Hæstiréttur íslands
Mál nr. 24/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 16. janúar 2003. |
|
Nr. 24/2003. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Sigurður Georgsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var gert að sæta gæsluvarðhaldi með vísan til a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. janúar 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. janúar 2003, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 17. janúar nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 38. gr. laga nr. 36/1999, dæmist kærumálskostnaður ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. janúar 2003.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, kt. [...], [...] í Reykjavík, verði verði með vísan til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 17. janúar 2003 kl. 16:00.
[...]
Að mati lögreglu séu því miklir hagsmunir af því að orðið verði við kröfu hennar svo ofangreint mál verði upplýst.
X sé grunaður um brot gegn 244. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 20/1956 og 137. gr. laga nr. 82/1998. Með vísan til alls framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, er þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún er sett fram.
Samkvæmt gögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um aðild að umræddu innbroti. Er þar einkum um að ræða skófar sem fannst inni í versluninni og virðist mega rekja til kærða. Þá hefur einn þeirra sem handtekinn var að [...] borið að kærði hafi yfirgefið íbúðina og komið til baka um tveimur klukkustundum síðar. Einnig ber til þess að líta að hluti þýfisins fannst í umræddri íbúð en kærði hefur borið að hann hafi dvalið þar nokkurn tíma í samkvæmi.
Rannsókn málsins er á frumstigi og ber brýna nauðsyn til þess að koma í veg fyrir að kærði nái að spilla sakargögnum og hafa áhrif á vitni eða samseka. Þar sem kærði er grunaður um brot gegn 244. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga, sem varðað geta fangelsisrefsingu, þykir með vísan til framanritaðs og a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 rétt að fallast á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Hjörtur O. Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 17. janúar nk. kl. 16.00.