Hæstiréttur íslands

Mál nr. 600/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Varnarþing
  • Lúganósamningurinn
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                     

Mánudaginn 17. nóvember 2008.

Nr. 600/2008.

Jónas Frímannsson

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

E. Pihl & Søn A.S.

(Ólafur Eiríksson hrl.)

 

Kærumál. Varnarþing. Lúganósamningur. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness var máli J gegn danska hlutafélaginu E vísað frá dómi á þeirri forsendu að ekki væri heimilt að reka mál á hendur E þar fyrir dómi. J kærði úrskurðinn og byggði á því að heimilt væri að reka mál þetta, sem snérist um innlausn hlutabréfa samkvæmt 26. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, fyrir dóminum á grundvelli 1. mgr. 35. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt fyrrnefnda lagaákvæðinu má sækja mál til efnda á eða lausnar undan löggerningi eða vegna vanefnda eða rofa á honum í þeirri þinghá, þar sem átti að efna hann samkvæmt hljóðan hans, tilætlun aðila eða réttarreglum. Í ljósi atvika málsins taldi Hæstiréttur ekki unnt að fallast á með J að mál þetta væri sótt til efnda á löggerningi í skilningi 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991 og 1. töluliðar 5. gr. samnings um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum, sbr. lög nr. 68/1995. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. október 2008, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi og lagt fyrir hann að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum málsins var sóknaraðili um árabil starfsmaður hjá Ístaki hf. og átti 2% hlut í félaginu þegar hann lét þar af störfum í árslok 2004. Varnaraðili mun þá hafa átt 96% hlut í félaginu. Í framhaldi af starfslokum sóknaraðila leituðu aðilarnir samninga um innlausn varnaraðila á hlut hans í félaginu. Varnaraðili gerði sóknaraðila í þessu skyni tilboð í hlutinn 17. ágúst 2005, sem hann hafnaði 12. september sama ár. Í framhaldi af því fékk sóknaraðili dómkvadda matsmenn 25. nóvember 2005 til að ákveða innlausnarverð samkvæmt 26. gr., sbr. 4. mgr. 22. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Matsgerð var lokið í ágúst 2006 og undu báðir aðilarnir við niðurstöðu hennar. Varnaraðili greiddi sóknaraðila 27. október 2006 innlausnarverðið samkvæmt matsgerðinni, en sá síðarnefndi tók við greiðslunni með fyrirvara um rétt sinn til vaxta af fjárhæðinni frá þeim degi, sem hann leitaði innlausnar, svo og til endurgreiðslu útlagðs kostnaðar í tengslum við hana. Sóknaraðili krafði síðan varnaraðila 2. apríl 2007 um greiðslu nánar tiltekinnar fjárhæðar af þessum sökum, sem varnaraðili hafnaði 23. maí sama ár. Sóknaraðili höfðaði mál þetta 26. febrúar 2008 til greiðslu þeirrar kröfu. Samkvæmt kröfu varnaraðila, sem hefur stjórnarstöð á nánar tilteknum stað í Lyngby í Danmörku, var málinu vísað frá héraðsdómi með hinum kærða úrskurði, þar sem heimild þótti bresta til að reka það fyrir dómi hér á landi.

Í héraðsdómsstefnu vísaði sóknaraðili til 1. mgr. 35. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr. laga nr. 91/1991 um heimild til að reka mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Samkvæmt fyrrnefnda lagaákvæðinu má sækja mál til efnda á eða lausnar undan löggerningi eða vegna vanefnda eða rofa á honum í þeirri þinghá, þar sem átti að efna hann samkvæmt hljóðan hans, tilætlun aðila eða réttarreglum. Með 26. gr. laga nr. 2/1995 er hluthafa, sem á meira en 9/10 hlutafjár í hlutafélagi, gert að verða við kröfu þess, sem á minni hluta í því, um innlausn á hans hlut. Svo sem áður kom fram réðust lögskipti aðilanna af þessu ákvæði, sem skyldar ekki hluthafa í meiri hluta til að gera samning um kaup á eignarhlut þess, sem er í minni hluta, heldur veitir þeim síðarnefnda einhliða kröfu til greiðslu andvirðis hlutarins gegn framsali hans til þess fyrrnefnda. Að þessu virtu er ekki unnt að fallast á með sóknaraðila að mál þetta sé sótt til efnda á löggerningi í skilningi 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991 og 1. töluliðar 5. gr. samnings um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum frá 16. september 1988, sbr. lög nr. 68/1995 um Lúganósamninginn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Jónas Frímannsson, greiði varnaraðila, E. Pihl & Søn A.S., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. október 2008.

Mál þetta var höfðað 26. febrúar 2008 og tekið til úrskurðar 11. september sl.

Stefnandi er Jónas Frímannsson, Sunnubraut 50, Kópavogi, en stefndi er E Phil & Sön A/S, Nybrovej 116, 2800 Kgs. Lyngby, Danmörku.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 20.013.116 krónur, með dráttarvöxtum frá 27. október 2006 til greiðsludags, en til vara 5.987.229 krónur, með dráttarvöxtum frá  27. október 2006 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Við þingfestingu málsins 2. apríl sl., var sótt þing af hálfu stefnda og lögð fram bókun þar sem gerð er sú krafa að öllum kröfum stefnanda verði vísað frá dómi, auk þess sem stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

Í þessum þætti málsins er tekin til úrlausnar frávísunarkrafa stefnda. 

 Af hálfu stefnanda er þess krafist að frávísunarkröfunni verði hrundið en ákvörðun málskostnaðar bíði efnisdóms í málinu.

I.

Stefnandi var eigandi 2,0% hlutfjár í Ístaki hf., en hann var stærstan hluta starfsferils síns starfsmaður félagsins. Í árslok 2004 lét stefnandi af  störfum hjá félaginu fyrir aldurs sakir og hófust þá umræður milli málsaðila um kaup eða innlausn á hlutafé stefnanda, en stefndi var eigandi 96,0% hlutafjár í Ístaki hf. Stefndi var því innlausnarskyldur og átti innlausnarrétt. Eftir bréfaskipti aðila krafðist stefnandi þess með bréfi dagsettu 12. júlí 2005 og með vísan til 26. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög að stefndi innleysti 2,0% hlut hans í Ístaki hf. Tók stefnandi jafnframt fram að næðist ekki samkomulag um verð krefðist hann mats á innlausnarverði í samræmi við lög.

Með bréfi dagsettu 17. ágúst 2005 lýsti stefndi því yfir að félagið væri reiðubúið að greiða 28.760.000 krónur fyrir hlutina í reiðufé gegn afsali hlutanna. Miðaðist tilboðið við eigið fé Ístaks hf. í árslok 2004. Stefnandi hafnaði boði stefnda með bréfi dagsettu 12. september 2005. Með matsbeiðni dagsettri 6. október 2005 og með vísan til  4. mgr. 22. gr., sbr. 26. gr. laga um hlutafélög krafðist stefnandi mats á innlausnarvirði hlutafjár síns. Þann 25. nóvember voru endurskoðendurnir Einar Hálfdánarson hrl. og Birkir Leósson dómkvaddir til að framkvæma matið.

Undir rekstri matsmálsins reis ágreiningur með aðilum um við hvaða tímamark skyldi miða mat. Varð þó að samkomulagi milli aðila að miða mat við 30. júní 2005 af hagkvæmisástæðum, þar sem fyrir lá milliuppgjör Ístaks hf. miðað við 30. júní sem matsmenn gátu stuðst við í mati sínu.

Á matsfundi 24. júlí 2006 voru m.a eftirfarandi athugasemdir lagðar fram af lögmanni stefnanda: ,,Nauðsynlegt er að fram komi í mati við hvaða verðlag matsniðurstaða miðast, þ.e. hvort hún miðast við verðlag 30. júní 2005 eða matsdag. Rétt er að fram komi að matsbeiðandi telur sig eiga rétt á vöxtum á matsfjárhæð frá 12. júlí 2005 til greiðsludags, sbr. 3. og 4. gr. laga nr. 38/2001. Matsbeiðandi leggur það í hendur matsmanna að taka afstöðu til þess hvort þeir telji það hlutverk sitt að kveða í matinu um vaxtagreiðslur og/eða reikna vexti inn í matsfjárhæð.”  Í athugasemdum lögmanns matsþola dagsettum 2. ágúst 2006 kom fram það sjónarmið að ekki ætti að reikna vexti inn í matsfjárhæð og/eða að tiltaka vexti til greiðslu.

Matsgerð dómkvaddra matsmanna lá fyrir 9. ágúst 2006. Mátu þeir innlausnarverð 2% hlutar stefnanda á 100.000.000 krónur og kom fram að metið verðmæti miðaðist við 30. júní 2005 á föstu verðlagi og engir vextir væru reiknaðir á matsverð vegna tímabilsins frá 30. júní 2005 til uppkvaðningardags mats.

Með bréfi dagsettu 20. október 2006 tilkynnti stefndi að hann hefði ákveðið að una matinu og bauð hann fram greiðslu á 100.000.000 króna sem hann  kvaðst líta á sem fullnaðargreiðslu við innlausn hlutabréfa stefnanda.

Þann 24. október 2006 veitti stefnandi lögmanni sínum umboð til að móttaka umrædda greiðslu með fyrirvara um að hann teldi sig eiga rétt til vaxta og/eða verðbóta á innlausnarfjárhæð frá því að krafa var sett fram um innlausn auk fyrirvara um rétt til að fá endurgreiddan útlagðan kostnað við að fá innlausnarverð ákvarðað. Þann 27. október 2006 var greiðsla á 100.000.000 krónum móttekin með greindum fyrirvara. Þann 6. desember 2006 var lögmanni stefnda tilkynnt að stefnandi hyggðist krefjast vaxta og kostnaðar í samræmi við fyrirvara og var kröfugerð stefnanda ásamt rökstuðningi komið á framfæri með bréfi dagsettu 2. apríl 2007. Með bréfi lögmanns stefnda dagsettu 23. maí 2007 var kröfugerð stefnanda hafnað og sérstaklega tekið fram að heimilisvarnarþing stefnda væri í Danmörku og að krafist yrði frávísunar yrði mál höfðað á hendur stefnda fyrir íslenskum dómstóli á þeim grundvelli að málið væri höfðað á röngu varnarþingi.

II.

Stefndi, E Phil & Sön A/S færir þau rök fyrir frávísunarkröfu sinni að stefndi eigi ekki varnarþing á Íslandi. Bendir stefndi einnig á að rökstuðningur í stefnu fyrir vali á varnarþingi standist ekki skilyrði laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og ákvæði laga nr. 68/1995 um Lúganósamninginn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum. Samkvæmt 18. gr. laga nr. 68/1995 sé stefnda heimilt að sækja dómþing við þingfestingu málsins einungis til að mótmæla varnarþingi.

Stefndi bendir á að þar sem Lúganósamningur um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum  hafi verið fullgiltur af hálfu Íslands sem lög nr. 68/1995 þá gangi hann framar varnarþingsreglum V. kafla laga nr. 91/1991. Ekki sé vísað til ákvæðis í þeim lögum til stuðnings því að stefna stefnda fyrir héraðsdómi á Íslandi, enda telji stefndi þá heimild ekki vera til staðar.

Í stefnu sé aftur á móti vísað til 35. gr. laga nr. 91/1991 til stuðnings ákvörðunar þess efnis að höfða mál á hendur stefnda fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Grundvallarskilyrði þess ákvæðis um efndir á eða lausn  undan löggerningi eða vegna vanefnda eða rofa á löggerningi eigi ekki við í máli þessu. Umrætt ákvæði innihaldi undantekningarreglu sem ekki sé heimilt að skýra rýmra en orð hennar gefa tilefni til.

Jafnframt bendir stefndi á að röng eða ófullnægjandi tilvísun til varnarþingsreglna geti valdið sjálfkrafa frávísun frá dómi. Megi um það vísa til laga nr. 68/1995 og Hrd. 1994:310 og Hrd. 1988:1249.

Þá tekur stefndi að lokum fram að milli málsaðila sé ekkert samkomulag í gildi um málarekstur hér á landi eða frávik frá almennum varnarþingsreglum.

III.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að mál til heimtu peningakröfu til efnda á innlausnarskyldu á hlutabréfum á grundvelli laga nr. 2/1995 megi reka í þeirri þinghá þar sem skylduna skyldi efna, sbr. 35. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 43. gr. sömu laga, enda feli innlausn hluthafa á grundvelli ákvæða 24.-26. gr. laga nr. 2/1995 í sér löggerning í skilningi 35. gr. laga nr. 91/1991. Þar sem ekki sé kveðið á um efndastað í ákvæðum 24-26. gr. laga nr. 2/1995, sé efndastaður hjá kröfuhafanum samkvæmt almennum reglum kröfuréttar enda ekki um annað samið eða leiðir af réttarreglum. Þar sem stefnandi sé kröfuhafi í tilgreindu kröfuréttarsambandi sé efndastaður peningakröfu þeirrar sem mál þetta snýst um lögheimili stefnanda að Sunnubraut 50, Kópavogi. Samkvæmt 35. gr. laga nr. 91/1991 megi sækja þann sem vanefnir löggerning í þeirri þinghá þar sem hann skyldi efna og því sé heimilt að sækja mál þetta á hendur stefnda fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Ekki geti orðið ágreiningur um að um ágreining aðila verði dæmt eftir íslenskum lögum.

Heimild til að stefna stefnda fyrir Héraðsdóm Reykjaness er studd við 35 . gr. sbr. 43. gr. laga nr. 91/1991, sbr. og lög nr. 68/1995 um Lúganósamninginn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum.

IV.

Ein af meginreglum í réttarfari er að mál verður ekki höfðað hér á landi gegn manni eða lögpersónu, sem á heimili í öðru landi. Verður því að jafnaði að sækja slíka aðila í heimalandi sínu. Frá þessu eru þó undantekningar, meðal annars sú undantekning að sækja megi mann sem, búsettur er erlendis, svo og félag, firma, stofnun eða samtök sem eins er ástatt um, ef til þess stendur heimild í 34.-42. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, og annað leiðir ekki af samningi við erlent ríki, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna.

Af hálfu Íslands hefur Lúganósamningur um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum frá 16. september 1988 verið fullgiltur og öðlaðist samningurinn lagagildi hér á landi með lögum nr. 68/1995. Af 1. mgr. 43. gr. laga nr. 91/1991 og viðurkenndum lögskýringararreglum leiðir að ákvæði Lúganósamningsins ganga framar reglum V. kafla laga nr. 91/1991 um varnarþing, auk þess sem skýra verður þær reglur til samræmis við samninginn. Stefndi A. Phil & Sön A/S er með heimilisvarnarþing í Danmörku, en óumdeilt er að það ríki á einnig aðild að umræddum Lúganósamningi. Heimild stefnanda til að sækja stefnda fyrir dómstólum hér á landi ræðst því af reglum samningsins.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi geti ekki byggt á ákvæðum umrædds Lúganósamnings þar sem ekki sé gerð grein fyrir því í stefnu á hvaða ákvæðum samningsins stefnandi byggi.  Í lagarökum í stefnu kemur fram að stefnandi sæki heimild sína til að höfða málið fyrir Héraðsdómi Reykjaness í 35. gr., sbr. 43. gr. laga nr. 91/1991 sbr. og lög nr. 68/1995 um Lúganósamninginn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum. Tilvísun stefnanda til Lúganósamningsins án þess að tilgreina nákvæmlega það ákvæði samningsins sem stefnandi byggir á þykir eins og hér stendur á ekki girða fyrir að málssókn stefnanda fari eftir samningnum og því ákvæði samningsins sem við á um málssókn stefnanda.

Í II. hluta umrædds Lúganósamnings, sem fjallar um varnarþing segir m.a í 2. gr. 1. kafla sem fjallar um almenn ákvæði: ,,Með þeim takmörkunum, sem greinir í samningi þessum, skal lögsækja menn, sem eiga heimili í samningsríki, fyrir dómstólum í því ríki, hvert sem ríkisfang þeirra er.” Í 3. gr. sama kafla segir: ,,Menn, sem eiga heimili í samningsríki, má aðeins lögsækja fyrir dómstólum í öðru samningsríki samkvæmt þeim reglum sem settar eru í 2.-6. kafla þessa hluta.” Í 5. gr. 2. kafla samningsins, er að finna ákvæði sem átt gæti við málssókn stefnanda. Þar segir m.a.: ,,Mann, sem á heimili í samningsríki, má lögsækja í öðru samningsríki: 1. í  málum, sem varða samninga, fyrir dómstóli þess staðar þar sem skuldbindinguna skyldi efna.”

Aðila greinir á um það hvort hvort krafa stefnanda verði talin byggð á samningi í skilningi síðastgreinds ákvæðis. Eins og að framan er rakið krafðist stefnandi þess að stefndi innleysti hlutafé stefnanda í Ístaki hf. samkvæmt innlausnarskyldu lögum samkvæmt. Ekki náðu aðilar samkomulagi um innlausnarverð og var það því ákveðið með mati dómkvaddra matsmanna lögum samkvæmt. Stefndi greiddi stefnanda innlausnarfjárhæðina 100.000.000 krónur og tók stefnandi við fjárhæðinni með fyrirvara um rétt til vaxta af fjárhæðinni og greiðslu afleidds kostnaðar. Höfðaði hann síðan mál þetta eftir að hann hafði tekið á móti greiðslu stefnda. Dómurinn telur stefnanda ekki hafa sýnt fram á að krafa hans um vexti og útlagðan kostnað sé byggð á samningi í skilningi framangreindrar reglu 1. tl. 5. gr. 2. kafla Lúganósamningsins. Þegar af þeirri ástæðu og þar sem stefnandi þykir ekki hafa sýnt fram á að aðrar varnarþingsreglur geti leitt til þess að honum sé heimilt að höfða mál á hendur stefnda Phil & Sön A/S hér fyrir dómi er fallist á frávísunarkröfu stefnda, sem eingöngu hefur sótt þing í málinu til að mótmæla varnarþingi sbr. 18. gr. Lúganósamningsins.

Eftir þessum úrslitum verður stefnanda gert að greiða stefnda, Phil & Sön A/S, málskostnað eins og í úrskurðarorði greinir.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi greiði stefnda 100.000 krónur í málskostnað.