Hæstiréttur íslands
Mál nr. 94/2006
Lykilorð
- Vátryggingarsamningur
|
|
Fimmtudaginn 7. desember 2006. |
|
Nr. 94/2006. |
Guðmundur Kristján Unnsteinsson(Kjartan Reynir Ólafsson hrl.) gegn Sjóvá Almennum tryggingum hf. (Ingvar Sveinbjörnsson hrl.) |
Vátryggingarsamningur.
G keypti flutningstryggingu hjá S 22. ágúst 2000 vegna fyrirhugaðs flutnings á húsi hans. Samkvæmt vátryggingarskilmálum var húsið vátryggt gegn utanaðkomandi tjóni eða skyndilegum óhöppum sem valda tjóni við flutning þess. Síðar þennan sama dag fór flutningur hússins fram. Þegar búið var að lyfta húsinu með krana örlítið frá grunni báru vitni fyrir dómi að slinkur hefði komið á það og það lagst saman í miðju eða skekkst. G krafðist þess að S bætti honum tjónið sem varð á húsinu, á grundvelli vátryggingasamnings aðila. Í dómi Hæstaréttar segir að ekki sé hægt að útiloka að slinkur hafi komið á húsið þegar það losnaði frá undirstöðum sínum við upphaf flutningsins og tjónið þá orðið. G var sem fyrr segir einungis tryggður fyrir utanaðkomandi tjóni og skyndilegum óhöppum en í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, segir að ekkert slíkt virðist hafa átt sér stað við flutninginn. Var S því sýknað af kröfu G.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. febrúar 2006. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.446.483 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. febrúar 2003 til greiðsludags.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt gögnum málsins er ekki unnt að útiloka að slinkur hafi komið á húsið, sem áfrýjandi lét flytja 22. ágúst 2000, þegar það losnaði frá undirstöðum sínum við upphaf flutningsins og tjónið þá orðið. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Guðmundur Kristján Unnsteinsson, greiði stefnda, Sjóvá Almennum tryggingum hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 2005.
Mál þetta var höfðað 12. október 2004 og var dómtekið 7. september sl. Málið var síðan endurflutt í dag og dómtekið.
Stefnandi er Guðmundur Kr. Unnsteinsson, Vatnsendabletti 241a, Kópavogi.
Stefndi er Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík.
Dómkröfur
Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér 1.446.483 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 20. febrúar 2003 til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.
Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði dæmdur málskostnaður að mati réttarins. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar, málskostnaður falli niður og dráttarvextir einungis dæmdir frá dómsuppsögudegi.
Málavextir
Á árinu 2000 festi stefnandi kaup á húsi, sem staðsett var við Sóltún í Reykjavík. Húsið var keypt til brottflutnings, en stefnandi hafði fengið leyfi fyrir tímabundnum afnotum af lóð að Geithálsi í Reykjavík.
Stefnandi kveðst hafa samið um flutning hússins frá Sóltúni að Geithálsi við fyrirtækið GP krana ehf. Samkomulag hafi verið gert um að GP kranar ehf. myndu koma með búnað til þess frá GG bílum, sem svo tæki húsið af á áfangastað.
Starfsmaður GP krana ehf. benti stefnanda á að hann yrði að tryggja húsið vegna flutningsins, þar sem það væri ekki tryggt í krók á krananum af þeirra hálfu.
Stefnandi fór til Sjóvá-Almennra trygginga hf. og talaði þar við Andrés Andrésson og óskaði eftir tryggingu á húsinu við hífingu þess á og af þeim bílum sem myndu flytja það. Stefnandi upplýsti hverjir myndu flytja húsið, þ.e. GP kranar ehf. og GG bílar. Ekki voru gerðar athugasemdir við þá flutningsaðila og húsið tryggt samkvæmt beiðni stefnanda.
Stefnandi kveður GP krana ehf. hafa komið með herðatré og breiðustu gerð af nælonborðum, en húsið hafi verið smíðað með flutning í huga og sé með mun þéttari gólfgrind en tíðkast í hefðbundnum húsum. Taldi stefnandi að starfsmenn GP krana ehf. og GG bíla hefðu fulla þekkingu og reynslu af flutningum sem þessum og að starfsmenn þessara fyrirtækja vissu með hvaða hætti bæri að standa að þessu verki og kveðst ekki hafa gert athugasemdir við aðferðir þeirra.
Þann dag sem flutningur átti sér stað var krani frá GP krönum ehf. við vinnu í Sóltúni vegna byggingarkrana sem verið var að reisa þar. Hafði stefnandi samband við fyrirtækið og óskaði eftir því að kraninn, sem var í götunni, myndi hífa húsið áður en hann færi eitthvað annað.
Kraninn var síðan notaður til að hífa húsið og var það svo flutt frá Sóltúni að Geithálsi í Reykjavík þann 22. ágúst 2000.
Umrætt hús virðist hafa staðið á steinsteyptum stöplum og höfðu dregarar eða burðarbitar undir gólfi hússins verið steyptir fastir ofan á þessum stöplum og bendistál beygt yfir burðarbitana. Flutningur hússins fór fram í tveimur áföngum og hafði húsið verið sagað í sundur. Fólst flutningurinn í því að húsið eða húshlutinn skyldi hífður af undirstöðum þess á flutningabifreið og síðan hífður af bifreiðinni á steyptan sökkul á áfangastað við Geitháls. Þegar húsið var híft á bifreiðina kom slinkur á húsið og urðu skemmdir á því.
Stefnandi leitaði eftir því við stefnda að hann fengi tjón sitt bætt, en því var neitað á þeim forsendum að orsakir tjónsins mætti rekja til þess að húsið hefði ekki verið laust á grunninum þegar hífing hófst og undirbúningi undir flutning hefði verið ábótavant. Skilmálar tryggingarinnar væru hins vegar þeir að húsið hefði verið vátryggt gegn utanaðkomandi tjónum eða skyndilegum óhöppum.
Þann 15. mars 2001 óskaði lögmaður stefnanda eftir því við stefnda að leitað yrði til tjónanefndar vátryggingafélaganna með ágreining aðila um bótaskyldu en stefnandi leit svo á að hann væri tryggður fyrir því tjóni sem orðið hafði og hefði í raun farið í einu og öllu eftir þeim tilmælum sem komi fram í tryggingarskilmálum.
Niðurstaða tjónanefndar var stefnanda ekki í hag og var þá málinu skotið til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sem úrskurðaði í málinu þann 12. júní 2001. Bótaábyrgð stefnda var að mati úrskurðarnefndar ekki fyrir hendi. Byggt var á því, að húsið hefði verið fast við grunninn þegar því var lyft. Þannig hafi flutningur í skilningi vátryggingarinnar ekki átt sér stað, er tjónið varð.
Stefnandi kveðst ítrekað hafa leitað eftir endurupptöku málsins hjá úrskurðarnefnd á grundvelli nýrra upplýsinga, en við því var ekki orðið.
Stefnandi kveðst þá hafa neitað að greiða flutningskostnaðinn þar sem flutningsaðilinn hlyti að vera ábyrgur fyrir tjóni hans úr því tryggingafélagið var það ekki. Undir rekstri þess máls var óskað eftir dómkvaðningu matsmanns til að meta tjón það sem orðið hafði á húsinu. Niðurstaða matsmanns var á þá lund, að heildartjón var metið á 1.446.483 krónur. Stefndi fékk að gæta hagsmuna sinna við þá mats- og skoðunargerð með tilliti til máls síðar gegn félaginu. Svo fór að gert var samkomulag milli stefnanda og GP krana ehf. um málalok í héraðsdómi án þess að viðurkennd væri bótaskylda. Ákvað stefnandi þá að leita réttar síns gagnvart stefnda fyrir dómstólum.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi kveðst hafa keypt vátryggingu þann 22. ágúst árið 2000. Í vátryggingarskilmálum þeirrar tryggingar segi svo um gildissviðið: „Húsið er vátryggt gegn utanaðkomandi tjónum eða skyndilegum óhöppum, sem valda tjóni við flutning þess, frá því að því er lyft frá jörðu eða af undirstöðu á flutningstækið og þar til því hefir verið lyft af flutningstækinu á ákvörðunarstað. Vátryggingin bætir ekki tjón, sem orsakast af hristingi, né því að húsið liðast í sundur eða skekkist, nema það stafi af því að húsið falli af flutningstækinu.“
Samkvæmt þessum skilmálum sé vátryggingafélagið bótaskylt, þegar utanaðkomandi tjón verði á húsinu eða skyndileg óhöpp. Af skýru orðalagi ákvæðisins leiði að vátryggingafélagi beri að bæta tjón stefnanda. Engin skilyrði séu tiltekin í ákvæðinu að öðru leyti en að 1) tjónið verði að vera utanaðkomandi 2) um skyndilegt óhapp verður að vera að ræða og 3) tjónið verður að hafa átt sér stað við flutning hússins. Öllum skilyrðum þessa ákvæðis sé fullnægt. Þannig hafi tjónið verið utanaðkomandi þar sem eitthvað olli því að „slinkur“ kom á húsið við hífingu sem hafi orðið til þess að það skekktist. Slinkurinn hafi átt sér stað eftir að húsinu var lyft frá jörðu og hafi hann komið mjög skyndilega.
Þrátt fyrir ofangreinda meginreglu hafi stefndi neitað bótaskyldu og vísað í því sambandi til síðari hluta vátryggingarskilmála sem undanskilji félagið bótaábyrgð. Um sé að ræða eftirfarandi texta:
„Vátryggingin bætir ekki tjón, sem orsakast af hristingi, né því að húsið liðast í sundur eða skekkist, nema það stafi af því að flutningstækinu hvolfi, árekstri þess, dráttartaug slitni eða húsið falli af flutningstækinu. Undanskilin séu tjón af veðri, ef vindhraði fer yfir 5 vinstig. Við mat á vindhraða skuli lögð til grundvallar mæling Veðurstofu Íslands.“
Stefndi, tjónanefnd vátryggingafélaganna og úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum hafi túlkað síðastgreindan skilmála þannig að það hvíli á stefnanda að sýna fram á það að þeir atburðir hafi gerst sem leiði til þess að efnisreglur hans eigi ekki við í máli þessu. Sú túlkun sé ekki talin eiga við og stríði gegn viðurkenndum sjónarmiðum vátryggingaréttarins um túlkun vátryggingarsamninga.
Við túlkun vátryggingarskilmála, sem hér eigi við, verður að styðjast við almennar reglur um túlkun samninga. Það sé almennt viðurkennt að vátryggður beri sönnunarbyrði fyrir því að tjón hafi orðið. Með öðrum orðum þá beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir því að fyrri hluti vátryggingarskilmálanna eigi við í málinu og það hafi hann gert. Hins vegar telji stefnandi að stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að síðari hluti vátryggingarskilmálanna, sem takmarki ábyrgð félagsins, eigi við. Það hafi stefndi ekki gert.
Við túlkun vátryggingarskilmála verði að líta til þess að stefndi hafi samið einhliða skilmála þá sem fylgdu vátryggingarskírteini. Af því leiði að allan óskírleika beri að skýra félaginu í óhag, enda hafi stefnandi ekkert komið nærri samningu þeirra. Ennfremur beri auðvitað að líta til markmiðs með vátryggingarsamningnum, en það sé að bæta vátryggðum tjón sem hann verði hugsanlega fyrir sökum óviðráðanlegra ytri atvika. Allar undantekningarreglur frá þessu meginefni samningsins, sem leiði til ábyrgðartakmarkana fyrir félagið, verði að skýra þröngt og vátryggingafélaginu í óhag.
Í afstöðu stefnda fyrir höfnun bótaábyrgðar og í niðurstöðum úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum sé mikil áhersla lögð á það að húsið hafi ekki verið laust við grunn, sem það stóð áður á, og af þeim sökum beri vátryggingafélagið ekki bótaábyrgð í þessu máli. Eftir að þessi niðurstaða hafi legið fyrir hafi stefnandi fundið myndir sem hann hafi tekið af húsinu stuttu áður en tjónsatburðurinn gerðist. Ein af þessum myndum sé í stefnu og af henni megi sjá að húsið hafi verið laust frá grunninum. Sjáist greinilega að húsið sé í 50-70 sentímetra hæð frá jörðu. Önnur mynd sé til sem sýni húsið eftir að slinkurinn kom á húsið og tjónsatburður hafði átt sér stað.
Samkvæmt framansögðu hafi húsið verið óskemmt þegar það hafði náð 50-70 sentímetra hæð frá jörðu og fullkomlega laust frá undirstöðum sínum. Af þeim sökum verði niðurstaða úrskurðarnefndarinnar ekki byggð á því að húsið hafi ekki verið laust frá grunni og það leiði til þess að félagið beri ekki bótaábyrgð. Þvert á móti hafi húsið verið laust frá jörðu eins og myndir sýni og beri á þeim grundvelli að fallast á bótaskyldu félagsins í málinu.
Hugleiðingar skoðunarmanns um að húsið gæti enn hafa verið fast, er hífing hófst, styðjist ekki við neitt nema ágiskun. Til dæmis sé viðmælandi skoðunarmanns, Jóhann, ekki meira en svo viss að eftir honum sé haft að hugsanlegt væri að dregari eða dregarar gætu hafa verið fastir í steypu. Þetta hafi skoðunarmaður átt að ganga úr skugga um en hafi ekki gert. Sennilega ekki þar sem húsið hafi ekki verið fast á grunni, heldur hvíldi á undirstöðum, sem hafi verið 40 x 50 sentímetra kubbar, sem kraninn hefði auðveldlega lyft með húsinu. Sömuleiðis standist ekki hugleiðingar skoðunarmanns um að umfang tjóns megi rekja til þess að húsið hafi verið sagað í sundur og opnu endarnir ekki styrktir. Ástæðan fyrir því að þær ályktanir standist ekki liggi í því að húsið sé byggt sem tvær sjálfstæðar einingar og hafi þessum tveimur hlutum verið skeytt saman með bárujárni.
Bótakrafan byggist á matsgerð Helga Magnúsar Gunnarssonar, húsasmíðameistara og lögfræðingi. Hann hafi metið til verðs eftirfarandi skemmdir á húsinu:
Grind við inngang, þar sem eru ofn og gluggar hafa gengið til og pípulagnir að ofni
Matsmaður taldi viðgerðir á þessum skemmdum felast í að slá grind á umrædda veggstubba til fyrra horfs og ganga frá spónaplötuklæðningu á grindina að því loknu og sparsla og mála yfir. Kostnað af vinnu, málningu, sparsli og akstri mat hann 34.000 krónur.
Dregarar undir gólfbitum brotnuðu og líklegt að gólfbitar hafi einnig skemmst
Matsmaður taldi gólfbita á suður- og norðurhliðum hússins sýnilega ónýta. Eins megi búast við því að þeir dregarar sem liggja undir húsinu og eru 6 talsins kunni að hafa skekkst og skemmst. Matsmaður taldi ekki ástæðu til að ætla að gólfbitar hússins hafi skemmst við flutninginn, en þeir kunni að hafa gengið úr lagi. Matsmaður áætlar efni og vinnu við að skipta um brotnu dregarana 52.856 krónur.
Gólf skekktist og gólfplötur brotnuðu
Matsmaður telur að til þess að rétta gólfin af svo fullnægjandi sé þurfi að losa plötur af gólfi hússins og eftir atvikum einangrun og tjörutexplötur milli gólfbitanna. Því næst þurfi að rétta dregara af eftir atvikum með því að losa og skipta um undin og teygð festingarjárn. Bitarnir verði svo festir við dregarana eftir að þeir hafi verið réttir af og gengið verði frá tjörutexi, steinull, rakavörn (þolplasti) og gólfplötum. Vinna, efni og akstur við lagfæringu á þessu metur matsmaður á 938.659 krónur.
Meirihlutinn af loftaklæðningunni hrundi niður
Matsmanni reiknaðist til að 90 fermetrar af loftaefni hafi hrunið niður og viðgerðarkostnaður með akstri nemi 284.390 krónum.
Gliðnun varð á steinplötum í austurhlið
Matsmaður taldi gliðnun óverulega og felist hún einkum í því að saumur hefur dregist út og fúgukítti losnað frá. Hann telur nægjanlegt að reka naglana inn aftur og kítta í fúguna aftur. Vinnu, efni og akstur metur hann á 13.400 krónur.
Steniplötur losnuðu vegna formbreytinga á suðurhlið. Rennur og þakkantar skemmdust, útveggir skekktust og klæðning brotnaði að innan
Vesturgafl gekk til og pípulögn og grind skekktist. Klæðning innan húss er sprungin og hurðargat skekktist.
Matsmaður sá að klæðning á innveggjum hafði færst úr stað. Matsmaður gat ekki séð að pípulögn þyrfti viðgerðar við. Þá taldi mann vesturgafl réttast af þegar gengið hefði verið frá staðsetningu hússins. Matsmaður gat heldur ekki séð að hurðargat hefði skekkst. Viðgerðarkostnað við það sem lagfæra þurfti, vinnu, efni og akstur mat matsmaður á 79.500 krónur.
Allir framangreindir matsliðir nemi stefnukröfunni.
Stefnandi byggi mál sitt á fyrirliggjandi vátryggingarsamningi og vátryggingarskilmálum. Svo sé vísað til vátryggingarsamningalaga nr. 20/1954.
Krafan um málskostnað styðjist við 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og beri honum því nauðsyn til að tekið sé tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.
Málsástæður stefnda og lagarök
Stefndi kveður sýknukröfu í málinu byggða á eftirfarandi rökum:
Af matsgerð og fleiri gögnum megi ráða að tjónið hafi m.a. orðið vegna þess að húsið hafi sigið vegna ótraustrar undirstöðu á þeim stað sem það hafi verið flutt á eða vegna þess að það hafi sigið saman í flutningi. Ljóst sé af skilmálum að tjón vegna sigs í flutningi eða eftir flutning sé utan bótasviðs skilmála. Stefnandi hafi ekki í kröfugerð sinni sundurgreint tjón af völdum meint slinks og tjóns af völdum sigs. Þegar af þessari ástæðu beri að sýkna stefnda.
Í öðru lagi sé á það bent að ósannað sé með öllu að tjónið hafi orðið í flutningi í merkingu tryggingarskilmála. Húsið hafi verið tryggt í flutningi frá því húsinu var lyft frá undirstöðum (grunni) og þar til því hafði verið lyft af flutningstæki á ákvörðunarstað. Stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir því að tjón hafi orðið og að það falli innan bótasviðs skilmála. Engar sönnur hafi verið færðar fram því til stuðnings að tjónið hafi orðið í flutningi í merkingu skilmála og beri því að sýkna stefnda.
Í þriðja lagi sé krafist sýknu með þeim rökum að nægilega sé upplýst að tjónið hafi orðið vegna þess að húsið hafi verið fast við grunn, ekki þolað flutning, og því sigið saman. Þar að auki hafi húsið sigið vegna ótraustrar og ójafnrar undirstöðu á ákvörðunarstað. Öll þessi tilvik séu utan bótasviðs skilmála og tjónið því ekki bótaskylt.
Í fjórða lagi megi með fullri vissu fullyrða að tjónið hafi orðið vegna ófullnægjandi frágangs fyrir flutning. Engar stífingar hafi verið í húsinu. Í húsum sem þessum sé nauðsynlegt að stífa þau af að innan til flutnings og það hafi ekki verið gert. Stífingar hafi verið sérstaklega nauðsynlegar þar sem búið hafi verið að saga húsið í sundur og burðarvirki hússins því verulega raskað. Engin flutningsgrind hafi verið smíðuð undir húsið, sem sé og venja við flutning húsa af þessari gerð eða svipaðri, og fram hafi komið að stefnandi hafi eftir flutning leitað eftir tilboðum í flutningsgrind. Af þessum sökum sé tjónið og heldur ekki bótaskylt og í því sambandi sé vísað til greinar 4.3 í almennum hluta skilmála stefnda fyrir flutningstryggingar. Með hliðsjón af þessu beri að sýkna stefnda.
Í fimmta lagi beri og að sýkna stefnda með tilvísun til þess ákvæðis í skilmálum þar sem segir:
„Vátryggingin bætir ekki tjón, sem orsakast af hristingi, né því að húsið liðist í sundur eða skekkist, nema það stafi af því að flutningstækinu hvolfi, árekstri þess, dráttartaug slitni eða húsið falli af flutningstækinu.“
Ákvæði þetta feli í sér hlutlæga takmörkun á gildissviði skilmála en vátryggingafélög hafi ótvíræða og óumdeilda heimild til afmörkunar á gildissviði skilmála hvað varði hvaða áhættu félagið vátryggi. Hver svo sem skýring kunni að vera á orsökum tjónsins sé óumdeilt að tjónið verði vegna hristings eða það skekkist fyrir flutning, í flutningi eða eftir flutning. Meintur slinkur í þessu sambandi skipti engu máli þar sem hann feli í sér hristing, en hristingur sé ekki bótaskyldur nema flutningatækinu hvolfi, það lendi í árekstri, dráttartaug slitni eða húsið falli af flutningatækinu. Tjónið sé því undanþegið ábyrgð félagsins og beri því að sýkna stefnda.
Niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns hvað varðar fjárhæð tjóns stefnanda er mótmælt. Fjárhæð tjóns stefnanda sé metið 1.446.483 krónur. Tölulegri meðferð hins dómkvadda matsmanns sé í sjálfu sér ekki mótmælt en því sé andmælt að greiða eigi fyrir nýtt teppi á gólfum. Í matsgerð komi fram að teppin hafi verið óhrein og hafi látið á sjá og fram komi að húsið hafi verið sagað í sundur í miðju. Þegar af þessari ástæðu sé ljóst að teppin hafi verið verðlaus og reyndar augljóst að þau hefðu aldrei verið nýtt sem gólfefni þegar og ef húsið hefði verið tekið til nýrra nota. Vinna við teppin sé metin á 523.875 krónur og fráleitt að stefndi geti borið ábyrgð á þessum lið ef svo ólíklega vilji til að tjónið verði talið bótaskylt.
Að öðru leyti sé ítrekað að tjónið sé vegna sigs og ótraustrar undirstöðu í flutningi og á geymslustað og því ekki greiðsluskylt svo sem áður sé vikið að.
Verði tjónið talið bótaskylt sé þess og krafist að frá dæmdri fjárhæð verði dregin sjálfsábyrgð stefnanda sem sé 5% af vátryggingarfjárhæð svo sem skilmálar mæli fyrir um og sé sjálfsábyrgðin 285.000 krónur.
Niðurstaða
Á árinu 2000 keypti stefnandi hús sem var staðsett við Sóltún í Reykjavík. Húsið var keypt til brottflutnings. Stefnandi keypti flutningstryggingu hjá stefnda. Samkvæmt kvittun útgefinni 22. ágúst 2000 var húsið tryggt í flutningi frá Sóltúni að Geithálsi, Reykjavík 22. eða 23. ágúst 2000.
Samkvæmt tryggingarskilmálum var húsið vátryggt gegn utanaðkomandi tjóni eða skyndilegum óhöppum sem valda tjóni við flutning þess frá því að því er lyft frá jörðu eða af undirstöðu á flutningstækið og þar til því hefir verið lyft af flutningstækinu á ákvörðunarstað. Þá segir: „Vátryggingin bætir ekki tjón, sem orsakast af hristingi, né því að húsið liðist í sundur eða skekkist, nema það stafi af því að flutningstækinu hvolfi, árekstri þess, dráttartaug slitni eða húsið falli af flutningstækinu.“
Samkvæmt því sem fram hefur komið annaðist stefnandi sjálfur allan undirbúning flutningsins ásamt aðstoðarmönnum. Vitni sem skýrslu hafa gefið fyrir dómi eru sammála um að þegar búið var að lyfta húsinu með krana örlítið frá grunninum, ca 20-40 cm, hafi komið slinkur á húsið og það lagst saman í miðju eða skekkst. Hefur ekki verið sýnt fram á það í málinu með óyggjandi hætti hver var ástæða þess að slinkur kom á húsið.
Með hliðsjón af framburði vitna verður að líta svo á að húsið hafi verið laust frá grunni er tjónið varð og tjónið hafi því orðið í flutningi í merkingu tryggingarskilmála. Eins og rakið er hér að framan var stefndi við flutninginn tryggður fyrir utanaðkomandi tjóni og skyndilegum óhöppum. Samkvæmt því sem fram hefur komið virðist ekkert slíkt hafa átt sér stað. Eins og segir í tryggingarskilmálum náði tryggingin ekki til þess að húsið skekktist, eins og hér var raunin, enda var ekki fyrir að fara þeim atvikum sem vikið er að í niðurlagi skilmálanna, sbr. hér að framan.
Með hliðsjón af framansögðu þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að sú flutningstrygging sem hann keypti hjá stefnda taki til þess tjóns sem hann varð fyrir í umrætt sinn. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Guðmundar Kr. Unnsteinssonar.
Málskostnaður fellur niður.