Hæstiréttur íslands
Mál nr. 117/2009
Lykilorð
- Sjómaður
- Aðild
- Slysatrygging
- Skaðabótamál
- Lögvarðir hagsmunir
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 12. nóvember 2009. |
|
Nr. 117/2009. |
Róbert Scobie(Óskar Sigurðsson hrl.) gegn Samskipum hf. ogVátryggingafélagi Íslands hf. (Skarphéðinn Pétursson hrl.) |
Sjómenn. Aðild. Slysatrygging. Skaðabótamál. Lögvarðir hagsmunir. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.
R krafðist þess að viðurkennt yrði að S hf. og V hf. bæru skaðabótaskyldu vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir um borð í m/s Helgafelli. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 væri heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms um kröfu, enda hefði aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið væri úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður um lögvarða hagsmuni hefði verið skýrður svo í dómum Hæstaréttar að sá sem höfðaði mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu yrði að leiða nægar líkur að því að hann hefði orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans fælist og hver tengsl þess væru við atvik máls. Talið var að R hefði ekki í stefnu leitt líkur að því að hann hefði orðið fyrir tjóni né lýst í hverju það tjón fælist eða hvert væri samband þess við atvik málsins. Var málatilbúnaður hans ekki í samræmi við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. mars 2009. Hann krefst þess að viðurkennt verði að stefndu beri skaðabótaskyldu vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir um borð í m/s Helgafelli 11. nóvember 2006. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi höfðar mál þetta til viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna vinnuslyss. Málið höfðar hann á hendur stefnda Samskipum hf. og reisir kröfu sína á því að hann hafi verið starfsmaður félagsins og við störf um borð í skipi þess m/s Helgafelli er slysið varð. Beri því félagið hlutlæga skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hann hafi orðið fyrir í slysinu. Í greinargerð stefndu í héraði kemur fram að áfrýjandi hafi ekki verið starfsmaður stefnda Samskipa hf. á slysdegi, heldur hafi skipið þá verið gert út af félaginu Sp/f Samskipum sem sé skráð í Færeyjum. Stefndi Samskip hf. hefur ekki krafist sýknu vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Áfrýjandi beinir einnig kröfu sinni um viðurkenningu á skaðabótaskyldu gegn stefnda, Vátryggingafélag Íslands hf. Kveður hann þennan stefnda greiðsluskyldan á grundvelli slysatryggingar sjómanna. Kemur fram í héraðsstefnu að krafan á hendur félaginu sé reist á lögum nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og aðild þess sé reist á 2. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og 44. og 45. gr. laga nr. 30/2004. Þessi ákvæði laga nr. 30/2004 heimila tjónþola að beina kröfu sinni að vátryggingafélagi, sem veitt hefur þeim, er skaðabótakrafa beinist gegn, ábyrgðartryggingu. Krafa sú, sem áfrýjandi hefur uppi í málinu er til viðurkenningar á skaðabótaskyldu. Getur hann, eins og greinir að framan, beint þeirri kröfu að stefnda Samskipum hf. Vátrygging sú, sem stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. veitti stefnda Samskipum hf. er slysatrygging og verður aðild stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. því ekki reist á 44. gr. eða 45. gr. laga nr. 30/2004. Áfrýjandi getur sem vátryggður samkvæmt slysatryggingunni beint kröfu að stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf., en sú krafa er ekki skaðabótakrafa, heldur krafa reist á vátryggingarsamningi. Þessi stefndi hefur ekki reist varnir sínar á því að kröfu sé ranglega beint að sér. Samkvæmt þessu beinist krafa áfrýjanda að báðum stefndu.
II
Áfrýjandi heldur því fram að hann hafi orðið fyrir slysi við störf sín um borð í m/s Helgafelli tilgreindan dag. Hann hafi þá hlotið meiðsli á vinstri öxl sem leitt hafi til þess að hann hafi gengist undir aðgerð á öxlinni 9. maí 2007.
Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms um kröfu, enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í dómum Hæstaréttar verið skýrður svo, að sá er höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við atvik máls.
Í stefnu er ekki að því vikið í hverju tjón áfrýjanda vegna ætlaðs slyss felist. Þar kemur fram að áfrýjandi hafi ekki verið forfallaður frá vinnu vegna slyssins fyrr en hann gekkst undir aðgerðina 9. maí 2007. Þá er óumdeilt að hann naut forfallalauna frá vinnuveitanda sínum þann tíma, sem hann var frá vinnu vegna aðgerðarinnar og að loknu því tímabili hafi hann horfið til fyrra starfs síns um borð. Í stefnu er ekki gerð grein fyrir því hvort ætlað líkamstjón áfrýjanda hafi varanlegar afleiðingar. Þar er heldur ekki að því vikið hvort áfrýjandi hafi orðið fyrir annars konar tjóni er leitt hafi af ætluðu slysi. Áfrýjandi hefur því í stefnu hvorki leitt líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni né lýst í hverju það tjón felist eða hvert sé samband þess við atvik máls. Ekki er nægilegt að yfir hafi verið lýst af hans hálfu fyrir Hæstarétti að tjónið felist í varanlegum afleiðingum vegna meiðslanna og sjúkrakostnaði. Er málatilbúnaður áfrýjanda að þessu leyti því ekki í samræmi við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og verður því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu frá héraðsdómi.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu hvorum um sig málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera ómerkur og málinu vísað frá héraðsdómi.
Áfrýjandi, Róbert Scobie, greiði stefndu, Samskipum hf. og Vátryggingafélagi Íslands hf., málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti samtals 250.000 krónur til hvors um sig.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 26. nóvember sl., er höfðað með stefnu birtri 12. nóvember 2007
Stefnandi er Róbert Scobie, Heiðarbrún 46, Hveragerði.
Stefndi Samskip hf., Kjalarvogi 7-15, Reykjavík og Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru:
A) Að viðurkennt verði að stefndu beri skaðabótaskyldu vegna vinnuslyss
er stefnandi varð fyrir um borð í M/s Helgafelli þann 11. nóvember 2006.
B) Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði gert skylt að greiða honum
málskostnað að skaðlausu.
Stefndi gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af dómkröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður að mati dómsins.
Málavextir, málsástæður og lagarök:
Stefnandi er matsveinn á flutningaskipinu M/s Helgafelli sem gert er út af Samskipum hf.
Stefnandi lýsir atvikum þannig að hinn 11. nóvember 2006 hafi hann verið við störf um borð í Helgafelli þar sem skipið hafi verið á siglingu úti á sjó í nokkurri brælu. Stefnandi hafi verið að ganga frá eftir kvöldverð og verið á leið niður stiga sem liggi að kæligeymslu. Þegar stefnandi hafi verið neðst í stiganum hafi hann kastast til sökum veltings og fallið allharkalega á vinstri öxl og upphandlegg. Við fallið hafi hann hlotið áverka á vinstri öxl og átt í kjölfarið erfitt með hreyfingar á vinstri öxlinni. Stefnandi hafi haldið vinnu sinni áfram þrátt fyrir slysið og slæma verki og þrátt fyrir það að hann ætti erfitt með að beita vinstri hendinni með góðu móti við vinnuna. Stefnandi hafi verið einn á ferð niður stigann umrætt sinn og því ekki önnur vitni verið að slysinu.
Stefnandi hafi látið Sigþór Guðnason yfirstýrimann á Helgafelli vita af slysinu nokkru eftir sjóferðina og jafnframt afhent honum blað sem hann hefði skrifað á lýsingu á atvikinu. Hann hafi sagt stefnanda að hann myndi gera ráðstafanir til að skrá slysið eins og reglur geri ráð fyrir og taldi stefnandi sig þar með hafa gert þær ráðstafanir sem til þurfti til að tryggja að slysið yrði skráð og tilkynnt.
Þegar stefnandi hafi fundið að áverkarnir eftir slysið væru þrálátir og ekki virst ætla að lagast hafi hann gengið í að kanna hvort slysið hefði ekki örugglega veríð skráð í skipsdagbók Helgafells. Hafi þá komið í ljós að láðst hefði að skrá slysið með fullnægjandi hætti þegar stefnandi hefði tilkynnt um það. Hafi upplýsingar um slysið því fyrst verið færðar í skipsdagbók um tveimur mánuðum eftir slysið eða þegar í ljós kom við eftirgrennslan stefnanda að gleymst hefði að skrá það þegar upplýsingar um það lágu fyrir frá stefnanda strax í kjölfar þess þann 11. nóvember 2006. Þrátt fyrir skráningar- og tilkynningarskyldu í 6. gr. laga nr. 68/2000 um rannsókn sjóslysa, virðist sem skipstjóri hafi látið undir höfuð leggjast að tilkynna um slysið til Tryggingastofnunar ríkisins.
Í janúar 2007 hafi stefnandi leitað til Kjartans Magnússonar, trúnaðarlæknis Samskipa, vegna þrálátra verkja og erfiðleika með hreyfingar í vinstri öxl. Trúnaðarlæknirinn hafi vísað stefnanda áfram til Ágústs Kárasonar, sérfræðings, sem skoðað hafi stefnanda hinn 17. apríl 2007. Við skoðun sérfræðingsins hafi komið í ljós slíkir áverkar á vinstri öxl að gera hafi þurft aðgerð á öxlinni til að lagfæra þá. Aðgerðin hafi verið framkvæmd hinn 9. maí 2007 þar sem meðal annars hafi þurft að hefla af og saga um 1 sentimetra af enda viðbeins auk þess sem fleira hafi þurft að lagfæra.
Stefnandi hafi verið óvinnufær með öllu í sex vikur í kjölfar aðgerðarinnar. Eftir aðgerðina hafi stefnandi gengið reglulega til sjúkraþjálfara í endurhæfingarskyni samkvæmt tilvísun læknis.
Stefnandi hafi rætt um slysið við samstarfsmenn sína á Helgafelli strax í kjölfar þess auk þess sem samstarfsmönnum hans hafi vart getað dulist að hann var með verkjum og hafi átt í erfiðleikum með að beita vinstri hendinni á eðlilegan hátt vegna þess. Stefnandi hafi rætt atvikið meðal annars við Þorstein Hjálmarsson, vélstjóra á Helgafellinu, sem staðfest hafi að stefnandi hafi sagst ekki geta lyft annarri hendinni eftir að slysið hafi átt sér stað og að stefnandi hafi sagt honum frá því að hann hafi dottið í stiganum niður í kæligeymsluna.
Stefnandi hafi með bréfi, dags. 8. júní 2007, óskað eftir því við stefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., að viðurkennd yrði bótaskylda félagsins á grundvelli slysatryggingar vegna vinnuslyss stefnanda um borð í Helgafelli hinn 11. nóvember 2006. Félagið hafi í bréfi til stefnanda, dags. 28. júní 2007, tilkynnt að það hygðist afla upplýsinga um atvikið hjá vátryggingatakanum áður en félagið tæki afstöðu til bótaskyldu sinnar. Með bréfi til stefnanda, dags. 13. júlí 2007, hafi Vátryggingafélag Íslands hafnað bótaskyldu vegna slyssins á þeim forsendum að ekki hafi verið sýnt fram á að bótaskylt slys hafi átt sér stað.
Stefnandi höfðar mál þetta þar sem vátryggingafélag útgerðar M/s Helgafells hefur neitað að samþykkja bótaskyldu vegna slyss sem stefnandi varð fyrir víð vinnu sína um borð í skipinu. Samkvæmt hinni hlutlægu bótareglu sem lögfest er í 1. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985 beri útgerðarmaður ábyrgð á kröfum vegna lífs- eða líkamstjóns starfsmanna sem ráðnir eru í skiprúm hjá honum, hafi slys borið að höndum er hlutaðeigandi var staddur á skipi eða vann í tengslum við rekstur skips, enda þótt tjónið verði hvorki rakið til bilunar á tækjum eða ónógra öryggisráðstafana né yfirsjónar þeirra er starfa í þágu skips.
Ljóst er að þegar umrætt slys varð um borð í M/s Helgafelli hafi stefnandi verð starfsmaður stefnda, Samskipa, og sannanlega verið við vinnu sína um borð. Verði því að telja að stefndi, Samskip, beri á grundvelli hinnar víðtæku hlutlægu bótareglu siglingalaganna fulla ábyrgð á tjóni því sem stefnandi varð fyrir í slysinu.
Stefnandi bendir á að engum vafa sé undirorpið að slysið hafi orðið um borð í skipi stefnda, Samskipa. Stefnandi hafi leitað til læknis strax og honum hafi orðið ljóst hve þrálátir og alvarlegir áverkarnir reyndust. Auk þess hafi stefnandi tilkynnt stýrimanni um borð í Helgafelli um slysið í kjölfar þess og afhenti honum blað með lýsingu á atvikum þess. Þá hafi stefnandi rætt um slysið við aðra skipverja auk þess sem ekki hafi farið á milli mála að hann hafi verið með verki í öxlinni og átt erfitt með að beita vinstri hendinni við vinnu sína um borð eftir slysið. Stefndu verði einnig að bera hallann af öllum hugsanlegum sönnunarskorti í þessu samhengi þar sem yfirmanni um borð í skipi stefnda láðist að skrá umrætt slys í skipsdagbók strax og hann hafi fengið um það vitneskju frá stefnanda. Stefnandi hafi fyrir sitt leyti reynt að upplýsa málið og fylgja því eftir af fremsta megni. Frekari skylda til sönnunar verði ekki lögð á stefnanda.
Kröfum sínum beinir stefnandi að útgerðarfélagi M/s Helgafells og tryggingafélagi þess, eins og rakið er í kröfugerð. Stefnda, Samskipum hf, er stefnt til viðurkenningar á skaðabótaskyldu félagsins vegna umrædds vinnuslyss er stefnandi varð fyrir sem starfsmaður stefnda. Stefnda, Vátryggingafélagi íslands hf., er stefnt á grundvelli laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, er tóku gildi 1. janúar 2006.
Um lagarök vísar stefnandi til ákvæða siglingalaga nr. 34/1985, einkum hinnar hlutlægu ábyrgðarreglu 1, mgr. 172. gr. laganna er varðar ábyrgð útgerðarmanns á líkamstjóni starfsmanna hans. Þá er einnig byggt á almennum reglum skaðabótaréttar.
Einnig er vísað til ákvæða laga um rannsóknir sjóslysa nr. 68/2000 að því er varðar skráningar- og Um aðild Vátryggingafélags Íslands hf. er vísað til bótaskyldu félagsins á grundvelli lögboðinnar slysatryggingar sbr. 2. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985, sem og til 44. - 45. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004.
Um málskostnaðarkröfu vísast til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði, með síðari breytingum.
Varðandi varnarþing er vísað til 1. mgr., 33. gr. og einnig 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á þeirri forsendu að ekki sé sannað að bótaskylt atvik hafi átt sér stað þann 11. nóvember 2006 eins og stefnandi heldur fram. Af þeim sökum sé ekki um að ræða bótaskyldu úr slysatryggingu sjómanna sem Sp/f Berg shipping var með í gildi fyrir sína sjómenn hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf.
Hið meinta atvik eigi að hafa gerst hinn 11. nóvember 2006 og hafi þá verið í gildi skilmálar nr. SS 25, sem tekið hafi gildi 1. janúar 2006.
Samkvæmt ákvæði 3. gr. almenna hluta skilmálanna greiðir stefndi VÍS bætur vegna slysa. Með slysi sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem valdi meiðslum á líkama þess sem vátryggður er og gerist án vilja hans. Sönnunarbyrðin fyrir því að stefnandi hafi orðið fyrir slysi í skilningi skilmálana og vátryggingaréttarins hvíli á stefnanda sjálfum. Það hvíli því á stefnanda að tryggja sér sönnun um að bótaskylt atvik hafi átt sér stað og það er mat stefndu að sú sönnun hafi ekki tekist. Stefndu hafna því að stefnandi hafi sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir slysi hinn 11. nóvember 2007. Engin vitni hafi verið að hinu meinta slysi stefnanda. Stefnandi hafi ekki tilkynnt slysið til yfirstýrimanns eða skipstjóra eins og honum hafi borið að gera. Tilkynning stefnanda til Sigþórs Guðnasonar, sem var ekki um borð í Helgarfelli er hið meinta atvik á að hafa átt sér stað, nokkrum dögum eftir hið meinta slys sé ekki fullnægjandi sönnun um að slys hafi orðið. Stefnandi hafi haldið vinnu sinni áfram eins og ekkert hefði í skorist eftir að atvikið eigi að hafa orðið. Stefnandi Hafi tekið næsta túr á eftir sem byrjað hafi þann 16. nóvember 2006. Þá hafi stefnandi ekki leitað til læknis er hann kom í land hinn 29. nóvember 2006.
Vinnuveitandi stefnanda hafi sent hann í reglubundna læknisskoðun hinn 31. janúar 2007 og þá fyrst hafi stefnandi nefnt atvikið við lækni sem í framhaldinu hafi sent hann til Ágústs Kárasonar bæklunarlæknis.
Sú staðreynd að stefnandi hafi þurft að undirgangast aðgerð á öxl nokkrum mánuðum eftir að hinn meinti vátryggingaatburður eigi að hafa gerst sé ekki sönnun um að stefnandi hafi lent í slysi um borð í M/s Helgarfelli hinn 11. nóvember 2006. Stefnandi hafi ekki farið til læknis er hann kom í land í lok nóvember 2006. Það hafi ekki verið fyrr en stefnandi fór í reglubundna læknisskoðun sem vinnuveitandi hans hafi sent hann í um lok janúar 2007 að hann hafi minnst á verki í öxl við lækni. Aðgerð sú sem stefnandi hafi undirgengist hjá Ágústi Kárasyni á árinu 2007 sé aðgerð sem fjöldamargir einstaklingar undirgangist á hverju ári. Þetta tiltekna axlarmein geti komið til án þess að einstaklingar lendi í slysi eða fái einhvers konar áverka á öxlina. Þessi aðgerð sé því ekki sönnun um að stefnandi hafi lent í slysi um borð í Helgarfelli hinn 11. nóvember 2006.
Stefnandi hafi ekki verið starfsmaður Samskipa hf. á slysdegi heldur sé skipið Helgarfell gert út af Sp/f Samskipum sem sé félag sem skráð sé í Færeyjum. Þessi tilhögun hafi þau áhrif að stefnandi sé ekki slysatryggður skv. III. kafla laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Af þeim sökum hafi ekki hvílt tilkynningarskylda á skipstjóra Helgafellsins til Tryggingastofnunar ríkisins.
Það sé ótvíræð meginregla í vátryggingarétti og skaðabótarétti að það sé tjónþola að sanna að vátryggingaratburður hafi átt sér stað til að eiga rétt til bóta úr slysatryggingum. Með vísan til þess sem að ofan greini telji stefndu að slík sönnun hafi ekki tekist. Beri því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.
Krafa um málskostnað byggir á 129. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Um lagarök vísast til meginreglna skaðabóta- og vátryggingaréttar, laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004, laga um meðferð einkamála nr. 91/1991
NIÐURSTAÐA
Vitnið Steingrímur Sigurgeirsson sem var skipstjóri á Helgafelli í sjóferð þeirri er stefnandi kveðst hafa slasast í, bar að hann hefði enga vitneskju haft um atvik það er stefnandi ber fyrir sig fyrr en löngu eftir að ferðin var farin. Vitnið Sveinn Sæmundsson sem var yfirstýrimaður á Helgafelli í umræddri ferð bar að hann hafi ekki vitað um atvikið fyrr en einum eða tveimur túrum eftir ferðina. Hafi Sigþór Guðnason látið vitnið vita og afhent vitninu skýrslu sem stefnandi hefði skrifað og færði vitnið efni hennar í dagbók skipsins og gerði skýrslu um slysið. Hann sagði að það hefði verið bræla á heimleiðinni. Vitnið Sigþór Hilmar Guðnason yfirstýrimaður á Helgafelli sagði að stefnandi hefði komið til sín með miða þar sem stefnandi hefði skrifað atvik meints slyss og bað vitnið Svein Sæmundsson um að færa lýsinguna í leiðarbók skipsins og gera svonefnda ISM skýrslu um slysið. Vitnið var ekki í umræddri ferð og var það eftir ferðina sem stefnandi kom með miðann til vitnisins. Vitnið Þorsteinn Ingi Hjámarson yfirvélstjóri minnti að stefnandi hefði talað við sig og í umræddri ferð og sagst hafa dottið í stiga og hafi stefnandi sagt að hann gæti ekki lyft annarri hendinni. Hann hafi rætt um það við stefnanda að ef einhver slasaðist bæri að gera um það skýrslu. Hann kvað stefnanda hafa áttað vita að tilkynna bæri öll slys til yfirstýrimanns. Vitnið Helena Óskarsdóttir, eiginkona stefnanda, kvað stefnanda hafa hringt til sín og sagst hafa dottið og að hann ætti erfitt með svefn vegna sársauka við að bylta sér.
Engin vitni voru að því að atviki því er stefnandi ber fyrir sig að orðið hafi í umræddri sjóferð hinn 11. nóvember 2006 um borð í skipinu Helgafelli. Þá kemur fram í framburðum vitna að stefnandi hafðist ekki handa um að tilkynna slysið fyrr en allnokkru eftir að atvikið átti að hafa gerst. Verður ekki á það fallist með stefnanda að sýnt sé fram á það hér að umrætt slys hafi orðið né heldur að afleiðingar þess séu slíkar sem hann heldur fram. Er því ekki sýnt fram á að stefndu séu bótaskyldir gagnvart honum vegna slyss svo sem hann heldur fram hér. Verða stefndu því sýknaðir af öllum kröfum stefnanda.
Málskostnaður fellur niður.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndu, Samskip hf. og Vátryggingafélag Íslands hf., skulu sýknir af öllum kröfum stefnanda, Róberts Scobie.
Málskostnaður fellur niður.
.