi undir ákvæði laga um samningsveð þá hefði það verið tekið skýrlega fram. Þar sem það sé ekki gert verði af því ekki dregin önnur ályktun en sú, að umrædd réttindi og framsal þeirra falli ekki undir lög um samningsveð.
Ekki verður á það fallist að mati stefndu, að veðréttur geti orðið til utan samninga nema um það gildi bein og ótvíræð lagaheimild, en slíka lagaheimild kveða þeir ekki vera til staðar í þessu tilfelli. Því sé ekki hægt að fallast á það með stefnanda, að ekki hafi mátt framselja veiðileyfi Sigrúnar GK-217.
Þá sé í málinu rétt að hafa ákvæði 1. mgr. 3. mgr. laga um samningsveð í huga, en þar sé kveðið á um að veðréttur verði ekki stofnaður í einu lagi þannig að gildi hafi að lögum í öllu því sem veðsali á eða eignast kann.
Stefndu kveða stefnanda ekki hafa lagt fram gögn sem sýni að stefndi Gullfaxi ehf. sé ógjaldfær. Þegar af þeirri ástæðu geti kröfur stefnanda gegn þeim ekki komist að.
Benda stefndu á ákvæði 27. gr. laga nr. 75, 1997 máli sínu til stuðnings. Hvergi í lögum um samningsveð sé kveðið á um hverju það varði þann sem taki við réttindum, sem um sé fjallað í 4. mgr. 3. gr. laganna, ólíkt því sem gert sé í 27. gr. Skyldur þeirra sem taki við slíkum réttindum geti því ekki verið meiri en þeirra sem taki við veðsettum rekstrartækjum, sbr. 27. gr. Þau skilyrði sem þurfi að vera uppfyllt til að ábyrgð kaupanda eða yfirtökuaðila verði virk geti ekki verið minni eða léttvægari en kveðið sé á um í 27. gr. Þar sem ekki sé kveðið á um ábyrgð kaupanda eða framsalshafa réttinda, sem falli undir 4. mgr. 3. gr. laga 75, 1997, verði að líta svo á, að slík ábyrgð sé ekki fyrir hendi. Lög um samningsveð innihaldi engin ákvæði um skyldu framsalshafa slíkra réttinda til að greiða ófullnægðum veðhöfum. Þá séu engin ákvæði í lögunum um að framsalshafar þurfi að þola riftun framsalsgerningsins eða bera ábyrgð á veðskuldum, sem fyrir hendi kunna að vera.
Að lokum vísa stefndu til ákvæðis 201. gr. siglingalaga nr. 34, 1985. Þó svo ákvæðið eigi ekki beint við þá megi af því ráða, að nauðsynlegt sé að öryggi sé í viðskiptum aðila og því verði að marka veðréttarhöfum skamman tíma til að gera gildandi rétt sinn gagnvart framseljanlegum réttindum, sem beri ekki með sér að veðsetning geti verið fyrir hendi.
Til stuðnings kröfum sínum vísa stefndu til laga um samningsveð nr. 75, 1997, einkum 3. og 27. gr. Jafnframt vísa þeir til meginreglna kröfu-, veð- og skaðabótaréttar.
Óumdeilt er að ekki var aflað þinglýsts samþykkis veðhafa í Sigrúnu GK-217 fyrir flutningi leyfis til veiða í atvinnuskyni á sóknardögum af bátnum yfir á Einar HU-13. Þá er staðreynd, að stefnandi er einn þeirra aðila er veðrétt eiga í Sigrúnu GK-217.
Í 4. tl. 3. gr. laga nr. 75, 1997 um samningsveð segir, að eigi sé heimilt að veðsetja réttindi til nýtingar í atvinnurekstri, sem skráð eru opinberri skráningu á tiltekið fjárverðmæti og stjórnvöld úthluta lögum samkvæmt, t.d. aflahlutdeild fiskiskips og greiðslumark bújarðar. Jafnframt segir, að hafi fjárverðmæti það, sem réttindin eru skráð á, verið veðsett sé eiganda þess óheimilt að skilja réttindin frá fjárverðmætinu nema með þinglýstu samþykki þeirra sem veðréttindi eiga í viðkomandi fjárverðmæti.
Augljóst er, að leyfi það til veiða í atvinnuskyni á sóknardögum, sem framselt var og flutt af Sigrúnu GK-217 yfir á Einar HU-13, uppfyllir það skilyrði 4. tl. 3. gr. laga nr. 75, 1997 að vera réttindi til nýtingar í atvinnurekstri. Fyrir liggur að réttindi þessi voru skráð opinberri skráningu hjá Fiskistofu, en Fiskistofa er stjórnvald sbr. 1. gr. laga nr. 36, 1992. Réttindin voru skráð á tiltekið fjárverðmæti, þ.e. bátinn Sigrúnu GK-217, og þá var þeim úthlutað af stjórnvöldum lögum samkvæmt, sbr. einkum 4., 5. og 6. gr. laga nr. 38, 1990 um stjórn fiskveiða. Með vísan til alls þessa er það niðurstaða dómsins, að umrætt leyfi til veiða í atvinnuskyni á sóknardögum hafi uppfyllt öll framanrakin skilyrði 4. tl. 3. gr. laga um samningsveð.
Af orðum títtnefnds 4. tl. 3. gr. laga nr. 75, 1997 er ljóst, að réttindi þau, sem þar eru nefnd, þ.e. aflahlutdeild fiskiskips og greiðslumark bújarðar, eru nefnd í dæmaskyni. Ekki er um tæmandi talningu að ræða í ákvæðinu. Af skoðun ákvæða II. kafla laga nr. 38, 1990 verður ekki annað séð, en sömu rök standi til þess að beita 4. tl. 3. gr. um leyfi það sem hér er til umfjöllunar, þ.e. leyfi til veiða í atvinnuskyni á sóknardögum, og aflahlutdeild fiskiskips.
Að öllu framangreindu athuguðu þykir mega beita 4. tl. 3. gr. laga nr. 75, 1997 um samningsveð í málinu og ógilda með vísan til ákvæðisins ódagsett framsal stefnda Gullfaxa ehf. á leyfi Sigrúnar GK-217 til veiða í atvinnuskyni á sóknardögum.
Síðari hluta aðalkröfu stefnanda verður að skilja svo, að hann krefjist þess að dómurinn ógildi leyfisskráningu þá, er fram fór 1. september 2000, og leggi fyrir Fiskistofu að skrá títtnefnt leyfi aftur á Sigrúnu GK-217. Í samræmi við niðurstöðu dómsins hér að framan verður að fallast á kröfu stefnanda um ógildingu leyfisskráningarinnar. Hvað varðar skráningu leyfisins aftur á Sigrúnu GK-217 verður hins vegar að horfa til þess, að Fiskistofu hefur ekki verið stefnt í málinu. Af þeirri ástæðu getur dómurinn ekki, þrátt fyrir efnislega niðurstöðu málsins, lagt fyrir Fiskistofu að framkvæma greinda skráningu.
Gullfaxi ehf. var eigandi Sigrúnar GK-217 og sá aðili sem framseldi leyfi bátsins til veiða í atvinnuskyni á sóknardögum. Er leyfið var skráð á Einar HU-13, þann 1. september 2000, var stefnda Vík sf. skráð eigandi bátsins, en stefndu Árni og Sigurjón standa að nefndu sameignarfélagi. Eftir höfðun máls þessa var hins vegar upplýst, að stefndi Börkur Hrafn greiddi fyrir umrætt veiðileyfi. Þá er stefnda Bjartur í Vík ehf. nú eigandi Einars HU-13, sem nýtir veiðileyfið. Með vísan alls þessa þykir stefnanda hafa verið rétt að stefna ofangreindum aðilum í málinu. Í ljósi þess sem upplýst var um atvik máls undir rekstri þess þykja rök hins vegar ekki standa til þess að gera stefndu Árna, Sigurjóni og Vík sf. að greiða stefnanda málskostnað. Með vísan til úrslita málsins dæmast aðrir stefndu hins vegar til að greiða stefnanda óskipt málskostnað, sbr. meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991, er hæfilega þykir ákveðinn kr. 400.000,-.
Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.
D Ó M S O R Ð :
Ógilt er ódagsett framsal stefnda Gullfaxa ehf. á leyfi Sigrúnar GK-217, skipaskrárnúmer 6886, til veiða í atvinnuskyni á sóknardögum. Jafnframt er ógilt skráning leyfisins á Einar HU-13, skipaskrárnúmer 6702, er fram fór hjá Fiskistofu 1. september 2000.
Stefndu Gullfaxi ehf., Bjartur í Vík ehf. og Börkur Hrafn Árnason, greiði stefnanda, Árna Stefáni Björnssyni, kr. 400.000,- í málskostnað.