Hæstiréttur íslands
Mál nr. 40/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Mánudaginn 21. janúar 2013. |
|
Nr. 40/2013.
|
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. janúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. janúar 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. febrúar 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. janúar 2013.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að kærði X, f. [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. febrúar 2013, kl. 16:00.
Kröfu sína byggir lögreglusjórinn aðallega á a. og b. lið 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og b. lið 99. gr. laganna en til vara á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Krafan er reist á því að kærði sé undir grun um brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað og til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að embættinu hafi borist tilkynning frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar 2. janúar 2013 þess efnis að kærði hafi verið stöðvaður við tollhlið vegna gruns um að hann hefði fíkniefni falin í fórum sínum við komu til landsins með flugi frá Varsjá í Póllandi. Við leit tollvarða í farangri kærða hafi fundist þrjár dósir af barnapúðri og hafi grunur vaknað hjá tollvörðum um að dósirnar innihéldu fíkniefni.
Við vigtun á dósunum hafi þær vigtað 782 gr., 798 gr. og 744 gr. en samkvæmt merkingum á dósunum hafi hver dós átt að vega 400 gr. Við skoðun í Itemiser greiningarvél tollgæslunnar hafi komið fram svörun við innihaldi dósanna um að þær innihéldu amfetamín. Samkvæmt niðurstöðu tæknideildar lögreglunnar höfuðborgarsvæðinu hafi dósirnar innihaldið samtals 2001,81 gr. af meintu amfetamíni. Efnin hafi verið send til rannsóknar hjá rannsóknarstofnun Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði og sé beðið niðurstaðna þeirrar rannsóknar, m.a. varðandi styrkleika og tegund hinna meintu fíkniefna.
Kærði hafi verið yfirheyrður í tvígang vegna málsins. Kveðst hann hafa verið í atvinnuleit og hafi hann beðið vin sinn, sem búsettur sé í Póllandi, um að hafa milligöngu um að útvega honum vinnu hér á landi. Nefndur vinur kærða eigi systur hér á landi og hafi staðið til að hún eða sambýlismaður hennar myndu útvega kærða vinnu hér á landi. Að sögn kærða hafi það gengið eftir og af þeim sökum hafi hann komið hingað til lands, þ.e.a.s. til að stunda vinnu hér á landi. Hafi vinur hans í Póllandi beðið hann um að taka með sér til Íslands ýmist barnadót, þ. á m. framangreindar dósir með barnapúðri sem hafi innihaldið framangreind meint fíkniefni. Hafi kærði átt að afhenda þessa muni systur vinar hans í Póllandi og sambýlismanni hennar. Kærði kveðst ekki hafa vitað um að hann hefði verið að flytja fíkniefni hingað til lands. Lögregla hafi einnig yfirheyrt sambýlismann systur vinar kærða, sem búsettur sé hér á landi, en hafi átt að sögn kærða að sjá um að útvega kærða vinnu hér á landi. Verulegt ósamræmi sé á milli framburðar hans og framburðar kærða um atvik þessa máls og aðdraganda þess að kærði kom hingað til lands. Meðal annars af þessum sökum telji lögregla nauðsynlegt að kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Þá hafi lögregla við rannsókn málsins aflað gagna frá erlendum löggæsluyfirvöldum sem lögregla vinni nú að því að rannsaka. Þá bíði lögregla enn eftir ýmsum gögnum að utan og einnig eftir gögnum sem íslenskir aðilar hafa undir höndum. Í þessu sambandi vísist nánar til ganga málsins.
Rannsókn máls þessa sé í fullum gangi. Verið sé að rannsaka aðdraganda að ferð kærða til landsins og tengsl hans við hugsanlega vitorðsmenn hér á landi og eða erlendis. Unnið sé að því að afla gagna frá erlendum löggæsluyfirvöldum auk annarra atriða sem lögregla telji að séu mikilvæg vegna rannsóknar málsins. Telur lögreglan að þau fíkniefni, sem kærði kom með til landsins, hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og að háttsemi hans kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Lögregla telur að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus. Gangi kærði laus telur lögregla hættu á að kærði verði beittur þrýstingi og að samverkamenn hans reyni að hafa áhrif á kærða. Líklegt sé að kærði hafi átt sér vitorðsmenn hér á landi og eða erlendis. Telur lögregla því að skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé fullnægt í málinu.
Þá sé kærði erlendur ríkisborgari sem virðist hafa mjög takmörkuð tengsl við fólk hér á landi. Af þessum sökum telur lögregla hættu á að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar gangi hann laus meðan mál hans er til meðferðar hjá lögreglu og eða innan dómskerfisins. Af þessum sökum telur lögregla einnig að skilyrðum b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála sé fullnægt í málinu.
Þá sé það mat lögreglu að kærði sé undir sterkum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti. Nær öruggt þyki að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi og að háttsemi kærða kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæða laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Hið meinta brot kærða þyki mjög alvarlegt. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig einnig nauðsynlegt að kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar. Telja verði að ef sakborningur, sem orðið hefur uppvís að jafn alvarlegu broti og kærða sé gefið að sök, gangi laus, áður en máli lýkur með dómi, valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé því fullnægt komi til þess að aðalkrafa verði ekki tekin til greina.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a. og b. liðar 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. febrúar 2013.
Kærði var úrskurðaur í gæsluvarhald 3. janúar sl. til dagsins í dag. Er nú gerð krafa um að hann sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 14. fébrúar 2013. Fallist verður á með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um brot sem varðað getur fangelsisrefsingu. Saga hans um að hann hafi átt að flytja umræddar dósir til ákveðins aðila og að hann hafi ekki vitað um innihald þeirra þykir afar ótrúverðug, enda kannast meintur móttakandi hvorki við kærða né að hann hafi átt að fá sendingu frá Póllandi, hvað þá að hann hafi ætlað að útvega kærða vinnu. Rannsókn málins er í fullum gangi og þykir ljóst að lögreglan þarf lengri tíma til að ljúka henni. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, s.s. með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á samseka eða vitni. Skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eru því fyrir hendi í málinu. Kærði er erlendur ríkisborgari og hefur að því er virðist engin tengsl við Ísland. Verður því talið að uppfyllt séu skilyrði b. liðar 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Vægari úrræði eru ekki fullnægjandi til að tryggja nærveru kærða meðan mál hans er í rannsókn. Samkvæmt framansögðu verður fallist á kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærða, X, er gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. febrúar 2013, kl. 16:00.