Hæstiréttur íslands
Mál nr. 87/2010
Lykilorð
- Eignarréttur
- Gjöf
- Þinglýsing
- Skjal
- Fölsun
|
|
Fimmtudaginn 3. apríl 2014. |
|
Nr. 87/2010.
|
Jakob Adolf Traustason (sjálfur) gegn Gísla Guðfinnssyni (Erla S. Árnadóttir hrl.) og gagnsök |
Eignarréttur. Gjöf. Þinglýsing. Skjal. Fölsun.
J höfðaði mál gegn GG og krafðist viðurkenningar á eignarrétti sínum að landspildu úr jörð sem systkinin GG, M og GBG höfðu erft eftir GKG, föður sinn og stjúpföður J. Ekki var talið sannað að J hefði fengið landspilduna alla að lífs- eða dánargjöf frá GKG. Á hinn bóginn lágu fyrir yfirlýsingar og afsal þar sem M og GBG lýstu því meðal annars yfir að J væri réttur og löglegur eigandi landsins hvað varðaði eignarhlutdeild þeirra. Ráðstöfuðu M og GBG sínum eignarhlutum síðan á ný og þá til GG. Undir rekstri málsins var lögð fram yfirlýsing sem ritað var undir með nafni J um að fyrrnefndar yfirlýsingar og afsal M og GBG væru ógild og hefðu ekkert lagalegt gildi. Sú yfirlýsing var ekki lögð til grundvallar úrlausn málsins, enda var talið að J hefði leitt nægar líkur að því að hann hefði ekki undirritað hana og GG ekki sýnt fram á að hið gagnstæða. Talið var að GG hefði verið grandsamur um rétt J þegar M og GBG ráðstöfuðu landspildunni í annað sinn og gat GG því ekki hrundið óþinglýstum rétti J með því að þinglýsa afsali. Var því viðurkenndur eignarréttur J að tveimur þriðju hlutum landspildunnar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. febrúar 2010. Hann krefst þess aðallega að viðurkenndur verði eignarréttur hans að landspildu úr Hróarsholti 2 í Flóahreppi, landnúmer 186037, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 26. maí 2010 og krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum aðaláfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I
Hinn 11. október 2007 lést Guðfinnur Kr. Gíslason. Hann var kvæntur og átti þrjú börn með eiginkonu sinni en þau eru gagnáfrýjandi, María Guðbjörg Guðfinnsdóttir og Gerður Björg Guðfinnsdóttir. Aðaláfrýjandi er sonur eiginkonu Guðfinns en hún eignaðist hann fyrir hjúskapinn. Eftir að öll börnin voru uppkomin skildu hjónin.
Meðal eigna Guðfinns var rúmlega 120 hektara landspilda úr jörðinni Hróarsholti 2 í Flóahreppi, en þá spildu undanskildi hann við sölu jarðarinnar árið 1998. Hinn 8. febrúar 2008 ritaði María undir yfirlýsingu þar sem fallist var á að Guðfinnur hefði í dánargjöf gefið aðaláfrýjanda landspilduna til eignar. Skjalið undirritaði María einnig fyrir hönd Gerðar systur sinnar samkvæmt umboði frá henni 7. sama mánaðar. Gert var ráð fyrir að yfirlýsingin yrði einnig undirrituð af gagnáfrýjanda en hann skrifaði ekki undir skjalið. María ritaði síðan undir afsal og yfirlýsingu 3. maí sama ár fyrir sína hönd og Gerðar samkvæmt fyrrgreindu umboði, en þar lýstu þær því yfir að aðaláfrýjandi hefði eignast landið að gjöf frá hinum látna. Einnig sagði að nægði þetta ekki sem fullgild eignarheimild væri aðaláfrýjandi lýstur réttur og löglegur eigandi landsins með skjalinu hvað varðaði eignarhlutdeild þeirra systra.
Aðaláfrýjandi ritaði gagnáfrýjanda bréf 21. maí 2008 þar sem þess var meðal annars krafist að gengið yrði frá dánargjöfinni á landspildunni hjá sýslumanni svo fljótt sem verða mætti. Til stuðnings þessu vísað aðaláfrýjandi til fyrrgreindra yfirlýsinga hálfsystra sinna. Hinn 30. sama mánaðar munu gagnáfrýjandi og systur hans hafa fengið leyfi til einkaskipta á búinu og lauk skiptunum 10. júní sama ár.
Við skipti á dánarbúi Guðfinns var landspildunni ráðstafað með skiptayfirlýsingu 29. maí 2008 til barna hans þriggja að jöfnum hlut. Var yfirlýsingin móttekin til þinglýsingar 19. desember sama ár og þinglýst 22. þess mánaðar. Eftir að spildunni hafði verið skipt milli systkinanna var henni skipt í tvær spildur og önnur þeirra seld með kaupsamningi 18. desember 2008. Mál þetta lýtur að hinni spildunni, en gagnáfrýjandi keypti hana af systrum sínum með kaupsamningi 19. sama mánaðar. Í þeim samningi var tekið fram að þær systur teldu sig hvorki skuldbundnar af fyrrgreindri yfirlýsingu og afsali 3. maí 2008 né af öðrum skjölum sem þær hefðu undirritað um eignarhald aðaláfrýjanda á jörðinni. Einnig kom fram að samningurinn væri gerður með fyrirvara um eignarhald systranna. Auk þess sagði að kaupverðið yrði greitt eftir nánara samkomulagi eða mati fasteignasala ef aðilar kæmu sér ekki saman um það. Samhliða kaupsamningnum gáfu systurnar út samdægurs afsal fyrir jörðinni til gagnáfrýjanda og var það móttekið til þinglýsingar 22. desember 2008 og þinglýst daginn eftir.
Aðaláfrýjandi reisir málatilbúnað sinn einkum á því að hann hafi fengið landið sem stjúpfaðir hans átti úr jörðinni Hróarsholti 2 að lífs- eða dánargjöf frá honum, en hluti af því sé landspildan sem samkvæmt framasögðu hefði verið ráðstafað til gagnáfrýjanda. Auk þess byggir hann á því að systur hans hafi ráðstafað landinu til sín með fyrrgreindum skjölum 8. febrúar og 3. maí 2008. Þessu andmælir gagnáfrýjandi og telur aðaláfrýjanda engan rétt eiga til landsins.
Í stefnu til héraðsdóms krafðist aðaláfrýjandi þess að sér yrði með úrskurði heimilað að þinglýsa stefnunni eða útdrætti úr henni á hina umþrættu landspildu. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði héraðsdóms 9. júlí 2009 og var hann staðfestur með dómi Hæstaréttar 31. ágúst sama ár í máli nr. 433/2009. Þegar þing var háð í héraði til að fjalla um þessa kröfu var ekki mætt af hálfu gagnáfrýjanda. Þrátt fyrir það var málið ekki dómtekið, heldur tekið fyrir á reglulegu dómþingi 1. september 2009 en þá var sótt þing fyrir gagnáfrýjanda. Með úrskurði héraðsdóms 29. sama mánaðar var gagnáfrýjanda veittur frestur til að skila greinargerð í málinu en úrskurðurinn var felldur úr gildi með dómi Hæstaréttar 6. nóvember 2009 í máli nr. 597/2009. Í samræmi við þann dóm var málið dómtekið og gekk hinn áfrýjaði dómur 11. febrúar 2010. Að honum gengnum leitaði gagnáfrýjandi eftir endurupptöku málsins í héraði samkvæmt XXIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en féll frá þeirri kröfu eftir að aðaláfrýjandi hafði áfrýjað dóminum, sbr. 4. mgr. 137. gr. laganna. Sú viðbára aðaláfrýjanda hér fyrir dómi að gagnáfrýjandi hafi með því fallið frá öllum kröfum í málinu er haldlaus.
II
Meðan mál þetta var rekið í héraði höfðuðu María Guðbjörg Guðfinnsdóttir og Gerður Björg Guðfinnsdóttir mál á hendur aðaláfrýjanda til að fá ógilta fyrrgreinda yfirlýsingu 8. febrúar 2008 auk yfirlýsingarinnar og afsalsins 3. maí sama ár. Eftir að mál þetta hafði verið munnlega flutt fyrir Hæstarétti 14. febrúar 2011 var tekin sú ákvörðun á grundvelli síðari málsliðar 3. mgr. 102. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 að fresta málinu þar til dómur hefði gengið í hinu málinu.
Umræddu máli um gildi skjalanna lauk með dómi Hæstaréttar 26. janúar 2012 í máli nr. 84/2011 og var aðaláfrýjandi sýknaður af kröfum systra sinna. Var niðurstaðan reist á því að systurnar hefðu ekki verið að rástafa arfi sem þær áttu í vændum, heldur arfi sem þeim hefði tæmst við lát föður síns áður en skjölin voru undirrituð. Einnig var komist að þeirri niðurstöðu að skuldbindingunni sem fólst í yfirlýsingunum yrði ekki vikið til hliðar eftir ógildingarreglum samningaréttar.
III
Meðal málsgagna er yfirlýsing 20. febrúar 2012 þar sem fram kom að aðaláfrýjandi myndi hvorki nýta sér fyrrgreinda yfirlýsingu 8. febrúar 2008 né yfirlýsinguna og afsalið 3. maí sama ár um landspilduna úr Hróarsholti 2. Einnig var tekið fram að samkvæmt „hér ótilgreindu samkomulagi“ aðaláfrýjanda við hálfsystur sínar bæri að líta svo á að tilgreind skjöl væru ógild og hefðu ekkert lagalegt gildi. Skjal þetta virðist bera undirritun aðaláfrýjanda en á því eru ekki vottar þótt gert sé ráð fyrir því á skjalinu.
Aðaláfrýjandi ritaði lögmanni gagnáfrýjanda bréf 23. febrúar 2012 þar sem fullyrt var að yfirlýsingin 20. sama mánaðar væri ekki undirrituð af sér. Einnig tók aðaláfrýjandi fram að hann kannaðist ekki við það samkomulag sem vísað væri til í skjalinu. Loks sagði í bréfinu að mál þetta yrði kært til lögreglu. Þessu fylgdi aðaláfrýjandi eftir með því að mæta hjá lögreglu 27. febrúar 2012 og kæra skjalafals með undirritun á nafni sínu á yfirlýsinguna.
Þegar málið var munnlega flutt öðru sinni fyrir Hæstarétti 1. júní 2012 vefengdi aðaláfrýjandi undirritun sína á umrædda yfirlýsingu 20. febrúar 2012 og upplýsti að hann hefði kært fölsun á nafnritun sinni til lögreglu. Af þessum sökum tók Hæstiréttur aftur ákvörðun á sama lagagrundvelli og áður um að fresta málinu þar til rannsókn lögreglu væri lokið.
Með bréfi 28. júní 2012 óskuðu gagnáfrýjandi, María Guðbjörg Guðfinnsdóttir og Gerður Björg Guðfinnsdóttir eftir rannsókn lögreglu á ætluðum röngum yfirlýsingum aðaláfrýjanda hjá lögreglu og fyrir dómi. Í bréfinu kom fram að María hefði haft samband símleiðis við aðaláfrýjanda eftir að dómur Hæstaréttar í máli nr. 84/2011 gekk í því skyni að kanna hvort systkinin gætu náð samkomulagi um kröfu hans til hinnar umþrættu landspildu. Hinn 17. febrúar 2012 hefði María tekið út 1.000.000 krónur af reikningi sínum og sömu fjárhæð af reikningi Gerðar systur sinnar til að hafa handbært fé ef samkomulag næðist við aðaláfrýjanda gegn greiðslu fjármuna. María hefði síðan hitt ákærða tvívegis og fengið frá honum yfirlýsinguna 20. febrúar 2012 gegn greiðslu fyrrgreindrar fjárhæðar, en þau hefðu orðið ásátt um að systkinin greiddu honum samtals 20.000.000 krónur fyrir landið. Í bréfinu var síðan fullyrt að systkini aðaláfrýjenda teldu staðhæfingu hans um að hafa ekki undirritað yfirlýsinguna ranga en með þeirri yfirlýsingu kynni hann að hafa gerst brotlegur við ákvæði XV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 25. janúar 2012 var gagnáfrýjanda og systrum hans tilkynnt að rannsókn í tilefni af kæru þeirra hefði verið hætt, sbr. 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Eftir að lögregla hafði hafnað kröfu um að hefja rannsókn á ný var ákvörðun hennar um að hætta rannsókn kærð til ríkissaksóknara. Með úrskurði hans 22. mars 2013 var ákvörðun lögreglu staðfest. Var sú niðurstaða meðal annars reist á því að miklar líkur væru á miðað við rannsóknargögn að aðaláfrýjandi hefði ekki undirritað yfirlýsinguna. Því yrði ekki talið að hann hefði greint rangt frá.
Hinn 17. febrúar 2014 tók lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu síðan þá ákvörðun að fella niður rannsókn í tilefni af kæru aðaláfrýjanda á ætlaðri fölsun á undirritun hans á yfirlýsinguna 20. febrúar 2012 og var honum send tilkynning um þær lyktir málsins.
IV
Við rannsókn lögreglu vegna kæru aðaláfrýjanda um skjalafals og vegna sakargifta á hendur honum fór fram rithandarrannsókn hjá sænskum lögregluyfirvöldum á undirritun fyrrgreindrar yfirlýsingar 20. febrúar 2012. Í sérfræðiáliti 24. október sama ár kom fram að vefengd undirritun aðaláfrýjanda svipaði myndrænt til nafnritunar hans. Frávik sæjust þó varðandi strikagæði og form nokkurra atriða. Þau væru þess eðlis að líta mætti á þau ásamt undirbúnum ritstíl sem merki um að þetta væri ekki undirritun hans, heldur gerð af einhverjum öðrum sem hefði verið með eina eða fleiri undirskriftir sem fyrirmynd og hefði reynt að líkja eftir henni. Samkvæmt þessu voru niðurstöður rannsóknarinnar taldar benda til þess að vefengda undirskriftin á skjalinu væri ekki rituð af aðaláfrýjanda.
Hinn 18. desember 2012 var að ósk gagnáfrýjanda dómkvaddur sérfróður maður um rithandarrannsóknir til að meta undirritun á yfirlýsingunni 20. febrúar 2012. Var Haraldur Árnason fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður kvaddur til starfans og skilaði hann matsgerð 22. janúar 2013. Í henni kom fram að fyrirsynjuð nafnritun væri afar lík rithandarsýnum frá aðaláfrýjanda. Þó væri nokkuð skriftarlegt misræmi sem nánar var lýst. Taldi matsmaður allt benda til tæknilegrar fölsunar en eitt form hennar væri að ósvikin nafnritun væri lögð undir skjal sem ætti að falsa og ljós látið skína í gegn og ritunin dregin eftir fyrirmyndinni. Í niðurstöðum matsgerðarinnar sagði síðan að vefengda nafnritun skorti það skriftarflæði sem samanburðargögn hefðu og eins væri misræmi í formi einstakra stafa. Nafnritunin bæri merki tæknilegrar fölsunar og væri ekki í skriftarlegu samræmi við samanburðargögn. Því væru ekki efni til að draga í efa sannleiksgildi fyrirsynjunar aðaláfrýjanda á nafnrituninni. Þá sagði í niðurlagi matsgerðarinnar að matsmaður tæki ekki afstöðu til matsspurningar sem laut að því hvort aðaláfrýjandi kynni vísvitandi að hafa ritað undir yfirlýsinguna á þann hátt að draga mætti í efa að undirritunin væri ósvikin.
Með beiðni 9. nóvember 2012 fór gagnáfrýjandi þess á leit við héraðsdóm að aflað yrði sönnunargagna með skýrslutöku fyrir dómi samkvæmt heimild í XI. kafla laga nr. 91/1991. Fjögur af þeim vitnum sem tilgreind voru í beiðninni gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi 27. nóvember 2012 og 11. febrúar 2013. Með málsaðilum reis aftur á móti ágreiningur um hvort leiða ætti fyrir dóm nafngreindan lögreglumann sem annast hefði af hálfu lögreglu rannsókn á tölvu aðaláfrýjanda. Með dómi Hæstaréttar 3. júní 2013 í máli nr. 321/2013 var hafnað þeirri kröfu að lögreglumaðurinn kæmi fyrir dóm sem vitni. Var sú niðurstaða reist á því að gagnáfrýjandi hefði ekki leitt í ljós að það hefði þýðingu fyrir úrlausn málsins að vitnið svaraði spurningum um hvernig staðið hefði verið að rannsókninni að þessu leyti, enda lægi fyrir skýrsla um hana.
Með matsbeiðni gagnáfrýjanda 19. júní 2013 var þess farið á leit að kvaddur yrði til sérfróður maður að skoða tölvu aðaláfrýjanda og gera grein fyrir því hvort nánar tilgreind skjöl væri að finna í henni. Ef ekki yrði unnt að rannsaka tölvuna skyldi matsmaður leggja mat á fyrrgreinda rannsókn lögreglu og láta í té álit á því hvort hún samræmdist viðteknum aðferðum við rannsókn rafrænna gagna. Með dómi Hæstaréttar 24. janúar 2014 í máli nr. 16/2014 var hafnað kröfu gagnáfrýjanda um dómkvaðningu matsmanns. Var niðurstaðan byggð á því að gagnáfrýjandi hefði ekki sýnt fram á hvaða tilgangi matsgerðin ætti að þjóna til sönnunar um atvik sem þýðingu gætu haft við úrlausn þessa máls.
V
Krafa gagnáfrýjanda um frávísun málsins frá héraðsdómi er reist á því að kröfugerð aðaláfrýjanda sé óljós og málatilbúnaður allur ruglingslegur. Skortur sé á viðhlítandi samhengi málsástæðna auk þess sem ósamræmis gæti að ýmsu leyti.
Aðaláfrýjandi hefur flutt mál sitt sjálfur og verður að fallast á það með gagnáfrýjanda að málatilbúnaðurinn sé á köflum óglöggur. Þess er á hinn bóginn að gæta að héraðsdómur vísaði frá dómi ýmsum kröfum aðaláfrýjanda þannig að eftir standa kröfur hans um viðurkenningu á eignarrétti að hinni umþrættu landspildu. Að því leyti eru ekki þeir annmarkar á málatilbúnaðinum að dómur verði ekki lagður á málið. Kröfu gagnáfrýjanda um að málinu verði vísað frá héraðsdómi er því hafnað.
VI
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ekki fallist á það með aðaláfrýjanda að hann hafi fengið að dánargjöf frá Guðfinni Kr. Gíslasyni alla þá landspildu sem um er deilt í máli þessu. Þá er ósannað að aðaláfrýjandi hafi fengið spilduna alla að lífsgjöf frá Guðfinni, enda liggja ekki fyrir í málinu nein gögn sem rennt geta viðhlítandi stoðum undir þá staðhæfingu. Samkvæmt þessu verður aðalkrafa aðaláfrýjanda ekki tekin til greina.
Gagnáfrýjandi reisir kröfu sína um sýknu á því að aðaláfrýjandi hafi 20. febrúar 2012 lýst yfir skriflega að fyrrgreind yfirlýsing 8. febrúar 2008 og yfirlýsingin og afsalið 3. maí sama ár væru ógild og hefðu ekkert lagalegt gildi. Telur gagnáfrýjandi að engu hafandi staðhæfingar aðaláfrýjanda um að fyrstnefnda yfirlýsingin væri fölsuð, enda hefði glögglega komið fram við rekstur málsins að trúverðugleiki hans væri enginn.
Svo sem rakið hefur verið liggur fyrir sérfræðiálit 24. október 2012 um rithandarrannsókn sænskra lögregluyfirvalda á undirritun yfirlýsingarinnar 20. febrúar sama ár með þeirri niðurstöðu að undirskriftin á skjalinu væri ekki rituð af aðaláfrýjanda. Einnig liggur fyrir matsgerð 22. janúar 2013, sem gagnáfrýjandi aflaði, þar sem sérfræðingur á sviði rithandarannsókna komst að þeirri niðurstöðu að undirritunin bæri merki tæknilegrar fölsunar og ekki væri ástæða til að draga í efa fyrirsynjun aðaláfrýjanda á nafnrituninni. Að þessu virtu verður aðaláfrýjandi talinn hafa leitt nægar líkur að því að hann hafi ekki undirritað yfirlýsinguna til að sönnunarbyrði um hið gagnstæða verði lögð á gagnáfrýjanda. Þar sem hann hefur ekki axlað þá sönnunarbyrði verður yfirlýsingin ekki lögð til grundvallar úrlausn málsins.
Eins og áður greinir keypti gagnáfrýjandi hluta systra sinna Maríu og Gerðar í umdeildri landspildu með kaupsamningi 19. desember 2008 og fékk afsal frá þeim sama dag. Í kaupsamningnum var tekið fram að þær systur teldu sig ekki bundnar af yfirlýsingunni og afsalinu 3. maí sama ár til aðaláfrýjanda. Einnig liggur fyrir að gagnáfrýjandi hafði átt aðild að dómsmáli vegna ágreinings um þinglýsingu þessa skjals eins og vikið er að í hinum áfrýjaða dómi. Samkvæmt þessu var gagnáfrýjandi grandsamur um rétt aðaláfrýjanda þegar hann öðlaðist rétt sinn með kaupsamningnum og afsalinu 19. desember 2008 og gat hann því ekki hrundið óþinglýstum rétti aðaláfrýjanda með því að þinglýsa afsalinu til sín 23. sama mánaðar, sbr. 2. mgr. 29. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Samkvæmt þessu verður staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að viðurkenna eignarrétt aðaláfrýjanda að tveimur þriðju hlutum landspildunnar.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu á báðum dómstigum.
Dómsorð:
Viðurkenndur er eignarréttur aðaláfrýjanda, Jakobs Adolfs Traustasonar, að tveimur þriðju hlutum landspildu úr Hróarsholti 2 í Flóahreppi, landnúmer 186037.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2010.
Þetta mál er höfðað af Jakobi A. Traustasyni, kt. 180846-2049, Barónsstíg 3, Reykjavík, með stefnu birtri hinn 25. júní sl. á hendur Gísla Guðfinnssyni kt. 070462-3469, Bröndukvísl 7, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur hans að landi ,,Hróarsholt 2 spilda, Flóahreppur” landnúmer 186-037, en til vara, innan aðalkröfu, eignarréttur að tveimur þriðju hluta sama lands og þrautavara, innan aðalkröfu, eignarréttur að einum þriðja hluta sama lands, ásamt öllum gögnum og gæðum þess í sömu hlutföllum og öðru er fylgir og fylgja ber.
Til vara krefst stefnandi þess að dæmdur verði ógildur eignarréttur stefnda að landi sem í aðalkröfu greinir, en til vara, innan varakröfu, eignarréttur að tveimur þriðja hluta sama lands og þrautavara, innan varakröfu, eignarréttur að einum þriðja hluta sama lands.
Samhliða aðal- og varakröfu krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að gefa út afsal til stefnanda fyrir landi sem í aðalkröfu greinir að því marki sem fallist verður á kröfur stefnanda til landsins samkvæmt ofangreindri kröfugerð, að viðlögðum 40.000 króna dagsektum á dag til stefnanda, frá uppkvaðningu dóms til útgáfu afsals.
Jafnframt og til þrautavara, er þess krafist að dæmt verði að stefnanda sé heimilt að fá þinglýst á landið, sem í aðalkröfu greinir ,,Afsali og yfirlýsingu” dags. 3. maí 2008, útgefinni af Maríu Guðbjörgu og Gerði Björgu, sem eignarheimild til handa stefnanda að tveim þriðju hlutum landsins.
Ennfremur er gerð sú
krafa að í dómi verði viðurkennt að stefnda beri að bæta (beri bótaskyldu
gagnvart) stefnanda sem nemur vöxtum af fjárhæð samkvæmt verðmati á landinu sem
stefnandi fær sér dæmt samkvæmt kröfugerð hér að ofan, miðað við 21. maí 2008,
að því hámarki sem lög um vexti heimila, frá 11. nóvember 2007 til þess tíma að
dómur gengur í málinu, verði á dagsektir fallist, en að öðrum kosti til þess
tíma að stefnandi fær vörslur landsins.
Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda, auk virðisaukaskatts.
Þessu til viðbótar krafðist stefnandi þess í stefnu að héraðsdómur úrskurðaði svo fljótt sem verða mætti að stefnunni eða útdrætti úr henni mætti þinglýsa á fasteignina ,,Hróarsholt 2 spilda, Flóahreppur” landnúmer 186-037 og byggði þá kröfu á 1. mgr. 28. gr. laga nr. 39/1978. Tilgangur þessarar þinglýsingar væri að gera þriðja aðila viðvart. Það væri mjög áríðandi þar sem landið væri komið í auglýsta sölumeðferð.
Vegna kröfu stefnanda um þinglýsingu á stefnu var málið flutt um þá kröfu 6. júlí sl. Þann dag varð útivist af hálfu stefnda. Krafa stefnanda um þinglýsingu stefnu var þá tekin til úrskurðar. Stefnandi krafðist þess þá að málið í heild yrði dómtekið en ekki einvörðungu krafa hans um þinglýsingu stefnu. Þann 9. júlí var kveðinn upp úrskurður þar sem hafnað var kröfu stefnanda um að stefnu málsins mætti þinglýsa á hina umdeildu fasteign. Við þessa fyrirtöku sótti stefnandi þing, en stefndi ekki. Var málinu þá frestað með vísan til 1. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 til næsta reglulegs dómþings Héraðsdóms Reykjavíkur sem haldið yrði 1. september 2009. Við sömu fyrirtöku ítrekaði stefnandi kröfu um að málið í heild yrði dómtekið vegna útivistar stefnda og óskaði þess að úrskurður yrði kveðinn upp þar að lútandi. Dómari taldi nægjanlegt að taka afstöðu til kröfu stefnanda með ákvörðun. Stefnandi kærði úrskurð um synjun á kröfu um þinglýsingu stefnu til Hæstaréttar þann 21. júlí. Í dómi Hæstaréttar var úrskurðurinn staðfestur. Hinsvegar var talið að vegna mótmæla stefnanda við því að stefnda yrði veittur frestur til að skila greinargerð í málinu hafi héraðsdómara borið að kveða upp úrskurð um það atriði hvort fresta ætti málinu, sbr. h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991.
Á reglulegu dómþingi 1. september sl. krafðist stefnandi þess að kveðinn yrði upp úrskurður um þá kröfu hans að dómtaka ætti málið í heild vegna útivistar stefnda í þinghöldum 6. og 9. júlí. Málið var flutt um þessa kröfu 18. september og úrskurður kveðinn upp 29. sama mánaðar. Með þeim úrskurði var stefnda veittur frestur til 20. október til að skila greinargerð. Stefnandi kærði þennan úrskurð til Hæstaréttar sem þann 6. nóvember sl. kvað upp dóm þar sem þessi úrskurður héraðsdóms var felldur úr gildi. Í dóminum var tekið fram að héraðsdómara hafi borið að taka málið til dóms í þeim búningi sem það var þegar þingsókn féll niður af hálfu varnaraðila 6. júlí 2009.
Á reglulegu dómþingi 19. nóvember sl. var málið síðan dómtekið.
Málavextir
Stefnandi dregur málsatvikalýsingu og málástæður sínar saman á svofelldan hátt: Þetta mál snúist um land úr dánarbúi Guðfinns Kr. Gíslasonar, sem lést 11. október 2007. Hafi landið á þeim tíma verið talið ríflega 100 hektarar að stærð. Við einkaskipti á dánarbúinu hafi heildarlandinu verið skipt að jöfnu með lögerfingjunum þremur. Eftir það hafi landinu verið skipt í tvær landsspildur. Hafi minni spildan verið seld til þriðja aðila og daginn eftir þann gerning hafi erfingjarnir María og Gerður afsalað sinni hlutdeild í stærri spildunni til stefnda og sé sú spilda það land sem stefnukrafa málsins taki til. Málið sé höfðað til þess að stefnandi fái til sín eignaumráð fyrir þessum hluta landsins þar sem heildarlandið hafi verið og sé eign stefnanda fyrir gjöf frá Guðfinni heitnum og síðan einnig að tveim þriðju fyrir afsal frá Maríu og Gerði sem hafi verið gefið út áður en þær hafi gefið út afsalið til stefnda, eins og sjá megi af framlögðum skjölum. Jafnframt hafi stefnandi eignast landið sem endurgjald frá Guðfinni fyrir vinnu, aðstoð og annað framlag til hans auk þess sem stefnandi á rétt til landsins til greiðslu á því sem Guðfinnur og síðan dánarbúið skuldar honum vegna vinnuframlags. Þar til viðbótar eigi stefnandi einnig rétt til landsins upp í skaðabætur sökum þess að Guðfinnur hafi ekki staðið við það gagnvart stefnanda að tryggja að hann fengi landið til eignar og þinglýst á sitt nafn. Auk þess eigi stefnandi svo rétt á landinu úr hendi stefnda fyrir þær sakir að stefndi er valdur af því að stefnandi hafi ekki fengið umráð landsins en einnig vegna aðkomu stefnda að öðru leyti að ráðstöfun landsins. Í ljósi þess, að stefnandi eigi landið, hafi allar ofangreindar eignayfirfærslur erfingja á landinu verið gerðar í vanheimild.
Að sögn stefnanda hóf Guðfinnur sambúð með Birnu V. Jakobsdóttur, móður stefnanda, á árinu 1951 og hafi þau gift sig ári síðar. Þá hafi Guðfinnur gengið stefnanda, þá á sjötta aldursári, í föðurstað. Með Birnu hafi Guðfinnur eignast þrjú börn, Maríu 1952, Gerði 1955 og Gísla 1962. Er þau hafi verið uppkomin hafi móðir stefnanda farið að vinna utan heimilis og hafi síðar fengið stjórnunarstöðu úti á landi. Guðfinnur hafi hins vegar áfram haldið heimili í Keflavík. Er frá leið við þessar aðstæður hafi þau ákveðið að slíta formlegu hjónabandi. Árið 1999 hafi Guðfinnur flutt heimili sitt til Reykjavíkur og árið 2007 hafi hann flust á hjúkrunarheimilið Grund þar sem hann hafi dvalist síðustu fimm mánuði ævi sinnar, og andast 11. október 2007. Guðfinnur og Birna hafi sparað sér fyrirhöfn samfara því að Guðfinnur ættleiddi stefnanda. María, Gerður og Gísli, hálfsystkin stefnanda, séu því ein lögerfingjar.
Að sögn stefnanda keypti Guðfinnur heitinn Hróarsholt II, Villingaholtshreppi (nú Flóahreppi), Árnessýslu í maí árið 1973. Í árslok 1998 hafi hann selt jörðina með öllum húsakosti en hafi við þá sölu undanskilið rúmlega 100 ha, af landi jarðarinnar. Þessi spilda úr jörðinni sé það land sem sé tilefni þessarar málshöfðunar. Árið 2001 sé jörðin aftur seld og þá fjórum aðilum sameiginlega. Árið 2003 hafi stefnandi þurft og tekist að verja það land sem Guðfinnur hafi haldið eftir fyrir ágangi þessara fjórmenninga.
Stefnandi kveðst hafa frá upphafi verið hjálparhönd Guðfinns í flestum hans málum frá barnæsku og fram andláti hans. Gerir hann ítarlega grein fyrir því hvernig samband þeirra og samstarf hafi verið gegnum tíðina. Í upphafi hafi stefnandi átt skjól hjá Guðfinni en þau hlutverk hafi síðar á lífsleiðinni snúist við þannig að Guðfinnur hafi leitað eftir öryggi hjá stefnanda sem hafi lagt sig fram um að leysa hvern hans vanda, af hvaða tagi sem hann hafi verið. Fyrir þessa umfangsmikla og margháttaða samstarf og víðtæku aðstoð, meðal annars við að byggja upp eignir Guðfinns, viðhalda þeim og verja fyrir einstaklingum og yfirvöldum, hafi Guðfinnur viljað launa stefnanda með því að gefa honum hið umdeilda land.
Eftir andlát Guðfinns hafi það verið fyrsta verk erfingja að henda skjölum og pappírum á heimili hans, án samráðs við stefnanda og sönnunargögnum þar með eytt. Á þeim tíma hafi stefnandi þó ekki vitað betur en fullur vilji og samkomulag væri með systkinum hans um að virða umrædda landgjöf Guðfinns heitins. Stefnandi hafi síðan tekið fullan þátt í því með hálfsystkinum sínum að fara gegn um aðrar reitur Guðfinns. Að auki hafi stefnandi unnið fyrir dánarbúið meðal annars við að fá bætt tjón sem orðið hafi á íbúð Guðfinns stuttu fyrir andlát hans, að fá viðurkenndan eignarétt dánarbúsins yfir bílskúr sem fylgja átti íbúð Guðfinns en annar aðili hafi verið skráður fyrir og á annan hátt tryggt að Guðfinnur gæti hvílst með sóma.
Eftir andlát Guðfinns hafi verið ágreiningslaust að ofangreint land væri eign stefnanda fyrir gjöf Guðfinns og hafi erfingjar viðurkennt að þeim væri þetta kunnugt og myndu ekki standa gegn því. Dregist hafi að taka búið til skipta. Hafi María og Gerður viljað að stefnandi annaðist skiptin sem hafi beðið eftir samþykki stefnda. Stefndi hafi hinsvegar ekki veitt stefnanda umboð til að halda utan um skiptin. Stefndi hafi sjálfur viljað annast þau og hafi notið þess að samþykki lögerfingjanna hafi þurft til einkaskipta á búinu. Hafi stefndi látið hjá líða að fara að ítrekuðum tilmælum stefnanda um að útfylla, í samráði við hann, beiðni um leyfi til einkaskipta þannig að landið væri í beiðni tilgreint sem eign stefnanda. Þann 20. maí 2008 hafi málið tekið nýja óvænta stefnu.
Áður en að því hafi komið og til frekari staðfestu hafi María og Gerður með sérstakri yfirlýsingu skriflega, vottað, lýst yfir, viðurkennt og samþykkt að Guðfinnur heitinn hefði gefið stefnanda, stjúpsyni sínum og hálfbróður þeirra, til eignar alla landeign sína í Hróarsholtstorfu, Flóahreppi, Árnessýslu, ásamt að þær, í sama skjali, hafi samþykkt og lýst stefnanda eiganda landsins, fyrir sitt leyti, eins og fram komi í framlögðum skjölum dags. 7. og 8. febrúar 2008. Undir þessa yfirlýsingu hafi stefndi ekki skrifað. Þó hafi stefndi ekki andmælt því að Guðfinnur hefði gefið stefnanda landið. Að auki hafi María og Gerður með sérstöku afsali 3. maí 2008 afsalað til stefnanda öllum eignarétti og tilkalli sem þær mögulega ættu og myndu síðar eignast til landsins, þ.e. þeim rétti og tilkalli sem þá þegar var til staðar ásamt að afsala einnig og/eða lofa að afsala stefnanda þeim eignarrétti og tilkalli til landsins sem mögulega síðar félli þeim í skaut, þ.e. væri ráðstöfunarréttur þeirra ekki nægilega til staðar á afsals og loforðsdegi. Í yfirlýsingu samþykki þær jafnframt stefnanda sem eiganda landsins
Þann 20. maí 2008, eða þar um bil, hafi stefnanda farið að gruna að stefndi hefði knúið fram umboð systranna til að annast einkaskiptin og að stefndi væri þá einn kominn með allsherjarráð fyrir þau öll. Í ljósi þessa og þess að stefnandi treysti stefnda ekki að öllu leyti varðandi sína hagsmuni, hafi stefnandi skrifað stefnda bréf, dags. 21. maí 2008 sem hafi verið birt honum sama dag. Í bréfinu geri stefnandi athugasemd við dráttinn ásamt því að ítreka og skjalfesta ástæður fyrir og tilkall til eignaréttar yfir landinu og hafi krafist útlagningar sér til handa, en að öðrum kosti þyrfti hann að krefjast opinberra skipta á dánarbúinu. Þetta hafi ekki borið árangur og hafi bréfinu ekki verið svarað. Samrit bréfsins, ásamt áðurgreindri yfirlýsing Maríu og Gerðar ásamt umboði dags. 7. og 8. febrúar 2008, hafi farið til skiptadeildar sýslumannsins í Reykjavík, í beinu framhaldi, eins og framlögð móttökukvittun dags. 23. maí beri með sér. Stefnandi hafi nú verið farinn að óttast að stefndi myndi misfara með það sem áður hafi verið rætt um og til stóð, að landinu yrði þinglýst á stefnanda samhliða útlagningu úr dánarbúinu.
Stefnandi kveðst hafa krafist opinberra skipta á dánarbúi Guðfinns heitins, þann 26. maí 2008, og hafi hann afhent sýslumanninum í Reykjavík samrit kröfu en á þessum tíma hafi leyfi til einkaskipta ekki enn verið veitt og því hafi opinber skipti enn verið möguleg. Í framhaldi hafi sýslumaður veitt lögerfingjum leyfi til einkaskipta. Stefnandi hafi talið þetta ólöglegt og óviðunandi og hafi skrifað sýslumanni ítrekuð bréf vegna þessa í júní og júlí 2008, auk þess að ganga þangað erinda. Bréfum þessum hafi ekki verið svarað og engar upplýsingar hafi fengist varðandi dánarbúið. Stefnandi hafi þá talið að sýslumaður hefði stöðvað skiptaferlið og að mál væru í biðstöðu vegna kröfu hans um opinber skipti þar til honum yrði tilkynnt af sýslumanni um niðurstöðu héraðsdóms varðandi kröfuna. Slík tilkynning hafi hins vegar aldrei borist frá sýslumanni.
Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 6. mgr. 44. gr. laga nr. 20/1991 skuli héraðsdómari beina tilkynningu til sýslumanns um niðurstöðu úrskurðar varðandi kröfu um opinber skipti á dánarbúi. Þá segi í 5. mgr. 119. gr. laganna að sýslumanni beri að gæta þess meðan ágreiningur sé ekki til lykta leiddur að aðgerðir við dánarbúið raski ekki viðkomandi hagsmunum.
Í tilraunum sínum til að standa vörð um rétt sinn hafi stefnandi í alla staði og allstaðar mætt algjöru tómlæti. Þá hafi stefnandi talið að mögulega hefðu systurnar stöðvað stefnda í því að framkvæma skiptin í andstöðu við það sem staðið hefði til og rétt var. Stefnandi hafi álitið að málið þyrfti sinn tíma fyrir héraðsdómi. Í júlí og ágúst hafi verið réttarhlé og þá kominn september, auk þess sem mál taki tíma fyrir dómstólum. Stefnandi hafi því ekki getað annað gert enn bíða átektar.
Í júlí 2008 hafi landinu enn ekki verið úthlutað til og þinglýst á nafn stefnanda en hann hafi verið í algerri óvissu þar sem hann hafi hvergi fengið upplýsingar. Hafi hann því ákveðið að þinglýsa ,,Afsali og yfirlýsingu” Maríu og Gerðar, dags. 3. maí 2008, ásamt sérstakri yfirlýsingu og hafi þá haft í huga að hætta gæti verið á ráðstöfun varðandi landið eða á landinu í nafni dánarbúsins fyrir tilstilli og vegna mögulegrar andstöðu stefnda. Þann 6. ágúst sama ár hafi sýslumaðurinn á Selfossi vísað skjölunum frá þinglýsingu. Stefnandi hafi kært þá frávísun til Héraðsdóms Suðurlands, mál nr. T-1/2008. Með úrskurði þann 14. nóvember 2008 hafi héraðsdómur staðfest hina kærðu frávísun með vísan til þess að útgefendur skjalanna væru ekki tilgreindir í fasteignabók sem þinglýstir eigendur. Með ofangreindum málavöxtum telur stefnandi telur sig hafa sýnt að hann hafi unnið stöðugt og markvist að því að ná fram þeim rétti sínum að hann sem eigandi að landinu fengi jafnframt þinglýsta eignarheimild.
Að loknu ofangreindu þinglýsingarmáli hafi stefnandi íhugað málshöfðun gegn lögerfingjum Guðfinns og hafi komið boðum um það til þeirra. Hafi þess þá verið óskað að stefnandi félli frá slíkri áætlun gegn loforði um að gengið yrði frá málum á þann veg að hann taldi rétt að sætta sig við frekar en reka mál. Hafi því verið borið við að málaferli færu meðal annars illa með móður hópsins og aðra er máli tengdust og minningu Guðfinns. Þegar stefnandi hafi ítrekað að frá þessu yrði gengið hafi því meðal annars verið borið við að von væri á Gerði til landsins og að klára ætti málið samtímis að allir hittust. Er stefnandi, eftir hæfilega biðlund, hafi innt frekar eftir hafi verið sagt að koma Gerðar hefði tafist en hún þó væntanleg. Á meðan þessu fór fram hafi stefnandi ekki sérstaklega haft áhyggjur. Hann hafi treyst gefnum loforðum. Gerður sé hins vegar enn ókomin. Stefnandi hafi því ekki getað réttlætt frekari bið með málshöfðun auk þess sem hann hafi fengið þær upplýsingar að landið væri til sölu.
Við athugun stefnanda hafi komið í ljós að eftir að ofangreint loforð hafi verið gefið hafi landinu verið ráðstafað eins og áður sé frá greint og sjá megi af framlögðum skjölum. Þinglýst hafi verið á landið skiptayfirlýsingu þar sem því hafi verið skipt jafnt milli erfingja. Skjalið sé vélritað að öðru leyti en því að dagsetning þess, 29. maí 2008, sé handrituð eftir á. Það sé staðfest af sýslumanninum í Reykjavík 7. október 2008. Í svonefndu stofnskjali að nýrri 46,4 ha lóð úr landinu, dags. 15. okt. 2008 (íkrotuð dags. er gæti allt eins hafa verið 15. febrúar 2008), sé dánarbúið tilgreint landeigandi en skjalið sé undirritað af stefnda. Í fylgiskjali með áðurnefndu stofnskjali dags. 4. desember 2008 séu María og stefndi tilgreindir landeigendur. Dánarbúið sé annars vegar tilgreint sem eigandi og hins vegar stefndi og María á skjali sem sé í raun sama heimildarskjalið. Umboð frá Maríu og Gerði til stefnda, þar sem hann fái fullt umboð þeirra til að sjá um sölu á hluta heildarlandsins, sé dags. 5. des. 2008. Umboðið vísi til heildarjarðarinnar og landið hafi því á þeim tíma átt að vera í upphaflegri stærð, óskertri. Þessum þremur skjölum hafi verið þinglýst 22. desember 2008, en næsta dag hafi verið þinglýst afsali frá Maríu og Gerði til stefnda fyrir landinu, dags. 19. des. sl., og þann sama dag einnig þinglýst kaupsamningi á 46,4 ha lóðinni til Guðmundar B. Steinþórssonar, dags. 18. des. 2008. Seljendur þar séu tilgreindir stefndi, María og Gerður, en ekki dánarbúið (og undirriti stefndi þar þrefalt fyrir hönd allra þriggja) og þann 12. mars 2009 sé þinglýst afsali frá þeim systkinum (fyrir 46,4 ha lóðinni) til sama Guðmundar dags. 3. mars 2009 (með þrefaldri undirritun stefnda fyrir hönd þeirra allra) og einnig afsali frá sama Guðmundi fyrir sömu lóð til Ingunnar Gyðu Wernersdóttur útgefnu daginn eftir þ.e. 4. mars 2009.
Af skoðun þessara gagna hafi verið ljóst að landinu hefði verið ráðstafað í vanheimild, þvert á fyrri yfirlýsingar, afsal til stefnanda og gefin loforð. Stefnandi viti ekki hvað hafi gerst. Hann hafi talið að ofangreind gögn væru ólögleg og einnig vafasöm í ljósi útgáfudaga, bæði innbyrðis og miðað við búskipta- og þinglýsingarferli. Ofangreint afsal Maríu og Gerðar á landinu til stefnda og kaupsamningur þeirra þriggja um lóðina (46,4 ha) til Guðmundar, dags. 19. des. og 18. des. hafi gerst á þeim tíma sem dánarbúið sé enn þinglýstur eigandi að landinu, en það hafi einmitt verið af þeirri ástæðu að ,,Afsali og yfirlýsingu” Maríu og Gerðar til stefnanda, dags. 3. maí 2008, hafi verið vísað frá þinglýsingu.
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir á því að hann eigi umrætt land fyrir gjöf frá Guðfinni. Þetta hafi lögerfingjum Guðfinns verið fullkunnugt um og hafi þeir viðurkennt og samþykkt gjöfina eftir andlát Guðfinns. Stefnandi byggir á því að hann hafi mátt treysta því að erfingjar breyttu ekki afstöðu sinni eftir slíka viðurkenningu og samþykki. Gjöfin sé eðlileg af hálfu Guðfinns þar sem hann hafi metið stefnanda sem eigin son og að stefnandi hafi reynst honum sonur í raun. Hafið sé yfir vafa að Guðfinnur hafi viljað deila af sínu til stefnanda og meðal annars á því byggt að erfingjar hafi ekki sýnt fram á að Guðfinnur hafi ætlað stefnanda annað en landgjöfina. Hér skipti það og máli að Guðfinnur hafi í upphafi verið eignalaus og að stefnandi hafi þá strax orðið þátttakandi og hjálparhönd í athöfnum hans við að eignast og byggja upp þær veraldlegu eigur sem hann síðan hafi látið eftir sig á andlátsdegi. Þegar árin liðu hafi stefnandi auk þess passað upp á að þessar sömu eignir færu ekki forgörðum.
Stefnandi byggir á því að Guðfinnur hafi ætlað sér að skilja þannig við að stefnandi nyti sanngirni, þakklætis eða viðurkenningar fyrir greinda vegfylgd og hlutverk í vinar og sonar stað. Vinna stefnanda fyrir dánarbúið með vitund og vilja erfingja sé einnig staðfesting þess að erfingjar hafi samþykkt stefnanda í sínum hópi og aðila að hagsmunum þess. Þeir hafi ekki með úthlutun úr búinu eða annarri greiðslu til stefnanda sýnt fram á að eitthvað annað en umrædd landgjöf hafi átt að koma í hans hlut. Þetta sé stutt með réttum yfirlýsingum erfingja á framlögðum dómskjölum þess efnis að stefnandi hafi eignast landið að gjöf frá Guðfinni. Að öðrum kosti hefðu þeir átt að sýna fram á hvað Guðfinnur hafi látið falla í hlut stefnanda og er byggt á að þetta hafi með öðru verulegt vægi í málinu. Erfingjar hafi ekki heldur þrætt fyrir gjöfina og auk þess aldrei sett fram nein andmæli gegn henni.
Stefnandi byggir einnig á því að hann eigi tvo þriðju landsins fyrir afsal frá Maríu og Gerði dags. 3. maí 2008. Hann bendir á að meint afsal þeirra á sömu tveim þriðju landsins til stefnda sé hins vegar dags. 19. desember 2008. Meginreglan um vægi gerninga sem þessara sé að sá sem fyrr sé gerður sé sterkari að lögum og byggi stefnandi á þeirri reglu. Skipti landsins með erfingjum hafi verið frágengin við útgáfu afsals 3. maí 2008. Gögn er standi að baki meðferð og ráðstöfun á landinu úr dánarbúinu og eftir það, frá og milli erfingja, séu ólögleg og í ýmsum atriðum ómarktæk, auk þess sem þinglýsing þeirra standist ekki lög, þar á meðal þinglýsingarlög nr. 39/1978 og er á því byggt. Að auki byggir stefnandi á því að hann hafi jafnframt eignast skilyrtan eignarrétt með afsali dags. 3. maí.
Í framlögðum gögnum sem beri yfirskriftirnar „Umboð”, „Yfirlýsing” og „Afsal og yfirlýsing”, sé „það vottað, lýst yfir, viðurkennt og samþykkt“ af tveimur af þremur erfingjum að stefnandi hafi eignast landið. Landinu hafi því átt að þinglýsa til stefnanda við skipti á dánarbúinu. Stefnandi sé í þessum skjölum einnig, af tveimur af þremur erfingjum, lýstur eigandi landsins. Þessi eignarrétti hafi að lágmarki átt skv. sömu gögnum, við um tvo þriðju landsins, (hlutfall systranna). Jafnframt felist í sömu gögnum það loforð frá Maríu og Gerði að stefnandi fengi frá þeim til eignar þeirra meintan arfshlut í landinu ef svo færi að það skráðist ekki milliliðalaust til stefnanda samhliða skiptum á búinu. Ofangreint ,,Afsal og yfirlýsing” standi jafnframt sjálfstætt sem afsal, en þar afsali María og Gerður afdráttarlaust til stefnanda að öllu leyti þeirra mögulega tilkalli og eignarétti (nú eða síðar) til landsins og komi jafnframt fram í þessu afsali að það taki ennfremur til tilkalls og eignaréttar sem þær síðar kynnu að öðlast til landsins. Í þessu sama skjali lýsi þær stefnanda að auki eiganda landsins að þeirra hlutdeild og tilkalli og með þeim hætti að sú yfirlýsing hafi átt og eigi að standa jafnt þó skilyrði yfirfærslu yrðu eigi uppfyllt fyrr en síðar. Stefnandi byggir á að slíkar yfirlýsingar séu bindandi fyrir loforðsgjafa.
Jafnframt sé það sönnunarauki fyrir gjöfinni að stefnandi hafi í mörg ár, á meðan Guðfinnur var á lífi, verið með umráð yfir, verið í fyrirsvari fyrir og annast að öðru leyti um landið og að enginn annar en stefnandi hafi komið þar nærri eða gert athugasemd við, hvorki erfingjar né aðrir og hafi þetta haldist áfram eftir andlát Guðfinns. Stefnandi byggir á því að með þessu hafi hann einnig sannað að það hafi verið hagsmunir hans til margra ára að verðgildi landsins væri og yrði sem mest og að gæði þess rýrnuðu ekki. Jafnframt byggir stefnandi á að afskiptaleysi stefnda af öllu viðkomandi landinu sé með öðru sönnun þess að hann hafi jafnframt litið svo á að landið væri eign stefnanda.
Það að stefnandi tók þátt í því við hlið erfingja að ganga frá reitum Guðfinns, ásamt því að annast bóta- og eignarréttarmálin fyrir dánarbúið, með þeirra vitund og vilja sé jafnframt viðurkenning erfingja og sönnun þess að stefnandi hafi verið einn þeirra og hafi átt í sinn hlut gjöfina frá Guðfinni stjúpa sínum þ.e. landið sem um ræðir. Af þessu sé jafnframt ljóst að samkomulag hafi verið um þetta innan hópsins.
Byggt er á að þótt gjafabréf frá Guðfinni heitnum um landgjöfina til stefnanda finnist ekki, af einhverjum ástæðum, þá geti það alls ekki þýtt að ekki megi sýna fram á tilurð gjafar með öðrum trúverðugum hætti. Meginsjónarmiðið hljóti alltaf að vera það að vilji hins látna fái að ráða verði því mögulega við komið. Byggt er á að Guðfinnur hafi með því að skýra stefnanda frá gjöfinni jafnframt þannig gert hana bindandi.
Fallist dómurinn á það með stefnanda að hann hafi eignast landið fyrir gjöf að öllu leyti eða að tveim þriðju í ljósi þess að samþykki Maríu og Gerðar á gjöfinni sé bindandi fyrir þær þá sé það nægur grunnur til að dæma landið af stefnda eftir atvikum að fullu eða að hluta til. Erfingjar séu samkvæmt lögum nr. 20/1991 samábyrgir, in solidum, gagnvart þeim sem eigi kröfu eða rétt í dánarbúið, bæði samkvæmt 97. gr. og samkvæmt 2. mgr. 84. gr., sbr. 3. mgr. 95. gr. laga um opinber skipti og í ljósi síðasta málsliðar 2. mgr. 84. gr. séu þeir einnig með gagnályktun ábyrgir in solidum fyrir arði og vöxtum til stefnanda. Það skiptir þá ekki máli varðandi skilaskyldu á landinu, hver af erfingjum sé nú skráður í þinglýsingarbók fyrir því eða með hvaða hætti landið sé til hans komið. Til viðbótar komi svo sú staðreynd að stefndi hafi þekkt málavexti og gögn og hafi vitað að um vanheimild var að ræða, við undirritun allra erfingja á skiptayfirlýsingu dags. 29. maí 2008.
Verði aftur á móti tekin sú afstaða að stefnandi hafi eignast tvo þriðju landsins á grundvelli afsals systranna á tilkalli og eignarétti, ásamt fyrir þá sök að þær lýstu stefnanda eiganda landsins þá eða síðar, þá sé byggt á vanheimild þeirra til að afsala tveimur þriðju hlutum landsins til stefnda og jafn augljóst einnig að stefndi hafi verið meðvitaður um þá vanheimild og meðsekur.
Að auki byggir stefnandi á því að afsal Maríu og Gerðar til stefnda dags. 19. des. 2008 og þinglýsing þess afsals 23. des. 2008 sé málamyndagerningur til að koma í veg fyrir að stefnandi, sem réttur eigandi, næði að þinglýsa tveimur þriðju hlutum landsins á sitt nafn í framhaldi skipta á landinu milli erfingja. Stefndi hafi þekkt stöðu mála og hafi honum því verið óheimilt að taka við landinu til eignar og þinglýsa því á sitt nafn. Honum sé þá skylt að afhenda landið til rétts eiganda, stefnanda. Stefnandi byggir á því að hald stefnda á landinu sé ólögmæt auðgun á kostnað stefnanda.
Það að landinu hafi verið þinglýst sem eign stefnda sé ekki fyrirstaða þar sem þinglýsing sé aðeins sönnun um tilurð gerninga en ekki um réttmæti eða gildi eignaréttar sem í þeim greinir.
Stefnandi byggir jafnframt á því að María og Gerður hafi ekki getað ráðstafað landinu öðru sinni eftir að þær gáfu út skjölin 8. febrúar og 3. maí. Til þess hefðu þær þurft að höfða dómsmál til ógildingar þeirra skjala. Það hafi þær ekki gert og með því hafi þær einnig staðfest gildi þeirra, sérstaklega einnig í ljósi þess að stefnandi hafi strax byggt rétt á þeim bæði fyrir sýslumanni í Reykjavík og á Selfossi svo og fyrir héraðsdómi bæði í Reykjavík og á Selfossi, ásamt í bréfi til stefnda fyrir hönd erfingja, dags. 21. maí. Þessi skjöl séu því enn í fullu gildi og séu eldri en afsal til stefnda og því sterkari að lögum samkvæmt meginreglu.
Byggt er á því að andmæli erfingja gegn gjafagerningi látins manns, sem ekki komi fram án ástæðulaus dráttar, hafi ekkert gildi, sbr. einnig 47. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Byggt er á að þriðjungsreglu 35. gr. erfðalaga verði ekki beitt varðandi þá erfingja sem viðurkennt eða samþykkt hafi gjafagerning látins manns þannig að slík yfirlýsing bindi þá umfram þriðjungsreglu laganna. Stefnandi heldur fram að viðsnúningur Maríu og Gerðar sé af völdum stefnda, sem hafi alls ekki viljað eiga á móti stefnanda það sem hann taldi sig geta náð af landinu. Hvort stefndi hafi verið ósáttur við að stefnandi hafi fengið landið að gjöf hafi ekki ígildi andmæla, ekki heldur í ljósi 47. gr. erfðalaga.
Í greinargerð erfingja, dags. 5. nóvember 2008 í máli T-1/2008, sé svo skýrlega vikið að og lýst yfir hvaða gildi hafi afsal dags. 3. maí 2008 og að það mæli fyrir um afsal systranna á landinu til stefnanda. Í greinargerðinni sé því einnig lýst yfir að umboð dags. 7. febrúar geymi umboð Gerðar til Maríu til ráðstöfunar á landinu. Stefnandi byggir á því að það sem fram komi í þessari greinargerð jafngildi málflutningsyfirlýsingu.
Eins og málið standi nú hafi stefnandi orðið af gjöf, sem Guðfinnur ætlaði honum að njóta. Einnig hafi svo stefnandi orðið af sama landi sem María og Gerður lofuðu að hann myndi fá til eignar, auk þess sem þær hafi með undirskrift sinni afsalað til stefnanda sínum eignarétti og tilkalli til landsins bæði þá og síðar eins og áður greini.
Verði ekki á það fallist að stefnandi hafi eignast landið frá Guðfinni fyrir gjöf þá byggir stefnandi á því að hann hafi ekki á neinn hátt verið sonur Guðfinns og að full greiðsla hafi átt að koma fyrir allt það sem hann vann, gerði og lagði til fyrir Guðfinn, auk launa fyrir björgun verðmæta og að Guðfinnur hafi greitt honum fyrir með heildarlandinu sem um ræðir.
Verði hins vegar ekki heldur á þetta fallist þá byggir stefnandi á því að hann hafi verið svikinn í skiptum við Guðfinn bæði hvað varðar sonarstað og greiðslu fyrir það sem hann lagði honum til og að samhliða vakni upp réttur stefnanda til greiðslu fyrir allt það sem hann hafi látið í té og hafi gert fyrir Guðfinn og að sú skuld hafi náð því að verða hærri en verðmæti þess lands sem dómkrafa málsins taki til. Byggt er á að hvoru tveggja hér ofangreint eigi jafnframt að leiða til þess að taka beri dómkröfur stefnanda til greina. Erfingjar séu in solidum (einn fyrir alla og allir fyrir einn) ábyrgir fyrir skuldum þess látna eftir að einkaskiptum sé lokið, samkvæmt skiptalögum. Hér nægi því einnig að stefna einum þeirra. Áskilinn er réttur til að sækja síðar það sem upp á vanti eða alla skuldina fái stefnandi ekki landið. Vinna og annað framlag hafi staðið yfir frá árinu 1954 og til október árið 2007 og eftir það hafi stefnandi unnið fyrir dánarbúið og að auki í þágu Guðfinns sjálfs eftir andlát hans, í því skyni að hann megi hvíla án vanskila við stefnanda.
Byggt er á að allt framlag stefnanda í þágu Guðfinns og dánarbús sé ófyrnt, sbr. 1. tl. 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905, þar sem segir m.a. að samfelld viðskipti s.s. smíða-verk o.fl., fyrnist ekki ef viðskiptum sem haldi áfram óslitið og einnig síðasta málslið sömu greinar, að krafa hjús um kaupgjald fyrnist ekki meðan vist sé samfelld og er hér til stuðnings m.a. vísað til þessara lagaákvæða með eða án lögjöfnunar og dómshefða.
Fái stefnandi ekki eignarétt til landsins í ljósi framagreindra málsástæðna, byggir hann á því að hann eigi rétt til landsins sem skaðabóta sökum þess að Guðfinnur hafi ekki staðið við sinn hlut að tryggja að stefnandi fengi landið til eignar og þinglýst á sitt nafn. Jafnframt hafi stefndi valdið stefnanda sakartjóni með því hvernig hann, eftir atvikum samhliða Maríu og Gerði, hafi haft landið af stefnanda, einnig þá tvo þriðju landsins sem hafi farið úr búinu til systranna. Eigi María og Gerður hér sökina þá sé jafn ljóst að stefndi sé meðsekur og þá einnig skilaskyldur in solidum. Landið sem tilgreint sé í dómkröfu nægi ekki fyrir tjóni stefnanda af þessum sökum og þurfi því meira að koma til svo fullbætt sé. Því sé óþarft að verðmeta landið og tjónsfjárhæð. Vísað sé m.a. til reglna um óskipta bótaábyrgð og jafnframt til samábyrgðar erfingja m.a. skv. 97. gr. laga nr. 20/1991.
Í stefnu áskilur stefnandi sér mjög víðtækan rétt til frekari kröfugerðar, á hendur stefnda, á hendur öllum lögerfingjum eftir Guðfinn, svo og þeim sem keypti þá 46,4 ha landspildu sem skipt hafði verið úr landi dánarbúsins og seld þriðja aðila. Ekki er ástæða til að rekja þann áskilnað frekar.
Stefnandi vísar til þess að í ljós hafi komið að landið sem selt hafi verið að hluta ásamt því sem eftir standi af landinu sé nú auglýst til sölu. Þetta gerist þrátt fyrir loforð erfingja að ljúka málum í samlyndi. Stefna þessi sé því gerð í flýti til að forða frekari réttarspjöllum. Því hafi ekki heldur unnist tími til að kanna allt það sem geti fallið til og stutt málstað stefnanda.
Stefnandi byggir þessa málshöfðun á lögum nr. 91/1991. Hann vísar einnig til laga 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., samningalaga nr. 7/1936, erfðalaga nr. 8/1962, þinglýsingarlaga nr. 39/1978, til meginreglna samninga- og kröfuréttar, til almennra reglna um eignarétt og rétt eiganda til vörslu, til reglna um yfirfærslu eignarréttar, til reglna og sjónarmiða varðandi brigðarétt, traustfang og óeðlilega auðgun. Að auki vísar hann til meginreglna almenns skaðabótaréttar og sakar- og skaðabótareglna, innan og utan samninga, ásamt til skilyrða og/eða reglna um hlutlæga ábyrgð og sakarlíkindareglu. Jafnframt vísar hann til reglna um óskipta bótaábyrgð (ábyrgð in solidum). Þá vísar hann til skaðabótalaga nr. 50/1993 m.a. til 26. gr. þeirra laga. Dagsektarkröfuna styður stefnandi við 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Réttur til viðurkenningardóms um kröfu styðst við 2. mgr. 25. gr. sömu laga. Dráttarvaxtakröfur styðjast við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Skaðabótavextir við 8. gr. og. 9. gr. sömu laga. Krafa um málskostnað byggi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. laganna. Krafa um virðisaukaskatt styðst við lög nr. 50/1988.
Niðurstaða
Af hálfu stefnda var þing sótt í upphafi en síðan féll þingsókn af hans hálfu niður. Verður þá eftir 96. gr. laga nr. 91/1991 að dæma málið eftir framlögðum skjölum og skilríkjum. Af stefnu og framlögðum gögnum verður ráðið að Guðfinnur Gíslason heitinn hafi ekki látið eftir sig erfðaskrá. Fer þá um arf eftir hann samkvæmt lögerfðareglum. Ennfremur verður ekki annað ráðið af frásögn stefnanda en að móðir hans og Guðfinnur hafi verið lögskilin þegar hann féll frá. Stefnandi tekur ennfremur fram að aldrei hafi verið gerð gangskör að því að Guðfinnur ættleiddi stefnanda og honum þannig tryggður erfðaréttur eftir Guðfinn. Erfingjar eftir Guðfinn voru því börn hans María, Gerður og Gísli. Stefnandi virðist ekki heldur byggja á því að hann hafi fengið umrætt land að lífsgjöf frá Guðfinni, þ.e. að gjafagerningurinn hafi verið að fullu efndur í lifanda lífi Guðfinns eða að Guðfinnur hafi ætlast til þess að hann yrði að fullu efndur á meðan hann lifði.
Þegar maður er látinn tekur dánarbú hans við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti þá eða naut, nema annað leiði af réttarreglum, löggerningi eða eðli réttindanna, samkvæmt 2. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Dánarbú er sjálfstæður lögaðili sem verður til við andlát manns en líður undir lok með skiptum þegar skyldur búsins hafa verið efndar eftir föngum. Á því tímamarki færast réttindi sem eftir kunna að standa til erfingja hins látna.
Guðfinnur heitinn lést 11. október 2007. Að sögn stefnanda óskaði hann þann 26. maí 2008 eftir því að bú Guðfinns heitins yrði tekið til opinberra skipta. Af framlögðum gögnum má ráða að leyfi til einkaskipta hafi verið veitt 30. maí 2008. Skiptagerð dánarbúsins, hafi hún verið gerð, hefur ekki verið lögð fram og því liggur ekki fyrir hverjar heildareignir búsins voru. Hins vegar hefur verið lögð fram skiptayfirlýsing um það hvernig hin umdeilda jörð skiptist milli erfingja Guðfinns við skipti á dánarbúi hans. Yfirlýsingin er dagsett 29. maí 2008 en þó ekki móttekin til þinglýsingar fyrr en 19. desember sama ár.
Meðal fram lagðra skjala er yfirlýsing dags. 8. febrúar 2008 undirrituð af Maríu og Gerði, hálfsystrum stefnanda, þar sem þær votta, lýsa yfir, viðurkenna og samþykkja að Guðfinnur, faðir þeirra, hafi í dánargjöf gefið stefnanda alla landareignina að Hróarsholtstorfu, Flóahreppi, Árnessýslu og samþykkja jafnframt að svo skuli vera og að stefnandi skuli vera eigandi að landinu. Á þessu skjali meðal annars byggir stefnandi þá málsástæðu að hann eigi hina umdeildu jörð að öllu leyti.
Samkvæmt 54. gr. erfðalaga nr. 8/1962 gilda ákvæði laganna um erfðaskrár einnig um dánargjafir, það er þau gjafaloforð, sem ekki er ætlast til, að komi til framkvæmdar, fyrr en að gefandanum látnum, og gjafir, sem gefnar eru á dánarbeði. Erfðaskrá þarf að uppfylla ýmis formskilyrði, svo sem að vera skrifleg, undirrituð og vottuð sbr. 40. gr. erfðalaga. Jafnframt mega niðjar arfleifanda ekki votta arfleiðsluna samkvæmt 1. mgr. 41. gr. laganna. Ógildingarreglur 2. mgr. 45. gr. laganna eiga við þegar erfðaskrá, sem er undirrituð af arfleifanda og ber áritun votta, fullnægir ekki ákvæðum 40. - 43. gr. að öðru leyti.
Sérstök undanþága frá formskilyrðum erfðaskráa er veitt í 44. gr. erfðalaga fyrir þau tilvik þegar maður verður skyndilega og hættulega sjúkur eða lendir í bráðri hættu, og má arfleiðsla þá fara fram af hans hendi munnlega fyrir tveimur tilkvöddum vottum eða fyrir notario publico. Af framlögðum gögnum og öðrum málatilbúnaði stefnanda verður ekki ráðið að andlát Guðfinns heitins hafi borið þannig að enda hefði vottunum þá borið að skrásetja efni dánargjafarinnar, svo fljótt sem kostur var, og staðfesta það með undirritun sinni.
Þrátt fyrir útivist stefnda á síðari stigum þessa máls, þannig að ekki hafi komið fram nein mótmæli af hans hálfu við málsástæðum stefnanda, þykir ekki verða horft framhjá lögboðnum formskilyrðum dánargjafa. Þar sem ekkert þeirra er uppfyllt þykir stefnandi ekki hafa sannað að hann hafi fengið þá jörð, sem hann krefst viðurkenningar á eignarrétti yfir, að dánargjöf frá Guðfinni heitnum. Samkvæmt þessu verður fyrsta aðalkrafa stefnanda ekki tekin til greina á þeim grundvelli að hann hafi fengið landspilduna í dánargjöf.
Þann 3. maí 2008 undirrituðu þær María og Gerður skjal með yfirskriftinni afsal og yfirlýsing. Þar lýsa þær því yfir, halda fram og eru sáttar við að stefnandi hafi fengið landið að gjöf frá föður þeirra. Í skjalinu er einnig tekið fram að teljist þessi yfirlýsing ekki fullgild eignarheimild fyrir stefnanda þá afsala þær frá þeim tíma öllu tilkalli og eignarrétti sínum þá eða síðar, varðandi landið, til stefnanda og lýsa hann þar með og síðar réttan og löglegan eiganda landsins með afsali og yfirlýsingu þessari hvað varði þeirra mögulegu hlutdeild eða tilkall til landsins þá eða síðar. Þessa yfirlýsingu undirritar María fyrir hönd Gerðar samkvæmt umboði. Stefnandi byggir kröfu sína um viðurkenningu á eignarrétti að tveimur þriðju hlutum hins umdeilda lands á ofangreindri yfirlýsingu.
Samkvæmt 27. gr. erfðalaga er erfingja óheimilt að ráðstafa arfi sem hann á í vændum. Eftir að arfur hefur tæmst, við andlát arfleifanda, verður ekki séð að erfingja sé óheimilt að ráðstafa arfi eða arfshlutdeild sem kann að falla honum í skaut við skiptin burtséð frá því hvort skiptum er lokið eða ekki, þegar arfshlutdeildinni er ráðstafað.
Meðal framlagðra skjala er skjal dags. 19. desember 2008 þar sem María og Gerður afsala til stefnda eignarhlut sínum í hinni umdeildu jörð. Þetta afsal var móttekið til þinglýsingar 22. desember 2008 en innfært næsta dag. Jafnframt hefur verið lagt fram þinglýsingarvottorð þar sem fram kemur að stefndi er einn afsalshafi að jörðinni. Eins og áður er fram komið reyndi stefnandi þann 15. júlí 2008 að fá þinglýst á landið ofangreindu afsali systranna til hans ásamt öðrum skjölum. Á þeim tíma var dánarbúið enn þinglýstur eigandi landsins og var skjalinu því vísað frá þinglýsingu. Þessu reyndi stefnandi að fá hnekkt fyrir dómi en með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 14. nóvember 2008 var staðfest frávísun skjalanna frá þinglýsingu með þeim rökum að Maríu og Gerði hafi skort þinglýsta eignarheimild til að ráðstafa jörðinni. Skiptayfirlýsing þar sem alsystkinin þrjú skipta jörðinni með sér í jöfnum hlutföllum er dagsett 29. maí 2008 en ekki móttekin til þinglýsingar fyrr en 19. desember. Með þinglýsingu hennar, þann dag, urðu systurnar handhafar þinglýstra eignarréttinda að jörðinni, hvor að sínum þriðjungshlut. Þar með urðu virk réttindi stefnanda yfir tveimur þriðju hlutum landsins samkvæmt afsali systranna til hans dags. 3. maí 2008.
Eins og áður greinir var afsal systranna til stefnda móttekið til þinglýsingar 22. desember 2008 og innfært næsta dag. Í þinglýsingabókum voru þá ekki upplýsingar um réttindi stefnanda þar sem afsalinu til hans hafði verið vísað frá þinglýsingu. Ræðst þá af 29. gr. laga nr. 39/1978 um þinglýsingu hvort stefnandi hafi glatað rétti sínum vegna þinglýsingar stefnda á afsalinu til hans. Í ákvæðinu er það skilyrði fyrir því að yngri réttindi útrými eldri rétti fyrir þinglýsingu að rétthafi samkvæmt yngra skjali hafi verið grandlaus um þann rétt sem hrinda á. Stefnandi heldur fram grandvísi stefnda um rétt stefnanda og hefur því til stuðnings lagt fram greinargerð stefnda og systranna í dómsmálinu um þinglýsingu þeirra skjala sem stefnandi byggir rétt sinn á. Af framlagðri greinargerð er ljóst að stefnda var fullkunnugt um efni afsals systranna til stefnanda dags. 3. maí 2008. Með þinglýsingu á afsali systranna til sín þykir hann því ekki hafa rýmt rétti stefnanda. Því verður fallist á varakröfu stefnanda innan aðalkröfunnar og viðurkenndur eignarréttur hans að tveimur þriðju hlutum landspildu með fastanúmer 186037, Hróarsholti 2, Flóahreppi.
Stefnandi byggir viðurkenningarkröfu sína einnig á því að hann eigi endurgjaldskröfu í dánarbúið fyrir alla þá vinnu sem hann hafi innt af hendi í þágu Guðfinns heitins. Sú krafa nemi mun hærri fjárhæð en verðmæti landsins og því beri að taka viðurkenningarkröfu hans til greina. Ekki verður fjallað hér um það hvort stefnandi hafi átt fjárkröfu á hendur Guðfinni, en ekki kemur til álita að dæma honum eignarrétt að landi til lúkningar slíkri kröfu. Sömu rök eiga við um viðurkenningarkröfu stefnanda að því leyti sem hún er byggð á skaðabótaskyldu stefnda.
Eins og málið hefur verið lagt fyrir dóminn verður samkvæmt þessu ekki fallist á að stefnandi eigi rétt til landsins í heild. Ekki eru heldur efni til að ógilda réttindi stefnda til þess þriðjungshluta landsins sem kom í hans hlut við skiptin. Verður stefndi því sýknaður af aðalkröfu stefnanda, að því marki sem hún hefur ekki verið tekin til greina á grundvelli framangreindrar ráðstöfunar hálfsystra stefnanda. Sama á við um varakröfu stefnanda.
Dómsorð þar sem eignarréttur er viðurkenndur hefur sama gildi og afsal. Því verður vísað frá dómi þeirri kröfu stefnanda að stefndi verði dæmdur til að gefa út afsal. Með sömu rökum er einnig vísað frá dómi kröfu stefnanda um heimild til að þinglýsa á landið afsali systranna dags. 3. maí 2008.
Kröfu sína um vexti af fjárhæð sem nemur verðmati þess lands sem stefnandi fær sér dæmt, byggir hann á 2. mgr. 84. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991. Það ákvæði á einvörðungu við um arf eða gjöf úr búinu. Þar sem eignarréttur stefnanda grundvallast hvorki á arfi eða gjöf úr búinu þykir ákvæðið ekki eiga við í þessu máli. Því verður þessari kröfu einnig vísað frá dómi.
Þegar litið er til þess hversu mikið stefndi hefur þurft að hafa fyrir því að halda rétti sínum til haga og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir málskostnaður hans úr hendi stefnda hæfilega ákveðinn 200.000 kr.
Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Viðurkenndur er eignarréttur stefnanda, Jakobs Adolfs Traustasonar, að tveimur þriðju hlutum landspildu með fastanúmer 186037, Hróarsholti 2, Flóahreppi.
Stefndi, Gísli Guðfinnsson, er sýkn af kröfum stefnanda um ógildingu á eignarrétti stefnda og viðurkenningu á eignarrétti stefnanda að einum þriðja hluta í ofangreindri landspildu.
Öðrum kröfum stefnanda er vísað frá dómi.
Stefndi greiði stefnanda 200.000 kr. í málskostnað.