Hæstiréttur íslands

Mál nr. 124/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Öryggisgæsla


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. mars 2007.

Nr. 124/2007.

X

(Guðrún Sesselja Arnardóttir hdl.)

gegn

dómsmálaráðherra

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

 

Kærumál. Öryggisgæsla.

Hafnað var kröfu skipaðs tilsjónarmanns X um að aflétt yrði í áföngum öryggisgæslu, sem henni hafði verið gert að sæta með dómi héraðsdóms frá 2005.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. febrúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. febrúar 2007, þar sem hafnað var kröfu skipaðs tilsjónarmanns sóknaraðila um að aflétt yrði í áföngum öryggisgæslu, sem sóknaraðila var gert að sæta með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2005. Kæruheimild er í 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Af hálfu sóknaraðila er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að öryggisgæslunni verði aflétt í áföngum með nánar tilgreindum hætti. Þá er krafist kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði greindi yfirlæknir á réttargeðdeildinni á Sogni frá því í bréfi 21. nóvember 2006 til héraðsdóms að hann styddi afléttingu öryggisgæslu „með venjulegum varnöglum.“ Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt bréf sama læknis 5. mars 2007, þar sem fram kemur að á síðustu dögum hafi geðheilsu sóknaraðila hrakað og sé nú svo komið að torvelt sé að mæla með því að rétturinn hnekki úrskurði héraðsdóms. Segir í bréfinu að þetta bendi til þess að enn sé grunnt á geðrofseinkennum hjá sóknaraðila og því hafi verið gripið til þess ráðs að hefja forðalyfjameðferð að nýju. Með hliðsjón af þessum nýju upplýsingum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. febrúar 2007.

I.

Mál þetta var þingfest 11. desember sl. og tekið til úrskurðar 26. janúar sl. að lokinni skýrslutöku og munnlegum málflutningi.

Sóknaraðili er Guðrún Sesselja Arnardóttir, hdl., skipaður tilsjónarmaður, f.h. X, [kt.], Sogni, Ölfusi.

Varnaraðili er dómsmálaráðherra, en ríkissaksóknari hefur annast meðferð málsins fyrir hans hönd.

Endanlegar dómkröfur sóknaraðila eru:

Að öryggisgæslu sem X var gert að sæta samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 3. febrúar 2005, verði aflétt í eftirfarandi áföngum:

Frá og með uppkvaðningu úrskurðar í máli þessu skuli X fara til dvalar og meðferðar á meðferðarstofnunina í Hlaðgerðarkoti að lágmarki í sex vikur og allt þar til hún hefur fengið félagslegt húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar 

Gangi framangreind meðferð eðlilega að mati yfirlæknis Réttargeðdeildarinnar að Sogni og geðheilsa X gefi tilefni til verði henni veitt lausn úr öryggisgæslu að fullu, þegar hún hefur fengið félagslegt húsnæði.

Krafist er málskostnaðar í samræmi við framlagt málskostnaðaryfirlit eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en sóknaraðila var veitt gjafsókn með bréfi dómsmálaráðherra 28. september 2006.

             Af hálfu varnaraðila eru ekki gerðar sérstakar kröfur í málinu.

II.

             Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, upp kveðnum 3. febrúar 2005, var X gert að sæta öryggisgæslu samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Dómurinn taldi sannað að hún hefði banað dóttur sinni, A, 11 ára, á heimili þeirra að [...], Reykjavík aðfaranótt mánudagsins 31. maí 2004 með því að stinga hana hnífi í brjóstkassa og gekk stungan í gegnum hjarta og inn í vinstra lunga.  Var þessi háttsemi talin varða við 211. gr. almennra hegningarlaga.  Þá var einnig talið sannað að sóknaraðili hefði sömu nótt reynt að bana syni sínum, B, 14 ára, með því að stinga hann hnífi í brjóstkassa og bak.  Hlaut B sex sár eftir hnífinn; lífshættulegt stungusár á brjóstkassa, stungusár á baki, þrjár stungur á hægri upphandlegg og skurðsár á fingurgómi vinstri vísifingurs.  Þessi háttsemi var talin varða við 211. gr., sbr. 20. gr. sömu laga.  Taldi dómurinn á grundvelli þeirra gagna sem fyrir lágu um geðhagi sóknaraðila að þar sem hún hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu, hugsun hennar brengluð og skynjun úr lagi færð, bæri að sýkna hana af refsikröfu ákæruvaldsins, sbr. 15. gr. sömu laga.  Þegar litið var til alvarleika háttsemi sóknaraðila og alvarlegs sjúkdóms hennar þótti dóminum rétt í þágu réttaröryggis að verða við varakröfu ákæruvaldsins um að henni yrði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.

Í dóminum segir svo um rannsóknir á geðhögum sóknaraðila:

[...]

III.

Vegna kröfu sóknaraðila um lausn úr öryggisgæslu hefur dómurinn fengið umsögn fagaðila á Réttargeðdeildinni á Sogni og tekið skýrslur af sóknaraðila og vitnum eins og nú verður rakið.

                [...]

IV.

Í 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 kemur fram að ákveða megi í dómi, ef nauðsynlegt þykir vegna réttaröryggis, að gerðar skuli ráðstafanir til varnar því að háski verði af manni sem hefur verið sýknaður samkvæmt ákvæðum 15. gr. laganna. Á grundvelli þessa ákvæðis var sóknaraðila gert að sæta öryggisgæslu með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 3. febrúar 2005.  Ótímabundin og algjör öryggisgæsla eru ýtrustu úrræði, en þeim skal aðeins beita komi vægari ráðstafanir, svo sem trygging, bann við dvöl á ákveðnum stöðum eða svipting lögræðis ekki að notum, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga. Framangreind úrræði 62. gr. eru ekki tæmandi talin. Ákvæðið hefur verið skýrt svo, að dómstólar geti breytt fyrri ákvörðun, ákveðið vægari úrræði en algjöra öryggisgæslu, eða hert gæslu allt eftir aðstæðum og nauðsyn hverju sinni. Einnig er litið svo á, og eru dómafordæmi fyrir því, að lausn eða mildun öryggisgæslu megi vera háð skilyrðum. Nauðsynlegt er að úrræði eða rýmkun á öryggisgæslu séu ákveðin svo skýrt sem verða má, þannig að viðeigandi stjórnsýsluaðili megi framfylgja þeim og sá sem í hlut á viti sem gleggst hvaða skilyrðum hann þurfi að hlíta.

            Sóknaraðili hefur fyrir dómi ítrekað sagt að hún muni ekki eftir því að hafa banað dóttur sinni. Hún hefur einnig gefið í skyn að hún muni heldur ekki eftir að hafa veitt syni sínum áverka en á sama tíma lýsir hún yfir áhyggjum sínum yfir að hafa gert fjölskyldu sinni þetta. Aðspurð um hvort hætta stafi af henni neitar hún því eindregið. Jafnframt þegar hún er spurð um hvort hún hafi verið hættuleg öðrum einhvern tíma þá neitar hún því líka og virðist þannig skorta innsæi í ástand sitt. Þá kemur fram í dóminum frá 3. febrúar 2005 að Tómas Zoëga hafi talið sóknaraðila í geðrofsástandi á verknaðarstundu og hafi hún glímt lengi við alvarlegan geðsjúkdóm. Haft er eftir meðferðarlækni hennar í sama dómi að hann hafi ekki vitað um að geðrofsástand hafi verið að þróast hjá sóknaraðila áður en að umræddu atviki kom.  Eftir að sóknaraðili kom á Sogn var hún ósamvinnuþýð varðandi meðferð og neitaði meðferð með sefandi lyfjum sem beint er gegn geðrofi. Hafi hún ekki tekið slíkri meðferð fyrr en valdi var beitt. Eftir að hún hóf meðferð mun hegðun og atferli hennar hafa skánað að mati vitna og samkvæmt skýrslu yfirlæknis Sogns og atvikaskráningu hjúkrunarfræðinga. Vegna óþæginda sóknaraðila af meðferð og ákveðinna efasemda yfirlæknisins um að sjúkdómsgreining sóknaraðila kallaði á slíka lyfjameðferð var henni hætt á miðju sumri 2006. Síðan þá kveður yfirlæknir ástand sóknaraðila ekki hafa versnað, en hjúkrunarfræðingar á Sogni segja ástandið svipað eða verra hvað varðar hegðun og atferli. Það kemur einnig fram hjá yfirlækninum á Sogni að mat manna á sóknaraðila væri allmismunandi. Einnig kemur fram í vitnaleiðslum að fyrri geðsaga sóknaraðila hafi ekki verið skoðuð í þaula, en ætla verður með vísan til alvarleika þeirra atburða sem hér um ræðir, hversu skyndilega þeir virðast brjótast fram, mismunandi sýnar þeirra aðila sem að meðferð sóknaraðila hafa komið á eðli veikinda hennar sem og innsæisleysis sóknaraðila í hættu af sjálfri sér, að slíkt sé nauðsynlegt.

            Dómurinn hefur virt og metið allt það sem hér að framan hefur verið rakið um sjúkdóm, meðferð, bata og batahorfur sóknaraðila, viðhorf hennar sjálfrar til geðheilsu sinnar og aðstæðna allra.  Saga sóknaraðila bendir ótvírætt til þess að hún hafi eindregnar skoðanir á þeirri meðferð sem hún hefur hlotið, eðli hennar og inntaki og sé líkleg til þess að afþakka hana falli hún ekki að skoðunum hennar.  Að mati dómsins er óljóst hve lengi sóknaraðili myndi dvelja á annarri meðferðarstofnun og hvernig framhaldsmeðferð gæti verið háttað eftir það og er því ákveðin óvissa um útskriftaráætlun og framtíðarheimili sóknaraðila.  Þar sem gögn málsins benda til þess að verulegur vafi leiki á því hvort ástand sóknaraðila sé orðið nægilega stöðugt til að raunhæft sé að reyna önnur úrræði en dvöl að Sogni í öryggisgæslu og með hliðsjón af innsæisleysi sóknaraðila verður ekki hjá því komist að hafna kröfu hennar um lausn úr öryggisgæslu.

            Í ljósi þess hve misvísandi álit meðferðarlæknis og matslæknis er í dóminum frá 3. febrúar 2005 og sýn þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem koma að meðferð sóknaraðila virðist vera misjöfn, bendir dómurinn á að nauðsynlegt gæti verið að afla mats dómkvaddra geðlækna á ástandi sóknaraðila til viðbótar við mat starfsmanna og sérfræðinga réttargeðdeildarinnar að Sogni komi til þess að sóknaraðili sæki aftur um lausn úr öryggisgæslu.

Málskostnaður er felldur niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, en hann er málflutningsþóknun lögmanns hans, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur, héraðsdómslögmanns, þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur utan virðisaukaskatts og greiðist úr ríkissjóði. 

Úrskurðinn kveður upp Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri, ásamt Ástríði Grímsdóttur, héraðsdómara og Kristni Tómassyni, geð- og embættislækni.  Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna embættisanna dómenda.

Úrskurðarorð:

                Kröfu Guðrúnar Sesselju Arnardóttur, hdl., skipaðs tilsjónarmanns, f.h. X, um að aflétt verði öryggisgæslu sem X var gert að sæta samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, upp kveðnum 3. febrúar 2005, er hafnað.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, málflutningsþóknun lögmanns hennar, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur, héraðsdómslögmanns, 350.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.