Hæstiréttur íslands
Mál nr. 229/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Mánudaginn 7. apríl 2014. |
|
Nr. 229/2014.
|
Ákæruvaldið (Stefán Eiríksson lögreglustjóri) gegn X (Snorri Sturluson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt c. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. apríl 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 29. apríl 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2014.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 29. apríl 2014 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-58/2014 frá 4. mars sl. hafi kærða X verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála til dagsins í dag 1. apríl kl. 16:00.
Ríkissaksóknari hafi gefið út ákæru dagsetta 31. mars 2014 vegna neðangreindra innbrota og vopnað ráns til sameiningar máli nr. S-294/2014 á hendur kærða í Héraðsdómi Reykjavíkur. Eldri mál kærða sæti þegar ákærumeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli S-294/2014 og hafi ríkissaksóknari gefið út ákæru á hendur kærða fyrir valdstjórnarbrot þar sem hann sé sakaður um að hafa sparkað í lögreglumann í nóvember 2013, og ákæra frá LRH fyrir tvo þjófnaði, nokkur umferðarlagabrot og vörslur fíkniefna. Þingfesting málsins sé á dagskrá 11. apríl nk.
Kærði hafi einnig hinn 18. mars sl. samþykkt sektargerð lögreglustjóra vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna hinn 25. janúar sl.
Aðfaranótt 4. mars sl. hafi kærði verið handtekinn sterklega grunaður um að hafa framið eftirfarandi þrjú innbrot þá nótt, þar af eitt í íbúðarhúsnæði í eigu [...].
Tilkynnt hafi verið um innbrot í félagsmiðstöðina [...]í Reykjavík kl. 1:07, brotist hafði verið þar inn með því að brjóta rúðu í útidyrahurð húsnæðisins. Stolið hafi verið tveimur merktum hettupeysum, tveimur sjúkrakössum og þremur fjarstýringum. Kærði hafi játað sök og hafi þýfið fundist í bifreið sem hann hafi haft umráð yfir.
Tilkynnt hafi verið um innbrot í [...] við [...] í Reykjavík um kl. 01:16, brotist hafði verið inn með því að brjóta rúðu í útidyrahurð verslunarinnar. Stolið hafi verið 17.350 krónum úr sjóðsvél og skúffa sjóðsvélarinnar tekin. Kærði hafi játað sök, fótspor í bakaríinu hafa verið samkennd skóm kærða og hann verið með reiðufé á sér.
Meðan svipast hafi verið um eftir þeim er brotist hafi inn í [...] hafi lögregla komið auga á kærða um kl. 02:20 þar sem hann gekk út um afturdyr á húsi að [...]. Lögreglan hafi séð að búið væri að brjóta upp afturhurðina að húsnæðinu og hafi kærði verið handtekinn með klaufhamar og hníf innanklæða. Kærði hafi játað sök og kvaðst hafa fært til sjónvarp í húsinu en hætt við að stela því en tekið með sér matvöru og fjarstýringu. Fótspor á staðnum hafa einnig verið samkennd kærða.
Tilkynnt hafi verið um rán í [...] við [...], Reykjavík, um kl. 22:27 hinn 2. mars sl. Afgreiðslustúlka staðarins kvað mann hafa komið að bakhurð vagnsins og bankað, hún hafi opnað og þá hafi hann ruðst inn vopnaður hnífi. Maðurinn hafi verið ógnandi með hnífinn og borið hann að maga hennar. Hann hafi skipað henni að afhenda alla peninga úr sjóðsvél og hafi hún orðið við því að opna sjóðsvélina. Maðurinn hafi tekið alla peningana og farsíma hennar og farið út sömu leið. Lögreglumenn hafi skoðað myndband af ráninu úr öryggismyndavélum og hafi þar mátt sjá að maðurinn sem um ræði hafi verið klæddur í svartan stakk, ljósgráum íþróttabuxum, með svarta hettu á höfði og svartan klút fyrir andlitinu og með sólgeraugu. Þá hafi einnig sést að hann hafi verið í bláum nærbuxum, með gyllt armband á vinstri hönd og í sandölum. Þá hafi hann virst vera um 180 cm á hæð og meðalmaður að líkamsvexti sem passi við kærða.
Lögreglumenn hafi í kjölfarið ákveðið að fara að dvalarstað kærða að [...] þar sem grunur hafi fallið á kærða. Er hann hafi opnað fyrir lögreglu hafi hann verið íklæddur samskonar gráum buxum og gerandinn, bláum nærbuxum, svörtum sokkum og með sams konar gyllt armband á vinstri hendi. Kærði hafi í kjölfarið verið handtekinn klukkan 23:18. Við leit í íbúð kærða hafi einnig fundist 87.500 kr. í peningum sem sé á því bili sem stolið hafi verið úr [...]. Við handtöku kærða hinn 4. mars sl. vegna ofangreindra mála hafi hann verið klæddur í brúna Ecco sandala og með hníf á sér. Að mati lögreglu eftir yfirferð á myndupptökum frá vagninum sé um að ræða sama skófatnað og ránsaðilinn hafi verið í og hnífurinn líklega sá sami og notaður hafi verið í ráninu. Kærði neiti sök.
Auk framangreinds hafi kærði það sem af er árinu nokkrum sinnum komið við sögu lögreglu. Eftirfarandi mál séu til rannsóknar hjá embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og muni líklega öll sæta ákærumeðferð á næstunni:
Mál nr. 007-2014-10395
Föstudaginn 28. febrúar sl. hafi kærði verið handtekinn í kjölfar þess að hafa verið stöðvaður við að aka stolinni bifreið. Jafnframt sé kærði grunaður um að hafa verið undir áhrifum ávana og fíkniefna við aksturinn og einnig hafi hann verið sviptur ökurétti. Kærði neiti sök en gefi að mati sækjanda ótrúverðugar skýringar á hvernig hann hafi komist yfir bifreiðina.
Mál nr. 007-2014-9965
Þriðjudaginn 25.febrúar sl. hafi kærði verið handtekinn í kjölfar þjófnaðar og líkamsárásar í versluninni [...] við [...] í Kópavogi. Aðdragandi málsins hafi verið sá að kærði hafði verið staðinn að því að stela úr versluninni og er öryggisvörður hafi haft uppi á kærða, sem hafi reynt að flýja, hafi kærði ráðist á hann og veitt honum áverka. Vitni beri að kærði hafi slegið starfsmanninn og að hann hafi slegið til baka. Kærði játi þjófnaðinn en neiti líkamsárásinni.
Kærði sé að auki undir sterkum grun um nýleg umferðar- og fíkniefnalagabrot, en þegar lögregla hafi haft afskipti af kærða hinn 1. mars sl. hafi hann verið með 1,30 g af Ecstasy (MDMA) á sér. Kærði hafi einnig játað akstur sviptur ökurétti og undir áhrifum fíkniefna hinn 23. febrúar sl. og hafi hann verið tekinn í akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna hinn 15. janúar sl.
Í ljósi ofangreindra mála og gagna þeirra sé það mat lögreglu að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið þrjú innbrot, þjófnaði, vopnað rán, líkamsárás, valdstjórnarbrot og nytjastuld sem sýnt þyki að muni leiða til þess að kærði verði dæmdur í óskilorðsbundið fangelsi. Með hliðsjón af hegðun hans að undanförnu telji lögregla sýnt fram á að hann hafi einbeittan brotavilja og að ekkert lát virðist ætla að vera á brotastarfsemi hans. Með vísan til framangreinds, gagna málanna, fjölda tilfella á stuttum tíma og alvarleika brotanna telji lögregla yfirgnæfandi líkur á því að kærði muni halda brotastarfsemi áfram fari hann frjáls ferða sinna og því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sæti dómsmeðferð.
Sakarefni málanna séu talin varða við 106. gr, 217. gr., 244. gr., 252. gr. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og umferðarlög nr. 50/1987, en brot gegn ákvæðunum geti varðað fangelsi allt að 10 árum ef sök sannist. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Með vísan til alls ofangreinds, gagna málanna og c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Samkvæmt gögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um fjölmörg hegningarlagabrot, umferðarlagabrot og brot á ávana- og fíkniefnum. Þá liggur og fyrir samkvæmt gögnum málsins að lögregla hefur til rannsóknar önnur brot sem kærði er undir rökstuddum grun um að hafa framið í febrúar sl. Kærði hefur játað að hafa verið í neyslu fíkniefna svo líklegt er að hann hafi að einhverju leyti fjármagnað þá neyslu sína með auðgunarbrotum. Brot þessi sem kærði er grunaður um eru framin á þessu ári og því síðasta. Fyrir liggur að hann hefur verið ákærður 31. mars sl. fyrir umferðarlagabrot, ránsbrot og nokkur þjófnaðarbrot. Einnig var gefin út ákæra á hendur honum 13. mars sl. fyrir brot gegn valdstjórninni. Við brotunum liggur fangelsisrefsing sannist sök og eru brotin þess eðlis að ekki þykir sýnt að kærði hljóti einungis skilorðsbundna fangelsisrefsingu þrátt fyrir skamman afbrotaferil. Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli c liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 frá 4. mars sl. Með vísan til greinargerðar lögreglu og rannsóknarganga málsins þykir kominn fram rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing liggur við og að ætla megi að kærði muni halda áfram brotastarfsemi, fari hann frjáls ferða sinna. Skilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er því fullnægt og verður því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og í úrskurðarorði greinir.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 29. apríl 2014 kl. 16:00.