Hæstiréttur íslands

Mál nr. 381/2002


Lykilorð

  • Stjórnarskrá
  • Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum
  • Verðmat


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003.

Nr. 381/2002.

Auðunn Jóhann Guðmundsson

(Hörður Felix Harðarson hrl.)

gegn

Ísafjarðarbæ

(Andri Árnason hrl.)

 

Stjórnarskrá. Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Verðmat.

Í gerði kaupsamning við A um húseign hans, sem var á snjóflóðahættusvæði innan bæjarmarka Í, en kaupverðið tók mið af svokölluðu staðgreiðslumarkaðsverði eignarinnar samkvæmt 7. gr. laga nr. 28/1985 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum en ekki brunabótamati eins og heimilt var ef húseigandi ætti ekki kost á sambærilegri húseign í sveitarfélaginu til kaups. Hafði A gert fyrirvara um kaupverðið, þar sem hann taldi það fara gegn 72. og 65. gr. stjórnarskrárinnar, og krafði Í um mismuninn á brunabótamatsverði eignarinnar og kaupverðsins. Fallist var á með héraðsdómi að 7. gr. laga nr. 28/1985 fæli ekki í sér ólögmæta mismunun sem færi í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar þar sem ekki yrði annað séð en að reglan hefði náð til allra sem svipað var ástatt um og mælti fyrir um réttarstöðu þeirra á málefnalegan hátt. Í tilefni af því að A hélt því fram að honum hefði ekki staðið til boða sambærileg húseign til kaups innan sveitarfélagsins var tekið fram að A hefði borið að sýna fram á að sambærileg eign hefði ekki staðið honum til boða en það hefði hann ekki gert. Þá var talið að jafnvel þótt kaupum Í á eigninni yrði jafnað við eignarnám, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, yrði að fallast á með sveitarfélaginu að markaðsverð eignar teldist vera fullt verð nema sérstaklega stæði á. Þar sem A hafði ekki sýnt fram á að sú hefði verið raunin var niðurstaða héraðsdóms um sýknu Í staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. ágúst 2002 og krefst þess að stefndi greiði sér aðallega 6.087.000 krónur, til vara 3.972.000 krónur en þrautavara 2.347.000 krónur, með dráttarvöxtum frá 22. desember 1996 til greiðsludags. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Fallist er á þá niðurstöðu hans að áfrýjandi hafi ekki fallið frá fyrirvara um kaupverð með útgáfu afsals.

Áfrýjandi ber fram þrjár málsástæður fyrir kröfu sinni. Hann reisir hana í fyrsta lagi á því að 7. gr. laga nr. 28/1985 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, sbr. lög nr. 151/1995, feli í sér ólögmæta mismunun sem fari í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður fallist á niðurstöðu hans um þessa málsástæðu.

Í öðru lagi heldur áfrýjandi því fram að honum hafi ekki staðið til boða sambærileg húseign til kaups innan sveitarfélagsins. Fram er komið að hús áfrýjanda að Smárateigi 3 í Hnífsdal var sérlega vandað að allri gerð, enda hannaði áfrýjandi það sjálfur og annaðist alla smíði. Var tekið tillit til þess við verðmat í janúar 1996. Enda þótt svo vandað hús hefði ekki verið fáanlegt á þessum tíma voru þar til sölu hús sem virðast hafa verið álíka að stærð og gerð. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður fallist á að það hafi verið áfrýjanda sjálfs að sýna fram á að sambærileg eign hafi ekki staðið honum til boða og það hafi hann ekki gert.

Í þriðja lagi heldur áfrýjandi því fram að kaupum stefnda á húseign hans verði að jafna til eignarnáms, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, og skuli því koma fullt verð fyrir í skilningi þeirrar greinar, og það sé brunabótaverð en ekki markaðsverð. Jafnvel þótt kaupum stefnda á eigninni væri jafnað við eignarnám verður að fallast á með honum að markaðsverð eignar teljist vera fullt verð nema sérstaklega standi á. Sérstakar aðstæður hefðu komið upp ef áfrýjandi hefði hvorki átt þess kost að kaupa sambærilega eign í sveitarfélaginu né byggja nýtt hús fyrir sig og fjölskyldu sína og því þurft að flytjast brott. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að sú hafi verið raunin.

Samkvæmt þessu verður héraðsdómur staðfestur.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 17. maí 2002.

Mál þetta, sem var dómtekið 25. mars sl., höfðaði Auðunn J. Guð­mundsson, Núpalind 2, Kópavogi, hinn 20. júní 2001 gegn Ísafjarðarbæ.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 6.087.000 kr., ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 22. desember 1996 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags.  Til vara er krafist 3.972.000 kr. og til þrautavara 2.347.000 kr., í báðum tilvikum ásamt dráttarvöxtum frá sama tíma og greinir í aðalkröfu.  Þess er krafist að tekið verði fram í dómsorði að dráttarvöxtum skuli bætt við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn 3. október 1997, en síðan árlega þann dag.  Þá er krafist máls­kostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda, en til vara að hann verði felldur niður.

I.

Stefnandi og þáverandi sambýliskona hans fengu árið 1982 úthlutað lóð undir einbýlishús að Smárateigi 3 í Hnífsdal.  Fluttu þau lögheimili sitt þangað árið 1985.  Um mitt það ár tóku gildi lög nr. 28/1985 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, sem m.a. kváðu á um gerð snjóflóðahættumats.  Var slíkt mat vegna byggðar í Hnífsdal staðfest árið 1992.  Stóð húsið að Smárateigi 3 á hættu­svæði samkvæmt því.  Nefndum lögum var tvívegis breytt árið 1995, fyrst með l. nr. 50/1995 og síðar með l. nr. 151/1995.  Voru þá lögtekin ákvæði um heimild sveitar­stjórna til að gera tillögu um kaup eða flutning eigna á hættusvæðum, ef það teldist hagkvæmara en aðrar varnaraðgerðir sem ofanflóðasjóður fjármagnaði að hluta eða öllu leyti samkvæmt lögunum.  Skyldi greiðsla úr sjóðnum miðast við staðgreiðslumarkaðsverð sambærilegra húseigna í sveitarfélaginu utan hættu­svæða, en ætti húseigandi ekki kost á sambærilegri húseign í sveitarfélaginu til kaups og byggði hann nýja húseign í sveitarfélaginu til íbúðar fyrir sig og fjöl­skyldu sína var þó heimilt að miða greiðslu úr sjóðnum við brunabótamat vá­trygginga­félags, en væri brunabótamat hærra en endurstofnverð húseignar, að frá­dregnum afskriftum vegna aldurs og byggingarefnis eignarinnar, skyldi greiðsla miðast við endurstofnverð sem þannig er reiknað.  Næðist ekki sam­komulag um kaup á húseign var sveitarstjórn heimilt að taka hana eignarnámi.

Hinn 22. mars 1995 gerðu stefnandi og sambýliskona hans samkomulag við stefnda um kaup stefnda á fasteigninni Smárateigi 3, með fyrirvara um sam­þykki bæjarstjórnar stefnda, Almannavarna ríkisins, félagsmálaráðuneytisins og Ofanflóðasjóðs.  Af þessum kaupum varð ekki.

Stefndi fól nú lögmönnunum Birni Jóhannessyni og Tryggva Guð­munds­syni að meta staðgreiðsluverðmæti fasteignarinnar Smárateigs 3.  Matsskýrsla þeirra er dagsett 30. janúar 1996.  Eigninni er svo lýst að um sé að ræða 107,5 m2  einbýlishús úr steinsteypu, byggt árið 1985, ásamt 45 m2 bílgeymslu.  Sé húsið sérstaklega vandað í öllum frágangi, með fyrsta flokks innréttingum og gólf­efnum.  Við mat á staðgreiðsluverðmæti sé tekið tillit til markaðsverðs sambæri­legra eigna í sveitarfélaginu og hagræðis seljanda vegna eingreiðslu, þ.m.t. að kaup­verð greiðist eingöngu með peningum, og af því að þurfa ekki að greiða kostnað vegna sölunnar.  Mátu lögmennirnir staðgreiðsluverðmæti eignarinnar 10.800.000 krónur.

Hinn 27. desember 1996 gerðu stefnandi og sambýliskona hans kaup­samning um eignina við stefnda.  Kaupverð var 10.800.000 krónur.  Gerður var svohljóðandi fyrirvari af hálfu seljenda:

„Undirritaðir eigendur fasteignarinnar Smárateigs 3, Hnífsdal, samþykkja að selja fasteign sína til Ísafjarðarbæjar á grundvelli ákvæða laga nr. 28/1995, sbr. lög nr. 50/1995, með fyrirvara um heimild seljenda til að fá ákvörðun um kaup­verð endurskoðað, þar sem við teljum ákvörðun kaupverðsins ekki samrýman­lega ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignaréttarins, sbr. 73. gr. hennar og reglum íslensks réttar um jafnræði meðal þegnanna. /.../“

Af hálfu stefnda var sett ákvæði í kaupsamninginn um að hann liti svo á að um endanlega afgreiðslu málsins væri að ræða með kaupsamningnum og að hann liti svo á að seljendur hefðu ekki verið þvingaðir á nokkurn hátt til samnings um sölu eignarinnar. 

Hinn 12. júní 1998 gáfu seljendur út fyrirvaralaust afsal fyrir eigninni til stefnda.  Hinn 9. september 1998 gerðu stefnandi og sambýliskona hans með sér sam­komulag vegna slita á samvistum, þar sem tekið var fram að stefnandi skyldi bera allan kostnað og allan hugsanlegan hagnað af málaferlum vegna sölunnar.

II.

Stefnandi kveðst byggja á því að hann hafi átt fasteign á snjó­flóða­hættu­svæði innan bæjarmarka stefnda.  Réttur hans til eignarinnar hafi notið verndar reglu 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.  Hafi ekki mátt svipta hann þeim rétti nema að fullnægðum öllum skilyrðum þess ákvæðis, en hann hafi frá upphafi verið því ósamþykkur að ofangreint matsverð hafi verið fullt verð fyrir eignina.  Staðgreiðslumarkaðsverð samkvæmt 7. gr. laga nr. 28/1985, sbr. 5. gr. laga nr. 151/1995, sé hvergi nákvæmlega útskýrt í lögum, en ætla verði að átt sé við meðaltalsverð þekktra fasteignaviðskipta með svipaðar eða sambærilegar eignir.  Telur stefnandi að ástæður og aðstæður manna við frjáls viðskipti eigi ekkert sameiginlegt með því þegar menn séu þvingaðir til að yfirgefa húsnæði sitt og afsala því á grundvelli lagaboðs og stjórnvaldsákvörðunar.  Verði við slíkar aðstæður að líta til þess hvað það kosti að afla sér annarrar sambærilegrar fasteignar á stað þar sem maður kjósi að búa.  Sé fyrir það girt með ákvæðum 72. gr. og 65. gr. stjórnarskrár að setja megi skilyrði fyrir hærri greiðslu um að eigandi fasteignar byggi á ný innan sama sveitarfélags og greiði bætur út, enda séu 90% bóta greidd úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.  Feli 7. gr. laga nr. 28/1985 í sér að eign sé tekin eignarnámi og verði þá að horfa til þess hvað sé hagstæðast fyrir eignarnámsþola, en ekki eignarnema.  Kveðst stefnandi byggja á því að fullt verð fyrir Smárateig 3 hafi verið brunamótamatsverð eignarinnar í desember 1996, eða 16.877.000 krónur.  Vísar hann til þess að ef hús hans hefði eyðilagst í bruna hefði honum verið bætt það með brunabótamatsverði og þar sem honum hafi ekki verið unnt að reisa sér nýtt hús á svæðinu, þar sem engar byggingalóðir hafi verið þar tiltækar, hefðu bætur ekki skerst, sbr. 3. gr. laga nr. 48/1994.  Hefði hús hans farist í snjóflóði hefði það einnig verið bætt með brunabótamatsverðinu, svo sem kveðið hafi verið á um í lögum nr. 28/1985, eins og þeim var breytt með lögum nr. 50/1995.  Telur stefnandi það eiga að gilda einu hvort eign hans hefði farist í bruna, snjóflóði, eða hvort honum var meinuð búseta í henni vegna snjóflóðahættu.  Beri að bæta honum eignina samkvæmt bruna­bóta­mati, með vísan til jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár, meginreglna laga og eðlis máls.

Aðalkrafa stefnanda er miðuð við mismun brunabótamatsverðs og mats­verðs ofangreindra lögmanna.  Vara- og þrautavarakröfur eru byggðar á endur­stofnverði og afskrifuðu endurstofnverði Smárateigs 3 hinn 22. desember 1996.

III.

Stefndi kveðst byggja á því að með útgáfu athugasemdalauss afsals vegna Smárateigs 3 hafi stefnandi fallið frá öllum kröfum sínum á hendur stefnda vegna kaupverðs eignarinnar.  Verði að líta svo á að með afsalinu hafi seljendur fallið frá fyrirvara sínum í kaupsamningnum.  Afsalið sé fyrirvaralaust og þar segi að kaup­andi hafi greitt umsamið kaupverð og að seljendur, þ.m.t. stefnandi, lýsi því stefnda réttan og löglegan eiganda Smárateigs 3.  Hafi þau þannig samþykkt að afsala eigninni fyrir það staðgreiðslumarkaðsverð sem hafi verið samið um og fallið af fúsum og frjálsum vilja frá frekari kröfum á hendur stefnda.  Sé ekki byggt á því af hálfu stefnanda að ráðstöfun hans samkvæmt afsalinu sé ógild eða ógild­an­leg, eða óskuldbindandi fyrir stefnanda.

Verði krafa um sýknu ekki tekin til greina af þessari ástæðu, kveðst stefndi byggja á því að hann hafi greitt kaupverð eignarinnar að fullu í samræmi við ákvæði gildandi laga og í samræmi við samning aðila, sem hafi verið gerður á grundvelli laga.  Í 3. mgr. 7. gr. l. nr. 28/1985, sbr. 3. mgr. 5. gr. l. nr. 151/1995, sé sett meginregla um að við kaup á húsum á hættusvæðum skuli miðað við stað­greiðslumarkaðsverð sambærilegra húseigna í sveitarfélaginu utan hættu­svæða.  Ekki skyldi taka tillit til hækkunar á markaðsverði sem rekja mætti til ákvörðunar um kaup á húseignum á hættusvæði.  Meginreglan um greiðslu markaðsverðs hafi verið í fullu samræmi við önnur lagaákvæði í þessa veru, t.d. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar.  Hafi verð Smárateigs 3 verið metið af tveimur lög­mönnum, sem hafi tekið tillit til markaðsverðs sambærilegra eigna í sveitar­félag­inu og hagræðis seljenda af eingreiðslu og því að þurfa ekki að greiða kostnað af sölu eignarinnar.

Stefndi kveður undantekningartilvik, sem mælt var fyrir um í 5. mgr. 7. gr. l. nr. 28/1985, sbr. 5. mgr. 5. gr. l. nr. 151/1995, ekki hafa átt við, en samkvæmt því var heimilt að miða greiðslu við endurbyggingarverð, þegar húseigandi átti ekki kost á sambærilegri húseign í sveitarfélaginu til kaups og byggði nýja húseign í sveitarfélaginu til íbúðar fyrir sig og fjölskyldu sína.  Kveður stefnandi ákvæðið hafa falið í sér heimild, en ekki skyldu, til að greiða í samræmi við brunabótamat, en endurstofnverð í nánar útfærðum tilvikum.  Eingöngu hafi verið heimilt að greiða í samræmi við brunabótamat ef ekki hafi verið unnt að kaupa sams konar eign í viðkomandi sveitarfélagi.  Stefnandi og sambúðarkona hans hafi kosið að kaupa ekki sambærilega eign á Ísafirði, heldur flytja úr sveitarfélaginu til Reykjavíkur, þar sem þau hafi keypt sína íbúð hvort.  Nefnd undantekningarregla hafi ekki orðið virk þótt byggingarlóðir hafi skort í sveitarfélaginu, þar sem ekki liggi fyrir að ekki hafi verið sambærilegar eignir til sölu á Ísafirði.  Tekur stefndi fram í þessu sambandi að ekki hafi falist ólögmæt mismunun í áskilnaði 5. mgr. 7. gr. laga nr. 28/1995, sbr. 5. gr. laga nr. 151/1995, um að viðkomandi byggði nýja húseign í sveitarfélaginu.  Þessi regla hafi náð til allra sem svipað var ástatt um og mælt fyrir um réttarstöðu allra á málefnalegan hátt.  Ákvæðið brjóti því ekki í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Stefndi kveðst einnig reisa sýknukröfu sína á því að það hafi ekki verið eignarnám þegar stefndi keypti eignina, heldur hafi verið svo um samið.  Stefndi hafi ekki nýtt eignarnámsheimild sína samkvæmt 8. mgr. 7. gr. laga nr. 28/1985, sbr. 8. mgr. 5. gr. l. nr. 151/1995 og það hafi aldrei staðið til.  Stefnandi og með­eigandi hans hafi sjálf kosið að selja stefnda eignina og hann ákveðið að verða við því, samkvæmt heimild sinni í lögum til að kaupa hús á hættusvæðum.  Seljendum hafi alla tíð verið kunnugt að stefndi myndi greiða staðgreiðslu­markaðsverð fyrir eignina í samræmi við matið.  Verði því ekki séð að meta hefði átt verð eign­arinnar á þeim grundvelli að um eignarnám hafi verið að ræða.  Hafi stefndi gætt fyllsta jafnræðis við kaup á húsum í Hnífsdal.  Lög nr. 28/1985, með síðari breyt­ingum, hafi byggt á því að greitt skyldi í samræmi við markaðsverð hverrar eignar.  Sé setning þessarar meginreglu skiljanleg, enda miðað við að seljandi hafi þá nægilegt fjármagn til að kaupa aðra eign innan sama sveitarfélags, en ef við­komandi þyrfti að byggja nýtt, sambærilegt íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu fengi hann greitt í samræmi við brunabótamat eða endurstofnverð að frádregnum af­skrift­um.  Endurbyggingarkostnaður hefði getað reynst hærri en kaup á notuðu sam­bærilegu húsnæði og hafi tilgangur undantekningarreglunnar verið að gera viðkomandi húseiganda jafnt settan og áður.  Samt sem áður byggi hann við þá staðreynd að við sölu nýbyggingarinnar fengi hann ekki nema staðgreiðslu­markaðsverð fyrir eignina.  Hafi allir Hnífsdælingar, sem seldu stefnda eignir í sam­ræmi við 5. gr. l. nr. 151/1995, því setið við sama borð.

Verði hins vegar litið svo á að um eignarnám, eða ígildi þess, hafi verið að ræða, er stefndi keypti Smárateig 3, sé byggt á því að stefndi hafi samt sem áður greitt fullt verð fyrir eignina.  Núgildandi lög um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973, hafi ekki að geyma ákvæði um það eftir hverju skuli farið, þegar bætur eru ákvarðaðar.  Í fyrrgildandi lögum um framkvæmd eignarnáms, nr. 61/1917, hafi verið kveðið á um að miða skyldi við það gangverð sem eignin myndi hafa í kaupum og sölum.  Þetta ákvæði hafi ekki verið tekið upp í lög nr. 11/1973, sem kveða á um að sérstök matsnefnd skuli ákveða bætur.  Við endurskoðun laganna hafi þó ekki verið miðað að breytingum á réttarreglum um fjárhæð eignar­náms­bóta.  Við eignarnám skuli miða bætur við gangverð eignar, þ.e.a.s. stað­greiðslu­markaðsverð.  Því sé ljóst að stefndi hafi greitt stefnanda fullt verð fyrir eignina að Smárateigi 3 þegar kaupin voru gerð og því sé uppfyllt skilyrði 72. gr. stjórnarskrár um að fullt verð skuli koma fyrir eign.  Lúti öll efnis- og sann­girnisrök að því að greiða gangverð fyrir eignarnumda eign.  Gangverð taki mið af því verði sem fasteign gangi á í viðskiptum á frjálsum markaði.  Í flestum tilvikum sé ekki unnt að fá svo háa fjárhæð sem nemi brunabótamati fyrir eign við sölu.  Megi finna fyrirmæli í 2. mgr. 140. gr. vatnalaga nr. 15/1923 um að eignar­námsbætur skuli miða við söluverð.  Þá kveðst stefndi vísa til meginreglu í skaða­bótarétti um að markaðsvirði hluta teljist vera fullt verð fyrir þá, nema sérstaklega standi á.  Tjónþoli hafi þá möguleika á að afla sér annarrar eignar á verði sem myndist með sambærilegum hætti.  Gildi þessi sjónarmið einnig um eignar­námsbætur að meginstefnu til.  Hafi löggjafinn metið það svo við setningu laga nr. 28/1995 og laga um breytingar á þeim, að ef viðkomandi ætti kost á sambærilegri húseign í sama sveitarfélagi til kaups, skyldi ekki vikið frá framangreindu meginviðhorfi skaðabótaréttar.  Sé það viðhorf í samræmi við 72. gr. stjórnar­skrár.  Eigi sjónarmið um markaðsverð sem fullar bætur að fullu við, ef sanngjarnt og eðlilegt sé talið að tjónþoli geti aflað sér annarrar eignar í stað sinnar, án þess að í því felist veruleg röskun fyrir viðkomandi.  Eingöngu í þeim tilvikum sem slíkt sé ekki tækt, komi til álita að miða bætur við enduröflunarverð, en því sé ekki til að dreifa í þessu máli.

Stefndi kveðst einnig telja að það eigi að leiða til sýknu að stefnandi reisir kröfur sínar á opinberum matsfjárhæðum, sem byggðar séu á almennum við­miðunum, en ekki mati dómkvaddra matsmanna.  Í öllu falli verði hann ekki krafinn um meira en nemi afskrifuðu endurstofnverði eignarinnar, en hvorki vara- né þrautavarakrafa séu studdar gögnum og kröfugerð því óljós.  Verði þó fallist á að miða við 1% afskrift árlega, beri að draga 12% afskriftir frá endurstofnverði, þar sem 12 ár hafi liðið frá því að húsið var byggt uns það var selt.  Þá er dráttarvaxtakröfu mótmælt sem of hárri.

IV.

Í ofangreindum kaupsamningi um Smárateig 3, Hnífsdal, var gerður fyrir­vari af hálfu seljenda um heimild til að fá ákvörðun um kaupverð endurskoðað, þar sem þau teldu hana ekki samrýmanlega nánar greindum ákvæðum stjórnar­skrár.  Kaupandinn, stefndi, var bundinn af ákvæðum laga nr. 28/1995, með síðari breytingum, við ákvörðun verðs fyrir eignina.  Verður að líta svo á að honum hafi með fyrirvaranum verið gert ljóst að seljendur vildu leita úrlausnar um það hvort ákvæði þeirra laga brytu í bága við greind ákvæði stjórnarskrár, með þeim af­leiðingum að stefnda bæri að kaupa eignina hærra verði en ella.  Gerði stefndi samninginn engu að síður.  Þótt fyrirvarans væri ekki sérstaklega getið í afsali þykir það ekki verða túlkað svo að stefnandi hafi með því fallið frá honum, eða að stefndi hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að svo væri.  Verður stefndi því ekki sýknaður með skírskotun til þess að stefnandi hafi fallið frá þessum fyrirvara með útgáfu afsals.

Á því er byggt af hálfu stefnanda að með ákvæði 7. gr. laga nr. 28/1985, sbr. l. nr. 151/1995, hafi seljendum eigna verið mismunað þannig að fari í bága við ákvæði 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 3. gr. l. nr. 97/1995, sem kveður á um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mann­réttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti og konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna.  Í nefndri 7. gr. laga nr. 28/1985, sbr. l. nr. 151/1995, var sveitar­félögum heimilað að gera tillögu um kaup á eignum í stað framkvæmda sem ofanflóðasjóður fjármagnaði að hluta eða öllu leyti samkvæmt lögunum.  Greiðsla úr ofanflóðasjóði skyldi þá miðuð við stað­greiðslu­markaðsverð sambæri­legra húseigna í sveitarfélaginu, en að þeim tveimur skilyrðum uppfylltum að seljandi ætti ekki kost á sambærilegri húseign til kaups í sveitarfélaginu og byggði þar nýja húseign til íbúðar fyrir sig og fjölskyldu sína, skyldi þó heimilt að miða við brunabótamatsverð, nema það væri hærra en endurstofnverð húseignar að frádregnum afskriftum vegna aldurs og byggingarefnis hennar, en þá skyldi miða greiðslu við endurstofnverð þannig reiknað.  Þessi undantekning frá meginreglu um staðgreiðslumarkaðsverð þykir ekki fela í sér ólögmæta mismunun, einkum þegar haft er í huga að henni er ætlað að bæta úr hugsanlegu óréttlæti sem fælist í því að miða við markaðsverð, þar sem ekki væri kostur sambærilegra eigna á almennum markaði, en seljandi vildi ekki flytja í annað sveitarfélag.  Verður fallist á það með stefnda að ekki verður annað séð en að reglan hafi náð til allra sem svipað var ástatt um og mælt fyrir um réttarstöðu allra á málefnalegan hátt.

Stefndi hefur lagt fram ljósrit úr Vestfirska fréttablaðinu og Bæjarins besta frá árinu 1995, þar sem fasteignasalar hér á Ísafirði auglýsa fasteignir til sölu.  Gegn þeim vísbendingum, sem felast í þessum auglýsingum um að kostur hafi verið á svipuðum eignum til kaups á þessum tíma, þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að hann hafi ekki átt kost á því að festa kaup á svipaðri eign í sveitar­félaginu.  Ekki eru efni til að gera greinarmun á hverfunum í Skutulsfirði og Hnífsdal í þessu samhengi.

Í margnefndri 7. gr. laga nr. 28/1985, sbr. l. nr. 151/1995, er heimilað að taka eign eignarnámi, takist ekki samkomulag um kaup.  Tekið er fram í greinar­gerð stefnda og var áréttað við munnlegan málflutning að aldrei hefði staðið til að beita þessari heimild í því tilviki sem hér um ræðir.  Ekki liggur fyrir í málinu hverjar tillögur eða ráðagerðir stefndi hafði um varnarvirki, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 151/1995.  Til þess verður hins vegar að líta að stefnda var ekki skylt að lögum að taka þann kost að kaupa eignina, eða taka hana eignarnámi, ef hann vildi heldur reisa varnarvirki til að tryggja öryggi íbúa.  Verður kaupum hans á fasteign stefn­anda ekki jafnað til þess að stefnandi hafi verið skyldaður til að láta hana af hendi, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995.  Þegar af þeirri ástæðu kemur ekki til sérstakrar skoðunar hvort fullt verð hafi komið fyrir eignina í skilningi þess ákvæðis.

Eftir þessu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.  Eftir atvikum er þó rétt að málskostnaður falli niður.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.

Dómsuppsaga hefur dregist vegna starfsanna dómarans.  Lögmenn aðila lýstu yfir að þeir teldu ekki þörf á að flytja málið á ný og er dómari sammála því.

Dómsorð:

Stefndi, Ísafjarðarbær, á að vera sýkn af kröfum stefnanda, Auðuns Jóhanns Guðmundssonar, í þessu máli.

Málskostnaður fellur niður.