Hæstiréttur íslands

Mál nr. 397/2014


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Skaðabætur


                               

Fimmtudaginn 5. febrúar 2015

Nr. 397/2014.

Guðmundur B. Haraldsson

(Kristján B. Thorlacius hrl.)

gegn

Isavia ohf.

(Andri Árnason hrl.)

Ráðningarsamningur. Uppsögn. Skaðabætur.

G hóf störf hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar árið 2006 og kom fram í ráðningarsamningi hans að ákvæði laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins giltu um réttarstöðu aðila. Opinbert hlutafélag var síðar stofnað um reksturinn samkvæmt lögum nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar undir heitinu K ohf. Kom fram í bráðabirgðaákvæði með lögunum að lög nr. 70/1996 giltu um réttindi og skyldur þeirra starfsmanna sem yrðu færðir til hlutafélagsins. Árið 2010 tók F ohf., sem síðar varð að I ohf., yfir rekstur félagsins, en nokkru áður hafði stjórn þess tilkynnt að starfslok starfsmanna yrðu eftirleiðis miðuð við 67 ára aldur. G var í samræmi við þetta sagt upp störfum á árinu 2012. Hann taldi uppsögnina andstæða ákvæðum laga nr. 70/1996 og stjórnsýslulaga og höfðaði mál til heimtu bóta vegna ætlaðrar ólögmætrar uppsagnar. Fyrir lá að G var ekki ríkisstarfsmaður sem féll undir ákvæði laga nr. 70/1996 þegar honum var sagt upp störfum. Aðilar deildu á hinn bóginn um hvort skilja ætti fyrrgreint bráðabirgðaákvæði þannig að starfsmennirnir ættu að halda réttarstöðu sinni samkvæmt lögum nr. 70/1996 eftir að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar yrði lögð niður og opinbert hlutafélag stofnað. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að orðalag ákvæðisins tæki ekki af öll tvímæli um það, en af lögskýringargögnum yrði ekki annað ráðið en að einungis hafi átt að fylgja lögum nr. 70/1996 þegar störf starfsmanna Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar voru lögð niður, en ekki eftir að þeir urðu starfsmenn hlutafélagsins. I ohf. hefði þó borið að virða ákvæði laganna vegna hins upphaflega samnings G, sem félagið hefði tekið yfir. Hins vegar yrði að líta svo á að með tilkynningu K ohf. um starfslok við 67 ára aldur hefði reglu 2. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996 um 70 ára hámarksaldur verið sagt upp. Nýir skilmálar hefðu tekið gildi að liðnum uppsagnarfresti á þeim tíma og hefði G ekki hreyft andmælum við þessari breytingu á réttarstöðu sinni. Að öðru leyti væri ekki í ljós leitt að skorður væru við því að opinbert hlutafélag segði starfsmönnum sínum upp við 67 ára aldur. Þá hefði I ohf. ekki borið að fylgja stjórnsýslulögum eða almennum reglum stjórnsýsluréttar við uppsögnina. Var I ohf. því sýknað af kröfu G. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. júní 2014. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 12.440.642 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 11.440.642 krónum frá 1. maí 2013 til 3. nóvember sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af þeirri fjárhæð frá þeim degi til 10. janúar 2014 og af 12.440.642 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2014.

                                                                                           I.

         Mál þetta, sem var dómtekið 6. maí sl., er höfðað 9. desember 2013 af Guðmundi B. Haraldssyni, Heiðarhvammi 6c í Reykjanesbæ, gegn Isavia ohf., Reykjavíkurflugvelli í Reykjavík.

         Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 12.440.642 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 11.440.642 krónum frá 1. maí 2013 til 3. nóvember 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 11.440.642 krónum frá þeim degi til 10. janúar 2014, en af 12.440.642 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar auk virðisaukaskatts.

         Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.

                                                                                          II.

         Stefnandi var starfsmaður varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli frá 1. júlí 1985 og starfaði í flugþjónustudeild slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli. Árið 2006 mun starfsemi slökkviliðsins hafa verið færð undir Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar. Hinn 27. september 2006 gerði Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar ráðningarsamning við stefnanda um starf tækjamanns. Fram kom í samningnum að hann væri gerður samkvæmt 42. gr. laga nr. 70/1996 auk þess sem í skilmálum hans var tekið fram að um réttindi og skyldur starfsmanns færi eftir þeim lögum.

         Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar starfaði á þessum tíma á grundvelli laga nr. 34/2006. Með lögum nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl. var veitt heimild til að stofna opinbert hlutafélag um rekstur Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Skyldi félagið, sem fékk heitið Keflavíkurflugvöllur ohf., hefja rekstur 1. janúar 2009. Við þau tímamót var Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar lögð niður. Í ákvæði til bráðabirgða II í lögunum segir eftirfarandi um réttindi starfsmanna:

Þegar Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar og Flugstöð Leifs Eiríkssonar ohf. verða lagðar niður, frá og með 1. janúar 2009, fer um réttindi og skyldur starfsmanna Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en auk þess gilda lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eftir því sem við á.

      Hlutafélag skv. 1. gr. skal bjóða starfsmönnum Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. störf, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða III.

      Um biðlaunarétt, sem kann að hafa fylgt störfum einstakra starfsmanna Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar, gilda ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

         Með bréfi af þessu tilefni, dags. 30. september 2008, var stefnanda tilkynnt um þessi aðilaskipti. Þar segir meðal annars eftirfarandi:

Fyrir liggur að hið nýja félag mun um komandi áramót yfirtaka þá starfsemi sem þér hafið starfað við, en gert er ráð fyrir að þér munið áfram sinna starfinu hjá hinu nýja félagi frá og með þeim tíma að telja. Mun Keflavíkurflugvöllur ohf. yfirtaka ráðningarsamning yðar í samræmi við ákvæði II til bráðabirgða með lögum nr. 76/2008 og almennar reglur um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, sbr. lög nr. 72/2002. [...]

      Rétt er að ítreka að réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningi yðar við núverandi vinnuveitanda, Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli, færast yfir til Keflavíkurflugvallar ohf. og verður því ekki breyting á launum eða starfskjörum yðar samkvæmt ráðningarsamningi við aðilaskiptin. Þannig verður m.a. miðað við að skuldbinding vegna áfallins orlofs og áunnins veikindaréttar flytjist yfir til hins nýja fyrirtækis.

         Í samræmi við framangreint hóf stefnandi störf hjá Keflavíkurflugvelli ohf. 1. janúar 2009. Þar mun hann hafa gegnt sama starfi og áður.

         Hinn 1. janúar 2010 tóku gildi lög nr. 153/2009 um samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar. Í 5. gr. laganna var mælt fyrir um að við samrunann skyldi yfirtökufélag, sem stofna átti samkvæmt 1. gr. laganna, taka yfir öll réttindi og allar skuldbindingar yfirteknu félaganna samkvæmt lögum nr. 102/2006 og lögum nr. 76/2008. Þá kom þar fram að yfirtakan veitti samningsaðilum ekki heimild til uppsagnar fyrirliggjandi samningssambanda.

         Með bréfi, dags. 4. janúar 2010, var stefnanda tilkynnt að stjórn Keflavíkurflugvalla ohf. hefði „sett þá reglu að starfslok starfsmanna Keflavíkurflugvallar skuli miðast við 67 ára aldur“. Kom þar fram að reglan væri sett í ljósi tilmæla frá Samgönguráðuneytinu þar sem fram komi að á sama tíma og leitast skuli við að varðveita störf, eigi að bjóða starfsmönnum sem öðlast hafi rétt til töku lífeyris upp á starfslok. Þar sagði enn fremur að regla þessi tæki gildi frá og með janúar 2010 og myndu starfslok miðast við lok þess mánaðar sem starfsmaður næði 67 ára aldri. Mun samhljóða bréf hafa verið sent öllum starfsmönnum Keflavíkurflugvalla ohf. sem náð höfðu 64 ára aldri.

         Hinn 23. apríl 2010 var stefnanda ritað bréf þar sem honum var tilkynnt að 1. maí sama ár myndi nýtt hlutafélag í eigu ríkisins taka yfir allar eignir og skuldir, réttindi og skuldbindingar opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar. Nafn hins nýja félags yrði til bráðabirgða FLUG-KEF ohf. Þá sagði eftirfarandi í bréfinu: „Lögum samkvæmt mun nýja félagið taka yfir réttindi og skyldur gagnvart öllum starfsmönnum. Starfsmenn Flugstoða ohf. og Keflavíkurflugvallar ohf. verða því frá og með 1. maí nk. starfsmenn FLUG-KEF ohf.“ Nafni FLUG-KEF ohf. var síðar breytt í Isavia ohf. sem er stefndi í máli þessu.

         Mannauðsstjóri stefnda ritaði stefnanda bréf, dags. 30. mars 2012. Þar sagði orðrétt eftirfarandi: 

Eins og þér er kunnugt þá samþykkti stjórn Isavia á fundi sínum þann 1. apríl 2011 að framvegis skuli starfsmenn láta af störfum hjá fyrirtækinu við 67 ára lífaldur. Ákvörðun stjórnar gerir ráð fyrir því að þeim sem náð hafa þessum aldri verði þó gefinn aðlögunartími til 1. apríl 2012. Eftir það lýkur starfsfólk störfum í lok þess mánaðar sem það nær 67 ára aldri.

      Jafnframt var ákveðið að starfsmenn sem starfað hafa hjá Isavia og forverum þess samfellt síðastliðin 10 ár fái greidda sérstaka eingreiðslu í séreignarlífeyrissjóð sinn. Nánar verður gengið frá samkomulagi um þessa greiðslu áður en að starfslokum kemur, en hún nemur ákveðnum fjölda mánaðarlauna.

      Í samræmi við þessa reglu munu starfslok þín miðast við 31. október 2012.

      [...]

         Ágreiningslaust er að stefnandi hafi tekið við eingreiðslu í séreignarlífeyrissparnað sinn að fjárhæð 2.642.456 krónur. Þá liggur enn fremur fyrir að starfslokum stefnanda hafi verið frestað til 1. maí 2013, en þá lét stefnandi af störfum hjá stefnda.

         Með bréfi lögmanns stefnanda 3. október 2013 var þess krafist að stefndi greiddi stefnanda 12.496.944 krónur í skaðabætur á þeim grundvelli að uppsögnin hefði verið ólögmæt. Kom þar fram að fjárhæð kröfugerðarinnar væri reist á útreikningi Bjarna Guðmundssonar tryggingarstærðfræðings frá 2. október 2013 sem fylgdi með kröfunni. Með bréfi 29. október 2013 var kröfum stefnanda hafnað.

                                                                                         III.

1. Málsástæður og lagarök stefnanda

         Stefnandi kveður það vera óumdeilt í málinu að hann hafi verið starfsmaður ríkisstofnunarinnar, Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar, eftir að slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli var fært undir stofnunina. Hafi ráðningarkjör hans og réttarstaða þá farið eftir lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem og gildandi kjarasamningi. Stefnandi byggir á því að við flutning á starfi hans frá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar til Keflavíkurflugvallar ohf. árið 2008 og frá því félagi til stefnda hafi hann haldið réttarstöðu sinni og öllum ráðningarkjörum opinberra starfsmanna, þ.m.t. þeim réttindum sem kveðið sé á um í lögum nr. 70/1996.

         Til stuðnings þessari málsástæðu vísar stefnandi í fyrsta lagi til þess að í grein II til bráðabirgða með lögum nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl. sé kveðið á um, að þegar Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar og Flugstöð Leifs Eiríkssonar ohf. verði lagðar niður, frá og með 1. janúar 2009, fari um réttindi og skyldur starfsmanna Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þá komi þar enn fremur fram að lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum gildi eftir því sem við eigi. Telur stefnandi því ótvírætt að hann hafi haldið öllum réttindum sínum sem ríkisstarfsmaður við flutninginn frá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar til Keflavíkurflugvallar ohf.

         Stefnandi vísar og til þess að í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 153/2009 um samruna opinberu félaganna Keflavíkurflugvallar og Flugstoða sé sérstaklega kveðið á um það að yfirtökufélag samkvæmt 1. gr. taki yfir öll réttindi og allar skuldbindingar yfirteknu félaganna sem kveðið sé á um í lögum nr. 102/2006 um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands og lögum nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl. Sömuleiðis sé sérstaklega tekið fram að yfirtakan veiti samningsaðilum yfirteknu félaganna, sem samruninn kunni að varða, ekki heimild til uppsagnar fyrirliggjandi samningssambanda. Stefnandi telur í þessu sambandi að orðalag 1. mgr. 5. gr. laga nr. 153/2009 verði ekki skilið á annan hátt en að stefndi hafi gengið inn í ráðningarsamband stefnanda og Keflavíkurflugvallar ohf. og tekið yfir allar skuldbindingar, m.a. samkvæmt ákvæði II til bráðabirgða með lögum nr. 76/2008 um að fyrrum starfsmenn Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli héldu réttindum sínum sem ríkisstarfsmenn. Þá telur stefnandi að síðasti málsliður 1. mgr. 5. gr. verði ekki skilinn öðruvísi en að beinlínis sé óheimilt að segja þeim réttindum upp eða gera breytingar þar á. Að þessu virtu telur stefnandi að við flutning starfs stefnanda frá Keflavíkurflugvelli ohf. til stefnda, hafi hann haldið öllum réttindum sínum sem ríkisstarfsmaður, þ.m.t. samkvæmt lögum nr. 70/1996.

         Í öðru lagi er á því byggt að stefnandi hafi haldið óbreyttum réttindum á grundvelli ákvæða laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Stefnandi bendir á að í tilkynningu Flugmálastjórnar til stefnanda um flutning á starfi hans til Keflavíkurflugvallar ohf. og lögum nr. 76/2008, hafi verið vísað til laga nr. 72/2002. Þá sé í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 153/2009 tekið fram að lög nr. 72/2002 gildi um réttarstöðu starfsmanna við sameiningu Flugstoða ohf. og Keflavíkurflugvallar ohf.

         Samkvæmt 1. gr. laga nr. 72/2002 og skilgreiningu aðilaskipta samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. sömu laga, og að teknu tilliti til lögskýringargagna og yfirlýsinga í tilkynningum til stefnda um yfirtöku ráðningarsamnings hans, telur stefnandi ótvírætt að lögin eigi við um flutning á starfi hans frá Flugmálastjórn til Keflavíkurflugvallar ohf. sem og frá Keflavíkurflugvelli ohf. til stefnda.

         Stefnandi tekur fram að samkvæmt 3. gr. laga nr. 72/2002 eigi réttindi og skyldur framseljanda samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi, sem fyrir hendi er á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað, að færast yfir til framsalshafa. Í 2. mgr. 3. gr. segi enn fremur að framsalshafi skuli virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir framseljanda.

         Á því er byggt af hálfu stefnanda að samkvæmt skýru orðalagi 3. gr. laga nr. 72/2002 hafi hann, við flutning starfs hans frá Flugmálastjórn til Keflavíkurflugvallar ohf., haldið öllum þeim réttindum sem hann hafi haft hjá Flugmálastjórn. Hafi hann því áfram notið ráðningar- og starfskjara samkvæmt ráðningarsamningi, kjarasamningi FFR og ríkisins og lögum nr. 70/1996. Auk þessa telur stefnandi að hann hafi áfram notið réttarverndar ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglna stjórnsýsluréttar, við ákvörðunartöku um ráðningu hans og breytingar á henni.

         Að þeirri niðurstöðu fenginni, að stefnandi hafi notið sömu réttinda og starfsskilyrða og opinber starfsmaður  í ráðningarsambandi hans við Keflavíkurflugvöll ohf., telur stefnandi ljóst að hann hafi einnig haldið sömu réttarstöðu þegar stefndi hafi yfirtekið ráðningarsamning hans við sameiningu Flugstoða ohf. og Keflavíkurflugvallar ohf.

         Í þriðja lagi er á því byggt að í bréfum Flugmálastjórnar, dags. 30. september 2008, og Flugstoða ohf. og Keflavíkurflugvallar ohf., dags. 23. apríl 2010, til stefnanda hafi því verið lýst yfir í báðum tilvikum að Keflavíkurflugvöllur ohf. og stefndi yfirtækju réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningi stefnanda. Í tilviki Keflavíkurflugvallar ohf. hafi sérstaklega verið tilgreint að félagið yfirtæki ráðningarsamning stefnanda og að ekki yrði breyting á starfskjörum hans við flutninginn. Hvað stefnda varði komi einnig fram í fyrrnefndu bréfi, dags. 23. apríl 2010, að stefndi yfirtaki réttindi og skyldur gagnvart öllum starfsmönnum Keflavíkurflugvallar ohf.

         Stefnandi telur að í orðalagi umræddra bréfa felist skuldbindandi yfirlýsing af hálfu stefnda og forvera hans um að stefnandi myndi áfram, eftir yfirtöku þessara aðila á ráðningarsamningi hans, njóta sömu starfskjara og hann hafði notið fyrir yfirtöku þeirra á samningnum, þ.e. þeirra réttinda sem hann hafði notið sem ríkisstarfsmaður hjá Flugmálastjórn. Samkvæmt meginreglum samningaréttar sé stefndi bundinn af þessum yfirlýsingum sínum sem verði að teljast hluti af ráðningarsamningi stefnanda og stefnda.

         Stefnandi telur einnig að það leiði af aðilaskiptum að ráðningarsamningi að framsalshafi takist við slíkt framsal á hendur allar þær skuldbindingar sem framsalsgjafi hafi haft samkvæmt samningnum, nema annað sé sérstaklega umsamið af hálfu aðila samningsins. Um það vísar hann til meginreglu vinnu- og samningaréttar. Jafnframt beri að skýra  heimild til frávika frá þessari meginreglu þröngri skýringu. Stefnandi bendir á að lögfest starfskjör ríkisstarfsmanna séu svo stór þáttur af starfskjörum og starfsumhverfi þeirra að stefnandi hafi mátt draga þá ályktun af orðalagi fyrrnefndra bréfa stefnda og forvera hans að starfskjör hans sem ríkisstarfsmanns yrðu óbreytt. Hafi stefndi eða forverar hans ætlað sér að breyta réttarstöðu og starfskjörum stefnanda við flutninginn þá hafi þeim verið nauðsynlegt að semja sérstaklega við stefnanda um breytingar á ráðningarsambandi aðila. Að lágmarki hefði þurft að taka sérstaklega fram í tilkynningum til stefnanda að við aðilaskipti að ráðningarsamningi hans myndi verða breyting á þessum þáttum.

         Stefnandi kveður stefnda ekki hafa gert það. Ekki hafi verið gerður nýr ráðningarsamningur við stefnanda með breyttum starfskjörum, heldur hafi fyrri ráðningarsamningur stefnanda við Flugmálastjórn, þar sem m.a. hafi verið vísað til ráðningarkjara opinberra starfsmanna, verið yfirtekinn í báðum tilvikum. Í fyrrnefndum bréfum til stefnda sé sömuleiðis ekki að finna neinar tilkynningar um breytingar. Þvert á móti séu þar fullyrðingar um hið gagnstæða. Þá hafi engar breytingar verið gerðar á kjarasamningum stefnda í þá veru að afnema sérstök starfsréttindi fyrrum ríkisstarfsmanna.

         Að lokum telur stefnandi að við skýringu á réttarstöðu sinni og þeim lagaákvæðum sem að framan séu rakin beri að líta til þess að stefndi sé opinbert hlutafélag sem hafi mikla reynslu af starfsmannamálum. Telji stefndi að við ofangreind aðilaskipti á ráðningarsamningi stefnanda, hafi falist breytingar á starfskjörum hans og hafi það staðið stefnda og forverum hans nær að gera með skýrum hætti grein fyrir hinum ætluðu breytingum. Stefndi eigi að bera hallann af því að hafa ekki tekið slíkt fram með skýrum hætti og sömuleiðis halla af sönnunarskorti um hinar ætluðu breytingar. Í þessu sambandi vísar stefnandi m.a. til dómaframkvæmdar um þetta atriði, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 258/2011.

         Í fjórða lagi bendir stefnandi á að engar breytingar hafi orðið á starfi hans við flutninginn og hann hafi áfram gegnt sama starfi á sama stað. Þá hafi aðild stefnanda að stéttarfélagi verið óbreytt við flutninginn, þrátt fyrir að stefnandi hafi skipt um stéttarfélag árið 2011. Jafnframt hafi ráðningarsamningur stefnanda verið óbreyttur.

         Stefnandi kveðst mótmæla málatilbúnaði stefnda, sem fram komi í bréfi hans 29. október 2013. Stefnandi mótmælir sérstaklega þremur þáttum. Í fyrsta lagi mótmælir stefnandi þýðingu ákvæða tilskipunar ráðs ESB 2001/23/EB í málinu. Í þessu sambandi verði að líta til þess að tilskipunin hafi ekki lagagildi á Íslandi heldur hafi hún verið innleidd með lögum nr. 72/2002 sem verði eingöngu lögð til grundvallar við úrlausn málsins. Stefnandi telur réttarstöðu sína samkvæmt umræddum lögum ótvíræða. Þá hafi eldri dómar EFTA dómstólsins, sem hafi fallið fyrir gildistöku laga nr. 72/2002 heldur enga þýðingu í málinu, sérstaklega þegar þeir séu í andstöðu við nýrri dóma Hæstaréttar Íslands.

         Í öðru lagi mótmælir stefnandi því að upptaka uppsagnarákvæðis, gr. 15.1, í kjarasamning FFR og stefnda árið 2011 hafi þýðingu í málinu. Óumdeilt sé að hluti starfsmanna stefnda lúti starfskjörum almenns vinnumarkaðar, þ.e. þeir sem ekki hafi flust frá stefnda frá ríkisstofnunum. Það sé því eðlilegt að kveðið sé á um reglur um uppsögn umræddra starfsmanna í kjarasamningi. Hins vegar hafi umrætt ákvæði engin áhrif á réttindi fyrrum ríkisstarfsmanna, enda hvergi í ákvæðinu vikið að því að með því sé skertur sá réttur sem þeir hafi notið. Stefnandi telur slíka tilgreiningu vera forsendu þess að umrætt ákvæði geti haft einhverja þýðingu fyrir réttarstöðu stefnanda, sbr. fyrri umfjöllun og dóm Hæstaréttar í máli nr. 258/2011.

         Í þriðja lagi kveðst stefnandi mótmæla því að ákvörðun stjórnar stefnda 1. apríl 2011 hafi jafngilt uppsögn á réttindum stefnda sem opinbers starfsmanns. Umræddur málatilbúnaður stefnda standist engan veginn, enda sé hvergi minnst á réttindi stefnanda sem ríkisstarfsmanns í tilkynningu til hans um þetta né í uppsagnarbréfi hans. Þvert á móti hafi eingöngu verið um að ræða ákvörðun stjórnar stefnda að segja stefnanda upp og hafi uppsagnarbréf hans verið tilkynning til stefnda um hina ólögmætu uppsögn.

         Að öllu þessu virtu telur stefnandi ótvírætt að í starfi sínu hjá stefnda hafi hann notið starfskjara sem opinber starfsmaður samkvæmt lögum nr. 70/1996, ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglum stjórnsýsluréttar.

         Með vísan til framangreinds byggir stefnandi á því að ákvæði laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hafi gilt um uppsögn hans. Samkvæmt 44. gr. laganna sé skylt að veita starfsmanni áminningu samkvæmt 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar. Í 21. gr. laga nr. 70/1996 séu meðal annars nefndar ástæður á borð við óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns, vankunnáttu, óvandvirkni eða ófullnægjandi árangur í starfi. Stefnandi tekur fram að óumdeilt sé að uppsögn stefnanda hafi ekki verið vegna brota í starfi eða vanrækslu.

         Stefnandi byggir á því að samkvæmt viðurkenndum skilningi á umræddum ákvæðum hafi verið óheimilt að segja stefnanda upp störfum nema í tveimur tilvikum, þ.e. hafi starf hans verið lagt niður vegna skipulagsbreytinga, sbr. meginreglur starfsmannaréttar og 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða með lögum nr. 70/1996, eða við 70 ára aldur samkvæmt reglu 2. mgr. 43. gr. sömu laga. Óumdeilt sé í málinu að staða stefnanda hafi ekki verið lögð niður.

         Stefnandi tekur fram að samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996 skuli jafnan segja ríkisstarfsmanni upp störfum frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann nær 70 ára aldri. Stefnandi byggir á því að samkvæmt þessu lagaákvæði sé ríkisstarfsmönnum almennt heimilt að starfa til 70 ára aldurs, nánar tiltekið til næstu mánaðamóta eftir að þeir ná þeim aldri. Ekki verði séð að í lögum séu ákvæði þar sem kveðið sé á um heimild vinnuveitanda til að ákveða starfslok ríkisstarfsmanns fyrir 70 ára aldur. Myndi slík ráðstöfun þá jafngilda uppsögn í skilningi 1. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996. Með gagnályktun frá framangreindum ákvæðum sé því beinlínis óheimilt að segja ríkisstarfsmanni upp fyrir sjötugt, eingöngu vegna aldurs. Telur stefnandi uppsögn sína því brjóta gegn ákvæðum laga nr. 70/1996.

         Stefnandi byggir einnig á því að sambærilega gagnályktun megi draga af ákvæðum laga um töku lífeyris, t.d. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og 15. og 21. gr. laga nr. 1/1997 um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Sama gildi um ákvæði kjarasamninga, þar sem eingöngu sé kveðið á um heimild en ekki skyldu til töku lífeyris fyrir 70 ára aldur.

         Stefnandi telur einnig að það sé ótvíræð venja í ráðningarsamböndum opinberra starfsmanna að ríkisstarfsmönnum sé heimilt að starfa til 70 ára aldurs. Slík venja um starfslokaaldur teljist til starfskjara og fylgi því ríkisstarfsmönnum áfram til nýrra vinnuveitenda við framsal á ráðningasamningum þeirra, sbr. ákvæði laga nr. 72/2002.

         Að lokum byggir stefnandi á því að uppsögn hans vegna aldurs án viðhlítandi lagastoðar brjóti gegn ólögfestum meginreglum stjórnsýsluréttar um málefnaleg sjónarmið og jafnræði. Stefnandi telur að einhliða ákvörðun stefnda, um að stefnandi væri vegna 67 ára aldurs ekki lengur hæfur til að starfa hjá stefnda, sé ómálefnaleg og styðjist hvorki við haldbær rök né lagaákvæði. Þegar af þeirri ástæðu brjóti uppsögnin gegn meginreglunni um málefnaleg sjónarmið.

         Stefnandi telur einnig að með uppsögninni sé brotið gegn jafnræði stefnanda gagnvart öðrum starfsmönnum stefnda. Stefnandi telur sig eiga lögvarðan rétt til að njóta jafnræðis á við samstarfsmenn sína skv. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglum stjórnsýsluréttar. Vísar stefnandi í því sambandi til 2. mgr. 11. gr. laga nr. 37/1993 en stefnandi telur aldur vera „sambærilega ástæðu“ sbr. upptalningu ákvæðisins.

         Að framangreindu virtu telur stefnandi að með uppsögn stefnanda vegna 67 ára aldurs hafi stefndi brotið gegn ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og meginreglum stjórnsýsluréttar. Því sé uppsögnin ólögmæt.

         Bótakrafa stefnanda er rökstudd með vísan til þess að með uppsögninni hafi stefndi brotið með ólögmætum og saknæmum hætti gegn lögfestum og samningsbundnum réttindum stefnanda, eins og rakið hafi verið. Stefnandi hafi við uppsögnina verið 67 ára með sérhæfða starfsreynslu og ómögulegt fyrir hann að fá starf við sitt hæfi. Sú hafi orðið raunin og séu einu tekjur stefnanda lífeyrisgreiðslur. Því sé ljóst að stefnandi hafi orðið fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni við uppsögnina sem nemi töpuðum starfstekjum síðustu þrjú ár starfsævi hans.

         Stefnandi vísar til þess að ef ekki hefði komið til uppsagnar hefði stefnandi verið á fullum launum hjá stefnda út þann mánuð er hann varð sjötugur eða frá 1. maí 2013 til 31. október 2015. Launatap stefnanda nemi því töpuðum launagreiðslum á þessu tímabili eða í 30 mánuði. Stefnandi byggir á því að við útreikning launatapsins beri að miða við tekjur samkvæmt launaseðli stefnanda þegar hann hafi látið af störfum vorið 2013, en þá hafi mánaðarlaun hans numið 443.577 krónum auk framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð 8.872 krónum. Þá beri stefnda einnig að bæta stefnanda tapaðar kjarasamningsbundnar aukagreiðslur svo sem desemberuppbót, orlofsuppbót, greiðslur í viðbótarlífeyrissparnað o.fl. Stefnandi byggir jafnframt á því að stefnda beri að bæta honum töpuð lífeyrisréttindi vegna tapaðra greiðslna í lífeyrissjóð frá 1. maí 2013 til 1. nóvember 2015. Stefnandi telur að reikna beri lífeyrisréttindi miðað við 3,5% ársávöxtun og í samræmi við lífslíkur gefnar út af félagi tryggingastærðfræðinga. Einnig beri að taka tillit til tapaðs makalífeyris.

         Stefnandi kveðst hafa fengið Bjarna Guðmundsson tryggingastærðfræðing til að reikna tekjutap stefnanda vegna uppsagnar hans. Niðurstaða útreikningsins sé að tekjutap eða tjón stefnandi hafi verið, að frádreginni innborgun stefnda inn á viðbótarlífeyrissparnað hans, 11.440.642 krónur, sem sundurliðist með eftirfarandi hætti:

Tapaðar launagreiðslur maí 2013 – nóvember 2015                          kr.          12.228.264,-

Töpuð lífeyrisréttindi vegna launagreiðslan

maí 2013 – nóvember 2015                                                                     kr.            1.854.843,-

Alls:                                                                                                                kr.          14.083.107,-

Frádregin innborgun á séreignarsparnað:                                               kr.          - 2.642.465,-

Samtals:                                                                                                       kr.         11.440.642,-

         Um frekari sundurliðun og reikniforsendur einstakra liða vísar stefnandi til bréfs Bjarna Guðmundssonar, dags. 2. október 2013, og taflna með útreikningum hans sem lögð séu fram í máli þessu.

         Stefnandi telur að í uppsögninni hafi einnig falist ólögmæt meingerð gegn æru og persónu hans. Stefnandi hafi með uppsögninni verið sviptur möguleikanum á því að starfa áfram á vinnustað sínum og verið látinn sæta uppsögn eftir áratuga starf. Uppsögnin hafi beinst að persónu stefnanda með þeim hætti að hún hafi falið í sér að vegna aldurs gæti hann ekki sinnt störfum sínum með sama hætti og aðrir starfsmenn á vinnumarkaði sem eigi þess kost að vinna til 70 ára aldurs og jafnvel lengur. Þar af leiðandi telur stefnandi, með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og meginreglna skaðabótaréttar, að stefnda beri að greiða honum miskabætur vegna uppsagnarinnar og afleiðinga hennar. Stefnandi telur miskabæturnar hæfilegar 1.000.000 króna með vísan til þeirra afleiðinga sem uppsögnin hafi haft fyrir stefnanda og dómvenju í sambærilegum málum. Kröfugerð stefnanda er því sundurliðuð með eftirfarandi hætti:

Bótakrafa vegna tapaðra tekna og lífeyrisréttinda                          kr.              11.440.624.

Miskabótakrafa                                                                                       kr.               1.000.000.-

Bótakrafa samtals                                                                                   kr.            12.440.642.-

         Kröfu um vexti kveður stefnandi byggjast á 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Dráttarvaxtakrafan sé reist á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Stefnandi telur upphafsdag vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 vera dagsetningu uppsagnar stefnanda 1. maí 2013. Upphafsdag dráttarvaxta telur stefnandi vera 3. nóvember 2013 en þá hafi verið liðinn einn mánuður frá því að stefnandi hafði sett fram kröfu sínar með kröfubréfi, dags. 3. október 2013.

         Um lagarök vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, einkum 1. til 3. gr. Stefnandi byggi einnig á ákvæðum laga nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl., einkum ákvæði II til bráðabirgða. Stefnandi vísi jafnframt til ákvæða laga nr. 153/2009 um samruna opinberu félaganna Keflavíkurflugvallar og Flugstoða, einkum 5. gr. Þá kveðst stefnandi vísa til ákvæða laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, einkum ákvæða 21., 43. og 44. gr. Stefnandi vísi einnig til laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, einkum 1. mgr. 14. gr., og laga nr. 1/1997 um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, einkum 15. og 21. gr. Þá kveðst stefnandi byggja á ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 11. gr., og ólögfestum meginreglum stjórnsýsluréttar. Jafnframt kveðst stefnandi vísa til meginreglna vinnu-, starfsmanna- og samningaréttar. Stefnandi styður kröfu sína einnig við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 26. gr. og meginreglna skaðabótaréttar. Um vexti vísar stefnandi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 6. og 8. gr. Þá kveður hann kröfu um málskostnað styðjast við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, með síðari breytingum. Kröfu um að þóknun samsvarandi virðisaukaskatti verði lögð ofan á málskostnað styður stefnandi við ákvæði laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Um varnarþing vísar hann til 33. gr. laga nr. 91/1991, með síðari breytingum.

2. Málsástæður og lagarök stefnda

         Stefndi mótmælir öllum kröfum og málsástæðum stefnanda. Hann byggir á því að uppsögn stefnanda hafi verið lögmæt og í samræmi við ráðningarsamning stefnanda, og þá einnig lög nr. 70/1996, og gildandi kjarasamning.

         Stefndi byggir í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi ekki verið ríkisstarfsmaður í skilningi laga nr. 70/1996 í starfi sínu hjá stefnda. Við flutning á starfi stefnanda frá Flugmálastjórn til Keflavíkurflugvallar ohf. hafi hann orðið starfsmaður hlutafélags á almennum vinnumarkaði, og það hafi hann einnig verið eftir flutning á starfi hans til stefnda, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar þann 8. desember 2011 í máli nr. 258/2011.

         Stefndi hafnar málsástæðum stefnanda er lúta að því að ákvæði II til bráðabirgða með lögum nr. 76/2008 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 153/2009 verði að skilja á þann veg að stefnandi hafi haldið réttarstöðu sinni og ráðningarkjörum samkvæmt lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Stefndi byggir í fyrsta lagi á því að ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 76/2008 hafi einungis verið ætlað að tryggja að við niðurlagningu yrðu réttindi starfsmanna tryggð með eðlilegum hætti, eins og ráða megi af orðalagi ákvæðisins. Þetta komi einnig skýrlega fram að mati stefnda í athugasemdum með frumvarpi til laganna en þar sagði að um réttarstöðu starfsmanna á þessum tímamótum giltu almenn ákvæði starfsmannalaga og eftir atvikum aðilaskiptalaga. Það hafi síðan verið nánar skýrt þannig að starfsmannalögin hefðu þýðingu að því er varðaði starfslok í þjónustu ríkisins, þ.e. biðlaunarétt, og að aðilaskiptalögin ættu að tryggja að aðilaskiptin ein og sér gætu ekki verið ástæða uppsagnar starfsmanna lögaðilanna tveggja. Þá hafi einnig komið fram að réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningi, sem fyrir hendi væru á þeim degi sem aðilaskiptin ættu sér stað, færðust yfir til hins nýja félags, og að virða skyldi áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi þar til kjarasamningi yrði sagt upp eða hann rynni út eða þar til annar kjarasamningur öðlaðist gildi eða kæmi til framkvæmda, en þetta sé í samræmi við ákvæði 3. gr. aðilaskiptalaganna.

         Stefndi hafnar því alfarið að framangreind lagaákvæði hafi átt að tryggja að starfsmenn Flugmálastjórnar héldu lögbundinni réttarstöðu sinni sem ríkisstarfsmenn eftir aðilaskiptin, enda hafi legið ljóst fyrir að eftir aðilaskiptin yrðu þeir ekki lengur starfsmenn í þjónustu ríkisins. Stefndi fellst þannig ekki á þá túlkun stefnanda að með ákvæðinu hafi átt að tryggja áfram lögbundin sérréttindi starfsmannanna sem ríkisstarfsmanna, hvað þá að ekki hafi verið heimilt að gera nokkrar breytingar á ráðningarkjörum þeirra um alla framtíð. Í þessu sambandi vísar stefndi sérstaklega til dóms Hæstaréttar frá 8. desember 2011 í máli nr. 258/2011, sem stefnandi vísi sjálfur til í stefnu. Telur hann að ekki verði annað ráðið af dóminum en að persónubundin réttindi samkvæmt ráðningarsamningi séu þau réttindi sem flytjist yfir til hins nýja aðila, en ekki lögbundin sérréttindi ríkisstarfsmanna, og að hinum nýja aðila sé heimilt að gera breytingar á ráðningarkjörum starfsmanna eftir aðilaskiptin. Þetta sé í samræmi við lög nr. 72/2002 sem veiti ekki vernd gegn öðru en uppsögnum vegna aðilaskipta, eins og fram komi í 4. gr. laganna.

         Stefndi mótmælir því einnig að lög nr. 72/2002 leiði til þess að stefnandi hafi haldið óbreyttum réttindum samkvæmt lögum nr. 70/1996 og verndar ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem og meginreglna stjórnsýsluréttar við töku ákvarðana er lúti að ráðningu hans og breytingum á henni. Telur stefndi að stefnandi líti svo á að ákvæði laga nr. 72/2002 ein og sér feli í sér að hann eigi að hafa sömu réttarstöðu og starfsmaður í þjónustu ríkisins samkvæmt lögum nr. 70/1996.

         Stefndi byggir á því að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 72/2002 hafi réttindi og skyldur Flugmálastjórnar, og síðar Keflavíkurflugvallar ohf., samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi við stefnanda, sem fyrir hendi hafi verið á þeim degi sem aðilaskiptin hafi átt sér stað, flust yfir til stefnda. Hér sé hins vegar aðeins átt við persónubundin réttindi samkvæmt ráðningarsamningi stefnanda en ekki lögbundin sérréttindi opinberra starfsmanna.

         Stefndi vísar til þess að stefnanda hafi sannanlega verið tilkynnt með bréfi 4. janúar 2010 um breytt aldursviðmið við starfslok. Síðar, eða frá 1. apríl 2011, hafi það sama gilt um alla starfsmenn stefnda. Stefndi byggir á því að þessi ákvörðun Keflavíkurflugvallar ohf., og síðar stefnda, hafi verið lögmæt og málefnaleg. Hún hafi verið almenn og tekið til allra starfsmanna, bæði hjá Keflavíkurflugvelli ohf. og síðar stefnda, og jafnræðis starfsmanna hafi þannig verið gætt. Það að miða starfslok við 67 ára aldur geti ekki talist óvenjulegt að mati stefnda, enda hefji flestir launamenn töku ellilífeyris við það aldursmark, auk þess sem almannatryggingakerfi ríkisins geri ráð fyrir töku ellilífeyris frá 67 ára aldri. Einnig beri að hafa í huga að störf hjá stefnda tengist flug- og öryggismálum þar sem ríkar kröfur séu gerðar og algengt sé að ráðningartími takmarkist við tiltekinn aldur. Framangreint samræmist einnig almennum viðhorfum um forræði vinnuveitanda á því að ákveða fyrirkomulag á framkvæmd starfa á hans vegum. Þá hafi að auki verið komið til móts við starfsmenn vegna hugsanlegrar skerðingar lífeyrisréttinda (þ.e. tekna úr lífeyrissjóði) með sérstakri greiðslu inn á séreignarlífeyrissparnað þeirra.

         Af hálfu stefnda er jafnframt á því byggt að stefnandi hafi gert annan ráðningarsamning við Keflavíkurflugvöll ohf. í febrúar 2010, þar sem kveðið hafi verið á um breytingar á ráðningarréttindum stefnanda. Þar hafi meðal annars ekkert verið kveðið á um að stefnandi nyti réttarstöðu ríkisstarfsmanns, sbr. lög nr. 70/1996. Samhliða hafi launakjörum stefnanda verið breytt, sbr. framlagða launaseðla. Þegar stefndi hafi tekið yfir ráðningarsamning stefnanda 1. maí 2010, hafi hann einungis yfirtekið þau réttindi og þær skyldur sem Keflavíkurflugvöllur ohf. hafi haft gagnvart stefnanda, sem fyrir hendi hafi verið á þeim degi sem aðilaskiptin hafi átt sér stað, sbr. 3. gr. laga nr. 72/2002. Með vísan til framangreinds hafi stefnandi ekki haft réttarstöðu ríkisstarfsmanns með vísan til ráðningarsamnings.

         Verði ekki fallist á að nýr ráðningarsamningur hafi verið gerður við stefnanda byggir stefndi á því að þegar hann hafi tekið yfir ráðningarsamning stefnanda 1. maí 2010, hafi hann einungis yfirtekið þau réttindi og þær skyldur sem Keflavíkurflugvöllur ohf. hafi haft gagnvart stefnanda, sem fyrir hendi hafi verið á þeim degi sem aðilaskiptin hafi átt sér stað, sbr. 3. gr. laga nr. 72/2002, og þá með þeim breytingum sem ákveðnar og tilkynntar höfðu verið, þ.e. um starfslok við 67 ára aldur, sbr. framangreint. Í eldri ráðningarsamningi stefnanda hafi verið að finna ákvæði sem vísi til þess að um réttindi og skyldur hans fari eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en auk þess liggi til grundvallar kjarasamningur viðkomandi stéttarfélags. Í ráðningarsamningnum hafi verið kveðið sérstaklega á um uppsagnarfrest stefnanda, og að hann væri þrír mánuðir. Þá hafi Keflavíkurflugvöllur ohf., eins og áður er rakið, tilkynnt starfsmönnum, þ.m.t. stefnanda, að starfslok yrðu miðuð við næstu mánaðamót eftir að starfsmenn næðu 67 ára aldri.

         Stefndi byggir á því að uppsögn stefnanda úr starfi frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann varð 67 ára hafi verið lögmæt og málefnaleg. Stefndi hafi í einu og öllu farið að ákvæðum ráðningarsamnings aðila, sem og kjarasamnings. Þannig hafi t.a.m. verið gætt að lengri uppsagnarfresti stefnanda samkvæmt ákvæði 15.1 í kjarasamningi Félags flugmálastarfsmanna, sem séu 6 mánuðir.

         Stefndi hafnar því að ákvæða laga nr. 70/1996 hafi ekki verið gætt við uppsögnina. Um það vísar stefndi í fyrsta lagi til þess að í 1. mgr. 43. gr. laganna sé kveðið á um að forstöðumaður stofnunar hafi rétt til þess að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem mælt er fyrir um í ráðningarsamningi. Samkvæmt ráðningarsamningi stefnanda hafi uppsagnarfrestur hans verið þrír mánuðir (6 mánuðir samkvæmt kjarasamningi). Þá hafi einnig legið fyrir eftir þá breytingu sem tilkynnt hafði verið varðandi starfslok hjá Keflavíkurflugvelli ohf., að hann gæti ekki gert ráð fyrir að gegna starfinu lengur en til næstu mánaðamóta eftir að hann varð 67 ára. Stefndi hafnar því alfarið að í 2. mgr. 43. gr. laganna sé kveðið á um rétt ríkisstarfsmanna til að starfa til 70 ára aldurs. Í ákvæðinu sé aðeins kveðið á um hámarksaldur starfsmanna ríkisins en ekki lágmarksaldur við uppsögn. Ákvæðið sé í beinu framhaldi af ákvæði 1. mgr. um rétt forstöðumanns til að segja starfsmanni upp eftir því sem mælt sé fyrir um í ráðningarsamningi. Segi svo í 2. mgr. að þó skuli jafnan segja starfsmanni upp störfum frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann nær 70 ára aldri. Orðalag ákvæðisins beri þannig með sér, að það eigi aðeins við hafi forstöðumaður stofnunar ekki þegar sagt starfsmanni upp í samræmi við ákvæði 1. mgr. fyrir þann tíma. Ákvæði 2. mgr. takmarki því á engan hátt málefnalegar ákvarðanir um uppsagnir samkvæmt 1. mgr.

         Stefndi hafnar því enn fremur að venjur í ráðningarsamböndum starfsmanna ríkisins eigi hér við, enda sé stefnandi ekki starfsmaður í þjónustu ríkisins. Þá mótmælir stefndi því að slík venja geti takmarkað rétt til málefnalegrar uppsagnar á grundvelli 1. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996.

         Stefndi mótmælir því einnig að stjórnsýslulög eigi við um ákvarðanir stefnda er lúti að starfsmönnum félagsins. Stefndi sé opinbert hlutafélag en hvorki stjórnsýslulög né meginreglur stjórnsýsluréttarins gildi um ráðningar eða uppsagnir starfsmanna hlutafélaga, jafnvel þótt hlutafélag sé að einhverju eða öllu leyti í eigu hins opinbera. Stjórnsýslulögin, eða einstök ákvæði þeirra, hefðu hér aðeins getað átt við hefði sérstaklega verið um það samið í ráðningarsamningi stefnanda, en það hafi ekki verið gert. Þrátt fyrir þetta telur stefndi að allra viðeigandi sjónarmiða og meginreglna stjórnsýsluréttar um málefnalegar ákvarðanir og jafnræði hafi verið gætt, annars vegar við töku ákvörðunar um breytingar á starfslokaaldri hjá Keflavíkurflugvelli ohf., og hins vegar við uppsögn stefnanda. Þannig hafi ákvörðunin um 67 ára aldurshámark verið málefnaleg enda tekin með vísan til tilmæla samgönguráðuneytisins þess efnis að á sama tíma og leitast væri við að varðveita störf, skyldi bjóða starfsmönnum sem hefðu öðlast réttindi til töku lífeyris upp á starfslok. Ákvörðunin hafi því verið málefnaleg og almenn og tekið jafnt til allra starfsmanna Keflavíkurflugvallar ohf. og því fyllsta jafnræðis gætt. Hvað uppsögn stefnanda varðar hafi hún engan veginn lotið að hæfni stefnanda persónulega til að gegna starfi sínu. Uppsögnin hafi verið í fullu samræmi við ráðningarkjör hans hjá stefnda, um 67 ára hámarksaldur, og verði því að teljast málefnaleg. Þá verði ekki séð hvernig stefndi hafi „brotið gegn jafnræði stefnanda gagnvart öðrum samstarfsmönnum“ hans en sama regla um hámarksaldur í starfi gildi jafnt um alla starfsmenn stefnda, nema sérstakar reglur um lægri hámarksaldur gildi.

         Stefndi hafnar bótakröfu stefnanda alfarið sem of hárri og ósannaðri. Þó svo talið yrði að uppsögnin væri ólögmæt, sem sé alfarið mótmælt, sé bótakrafan í engu samræmi við dómafordæmi í slíkum málum, þar sem almennt sé litið til lengdar uppsagnarfrests, og bætur dæmdar að álitum með hliðsjón af honum. Þá byggir stefndi á því að meint tjón stefnanda vegna uppsagnarinnar hafi verið að fullu bætt með þeirri eingreiðslu sem greidd hafi verið inn á séreignarlífeyrissparnað hans við starfslok að fjárhæð 2.642.465 krónur, en henni hafi verið ætlað að koma til móts við umrætt fyrirkomulag starfsloka. Eftir móttöku þeirrar fjárhæðar telur stefndi að stefnandi eigi ekki rétt á skaðabótum eins og hann byggi á í máli þessu.

         Þá mótmælir stefndi miskabótakröfu stefnanda enda telur hann að uppsögnin hafi ekki á nokkurn hátt falið í sér ólögmæta meingerð gegn æru hans og persónu. Þá hafi framkvæmd uppsagnarinnar verið með eðlilegum hætti. Hvorki séu því skilyrði til greiðslu miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, né meginreglum skaðabótaréttar.

         Stefndi kveðst enn fremur krefjast þess að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

         Um lagarök vísar stefndi til meginreglna vinnuréttar, starfsmannaréttar, kröfuréttar, skaðabótaréttar og stjórnsýsluréttar. Þá vísar hann til laga nr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, laga nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl., laga nr. 153/2009 um samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skaðabótalaga nr. 50/1993. Varðandi málskostnað vísar stefndi til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

                                                                                        IV.

         Stefndi er opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Stefnandi var starfsmaður félagsins en var sagt upp störfum með bréfi, dags. 30. mars 2012. Uppsagnarfrestur samkvæmt kjarasamningi var sex mánuðir og var við það miðað í bréfinu að starfslok yrðu 31. október 2012. Ágreiningslaust er að stefnandi vann tímabundið áfram hjá stefnda samkvæmt sérstöku samkomulagi en lét af störfum 1. maí 2013.

         Samkvæmt uppsagnarbréfinu var ástæða uppsagnarinnar sú að stefnandi náði 67 ára aldri í október 2012, en eins og fram hefur komið hafði stjórn stefnda ákveðið að þegar starfsmenn félagsins næðu þeim tímamótum skyldu þeir láta af störfum. Stefnandi telur þessa ástæðu uppsagnarinnar fara í bága við reglur laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, einkum 43. gr. og 44. gr. laganna, sem og almennar reglur stjórnsýsluréttar, en hann kveður þessar reglur hafa gilt um ráðningarsambandið. Uppsögnin hafi því verið ólögmæt og verði stefndi því að bæta honum það tjón sem hlotist hafi af henni. Mótmæli stefnda við kröfu stefnanda lúta öðrum þræði að því að fyrirmæli laga nr. 70/1996 og almennar reglur stjórnsýsluréttar hafi ekki gilt um uppsögnina. Jafnvel þótt svo kunni að vera þá byggir stefndi á því að þær reglur hafi ekki komið í veg fyrir að unnt væri að segja stefnanda upp á þessum forsendum.

         Þegar stefnanda var sagt upp störfum sökum aldurs var hann ekki ríkisstarfsmaður er féll með beinum hætti undir lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 2. gr. þeirra laga. Stefnandi telur sig eftir sem áður eiga að lögum að njóta þeirrar réttarverndar sem felst í 43. og 44. gr. laga nr. 70/1996, eins og lýst er í kafla III. Um það vísar stefnandi meðal annars til 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl. Ákvæðið er rakið orðrétt í kafla II hér að framan.

         Aðila greinir á um túlkun þessa ákvæðis. Stefnandi telur að leggja verði þá merkingu í það að þeir sem starfað höfðu hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hafi átt að halda réttarstöðu sinni samkvæmt lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eftir að stofnunin hafði verið lögð niður. Stefndi hafnar þessari túlkun og heldur því fram að í ákvæðinu sé einungis mælt fyrir um hver réttarstaða starfsmanna Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar hafi átt að vera þegar stofnunin var lögð niður, en ekki eftir það.

         Orðalag ákvæðisins gefur ekki skýrt til kynna hvor skýringarkosturinn eigi við. Því er rétt að líta til þess sem fram kemur í lögskýringargögnum um ákvæðið. Í athugasemdum við það í frumvarpi því er varð að lögum nr. 76/2008 segir að tilgangur þess sé að „réttindi starfsmannanna verði við breytinguna tryggð með eðlilegum hætti og sambærileg öðrum tilvikum sem þessum“. Síðan er áréttað að um réttarstöðu starfsmanna „á þessum tímamótum“ gildi almenn ákvæði „starfsmannalaga og eftir atvikum aðilaskiptalaga“. Þá segir þar orðrétt: „Starfsmannalögin hafa þýðingu að því er varðar starfslok í þjónustu ríkisins, þ.e. hvort ríkisstarfsmaður geti átt rétt á biðlaunum ef hann fer ekki að vinna hjá hlutafélaginu. Taka ber fram að starfsmannalögin gilda ekki um starfsmenn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. þar sem þeir teljast ekki ríkisstarfsmenn.“

         Með starfsmannalögum er í athugasemdunum átt við lög nr. 70/1996. Rétt er að leggja áherslu á það að í athugasemdunum er einungis fjallað um lögin í tengslum við það að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, sem þá var ríkisstofnun, var að hætta starfsemi og störfin þar að leggjast af. Sérstaklega er þar tekið fram að lögin gildi við starfslok starfsmanna stofnunarinnar og það sett í samhengi við rétt þeirra til biðlauna við þessi tímamót. Þar er hins vegar ekki gefið til kynna að um réttindi þeirra og skyldur eigi áfram að fara eftir lögum nr. 70/1996, eins og hefði mátt vænta ef löggjafinn hefði haft það í hyggju. Þá er til þess að líta að í athugasemdunum er vikið að því að starfsmenn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. séu ekki ríkisstarfsmenn. Því félagi var komið á fót með lögum nr. 76/2000 um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar, en starfsmenn félagsins höfðu áður starfað hjá ríkisstofnuninni Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Efnislega hliðstætt ákvæði og 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 76/2008 var í 11. gr. laga nr. 76/2000. Athugasemdir við það ákvæði í frumvarpi til laganna gefa skýrt til kynna að lög nr. 70/1996 hafi einungis átt að gilda um niðurlagningu starfa starfsmanna stofnunarinnar en ekki um réttindi þeirra og skyldur eftir að þeir hófu störf hjá hlutafélaginu. Fyrrgreind athugasemd við 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 76/2008 gefur því til kynna að frumvarpshöfundar hafi gengið út frá því að þegar hlutafélag tekur við rekstri, sem áður var í höndum ríkisstofnunar, gildi lög nr. 70/1996 ekki lengur um réttindi og skyldur þeirra starfsmanna sem flytjast til hlutafélagsins. Í því ljósi hefði þurft að geta þess með nokkuð ótvíræðum hætti í lögunum eða eftir atvikum í lögskýringargögnum ef ætlunin var að réttarstaða starfsmanna Keflavíkurflugvallar ohf., sem áður höfðu starfað hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, ætti að víkja frá þessu.

         Í ljósi alls þess sem hér hefur verið rakið verður einungis lögð sú merking í fyrrgreint ákvæði 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 76/2008 að fylgja hafi átt lögum nr. 70/1996 þegar störf starfsmanna Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar voru lögð niður, en ekki eftir að þeir urðu starfsmenn hlutafélagsins. Ákvæðið styður því ekki þann málatilbúnað stefnanda að við uppsögnina hafi hann að lögum átt að njóta réttarverndar samkvæmt lögum nr. 70/1996.

         Eins og rakið er í kafla II gerði Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar ótímabundinn ráðningarsamning við stefnanda 27. september 2006. Þessi ráðningarsamningur var í gildi þegar fyrrgreind lög nr. 76/2008 komu til framkvæmda 1. janúar 2009 og starf stefnanda færðist til opinbera hlutafélagsins Keflavíkurflugvallar ohf. Við aðilaskiptin færðust skyldur og réttindi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvelli samkvæmt ráðningarsamningnum yfir til Keflavíkurflugvallar ohf., sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 72/2002. Engar breytingar urðu á verkefnum stefnanda við aðilaskiptin. Þegar stefnanda var tilkynnt um þau með bréfi 30. september 2008 var áréttað að réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningi myndu færast yfir til opinbera hlutafélagsins. Eins og rakið hefur verið var þar kveðið á um að réttindi og skyldur samningsaðila færi eftir lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna. Í bréfinu 30. september 2008 var í engu vikið að því að aðilaskiptin breyttu því. Enginn fyrirvari var þar heldur gerður um að aðilaskiptin leiddu til þess að opinbera hlutafélagið hefði rýmri heimildir en áður til að segja ráðningarsamningnum upp. Í ljósi efnis samningsins verður að líta svo á að vafi hafi leikið á réttarstöðu stefnanda að þessu leyti og ber að virða þann vafa vinnuveitanda hans í óhag. Verður því að líta svo á að honum hafi áfram borið að virða ákvæði laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins í lögskiptum sínum við stefnanda, þar á meðal við uppsögn. Þessi réttarstaða var þó ekki reist á almennum lagafyrirmælum, eins og verið hafði meðan stefnandi féll beinlínis undir lög nr. 70/1996, heldur fyrrgreindum ráðningarsamningi. Í samræmi við almennar reglur var samningsaðilum unnt að segja þeim þætti samningsins upp í heild eða að hluta að virtum uppsagnarfresti.

         Gegn andmælum stefnanda hefur stefndi ekki fært sönnur á að Keflavíkurflugvöllur ohf. hafi gert við hann nýjan ráðningarsamning. Réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningnum 27. september 2006 færðust því yfir til stefnda 1. maí 2010 í samræmi við 5. gr. laga nr. 153/2009. Áður en það gerðist hafði Keflavíkurflugvöllur ohf. með bréfi, dags. 4. janúar 2010, tilkynnt stefnanda þá ákvörðun stjórnar félagsins að framvegis myndu starfslok starfsmanna félagsins miðast við 67 ára aldur. Dómurinn telur óhjákvæmilegt að líta svo á að með þeirri tilkynningu hafi almennri reglu um hámarksaldur ríkisstarfsmanna samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996 verið sagt upp. Nýir skilmálar um starfslok við 67 ára aldur tóku því gildi að liðnum uppsagnarfresti sem ætla verður að hafi verið 1. maí 2010. Stefndi tók því við réttindum og skyldum samkvæmt ráðningarsamningnum með þessari breytingu.

         Stefnandi hreyfði ekki andmælum við framangreindri breytingu á réttarstöðu sinni árið 2010. Uppsögn á ráðningarsamningi hans við stefnda, sem tilkynnt var 30. mars 2012, samrýmdist þeim skilmálum sem giltu um ráðninguna eins og þeim hafði verið breytt á þann hátt sem rakið hefur verið. Ekki hefur verið í ljós leitt að skorður séu reistar við því í lögum að opinbert hlutafélag segi starfsmönnum sínum upp við 67 ára aldur nema félagið hafi tekið á sig samningsbundna skuldbindingu í þá veru t.d. með tilvísun til laga nr. 70/1996. Þá hefur því ekki verið borið við að uppsögn á þessum grundvelli stangist á við þann kjarasamning sem gilti í lögskiptum stefnanda og stefnda.

         Stefnandi reisir kröfu sína um skaðabætur einnig á fyrirmælum stjórnsýslulaga og almennum reglum stjórnsýsluréttar. Í því sambandi ber að taka fram að samkvæmt 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 taka þau til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og gilda þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Í athugasemdum við ákvæðið kemur fram að lögin taki ekki til ákvarðana stjórnvalda sem teljast einkaréttar eðlis. Þó hafi ákvarðanir um skipun, setningu og ráðningu opinberra starfsmanna, svo og lausn þeirra frá störfum og brottvikningu þeirra, verið flokkaðar sem stjórnvaldsákvarðanir. Væri út frá því gengið í frumvarpinu. Eins og rakið hefur verið falla starfsmenn opinberra hlutafélaga í eigu ríkisins ekki undir lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Að teknu tilliti til ákvæða laga nr. 60/1998 um loftferðir verður heldur ekki séð að rekstur flugvalla sé hluti af stjórnsýslu ríkisins. Í almennum athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 90/2006, sem bættu ákvæðum um opinber hlutafélög við lög nr. 2/1995 um hlutafélög, er ráðagerð um að ákvæði stjórnsýslulaga, sem og laga um upplýsingaskyldu og laga um opinbera starfsmenn, eigi ekki að gilda „formlega um opinber hlutafélög“, eins og þar segir orðrétt. Þegar á allt framangreint er litið fær dómurinn hvorki séð að uppsögn stefnanda á ráðningarsamningi við starfsmann félagsins sé ákvörðun, sem telja megi hluta af „stjórnsýslu ríkisins“ í skilningi stjórnsýslulaga eða almennra reglna stjórnsýsluréttar, né að starfsmaður slíks félags sé opinber starfsmaður þannig að slík ákvörðun geti talist stjórnvaldsákvörðun í skilningi laganna. Að þessu gættu verður ekki fallist á það með stefnanda að stefnda hafi borið að fylgja stjórnsýslulögum eða öðrum almennum reglum stjórnsýsluréttar við uppsögn ráðningarsamningsins.

         Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur dómurinn að stefnandi hafi ekki fært sönnur á að uppsögn hans hafi verið ólögmæt. Af þeim sökum verður að hafna því að hún hafi bakað stefnda skaðabótaábyrgð á grundvelli almennu sakareglunnar eða með vísan til 26. gr. skaðabótalaga. Því ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir þó rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

         Stefndi, Isavia ohf., er sýkn af kröfum stefnanda, Guðmundar B. Haraldssonar.

         Málskostnaður milli aðila fellur niður.