Hæstiréttur íslands
Mál nr. 427/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Bráðabirgðaforsjá
|
|
Föstudaginn 24. ágúst 2007. |
|
Nr. 427/2007. |
M(Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.) gegn K (Valborg Þ. Snævarr hrl.) |
Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að ekki væru efni til að fella niður sameiginlega forsjá K og M með því að fela hana öðru þeirra á meðan mál um forsjá sona þeirra til frambúðar væri til meðferðar fyrir dómi. Talið var að lögheimili beggja drengjanna ætti að vera hjá M þar til leyst hefði verið úr málinu, en að K ætti að njóta nánar tilgreinds umgengnisréttar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. ágúst 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. ágúst 2007, þar sem leyst var úr kröfum aðilanna um forsjá tveggja sona þeirra til bráðabirgða. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess aðallega að sér verði falin forsjá beggja sona aðilanna til bráðabirgða, en til vara að staðfest verði ákvæði hins kærða úrskurðar um að þau fari áfram sameiginlega með forsjá drengjanna, sem hafi þá lögheimili hjá sóknaraðila. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað, sem sér verði dæmdur í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti. Kemur krafa hennar um málskostnað í héraði því ekki frekar til álita.
Samkvæmt gögnum málsins hófu aðilarnir á árinu 1998 sambúð, sem stóð fram í janúar 2003. Á sambúðartímanum eignuðust þau tvo syni, fædda 1998 og 2001. Sýslumaðurinn í Reykjavík staðfesti 20. maí 2003 samkomulag aðilanna um að fara sameiginlega með forsjá drengjanna, svo og að lögheimili þess eldri skyldi vera hjá varnaraðila og þess yngri hjá sóknaraðila. Jafnframt var kveðið þar á um greiðslu meðlags. Aðilarnir munu hafa sammælst um að drengirnir yrðu saman á heimili hvors þeirra eina viku í senn og virðist búsetu þeirra hafa verið háttað þannig að engin röskun hafi orðið af þessum sökum á skólasókn eldri drengsins og leikskólagöngu þess yngri. Varnaraðili gekk í hjúskap 2005 og hefur eignast tvö börn með eiginmanni sínum, en sóknaraðili er nú í óvígðri sambúð. Framangreind tilhögun virðist hafa haldist þar til á fyrri hluta árs 2007, þegar varnaraðili ákvað að flytjast ásamt eiginmanni sínum og börnum þeirra til D. Sóknaraðili leitaði eftir því við sýslumanninn í Reykjavík 20. apríl 2007 að ákveðið yrði að báðir drengirnir hefðu lögheimili hjá sér og varnaraðili greiddi meðlag með þeim, en umgengni hennar við þá á nýju heimili yrði skipað með nánar tilgreindum hætti. Varnaraðili hafnaði þessu og höfðaði mál 16. maí 2007 á hendur sóknaraðila til að fá forsjá beggja drengjanna dæmda sér. Sóknaraðili tók þar til varna og krafðist að sér yrði falin forsjáin. Þá krafðist hann þess einnig að kveðið yrði á um að hann færi með forsjá drengjanna til bráðabirgða, sem varnaraðili gerði jafnframt kröfu um fyrir sitt leyti. Mál þetta er rekið til að fá leyst úr þeim ágreiningi.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um að ekki séu efni til að fella niður sameiginlega forsjá aðilanna með því að fela hana öðru þeirra á meðan mál um forsjá til frambúðar er til meðferðar fyrir dómi. Kemur þá til úrlausnar ágreiningur aðilanna um hvernig fari um lögheimili sona þeirra á því tímabili, sbr. 2. mgr. 35. gr. barnalaga.
Eins og málið liggur fyrir verður að leggja til grundvallar að báðir aðilarnir séu hæfir foreldrar og færir um að veita sonum sínum gott heimili. Í málatilbúnaði þeirra beggja hefur verið lögð áhersla á að drengirnir verði ekki skildir að. Sá eldri hefur gengið í sama grunnskóla í Reykjavík í þrjú ár og mun honum hafa vegnað þar vel, þótt tímabundið hafi komið til vandkvæða, sem getið er í hinum kærða úrskurði. Yngri drengurinn hefur lokið leikskóla og var ráðgert að hann hæfi nú nám við sama grunnskóla og bróðir hans, en hann geta þeir báðir sótt frá heimili sóknaraðila. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að drengirnir þekki vel aðstæður á þessu svæði og eigi þar félaga, en það sama geti ekki svo að teljandi sé átt við um það sveitarfélag, þar sem varnaraðili á nú heimili, þótt drengirnir hafi dvalið þar að nokkru eftir að hún flutti þangað og áður verið þar í heimsóknum hjá foreldrum hennar. Þegar þetta er virt eru ekki efni til að láta syni aðilanna sæta þeirri röskun á skólagöngu og öðrum aðstæðum, sem óumflýjanlega myndi fylgja heimilisfesti hjá varnaraðila, á meðan óvíst er hvort sú skipan ætti að haldast til frambúðar. Skal því lögheimili beggja drengjanna vera hjá sóknaraðila þar til leyst hefur verið úr því máli, sem rekið er um forsjá þeirra. Varnaraðili skal hafa umgengni við þá þriðju hverja helgi og í jólaleyfi, allt eftir nánara samkomulagi við sóknaraðila, en eins og málið liggur fyrir verður ekki séð að ágreiningur sé milli aðilanna um hvernig umgengni verði háttað.
Rétt er að hvort aðilanna beri sinn kostnað af þessum þætti málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Niðurstaða hins kærða úrskurðar er staðfest að því er varðar kröfur sóknaraðila, M, og varnaraðila, K, um forsjá sona þeirra, A og B, til bráðabirgða.
Lögheimili beggja sona aðilanna skal vera hjá sóknaraðila þar til leyst hefur verið úr um forsjá þeirra með dómi.
Varnaraðili skal njóta umgengnisréttar við syni aðilanna þriðju hverja helgi og í jólaleyfi eftir nánara samkomulagi við sóknaraðila.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. ágúst 2007.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar mánudaginn 16. júlí sl., var þingfest 28. júní 2007. Sóknaraðili er M, kt. [...], til heimilis að [...], Reykjavík. Varnaraðili er K, kt. [...], til heimilis að [...].
Dómkröfur sóknaraðila eru þær, að honum verði með úrskurði falin forsjá drengjanna, A, kt. [...], og B, kt. [...], til bráðabirgða, þar til niðurstaða fæst í forsjármáli aðila, sem þingfest var í Héraðdsdómi Reykjavíkur 22. maí 2007. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Dómkröfur varnaraðila eru þær aðallega, að henni verði falin forsjá drengjanna, A, kt. [...], og B, kt. [...], til bráðabirgða, meðan á rekstri forsjármáls aðila á milli stendur. Til vara gerir varnaraðili þær kröfur, að kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Varnaraðili gerir jafnframt kröfu um einfalt meðalmeðlag með hvorum dreng um sig frá uppkvaðningu úrskurðar, þar til endanlegur dómur gengur í forsjármáli aðila. Einnig er gerð krafa um, að dómari ákveði inntak umgengnisréttar drengjanna við foreldri sín, hvernig sem forsjá verði háttað, meðan á rekstri málsins stendur. Loks er gerð krafa um málskostnað úr hendi sóknaraðila að mati réttarins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
II
Málavextir
Málavextir eru þeir, að með stefnu, sem þingfest var 22. maí sl., höfðaði varnaraðili máls þessa mál á hendur sóknaraðila máls þessa og gerði kröfu um, að úr gildi verði felld sameiginleg forsjá drengjanna, A og B, og henni falin forsjáin, auk þess sem hún gerði kröfu um ákvörðun um umgengni, meðlag og málskostnað.
Með kröfu, þingfestri 28. júní sl., gerði varnaraðili, M, kröfu um úrskurð um bráðabirgðaforsjá, svo sem að framan er gerð grein fyrir. Í greinargerð, sem lögð var fram af varnaraðila, K, 16. júlí sl., gerði hún þær kröfur, sem að framan er gerð grein fyrir.
Sóknaraðili kveður aðila hafa kynnzt á árinu 1997 og hafið sambúð fljótlega, þegar varnaraðili flutti í íbúð hans. Á sambúðartímanum eignuðust þau saman drengina, A og B, f. 1998 og 2001. Sambúð aðila lauk í janúar 2003. Gerðu aðilar með sér samkomulag um, að þau færu sameiginlega með forsjá drengjanna, og var eldri drengurinn með lögheimili hjá varnaraðila, en sá yngri hjá sóknaraðila. Eftir sambúðarslitin komu aðilar sér saman um, að drengirnir skyldu dvelja vikulega til skiptis hjá hvoru foreldi. Gengu þeir hvor í sinn skólann, sá eldri í C en sá yngri í leikskóla.
Varnaraðili hóf sambúð með núverandi eiginmanni sínum, eftir sambúðaslitin, og á með honum tvö börn, sem eru fædd árin 2005 og 2007. Sóknaraðili er í óskráðri sambúð.
Varnaraðili er nú flutt til D, þar sem eiginmaður hennar hefur fengið skipun til fimm ára sem lögreglumaður á staðnum, og kveður hún ætlun þeirra að vera þar til frambúðar.
III
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili byggir kröfu sína um forsjá til bráðabirgða á því, að högum drengjanna sé betur borgið undir hans forsjá og með áframhaldandi búsetu hjá honum. Slík ákvörðun muni ótvírætt fela í sér minni röskun fyrir drengina, þar sem þeim muni áfram vera í því umhverfi, sem þeir hafi alizt upp í og sem þeim gjörþekki og líði vel í. Verði krafa varnaraðila um forsjá tekin til greina, muni það hafa í för með sér verulegar breytingar á högum drengjanna og uppeldisaðstæðum, þar sem aðstæður allar á D séu mjög frábrugðnar þeim, sem drengirnir þekki og líði vel í. Einungis búi tæplega 400 manns á D og hafi íbúum sveitarfélagsins fækkað um meira en 100 manns á síðastliðnum 50 árum, og sé því um gjörólíkt uppeldisumhverfi að ræða miðað við það, sem drengirnir þekki og séu aldir upp við. Skólaárið 2006-2007 hafi verið 79 börn í grunnskólanum þar. Meðalfjöldi í bekk sé tæplega 8 börn og stundum sé um samkennslu tveggja bekkjardeilda að ræða.
Sóknaraðili byggir á því, að hann sé hæfara foreldri en varnaraðili, m.a. sé hann mun næmari á þarfir og tilfinningar drengjanna en varnaraðili og sýni þeim meiri skilning. Eldri drengurinn sé sérstaklega viðkvæmur fyrir öllum breytingum, og hafi hann lent í einelti sl. haust, sem einkum hafi tengzt fótboltaleikjum í skólanum. Báðir foreldrar hafi tekið á því máli með skólanum og umsjónarkennara drengsins, auk þess sem drengurinn hafi fengið aðstoð frá félags- og námsráðgjafa C. Sóknaraðili hafi verið í nánu samstarfi við umsjónarkennarann vegna þessa allan sl. vetur og hafi mjög fljótt tekizt að uppræta eineltið, og sé drengurinn félagslega í góðum málum og líði vel í skólanum. Hann hafi verið í mikilli framför námslega í skólanum, eins og framlagður vitnisburður staðfesti. Vel hafi verið haldið utan um málefni drengsins í skólanum; þar eigin hann góða vini og félaga, og mjög áhættusamt sé að raska því fyrirkomulagi, áður en endanleg niðurstaða sé fengin í forsjámáli aðila. Geti reynzt áhættusamt félagslega fyrir drenginn að þurfa að koma nýr inn í bekk, þar sem nemendur hafi verið saman frá upphafi, og takast á við allt annað umhverfi og gjörólíkt því, sem hann sé vanur.
Þar sem lögheimili yngri drengsins sé hjá sóknaraðila muni hann hefja skólagöngu í C í haust, enda verði ekki komin niðurstaða í forsjármáli aðila fyrir þann tíma. Sé mikilvægt, að bræðurnir verði ekki aðskildir, áður en niðurstaða liggi fyrir í forsjármálinu, eins og varnaraðili hyggist gera, þar sem hún hafi tilkynnt drengjunum, að A muni hefja nám við Grunnskóla D í haust. Hafi varnaraðili farið með drenginn í skólann í byrjun maí sl. til þess að skoða bekkinn, og telji sóknaraðili sýnt, að varnaraðili ætli að nýta sér þá staðreynd, að hún hafi lögheimili eldri drengsins til að flytja búsetu hans strax, óháð niðurstöðu forsjármálsins. Varnaraðili hafi, allt frá því að hún ákvað breytta búsetu, ekkert tillit tekið til þess, hversu tengdir bræðurnir séu, og virðist ekki setja það fyrir sig, að skilja þá að. Mikilvægt sé, að drengirnir alist upp saman, enda séu þeir tilfinningalega mjög tengdir og sæki bæði ánægju og styrk hvor til annars. Þeir hafi sömu áhugamál, hafi báðir æft sund og hafi báðir áhuga á fótbolta, og hvorugur megi af hinum sjá nema í örskamman tíma. Fyrirætlanir varnaraðila gangi þvert á tilfinningar og vilja drengjanna og beri með sér, að hagsmunir þeirra séu ekki hafðir að leiðarljósi við þá ákvörðun hennar. Tilhögun varnaraðila að aðskilja drengina í upphafi næsta skólaárs geti haft afdrifaríkar afleiðingar á sálarlíf þeirra beggja, og því sé mikilvægt að taka kröfu sóknaraðila til greina til að tryggja, að staða drengjanna í félagslegu og uppeldislegu tilliti haldist óbreytt þar til niðurstaða um forsjá liggi fyrir. Verði krafa um bráðabirgðaforsjá drengjanna tekin til greina, muni eldri drengurinn vera áfram í sama skóla og yngri drengurinn muni hefja skólagöngu í næsta haust. Með því að taka kröfu sóknaraðila til greina verði tryggt, að drengirnir verði saman og fái að alast upp við aðstæður, sem þeir gjörþekki og með slíkri skipan verði tryggt, að þeir geti haldið áfram tengslum við vini og félaga.
Krafa sóknaraðila um bráðabirgðaforsjá drengjanna sé í samræmi við eindreginn vilja þeirra. Þeir hafi ítrekað lýst þeirri skoðun sinni við sóknaraðila og fleiri, þegar búsetuflutningar varnaraðila beri á góma, að þeir vilji ekki flytja til D. Þótt afi og amma drengjanna búi á D, og þeir hafi í gegnum árin komið þangað í heimsókn nokkrum sinnum, eigi þeir enga vini eða félaga þar, sem þeir tengist með sama hætti og félögum þeirra í Reykjavík. Þeir hafi aðeins komið í stuttar heimsóknir til D og aldrei dvalið þar yfir vetrarmánuði og séu því á engan hátt hagvanir þar, heldur líti þeir ávallt á sig sem gesti, þegar þeir komi þangað. Báðum drengjunum líði vel í því umhverfi, sem þeir hafi verið í, og þeim finnist þeir eiga heima í Reykjavík. Vilji drengjanna beggja endurspegli þá vellíðan þeirra í dag.
Sóknaraðili byggir á því, að hann hafi einn séð um tómstundaæfingar drengjanna alla tíð. Þeir hafi æft sund síðastliðin ár, og hafi sú ákvörðun verið tekin í fullu samráði við varnaraðila, en þá viku, sem drengirnir hafi dvalið hjá varnaraðila, hafi sundæfingum ávallt verið sleppt. Hið sama sé að segja um fótboltaæfingar A. Varnaraðili hafi verið áhugasöm fyrstu tvær vikurnar, en nánast undantekningalaust hafi drengurinn ekki mætt á æfingar þá viku, sem hann dvelji hjá varnaraðila. Síðastliðinn vetur hafi varnaraðili komið með þá hugmynd, að A myndi fara að æfa frjálsar íþróttir. Sambýlismaður varnaraðila hafi stundað þá íþrótt, en eftir örfáar vikur hafi þeim æfingum verið hætt, þrátt fyrir að áhugi drengsins væri mikill.
Sóknaraðili byggir á því, að uppeldisaðferðir málsaðila séu mjög ólíkar, sem rekja megi til þess, að eðli málsaðila sé mjög ólíkt. Varnaraðili sé úthaldslítil varðandi uppeldi drengjanna, sem m.a. komi fram í því, að hún sé ekki tilbúin að fylgja þeim eftir í tómstundum nema í skamman tíma. Hún hafi verið í samvinnu við sóknaraðila varðandi eineltið í skólanum í nokkrar vikur, en síðan hafi hún ekki haft eftirfylgni með því máli gagnvart skólayfirvöldum, eða öðrum. Varnaraðili sé í mun minni tengslum en sóknaraðili við skóla og leikskóla drengjanna, og t.d. hafi hún ekki séð ástæðu til að mæta í úrskrift B í leikskólanum sl. vor eða á skólaslit C, þrátt fyrir að hún væri í bænum. Sóknaraðili mæti á alla viðburði tengda drengjunum foreldraviðtöl, bekkjarkvöld í skólanum hátíðir í leikskólanum, æfingar og keppnir, svo fátt eitt sé nefnt. Hann sé virkari en varnaraðili í félags- og tómstundastarfi drengjanna, og leiti þeir frekar til hans varðandi það.
Sóknaraðili byggir á því, að hann geti boðið drengjunum betri og öruggari uppeldisaðstæður en varnaraðili. Hann búi í öruggu leiguhúsnæði hjá leigufélagi E ehf., og sé leigusamningurinn ótímabundinn. Sóknaraðili kveðst vera í sambúð með F, sem hafi tekið báðum drengjunum opnum örmum, og þeir tengist henni tilfinningaböndum, sem og fjölskyldu hennar. Þeir virðist síður hafa tengzt sambýlismanni varnaraðila með sama hætti. Sóknaraðili sé í traustu og vellaunuðu starfi sem yfirmaður þróunarmála hjá I, sem hann hafi verið í undanfarin ár. Vinnutími hans sé mjög sveigjanlegur, og geti hann unnið nánast allt sitt starf heima, ef svo beri undir, og því auðveldlega aðlagað vinnutíma sinn að þörfum drengjanna. Sambýliskona hans sé einnig í góðu starfi, sem hún geti sinnt til kl. 14.00 á daginn. Tekjur heimilisins séu traustar og góðar. Á heimili hans séu þarfir og hagsmunir drengjanna í forgangi og styðji þau þá í leik og starfi og haldi góðum tengslum við vini drengjanna sem og foreldra vina þeirra. Drengirnir séu í góðum tengslum við stórfjölskyldu sóknaraðila, sem og stórfjölskyldu sambúðarkonu hans, og sé stuðningsnet hans í fjölskyldunni mjög þétt og gott. Allar ytri aðstæður sóknaraðila séu því traustari og öruggari en varnaraðila.
Heimili varnaraðila í Reykjavík sé nú í útleigu, og hafi hún flutzt inn á heimili foreldra sinna á D ásamt sambýlismanni sínum og tveimur börnum. Algjör óvissa sé um, hversu lengi hún muni búa á D, hvort um tímabundið ástand sé að ræða eða framtíðarbúsetu. Hún hafi sagt sóknaraðila, að hún muni búa hjá foreldrum sínum, þar sem ómögulegt sé að fá annað leiguhúsnæði á D, eins og standi. Sóknaraðili byggir á því, að mun meiri áhætta sé fólgin í því að fela varnaraðila forsjá barnanna til bráðabirgða, þar sem aðstæður á D séu mjög óvissar. Sambýlismaður varnaraðila taki við starfi þar sem lögreglumaður, og óvíst sé, hvernig honum muni líka í fámenninu, sem þar sé, eða líka við starfið. Varnaraðili eigi tvö ung börn, tveggja ára telpu og nokkurra mánaða gamlan dreng, og sé hún því í fæðingarorlofi. Umönnun tveggja ungra barna taki drjúgan tíma hennar og hafi hún því ekki eins góðan tíma og aðstæður til að sinna drengjunum og sóknaraðili. Hún hafi sjálf lýst því yfir, að henni finnist erfitt að vera með fjögur börn, sbr. framlagða útprentun úr bloggsíðu hennar. Óvíst sé, hvaða vinnu varnaraðili muni fá á D að loknu fæðingarorlofi, og telji sóknaraðili, að rekstur heimilis varnaraðila sé mun þyngri en hans og tekjur lægri. Feli krafa sóknaraðila um forsjá drengjanna til bráðabirgða í sér mun öruggara umhverfi og meiri stöðugleika fyrir drengina.
Sóknaraðili byggir á því, að málsaðilar hafi ólíkar uppeldisaðferðir, og henti aðferðir sóknaraðila drengjunum mun betur. Varnaraðili sé ekki mikið fyrir að hafa skýran ramma utan um drengina, m.a. varðandi mataræði, svefntíma og kurteisi, sem og tómstundaiðkanir þeirra, sem þeir alist upp við hjá sóknaraðila. Félagstengsl sóknaraðila og drengjanna hafi ávallt verið mjög mikil, og þeir leiti mikið til hans, enda hafi sóknaraðili brennandi áhuga á því, sem þeir séu að gera, sem og tómstundum þeirra.
Sóknaraðili byggir á því, að einungis með því að honum verði falin forsjá drengjanna til bráðabirgða, verði komizt hjá þeirri röskun á lífi þeirra, sem varnaraðili stefni að með því að aðskilja þá síðla sumars og láta eldri drenginn flytja til sín til D. Forsjárkrafa sóknaraðila feli í sér, að drengirnir alist áfram upp í núverandi umhverfi, geti alizt upp saman og stundað áfram þær tómstundir, sem þeir hafi verið í undanfarin ár. Drengirnir sýni greinileg merki meiri vellíðunar, meðan þeir dveljist hjá honum, og þar sé vel um þá hugsað. Aðgerðir móður nú í ágúst til að skilja drengina að, sé beinlínis andstæð högum þeirra og þörfum, og sé krafa sóknaraðila um forsjá til bráðabirgða því beinlínis nauðsynleg.
Sóknaraðili byggir á því, að hann muni ávallt virða tengsl drengjanna við varnaraðila og fjölskyldu hennar og leggja ríka áherzlu á, að þeir geti dvalið með henni bæði reglulega, sem og í ríflegan tíma yfir sumar. Finnist sóknaraðila sjálfsagt að taka tillit til lengri dvalar í sumarleyfum, t.d. meðan búseta varnaraðila verði á D. Umgengnistillögur sóknaraðila, sem lagðar hafi verið fram fyrir Sýslumanninn í Reykjavík, endurspegli þann eindregna vilja hans. Hins vegar beri framkoma varnaraðila undanfarna mánuði með sér, að hún virði ekki hin sterku tengsl bræðranna og óvíst sé um afstöðu hennar til tengsla drengjanna við sóknaraðila.
Krafa sóknaraðila sé á því byggð, að það sé drengjunum fyrir beztu að búa hjá honum í samræmi við 35. gr. barnalaga, sem og VI. kafla laga nr. 76/2003. Um varnarþing fari eftir 37. gr. laganna, og um sönnunargögn er vísað til 42. gr. laga nr. 76/2003. Krafa um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 60/1988, en sóknaraðili kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðili byggir kröfur sínar á 35. gr. laga nr. 76/2003, enda væri það andstætt hagsmunum drengjanna, yrði fallizt á kröfur sóknaraðila. Telji varnaraðili það bezt samræmast hagsmunum drengjanna, að hún fari með forsjá þeirra, meðan á rekstri málsins stendur, enda hafi hún góðar aðstæður til að hafa þá hjá sér, og standi eindreginn vilji þeirra til búsetu hjá henni á D.
Varnaraðili hafi ávallt verið umönnunarforeldri drengjanna, bæði meðan á sambúð aðila stóð, sem og eftir að henni lauk. Hafi tengsl drengjanna við hana verið með öðrum hætti en tengslin við sóknaraðila, en varnaraðili telji meiri félagatengsl ríkja milli þeirra og sóknaraðila, meðan aðalforeldratengslin séu við hana. Þannig finni drengirnir öryggi sitt í búsetu hjá varnaraðila og frumþörfum þeirra sé betur fullnægt. Tengsl þeirra við stjúpföður sinn séu góð, en hann leggi áherzlu á, að hann komi ekki í stað föður þeirra og virði hlutverk sóknaraðila í lífi þeirra að öllu leyti. Veiti hann drengjunum öryggi og vináttu í ljósi þeirrar afstöðu.
Aðstæður drengjanna á D séu mjög góðar. Varnaraðili og fjölskyldan búi tímabundið í G, meðan þau séu að finna hús til kaups, en á neðri hæð hússins búi foreldrar varnaraðila. Hafi börnin öll sér herbergi og gott rými fyrir fjölskylduna alla. Hafi drengirnir báðir dvalið megnið af sumrinu fyrir norðan og tekið virkan þátt í íþróttum og félagslífi á staðnum. Þeir eigi þar góða vini og hlakki til að hefja skólagöngu nyrðra. Varnaraðili hafi verið í sambandi við skólann og viti skólastjórinn þar af máli þessu.
Varnaraðili kveðst muni verða heimavinnandi og hafi ekki í hyggju atvinnuþátttöku á næstunni. Hyggi hún á fjarnám að heiman, og verði hún því ávallt til staðar fyrir drengina, eftir að skóla ljúki á daginn. Sama eigi ekki við um aðstæður sóknaraðila, eins og nánar sé rakið í greinargerð varnaraðila í forsjármálinu. Séu aðstæður hans allar óstöðugar í samanburði við aðstæður varnaraðila. Þá búi hann langt frá skóla drengjanna, en þeir hafi verið í skólahverfi C, en sóknaraðili búi í H. Eigi drengirnir enga vini í nágrenni við heimili sóknaraðila, en vinir þeirra hafi flestir verið búsettir í þeirra skólahverfi, hjá heimili varnaraðila.
Varnaraðili byggir á því, að mikilvægt sé, að drengirnir alist upp saman, og að þeir báðir alist upp með öðrum systkinum sínum, en á heimili varnaraðila búi tvö yngri hálfsystkini þeirra, sem þeir séu báðir mjög tengdir. Verði kröfu varnaraðila um forsjá beggja drengjanna til bráðabirgða hafnað, verði afleiðingin sú, að eldri drengurinn búi hjá varnaraðila á D, en sá yngri hjá sóknaraðila í Reykjavík. Sé sú niðurstaða með öllu ótæk að mati varnaraðila. Verði á kröfur sóknaraðila fallizt, verði afleiðingin sú, að drengirnir verði aðskildir frá hálfsystkinum sínum og aðalumönnunarforeldri sínu, gangi í skóla í nýju skólahverfi í Reykjavík og búi við aðstæður, þar sem ekki sé pláss fyrir þá, hjá föður í ótryggri sambúð. Sé sú niðurstaða með öllu ótæk að mati varnaraðila, og beri því að taka kröfur hennar til greina.
Aðstæður á D, á litlum stað og í litlum skóla, séu drengjunum ákjósanlegastar, enda eigi þeir þar sterka stórfjölskyldu, góðan vinahóp og séu virkir í hollu íþrótta- og félagsstarfi. Fjölskyldan lifi hollu og eðlilegu fjölskyldulífi, þar sem allt sé í föstum skorðum.
Varnaraðili muni stuðla að hverri þeirri umgengni, sem dómari ákveði, en sé jafnframt reiðubúin til að fara góða samningsleið við sóknaraðila, fallist hann á breytta búsetu drengjanna hjá varnaraðila.
IV
Forsendur og niðurstaða
Krafa um bráðabirgðaforsjá er úrræði, sem heimilt er að beita, þegar slíkar aðstæður eru fyrir hendi, að hagsmunum barns er hætta búin, meðan beðið er endanlegrar niðurstöðu í forsjármáli. Segir svo í greinargerð með 36. gr. barnalaga nr. 20/1992, sem er efnislega hin sama og 1. mgr. 35. gr. núgildandi barnalaga, að endanleg úrlausn forsjármáls geti tekið alllangan tíma, þótt hraða beri úrlausn eftir föngum. Geti því borið brýna nauðsyn til að skipa máli til bráðabirgða. Jafnframt segir, að hér beri að bregðast við eftir því, sem barni sé fyrir beztu.
Þegar virtar eru málsástæður sóknaraðila, eins og þær eru settar fram í kröfu, er ljóst, að þær lúta allflestar að forsjármálinu sjálfu. Þannig verður ekki séð, að eftirtaldar málsástæður skapi nauðsyn á bráðabirgðaskipan forsjárinnar: Að högum barnanna sé almennt betur borgið hjá föður en móður; almennar breytingar á högum og aðstæðum barnanna, fái móðir forsjána, vegna búsetu hennar á D; að sóknaraðili sé hæfara foreldri; tilfinningaleg tengsl drengjanna innbyrðis og sameiginleg áhugamál; meintur eindreginn vilji þeirra til að búa hjá föður: ólíkar uppeldisaðferðir eða meint óvissa um dvalartíma varnaraðila á D eða aðstæður hennar þar. Stendur þá einungis eftir sú málsástæða, að flutningur eldri drengsins til D feli í sér meiri röskun á högum hans, þar sem hann þurfi að ganga í nýjan skóla, kynnast nýjum skólafélögum og nýju umhverfi, sem kunni síðan að breytast við endanlega niðurstöðu málsins. Hið sama gildi um yngri drenginn, verði krafa sóknaraðila um bráðabirgðaforsjá yfir honum tekin til greina.
Aðilar hafa fram til þessa farið sameiginlega með forsjá drengjanna, en lögheimili eldri drengsins hefur verið hjá móðurinni og lögheimili yngri drengsins hjá föðurnum. Hafa aðilar haft það fyrirkomulag, að drengirnir hafa dvalið til skiptis hjá þeim, viku í senn.
Eins og mál þetta liggur fyrir dóminum sýnast báðir aðilar hæfir og ábyrgir foreldrar. Það fyrirkomulag, sem aðilar hafa haft á forsjá drengjanna, lögheimilum og umgengni, virðist hafa gengið vel og foreldrum tekizt að leysa sameiginlega og farsællega úr vandamálum, sem upp hafa komið varðandi drengina. Gefa málsatvik ekki tilefni til að ætla, að það sé drengjunum til hagsbóta að breyta til bráðabirgða forsjá þeirra frá því, sem nú er, þar til dómur gengur í forsjármálinu, þar sem ákveðið verður til frambúðar, hvernig forsjánni verður skipað. Er kröfum hvors aðila um breytingu á forsjá til bráðabirgða því hafnað. Kemur þá til álita, hvernig skipa skuli lögheimili drengjanna, sbr. 2. mgr. 35. gr. l. nr. 76/2003.
Í kröfugerð sóknaraðila og greinargerð varnaraðila kemur skýrt fram, að báðir aðilar telja það andstætt hagsmunum drengjanna, vegna náinna innbyrðis tengsla þeirra, að skilja þá að, meðan á forsjármálinu stendur. Þykir því rétt og í samræmi við óskir málsaðila að lögheimili drengjanna verði sameiginlegt, þar til endanleg niðurstaða í forsjárdeilu foreldranna liggur fyrir.
Þótt fjölskylduskipan málsaðila sé ólíkt háttað, verður ekki talið, á þessu stigi, að það hafi afgerandi áhrif á lögheimilisskipan drengjanna til bráðabirgða. Móðirin er í hjónabandi og á tvö lítil börn með manni sínum. Þau hafa til umráða rúmt húsnæði á D, sem er að nokkru leyti sameiginlegt með foreldrum hennar. Faðirinn er í óskráðri sambúð í þriggja herbergja leiguíbúð í H. Er ekki annað vitað en að aðbúnaður á báðum stöðum sé með góðu móti.
Fyrir liggur, að eldri drengurinn muni í haust hefja nám í C, sem hann hefur sótt undanfarin ár, verði lögheimili hans hjá föðurnum. Sömuleiðis mun yngri drengurinn hefja nám í sama skóla, þar sem hann fer í fyrsta bekk grunnskóla á hausti komanda. Heimilisfang föður er í H, en skólinn í C, eða utan skólahverfis drengjanna. Eldri drengurinn þekkir vel til í skólanum, og benda gögn málsins til, að honum líði þar vel nú, enda þótt hann hafi lent þar í einelti á síðasta ári. Á því var tekið samkvæmt gögnum málsins, og er það nú úr sögunni.
Engar upplýsingar eru um það í málinu, að hvaða marki yngri drengurinn muni vera með félögum sínum úr leikskóla, hefji hann nám í C.
Meðan ekki hefur verið skorið úr um endanlega forsjá, er ógerningur að segja af eða á um það, hvor skipanin muni raska meira högum drengjanna, meðan á forsjárdeilunni stendur, og þykir því óhjákvæmilegt að líta til þess, hvor tilhögunin sé líklegri til að valda drengjunum meiri félagslegri og tilfinningalegri röskun, gangi niðurstaða í forsjárdeilunni þvert á ákvörðun um lögheimili þeirra til bráðabirgða. Ekki er á þessari stundu ljóst, hvenær dómur mun ganga í forsjármálinu, og verður því að líta til þess, að það kunni að gerast á miðju skólaári. Er það álit dómsins, að verði lögheimili ákveðið hjá móður nú, en faðir fái hina endanlegu forsjá með dómi, muni það valda drengjunum minni röskun, að vera kippt úr skóla, hvort heldur er á miðju skólaári eða að því loknu, og sendir til baka í kunnuglegt umhverfi, heldur en ef lögheimili væri háttað á hinn veginn og þeim væri kippt úr kunnuglegu umhverfi til að sækja skóla í nýju umhverfi, með nýjum félögum. Er það því niðurstaða dómsins, að hagsmunir drengjanna verði betur tryggðir með því að lögheimili þeirra verði hjá varnaraðila.
Í ljósi framangreindrar niðurstöðu þykir rétt, að sóknaraðili hafi umgengnisrétt við drengina þriðju hverja helgi til bráðabirgða, sem og í jólaleyfi, hafi dómur ekki gengið þá, allt eftir nánara samkomulagi við móður. Þá ákveðst, að sóknaraðili greiði varnaraðila einfalt meðalmeðlag með hvorum dreng fyrir sig frá uppkvaðningu úrskurðarins, meðan á rekstri forsjármálsins stendur.
Rétt þykir, að ákvörðun málskostnaðar bíði dóms í forsjármáli aðila.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kröfu sóknaraðila, M, og varnaraðila, K, um forsjá drengjanna, A og B, til bráðabirgða er hafnað.
Lögheimili beggja drengjanna skal vera hjá varnaraðila, meðan á rekstri forsjármálsins stendur.
Sóknaraðili skal hafa umgengnisrétt við drengina þriðju hverja helgi og í jólaleyfi, meðan á forsjármálinu stendur, allt eftir nánara samkomulagi við varnaraðila.
Sóknaraðili greiði varnaraðila einfalt meðalmeðlag með báðum drengjunum frá uppkvaðningu úrskurðar þessa, meðan á rekstri forsjármálsins stendur.
Málskostnaður bíður dóms í forsjármáli aðila.