Hæstiréttur íslands
Mál nr. 337/1999
Lykilorð
- Nytjastuldur
- Þjófnaður
- Akstur sviptur ökurétti
|
|
Fimmtudaginn 16. desember 1999. |
|
Nr. 337/1999. |
Ákæruvaldið (Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Ingva Guðmundssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Nytjastuldur. Þjófnaður. Akstur án ökuréttar.
I var dæmdur fyrir nytjastuld, umferðarlagabrot og þjófnað. Var honum gerð fangelsisrefsing vegna brota sinna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. ágúst 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af sakargiftum um nytjastuld samkvæmt I. kafla ákæru, en að öllu leyti af þeim sökum, sem hann er borinn í II. kafla hennar. Til vara krefst hann þess að refsing verði milduð.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað af málinu, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Ingvi Guðmundsson, greiði allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 1999.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni 6. apríl 1999 á hendur: “Ingva Guðmundssyni, kt. 290875-2939, Vallarási 1, Reykjavík, fyrir eftirtalin brot í Reykjavík á árinu 1998:
I
Nytjastuld og umferðarlagabrot, með því að hafa notað bifreiðina KU-339 í heimildarleysi frá því eftir hádegi mánudaginn 24. ágúst er hann tók hana frá Bílasölunni Planið, Vatnagörðum og til kl. 05:40 að morgni þriðjudagsins 25. ágúst þegar lögregla kom að ákærða við Ljósheima 10, og ekið henni sviptur ökurétti um götur í borginni og að kvöldi mánudagsins inn um glugga verslunarinnar Trítu, Nethyl 2, með þeim afleiðingum að glerið í glugganum brotnaði, og stungið af frá vettvangi.
Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr., almennra hegningarlaga, nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 20, 1956 og 137. gr. laga nr. 82, 1998, og 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57, 1997 og 186. gr. laga nr. 82, 1998.
II
Þjófnað, með því að hafa að morgni þriðjudagsins 25. ágúst brotist inn í bifreiðina MB-975, með skráningarnúmerið R-76735, við Ljósheima 10, með því að brjóta vinstri hliðarrúðu og stolið geislaspilara, magnara, bassaboxi og geisladiskum, samtals að verðmæti um kr. 50.000.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu gera Sjóvá-Almennar tryggingar hf., kt. 7012881739, kröfu um skaðabætur að fjárhæð kr. 56.667 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi 24.9.1998 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III kafla vaxtalaga til greiðsludags.”
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af þjófnaðarákæru og einnig af nytjastuldi, en að öðru leyti er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði að mati dómsins.
I
Ákærði var handtekinn aðfaranótt 25. ágúst sl. og var þá á bifreiðinni KU-339 og sýnilegt að bifreiðin hefði lent í e-s konar óhappi. Hann kvaðst hafa fengið bifreiðina að láni á bílasölu og myndi skila bifreiðinni daginn eftir. Ákærði var handtekinn vegna sakarefnis sem lýst er í II. kafla ákærunnar og var bifreiðin flutt í geymsluport lögreglustöðvarinnar
Fyrir dómi neitaði ákærði nytjastuldi, en játaði umferðalagabrot þau sem ákært er vegna. Ákærði kvaðst hafa fengið bifreiðina lánaða til reynsluaksturs og því ekki hafa notað hana í heimildarleysi.
Sigurður Jóhann Lövdal bifreiðasali lýsti því fyrir dóminum að ákærði hefði komið á bílasöluna 24. ágúst sl. og beðið um að fá að skoða bifreiðina KU-339. Það var heimilað en tekið fram að hann mætti ekki fara neitt á bifreiðinni. Hins vegar hefði ákærði ekið brott í heimildarleysi. Sigurður vissi að bifreiðin var svo gott sem bensínlaus og því taldi hann ákærða hafa orðið stopp rétt hjá sökum bensínleysis og leitaði hann því bifreiðarinnar í næsta nágrenni, en fann ekki. Þá var lögreglan látin vita. Ákærði hefði því notað bílinn í heimildarleysi og enginn starfsmaður bílasölunnar hefði heimilað honum notkunina, enda hefði bílasalan ekki heimild til að lána bílinn, þar sem leita hefði þurft til eigandans fyrst.
II
Tilkynning barst lögreglu aðfaranótt 25. ágúst sl.um fólk í hávaðarifrildi við Ljósheima 10 og að sparkað hefði verið í bílrúðu og hún brotin. Lögreglan hitti ákærða á vettvangi og eftir handtöku greindi hann frá því að hann hefði verið að sækja tæki í bifreiðina MB-975, en eigandi tækjanna hefði lánað sér þau.
Fyrir dómi neitaði ákærði sök og greindi frá á sama veg og hjá lögreglunni, þ.e. að hann hefði verið að sækja tækin í bifreiðina MB-975 um nóttina, en eigandinn, Ólafur Kristinn Þórðarson, hefði lánað honum tækin og rúðan í bifreiðinni hefði brotnað fyrir slysni er hann var að sækja þau.
Vitnið, Ólafur Kristinn Þórðarson, kærði þjófnað þeirra verðmæta sem lýst er í ákærunni og fyrir dóminum staðfesti hann það og kvaðst aldrei hafa veitt ákærða heimild til að sækja tækin eða fá lánuð.
Niðurstöður
I
Ákærði ók á brott frá bílasölunni og notaði bílinn heimildarlaust klukkustundum saman og lenti loks í umferðaróhappi.
Með játningu ákærða er sannað að hann hafi framið þau umferðarlagabrot, sem ákært er vegna. Með vísan til ofanritaðs og málavaxta að öðru leyti og með vitnisburði Sigurðar Jóhanns Lövdal er sannað gegn neitun ákærða, að hann hafi notað bílinn heimildarlaust, eins og lýst er í ákærunni. Samkvæmt þessu er sannað að ákærði framdi þá háttsemi, sem lýst er í þessum ákærulið og eru brot hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
II
Ákærði braut hliðarrúðu í bifreiðinni, sem er til þess fallið að renna stoðum undir grunsemdir um þjófnað hans og framburður ákærða um að rúðan hafi brotnað fyrir slysni er að engu hafandi.
Með vísan til ofanritaðs og með vitnisburði Ólafs Kristins Þórðarsonar er sannað gegn neitun ákærða, að hann hafi framið þá háttsemi sem hér er lýst og eru brotin rétt heimfærð í ákærunni.
Ákærði á að baki langan sakaferil og hefur frá árinu 1991 gengist undir fjórar dómsáttir fyrir fíkniefnabrot og þjófnað. Þá hefur hann frá árinu 1992 hlotið 13 refsidóma fyrir skjalafals, þjófnað, líkamsárás, nytjastuld, umferðarlagabrot, fjársvik og fíkniefnabrot. Þá hefur hann frá árinu 1993 gengist undir þrjár lögreglustjórasáttir fyrir umferðar- og fíkniefnabrot.
Ákærði hefur staðist reynslulausn er hann hlaut 5. nóvember 1997. Ákærði er nú í 5. sinn fundinn sekur um akstur sviptur ökurétti og hafa ítrekunaráhrif aldrei rofnað á milli brotanna.
Refsing ákærða nú er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði er dæmdur til að greiða tjón sem hlaust af háttsemi hans samkvæmt I kafla ákærunnar og skal hann greiða Sjóvá-Almennum tryggingum hf. skaðabætur eins og lýst er í dómsorði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 70.000 krónur í málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Ingvi Guðmundsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði greiði Sjóvá-Almennum tryggingum hf. 56.667 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi, 24. september 1998, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt III kafla vaxtalaga til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 70.000 krónur í málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns.