Hæstiréttur íslands
Mál nr. 99/2004
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Miskabætur
|
|
Föstudaginn 18. júní 2004. |
|
Nr. 99/2004. |
Ákæruvaldið(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn X (Brynjar Níelsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Börn. Miskabætur.
X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn tveimur ungum stúlkum en neitaði sök. Vitnisburður stúlknanna þótti skilmerkilegur og trúverðugur, og var X sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 202. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga með háttsemi sinni. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um 10 mánaða fangelsisrefsingu X.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. febrúar 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur að öðru leyti en því að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar að nýju. Til vara krefst hann sýknu af kröfum ákæruvaldsins og að kröfum um miskabætur verði vísað frá héraðsdómi. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð og dæmdar bætur lækkaðar.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, samtals 60.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. janúar 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 8. janúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni 3. nóvember 2003 gegn X, kt.[...], [...], „fyrir eftirgreind kynferðisbrot:
1.
Gegn A, fæddri árið 1996, með því að hafa, sumarið 2002, á vinnustað ákærða að [...],
a. káfað á kynfærum stúlkunnar innanklæða,
b. lagt getnaðarlim sinn við kynfæri hennar,
c. fróað sér fyrir framan hana.
Brot skv. a og b liðum varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40,1992 og 4. gr. laga nr. 40, 2003, en brot skv. c lið við 209 gr. sömu laga.
2.
Gegn B, fæddri árið 1993, með því að hafa á árinu 2000 eða 2001,
a. í bílskúr við [...], afklætt stúlkuna að neðan og tekið myndir af kynfærum hennar,
b. ekið með stúlkuna í bifreið sinni frá [Z] til [Y] þar sem hann afklæddi hana að neðan og sleikti kynfæri hennar.
Brot skv. a lið varðar við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940 með áorðnum breytingum og brot skv. b lið við 1. mgr. 202. gr. sömu laga, sbr. 10. gr. laga nr. 40,1992 og 4. gr. laga nr. 40,2003.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Bótakröfur:
1. Af hálfu A, kt. [...], [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 500.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2002 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þess er krafist málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.
2. Af hálfu B, kt. [...], [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni kr. 450.000 í miskabætur auk dráttarvaxta frá því mánuður er liðinn frá því sakborningi er kynnt bótakrafan til greiðsludags, skv. lögum nr. 38, 2001 um vexti og verðbætur. Auk þess er áskilinn réttur til skaðabóta vegna kostnaðar af að halda fram bótakröfu.”
I.
Þann 8. október 2002, kom L, móðir kæranda A, á skrifstofu Fjölskyldu- og félagsþjónustu [...]. Hún greindi sálfræðingi félagsþjónustunnar frá því að daginn áður um kvöldmatarleytið, hafi fjögurra ára sonur hennar verið að fikta í typpinu á sér og hafi L sagt honum að hætta því. Þá hafi dóttir hennar A sagt: „Hann X er alltaf að gera þetta og það kemur mjólk úr typpinu á honum.” Hún hafi ennfremur sýnt móður sinni með höndunum hvernig X hafi fróað sér. L hafi spurt stúlkuna hvort X hafi snert hana og hafi hún jánkað því og lagt lófann á svæðið nálægt kynfærum sínum til að sýna móður sinni hvar hann hafi komið við hana. Síðan hafi stúlkan sagt við móður sína: „Ég ætla að hafa hann fyrir vin minn.” Fram kom í þessu viðtali við L að ákærði væri með vinnuaðstöðu að [...], stutt frá heimili kæranda. Fyrir framan vinnuaðstöðuna væri strætóstoppistöð þar sem börn biðu eftir strætó á leið í skóla. L sagði að hópur af krökkum væri í kringum ákærða og hafi hann verið að gefa þeim sælgæti og peninga. Hún hafi einhvern tímann spurt ákærða hvers vegna hann væri að gefa þeim sælgæti og peninga og hafi hann svarað því til að þau væru að tína rusl fyrir hann og passa gluggana svo ekki væri verið að brjóta þá.
L skýrði svo frá hjá lögreglu og fyrir dómi að sonur hennar fjögurra ára, U, hafi tekið upp á því að fikta við typpið á sér. Hún hafi í eitt sinn sagt við U að hann skyldi hætta því vegna þess að typpið gæti dottið af honum. A hafi þá setið fyrir framan sjónvarpið og verið að horfa á það. Hún hafi þá sagt: „Hann X er alltaf að gera svona og það kemur mjólk úr typpinu á honum.” Síðan hafi hún farið hjá sér og orðið feimin. L kvaðst þá hafa spurt A hvað hann X gerði til þess að mjólk kæmi út úr typpinu á honum. A hafi þá sýnt með handahreyfingum, með hálflokaðri hendi, líkt og hún héldi utan um eitthvað og hreyft höndina upp og niður. L kvaðst hafa sest hjá A og spurt hana hvað best væri að gera og hafi stúlkan þá svarað „maður hættir að vera vinur hans.”
Um kvöldið þennan dag hafi H, níu ára dóttir hennar, komið heim og hlerað hvað gerst hafði. H hafi sagt A ljúga. L kvaðst þá hafa sagt H að A ætti ekki að vita um svona hluti en H þá snúið því upp í fíflaskap og reynt að eyða talinu. Fram hafi komið hjá H að hún hafi einnig verið hjá ákærða og hafi hann gefið henni og öðrum krökkum sælgæti. H hafi sagt henni að krakkarnir væru stundum inni hjá ákærða að hlusta á hann syngja og fá hjá honum sælgæti. Síðan hafi R, tíu ára vinkona H, komið í heimsókn og fregnað hjá H hvað gerst hafði. Hafi R orðið mjög skrýtin og stúlkurnar báðar orðið æstar og ruglaðar.
Systir L, G, býr í næsta húsi við L að [...]. L segir G hafa heyrt á tali stúlknanna, H, dóttur L, og R, dóttur G, þar sem þær hafi verið að tala um að A væri búin að kjafta frá öllu og að A væri svikari. Næsta dag hafi L pantað viðtal hjá Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar og þann dag hafi A verið mjög hrædd og spurt hvort lögreglan væri að koma. L kvaðst hafa skynjað að eldri stúlkurnar hafi verið að hrella A og gengið á hana og sagt henni að segja ekkert frá.
L kvaðst kannast við ákærða þar sem hún hafi verið vinkona dóttur hans er hún var í barnaskóla. Ákærði hafi verið töluvert þar sem hann hafði aðstöðu við [...], mest yfir miðjan daginn og eitthvað á kvöldin. Þetta hafi bæði verið um helgar og virka daga. Hún kvaðst hafa vitað af því að ákærði væri að gefa börnum sælgæti og leyfði þeim að leika í porti fyrir aftan húsið hjá sér. Þau hafi smíðað kofa í portinu og verið mikið þar. Hún kvaðst einu sinni hafa hitt á ákærða og hann sagt að hann gæfi börnunum sælgæti svo að húsið yrði ekki fyrir skemmdum.
Dómskýrsla var tekin af A í Barnahúsi 24. október 2002. Í þeirri skýrslu segir hún m.a.að í eitt skipti hafi ákærði mátað typpið sitt við pjölluna sína og í annað skiptið hafi ákærði fróað sér fyrir framan hana. Sýndi hún með handahreyfingum hvernig hann hafi gert það og sagði að mjólk hafi komið úr typpinu hans. Í það skiptið sagði hún að ákærði hefði dregið buxur hennar niður að hnjám. Þá lýsti stúlkan því hvernig ákærði hafi káfað einu sinni á kynfærum hennar innan klæða. Ákærði hafi sagt við hana að hún mætti ekki segja neinum frá.
G skýrði svo frá hjá lögreglu og fyrir dómi að ákærði hafi verið með verkstæði á ská á móti sér hinum megin við götuna. Hún þekki hann ekki neitt, hafi einungis kastað á hann kveðju þegar hann hafi komið þarna í hverfið í upphafi. Hún hafi tekið eftir því að hann hafi verið að laða að sér krakka með því að gefa þeim sælgæti. Krakkarnir í hverfinu hafi því verið mikið í kringum ákærða. Mánudaginn 7. október 2002 hafi L systir hennar skýrt henni frá því að fjögurra ára sonur hennar, U, hafi eitthvað verið að fitla við typpið á sér og L bannað honum það. Þá hafi A dóttir hennar farið að tala um að ákærði sé alltaf að því og það komi mjólk úr typpinu á honum. G kvaðst hafa rætt þetta við dóttur sína, R, sem sé tíu ára gömul. R sé hins vegar lokuð og hafi ekki viljað segja móður sinni frá neinu í þessu sambandi. Hún kvaðst síðan hafa heyrt til H, dóttur L, og R, þar sem þær hafi verið að skamma A fyrir að kjafta frá og kölluðu hana svikara og klöguskjóðu. Þetta hafi orðið til þess að A hafi farið að gráta.
Vitnið K var gestkomandi hjá L í umrætt sinn. Hann er nú sambýlismaður hennar. Hann sagði að yngsti sonur L hafi verið að toga í typpið á sér og móðir hans bannað honum það. Þá hafi A sagt að það kæmi mjólk úr typpinu á honum X. L hafi þá spurt dóttur sína frekar um þetta en viðbrögð barnsins orðið þau að hún hafi lokast, líkt og hún hafi sagt eitthvað sem hún hafi ekki mátt segja.
Hjá lögreglu og fyrir dómi skýrði ákærði svo frá að hann hafi tekið þá stefnu strax í upphafi er hann hafi fengið aðstöðuna á [...] að gefa börnunum sælgæti til þess að skemmdarverk yrðu síður unnin á húsnæðinu. Í einhverjum tilvikum hafi hann einnig gefið einhverjum krökkum peninga en það hafi verið í þeim tilvikum er þau hafi unnið fyrir hann eitthvað lítilræði, eins og til dæmis að tína rusl. Áður fyrr hafi ítrekað verið unnar skemmdir á bifreiðum við húsið og á húsinu sjálfu en eftir að hann hafi fengið krakkana í lið með sér hafi ekkert slíkt gerst.
Ákærði neitaði öllum ásökunum um kynferðislega misnotkun gagnvart A. Aðspurður um hvort að hann gæti gefið skýringu á þessum framburði stúlkunnar svaraði hann því til að hann geti sér helst til að þetta sé allt komið frá móður hennar. Hann hafi lent í útistöðum við móður A og þau rifist nokkrum sinnum. Hún hafi verið að skammast við hann nokkrum sinnum vegna umgengni hans við börnin og gefið ýmislegt í skyn. „Síðasta skiptið var svolítið grimmara, ég var orðinn dálítið leiður á henni.” Það hafi verið stuttu áður en að hann hafi verið kærður. „Hún varð náttúrulega reið því sem ég sagði, ég baunaði bara á hana á móti.”
Þessari frásögn ákærða mótmælir L. Hún kannaðist ekki við fyrir dómi að hafa staðið í útistöðum við ákærða eða lent í rifrildi við hann. Samskipti þeirra hafi verið góð og hún hafi ekki trúað neinu slæmu upp á hann. Hún taldi að hún hafi aðeins einu sinni talað við ákærða eftir að hann flutti í aðstöðuna að [...] og áður en mál þetta kom upp. Þau hafi tekið tal saman þar sem þau hafi þekkst frá fyrri tíð en hún hafi verið bekkjarsystir dóttur ákærða er hún hafi búið í [Z]. Ákærði hafi sagt henni að krakkarnir væru að gæta hússins og hafi ekki annað farið á milli þeirra.
Ákærði heldur því fram að umgengni hans við krakkana hafi ekkert breyst eftir þennan atburð nema aðeins fyrst í stað. Hann hafi til dæmis þurft að reka A út úr húsinu hjá sér nokkrum sinnum. Viðhorf hennar gagnvart honum hafi ekki breyst. Þetta segir móðir A að sé alrangt.
Vigdís Erlendsdóttir sálfræðingur og forstöðumaður Barnahúss hefur skilað greinargerð í málinu varðandi A. Hún kom einnig fyrir dóm og staðfesti greinargerð sína. Fram hefur komið hjá henni að A hafi í viðtölum ítrekað vikið talinu af samskiptum sínum við ákærða. Hún hafi lýst því í fyrsta viðtali að mjólk hafi komið úr typpinu á honum og að henni hafi þótt það ógeðslegt. Hún segist ekki vera hrædd við ákærða en bregði þó jafnan er hún sjái hann á förnum vegi. Um tíma hafi telpan sýnt kynferðislega ögrandi hegðun eins og títt sé um börn sem sætt hafi kynferðislegu ofbeldi eða áreitni. Algengt sé að börn sem sætt hafi kynferðislegri misnotkun þarfnist nokkurra viðtala á ný er þau komist á kynþroskaaldur vegna breytt skilnings og viðhorfa til atvika af því tagi sem telpan hafi lýst.
Húsleit var gerð hjá ákærða að [...] og ýmsir munir teknir og sendir í rannsókn til Rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði. Í niðurstöðum Gunnlaugs Geirssonar prófessors segir meðal annars að engar sæðisfrumur sé að finna í munum þeim sem haldlagðir voru af lögreglu vegna rannsóknar málsins.
A var skoðuð í Barnahúsi 30. október 2002 af barnalækni og kvensjúkdómalækni. Niðurstaða þeirra skoðunar var að kynfæri og endaþarmssvæði væri eðlilegt og engin merki um innþrengingu.
II.
Þann 27. janúar 2003 óskaði Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar eftir því að lögreglurannsókn færi fram vegna gruns um kynferðislegt ofbeldi gagnvart barni í [Z]. Kemur fram í beiðninni að stúlka hafi sagt í Barnahúsi að ákærði hafi reynt að káfa á brjóstum B. Barnaverndarnefnd hafi rætti við föður B, J, og hafi komið fram hjá honum að krakkar í hverfinu hafi mikið verið að leika sér í kringum ákærða í [Z], en ákærði búi í [Z] og sé með vinnuaðstöðu í bílskúr við heimili J. J upplýsti barnaverndarnefnd um að ákærði væri góður við krakkana, gæfi sig mikið á tal við þá og gæfi þeim stundum pening til að kaupa sér sælgæti. Þá ætti ákærði einnig hund sem krakkarnir væru hrifnir af.
Hjá lögreglu og fyrir dómi skýrði J svo frá að hann hafi á þessum tíma búið að [...] í [Z] við hliðina á ákærða sem búi að [...]. J kvaðst hafa flutt ásamt fjölskyldu sinni að [...] í [Z] í mars 2001. Það hafi verið eitt sinn sumarið 2000 að B hafi ekki skilað sér heim á réttum tíma. Hann hafi verið leigubílstjóri á þeim tíma og hafi eiginkona hans hringt í hann og beðið hann um að leita að stúlkunni. Hann hafi gert það en án árangurs er hann hafi komið heim á [...] hafi hann hitt ákærða sem hafi sagt honum að B og vinkona hennar, S, hafi farið með honum í bíltúr til þess að viðra hundinn. Ákærði hafi afsakað hvað hann hafi komið seint heim með B. J kvaðst hafa spurt dóttur sína nánar um ferðir þeirra og hafi hún sagt honum að hún og S hafi farið í bílnum með ákærða og hann gefið þeim sælgæti. S hafi farið fyrr út úr bílnum en B verið eitthvað lengur í honum. Honum hafi skilist að ákærði hafi ekið út á [...] á milli Z og K. Hann hafi spurt dóttur sína hvort eitthvað hefði gerst en hún neitað því. Svo hafi það gerst í febrúar 2003 að S hafi skýrt frá að eitthvað óeðlilegt hafi gerst í þessari bílferð. Hann hafi þá spurt B nánar um bílferðina og B sagt honum frá því að ákærði hafi strokið henni um líkamann og farið með hendurnar niður líkama hennar að framanverðu. Þá sagðist J hafa skýrt stúlkunni frá því að hún væri ekki ein um þetta, ákærði hafi leitað á fleiri stúlkur. Þá hafi hún opnað sig frekar og skýrt honum frá því að eitthvað hafi einnig gerst í bílskúrnum hjá ákærða. Hann kvaðst ekki hafa gengið frekar á telpuna enda hafi verið mælst til þess af hálfu barnaverndarnefndar að það yrði ekki gert, heldur myndi hún skýra frá reynslu sinni í Barnahúsi.
Þann 19. febrúar 2003 var tekið könnunarviðtal í Barnahúsið við B. Í því viðtali lýsir stúlkan því að hún hafi farið í bíltúr með ákærða ásamt vinkonu sinni S. Ákærði hafi káfað innanklæða á S um brjóst hennar. Hafi þær setið í aftursæti bifreiðar ákærða. S hafi verið keyrð heim fyrst en bíltúrinn haldið áfram með B. Hafi ákærði fært B úr buxum og sleikt kynfæri hennar. Þá skýrði stúlkan einnig frá því að ákærði hafi tekið mynd af henni í bílskúrnum hjá sér. Hafi hann lyft henni upp á borð, afklætt hana að neðan og tekið síðan tvær myndir af henni. Ákærði hafi sagt að hún mætti ekki segja neinum frá þessu. Hann hafi stundum gefið henni pening, stundum 100 krónur og stundum 500 krónur.
Þann 28. febrúar 2003 var tekin dómskýrsla af B í Barnahúsi. Í ítarlegri yfirheyrslu skýrði hún á sama veg frá og áður hafði komið fram. Hún sagðist einu sinni hafa farið til ákærða eftir að mál þetta kom upp. Hafi hún þá verið með mörgum vinkonum sínum og beðið ákærða um að laga hjólið sitt.
M, móðir B, skýrði á sama veg frá og eiginmaður hennar, J.
N, móðir S, gaf skýrslu hjá lögreglu. Hún sagðist hafa gengið á S og spurt hana hvort eitthvað hafi gerst í bílferðinni með B. Þá hafi móðir B verið búin að hringja og verið að leita að B. S hafi ekki viljað segja henni neitt frá ökuferðinni en farið að gráta. Dómskýrsla var tekin af S í Barnahúsi 19. september 2003. Hún mundi eftir bílferðinni með ákærða en sagði að ekkert hafi gerst þar. Hún var þá spurð um af hverju hún hafi farið að gráta heima hjá sér er mamma hennar hafi spurt um ökuferðina. Hún svaraði því til að hún hafi verið hrædd um að ákærði væri búinn að taka B og hafi því orðið hrædd og farið að gráta.
Fyrir dómi og hjá lögreglu skýrði ákærði svo frá að hann kannaðist vel við B. Krakkarnir í hverfinu væru gjarnan að sniglast í kringum hann er hann væri að vinna í bílskúrnum. Samskipti hans við börnin hafi ekki verið mikil en hann hafi til dæmis lagfært fyrir þau hjólin, þar á meðal fyrir B. Hann neitaði því alfarið að hafa brotið gegn B kynferðislega. Hann kvaðst ekki hafa rekið börnin í burtu frá sér og segist hafa alist upp við það hjá föður sínum að gera það ekki. Hann kvaðst stundum hafa tekið B og fleiri krakka upp í bílinn til sín á [...] við skólann og leyft þeim að sitja í bílnum eftir [...]götunni. Tvisvar á dag hafi hann farið að viðra hundinn niður á fjörukamb og oft hafi krakkar beðið um að fara með honum en hann ekki leyft það. Hann kvaðst ekki muna eftir að B hafi farið með honum í slíka ferð en segir þó að það gæti verið. Þá taldi hann það einnig geta verið að hann hafi gefið krökkunum stundum sælgæti og pening.
Ákærði neitar því að hann hafi farið í ökuferð með B út í [Y] eins og B og S vinkona hennar hafa haldið fram. Þá neitaði ákærði þeim framburði J að hann hafi beðið J afsökunar á því hvað hann hafi komið seint heim með B. Ákærði kvaðst eiga Polaroid myndavél en hafi aldrei tekið mynd af B.
Í málinu liggur frammi greinargerð frá Ólöfu Ástu Farestveit, uppeldis- og afbrotafræðingi og starfsmanni Barnahúss. Hún kom einnig fyrir dóm og staðfesti greinargerð sína. Hún sagðist hafa hitt B fjórum sinnum frá 1. apríl 2003 til 23. september sama ár. Stúlkan hafi talað um að hún væri mikið til hætt að hugsa um það sem gerst hafði en sagðist muna eftir því að sér hafi liðið mjög illa á þessum tíma og hafi orðið mjög hrædd í bílnum með ákærða. Sumarið 2003 hafi hún ekki treyst sér til þess að fara inn í banka þar sem eiginkona ákærða vinni þar sem það minnti hana á atburðinn. Í september hafi hún þó verið farin að þora að ganga [...]götuna í [Z] en þó ekki þeim megin sem ákærði búi. Það er álit Ólafar Ástu að þó svo að B sé farin að gleyma ýmsu sem gerðist megi ætla að hún hafi ofangreinda atburði ofarlega í huga og það hindri hana í að lifa eðlilegu og óttalausu lífi.
III.
Ákærða er gefið að sök að hafa sumarið 2002 á vinnustað sínum í [...] káfað á kynfærum stúlkunnar A, lagt getnaðarlim sinn við kynfæri hennar og fróað sér fyrir framan hana. Ákærði hefur staðfastlega neitað þessum sakargiftum við rannsókn og meðferð málsins. Hann segist hafa gefið krökkunum sem leituðu til hans sælgæti og pening til þess að koma í veg fyrir að skemmdir væru unnar á bifreiðum fyrir utan húsið hjá sér og til varnar rúðubrotum á húsinu. Ákærði hefur skýrt kæruna á hendur sér með því að móðir A hafi lent í útistöðum við hann og hann sagt henni til syndanna. Í framhaldi af því hafi þessi kæra komið fram. L, móðir A, kannast hins vegar ekki við það og segir að þau hafi engin samskipti haft fyrir utan einu sinni er hún hafi hitt ákærða og hann sagt henni að hann hafi beðið börnin að passa fyrir sig gluggana á húsinu. Önnur samskipti hafi þau ekki haft.
A var að verða sex ára er hún kom fyrir dóm í Barnahúsi. Vitnisburður hennar var tekinn upp á myndband og horfði dómurinn á upptökuna við aðalmeðferð málsins. Framburður stúlkunnar var skilmerkilegur miðað við ungan aldur hennar. Hún skýrði frá af barnslegri einlægni og notaði orðfæri barna. Þannig lýsir hún því með hreyfingum og orðum hvernig ákærði hafi dregið hana úr buxunum, farið sjálfur úr sínum buxum og fróað sér fyrir framan hana. Þá hafi hann eitt sinn mátað typpið sitt við pjölluna hennar eins og hún komst að orði. Þessi vitnisburður telpunnar þykir trúverðugur. Enginn skynsamleg skýring er komin fram í málinu um að stúlkan hafi gert sér þetta upp eða að móðir hennar hafi lagt henni orð í munn. Orðfæri stúlkunnar benda þvert á móti til þess að þetta sé frá henni sjálfri komið. Þá þykir skýring ákærða um óvild móður stúlkunnar í sinn garð ótrúverðug. Framburður stúlkunnar fær stoð í vætti Vigdísar Erlendsdóttur sálfræðings en stúlkan gekk til hennar í níu skipti frá því í október 2002 fram á haust 2003. Þá er framburður móður stúlkunnar og vitnisins K, núverandi sambýlismanns L, til styrktar því að stúlkan hafi greint rétt frá, en þau voru bæði viðstödd er stúlka lét þau orð falla að mjólk kæmi úr typpinu á X.
Með hliðsjón af framansögðu er sannað, þrátt fyrir eindregna neitun ákærða, að hann hafi sumarið 2002 misnotað A kynferðislega á verkstæði sínu í [...]. Ekkert hefur komið fram í málinu sem gefur tilefni til þess að ætla að frásögn stúlkunnar sé röng að einhverju leyti. Með greindri háttsemi hefur ákærði gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, er varðar a og b lið 1. kafla ákæru en gegn 209. gr. sömu laga er varðar c lið 1. kafla ákæru.
Ákærða er einnig gefið að sök að hafa á árinu 2000 eða 2001 í bílskúr við [...] í [Z] afklætt stúlkuna B að neðan og tekið myndir af kynfærum hennar. Þá er honum jafnframt gefið að sök að hafa ekið með stúlkuna í bifreið sinni frá [Z] til [Y] þar sem hann afklæddi hana að neðan og sleikti kynfæri hennar. Ákærði hefur staðfastlega neitað þessum sakargiftum.
B var sjö eða átta ára þegar meint háttsemi ákærða gagnvart henni átti sér stað. Hún var tæplega tíu ára er hún gaf vitnaskýrslu fyrir dómi í Barnahúsi. Vitnisburður hennar var tekinn upp á myndband og var það sýnt við aðalmeðferð málsins. Dómurinn er einhuga um að framburður hennar sé trúverðugur. Hún lýsir því hvernig ákærði hafi lyft henni upp á borð, afklætt hana að neðan og tekið tvær myndir af henni. Myndavélin hafi verið þannig að það hafi komið mynd strax út úr vélinni. Ákærði hefur staðfest að hann eigi slíka myndavél af gerðinni Polaroid.
B hefur jafnframt lýst ökuferðinni út í [Y]. Vinkona hennar, S, hafi verið með í för og hafi þær farið að viðra hund ákærða. Ákærði hafi ekið S heim fyrst en síðan haldið áfram með B. Hann hafi síðan afklætt hana að neðan og sleikt kynfæri hennar. Ákærði hefur neitað að þessi ökuferð hafi átt sér stað. Hann hafi aldrei farið með S og B í ökuferð. S gaf skýrslu fyrir dómi og sagði frá umræddri ökuferð. Hún hafi verið keyrð heim fyrst en ákærði haldið áfram með B. Þessi frásögn S þykir styrkja framburð B um að þessi ökuferð hafi verið farin. Framburður föður B er ennfremur til styrktar en hann ber að hann hafi hafið leit að dóttur sinni umrætt kvöld. Er hann kom heim úr leitinni hafi hann hitt ákærða í götunni þar sem þeir bjuggu báðir og hafi ákærði afsakað að hann hafi komið seint heim með B. Þessum framburði föður B hefur ákærði mótmælt. Þá er framburður Ólafar Ástu Farestveit, uppeldis- og afbrotafræðings, sem rakinn er hér að framan, enn til styrkar því að framburður B sé trúverðugur.
Ákærði hefur neitað sakargiftum en viðurkennir að hann hafi gefið börnum í hverfinu sælgæti og peninga. Hann kann ekki skýringu á ásökunum B á hendur sér. Dómurinn telur hafið yfir skynsamlegan vafa að stúlkan hafi greint hreinskilningslega frá atvikum fyrir dómi og að hún hafi aðeins skýrt frá því sem hún hafi raunverulega þurft að þola af hálfu ákærða. Sök ákærða telst því sönnuð í þessum þætt málsins. Þykir sannað að ákærði hafi misnotað B kynferðislega eins og í ákæru greinir. Með greindri háttsemi hefur ákærði gerst sekur um brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 hvað varðar a lið í 2. kafla ákæru, en gegn 1. mgr. 202. gr. sömu laga hvað varðar b lið 2. kafla ákæru.
Ákærði hefur tvisvar hlotið dóm og tvisvar gengist undir sáttir, aðallega fyrir brot gegn áfengis- og umferðarlögum. Brot ákærða gegn stúlkunum tveimur, sem hann er nú sakfelldur fyrir, er alvarlegt og beinist að mikilvægum hagsmunum. Hann notfærði sér ungan aldur þeirra til þess að misnota þær kynferðislega. Með framanritað í huga og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlag, þykir refing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði.
Af hálfu stúlknanna beggja er sett fram skaðabótakrafa, reist á 26. gr. laga nr. 50/1993. Af gögnum málsins má ráða að stúlkurnar hafa orðið fyrir áfalli en þeim hafi tekist með hjálp fagaðila að vinna sig út úr vandanum þannig að brot ákærða gagnvart þeim veldur þeim ekki teljandi erfiðleikum í daglegu lífi. Það er þó álit sérfræðinga Barnahúss að þær þurfi á aðstoð fagaðila að halda er þær komi á unglingsárin og fari að leggja annan skilning ofangreinda atburði. Stúlkurnar hafa orðið fyrir miska og þykja bætur A hæfilega ákveðnar 300.000 krónur og bætur til B 300.000 krónur. Ákærða voru birtar miskabótakröfur 22. júlí 2003. Þykir því rétt að þær beri hver fyrir sig dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. ágúst til greiðsludags.
Samkvæmt framangreindum málsatvikum greiðir ákærði allan sakarkostnað, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun, sbr. 1. mgr. 164. gr. og 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991. Ákærði greiði skipuðum verjanda sínum, Þorvaldi Jóhannessyni hdl., 320.000 krónur og þóknun réttargæslumanna stúlknanna, Þórdísar Bjarnadóttur hdl. og Sifjar Konráðsdóttur hrl., 110.000 krónur til hvorrar um sig.
Af hálfu ákæruvalds flutti málið Sigríður Jósefsdóttir saksóknari.
Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðmundur L. Jóhannesson, sem dómsformaður, Gunnar Aðalsteinsson og Sveinn Sigurkarlsson.
DÓMSORÐ
Ákærði, X, sæti fangelsi í 10 mánuði.
Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þorvaldar Jóhannessonar hdl., 320.000 krónur, svo og þóknun réttargæslumanna, Þórdísar Bjarnadóttur hdl. og Sifjar Konráðsdóttur hrl., 110.000 krónur til hvorrar um sig.
Ákærði greiði L fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar, A, 300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. ágúst 2003 til greiðsludags.
Ákærði greiði J og M, fyrir hönd ólögráða dóttur þeirra, B, 300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. ágúst 2003 til greiðsludags.