Hæstiréttur íslands

Mál nr. 474/2017

Samherji hf. (Garðar G. Gíslason hrl.)
gegn
Seðlabanka Íslands (Steinar Þór Guðgeirsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagnaöflun
  • Vitni

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu S hf. um leiða tiltekið vitni til skýrslugjafar og afla þannig sönnunargagna fyrir dómi án þess að mál hefði verið höfðað. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að S hf. hefði ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að skilyrðum væri fullnægt til að beita undantekningarheimild 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til sönnunarfærslu fyrir dómi án þess að mál hefði verið höfðað, sbr. síðari málslið 2. mgr. 78. gr. laganna.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júlí 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 30. júní 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fá að afla sönnunargagna fyrir dómi án þess að mál hafi verið höfðað með því að leiða nafngreint vitni til skýrslugjafar. Kæruheimild er í f. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að sér verði heimilað að leiða vitni þetta fyrir héraðsdóm til skýrslugjafar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Svo sem fram kemur í úrskurði héraðsdóms reisir sóknaraðili fyrrgreinda kröfu sína á síðari málslið 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991, en hann telji sönnunarfærslu þessa geta ráðið úrslitum um hvort hann láti verða af höfðun máls á hendur varnaraðila til heimtu skaðabóta vegna aðgerða þess síðarnefnda við rannsókn á ætluðum brotum sóknaraðila gegn lögum og reglum um gjaldeyrismál. Sóknaraðili hefur ekki í málatilbúnaði sínum fært viðhlítandi rök fyrir því að skilyrðum sé fullnægt til að beita undantekningarheimild þessa lagaákvæðis til sönnunarfærslu fyrir dómi án þess að mál hafi verið höfðað, sbr. síðari málslið 2. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Samherji hf., greiði varnaraðila, Seðlabanka Íslands, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra föstudaginn 30. júní 2017

Mál þetta, sem barst dómnum 27. apríl sl., var tekið til úrskurðar 7. júní sl.

Sóknaraðili er Samherji hf., Glerárgötu 30, Akureyri.

Varnaraðili er Seðlabanki Íslands, Kalkofnsvegi 1, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að fram fari fyrir dóminum vitnaleiðsla yfir A, [...], [...], fyrrverandi [...] hjá [...] Seðlabanka Íslands

Varnaraðili, sem tekið hefur til varna gegn því að vitnaleiðslan fari fram, krefst einnig ómaksþóknunar.

I

Af hálfu sóknaraðila er því lýst að af hans hálfu sé til skoðunar að höfða mál gegn varnaraðila, Seðlabanka Íslands, til innheimtu skaðabóta vegna ætlaðra ólögmætra aðgerða í tengslum við rannsókn á ætluðum brotum hans á lögum og reglum um gjaldeyrismál, sem hófust með húsleitar- og haldlagningaraðgerðum á starfsstöðvum félagsins á Akureyri og í Reykjavík hinn 27. mars 2012, en einnig vegna eftirfarandi málsmeðferðar við rannsóknina.

Sóknaraðili staðhæfir að varnaraðili hafi farið verulega offari í allri málsmeðferð sinni gegn honum og þannig þverbrotið gegn flestum grunnreglum stjórnsýsluréttar, þ.m.t. meðalhófsreglu, rannsóknarreglu og málshraðareglu.  Að auki hafi varnaraðili gróflega brotið á réttindum hans, sem honum séu tryggð til réttlátrar málsmeðferðar í íslensku stjórnarskránni og samkvæmt ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1992.

Sóknaraðili tekur fram að umbeðinni vitnaleiðslu sé ætlað að upplýsa um aðdragandann að rannsókn varnaraðila, þ.m.t. varðandi ákvörðunina um lýstar aðgerðir og um grundvöll þeirra, en einnig hvað ráðið hafi því að varnaraðili hafi í tvígang beint kærum til sérstaks saksóknara vegna málsins.

Sóknaraðili segir að tilgangur hans með vitnaleiðslunni sé nánar sá að freista þess að upplýsa um ofangreind atriði fyrir dómi, áður en ákvörðun um málshöfðun sé tekin, sem að mati hans skipti verulegu máli við mat á bótaskyldu.

Sóknaraðili gerir í beiðni sinni nánar grein fyrir atvikum máls, og þá þannig að þann 27. mars 2012 hafi varnaraðili framkvæmt víðtæka húsleit ásamt haldlagningu gagna á starfsstöðvum hans á Akureyri og í Reykjavík, samkvæmt úrskurði sem Héraðsdómur Reykjavíkur hafi kveðið upp.  Til grundvallar aðgerðum þessum hafi verið frásögn varnaraðila um að hann væri að rannsaka hvort verð sóknaraðila við útflutning til tengdra aðila væri í samræmi við það sem almennt tíðkaðist í viðskiptum óskyldra aðila og að verðútreikningar sem aflað hafði verið styddu að svo væri ekki og þar með að um brot á lögum og reglum um gjaldeyrismál gæti verið að ræða.

Sóknaraðili vísar til þess að þann 10. apríl 2013 hafi varnaraðili beint kæru um greind brot hans til embættis sérstaks saksóknara og þá þannig að hin ætlaðu brot vörðuðu m.a. svokölluð milliverðlagningabrot sóknaraðila og dótturfélaga hans.  Í kærunni hafi verið tíundað að ætluð brot vörðuðu verulegar fjárhæðir og teldust því meiri háttar, án þess þó að tilgreindar hefðu verið fjárhæðir eða viðhöfð nánari lýsing á hinni ætluðu brotastarfsemi.  Aðeins hafi fylgt ýmsar rannsóknarskýrslur varnaraðila, en þar hafi m.a. verið tiltekið að heildarumfang brota varnaraðila og tengdra aðila væri að jafnvirði tæpra áttatíu milljarða króna.

Sóknaraðili vísar til þess að embætti sérstaks saksóknara hafi endursent varnaraðila kæruna með bréfi, dagsettu 28. ágúst 2013, með þeim orðum að lagaheimildir skorti til að gera lögaðilum refsingu vegna hinna ætluðu brota.  Hafi varnaraðili brugðist við þessari niðurstöðu þann 9. september sama ár og þá með því að senda nýja kæru til embættis sérstaks saksóknara vegna sömu brota, en þá hafi fjórir einstaklingar, starfsmenn samstæðu sóknaraðila, verið kærðir.  Með bréfi sérstaks saksóknara, dagsettu 4. september 2015, til varnaraðila hafi verið tilkynnt að það væri ákvörðun embættisins að fella bæri kærumál nefndra einstaklinga niður.

Sóknaraðili bendir á að varnaraðili hafi fyrst með bréfi, dagsettu 30. mars 2016, veitt honum upplýsingar um meðferð greinds máls og þá þannig að ákveðið hefði verið að halda ekki áfram rannsókn málsins á fyrrnefndum grunni. Hafi þannig liðið fjögur ár frá áðurgreindum upphafsaðgerðum þar til varnaraðili tilkynnti sóknaraðila um niðurfellingu á hinu upprunalega kærumáli.

Sóknaraðili staðhæfir að varnaraðili hafi þann 1. september 2016 boðið honum að ljúka málinu með sátt, þ.e. með 8.500.000 króna sekt til ríkissjóðs.  Er sóknaraðili hafi hafnað boðinu hafi varnaraðili tekið stjórnvaldsákvörðun vegna ætlaðra brota hans á lögum og reglum um gjaldeyrismál, og þá á þeim grunni að hann hefði ekki skilað á réttum tíma til Íslands gjaldeyri sem til hafi fallið vegna afleiðusamninga sem hann hafði gert og varnaraðili taldi skilaskyldan. Með greindri ákvörðun hafi sóknaraðila verið gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 15.000.000 króna til ríkissjóðs.  Sóknaraðili hafi brugðist við vegna þessa og höfðað ógildingarmál.  Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 24. apríl sl., í máli nr. E-2995/2016, hafi áðurgreind stjórnvaldsákvörðun varnaraðila verið ógilt.

Til frekari stuðnings fyrir kröfu sinni um áðurgreinda vitnaleiðslu vísar sóknaraðili m.a. til þess að út hafi komið á árinu 2016 bókin Gjaldeyriseftirlitið – vald án eftirlits eftir Björn Jón Bragason, sagnfræðing og lögfræðing.  Sóknaraðili staðhæfir að í bók þessari sé ítarleg umfjöllun um rannsókn varnaraðila á fyrrgreindum ætluðum brotum hans á lögum og reglum um gjaldeyrismál.  Sóknaraðili rekur að nokkru efni bókarinnar og vísar m.a. til frásagnar um aðkomu nafngreinds endurskoðanda, sem hafi starfað um tíma hjá varnaraðila.  Hafi útreikningar endurskoðandans leitt í ljós að skilaskylda sóknaraðila á erlendum gjaldeyri hafi ekki náð tiltekinni viðmiðunarfjárhæð við rannsókn hans á árinu 2010.  Af þessum sökum hafi sóknaraðili ekki verið kærður til lögreglu líkt og gerst hafði með fjögur tiltekin sjávarútvegsfyrirtæki.  Á hinn bóginn hefðu samkvæmt nefndri heimild verið uppi grunsemdir á árinu 2012 um að sóknaraðili kynni að hafa stundað milliverðlagningabrot, og þá með því að selja erlendum dótturfélögum sínum sjávarafurðir á undirverði og að hann hafi þannig komið sér undan því að skila réttu söluandvirði sjávarafurða til Íslands.  Sóknaraðili staðhæfir að á slíkum grunni hafi verið byggt þegar varnaraðili lagði fram beiðni hjá Héraðsdómi Reykjavíkur í mars 2012, en þó án þess að þar væru tilteknar fjárhæðir.  Sóknaraðili vísar til þess að starfsmenn hans hafi komist að raun um þennan málatilbúnað varnaraðila er nefndur A, sem þá hafi verið [...], hafi í aprílmánuði 2012 afhent gögn um málatilbúnað varnaraðila.  Í kjölfarið hafi sóknaraðili getað hrakið útreikninga og villur í kröfugerð varnaraðila og þar með grundvöllinn fyrir áðurlýstum fyrstu aðgerðum, í mars 2012.

Sóknaraðili byggir á því að vegna áðurgreindrar stöðu A hjá varnaraðila hafi hann m.a. komið að lýstum upphafsaðgerðum, en að auki hafi hann um svipað leyti afturkallað fyrrgreindar kærur varnaraðila gegn áðurgreindum fjórum sjávarútvegsfyrirtækjum og þá vegna hinna sömu röngu útreikninga.  Þá hafi A eins og fyrr sagði afhent sóknaraðila gögn vorið 2012, sem varðað hafi lýstar upphafsaðgerðir varnaraðila.

Sóknaraðili byggir á því að hann þurfi á frekari upplýsingum að halda og þá m.a. um grundvöll lýstra aðgerða, um það hvort ólögmæt sjónarmið hafi ráðið för m.a. varðandi áðurgreinda útreikninga, og þá varðandi undirbúning og ákvörðunartöku um hugsanlega málshöfðun til heimtu skaðabóta á hendur varnaraðila.

Um lagarök vísar sóknaraðili til 2. mgr. 77. gr., sbr. 78. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

II.

Varnaraðili byggir á því að ekki sé fullnægt skilyrðum 2. mgr. 77. gr., sbr. 78. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að dómari geti fallist á beiðni sóknaraðila um greinda vitnaleiðslu í máli þessu.

Varnaraðili bendir á að sú rannsókn sem sóknaraðili vísi til hafi lyktað með ákvörðun um stjórnvaldssekt vegna tilgreindra brota á ákvæðum laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál.  Sóknaraðili hafi höfðað mál til ógildingar þeirri ákvörðun og að með fyrrnefndum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2995/2016, uppkveðnum 24. apríl 2017, hafi ákvörðun varnaraðila verið felld úr gildi.  Hann bendir á að ekki hafi enn verið tekin ákvörðun um áfrýjun málsins til Hæstaréttar Íslands.  Varnaraðili bendir á að í nefndu dómsmáli hafi ítarlega verið fjallað um upphaf og aðdraganda rannsóknaraðgerðanna frá árinu 2012, bæði fyrir og við málsmeðferðina fyrir dómi.

Varnaraðili byggir á því að hann hafi afhent sóknaraðila öll þau gögn sem varðað hafi umrædda rannsókn og hann hafi átt rétt til á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-1523/2015, frá 16. febrúar 2015.  Hann bendir á að í nefndu héraðsdómsmáli hafi nánar tilgreindum kröfum sóknaraðila um afhendingu gagna eða upplýsinga verið hafnað eða vísað frá dómi þar sem talið hafi verið að þær lytu að gögnum eða upplýsingum sem væru undanþegnar upplýsingarétti aðila eða að á þeim grunni að sóknaraðili hefði ekki sýnt fram á að félagið hefði lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfur sínar.  Varnaraðili bendir einnig á að sóknaraðili hafi höfðað nokkur dómsmál vegna áðurgreindra þvingunaraðgerða og staðhæfir að í þeim málarekstri öllum hafi aðdragandinn og grundvöllur rannsóknar hans verið rakinn með ítarlegum hætti, sbr. t.d. í dómum Hæstaréttar í málunum nr. 215/2012, nr. 356/2012, nr. 357/2012, nr. 659/2012, nr. 110/2013 og nr. 206/2013.  Þessu til viðbótar hafi greind málsmeðferð varnaraðila verið til meðferðar hjá Umboðsmanni Alþingis, og þá í kjölfar kvartana sóknaraðila.

Varnaraðili áréttar að sóknaraðili hafi fengið í hendur öll þau gögn og upplýsingar sem um hafi verið beðið og hann hafi átt rétt til.  Af þeim sökum sé ekkert því til fyrirstöðu að sóknaraðili geti lagt mat á réttarstöðu sína.  Verði því ekki séð að sú sönnunarfærsla sem hann óski eftir að fari fram sé nauðsynleg til þess að hann geti áttað sig á réttarstöðu sinni eða að hann geti byggt upp kröfugerð sína gagnvart varnaraðila, né hvernig hún geti ráðið slíkum úrslitum um það hvort tilefni sé til málsóknar á hendur varnaraðila, eins og tilskilið sé samkvæmt 2. málslið 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991.

Varnaraðili staðhæfir að í beiðni sóknaraðila um hina fyrirhuguðu vitnaleiðslu séu ekki tilgreind þau atvik sem hann hyggst leita sönnunar um, hvernig sönnunarinnar verði leitað, né hvaða réttindi séu í húfi.  Þá skorti í beiðninni með öllu rökstuðning fyrir því hvers vegna sönnunarfærslan geti ráðið niðurstöðu um hvort mál verði síðar höfðað, en þetta allt sé í andstöðu við ákvæði 2. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991.

Varnaraðili bendir á að í beiðni sóknaraðila komi einungis fram að sóknaraðili telji að nefndur A „búi yfir upplýsingum sem að varpa skýrara ljósi á upphaf og aðdraganda húsleitar Seðlabankans hjá félaginu.“

Varnaraðili byggir á því að ekki verði af þessu séð að tilgangurinn með vitnaleiðslunni sé að varpa ljósi á atvik sem sóknaraðili telji grundvöll málshöfðunar.  Þvert á móti sé ætlunin með henni að leita að misfellum án þess að bent hafi verið á nokkuð sem gefi tilefni til að ætla að um misfellur hafi verið að ræða.  Varnaraðili vísar einnig til þess að vinnuskjöl stjórnvalds og upplýsingar sem snúi að starfsemi þess og feli ekki í sér endanlega ákvörðun séu undanþegnar upplýsingarétti málsaðila samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga.  Verði því með engu móti ráðið af beiðni sóknaraðila hvaða tilgangi yfirheyrsla yfir umræddum aðila eigi að þjóna eða hvaða atriði henni sé ætlað að varpa ljósi á sem ekki liggi þegar fyrir.

Varnaraðili bendir á að beiðni sóknaraðila byggist einkum á tilvísun í fyrrgreinda bók, sem út hafi komið árið 2016, en þar sé byggt á viðtölum við forsvarsmenn sóknaraðila, en einnig við ónafngreinda heimildarmenn höfundar.  Í bókinni séu starfsmönnum varnaraðila ekki vandaðar kveðjurnar, en að auki séu þeim gerðar upp ýmsar annarlegar hvatir við upphaf og meðferð rannsóknar nefnds máls gegn sóknaraðila.  Verði ráðið af beiðni sóknaraðila að hann telji nefndan A heimildarmann höfundar bókarinnar og að það eigi að rökstyðja þörfina fyrir vitnaleiðslunni.

Varnaraðili byggir á því að um þagnarskyldu starfsmanna varnaraðila gildi ákvæði 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands.  Hann bendir á að þagnarskyldan gildi um hagi viðskiptamanna bankans, málefni bankans sjálfs og önnur atriði sem starfsmenn fái vitneskju um í starfi sínu og leynt skuli fara samkvæmt lögum eða eðli máls.  Varnaraðili bendir einnig á að samkvæmt 15. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál séu þeir sem annist framkvæmd laganna með sama hætti bundnir þagnarskyldu um hagi einstakra viðskiptamanna og önnur atriði sem þeir fái vitneskju um í starfi sínu og leynt skuli fara samkvæmt lögum eða eðli máls.  Hann byggir á því að samkvæmt greindum lagaákvæðum haldist þagnarskylda þótt látið sé af starfi og því sé umræddur A bundinn af þeim.

Varnaraðili bendir á að í b- og c-liðum 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 sé kveðið á um undanþágur frá vitnaskyldu samkvæmt 51. gr. sömu laga.  Og við mat á beiðni sóknaraðila um að leiða sem vitni A, sem hafi verið [...] sem hafi starfað sem sérfræðingur hjá varnaraðila, beri jafnframt að hafa hliðsjón af ákvæðunum.

Með vísan til alls ofangreinds byggir varnaraðili á því að beiðni sóknaraðila uppfylli ekki kröfur XII. kafla laga nr. 91/1991 og því beri að hafna henni.  Kröfu sína um ómaksþóknun byggir varnaraðili á 4. mgr. 79. gr. laga nr. 91/1991.

III.

Samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91, 1991 er aðila heimilt að leita með vitna­leiðslu sönnunar fyrir dómi um atvik sem varða lögvarða hagsmuni hans og geta ráðið niðurstöðu um hvort hann láti verða af málshöfðun vegna þeirra.  Samkvæmt 2. mgr. 78. gr. laganna ber aðila að rökstyðja hvers vegna sönnunarfærsla geti ráðið niðurstöðu um hvort mál verði síðar höfðað.

Af hálfu sóknaraðila er beiðni hans rökstudd meðal annars með því að hann kunni að eiga rétt á skaðabótum úr hendi varnaraðila vegna aðgerða í tengslum við þvingunaraðgerðir vorið 2012, sem í öndverðu hafi verið gerðar í tengslum við rannsókn á ætluðum óeðlilegum milliverðlagningum og refsiverðum brotum á tilgreindum lögum og reglum um gjaldeyrismál.  Sóknaraðili staðhæfir að varnaraðili hafi farið offari í allri málsmeðferð sinni gegn honum og m.a. brotið gegn flestum grunnreglum stjórnsýsluréttar.  Að auki hafi varnaraðili með aðgerðunum gróflega brotið á réttindum sóknaraðila, sem honum séu tryggð til réttlátrar málsmeðferðar í íslensku stjórnarskránni og samkvæmt ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1992.  Kveðst sóknaraðili með beiðninni, nái hún fram að ganga, ætla að freista þess að upplýsa um atvik betur, þ. á m. hvaða legið hafi að baki aðgerðunum, en einnig varðandi gögn og útreikninga og þá áður en hann taki ákvörðun um málshöfðun.

Að áliti dómsins verður að líta til þess að áhætta af kostnaði af sönnunarfærslunni hvílir á sóknaraðila.  Verður ekki litið svo á að skýra beri þröngt heimild til sönnunarfærslu af því tagi sem hér er leitað eftir, að uppfylltum lagaskilyrðum. Verður að því sögðu almennt talið nægilegt að það vitni sem fyrirhugað er að leiða geti borið um atriði sem tengjast sakarefni í hugsanlegu dómsmáli, þannig að fyrirfram verði að telja líklegt að það geti upplýst um einhver atvik, sem áhrif hafi á sakarefnið.  Að nefndum skilyrðum uppfylltum nægir að mati dómsins ekki að vísa til þeirra ákvæða um þagnarskyldu, sem varnaraðili tilgreinir, en þeir hagsmunir verða eftir atvikum að víkja, sbr. ákvæði 3. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991.

Að ofangreindu virtu er að áliti dómsins ljóst að sóknaraðili hefur lögvarða hagsmuni af því að leita sönnunar um þau atvik sem lýst er almennt í beiðni hans.

Á meðal þeirra skilyrða sem sett eru fyrir því að aðili geti aflað sönnunargagna án þess að mál hafi verið höfðað er að sönnunarfærslan geti ráðið niðurstöðu eða úrslitum um hvort aðilinn láti verða af málshöfðun, sbr. ákvæði 2. málsliðar 2. mgr. 77. gr. einkamálalaganna.

Af gögnum verður ráðið, sbr. tilvísun varnaraðila til áðurgreindra dóma Hæstaréttar Íslands og þess sem fram kom fyrir dómi, að sóknaraðili hefur þegar fengið þau gögn í hendur frá varnaraðila, þ. á m. varðandi áðurgreind kæruerindi og útreikninga, sem hann hefur óskað eftir, líkt og heimildir standa á annað borð til, sbr. m.a. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. 1523/2014, en þá að virtum 3. tölulið 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem varða vinnuskjöl varnaraðila.

Hefur sóknaraðili að þessu virtu ekki sýnt fram á að fyrrgreint skilyrði 2. málsliðar 2. mgr. 77. gr. einkamálalaganna sé uppfyllt og þá þannig að sýnt sé að málið liggi ekki þegar nægilega skýrt fyrir og að þörf sé á umbeðinni, fyrirfram vitnaleiðslu, vegna hinna umþrættu þvingunaraðgerða og aðdraganda þeirra, en einnig að nokkru vegna eftirmálanna, en upplýst var fyrir dómi að nefndur A lét af störfum er rannsókn varnaraðila var enn í gangi.

Verða því tekin til greina andmæli varnaraðila gegn því að umbeðin vitnaleiðsla fari fram.

Rétt þykir að aðilar beri hvor sinn kostnað af málarekstri þessum.

Úrskurðinn kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Samherja hf., um að fá að leiða fyrir dóminn fyrrverandi [...] hjá [...] Seðlabanka Íslands, A, [...], [...], til skýrslugjafar sem vitni.

Málskostnaður fellur niður.