Hæstiréttur íslands

Mál nr. 527/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Ráðgefandi álit
  • EFTA-dómstóllinn


Dómsatkvæði

                                     

Mánudaginn 18. ágúst 2014.

Nr. 527/2014.

Icelandair ehf. og

(Helga Melkorka Óttarsdóttir hrl.)

Isavia ohf.

(Hlynur Halldórsson hrl.)

gegn

Samkeppniseftirlitinu og

(Gizur Bergsteinsson hrl.)

Wow air ehf.

(Páll Rúnar M. Kristjánsson hdl.)

Kærumál. Ráðgefandi álit. EFTA-dómstóllinn.

W ehf. höfðaði mál á hendur S, I ohf. og I ehf. og krafðist þess að tveir úrskurðir áfrýjunarnefndar samkeppnismála yrðu felldir úr gildi. W ehf. hafði beint erindi til S og kvartað yfir fyrirkomulagi I ohf. við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli vegna flugs til Bandaríkjanna árið 2014 og lauk S málsmeðferð vegna kvörtunarinnar með ákvörðun, þar sem þeim fyrirmælum var beint til I ohf. að W ehf. yrði gert kleift að hefja flug til Bandaríkjanna í samkeppni við aðra flugrekendur. I ohf. og I ehf. skutu þeirri ákvörðun S hvort fyrir sitt leyti til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem felldi ákvörðunina úr gildi með fyrrgreindum tveimur úrskurðum sínum. Undir meðferð málsins í héraði beiddist ehf. þess að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á nánar tilgreindum atriðum um skýringu á reglugerð 95/93/EBE, m.a. um stöðu svokallaðs samræmingarstjóra flugvalla samkvæmt reglugerðinni. Með hinum kærða úrskurði var beiðni I ohf. hafnað með vísan til þess að ekki yrði séð að svör EFTA-dómstólsins við þeim spurningum, sem fram kæmu í beiðninni, hefðu þýðingu fyrir úrlausn málsins. Var í því sambandi vísað til þess að þau atriði, sem beiðnin I ohf. laut að, vörðuðu skýringu íslenskra laga og réttarheimilda og að EFTA-dómstóllinn yrði ekki krafinn um skýringu á ákvæðum landsréttar aðildarríkja. Þá félli túlkun innlendra samkeppnislaga og mat á rétthæð þeirra gagnvart öðrum landslögum utan valdsviðs EFTA-dómstólsins. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um evrópska efnahagssvæðið skuli skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggi. Slík lögskýring taki eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum verði svo sem framast sé unnt gefin merking, sem rúmist innan þeirra og komist næst því að svara til sameiginlegra reglna sem gildi á Evrópska efnahagssvæðinu. Í ljósi atvika málsins, málsástæðna W ehf. og kröfugerðar hans í málinu væri nægjanlega fram komið að skýring á ákvæðum reglugerðar 95/93/EBE gæti haft þýðingu þegar leyst verði úr kröfum S og W ehf. og þar með haft áhrif á úrslit málsins. Var því kveðið á um að leitað skyldi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði. Kom fram í því sambandi að engu breytti þótt málið væri rekið sem flýtimeðferðarmál, enda gæti forseti EFTA-dómstólsins samkvæmt starfsreglum dómstólsins tekið ákvörðun um flýtimeðferð máls ef ljóst væri af ástæðum sem vísað væri til að verulega brýnt sé að leysa úr málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 22. og 30. júlí 2014, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. júlí 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tiltekin atriði í tengslum við mál varnaraðilans Wow air ehf. á hendur sóknaraðilum og varnaraðilanum Samkeppniseftirlitinu. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðilar krefjast þess að fyrrgreind krafa þeirra verði tekin til greina. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. 

Málið er rekið sem flýtimeðferðarmál samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

I

Varnaraðilinn Wow air ehf. beindi 14. mars 2013 erindi til varnaraðilans Samkeppniseftirlitsins þar sem kvartað var yfir fyrirkomulagi sóknaraðilans Isavia ohf. við úthlutun á afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli vegna fyrirhugaðs áætlunarflugs  Wow air ehf. til Bandaríkjanna árið 2014. Samkeppniseftirlitið lauk málsmeðferð vegna kvörtunarinnar með ákvörðun 1. nóvember 2013 í máli nr. 25/2013 þar sem tilteknum fyrirmælum, sem nánar er gerð grein fyrir í hinum kærða úrskurði, var beint til Isavia ohf. Með kæru 28. nóvember 2013 skaut sá sóknaraðili ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi. Sóknaraðilinn Icelandair ehf. skaut ákvörðun Samkeppniseftirlitsins fyrir sitt leyti til áfrýjunarnefndarinnar með kæru 29. sama mánaðar og krafðist þess einnig að ákvörðunin yrði felld úr gildi. Fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála krafðist Samkeppniseftirlitið í báðum málunum að fyrrgreind ákvörðun þess yrði staðfest. Með úrskurðum áfrýjunarnefndarinnar 27. febrúar 2014 komst hún að þeirri niðurstöðu að samræmingarstjóri á Keflavíkurflugvelli fari með sjálfstætt stjórnsýsluvald samkvæmt íslenskum lögum á því sviði sem lýst er í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar. Yrði máli þessu því ekki beint að Isavia ohf., þar sem félagið brysti heimild til að fylgja eftir þeim fyrirmælum sem mælt var fyrir um í hinni kærðu ákvörðun. Var ákvörðun  Samkeppniseftirlitsins því felld úr gildi. Að fenginni þeirri niðurstöðu var ekki talin þörf á að fjalla um aðrar málsástæður aðila. Lýtur málsókn Wow air ehf. að því að fá endurskoðun á þessari niðurstöðu.

II

Samkvæmt heimild í 57. gr. c laga nr. 60/1998 um loftferðir voru með reglugerðum nr. 1050/2008 og 840/2009 innleiddar í íslenskan rétt sameiginlegar EES-reglur um úthlutun afgreiðslutíma á bandalagsflugvöllum samkvæmt reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/1993 frá 18. janúar 1993, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 793/2004 frá 21. apríl 2004 og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 545/2009 frá 18. júní 2009.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um evrópska efnahagssvæðið skal skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Tekur slík lögskýring eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum verði svo sem framast er unnt gefin merking, sem rúmast innan þeirra og næst kemst því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eiga á Evrópska efnahagssvæðinu. Í lögum nr. 60/1998, lögum nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl., reglugerð nr. 1050/2008 og áðurnefndum reglugerðum ráðsins (EBE) og Evrópuþingsins og ráðsins (EB) er ekki kveðið skýrt á um stöðu samræmingarstjóra flugvalla.

Þegar framangreint er virt í ljósi atvika málsins, sem rakin eru í hinum kærða úrskurði, málsástæðna varnaraðilans Wow air ehf. og kröfugerðar hans í málinu er nægjanlega fram komið að skýring á ákvæðum reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 95/1993 geti haft þýðingu þegar leyst er úr kröfu varnaraðila og þar með haft áhrif á úrslit málsins. Samkvæmt því er með vísan til laga nr. 21/1994 rétt að leitað verði  ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á ákvæðum hennar, en spurningum til hans ber að haga á þann veg sem nánar greinir í dómsorði. Breytir þar engu þótt málið sé rekið sem flýtimeðferðarmál eftir XIX. kafla laga nr. 91/1991. Er þá til þess litið að samkvæmt 97. gr. a starfsreglna EFTA-dómstólsins getur forseti hans, eftir beiðni dómstóls aðildarríkis og að tillögu framsögumanns, ákveðið flýtimeðferð og vikið frá ákvæðum starfsreglnanna varðandi ráðgefandi álit, ef ljóst er af aðstæðum sem vísað er til að verulega brýnt sé að leysa úr málinu.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Leita skal ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi:

1.      Leggur reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/1993 frá 18. janúar 1993 um sameiginlegar reglur um úthlutun afgreiðslutíma á bandalagsflugvöllum þá skyldu á herðar aðildarríkjunum að samræmingarstjóra, sem skipaður er samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar, sé við framkvæmd starfa sinna með reglum landsréttar fengið í hendur sjálfstætt stjórnsýsluvald, sem sé hluti af framkvæmdavaldi aðildarríkisins, eða hefur aðildarríkið frjálsar hendur um hver staða samræmingarstjóra er að þessu leyti samkvæmt reglum landsréttar?

2.      Er við það miðað í 7. og 8. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 95/1993, þar sem eru fyrirmæli um meðferð kvartana vegna úthlutunar afgreiðslutíma, að allar kvartanir, þar með taldar kvartanir sem reistar eru á samkeppnissjónarmiðum, fari í þann farveg sem þar er mælt fyrir um, eða ber að skilja þau orð 15. liðar aðfararorða reglugerðarinnar að henni skuli beitt með fyrirvara um samkeppnisreglur sáttmálans, einkum 85. og 86. gr., á þann veg að kvartanir reistar á samkeppnissjónarmiðum lúti alfarið lögsögu samkeppnisyfirvalda í viðkomandi aðildarríki og skuli því beint til þeirra?

3.      Ef samkeppnisyfirvald í aðildarríki beinir á grundvelli innlendra   samkeppnis­­laga og með vísan til reglugerðar nr. 95/1993 fyrirmælum í því skyni að efla samkeppni, er þá við það miðað í reglugerðinni að þeim fyrirmælum sé beint til þess aðila sem samkvæmt henni fer með flugvallarstjórn (managing body of an airport/competent authority) eða skal þeim fyrirmælum beint til samræmingarstjóra?

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. júlí 2014 .

I

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 1. júlí sl. um hvort leita skyldi ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, er höfðað með stefnu birtri 20. mars 2014.

Stefnandi er Wow air ehf.

Stefndu eru Samkeppniseftirlitið, Isavia ohf. og Icelandair ehf.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að úrskurðir áfrýjunarnefndar samkeppnismála 27. febrúar 2014 í málum nr. 10/2013, Isavia ohf. gegn Samkeppniseftirlitinu, og í máli nr. 11/2013, Icelandair ehf. gegn Samkeppniseftirlitinu, verði felldir úr gildi. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu.

                Stefndi Samkeppniseftirlitið krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað.

Stefndi Isavia ohf. krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað.

Stefndi Icelandair ehf. krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað auk álags á málskostnað samkvæmt c-lið 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.

Með úrskurði héraðsdóms 9. maí sl. var máli þessu vísað frá dómi. Með dómi Hæstaréttar 16. júní sl. var sá úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Mál þetta er rekið sem flýtimeðferðarmál samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

II

Málið er nú tekið til úrskurðar um kröfu stefndu Isavia ohf. og Icelandair ehf. um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins vegna málsins.

Með greinargerð sinni lagði stefndi Icelandair ehf. fram beiðni um öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins vegna málsins og krafðist þess að eftirfarandi spurningar yrðu lagðar fyrir dómstólinn:

1.       Samrýmist það ákvæðum reglugerðar nr. 95/93/EB, með síðari breytingum, að rekstraraðili flugvallar hafi afskipti af úthlutun afgreiðslutíma á viðkomandi flugvelli með því að; a) sjá til þess að tiltekinn flugrekandi njóti forgangs að tilteknum afgreiðslutímum, á grundvelli ákvörðunar samkeppnisyfirvalda samningsríkis að EES samningnum þar um sem beindist einvörðungu að rekstraraðila flugvallar, eða; b) útbúa leiðbeiningar fyrir samræmingarstjóra flugvallarins þar sem fram komi með skýrum hætti að hann skuli hafa samkeppnissjónarmið að leiðarljósi við úthlutun afgreiðslutíma sem skulu m.a. fela í það í sér að ef tvær eða fleiri umsóknir berast um sömu afgreiðslutíma á tiltekinni áætlunarflugleið skuli umsókn þess félags þar sem hlutdeild miðað við fjölda farþega er lægri almennt njóta forgangs, á grundvelli ákvörðunar samkeppnisyfirvalda samningsríkis að EES samningnum þar um sem beindist einvörðungu að rekstraraðila flugvallar.

2.       Samræmist það ákvæðum reglugerðar nr. 95/93/EB að samkeppnisyfirvöld í einstöku aðildarríki að EES samningnum komist að þeirri niðurstöðu að úthlutun afgreiðslutíma í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar brjóti gegn innlendum samkeppnislögum og taki ákvörðun sem beinist gegn rekstraraðila tiltekins flugvallar þess efnis að rekstraraðilinn skuli; a) sjá til þess að tiltekinn flugrekandi njóti forgangs að tilteknum afgreiðslutímum, á grundvelli ákvörðunar samkeppnisyfirvalda samningsríkis að EES samningnum þar um sem beindist einvörðungu að rekstraraðila flugvallar, og; b) útbúa leiðbeiningar fyrir samræmingarstjóra flugvallarins þar sem fram komi með skýrum hætti að hann skuli hafa samkeppnissjónarmið að leiðarljósi við úthlutun afgreiðslutíma sem skulu m.a. fela í það í sér að ef tvær eða fleiri umsóknir berast um sömu afgreiðslutíma á tiltekinni áætlunarflugleið skuli umsókn þess félags þar sem hlutdeild miðað við fjölda farþega er lægri almennt njóta forgangs.

3.       Samræmist það ákvæðum reglugerðar nr. 95/93/EB og 4. gr. EES samningsins að litið sé til sjónarmiða um „heimahöfn“ flugfélags og möguleika þess á að byggja upp leiðarkerfi frá viðkomandi flugvelli sem „heimahöfn“ þess, við úthlutun afgreiðslutíma á flugvöllum.

Stefndi Isavia ohf. áskildi sér í greinargerð rétt til að setja fram kröfu um að leitað yrði ráðgefandi álits. Með beiðni dagsettri 25. júní sl. sem barst dóminum 26. júní sl. setti stefndi fram neðangreindar spurningar og gerði þá kröfu að dómurinn beindi þeim til EFTA-dómstólsins:

1.              Samrýmist það ákvæði 1. tl. 4. gr. reglugerðar EBE 95/93, sem segir að aðildarríki, sem ber ábyrgð á flugvelli með afgreiðslutíma eftir samráði eða flugvelli með skammtaðan afgreiðslutíma, skal sjá til þess að hæfur einstaklingur eða lögaðili verði skipaður sem samráðs- eða samræmingarstjóri flugvallarins, hefur verið innleitt í landslög aðildarríkis á þann hátt að framkvæmdastjórn flugvallar skuli sjá til þess að hæfur einstaklingur eða lögaðili verði skipaður sem samráðs- eða samræmingarstjóri flugvallarins? Gengur framangreint fyrirkomulag gegn markmiðum reglugerðar EBE 95/93 um að samræmingarstjóri flugvallar skuli vera sjálfstæður og óháður í störfum sínum sem samræmingarstjóri?

2.       Samræmist það efni reglugerðar EBE 95/93 að samræmingarstjóri flugvallar skuli vera undir boðvaldi flugvallarrekanda þannig að stjórn þess flugvallar þar sem samræmingarstjóri hefur verið skipaður geti gefið honum fyrirmæli um það hvernig honum beri að haga úthlutun afgreiðslutíma?

3.       Samræmist það efni og tilgangi reglugerðar EBE 95/93 að samræmingarstjóri, skipaður samkvæmt 1. tl. 4. gr. reglugerðar EBE 95/93, og rækja skal störf sín af fullu sjálfstæði í samræmi við reglugerðina, sbr. 2. tl. 1. mgr. 4. gr., taki við fyrirmælum frá stjórnvaldi aðildarríkis um að úthluta afgreiðslutíma á flugvelli í samræmi við efni stjórnvaldsákvörðunar sem inniheldur aðrar efnisreglur eða skilyrði en er að finna í reglugerð EBE 95/93, sbr. t.d. úthlutunarreglur 8. gr. reglugerðarinnar?

4.       Í 8. gr. b. reglugerð EBE 95/93 segir að reglugerð[in] skal ekki hafa áhrif á vald opinberra yfirvalda til að krefjast færslu afgreiðslutíma milli flugrekenda og til að stjórna hvernig þeim er úthlutað í samræmi við innlend samkeppnislög eða 81. eða 82. gr. sáttmálans eða reglugerð ráðsins (EBE) nr. 4064/89 frá 21. desember 1989 um eftirlit með samfylkingum fyrirtækja. Felst í framangreindu ákvæði heimild handa samkeppnisyfirvöldum aðildarríkis EES-samningsins til þess að krefjast færslu á afgreiðslutíma milli flugrekenda á þeirri forsendu að úthlutun afgreiðslutíma á grundvelli ákvæða reglugerðar EBE 95/93 hafi skaðleg áhrif á samkeppni og fari gegn markmiðum samkeppnislaga viðkomandi aðildarríkis?

Stefndi Samkeppniseftirlitið krefst þess að kröfum stefnda Isavia ohf. og Icelandair ehf. um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins verði hafnað.

Stefnandi Wow air ehf. krefst þess að kröfum stefndu Isavia ohf. og Icelandair ehf. verði hafnað og að stefndu Isavia ohf. og Icelandair ehf. verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins. Verði ákveðið að leita álits EFTA-dómstólsins er þess krafist að stefnanda verði veitt gjafsókn samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 21/1994 um öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið.

III

Samkvæmt stefnu og framlögðum gögnum sendi stefnandi Samkeppniseftirlitinu erindi 14. mars 2013, sbr. mál eftirlitsins nr. 25/2013, þar sem kvartað var yfir fyrirkomulagi stefnda Isavia ohf. á úthlutun á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli. Í ákvörðun stefnda Samkeppniseftirlitsins vegna málsins frá 1. nóvember 2013 kemur fram að stefnandi hafi ætlað að bjóða upp á áætlunarflug til Bandaríkjanna árið 2014 en forsenda þess hafi verið sú að stefnandi fengi úthlutað nauðsynlegum afgreiðslutímum til lendingar og brottfarar frá Keflavíkurflugvelli. Þar segir einnig að í erindi stefnanda til stefnda Samkeppniseftirlitsins komi fram að úthlutun á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli sé á hendi stefnda Isavia ohf. og byggist á reglugerð nr. 1050/2008. Núna séu það einkum tveir aðilar sem keppist um að ná sem bestum afgreiðslutímum, þ.e. stefnandi og stefndi Icelandair ehf., og sé það mat stefnanda að stefndi Icelandair ehf. sé markaðsráðandi á markaði fyrir áætlunarflug til og frá Íslandi. Telji hann að úthlutun á afgreiðslutímum sé helsta aðgangshindrunin inn á íslenskan flugmarkað og sé í því sambandi vísað til skýrslna Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2008 og nr. 2/2011.

Í erindinu er vísað til a-liðar 2. gr. reglugerðar nr. 1050/2008 þar sem fram kemur að afgreiðslutími sé leyfi sem samræmingarstjóri veiti í samræmi við reglugerðina til að nota fyrirliggjandi aðstöðu flugvallar til að starfrækja flugþjónustu á flugvelli með skömmtuðum afgreiðslutíma, á tilgreindum tíma og degi, til lendingar og flugtaks. Úthlutun á afgreiðslutíma fari í gegnum Keflavik Slot Coordination Committee (KSCC). Þar sitji allir rekstraraðilar á Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt „Terms of reference“ fyrir KSCC séu greidd atkvæði um afgreiðslutímana í KSCC. Úthlutun fari fram tvisvar á ári á fundum í KSCC í mars/apríl og september/október. Þá segir í erindinu að úthlutun afgreiðslutíma sé þannig að stefndi Icelandair ehf. fái bestu og eftirsóttustu afgreiðslutímana. Önnur félög, þá einkum stefnandi, mæti afgangi. Stefnandi hafi ekki það atkvæðavald á fundum KSCC að félagið geti fengið betri afgreiðslutíma. Fyrirkomulag við úthlutun komi í veg fyrir að stefnandi geti á jafnréttisgrundvelli fengið afgreiðslutíma þannig að félagið sé samkeppnisfært við aðra á markaði, einkum stefnda Icelandair ehf. Þetta raski verulega samkeppni í flugi til og frá Íslandi. Því sé ljóst að þó að umrætt ferli kunni að vera í samræmi við reglugerðir og/eða venjur þá framkalli það ólögmæta niðurstöðu sem hafi veruleg og neikvæð samkeppnisleg áhrif.

Stefndi Samkeppniseftirlitið lauk málsmeðferð vegna kvörtunarinnar með eftirfarandi ákvörðun, sem eins og að framan er rakið er dagsett 1. nóvember 2013:

                Fyrirkomulag samræmingarstjóra við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli hefur skaðleg áhrif á samkeppni og fer gegn markmiði samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. 1. gr. laganna. Með heimild í 16. gr. samkeppnislaga beinir Samkeppniseftirlitið eftirfarandi fyrirmælum til Isavia ohf. sem fer með framkvæmdastjórn Keflavíkurflugvallar:

                Við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli fyrir sumaráætlun 2014 skal WOW air ehf. njóta forgangs þannig að félagið geti með samkeppnishæfum hætti hafið flug síðdegis samkvæmt áætluninni á milli Keflavíkur og Bandaríkja Norður-Ameríku og um leið tengt síðdegisflugið við morgunflug félagsins til áfangastaða í Evrópu.

                Forgangurinn skal fela í sér að WOW air ehf. eða sá flugrekandi sem annast flug fyrir félagið fái afgreiðslutíma fyrir a.m.k. tvær brottfarir að morgni alla daga vikunnar á milli kl. 7:00 og 8:00 fyrir flug til áfangastaða í Evrópu og tvo brottfarartíma síðdegis á milli kl. 16:00 og 17:30 fyrir flug til áfangastaða í Bandaríkjum Norður-Ameríku.

                Isavia ohf. skal einnig gera ráðstafanir til þess að komutímum á Keflavíkurflugvelli verði úthlutað fyrir þessi flug. Þessir afgreiðslutímar og brottfarir og komur þurfa að geta þjónað flugi til áfangastaða utan Schengen svæðisins. Afgreiðslutímarnir skulu vera til viðbótar við aðra afgreiðslutíma sem WOW air ehf. eða flugrekandi sem annast hefur flug fyrir félagið hefur áður fengið úthlutað innan umræddra tímamarka.

                Isavia ohf. skal útbúa leiðbeiningar fyrir samræmingarstjóra Keflavíkurflugvallar þar sem fram kemur með skýrum hætti að hann skuli hafa samkeppnissjónarmið að leiðarljósi við úthlutun afgreiðslutíma. Skulu leiðbeiningarnar m.a. fela það í sér að ef tvær eða fleiri umsóknir berast um sömu afgreiðslutíma á tiltekinni áætlunarflugleið skuli umsókn þess félags þar sem hlutdeild miðað við fjölda farþega er lægri almennt njóta forgangs.

                Isavia ohf. skal innan tveggja mánaða frá dagsetningu ákvörðunar þessarar upplýsa Samkeppniseftirlitið um framkvæmd á þessum fyrirmælum.

Með kæru dagsettri 28. nóvember 2013 kærði stefndi Isavia ohf. ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess að ákvörðunin yrði felld úr gildi. Stefndi Icelandair ehf. kærði einnig ákvörðunina með kæru dagsettri 29. nóvember 2013. Báðir stefndu gerðu þá kröfu fyrir nefndinni að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi. Stefndi Samkeppniseftirlitið krafðist þess í báðum málunum að ákvörðun hans yrði staðfest og synjað yrði kröfu um frestun réttaráhrifa hennar.

Þann 22. janúar 2014 tók áfrýjunarnefndin bráðabirgðaákvörðun um að fresta réttaráhrifum ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins frá 1. nóvember 2013 í máli nr. 25/2013 á meðan málið væri til meðferðar hjá nefndinni. Með úrskurðum nefndarinnar frá 27. febrúar 2014 í málum nr. 10/2013 og 11/2013 í tilefni af framangreindum kærum var ákvörðun Samkeppniseftirlitsins felld úr gildi. Úrskurðirnir voru efnislega samhljóða og byggði niðurstaða þeirra á þeirri forsendu að málinu yrði ekki beint að Isavia ohf. þar sem félaginu brysti heimild til að fylgja eftir þeim fyrirmælum sem mælt væri fyrir um í hinni kærðu ákvörðun.

IV

Stefnandi Wow air ehf. byggir málatilbúnað sinn á því að niðurstaða nefndarinnar um stöðu samræmingarstjórans sem sjálfstæðs stjórnvalds sé í andstöðu við meginreglur stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar. Meginreglan sé sú að sjálfstæðu stjórnvaldi verði einungis komið á fót með lögum frá Alþingi. Reglugerð ráðherra eða annarra stjórnvalda sé ekki nægjanleg stoð til að koma á fót slíku stjórnvaldi.

Stefnandi bendir á að í 14. gr. stjórnarskrárinnar sé svo fyrir mælt að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Í framkvæmd hefur þó löggjafanum verið talið heimilt að ákveða með lögum að tiltekin starfsemi, t.d. stofnun eða stjórnsýslunefnd, skuli vera sjálfstæð og þar með undanskilin yfirstjórn ráðherra sem annars mundi heyra undir hann. Þessar valdheimildir löggjafans helgist af stjórnskipunarvenju og feli í sér frávik frá framangreindri meginreglu um að ráðherrar fara með yfirstjórn stjórnarmálefna. Um undantekningu sé að ræða sem beri að túlka þröngt. Heimildir til að setja á stofn sjálfstætt stjórnvald eru þannig bundnar við löggjafann einan og ráðherra eða önnur stjórnvöld geti ekki ákveðið með reglugerð eða samningum að stjórnvald sé sjálfstætt. Ef lög kveða ekki alveg skýrt á um sjálfstæði ríkisstofnunar verður stjórnvald ekki talið sjálfstætt.

Stefnandi vísar til þess að ákvörðun um úthlutun afgreiðslutíma sé stjórnvaldsákvörðun. Þegar löggjafinn hefur falið tilteknu stjórnvaldi að taka stjórnvaldsákvörðun verði það vald ekki falið einkaréttarlegum aðila nema fyrir liggi skýr lagaheimild þess efnis. Stefndi Isavia ohf. sé handhafi valds til úthlutunar afgreiðslutíma þar sem félagið hafi það hlutverk samkvæmt 4. gr. laga nr. 76/2008. Það vald verði ekki með bindandi hætti tekið af félaginu og félagið geti ekki leyst sig undan þeirri skyldu með reglugerð eða samningi. Öðrum aðila verði einungis fengið þetta vald með lögum frá Alþingi. Stefndi Isavia ohf. hafi engu að síður heimild til að leita til utanaðkomandi aðila um sérfræðiaðstoð við töku stjórnvaldsákvörðunar. Slíkt leysi þó ekki sjálfan handhafa veitingarvalds undan þeim skyldum sem á honum hvíla við meðferð málsins. Það leiði af lögbundnu hlutverki veitingarvaldshafans og meginreglu stjórnsýsluréttar um að stjórnvaldinu sjálfu beri að taka þá ákvörðun sem því hefur verið falið lögum samkvæmt. Isavia ohf. geti þannig ekki með bindandi hætti komið ákvörðuninni af sínum herðum yfir á Frank Holton. Hin endanlega, formlega ákvörðun í málinu sem beint er út á við til flugfélaga sé tekin af Isavia ohf.

Stefnandi byggir einnig á því að standi niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála þá fari „ACD/Frank Holton, Managing Director of ACD“ með hluta af íslensku framkvæmdarvaldi. Einnig sé hann þá orðinn sjálfstætt stjórnvald sem þurfi ekki að lúta neinu æðra stjórnvaldi í íslensku stjórnkerfi. Sé þetta rétt hefur hluti af fullveldi Íslands verið framselt til dansks einkafyrirtækis og einstaklings án lagaheimildar. Slíkt fái ekki staðist.

Þá bendir stefnandi á að áfrýjunarnefnd samkeppnismála sé hluti af stjórnsýslu samkeppnismála á Íslandi. Meginhlutverk nefndarinnar sé að sjá til þess að samkeppnislög séu virt og þau nái tilgangi sínum. Að baki ákvörðun stefnda Samkeppniseftirlitsins í máli nr. 25/2013 liggi ítarleg rannsókn á íslenskum flugmarkaði. Niðurstaða þeirrar rannsóknar sé að samkeppni nái ekki fram að ganga og að afar brýnt sé að grípa til ráðstafana til að stuðla að aukinni samkeppni í flugi til og frá landinu. Áfrýjunarnefndin geti ekki virt þessa niðurstöðu algerlega að vettugi og ógilt hinar nauðsynlegu ráðstafanir jafnvel þótt ákvörðun stefnda Samkeppniseftirlitsins hefði beinst gegn röngu stjórnvaldi. Áfrýjunarnefndinni bar eftir sem áður að leita allra leiða til þess að samkeppnislög næðu markmiði sínu og tilgangi. Hefði áfrýjunarnefndinni þannig verið rétt að gefa „ACD/Frank Holton, Managing Director of ACD“ kost á að koma sjónarmiðum sínum að við meðferð málsins hjá nefndinni. Að því búnu hefði áfrýjunarnefndin átt að leysa úr málinu efnislega. Það hefði verið í samræmi við þær ríku kröfur sem gerðar eru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og málsmeðferðar hennar.

Þá vísar stefnandi einnig til þess að hann telji áfrýjunarnefndina hafa rangtúlkað þær reglugerðir sem raktar eru í úrskurðunum. Nefndin hafi lagt ranga merkingu í þau ákvæði sem kveða á um sjálfstæði samræmingarstjóra og ranglega ályktað að með þeim væri átt við sjálfstæði gagnvart íslenskum stjórnvöldum. Þá horfði nefndin algerlega framhjá því að fleiri en einn aðili eru tilgreindir sem samræmingarstjóri hjá stefnda Isavia ohf. Engin rök séu færð fyrir því hvers vegna málið eigi að beinast einungis að einum þeirra.

Loks vísar stefnandi til þess að lögmætisreglan sé ein af meginreglum íslensks stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar og feli í sér að ákvarðanir stjórnvalda skuli almennt eiga sér stoð í lögum og megi ekki vera í andstöðu við lög. Framangreind niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála hafi ekki haft neina lagastoð auk þess að vera í andstöðu við meginreglur stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar. Ákvarðanirnar um að ógilda ákvörðun stefnda Samkeppniseftirlitsins nr. 25/2013 frá 1. nóvember 2013 hafi þannig verið haldin verulegum efnislegum annmarka sem leiði til ógildingar. Auk framangreinds byggi stefnandi á því að brotið hafi verið gegn andmælarétti, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, rannsóknarreglu 10. gr. sömu laga og málshraðareglu 9. gr. sömu laga, sbr. 9. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Þá vísar hann til meginreglu stjórnsýsluréttar um málefnaleg sjónarmið. Krafa um ógildingu stjórnvaldsákvörðunar styðst við 60. gr. stjórnarskrárinnar.

V

Stefndi Isavia ohf. gerir þá kröfu að hann verði sýknaður vegna aðildarskorts stefnanda. Þá byggir hann málatilbúnað sinn á því að staðfesta beri niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar. Fallist dómurinn ekki á röksemdir nefndarinnar um ógildingu ákvörðunarinnar, sé efnisleg niðurstaða nefndarinnar allt að einu rétt. Stefndi Samkeppniseftirlitið hafi farið út fyrir heimildir sínar í ákvörðun sinni m.a. þar sem ákvörðunin var byggð á grundvelli samkeppnislaga þrátt fyrir að um úthlutun afgreiðslutíma gildi sérlög sem ganga eigi framar almennum ákvæðum samkeppnislaga. Vegna framangreinds hafi með málsmeðferðinni einnig verið brotið gegn meðalhófsreglu. Loks byggir stefndi á því að með ákvörðun sinni hafi stefndi Samkeppniseftirlitið brotið gegn öðrum meginreglum stjórnsýslulaga, einkum rannsóknarreglunni.

Stefndi krefst þess að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á efni reglugerðar EBE nr. 95/93, með síðari breytingum. Stefndi vísar til þess að stefnandi geri þá kröfu í málinu að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 10/2013 verði felldur úr gildi. Yrði það endanleg niðurstaða dómstóla myndi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 25/2013 rakna við með þeim réttaráhrifum sem felist í ákvörðunarorðum hennar, m.a. þeim að stefndi skuli gefa samræmingarstjóra fyrirmæli í samræmi við efni ákvörðunar nr. 25/2013. Forsendur ákvörðunar nr. 25/2013 byggi að stórum hluta á efnisreglum reglugerðar EBE 95/93 og innleiðingu hennar í íslensk lög. Reglugerð EBE nr. 95/93 feli í sér skuldbindingu aðildarríkja EES-samningsins um að samræmdar úthlutunarreglur skuli gilda innan bandalagsflugvalla um úthlutun á afgreiðslutímum. Í beiðni stefnda um að ráðgefandi álits verði leitað kemur fram að hann telur að ekki sé fullt samræmi milli reglugerðar EBE nr. 95/93 og ákvæða reglugerðar nr. 1050/2008 um úthlutun afgreiðslutíma flugvalla en með þeirri reglugerð hafi reglugerð EBE nr. 95/93 verið innleidd í íslensk lög, sbr. 17. og 19. gr. reglugerðarinnar. Því muni óhjákvæmilega reyna á efni reglugerðar EBE nr. 95/93 í þessu máli. Með vísan til laga nr. 21/1994 telji stefndi nauðsynlegt að leitað verði eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins um skýringu á ákvæðum reglugerðarinnar.

VI

Stefndi Icelandair ehf. gerir einnig þá kröfu að hann verði sýknaður vegna aðildarskorts stefnanda. Þá byggir hann málatilbúnað sinn á því að niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar hafi verið rétt en verði ekki fallist á niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar hafi engu að síður verið rétt að fella ákvörðun Samkeppniseftirlitsins úr gildi. Vísar stefndi til þess að málsmeðferð stefnda Samkeppniseftirlitsins hafi brotið gegn rannsóknarreglunni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Einnig vísar hann til þess að sú niðurstaða að skaðleg áhrif á samkeppni væru fyrir hendi sé röng og byggð á ólögmætu sjónarmiði, að ákvörðunin hafi verið of óskýr og hefði ekki getað haft réttaráhrif samkvæmt efni sínu, að stefndi Samkeppniseftirlitið hafi farið út fyrir valdmörk sín og að ákvörðunarorð hafi verið óframkvæmanleg vegna ómöguleika.

Stefndi krefst þess að leitað verði álits EFTA-dómstólsins á því hvernig skýra skuli tiltekin ákvæði reglugerðar Evrópuráðsins (EBE) nr. 95/93, með síðari breytingum, og 4. gr. EES-samningsins. Stefndi telur að sakarefnið varði heimildir samkeppnisyfirvalda til að hafa afskipti af úthlutun afgreiðslutíma á flugvöllum og hverjum verði falin úthlutunin. Þá vísar stefndi til þess að í stefnu sé byggt á því að áfrýjunarnefndin hafi í úrskurði rangtúlkað þær reglugerðir sem þar eru raktar en stefndi taki undir túlkun nefndarinnar og sé því uppi vafi um það hvernig túlka beri reglurnar sem leiði til þess að leita beri ráðgefandi álits. Stefndi byggir málatilbúnað sinn á því, með vísan til m.a. dóma Hæstaréttar í máli nr. 63/1997, frá 17. febrúar 1997 og máli nr. 72/2011 frá 23. febrúar 2012, að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sé hluti af úrskurði nefndarinnar. Allar málsástæður stefnda fyrir áfrýjunarnefndinni séu til úrlausnar fyrir héraðsdómi. Nefndin hafi ekki fallist á túlkun Samkeppniseftirlitsins á ákvæðum reglugerðar nr. 1050/2008 en með henni hafi verið ætlunin að innleiða reglugerð EBE nr. 95/93. Í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar sé sérstaklega takið fram að með reglugerðinni hafi verið innleidd „ákvæði reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 95/93 og reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 793/2004. Ber því að skýra þessar lagaheimildir til samræmis eftir því sem unnt er, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið.“

Stefndi telur að með hliðsjón af málsástæðum stefnanda og málsvörn sinni sé uppi vafi um túlkun reglugerðarinnar. Annars vegar varði vafinn það hvort ákvörðun hafi verið réttilega beint að Isavia ohf. í stað samræmingarstjórans, sbr. 4. mgr. 4. gr., 7. og 8. gr. reglugerðar nr. 1050/2008 og 8. gr. reglugerðar EBE nr. 95/93 með síðari breytingum, og hins vegar hvort Samkeppniseftirlitinu hafi verið heimilt að grípa inn í úthlutun afgreiðslutíma á þann hátt sem gert var með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 1050/2008 og 8. gr. b reglugerðar EBE nr. 95/93 með síðari breytingum.

Loks bendir stefndi á að það standi ekki í vegi fyrir því að leitað verði ráðgefandi álits þó að mál þetta sé rekið sem flýtimeðferðarmál og vísar sérstaklega til þess að samkvæmt 97. gr. a í starfsreglum EFTA-dómstólsins geti dómstóllinn ákveðið að beiðni um ráðgefandi álit hljóti flýtimeðferð.

VII

Stefndi Samkeppniseftirlitið krefst þess að kröfum stefndu Isavia ohf. og Icelandair ehf. verði hafnað og telur að ekki séu rök til að fella úr gildi úrskurð nefndarinnar. Í málflutningi um kröfu þessa benti hann sérstaklega á að krafa stefnanda í málinu væri sú að úrskurður áfrýjunarnefndarinnar yrði felldur úr gildi og muni dómurinn ekki taka nýja efnislega ákvörðun vegna þess ágreinings sem varð tilefni máls þessa. Ekki sé til endurskoðunar ákvörðun samkeppniseftirlitsins. Sú ákvörðun sem stefnandi krefst endurskoðunar á sé hvort fyrirmælunum verði bent að stefnda Isavia ohf.

Stefndi vísar til þess að í 10. gr. reglugerðar nr. 1050/2008 og 8. gr. reglugerðar nr. 95/93 sé gert ráð fyrir inngripi innlendra samkeppnisyfirvalda. Því sé hins vegar ekki lýst í reglunum heldur er gert ráð fyrir því að það fari eftir innlendum reglum og því sé það ekki á valdi EFTA-dómstólsins að skýra þær reglur.

Þá gerir stefndi athugasemdir við þær spurningar sem lagðar hafa verið fram af hálfu stefnda Isavia ohf. og Icelandair ehf. og telur að verði fallist á kröfu þeirra verði þær spurningar ekki lagðar fyrir dóminn þar sem þær m.a. gefi ekki rétta mynd af atvikum og fari inn á svið íslenskra samkeppnislaga.

VIII

Stefnandi krefst þess að kröfum stefndu Isavia ohf. og Icelandair ehf. um að krafist verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins verði hafnað. Stefnandi telur að beiðni um ráðgefandi álit hafi ekki þýðingu í málinu þar sem það snúist eingöngu um stöðu samræmingarstjóra og úr því verði leyst á grundvelli íslenskra laga. Önnur atriði sem vikið er að í spurningum stefndu hafi áfrýjunarnefndin ekki fjallað um og þau komi því ekki til skoðunar. Verði engu að síður fallist á kröfu stefndu Isavia ohf. og Icelandair ehf. gerir stefnandi þá kröfu að dómurinn byggi ekki á framkomnum spurningum þeirra heldur móti nýjar í samráði við stefnanda. Leggur stefnandi áherslu á að rík þörf sé á því að spurningar til EFTA-dómstólsins séu byggðar á réttum staðreyndum þar sem álit dómstólsins yrði á þeim byggt.

IX

Í 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins) segir að ef mál er rekið fyrir héraðsdómstóli þar sem þurfi að taka afstöðu til skýringa á samningi um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem í viðaukunum sé getið, geti dómari í samræmi við 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, kveðið upp úrskurð um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á því. Samkvæmt 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna hefur EFTA-dómstóllinn lögsögu til að gefa ráðgefandi álit varðandi túlkun á ESS-samningnum.

Þrátt fyrir að mál þetta sé rekið sem flýtimeðferðarmál, samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, telur dómurinn það ekki breyta þeim heimildum sem hann hefur til að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1994, enda breytir sú málsmeðferð ekki þeim álitaefnum sem uppi eru í málinu.

Við mat á því hvort skilyrði 1. gr. laga nr. 21/1994 séu uppfyllt er óhjákvæmilegt að dómari taki að einhverju leyti afstöðu til þess hvaða þýðingu þær réttarheimildir sem tilgreindar eru í 1. gr. eigi að hafa í málinu þrátt fyrir að úrlausnin feli ekki í sér niðurstöðu um efnisatriði máls. Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar þarf að liggja nægilega skýrt fyrir að skýring á ákvæðum EES-samningsins hafi raunverulega þýðingu fyrir úrslit málsins og að staðreyndir málsins liggi nægilega skýrt fyrir til þess að til greina komi að leita álits. Þá verður, samkvæmt dómafordæmum, sú ályktun dregin af 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, svo og EES-samningnum í heild, að dómari aðildarríkis skuli ekki óska eftir ráðgefandi áliti nema fyrir hendi sé réttlætanlegur vafi um túlkun reglnanna með hliðsjón af fyrirliggjandi sakarefni.

Stefndu Isavia ohf. og Icelandair ehf. byggja málatilbúnað sinn á því að við meðferð málsins reyni á túlkun reglugerðar nr. 1050/2008 um úthlutun afgreiðslutíma flugvalla. Reglugerðin er sett með stoð í 1. mgr. 57. gr. c. og 3. mgr. 76. gr., sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998, og með henni var leidd í lög reglugerð Evrópuráðsins (EBE) nr. 95/93 um sameiginlegar reglur um úthlutun afgreiðslutíma á bandalagsflugvöllum, eins og henni var breytt með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 793/2004 og EB nr. 545/2009. Telst reglugerðin því vera hluti landsréttar.

Í fyrstu þremur spurningum stefnda Isavia ohf. sem hann telur að leggja eigi fyrir EFTA-dómstólinn og fyrstu spurningu stefnda Icelandair ehf. er verið að leita svara við heimildum íslenskra stjórnvalda til að skipa málum á þann hátt sem gert var í 4. gr. reglugerðar nr. 1050/2008. Þar er m.a. spurt hvort sú skipan mála samrýmist efni reglugerðar EBE nr. 95/93, að framkvæmdastjórn flugvallar skuli sjá til þess að hæfur aðili verði skipaður sem samráðs eða samræmingarstjóri flugvallarins, að sá sem skipaður sé verði undir boðvaldi flugvallarrekanda og hvort sjálfstæði hans sé tryggt taki hann við fyrirmælum frá stjórnvaldi aðildarríkis um úthlutun afgreiðslutíma í samræmi við efni stjórnvaldsákvörðunar sem inniheldur aðrar efnisreglur eða skilyrði en er að finna í reglugerð EBE nr. 95/93. Eins og rakið hefur verið var það niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar að samræmingarstjóri væri sjálfstætt stjórnvald og málinu yrði ekki beint að stefnda Isavia ohf. Samkvæmt 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála getur héraðsdómur einungis tekið til greina kröfur málsaðila á grundvelli þeirra málsástæðna sem þeir hafa byggt á. Stefnandi byggir á því að áfrýjunarnefndin hafi í úrskurði sínum rangtúlkað þær reglugerðir sem þar eru raktar. Vísar hann bæði til þess að nefndin hafi lagt ranga merkingu í þau ákvæði er kveði á um sjálfstæði samræmingarstjóra og horfi framhjá því að fleiri en einn aðili er tilgreindur samræmingarstjóri hjá stefnda Isavia ohf. Þá byggir hann málatilbúnað sinn einnig á því að niðurstöðu nefndarinnar hafi skort lagastoð. Óumdeilt er að samkvæmt reglugerð EBE nr. 95/93 er það aðildarríki sem ber ábyrgð á því að hæfur aðili verði skipaður sem samráðs- eða samræmingarstjóri þeirra flugvalla sem þar eru tilgreindir. Í reglugerð nr. 1050/2008 er framkvæmdastjórn flugvallar falin þessi ábyrgð. Við úrlausn þess hvort heimilt hafi verið að haga málum á þann hátt sem gert var í reglugerðinni hvað varðar skipun samræmingarstjóra og stöðu reynir á ákvæði íslenskra laga og réttarheimilda. Þá hafa aðilar málsins ekki byggt málsástæður sínar á því að ósamræmi sé á milli reglugerðar nr. 1050/2008 og reglugerðar EBE nr. 95/93, að öðru leyti en hér að ofan hefur verið rakið um skipan samráðs- eða samræmingarstjóra, heldur kemur þetta fram í þeim spurningum sem krafist er að verði lagðar fyrir EFTA-dómstólinn. Ítrekað hefur komið fram í úrlausnum EFTA-dómstólsins að hann skýrir ekki ákvæði landsréttar aðildarríkja, sbr. t.d. dóm frá 22. febrúar 2002 í máli nr. E-1/01, og verður hann því ekki krafinn um álit á skýringu íslenskra laga vegna ofangreinds ágreinings málsaðila um skýringu ákvæða reglugerðar nr. 1050/2008. Ágreiningur um misræmi milli reglugerðar EBE nr. 95/93 og reglugerðar nr. 1050/2008 kæmi einnig til úrlausnar íslenskra dómstóla en í báðum tilvikum telst vera um að ræða íslenskar reglur en reglugerð EB nr. 95/93, með síðari breytingum, var innleidd í íslenskan rétt með 17. gr. reglugerðar nr. 1050/2008. Með vísan til alls framangreinds er ekki talin ástæða til að bera undir EFTA-dómstólinn framangreindar þrjár spurningar.

Hvað varðar aðra spurningu stefnda Icelandair ehf. og fjórðu spurningu stefnda Isavia ohf. þá snúa þær að heimildum stefnda Samkeppniseftirlitsins til að gefa þau fyrirmæli sem fram koma í ákvörðun eftirlitsins frá 1. nóvember 2013. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins byggði á því að fyrirkomulag samræmingarstjóra við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli hefði skaðleg áhrif á samkeppni og færi gegn markmiði samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. 1. gr. laganna, og voru fyrirmælin sett fram með vísan til 16. gr. laganna. Samkvæmt 10. gr. reglugerðar nr. 1050/2008 hefur reglugerðin ekki áhrif á vald opinberra yfirvalda til að krefjast færslu afgreiðslutíma milli flugrekenda og til að stjórna því hvernig þeim er úthlutað í samræmi við innlend samkeppnislög eða 52. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eða reglugerða um eftirlit með samfylkingum fyrirtækja. Meðal framlagðra gagna er bréf Eftirlitsstofnunar EFTA, dagsett 19. mars 2014, þar sem fram kemur að vegna meðferðar málsins hjá áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafi eftirlitsstofnunin tekið til skoðunar á hvern hátt hafi verið staðið að innleiðingu reglugerðar EBE nr. 95/93, með síðari breytingum, hér á landi. Með bréfinu er íslenskum yfirvöldum kynnt sú bráðabirgðaniðurstaða stofnunarinnar að ekki hafi verið rétt staðið að innleiðingu nánar tilgreindra ákvæða reglugerðarinnar eða þau ekki innleidd að fullu. Meðal þeirra ákvæða sem þar eru talin upp eru 4. og 8. gr. reglugerðarinnar og er m.a. gerð athugasemd við tilvísun í EES-samninginn í 8. gr. Samkvæmt 109. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, er það hlutverk eftirlitsstofnunar EFTA að fylgjast með efndum skuldbindinga ríkja samkvæmt samningnum, m.a. hvað varðar innleiðingu reglugerða. EFTA-dómstóllinn hefur sjálfur ítrekað lýst því í dómum þar sem til úrlausnar hefur verið krafa dómara í aðildarríki um ráðgefandi álit, t.d. í dómi frá 25. september 1996 í máli nr. E-2/95, að það sé ekki hlutverk dómsins að leggja mat á það hvort og hvaða EES-reglur hafi verið innleiddar í landsrétt. Stefndu Isavia ohf. og Icelandair ehf. byggja á því verði ekki fallist á niðurstöðu áfrýjunarnefndar um ógildingu ákvörðunar stefnda Samkeppniseftirlitsins þá beri m.a. að ógilda hann þar sem eftirlitið hafi farið út fyrir valdheimildir sínar með beitingu heimilda samkvæmt samkeppnislögum í stað þess að líta til þeirra sérreglna sem fram koma í lögum um loftferðir og reglum sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Túlkun innlendra samkeppnislaga og mat á rétthæð þeirra gagnvart öðrum landslögum er einnig utan þeirra heimilda sem EFTA-dómstólinn hefur verið talin hafa á grundvelli 1. gr. laga nr. 21/1994 og þeirra fordæma sem dómstóllinn hefur sett um túlkun á heimildum sínum. Er þegar af þeirri ástæðu ekki rök til að leggja nefndar spurningar fyrir EFTA-dómstólinn.

Í þriðju spurningu stefnda Icelandair ehf. er spurt hvort það samrýmist reglugerð EBE nr. 95/93 og 4. gr. EES-samningsins að litið sé til sjónarmiða um „heimahöfn“ flugfélags við úthlutun afgreiðslutíma á flugvöllum. Það er mat dómsins að ekki sé hægt að ráða það af ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að þetta sjónarmið hafi haft slík áhrif á niðurstöðu þess að álit EFTA-dómstólsins vegna þessarar spurningar kæmi til með að hafa áhrif á niðurstöðu málsins.

Í ljósi alls framangreinds verður ekki séð að svör EFTA-dómstólsins við þeim spurningum sem fram koma í beiðni stefndu Isavia ohf. og Icelandair ehf. geti haft þýðingu fyrir úrlausn máls þessa. Þá verður ekki séð að í málinu séu til úrlausnar önnur álitaefni sem slíka þýðingu geti haft og nauðsyn sé að bera undir EFTA-dómstólinn. Eru því ekki fyrir hendi þau skilyrði sem 1. gr. laga nr. 21/1994 tilgreinir fyrir því að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Með vísan til framangreinds er beiðni stefndu Isavia ohf. og Icelandair ehf. um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins hafnað.

Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.

Sigríður Elsa Kjartansdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu stefndu Isavia ohf. og Icelandair ehf. um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins er hafnað.

Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.