Hæstiréttur íslands
Mál nr. 705/2012
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
- Gjöf
- Einkahlutafélag
- Lán
|
|
Fimmtudaginn 13. júní 2013. |
|
Nr. 705/2012.
|
Þrotabú Hauks Hjaltasonar (Kristján Stefánsson hrl.) gegn þrotabúi Dreifingar ehf. (Ástráður Haraldsson hrl.) |
Gjaldþrotaskipti. Riftun. Gjöf. Einkahlutafélag. Lán.
Fallist var á kröfu þrotabús D ehf. um að rifta ráðstöfunum félagsins, sem fólu í sér lækkun á skuld H við D ehf., á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Var þrotabúi H gert að endurgreiða D ehf. skuldina með vísan til 1. mgr. 142. gr. sömu laga. Þá var jafnframt fallist á það með D ehf. að peningalán og ýmsar greiðslur félagsins til H hefðu falið í sér óheimilar lánveitingar í skilningi 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og var þrotabúi H gert að endurgreiða félaginu lánin með vísan til 4. mgr. sömu greinar. Loks var þrotabúi H gert að endurgreiða D ehf. kostnað vegna vöruúttekta H, með skírskotun til meginreglunnar um efndir fjárskuldbindinga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. nóvember 2012. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefnda, en að því frágengnu að þær verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms var bú stefnda í héraði, Hauks Hjaltasonar, tekið til gjaldþrotaskipta. Áfrýjandi hefur tekið við aðild að málinu fyrir Hæstarétti.
Krafa áfrýjanda um ómerkingu héraðsdóms er reist á því að héraðsdómara hafi borið að kveðja til sérfróða meðdómsmenn, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málatilbúnaður stefnda byggi eingöngu á niðurstöðum Friðbjarnar Björnssonar endurskoðanda, en stefndi hafi falið honum að fara yfir bókhald búsins. Á þessum grundvelli hafi málið verið dæmt í héraði án viðhlítandi sérkunnáttu í bókhaldi sem hafi verið nauðsynleg til að leyst yrði úr málinu. Þótt mál þetta lúti að gögnum og upplýsingum úr bókhaldi Dreifingar ehf. var engin þörf á því að sérfróðir meðdómsmenn yrðu kvaddir til setu í dómi. Kröfu um ómerkingu hins áfrýjaða dóms verður því hafnað.
Með hinum áfrýjaða dómi var rift lækkun á skuld Hauks Hjaltasonar við Dreifingu ehf. að fjárhæð 25.973.705 krónur, en tilefni þeirrar ráðstöfunar rekur áfrýjandi til kaupa á hlutabréfum í birgðaversluninni Gripið og Greitt ehf. Í niðurstöðu héraðsdóms um þetta atriði var lagt til grundvallar vætti Friðbjörns Björnssonar endurskoðanda um að Skúlagata 30 ehf. hefði greitt fyrir bréfin strax við kaupin á árinu 2005 með lækkun á viðskiptaskuld Hauks við það félag. Um þetta naut hins vegar ekki við bókhaldsgagna. Úr þessu hefur verið bætt fyrir Hæstarétt en stefndi hefur lagt fyrir réttinn yfirlit um þann viðskiptareikning og kemur þar fram færsla 31. desember það ár að fjárhæð 28.000.000 krónur með eftirfarandi skýringu: „Hlutabréf í Gripið og Greitt“.
Til stuðnings kröfu sinni um að dómkröfur verði lækkaðar teflir áfrýjandi fram til skuldajafnaðar launakröfu Hauks Hjaltasonar frá árinu 2007 þar til bú Dreifingar ehf. var tekið til skipta. Þótt Hauki hafi ekki verið greidd laun á þessu tímabili getur krafa vegna starfa í þágu félagsins, sem hvergi sér stað í gögnum málsins, ekki komið til frádráttar kröfum stefnda.
Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, þrotabú Hauks Hjaltasonar, greiði stefnda, þrotabúi Dreifingar hf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2012.
I.
Mál þetta, sem var dómtekið 22. maí sl., er höfðað 7. júní 2011 af þrotabúi Dreifingar ehf., Ránargötu 18 í Reykjavík, gegn Hauki Hjaltasyni, Stigahlíð 60 í Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
1. Að rift verði með dómi gjöfum Dreifingar ehf. til stefnda að fjárhæð alls 103.054.716 krónur.
2. Að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda samtals 112.060.835 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 18. nóvember 2010 til greiðsludags. Allt að frádregnum 9.216.625 krónum.
3. Þá er þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að mati réttarins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, sem áskilinn er réttur til að leggja fram við aðalflutning málsins, ef til hans kemur.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara verulegrar lækkunar á dómkröfum stefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda verði fallist á sýknukröfuna en til vara að málskostnaður verði felldur niður.
Upphaflega krafðist stefndi þess aðallega að málinu yrði í heild vísað frá dómi. Með úrskurði 15. desember 2011 var þeirri kröfu hafnað og málið tekið til efnislegrar meðferðar.
II.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2010 var bú Dreifingar ehf. tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu NBI hf. Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður var skipaður skiptastjóri í þrotabúinu.
Í stefnu kemur fram að stefndi hafi verið framkvæmdastjóri hjá hinu gjaldþrota félagi auk þess að vera stjórnarformaður þess og hluthafi í því. Í kjölfar skipunar skiptastjóra hafi hann látið fara fram athugun á bókhaldi félagsins þar á meðal á færslum á viðskiptareikningi stefnda hjá félaginu. Við þá athugun hafi komið í ljós ýmsar færslur sem hafi vakið spurningar. Af þessu tilefni hafi stefndi verið boðaður til fundar 20. janúar 2011 með skiptastjóra þar sem frumniðurstöður athugunar endurskoðenda Ernst & Young voru kynntar fyrir stefnda og honum gefinn frestur til að gefa skýringar. Á fundi með stefnda 3. febrúar 2011 hafi verið færðar til bókar skýringar hans á tilteknum atriðum. Á kröfuhafafundi 11. febrúar 2011 hafi verið farið yfir stöðu mála og skýrsla endurskoðenda kynnt, þar á meðal þau málefni er lúta að stefnda. Samkvæmt fundargerð gerði skiptastjóri þar grein fyrir því að hann myndi höfða riftunarmál gegn einstökum viðskiptamönnum og komu ekki fram mótmæli við þeirri fyrirætlan.
Sérstök skýrsla var unnin af Friðbirni Björnssyni, löggiltum endurskoðanda hjá Ernst & Young, dags. 31. mars 2011, þar sem farið er yfir niðurstöður skoðunar á viðskiptareikningi stefnda samkvæmt bókhaldi Dreifingar ehf. frá 31. október 2007 til 18. nóvember 2010. Þar er talið að fjórar færslur á reikningnum, samtals að fjárhæð 87.822.360 krónur, væru gjafagerningar sem hafi falist í eftirgjöf skulda stefnda við Dreifingu ehf. Þá væru þar samtals 90 færslur, samtals að fjárhæð 5.850.607 krónur, sem ættu rætur að rekja til greiðslu félagsins á einkakostnaði stefnda, og 15 færslur vegna vöruúttekta hans, samtals að fjárhæð 628.663 krónur. Einnig hafi komið í ljós átta færslur á viðskiptareikningnum, sem samtals námu 15.232.356 krónum, og höfðu verið greiddar beint inn á bankareikning stefnda. Í skýrslunni er síðan gerð grein fyrir nokkrum greiðslum stefnda inn á viðskiptareikninginn eða lækkunum á honum. Þar kemur fram að samtals 195.524 krónur hafi upphaflega verið færðar sem einkakostnaður stefnda en síðan færðar sem kostnaður Dreifingar ehf. Samtals 9.019.101 króna hafi annað hvort verið peningagreiðslur stefnda til Dreifingar ehf. eða greiðslur hans á reikningum sem tilheyrðu rekstri félagsins. Allar þessar færslur eru sundurliðaðar í skýrslunni. Þar er einnig gerð grein fyrir þremur reikningum sem færðir höfðu verið annars vegar á gjaldalykil 4530 „Ferðakostnaður“ og hins vegar á gjaldalykil 4550 „Námskeið, fundir og sjúkrakostn.“ í bókhaldi Dreifingar ehf., samtals að fjárhæð 2.526.846 krónur. Í skýrslunni er talið líklegt að hér hafi verið um greiðslu einkakostnaðar stefnda að ræða en reikningarnir hafi verið greiddir og gjaldfærðir af Dreifingu ehf.
Með bréfi, dags. 2. maí 2011, lýsti stefnanda því yfir að umræddum færslum væri rift með vísan til 131. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og stefndi krafinn um greiðslu 102.864.210 króna með skírskotun til niðurstöðu framangreindrar skýrslu. Kröfunni var hafnað af hálfu stefnda með bréfi 9. maí 2011.
III.
1. Málsástæður og lagarök stefnanda
Þær færslur sem stefnandi telur riftanlegar og krefst endurgreiðslu á með málsókn þessari kveður hann fela í sér niðurfellingu skulda stefnda að fjárhæð 87.822.360 krónur og beinar peningagreiðslur til stefnda að fjárhæð 15.232.356 krónur. Til viðbótar krefst stefnandi endurgreiðslu skuldar að fjárhæð 9.006.119 krónur. Sú skuld sé til komin vegna óskýrðra úttekta stefnda á vörum hjá Dreifingu ehf. og greiðslu félagsins á einkakostnaði hans.
Niðurfelling skulda
Stefnandi heldur því fram að á tímabilinu frá 3. janúar 2010 til 1. júlí 2010 hafi verið felldar niður skuldir stefnda við Dreifingu ehf. að fjárhæð 87.822.360 krónur. Í upphafi þess tímabils, þ.e. þann 3. janúar 2010 hafi skuld stefnda við Dreifingu ehf. numið rúmum 87 milljónum króna samkvæmt bókhaldi félagsins. Nánar tiltekið sé um að ræða eftirfarandi tilvik:
1. Þann 3. janúar 2010 hafi 25.973.705 krónur verið færðar til lækkunar á kröfu Dreifingar ehf. á hendur stefnda. Samkvæmt texta í bókhaldi félagsins hafi hér verið um að ræða skuldabréf vegna Gripið og greitt ehf. frá 2008, en það félag hafi orðið gjaldþrota árið 2007. Umrædd færsla hafi leitt til hækkunar á kröfu Dreifingar ehf. á Gripið og greitt ehf., sem þá hafi verið gjaldþrota. Engin gögn hafi fundist að baki þessari færslu. Einungis hafi verið um ræða tilbúið fylgiskjalablað sbr. dskj. nr. 10.
2. Þann 1. júlí 2010 hafi 7.624.662 krónur verið færðar til lækkunar á kröfu Dreifingar ehf. á hendur stefnda. Samkvæmt texta í bókhaldi Dreifingar ehf. hafi hér verið um að ræða ábyrgðargjald af láni vegna Kjötbankans ehf. frá fyrra ári. Kjötbankinn ehf. hafi verið í eigu stefnda og konu hans, en Kjötbankinn ehf. hafi orðið gjaldþrota í ágúst 2010. Færsla þessi sé á milli viðskiptareikninga stefnda og Kjötbankans ehf. og Dreifingar ehf. og leiði til lækkunar á kröfu Dreifingar ehf. á stefnda. Engin gögn hafi fundist að baki þessari færslu, einungis hafi verið um að ræða tilbúið fylgiskjalablað, sbr. dskj. nr. 11. Samkvæmt fylgiskjalinu sé ekki ljóst hvaða lán stefndi hafi verið að ábyrgjast né hvernig ábyrgðargjaldið hafi verið reiknað út eða á hvaða grundvelli stofnast hefði til skyldu Dreifingar ehf. til að inna slíkt gjald af hendi.
3. Þann 1. júlí 2010 hafi 20.776.443 krónur verið færðar til lækkunar á kröfu Dreifingar ehf. við stefnda og til gjalda í bókhaldi Dreifingar ehf. sem vaxtagjöld og verðbætur. Samkvæmt texta í bókhaldi Dreifingar ehf. hafi hér verið um að ræða ábyrgðargjald af láni vegna Dreifingar ehf. frá fyrra ári. Engin gögn hafi verið að baki þessari færslu, einungis fylgiskjalablað, sbr. dskj. nr. 12. Samkvæmt fylgiskjalinu sé hvorki ljóst hvaða lán stefndi hafi verið að ábyrgjast né hvernig ábyrgðargjaldið hafi verið reiknað út eða á hvaða grundvelli stofnast hefði til skyldu Dreifingar ehf. til að inna slíkt gjald af hendi.
4. Hinn 1. júlí 2010 hafi 33.447.550 krónur verið færðar til lækkunar á kröfu Dreifingar ehf. á hendur stefnda og til gjalda sem erlend vörukaup. Samkvæmt texta í bókhaldi Dreifingar ehf. hafi hér verið um að ræða kaup á áhöldum og tækjum til matvælaframleiðslu. Engin gögn hafi fundist að baki þessari færslu, einungis tilbúið fylgiskjalablað á dskj. nr. 13. Ekkert verðmat á þessum tækjum liggi fyrir. Samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum Dreifingar ehf. hafi þessi tæki verið keypt notuð til landsins af stefnda árið 2000. Þau hafi nánast ekkert verið notuð frá þeim tíma eða í um 10 ár. Samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum Dreifingar ehf. hafi tækin verið keypt af stefnda til notkunar fyrir Kjötbankann ehf. sem hafi orðið gjaldþrota árið 2010 og hafi einnig verið í eigu stefnda. Hafi tækin aðallega verið geymd í gámum eða óupphituðum geymslum síðustu 10 ár.
Hvað fyrsta töluliðinn varðar er á því byggt að greiðsla stefnda og niðurfelling kröfu í kjölfarið á hendur honum sé riftanleg samkvæmt 131. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Telja verði augljóst að greiðsla á skuld með skuldabréfi þar sem greiðandi sé gjaldþrota félag sé í raun eftirgjöf skuldarinnar. Slík greiðsla sé bersýnilega verðlaus. Því teljist umrædd eftirgjöf skuldar stefnda í raun gjafagerningur í skilningi 131. gr. gjaldþrotalaga og riftanlegur gagnvart stefnda enda gjöfin afhent á síðustu 24 mánuðum fyrir frestdag.
Á því er byggt að gjöfin hafi rýrt eignir skuldara, enda hafi fullgild fjárkrafa á hendur stefnda rýrnað sem nemi eftirgjöfinni. Annars hefði verið um að ræða eign sem hefði verið kröfuhöfum Dreifingar ehf. til ráðstöfunar við gjaldþrotið. Mat á þessu skilyrði 131. gr. laga nr. 21/1991 fari fram á hlutlægum grundvelli.
Þá er á því byggt að gjöfin leiði til auðgunar móttakanda. Mat á þessu skilyrði sé einnig hlutlægt. Niðurfelling kröfunnar hafi leitt til þess að stefndi hafi orðið laus undan persónulegri greiðsluskyldu gagnvart stefnanda sem hafi numið fjárhæð niðurfellingar. Hann hafi því notið þeirra fjármuna sjálfur sem að öðrum kosti hefðu runnið til Dreifingar ehf. og kröfuhafa þess félags.
Stefnandi byggir einnig á því að gjafatilgangur hafi verið til staðar. Stefndi hafi verið sá aðili sem hafi tekið ákvarðanir fyrir hönd Dreifingar ehf. Hann hafi því verið nákominn í skilningi gjaldþrotalaga. Á því sé byggt að þessi ráðstöfun hafi ekki haft neinn annan tilgang en að ívilna stefnda, létta af honum fjárhagslegum byrðum, enda ljóst að umrædd eftirgjöf byggði hvorki á viðskiptalegum forsendum né samningsbundinni skyldu Dreifingar ehf. Félaginu hafi hvorki borið lagaleg né samningsbundin skylda til að taka við verðlausu skuldabréfi frá stefnda sem greiðslu. Það hafi stefndi verið meðvitaður um enda ljóst að verðgildi „greiðslunnar“ hafi ekkert verið. Sú staðreynd að hin fyrri tvö hugtaksskilyrði gjafahugtaksins séu augljóslega uppfyllt leiði einnig til þess að löglíkur séu til þess, hlutlægt, að hið þriðja, um gjafatilgang, sé það einnig, sér í lagi þegar um nákomna sé að ræða.
Þá byggir stefnandi kröfu sína um riftun vegna þessarar eftirgjafar jafnframt á því að hún hafi falið í sér greiðslu sem á ótilhlýðilegan hátt hafi leitt til þess að eignir Dreifingar ehf. (í þessu tilfelli fullgild fjárkrafa á stefnda) hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum, svo og til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns. Niðurfellingin sé því riftanleg með vísan til 1. mgr. 141. gr. gjaldþrotalaga. Við mat á ótilhlýðileika verði m.a. að líta til tengsla stefnda og Dreifingar ehf. þar sem stefndi hafi verið framkvæmdarstjóri, stjórnarformaður og hluthafi, svo og þess að ,,greiðslan“ til Dreifingar ehf., hið meinta skuldabréf á hendur gjaldþrota félagi, sé augljóslega verðlaus og einungis sett fram í þeim tilgangi að lækka skuld stefnda við Dreifingu ehf. Auk þess sem umrætt skuldabréf finnist ekki í bókhaldi Dreifingar ehf.
Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 141. gr. gjaldþrotalaga megi krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru a) kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, b) leiði til þess að eignir þrotmanns verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða, c) leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða hafi orðið það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem naut hennar hafi vitað eða mátt vita að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.
Stefnandi byggir á því að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg þar sem með henni hafi verið felld niður kröfuréttindi í eigu Dreifingar ehf. án þess að nokkurt endurgjald hafi komið fyrir. Ekki verði séð að umrædd niðurfelling hafi verið framkvæmd með hagsmuni Dreifingar ehf. að leiðarljósi heldur gagngert til að ívilna stefnda. Sú ótilhlýðilega ráðstöfun hafi leitt til þess að eignir Dreifingar ehf. (kröfuréttindi á hendur stefnda) hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Stefnandi byggir jafnframt á því að fjárhagsstaða Dreifingar ehf. í janúar 2010 hafi verið slík að félagið hafi í raun ekki verið fært um að greiða skuldbindingar í fyrirsjáanlegri framtíð og ekki hafi verið líklegt að úr rættist. Á þessu tímamarki hafi því verið ljóst, að öllu óbreyttu, að greiðsluþrot blasti við. Þetta hefði stefndi í öllu falli mátt vita enda einráður í félaginu sem stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og hluthafi.
Hvað varðar annan og þriðja tölulið hér að framan byggir stefnandi á því að sú eftirgjöf á skuldum, sem hafi farið fram 1. júlí 2010, sé riftanleg á grundvelli 131. gr. og 141 gr. gjaldþrotalaga. Stefnandi byggir á því að ósannað sé að stefndi hafi nokkurn tímann samið við Dreifingu ehf. um ábyrgðargjald í tengslum við lántöku Dreifingar ehf. Hér sé um að ræða tilbúning stefnanda í þeim tilgangi að lækka skuld sína við Dreifingu ehf. Engin skjöl séu til staðar um slíkt ábyrgðargjald eða lántökuna. Enginn lánasamningur sé til staðar eða upplýsingar um hvers eðlis slík ábyrgð ætti að vera. Þá hafi engar skýringar borist frá stefnda um hið meinta ábyrgðargjald þrátt fyrir tækifæri til þess. Þá sé einnig ljóst að væri slík ábyrgð til staðar hefði reynt á hana varðandi lið 2) enda hafi Kjötbankinn ehf. orðið gjaldþrota aðeins tveimur mánuðum síðar. Í stefnu skoraði stefnandi á stefnda, sbr. 67. gr. laga nr. 91/1991, að sýna fram á að samið hefði verið um ábyrgðargjald milli stefnda og Dreifingar ehf. og jafnframt að reynt hefði á slíka ábyrgð í kjölfar gjaldþrots Kjötbankans ehf.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að engar upplýsingar sé að finna í bókhaldi félagsins varðandi lið 3), sem lýtur að lækkun á skuldum stefnda við hið gjaldþrota félag að fjárhæð 20.776.443 krónur. Ekki sé tilgreint hver hinn meinti lánveitandi sé, fjárhæð lánsins eða í hverju ábyrgðargjaldið sé falið. Stefnandi byggir á því að hér hafi verið um eftirgjöf skuldar að ræða án gagngjalds og sú eftirgjöf hafi falið í sér gjafagerning sem sé riftanlegur á grundvelli 131. gr. gjaldþrotalaga. Skilyrði ákvæðisins til riftunar séu uppfyllt. Um þau skilyrði vísar stefnandi til framangreindrar umfjöllunar varðandi tölulið 1) enda sambærilegar aðstæður uppi varðandi niðurfellingu á skuld skv. lið 2) og 3).
Þá byggir stefnandi jafnframt á því að eftirgjöfin skv. liðum 2) og 3) sé riftanleg með vísan til 141. gr. gjaldþrotalaga. Um það vísar stefnandi til umfjöllunar um lið 1) að ofan í þeim efnum. Gildi það sama um færslur í júlí 2010 og í janúar sama ár. Telja verði víst að stefndi hafi vitað eða mátt vita í hvað stefndi á þeim tíma og jafnframt gildi það sama varðandi ótilhlýðileika. Líta þurfi til stöðu stefnda. Stefndi hafi sjálfur tekið ákvörðun um niðurfellingu kröfu félagsins á hendur sjálfum sér án nokkurrar sjáanlegrar heimildar og láti nægja einnar línu skýringu í bókhaldi um meint ábyrgðargjald út af ótilgreindu láni félagsins. Engar frekari skýringar hafi verið veittar af stefnda síðar þrátt fyrir tækifæri til þess. Ekki verði séð að umrædd niðurfelling hafi verið framkvæmd með hagsmuni Dreifingar ehf. að leiðarljósi heldur gagngert til að ívilna stefnda. Sú ótilhlýðilega ráðstöfun hafi leitt til þess að eignir Dreifingar ehf. (kröfuréttindi á hendur stefnda) hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum.
Varðandi lækkun á kröfu Dreifingar ehf. á hendur stefnda um 33.447.550 krónur 1. júlí 2010, sbr. fjórða tölulið hér að framan, tekur stefnandi fram að ekki verði séð hvernig það þjóni hagsmunum félagsins að kaupa umrædd tæki af stefnda um hálfu ári fyrir gjaldþrot félagsins. Ekkert liggi fyrir um það hvernig þau hafi verið verðmetin. Dreifing ehf. hafi aldrei stundað matvælaframleiðslu og það hafi ekki verið í áætlunum örfáum mánuðum fyrir gjaldþrot félagsins. Á því sé byggt að umrædd greiðsla stefnda og niðurfelling kröfu í kjölfarið á hendur honum sé riftanleg á grundvelli 131. og 141. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991.
Um skilyrði 131. gr. laganna byggir stefnandi á því að skilyrði ákvæðisins, sem séu hlutlæg, séu uppfyllt í þessu tilviki. Um hin hlutlægu skilyrði fyrir beitingu greinarinnar vísist til umfjöllunar að framan. Byggt sé á því að ráðstöfunin hafi ekki haft neinn annan tilgang en að ívilna stefnda, létta af honum fjárhagslegar byrðar, enda ljóst að umrædd eftirgjöf hafi hvorki byggst á viðskiptalegum forsendum né samningsbundinni skyldu Dreifingar ehf. Um það hafi stefndi verið meðvitaður enda ljóst að verðgildi „greiðslunnar“ hafi verið ekkert. Tilgangurinn með þessu hafi verið að stefnandi gæti losað sig við verðlaus tæki sem hann keypti áratug fyrr og að fá niðurfellda skuld í staðinn.
Hér þurfi að hafa í huga, sem endranær, að stefndi hafi verið einráður í félaginu sem stjórnarformaður, framkvæmdastjóri og hluthafi. Ekkert verðmat hafi farið fram á vélunum og hvergi sé skilgreint í gögnum félagsins um hvaða vélar sé að ræða. Stefndi hafi fengið tækifæri til að skýra nánar tilgang þessara viðskipta. Viðhlítandi skýringar hafi ekki borist.
Þá byggir stefnandi á því að umrædd niðurfelling sé riftanleg á grundvelli 141. gr. gjaldþrotalaga og að skilyrði greinarinnar séu uppfyllt. Gerð sé grein fyrir skilyrðum greinarinnar að framan. Stefnandi byggir á því að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg þar sem með henni hafi verið felld niður kröfuréttindi í eigu Dreifingar ehf. án þess að nokkuð nýtanlegt endurgjald hafi komið fyrir. Ekkert verðmat hafi legið fyrir á umræddum vélum og ljóst að tækin hafi legið óhreyfð og undir skemmdum síðan þau voru keypt árið 2000. Ekki verði séð að umrædd niðurfelling gegn afhendingu vélanna hafi verið framkvæmd með hagsmuni Dreifingar ehf. að leiðarljósi heldur verið framkvæmd gagngert til að ívilna stefnda enda hafi Dreifing ehf. ekki verið í matvælaframleiðslu. Félagið hafi því ekki haft nein not af umræddum vélum.
Stefnandi byggir á því að þessi ótilhlýðilega ráðstöfun hafi leitt til þess að eignir Dreifingar ehf. (kröfuréttindi á hendur stefnda) hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Stefnandi byggi jafnframt á því að fjárhagsstaða Dreifingar ehf. í júní 2010 hafi verið slík að félagið hafi í raun ekki verið fært um að greiða skuldbindingar í fyrirsjáanlegri framtíð og ekki hafi verið líklegt að úr rættist. Á þessu tímamarki hafi því verið ljóst, að öllu óbreyttu, að greiðsluþrot hafi blasað við. Stefnandi byggir á því að þetta hefði stefndi í öllu falli mátt vita enda einráður í félaginu sem stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og hluthafi.
Peningagreiðslur til stefnda
Við yfirferð á bókhaldi Dreifingar ehf. kveður stefnandi að í ljós hafi komið óútskýrðar peningagreiðslur til stefnda. Nánar tiltekið hafi verið um að ræða beinar peningagreiðslur til stefnanda að fjárhæð 15.232.356 krónur sem hafi verið greiddar með eftirfarandi hætti:
Dags. Fskj. Skýring í bókhaldi Debet Skýring
23.11.2007 10090 Haukur Hjaltason 6.300.000 Haukur fær greitt
14.2.2008 10367 Haukur Hjaltason 2.000.000 Haukur fær greitt
26.6.2008 11386 Haukur arður 3.000.000 Haukur fær greitt
31.12.2008 12620 Gr. HH (áv. 8143055) 700.000 Haukur fær greitt
16.6.2009 11461 Haukur Hjalta 700.000 Haukur fær greitt
31.7.2010 10807 Mf. 26/7 2.000.000 Haukur fær greitt
15.10.2010 11099 Mf. 15/10 HH 350.000 Haukur fær greitt
29.10.2010 11162 Mf. 29/10 USD 1640 182.356 Haukur fær greitt
Samtals 15.232.356
Fylgiskjöl með hverri færslu séu í gögnum málsins. Stefnandi hafi óskað eftir skýringum stefnda vegna ofangreindra færslna en viðhlítandi skýringar hafi ekki borist. Stefnandi krefjist því riftunar á greiðslunum og endurgreiðslu fjármunanna.
Varðandi þessar greiðslur byggir stefnandi á því að þessar greiðslur séu riftanlegar á grundvelli 131. gr. og 141. gr. gjaldþrotalaga. Hér hafi verið um hreina gjafagerninga að ræða án nokkurra skýringa. Því séu hlutlæg skilyrði 131. gr. gjaldþrotalaga uppfyllt. Vísist til umfjöllunar um þau skilyrði að framan. Ekki þurfi að fjölyrða um að beinar peningagreiðslur rýri eignir skuldara og leiði til auðgunar móttakanda. Gjafatilgangur blasi jafnframt við. Á því sé byggt að þessi ráðstöfun Dreifingar ehf. hafi ekki haft neinn annan tilgang en að auka eignir stefnda enda án skýringa. Engar fullnægjandi skýringar hafi borist þrátt fyrir tækifæri stefnda til þess.
Stefnandi tekur fram að greiðslurnar nái yfir þriggja ára tímabil, frá 23. nóvember 2007 til 29. október 2010. Einungis sé heimilt að greiða hluthöfum úr félögum þegar ströng skilyrði einkahlutafélagalaga nr. 138/1994 séu uppfyllt til slíkra greiðslna. Við eina greiðslu, dags. 26. júní 2008 að fjárhæð kr. 3.000.000, sé skráð sem skýring orðið „arður“. Þó verði ekki séð að nokkrar ráðstafanir hafi verið gerðar til að greiða arð út úr félaginu á lögmætan hátt, svo sem staðfestur ársreikningur, tillaga hluthafafundar, samþykkt stjórnar o.s.frv., sbr. m.a. XII. kafla laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Því verði að byggja á því að hér sé um hreinan gjafgerning að ræða.
Hafi ætlunin með umræddum greiðslum verið sú að greiða stefnda laun fyrir störf sín í þágu félagsins eigi að vera auðvelt að skýra slíkt með framlagningu launaseðla og/eða eftir atvikum skattskýrslna stefnda. Slíkt hafi ekki verið gert. Þvert á móti hafi því verið lýst að allar þessar greiðslur eigi sér eðlilegar skýringar án þess að þær skýringar hafi verið útlistaðar nánar. Verði slíku haldið fram á síðari stigum áskilur stefnandi sér rétt til að byggja riftun umræddra greiðslna á 134. gr. gjaldþrotalaga sem telja verði að eigi við, hafi umræddar greiðslur átt að þjóna tilgangi launagreiðslna.
Þá byggir stefnandi á því að umræddar greiðslur séu riftanlegar á grundvelli 141. gr. gjaldþrotalaga og að skilyrði greinarinnar séu uppfyllt. Gerð sé grein fyrir skilyrðum greinarinnar að framan. Stefnandi byggir á því að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg þar sem með henni hafi stefnda beinlínis verið gefnir peningar án nokkurs endurgjalds. Ekki verði séð að umræddar greiðslur hafi verið framkvæmdar með hagsmuni Dreifingar ehf. að leiðarljósi heldur gagngert til að ívilna stefnda. Erfitt sé í raun að finna skýrari dæmi um ótilhlýðilegar greiðslur skv. nefndri 141. gr. heldur en beinar óútskýrðar peningagreiðslur. Þá hafi þessi ótilhlýðilega ráðstöfun leitt til þess að þessir fjármunir séu ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum.
Verði ekki fallist á að umræddar peningagreiðslur séu riftanlegar á grundvelli riftunarreglna gjaldþrotalaga byggir stefnandi til vara á því að stefnda beri að endurgreiða stefnanda fjármunina þar sem umræddar greiðslur hafi verið í andstöðu við reglur XII. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Fé verði eingöngu greitt til hluthafa eftir ströngum reglum þess kafla laganna. Það sé eingöngu hægt í þremur tilvikum þegar um sé að ræða úthlutun arðs, endurgreiðslu vegna lækkunar hlutafjár eða félagsslit. Ekki sé um neitt af ofangreindu að ræða í máli þessu. Greiðslur til hluthafa sem andstæðar séu lögunum beri að endurgreiða skv. 77. gr. laganna. Því sé krafist endurgreiðslu fjármunanna til vara á þessum grundvelli. Sama gildi ef talið verður að um lán hafi verið að ræða til stefnda. Stefndi hafi verið hluthafi í félaginu. Slík lán til hluthafa séu bönnuð skv. 79. gr. laga um einkahlutafélög og beri einnig að endurgreiða, sbr. 4. mgr. 79. gr. laganna. Vilji svo ólíklega til að slíkar lánveitingar til hluthafa félagsins verði taldar eðlilegar og í samræmi við lög er krafist endurgreiðslu á grundvelli meginreglna kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga.
Úttektir og greiðslur á einkakostnaði
Við yfirverð á bókhaldi Dreifingar ehf. kveður stefnandi að komið hafi í ljós að stefndi hafi tekið út vörur og látið félagið greiða fyrir sig einkakostnað, samtals að fjárhæð 9.006.119 krónur, algerlega án tengsla við rekstur fyrirtækisins og í andstöðu við reglur laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Um sé að ræða færslur á tímabili sem endurskoðendurnir hafi getað skoðað, þ.e. frá 31. október 2007 til úrskurðardags. Í stefnu eru þessar færslur sundurliðaðar með eftirfarandi hætti:
1) Óútskýrðar greiðslur á einkakostnaði stefnda kr. 5.850.607
(sundurliðun á bls. 5-6 í skýrslu á dskj. nr. 7)
2) Vöruúttektir stefnda hjá Dreifingu ehf. kr. 628.663 (sundurliðun á bls. 8 í skýrslu á dskj. nr. 7)
Til viðbótar við ofangreint séu þrjár sérgreindar færslur í bókhaldi Dreifingar ehf. sem hafi vakið athygli og verði að telja endurkræfar þar sem um einkakostnað stefnda sé að ræða ótengdan rekstri Dreifingar ehf. Fjárhæð samkvæmt þessum færslum til endurgreiðslu sé að fjárhæð 2.526.849 krónur, sbr. úttekt endurskoðenda. Nánar tiltekið er um að ræða eftirfarandi:
1. Hinn 19. október 2010 hafi verið bókaður ferðakostnaður vegna stefnda og eiginkonu hans vegna ferðar til Tenerife dagana 13. 27. nóvember 2010 að fjárhæð 222.908 krónur, fylgiskjal 11117, á gjaldalykil 4530 „Ferðakostnaður erlendur“.
2. Hinn 30. júní 2009 hafi verið bókaður ferðakostnaður að fjárhæð 2.140.141 króna, fylgiskjöl 11520L og 11520M, á gjaldalykil 4530 „Ferðakostnaður erlendur“. Þessi kostnaður hafi verið bókaður eftir visayfirlitum stefnda, kort gefið út á Dreifingu ehf. Ekki hafi verið gefnar neinar frekari skýringar á þessum kostnaði í bókhaldi Dreifingar ehf.
3. Hinn 26. mars 2009 hafi verið bókaður kostnaður að fjárhæð 163.800 krónur, fylgiskjal 11230, á gjaldalykil 4550 „Námskeið, fundir og sjúkrakostn.“. Hér sé um að ræða gleraugu fyrir stefnda, reikningur stílaður á hann.
Samtals sé hér um að ræða 9.006.119 krónur, sem stefnandi riftir og krefst endurgreiðslu á. Virðist stefndi hafa nýtt sér stöðu sína sem prókúruhafi og framkvæmdastjóri félagsins til að greiða einkakostnað sinn. Hér kenni ýmissa grasa, allt frá greiðslu afnotagjalda af sjónvarpsáskrift yfir í greiðslur á utanlandsferðum stefnda og konu hans. Virðist félagið hafa greitt fyrir eina slíka ferð til Tenerife aðeins mánuði áður en félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota, sbr. skýrslu endurskoðanda. Hafi sú ferð í raun staðið yfir þegar félagið var úrskurðað gjaldþrota í nóvember 2010. Allar eigi þessar færslur það sameiginlegt að vera án fullnægjandi skýringa á því hvers vegna þær teljist hluti af eðlilegum rekstri Dreifingar ehf. Virðist sem stefnandi hafi nýtt sér stöðu sína innan félagsins í eigin þágu með öllum þessum færslum. Það hafi hann gert á kostnað félagsins og kröfuhafa þess. Stefndi hafi fengið afhentar niðurstöður endurskoðenda varðandi þennan lið en fullnægjandi skýringar eða athugasemdir hafi ekki borist. Í raun hafi engin tilraun verið gerð til að mótmæla einstökum liðum. Eingöngu verið látið nægja að halda því fram að allt eigi þetta sér eðlilegar skýringar, án nánari tilgreiningar.
Stefnandi byggir á því að allar þessar óútskýrðu úttektir og greiðsla kostnaðar, sem útlistaðar séu í skýrslu endurskoðenda, séu í andstöðu við reglur XII. kafla einkahlutafélagalaga og því beri að endurgreiða þær. Á því sé byggt að þær séu ólögmætar og skylt að endurgreiða þær í samræmi við 77. gr. og 79. gr. laga um einkahlutafélög. Stefndi hafi verið hluthafi í Dreifingu ehf. og sem slíkur hafi honum verið óheimilt að taka fjármuni úr félaginu nema í samræmi við ströng skilyrði laga um einkahlutafélög. Verði litið svo á að í einhverjum af þessum greiðslum geti falist venjuleg viðskiptalán til stefnda eða hefðbundin kreditviðskipti sé krafist endurgreiðslu á þeirri fjárkröfu á grundvelli meginreglna kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga.
Dómkrafa:
Stefnandi reisir kröfu sína um endurgreiðslu þeirra greiðslna, sem krafist er riftunar á, á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að því leyti sem riftunarkrafan byggist á 131. gr. laganna en á 3. mgr. 142. gr. að leyti sem riftunarkrafan er reist á 141. gr. laganna. Kröfufjárhæðin svari til þeirrar fjárhæðar sem hafi komið stefnda að notum til lækkunar skuld sinni gagnvart stefnanda. Krafa um endurgreiðslu byggist annars á 77. og 79. gr. laga um einkahlutafélög og almennum reglum kröfuréttar. Dómkrafa stefnanda á hendur stefnda sundurliðist nánar þannig þannig:
Niðurfelling skulda kr. 87.822.360
Beinar peningagreiðslur til stefnda kr. 15.232.356
Greiðsla á einkakostnaði stefnda og vöruúttektir kr. 9.016.119
Samtals kr. 112.070.835
Samkvæmt skýrslu endurskoðenda hafi stefndi samtals greitt 9.010.101 krónu til Dreifingar ehf. frá 16. október 2009. Þær greiðslur sundurliðist með eftirfarandi hætti:
16. október 2009 kr. 1.296.045
23. október 2009 kr. 400.000
31. janúar 2010 kr. 2.000.000
30. apríl 2010 kr. 800.000
20. maí 2010 kr. 650.000
22. júní 2010 kr. 350.200
15. september 2010 kr. 200.000
21. september 2010 kr. 500.000
23. september 2010 kr. 2.550.000
27. september 2010 kr. 272.856
Kostnaður upphaflega færður sem einka og breytt
(sundurl. á bls. 8-9 á dskj. nr. 7) kr. 195.524
Samtals kr. 9.214.625
Við það er miðað af hálfu stefnanda að ofangreind fjárhæð dragist frá dómkröfunni sem innborgun inn á ógreidda skuld stefnda, sbr. að framan. Krafist sé dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá úrskurðardegi þann 18. nóvember 2010.
Um lagarök vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 21/1991. Nánar tiltekið sé vísað til ákvæða 131., 134., 141. og 142. gr. laganna. Þá sé byggt á ákvæðum laga nr. 38/1994, nánar tiltekið XII. kafla. Kröfur um vexti og dráttarvexti styðjist við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Þá byggi krafa um málskostnað á 130. gr. laga nr. 91/1991.
2. Málsástæður og lagarök stefnda
Í greinargerð stefnda er gerð grein fyrir hinu gjaldþrota félagi. Kemur þar fram að sameignarfélagið Dreifing hafi verið stofnað árið 1968 af stefnda og fleirum. Árið 1974 hafi fyrirtækið komist alfarið í eigu stefnda og hans fjölskyldu. Frá þeim tíma hafi stefndi gegnt hlutverki stjórnarformanns félagsins. Árið 1987 hafi félaginu verið breytt í hlutafélag. Hafi stefndi eftir sem áður gegnt lykilhlutverki hjá félaginu og meðal annars verið framkvæmdastjóri þess frá stofnun til ársins 1996. Á þeim tíma hafi hann byggt upp viðskiptasambönd og séð um vöruþróun o.s.frv. Frá árinu 1996 hafi stefndi verið titlaður forstjóri félagsins og setið í stjórn þess sem formaður stjórnar. Helstu viðskiptavinir félagsins hafi frá upphafi verið fyrirtæki í matvælaiðnaði, svo sem skyndibitastaðir, veitingahús, hótel, mötuneyti og verslanir. Helstu birgjar félagsins hafi verið framleiðendur í Norður-Ameríku og Evrópu. Fyrirtækinu hafi hægt og bítandi vaxið fiskur um hrygg og hafi það flutt í nýtt og hentugt húsnæði árið 1994 að Vatnagörðum 8 í Reykjavík.
Í greinargerð stefnda er hlutverki hans og stöðu hjá Dreifingu ehf. lýst þannig að hann hafi frá upphafi verið „allt í öllu“ hjá félaginu og það verið samsamað hans persónu. Til marks um það sé sú staðreynd að við færslu bókhalds félagsins virðist það hafa verið viðtekin venja, þegar óvíst var á hvaða bókhaldslykil færa skyldi útgjöld, að færa kostnaðinn til skuldar á viðskiptareikning stefnda. Veikleikar hans við stjórnun hafi hins vegar falist í vanhöldum á því að færa ákvarðanir, sem teknar voru á stjórnarfundum félagsins, í letur. Þannig hafi ekki verið ritaðar formlegar fundargerðir stjórnarfunda hjá félaginu. Það breyti hins vegar ekki því að allar ákvarðanir hafi verið teknar með samþykki þar til bærra aðila.
Í greinargerð stefnda er það enn fremur talið til marks um að hagsmunir stefnda hafi vikið fyrir hagsmunum Dreifingar ehf. að hann hafi ekki fengið greidd laun frá félaginu frá árslokum 2006 og allt þar til félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Ákvörðun þessi, sem tekin hafi verið af stjórn félagsins og hluthöfum, og með vitund þáverandi framkvæmdastjóra Dreifingar ehf., Helga Einarssonar, hafi alfarið ráðist af hagsmunum félagsins, enda hafi stefndi verið meðvitaður um versnandi stöðu þess líkt og ársreikningar félagsins beri með sér. Samkomulag hafi orðið um, þrátt fyrir að laun yrðu ekki greidd til stefnda, að félagið myndi greiða ákveðin fríðindi fyrir stefnda, en launagreiðslur yrðu gerðar upp þegar betur stæði á í rekstrinum. Sérstök athygli sé vakin á því að stefndi hafi ekki fengið arðgreiðslur frá Dreifingu ehf. á umræddu tímabili.
Af hálfu stefnda er eignarhaldi Dreifingar ehf. á þeim tíma sem máli skipti lýst þannig að samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2007 hafi stefndi átt 21,4% hlut í því, eiginkona hans, Þórdís Jónsdóttir 23,3% hlut og Skúlagata 30 ehf. 55,3% hlut. Stefndi hafi verið eigandi alls hlutafjár í Skúlagötu 30 ehf. og setið einn í stjórn þess. Á árinu 2008 hafi orðið þær breytingar á eignarhaldi Dreifingar ehf. að Brúarhöfði ehf. eignaðist þá 92,5% hlutafjár í félaginu en stefndi hafi haldið eftir 7,5% hlut. Þessi skipan hafi haldist óbreytt þangað til félagið var úrskurðað gjaldþrota. Stefndi telur þó rétt að taka fram að Dreifing ehf. hafi átt 99,4% hlutafjár í Brúarhöfða ehf. og hafi stefndi setið einn í stjórn þess félags og gegnt stöðu framkvæmdastjóra.
Stefndi mótmælir lýsingu stefnanda á málsatvikum sem og öllum dómkröfum og fjárhæðum, öllum málsástæðum og lagarökum stefnanda og telur að það eigi að hafna öllum dómkröfum stefnanda. Kröfu sína um sýknu byggir stefndi á því að ekkert það sem getið sé um í stefnu feli í sér riftanlega ráðstöfun í skilningi laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eða eftir atvikum ólögmætar lánveitingar í skilningi laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Hann tekur fram í upphafi að öll þessi tilvik eigi það sammerkt að gjafatilgangur hafi ekki verið til staðar líkt og áskilið sé í 131. gr. laga nr. 21/1991. Varðandi tilvísun stefnanda til 141. gr. sömu laga sé á því byggt af hálfu stefnda að hin huglægu og hlutlægu sönnunarskilyrði fyrir beitingu nefnds lagaákvæðis skorti alfarið í máli þessu. Hafi hvorki verið sýnt fram á ótilhlýðileika þeirra ráðstafana sem um ræðir né hafi stefnandi sýnt fram á stöðu félagsins á þeim tíma sem máli skipti varðandi hverja og eina ráðstöfun.
Niðurfelling skulda:
Á því sé byggt af hálfu stefnda að í engu þessara fjögurra tilvika sem stefnandi vísar til í stefnu sé um að ræða riftanlegar ráðstafanir í skilningi laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í greinargerð stefnda er hvert þessara tilvika tekið til sérstakrar skoðunar og skýringar stefnda settar fram:
1) Skuldabréf Gripið og greitt ehf.: Stefndi telur það rangt hjá stefnanda að niðurfærsla 3. janúar 2010 á viðskiptareikningi stefnda hjá stefnanda að fjárhæð 25.973.705 krónur hafi komið til vegna greiðslu stefnda á skuld við Dreifingu ehf., með skuldabréfi á hendur Gripið og greitt ehf. Sökum þessa misskilnings sé nauðsynlegt að rekja forsögu málsins með nokkuð ítarlegum hætti.
Umrætt félag, Birgðaverslun Gripið og greitt ehf., hafi verið verslun í Skútuvogi 4 sem hafi selt mat- og sérvöru fyrir verslanir, mötuneyti, stofnanir, skip, ferðaþjónustu og einstaklinga með sérstakt matarklúbbskort. Félagið hafi verið stofnað árið 1989 af 22 innlendum heildverslunum og einstaklingum tengdum þeim félögum. Stefndi hafi frá upphafi verið hluthafi í félaginu.
Á árinu 2004 hafi orðið mikill órói í hluthafahópi félagsins af ástæðum sem ekki sé ástæða til að tíunda frekar. Af þessum sökum hafi hlutabréf ákveðinna hluthafa í félaginu verið boðin til kaups og hafi Verðbréfastofunni hf. verið falið að sjá um sölu bréfanna. Stefndi hafi talið það álitlegan fjárfestingarkost á þessum tíma að auka við hlutafjáreign sína í félaginu. Þetta hafi gengið eftir og hafi stefndi keypt 25. mars 2004 hlutabréf í Birgðaverslun Gripið og greitt ehf. að nafnverði 3.906.830 krónur. Kaupverð hlutabréfanna hafi verið 23.440.980 krónur. Kaupin hafi stefndi fjármagnað með yfirdrætti á tékkareikningi sínum hjá Landsbanka Íslands hf. Stefndi heldur því fram að hann hafi samið við bankann um að síðar yrði gefið út skuldabréf vegna hlutabréfaviðskiptanna og yfirdráttur á tékkareikningnum greiddur niður. Þennan sama dag hafi verið haldinn aðalfundur í Birgðaverslun Gripið og greitt ehf. þar sem stefndi hafi verið kjörinn stjórnarformaður félagsins, sbr. tilkynning til hlutafélagaskrár, dags. 5. nóvember 2004.
Hinn 1. júlí 2005 hafi stefndi framselt umrædd hlutabréf til Skúlagötu 30 ehf. eins og ráða megi af skattframtali stefnda og eiginkonu hans fyrir árið 2005. Samkomulag hafi orðið milli stefnda og Skúlagötu 30 ehf. að greitt yrði fyrir umrædd hlutabréf með þeim hætti að Skúlagata 30 ehf. yrði greiðandi þess skuldabréfs sem til hafi staðið að stefndi gæfi út til Landsbankans í tengslum við hlutabréfakaupin, sbr. framangreint. Hinn 29. nóvember 2005 hafi stefndi gefið út skuldabréf nr. 0101-74-104865 til Landsbankans að fjárhæð 25.000.000 króna. Ákveðið hafi verið að stefndi gæfi út skuldabréfið, þrátt fyrir framsal hlutabréfanna til Skúlagötu 30 ehf., þar sem ekki þótti fært að Skúlagata 30 ehf. gæfi það út í eigin nafni þar sem andvirði þess hafi verið ráðstafað til niðurgreiðslu á persónulegum tékkareikningi stefnda hjá Landsbankanum.
Þann 28. júlí 2008 hafi Skúlagata 30 ehf. greitt skuldabréfið upp að fullu, samtals 25.973.709 krónur, og vísar stefndi til tiltekinna gagna þessu til staðfestingar. Hafi uppgreiðsla skuldabréfsins af hálfu Skúlagötu 30 ehf. verið hluti af stærra samhengi í tengslum við endurfjármögnun á skuldum félaga í eigu stefnda við Landsbankann. Í grófum dráttum hafi Skúlagata 30 ehf. undirritað lánssamning hjá Landsbankanum að fjárhæð 505.000.000 krónur 26. júní 2008 en andvirði lánsins hafi verið varið til niðurgreiðslu á skuldum félaga í eigu stefnda við bankann, þ.m.t. til uppgreiðslu á umræddu skuldabréfi útgefnu af stefnda. Um ráðstöfun lánsfjárins vísast til minnisblaðs Landsbankans, dags. 25. júní 2008.
Af einhverjum ástæðum, sem stefnda sé ekki kunnugt um, hafi uppgreiðsluverðmæti nefnds skuldabréfs, 25.973.709 krónur, verið fært til skuldar á viðskiptareikning stefnda hjá Skúlagötu 30 ehf. með færslu sem bókuð hafi verið 31. ágúst 2008. Aldrei hefði átt að færa uppgreiðsluverðmæti skuldabréfsins til skuldar á viðskiptareikning stefnda hjá Skúlagötu 30 ehf., enda hafði svo um samist að Skúlagata 30 ehf. greiddi fyrir hlutabréfin með uppgreiðslu á skuldabréfinu, en óþarfi sé að fjölyrða frekar um það hér, enda ótengt sakarefni málsins.
Ástæða þess að Dreifing ehf. tengist inn í málið sé sú að 31. desember 2008 hafi 40.147.939 krónur verið millifærðar af viðskiptareikningi stefnda hjá Skúlagötu 30 ehf. inn á viðskiptareikning stefnda hjá Dreifingu ehf. Nánar verði fjallað um millifærsluna milli viðskiptareikninganna í tengslum við þrautavarakröfu stefnda um verulega lækkun dómkrafna stefnanda. Þó skuli tekið fram að augljóst sé þegar málið sé skoðað að þessi millifærsla milli viðskiptareikninga stefnda hjá Skúlagötu 30 ehf. og Dreifingu ehf. hafi aldrei átt að eiga sér stað, enda verði ekki séð að á milli þessara reikninga geti verið bein tengsl. Rétt sé að taka fram að stærstur hluti af þeirri skuld sem þarna hafi verið færð yfir á viðskiptareikning Dreifingar ehf. hafi verið til kominn vegna nefnds skuldabréfs.
Með það fyrir augum að leiðrétta ofangreind mistök hafi verið framkvæmd leiðréttingarfærsla í bókhaldi Dreifingar ehf. 3. janúar 2010 þar sem 25.973.705 krónur hafi verið færðar til lækkunar á viðskiptareikningi stefnda hjá Dreifingu ehf. Í þessu sambandi bendir stefndi á skýringu með umræddri færslu þar sem orðrétt segi: „Lr. 254/2008 skbr. G&G.“ Þarna sé vísað í fylgiskjal með færslunni dags. 31. ágúst 2008 á viðskiptareikning stefnda hjá Skúlagötu 30 ehf., sbr. dskj. 34. Um sé að ræða eðlilega leiðréttingu enda hafi aldrei verið til staðar skuld við Dreifingu ehf. vegna hlutabréfakaupa í Birgðaverslun Gripið og greitt ehf. Hér sé því beinlínis verið að leiðrétta rangfærslur í bókhaldi. Hins vegar sé rétt að láta þess getið að vissulega hefði verið ákjósanlegra að leiðrétta mistökin, sem fólust í millifærslu á milli viðskiptareikninga stefnda hjá ofangreindum félögum, með því einfaldlega að bakfæra millifærsluna 31. desember 2008. Af því hefði leitt að leiðréttingarfærslan 3. janúar 2010 hefði verið óþörf.
Af þessum sökum telur stefndi augljóst að ekki sé um að ræða riftanlega ráðstöfun, hvorki í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991 né 141. gr. sömu laga. Hér sé einfaldlega um að ræða augljós mistök í bókhaldi sem leiðrétt voru með færslunni hinn 3. janúar 2010.
2) Ábyrgðargjald af lánum vegna Kjötbankans ehf.: Hvað varði hin svonefndu ábyrgðargjöld bendir stefndi á að slík gjöld séu vel þekkt í íslensku viðskiptalífi og hafi tíðkast um langa hríð sem gagngjald vegna ábyrgða sem veittar eru vegna skuldbindinga annarra.
Umrædd færsla að fjárhæð 7.624.662 krónur sem bókuð hafi verið 1. júlí 2010 til lækkunar á viðskiptamannareikningi stefnda hjá Dreifingu ehf. hafi byggst á samningsbundinni skyldu Dreifingar ehf. gagnvart stefnda fyrir umsamið ábyrgðargjald vegna Kjötbankans ehf.
Í greinargerð stefnda kemur fram að ekki hafi tekist að afla allra gagna frá endurskoðendum Dreifingar ehf. og Kjötbankans ehf. varðandi nánari sundurliðun á þeim skuldbindingum sem stefndi hafi verið að ábyrgjast. Yrðu þau lögð fram undir rekstri málsins og því haldið fram að þau muni sýna fram á að ekki sé um riftanlegar ráðstafanir að ræða í skilningi laga nr. 21/1991.
3) Ábyrgðargjald vegna Dreifingar ehf.: Stefndi tekur fram að hér sé um að ræða ábyrgðargjald vegna viðskiptaskulda Dreifingar ehf. við tiltekna erlenda birgja félagsins á árunum 2008 og 2009 sem stefndi hafi ábyrgst persónulega. Forsögu málsins megi rekja til þess að í nóvember 2007 hafi Landsbankinn gert þá kröfu, sem ekki hafði verið gerð áður, að bankinn fengi veðrétt í öllum vörubirgðum og kröfum félagsins. Þessu til viðbótar hafi á árinu 2008 verið nær ómögulegt að útvega bankaábyrgðir hjá viðskiptabönkum landsins og í raun útilokað eftir efnahagshrunið. Þetta hafi átt við um Dreifingu ehf. sem og flest önnur fyrirtæki á Íslandi.
Í upphafi árs 2008 hafi það svo gerst í fyrsta sinn í rekstrarsögu Dreifingar ehf. að félaginu hafi ekki tekist að standa skil á útsendum reikningum frá lykilbirgjum félagsins á eindaga. Ástæða þess hafi aðallega verið þríþætt. Í fyrsta lagi hafi Landsbankinn lokað á frekari lánafyrirgreiðslu til félagsins í nóvember 2007, í öðru lagi hafi hinir erlendu birgjar stytt greiðslufresti og í þriðja lagi hafi orðið gengisfall á íslensku krónunni á fyrri hluta árs 2008. Varðandi hið síðastnefnda sé rétt að halda því til haga að íslenska krónan hafi fallið gagnvart bandarískum dal um 26,53%, 35,66% gagnvart evru og 27,77% gagnvart bresku sterlingspundi frá 1. janúar til 30. júní 2008.
Erlendir birgjar Dreifingar ehf., sem höfðu fram að þessum tíma ekki séð ástæðu til að krefjast bankaábyrgða eða annarra trygginga frá félaginu, hafi eðlilega verið áhyggjufullir vegna þessarar stöðu sem upp var komin. Til þess að unnt væri að halda áfram eðlilegum viðskiptum, sem hafi vitaskuld verið grundvöllur áframhaldandi reksturs fyrirtækisins, hafi stefndi neyðst til þess, að kröfu hinna erlendu birgja, að ábyrgjast persónulega allar skuldbindingar Dreifingar ehf. við nafngreinda lykilbirgja, enda hafi félagið sjálft ekki lagt fram tryggingar samkvæmt framansögðu.
Ákveðið hafi verið, með samþykki stjórnar félagsins sem kynnt hafi verið hluthöfum, að sem gagngjald fyrir persónulegar skuldbindingar stefnda við hina erlendu birgja skyldi Dreifing ehf. greiða stefnda ábyrgðargjald sem væri 7% af heildarskuldbindingum Dreifingar ehf. við umrædda birgja miðað við stöðu í árslok. Framkvæmdastjóra félagsins á þessum tíma, Helga Einarssyni, hafi verið kunnugt um þessa skuldbindingu Dreifingar ehf. gagnvart stefnda.
Líkt og ráða megi af útprentun af stöðu lánardrottna Dreifingar ehf. úr bókhaldi félagsins vegna ársins 2008 hafi viðskiptaskuld félagsins við ofangreinda birgja í lok árs 2008 numið 124.964.071 krónu og árið 2009 171.842.260 krónum. Í lok árs 2009 hafi endurskoðandi félagsins reiknað fjárhæð ábyrgðargjaldsins vegna áranna 2008 og 2009, sbr. útreikning dagsettan 31. desember 2009 og fylgiskjal úr bókhaldi, dags. 1. júlí 2010. Niðurstaða útreikningsins sé sú, líkt og ráða megi af nefndum skjölum, að ábyrgðargjald vegna ársins 2008 hafi verið 8.747.485 krónur og vegna ársins 2009 12.028.958 krónur. Samtals nemi ábyrgðargjaldið því 20.776.443 krónum. Framangreind fjárhæð vegna ábyrgðargjaldsins hafi svo verið færð til lækkunar á viðskiptareikningi stefnda hjá Dreifingu ehf. með færslunni þann 1. júlí 2010.
Með vísan til þess sem að framan greini byggir stefndi á því að ekkert hafi verið óeðlilegt við umrædda færslu heldur hafi hún þvert á móti byggst á samningsbundinni skyldu Dreifingar ehf. gagnvart stefnda. Áréttað er að um munnlegt samkomulag hafi verið að ræða sem hafi hlotið samþykki stjórnar og hluthafa félagsins auk þess sem framkvæmdastjóra félagsins hafi verið kunnugt um skuldbindinguna. Þessir aðilar muni koma fyrir dóminn og staðfesta tilvist samkomulagsins. Þá vísar stefndi til staðfestinga frá nokkrum hinna erlendu birgja um að stefndi hafi ábyrgst persónulega allar greiðslur félagsins á árunum 2008 til 2010. Á það er einnig bent að enginn hinna erlendu birgja hafi lýst kröfum í þrotabú Dreifingar ehf., enda hafi stefndi náð samkomulagi við þá á grundvelli framangreindra ábyrgða.
Með vísan til þess sem að framan sé rakið er á því byggt af hálfu stefnda að ekki sé um riftanlega ráðstöfun að ræða í skilningi laga nr. 21/1991 og að hvorki séu uppfyllt skilyrði 131. gr. né 141. gr. nefndra laga. Því beri að sýkna stefnda af þessum kröfulið.
4) Áhöld og tæki til matvælaframleiðslu: Stefndi tekur fram að það sé rétt sem fram komi í stefnu að 1. júlí 2010 hafi 33.447.550 krónur verið færðar til lækkunar á kröfu Dreifingar ehf. á viðskiptareikningi stefnda hjá félaginu. Til grundvallar færslunni hafi legið viðskipti með áhöld og tæki til matvælaframleiðslu sem saman myndi vélasamstæðu með allt að fjórum framleiðslulínum. Um sé að ræða fullkomna og afkastamikla vélasamstæðu til matvælaframleiðslu sem samanstandi m.a. af 1.000 lítra djúpsteikingarpotti og tveimur 450 lítra gufusuðupottum. Vélasamstæðan sé einkum ætluð til framleiðslu kínverskra vorrúllna, en hönnun hennar sé þó með þeim hætti að auðvelt er að breyta gangi hennar þannig að framleiða megi alla bakaða matvöru með hvers konar fyllingum sem og marga aðra rétti. Því sé ljóst að miklir notkunarmöguleikar felist í vélasamstæðunni. Áhöld þessi og tæki séu flest frá ítalska framleiðandanum BALPE sem hafi framleitt tæki sem þessi síðan 1968 og selji þau til yfir 40 landa. Hluti tækjanna sé af tegundinni Stein frá bandaríska framleiðandanum JBT Corporation.
Stefndi tekur fram að ekki sé að finna lýsingu á þeim tækjum sem hér um ræði í stefnunni. Hins vegar sé því haldið fram án nokkurs rökstuðnings að um verðlaus tæki hafi verið að ræða. Stefndi vekur athygli á því að stefnandi virðist byggja kröfu sína varðandi áhöldin og tækin eingöngu á upplýsingum sem fram komi í skýrslu endurskoðunarskrifstofunnar Ernst og Young hf. Þar segi eftirfarandi: „Eftir skoðun okkar á tækjunum teljum við að ef Dreifing ehf. hefði átt að geta nýta [svo] sér umrædd tæki í rekstri hefði félagið áður þurft að koma sér upp húsnæði og/eða aðstöðu. Einnig hefði þurft að koma tækjunum í nothæft ástand. Líklega hefði Dreifing ehf. því þurft að leggja í töluverðan kostnað til þess að koma tækjunum í rekstrarhæft horf [...].“ Af þessu megi ráða að ekkert faglegt mat hafi farið fram á tækjunum þrátt fyrir að stefnanda hafi verið það í lófa lagið, enda séu öll þessi áhöld og tæki enn til staðar í húsnæði Skúlagötu 30 ehf. við Brúarvog 1-3, Reykjavík. Stefnandi kjósi því að líta algjörlega fram hjá þeim verðmætum sem stefndi afhenti stefnanda, en slíkt sé vitaskuld forsendan fyrir færslunni sem um ræði.
Af hálfu stefnda er því mótmælt að Dreifing ehf. hafi aldrei stundað matvælaframleiðslu eða stefnt að því og vísar hann til tiltekinna gagna því til stuðnings. Í þessu sambandi bendir stefndi á að við hrun íslensku krónunnar árið 2008 hafi verð innfluttra vara hækkað gríðarlega. Afar erfitt hafi verið fyrir innflutningsfyrirtæki á þessum tíma að velta hækkunum á innfluttum matvælum út í verðlagið. Af þessari ástæðu hafi á árinu 2009 verið kannað í fullri alvöru hvort Dreifing ehf. ætti að fara út í matvælaframleiðslu á tilteknum matvælum sem kæmi þá í staðinn fyrir innflutning áþekkra vara.
Því er haldið fram að stórt skref hafi verið stigið í þessa átt þegar Dreifing ehf. hafi ákveðið að festa kaup á umræddri vélasamstæðu í lok september 2009, sbr. afsal, dags. 30. september 2009, þar sem eignaréttur af vélasamstæðunni var færður til Dreifingar ehf. Kaupverð vélasamstæðunnar hafi verið ákveðið 270.000 Bandaríkjadalir. Hafi ástæða þess að kaupverðið var ákveðið í bandarískum dölum verið sú að vélasamstæðan hafi verið keypt erlendis frá á sínum tíma og viðmiðunarverð, sem lágu til grundvallar á söludegi, hafi komið frá erlendum aðilum. Framangreint skýri einnig hvers vegna þessi viðskipti hafi verið færð til gjalda sem erlend vörukaup í bókhaldi Dreifingar ehf. eins og fram komi í stefnu málsins.
Í lok árs 2009 hafi endurskoðandi félagsins reiknað kaupverðið miðað við íslenskar krónur, samtals 33.447.550 krónur, í þeim tilgangi að færa til bókar umrædd viðskipti. Hinn 1. janúar 2010 hafi verið útbúið fylgiskjal vegna viðskiptanna, dagsett sama dag. Með færslunni þann 1. júlí 2010 hafi umrædd fjárhæð verið færð til lækkunar á stöðu á viðskiptareikningi stefnda hjá stefnda og til gjalda sem erlend vörukaup hjá félaginu.
Staðreynd málsins sé sú að efnahagshrunið hafi sett strik í reikninginn varðandi ofangreindar áætlanir um matvælaframleiðslu Dreifingar ehf. og gengu þær því hægar en að hafði verið stefnt. Í byrjun árs 2010 hafi hins vegar komist skriður á málið þegar Dreifing ehf. hafi tekið yfir rekstur framleiðslufyrirtækisins Sjávarrétta ehf., en það félag hafi verið hluti fyrirtækjasamstæðu stefnda. Var þannig ætlunin að Dreifing ehf. myndi í eigin nafni fara út í þá framleiðslu sem Sjávarréttir ehf. höfðu verið í og þróa þá framleiðslu frekar. Í þessu samhengi megi benda á að virðisaukaskattsnúmeri Sjávarrétta ehf. hafi verið lokað 31. desember 2009. Jafnframt hafi verið í skoðun möguleikar á útflutningi framleiddra vara, en slíkur útflutningur hafi verið orðinn raunhæfur kostur með gengisfalli íslensku krónunnar. Þegar hafi verið byrjað að yfirfara tækin og gera á þeim nauðsynlegar lagfæringar þegar bú Dreifingar ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2010. Sú vinna hafi verið unnin af Þorsteini Jónssyni, vélfræðingi og starfsmanni UN þjónustu ehf.
Því er haldið fram af hálfu stefnda að ekki hafi þurft að fara út í mikinn kostnað við að koma verksmiðjunni í rekstrarhæft horf, né að koma húsnæðinu í það ástand sem til hafi þurft. Því séu fullyrðingar um annað beinlínis rangar. Í ljósi framangreindra orða í skýrslu Ernst & Young hf. bendir stefndi á að löggiltur endurskoðandi sé ekki til þess hæfur að álykta og/eða meta hvort vél- og rafbúnaður sé í nothæfu ástandi né að meta hversu mikill kostnaður kunni að felast í að koma umræddum tækjum í „nothæft ástand“, án aðstoðar sérfræðinga. Ekki verði ráðið af lestri skýrslu Ernst & Young hf. að skýrsluhöfundur hafi haft sér til aðstoðar við skoðun tækjanna til þess hæfan mann, t.d. vélfræðing eða rafiðnfræðing. Er hér því einungis um fullkomlega ósannaðar getgátur að ræða.
Stefndi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að umrædd viðskipti hafi falið í sér gjafagerning samkvæmt 131. gr. laga nr. 21/1991.
Stefnandi hafi með engum hætti sýnt fram á að gjöfin hafi rýrt eignir Dreifingar ehf. Skiptastjóri virðist ekki hafa gert tilraun til að koma eignunum í verð. Þá verði ekki séð að skiptastjóri hafi gert reka að því að verðmeta þessi áhöld og tæki. Þannig hafi stefnandi ekki sýnt fram á að raunverulegt virði þessara áhalda og tækja sé lægra en endurspeglist í kaupverðinu hinn 30. september 2009. Bendir stefndi á að til staðar sé markaður með notuð áhöld og tæki í matvælaiðnaði, bæði á Íslandi og erlendis. Sem dæmi vísi stefndi til vefsíðunnar www.bid-on-equipment.com. Hefur stefndi lagt fram útprentun af umræddri heimasíðu þar sem sjá megi að boðinn er til kaups 1.000 lítra djúpsteikingarpottur, ekki ósvipaður þeim sem sé hluti af umræddri vélasamstæðu, á USD 125.000. Þetta sýni að kaupverð það sem lagt hafi verið til grundvallar þann 30. september 2009 hafi verið raunhæft, enda hafi fjölmörg önnur tæki og áhöld fylgt með í kaupunum líkt og að framan sé rakið. Hafi stefnanda því verið í lófa lagið að kanna virði þeirra áhalda og tækja sem um ræðir. Því sé það með öllu ósannað að kaup Dreifingar ehf. á umræddum áhöldum og tækjum hafi rýrt eignir félagsins og í raun ekki hægt að útiloka að virði þeirra hafi aukist með viðskiptunum.
Af sömu ástæðu telur stefndi að ekki hafi verið sýnt fram á að umrædd viðskipti hafi leitt til eignaaukningar hjá stefnda. Þá liggi ekki fyrir að tilgangurinn með gerningnum hafi verið að gefa. Hafi félagið haft uppi áform um matvælaframleiðslu eins og áður er rakið. Hafi viðskiptin með áhöldin og tækin haft þann tilgang að framfylgja þeim fyrirætlunum og þau því einungis verið byggð á viðskiptalegum forsendum. Þessu til viðbótar hafi ekkert bent til annars en að Dreifing ehf. myndi starfa áfram á þeim tíma er viðskiptin fóru fram. Hafi stefnda raunar ekki verið ljóst fyrr en í september 2010 að félagið kynni að lenda í vandræðum til skamms tíma þegar honum var tilkynnt símleiðis af starfsmanni NBI hf. að tekin hefði verið sú ákvörðun innan bankans að stöðva lausafjármögnun félagsins. Fram að þeim tíma hafi stefndi staðið í þeirri trú að félagið ætti góða framtíð þar sem viðræður höfðu átt sér stað við NBI hf. um endurfjármögnun félagsins.
Af öllu því sem að framan er rakið byggir stefndi á því að ekki sé um að ræða riftanlega ráðstöfun í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Í þessu tilviki hafi einfaldlega verið um að ræða yfirfærslu á verðmætum sem byggðust á viðskiptalegum forsendum og gjafatilgangur hafi því ekki verið til staðar líkt og áskilið sé í 131. gr. laga nr. 21/1991.
Stefndi mótmælir því einnig að viðskiptin séu riftanleg á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991. Stefndi hafnar því alfarið að tækin hafi legið óhreyfð og undir skemmdum síðan þau voru keypt árið 2000. Hið rétta sé að þau hafi verið í fullkomnu ásigkomulagi þegar þau hafi verið seld Dreifingu ehf. Þá sé með öllu ósannað af hálfu stefnanda að virði umræddra áhalda og tækja hafi ekkert verið þegar ráðstöfunin hafi átt sér stað. Það sé í raun fráleitt að halda slíku fram enda verði ekki séð að skiptastjóri hafi gert tilraun til að koma þeim í verð né gert fullnægjandi könnun á virði þeirra. Þá ítrekar stefndi að þegar bú Dreifingar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta hafi vinna verið hafin við að yfirfara tækin til að koma þeim í framleiðsluhæft ástand. Þá hafi stefnandi ekki með nokkru móti sýnt fram á í málinu að Dreifing ehf. hafi verið ógjaldfært þegar viðskiptin með áhöldin og tækin hafi farið fram, eða vegna þeirra, sem sé þó ein helsta forsendan fyrir beitingu 141. gr. laga nr. 21/1991. Stefndi hafnar því alfarið að skilyrði til þess að rifta umræddum viðskiptum á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt.
Peningagreiðslur til stefnda:
Stefndi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að peningagreiðslur sem stefnandi tilgreinir í stefnu hafi falið í sér gjafagerning, sbr. 131. gr. laga nr. 21/1991, eða að þær geti talist ótilhlýðilegar, sbr. 141. gr. sömu laga. Þvert á móti eigi allar færslurnar sér eðlilegar skýringar. Þá mótmælir stefndi einnig því sem röngu og ósönnuðu að stefnda beri að endurgreiða stefnanda fjármunina þar sem umræddar greiðslur hafi verið í andstöðu við reglur XII. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög eða að um hafi verið að ræða lánveitingar sem beri að endurgreiða.
Færsla 23.11.2007 að fjárhæð 6.300.000 krónur: Stefndi kveður umrædda færslu tengjast hlutabréfaviðskiptum í Birgðaverslun Gripið og greitt ehf. Dreifing ehf. hafi verið stór hluthafi í Birgðaverslun Gripið og greitt ehf. Líkt og rakið sé í greinargerð þessari undir liðnum „Skuldabréf Gripið og greitt ehf.“, hafi orðið mikill órói í hluthafahópi félagsins á árinu 2004 og í framhaldinu hafi orðið breytingar á eignarhaldi félagsins. Dreifing ehf. hafi talið að mikil verðmæti fælust í rekstri Birgðaverslun Gripið og greitt ehf. og að um góða langtímafjárfestingu væri að ræða fyrir félagið. Því þyrfti að tryggja að Dreifing ehf. og tengdir aðilar hefðu ráðandi meirihluta í félaginu, enda væri það til þess fallið að auka vörusölu Dreifingar ehf., en á þessum tíma hafi Dreifing ehf. átt í afar litlum viðskiptum við stærstu smásala á matvörumarkaði á Íslandi. Á árinu 2004 hafi Guðjón Heiðar Hauksson keypt 10,39% hlut í félaginu. Hafi þótt nauðsynlegt að fá vel menntaðan mann með reynslu að félaginu og hafi Guðjón Heiðar þótt álitlegur kostur þar sem hann sé menntaður viðskiptafræðingur og með rekstrarreynslu. Með þessum kaupum hafi Dreifing ehf. ráðið óbeint yfir meirihluta í félaginu, en fyrir hafi félagið átt 40,01% hlut. Á hluthafafundi 26. júlí 2005 hafi Guðjón Heiðar verið kjörinn stjórnarformaður Birgðaverslunarinnar Gripið og greitt ehf.
Í tengslum við kaup Guðjóns Heiðars á hlutafé í Birgðaverslun Gripið og greitt ehf. hafi verið gert munnlegt samkomulag á milli Dreifingar ehf. og Guðjóns Heiðars þess efnis að Dreifing ehf. tryggði skaðleysi þess síðarnefnda vegna kaupa á hlutabréfum í félaginu ef illa færi fyrir rekstrinum. Í samkomulaginu hafi falist að Dreifing ehf. myndi kaupa hlut Guðjóns Heiðars, ef beiðni þar að lútandi kæmi fram, á upphaflegu kaupverði hlutabréfanna að viðbættum fjármagnskostnaði. Með þessu samkomulagi hafi Guðjón Heiðar því öðlast sölurétt á hlutabréfum sínum. Ástæða þess að samið var um þetta hafi verið að Dreifing ehf. taldi mikilvægt að tryggja sér sérfræðiþekkingu Guðjóns Heiðars og enn frekari áhrif í stjórn félagsins.
Rekstur Birgðaverslunarinnar Gripið og greitt ehf. hafi ekki staðið undir væntingum. Endaði hann með því að félagið var úrskurðað gjaldþrota 20. desember 2006. Í kjölfar gjaldþrotaúrskurðar Birgðaverslunar Gripið og greitt ehf. hafi Dreifing ehf. þurft að standa við þá ábyrgð sem félagið veitti á skaðleysi Guðjóns Heiðars, í samræmi við það sem að framan er rakið. Fékk Guðjón Heiðar því greiddar 6.300.000 krónur frá Dreifingu ehf. hinn 23. nóvember 2007. Hafi uppgjörið farið fram með þeim hætti að hinn 23. nóvember 2007 hafi Dreifing ehf. lagt inn á tékkareikning stefnda 6.300.000 krónur sem stefndi hafi millifært samdægurs inn á reikning í eigu Guðjóns Heiðars. Þessi framkvæmd hafi leitt til þess að fjárhæðin hafi verið færð til skuldar á viðskiptamannareikning stefnda hjá Dreifingu ehf. Með réttu hefði greiðslan til Guðjóns Heiðars átt að fara beint frá Dreifingu ehf. inn á hans reikning og færast til gjalda hjá Dreifingu ehf. Stefndi hafi því ekki fengið þessa fjármuni til sín, heldur hafi þetta verið samningsbundin greiðsla frá Dreifingu ehf. til Guðjóns Heiðars vegna hlutabréfaviðskipta í Birgðaverslun Gripið og greitt ehf. Því sé ljóst að ekki sé um riftanlega ráðstöfun að ræða. Þá sé einnig ljóst að endurgreiðslukrafa á grundvelli XII. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög eigi ekki við.
Aðrar færslur undir liðnum „Peningagreiðslur til stefnda“: Á það er bent af hálfu stefnda að hann hafi með beinum eða óbeinum hætti verið m.a. eigandi Dreifingar ehf. og fasteignafélagsins Skúlagötu 30 ehf. sem hafi átt þær fasteignir sem hýsti starfsemi Dreifingar ehf. Rekstrarumhverfi margra fyrirtækja hafi versnað mikið á árinu 2008 og hafi fyrirtæki stefnda ekki farið varhluta af því. Í viðleitni sinni til að halda rekstri félaganna gangandi hafi stefndi millifært í nokkur skipti fjármuni frá Dreifingu ehf. yfir til annarra félaga í fyrirtækjasamstæðu sinni, þ. á m. til Skúlagötu 30 ehf. Kveður hann millifærslur þessar hafa farið í gegnum viðskiptamannareikning hans hjá Dreifingu ehf. Hafi stefndi fengið fjármunina inn á sinn persónulega bankareikning og hann síðar millifært þá yfir á önnur félög í fyrirtækjasamstæðunni. Eigi þetta við um framangreindar færslur, samtals að fjárhæð 8.932.356 krónur. Færslur á viðskiptamannareikningi stefnda að þessari fjárhæð eru því allar vegna lána sem stefndi hafi notað í þágu fyrirtækjasamstæðu sinnar líkt og að framan sé rakið. Lánveitingarnar hafi byggst á viðskiptalegum forsendum af hálfu Dreifingar ehf., enda hafi þær verið félaginu til hagsbóta með vísan til eignatengsla sem fyrir hendi hafi verið milli félaga í fyrirtækjasamstæðu stefnda.
Stefndi vísar til þess að á bls. 11 í stefnu komi fram að hann hafi greitt Dreifingu ehf. með því að millifæra beint fjármuni til félagsins og með greiðslu reikninga fyrir Dreifingu ehf., samtals að fjárhæð 9.019.101 króna á tímabilinu frá október 2009 til og með september 2010. Þessar greiðslur kveður hann vera endurgreiðslur á þeim lánum sem stefndi hafi fengið hjá Dreifingu ehf. í þágu annarra félaga í fyrirtækjasamsteypunni. Því hafi stefndi greitt öll lánin til baka sem um ræði. Ekki sé því um riftanlegar ráðstafanir að ræða. Þá sé einnig ljóst að endurgreiðslukrafa á grundvelli XII. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög eigi ekki við þar sem öll lánin hafi verið endurgreidd.
Úttektir og greiðslur á einkakostnaði:
Stefndi reisti upphaflega kröfu sína um frávísun meðal annars á því að þessi hluti dómkrafna stefnanda væri stórkostlega vanreifaður. Tekur stefndi fram að vegna þessa ágalla á málatilbúnaði stefnanda geti umfjöllun hans aldrei orðið annað en almenns eðlis.
Í stefnu málsins sé því haldið fram að stefndi hafi tekið út vörur og látið Dreifingu ehf. greiða fyrir sig einkakostnað, samtals að fjárhæð 9.006.119 krónur, algerlega án tengsla við rekstur fyrirtækisins og í andstöðu við reglur laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Þessa fullyrðingu telur stefndi vera fjarri sanni. Byggir stefndi á því að hann hafi haft heimild til þess að stofna til þeirra útgjalda sem um sé fjallað í þessum lið stefnunnar. Annars vegar sé um að ræða útgjöld sem Dreifing ehf. hafi átt að greiða og verið nýtt til tekjuöflunar félagsins; hins vegar hafi verið um greiðslur að ræða sem hafi verið hluti af þeim kjörum sem stefndi hafi notið hjá Dreifingu ehf. sem endurgjald fyrir störf sín í þágu félagsins. Reyndin sé sú að færslur þessar hafi aldrei átt að bóka á viðskiptareikning stefnda enda sé hér um eðlilegan kostnað Dreifingar ehf. að ræða. Umfjöllunin sem hér fylgi taki mið af efnisskiptingu í stefnu og því verði fyrst fjallað um það sem nefnt sé einkakostnaður og því næst það sem stefnandi kjósi að kalla vöruúttektir.
1) Einkakostnaður: Undir liðnum einkakostnaður sé fjöldi færslna og verður hér leitast við að flokka þær eins og hægt sé. Megi flokka þessar færslur í grófu lagi þannig að annars vegar sé um að ræða færslur sem bókaðar hafi verið á viðskiptareikning stefnda hjá Dreifingu ehf., sbr. liði 1-6 hér að aftan og hins vegar reikningar sem hafi verið greiddir af Dreifingu ehf. og gjaldfærðir á félagið sjálft í bókum þess, sbr. liði 7-9.
Varðandi fyrrnefndu liðina þá byggir stefndi á því að í öllum tilvikum sé um að ræða kostnað sem Dreifingu ehf. hafi borið að greiða en verið ranglega færður á viðskiptareikning stefnda hjá félaginu. Hvað síðarnefndu liðina varðar telur stefndi að stefnandi telji ranglega að hér sé um einkakostnað stefnda að ræða en hann hafi verið bókaður sem kostnaður félagsins. Í skýrslu endurskoðenda, sem stefnandi styðji kröfu sína við, sé ekki kveðið sterkara að orði en svo að þær séu „líklega vegna einkakostnaðar“ stefnda.
1. Kreditkortareikningar: Þær færslur sem falli undir þennan lið séu skýrðar í bókhaldi Dreifingar ehf. með einhverjum hætti sem „visa“. Hér sé um að ræða færslur vegna kreditkorts í nafni Dreifingar ehf. sem stefndi hafi haft til umráða vegna útgjalda félagsins og hafi það einungis verið nýtt í þágu þess. Á það skuli bent að Dreifing ehf. hafi ekki verið skráð fyrir öðrum kreditkortum en því sem stefndi hafi haft til umráða. Stefndi byggir á því að um rangfærslur sé að ræða í bókhaldi Dreifingar ehf. þar sem ekki hafi átt að færa þennan kostnað inn á viðskiptareikning stefnda hjá félaginu, heldur sem kostnað hjá félaginu sjálfu, enda kortið einungis notað í þágu Dreifingar ehf. Fráleitt sé að ætla að stefndi hafi nýtt kortið í eigin þágu og hafi stefnandi ekki með neinum hætti sýnt fram á það. Það sé því fullkomlega ósannað í málinu að um sé að ræða einkaútgjöld stefnda.
Hið rétta sé að stefndi hafi notað kortið til að greiða tilfallandi kostnað fyrir Dreifingu ehf., svo sem vegna tengsla við viðskiptamenn félagsins og móttöku þeirra til Íslands og vegna ferðakostnaðar til útlanda. Í þessu samhengi skuli á það bent að Dreifing ehf. hafi verið innflutningsfyrirtæki í viðskiptum við fjölmarga birgja í Norður-Ameríku og Evrópu. Hluti af nauðsynlegum rekstri Dreifingar ehf. hafi verið að halda góðum tengslum við birgja, afla nýrra viðskiptatengsla og kynna sér vöruframboð erlendis með því að sækja vörusýningar og heimsóknir til birgja. Framangreint sé eðlilegur þáttur í rekstri innflutningsfyrirtækis. Hafi kortið þannig meðal annars verið nýtt til þess að greiða flugmiða, hótelgistingu og annan tilfallandi kostnað í ferðum erlendis. Á það skuli bent að stefndi hafi ekki verið einn í slíkum ferðum heldur hafi oftar en ekki verið með í för framkvæmdastjóri, innkaupastjóri og sölustjóri Dreifingar ehf. Geti þessir fyrrum starfsmenn Dreifingar ehf. staðfest þetta. Við þetta megi bæta að almennt hafi ekki verið greiddir dagpeningar vegna ferðalaga stefnda til útlanda, heldur hafi kostnaðurinn verið greiddur beint af félaginu, yfirleitt með umræddu kreditkorti. Stefnanda sé í lófa lagið að sannreyna þetta, enda bókhald félagins í hans vörslum.
2. Fjölmiðlar: Stefndi byggir á því að það hafi verið eðlilegur þáttur í starfsemi Dreifingar ehf. að auglýsa vörur sínar í ljósvaka- og prentmiðlum. Dreifing ehf. hafi auglýst vörur sínar með reglulegum hætti og hafi það verið fastur liður í kynningarstarfsemi félagsins. Í þeim tilgangi að fylgjast með birtingum auglýsinga, sem og til að fylgjast með auglýsingum samkeppnisaðila, hafi verið keyptar ýmsar áskriftir fjölmiðla fyrir stefnda. Þetta hafi verið kostnaður sem Dreifing ehf. bar og hefði með réttu átt að færast sem kostnaður hjá félaginu en ekki inn á viðskiptareikning stefnda, enda umsamið að félagið skyldi greiða þennan kostnað fyrir stefnda. Því sé hér um að ræða rangfærslur í bókhaldi félagsins.
3. Friend provident: Líkt og rakið sé í málavaxtakafla greinargerðarinnar hafi stefndi ekki fengið greidd laun fyrir starf sitt í þágu Dreifingar ehf. frá árslokum 2006. Hins vegar hafi Dreifing ehf. greitt tiltekna fjárhæð í séreignalífeyrissparnað hans í hverjum mánuði. Þessar greiðslur hafi að jafnaði verið 12.000 krónur til 14.000 krónur á mánuði. Greiðslurnar hafi fallið niður á árinu 2008 sem hluti sparnaðarráðstafana hjá Dreifingu ehf. í sífellt erfiðara rekstrarumhverfi. Á því sé byggt af hálfu stefnda að þessar færslur hafi í raun átt að færa í bókhald Dreifingar ehf. sem kostnað en ekki til skuldar á viðskiptareikning stefnda hjá Dreifingu ehf., enda hafi verið um að ræða umsamið tillegg félagsins vegna séreignarlífeyrissparnaðar stefnda.
4. Lyfja- og heilsufarskostnaður: Stefndi tekur fram að Dreifing ehf. hafi greitt kostnað sem fallið hafi til vegna lyfja og annars heilsufarskostnaðar sem tengdist stefnda. Byggir stefndi á því að þessar færslur hefðu með réttu átt að færa Dreifingu ehf. til gjalda enda umsamið að félagið greiddi þennan kostnað fyrir stefnda. Stefndi bendir á að um óverulegar fjárhæðir sé að ræða. Benda megi á til hliðsjónar að algengt sé að fyrirtæki greiði með einhverjum hætti heilsufarstengdan kostnað fyrir starfsmenn sína, svo sem kostnað vegna líkamsræktar.
5. Bifreiðin Toyota Hiace með skráningarnúmerið UF-511: Þann 16. júní 2010 hafi tvær færslur verið færðar til skuldar á viðskiptareikning stefnda hjá Dreifingu ehf. er tengist bifreiðinni UF-511, sem sé sendibifreið af gerðinni Toyota Hiace. Annars vegar sé um að ræða færslu að fjárhæð 400.000 krónur og hins vegar færslu að fjárhæð 1.288 krónur sem er sögð vera vegna bifreiðagjalda. Stefndi byggir á að þessar færslur hafi með réttu átt að færa á Dreifingu ehf. til gjalda, en ekki til skuldar á viðskiptareikning hans hjá félaginu. Staðreynd málsins sé sú að stefndi hafi verið umráðamaður umræddrar sendibifreiðar en bifreiðin hafi verið nýtt í rekstri Dreifingar ehf., sbr. útprentun úr ökutækjaskrá. Stefndi hafi greitt afborganir af bifreiðinni og öll gjöld, þ. á m. tryggingar, en Dreifing ehf. hafi greitt daglegan rekstrarkostnað. Frá 20. júlí 2010 til 10. janúar 2011 hafi Eyþór Hjartarson, yfirverkstjóri hjá Dreifingu ehf., notað bifreiðina til útkeyrslu og minni sendinga fyrir Dreifingu ehf.. Rétt sé að vekja athygli á því að bifreiðin hafi verið notuð af þrotabúi Dreifingar ehf. á tímabilinu 18. nóvember 2010 til 10. janúar 2011 án athugasemda stefnda. Færsla að fjárhæð 400.000 krónur sé umsamin leiga vegna afnota Dreifingar ehf. af bifreiðinni til ársloka 2010. Byggir stefndi þess vegna á því að um leigugreiðslur til stefnda hafi verið að ræða vegna afnota Dreifingar ehf. af bifreiðinni.
6. Bifreiðin Toyota Land Cruiser með skráningarnúmerið DX-435: Þann 30. nóvember 2009 var færsla að fjárhæð 366.000 krónur færð til skuldar á viðskiptareikningi stefnda hjá Dreifingu ehf. Skýringin með færslunni er eftirfarandi: „Planið Land Cruiser DX-435 seldur.“ Stefndi tekur fram að umrædd bifreið hafi verið í eigu Dreifingar ehf. til 8. október 2009 þegar hún var seld Ásós ehf. Eigendaskiptin séu skráð hjá ökutækjaskrá 26. október 2009. Eftir að bifreiðin var seld hafi komið upp verulegur galli í vél hennar sem kallað hafi á kostnaðarsama viðgerð. Stefndi hafi fallist á það, f.h. Dreifingar ehf., að greiða viðgerðarkostnaðinn, enda um verulegan galla að ræða á hinni seldu bifreið. Hafi Dreifing ehf. greitt 366.000 krónur vegna viðgerðarkostnaðar. Í stað þess að færa þennan kostnað til gjalda í bókhaldi Dreifingar ehf. hafi hann verið færður til skuldar á viðskiptareikning stefnda. Sú færsla sé einfaldlega röng enda um bifreið að ræða sem hafi verið í eigu Dreifingar ehf. og því fráleitt að kostnaður vegna viðgerðarinnar sé færður til skuldar á viðskiptareikning stefnda hjá félaginu. Færslan hefði átt að leiðréttast við yfirferð á bókhaldi félagsins en það hafi ekki verið gert.
7. Ferðakostnaður kr. 222.908,-: Í stefnu sé því haldið fram að um sé að ræða ferðakostnað stefnda og eiginkonu hans vegna ferðar til Tenerife. Þessi fullyrðing kveður stefndi að sé röng. Hið rétta sé að Dreifing ehf. hafi ekki greitt fyrir ferðakostnað annarra en stefnda. Eiginkona stefnda hafi sjálf greitt persónulega sinn hluta ferðakostnaðar. Ferðin hafi verið ákveðin með löngum fyrirvara og hafi verið til þess fallin að stefndi gæti kynnt sér nýjungar í framreiðslu veitinga á veitingastöðum og hótelum. Slíkt hafi verið nauðsynlegt stefnda þar sem mikill hluti vörusölu Dreifingar ehf. hafi farið til veitingastaða og stóreldhúsa. Ferðin hafi þannig verið nýtt til þróunar- og hugmyndavinnu fyrir Dreifingu ehf. og farin í þágu félagsins. Byggir stefndi á því að um eðlilegan kostnað hafi verið að ræða og hann því réttilega gjaldfærður í bókhald Dreifingar ehf.
8. Ferðakostnaður kr. 2.140.141,-: Krafa um endurgreiðslu í stefnu hvað þennan lið varðar telur stefndi að sé með engu móti rökstudd. Einungis sé látið nægja að krefjast endurgreiðslu en engin tilraun gerð til að leita skýringa á þessum kostnaði. Í skýrslu endurskoðenda sé einungis sagt að „við teljum að hér sé um að ræða persónulegan kostnað [stefnda]“. Af þessu tilefni upplýsir stefndi að hér hafi verið um að ræða fimm daga ferð stefnda, Helga Einarssonar, framkvæmdastjóra Dreifingar ehf., og Alberts Magnússonar, sem hafi verið yfir þróunarstarfi félagsins, til Bandaríkjanna. Farið hafi verið til Minneapolis og Chicago. Tilgangur ferðarinnar hafi verið að sækja stóra vörusýningu sem beri heitið National Restaurant Show (NRA), auk þess sem fundað hafi verið með flestum birgjum Dreifingar ehf. í Norður-Ameríku.
Eins og rakið hafi verið hafi Dreifing ehf. verið innflutningsfyrirtæki og ferðir á vörusýningar því fastur liður í starfsemi félagsins. Óþarfi sé að rekja þetta frekar hér og vísar stefndi til umfjöllunar undir töluliðnum 1 hér að framan. Ferð þessi hafi einungis verið farin með hagsmuni Dreifingar ehf. að leiðarljósi og alfarið í þágu félagsins enda hluti að eðlilegri starfsemi þess. Óskiljanlegt sé að krefjast endurgreiðslu þessara fjármuna. Byggir stefndi á því að um eðlilegan rekstrarkostnað Dreifingar ehf. hafi verið að ræða og gjaldfærslan því með réttu hjá Dreifingu ehf.
9. Kostnaður kr. 163.800,-: Stefndi ber því við að hér sé um að ræða gleraugu fyrir stefnda líkt og segi í stefnu. Byggir stefndi á því að þessi kostnaður hafi verið rétt færður til gjalda hjá Dreifingu ehf. enda sé hér um að ræða umsamda greiðslu kostnaðar, sbr. lið 4 „Lyfja- og heilsufarskostnaður“ hér að framan.
2) Vöruúttektir: Stefndi tekur fram að í stefnu sé krafist endurgreiðslu á því sem nefnt sé „vöruúttektir stefnda hjá Dreifingu ehf.“, að fjárhæð 628.663 krónur. Ekki sé að finna sundurliðun á kröfufjárhæðinni í stefnunni sjálfri, heldur einungis vísað til skýrslu endurskoðunarskrifstofunnar Ernst og Young ehf.
Stefndi byggir á því að umræddar færslur séu ranglega færðar á viðskiptareikning hans enda sé um að ræða kostnað vegna kynningar- og þróunarmála hjá Dreifingu ehf. sem með réttu hafi átt að færa sem kostnað félagsins. Líkt og áður sé rakið hafi stefndi haft yfirumsjón með vöruþróun hjá Dreifingu ehf. Vöruúttektir hafi verið eðlilegur þáttur í starfsemi Dreifingar ehf. þegar vörur hafi verið kynntar kaupendum og einnig þegar vöruþróun hafi átt sér stað, til dæmis þegar Dreifing ehf. hugðist setja á markað tilbúnar vörur undir vöruheitunum „Hita Snæða“ og „Eldfljótt“ í gegnum dótturfélag sitt Eldfljótt matvælasmiðja ehf. Þessar úttektir hafi almennt verið færðar sem úttekt viðkomandi deildar hjá Dreifingu ehf., svo sem söludeildar og þróunardeildar. Í einhverjum tilvikum virðist sem úttektir hafi verið færðar á viðskiptareikning stefnda hjá Dreifingu ehf. fyrir mistök.
Þær færslur sem nefndar eru í stefnu málsins telur stefndi að hafi verið af framangreindum toga. Til að mynda er þetta augljóst þegar litið sé á tvær færslur sem skeri sig úr. Önnur sé að fjárhæð 129.556 krónur og hin að fjárhæð 228.444 krónur. Slíkar úttektir séu bersýnilega ekki persónulegar úttektir stefnda, sem hafi haldið tveggja manna heimili um langt skeið.
Með vísan til alls þess sem að framan sé rakið er á því byggt af hálfu stefnda að ekki sé um að ræða ólögmætar færslur líkt og haldið sé fram í stefnu heldur eðlilegan kostnað sem Dreifing ehf. hafi átt að bera. Því beri að sýkna af þessum lið stefnunnar.
Verði ekki fallist á kröfu stefnda um sýknu krefst hann þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Til stuðnings þeirri kröfu vísar stefndi til sömu málsástæðna og aðalkrafa styðst við að breyttu breytanda. Til viðbótar vísar stefndi til eftirfarandi málsástæðna:
Áður hefur verið minnst á færslu á viðskiptareikning stefnda hjá stefnanda sem framkvæmd var þann 31. desember 2008 þar sem færðar voru til skuldar 40.147.939 krónur á viðskiptareikning stefnda hjá stefnanda með skýringunni Mf. viðskiptareikningar. Hér hafi verið um að ræða millifærslu af viðskiptareikningi stefnda hjá Skúlagötu 30 ehf. inn á viðskiptareikning stefnda hjá Dreifingu ehf., sbr. yfirlit yfir viðskiptareikning stefnda hjá Skúlagötu 30 ehf. Umrædd færsla hafi verið framkvæmd án vitundar stefnda og hefur hann því ekki skýringu á henni. Hann bendir þó á að hér hljóti að vera um mistök að ræða, enda tengist viðskiptareikningur hans hjá Skúlagötu 30 ehf. ekki Dreifingu ehf. með neinum hætti. Ekkert liggi fyrir um forsögu umræddrar millifærslu eða á hvaða forsendum hún hafi verið gerð. Stefnda, sem hafi verið stærsti eigandi og eini stjórnarmaður beggja ofangreindra félaga, hafi ekki verið kunnugt um millifærsluna og því um fullkomlega heimildarlausa færslu að ræða. Í þessu sambandi skuli á það bent að engir samningar eða önnur skjöl hafi verið lögð fram til skýringar á millifærslunni. Ekkert liggi því fyrir sem geti réttlætt færsluna. Hér sé einfaldlega um mistök í bókhaldi að ræða, enda hafi skuldbindingin með réttu átt heima á viðskiptareikningi hans hjá Skúlagötu 30 ehf. Á því sé byggt af hálfu stefnda að fjárhæð umræddrar færslu, 40.147.939 krónur, eigi að koma til lækkunar á dómkröfum stefnanda.
Þá byggir stefndi einnig á því að hann eigi gagnkröfu á stefnanda vegna ógreiddra launa frá Dreifingu ehf., samtals að fjárhæð 23.501.879 krónur. Líkt og áður hafi verið rakið hafi stefndi ekki fengið greidd laun frá félaginu frá árslokum 2006. Sú ákvörðun hafi verið tekin af stjórn félagsins og hluthöfum í samráði við þáverandi framkvæmdastjóra Dreifingar ehf. Í samkomulaginu hafi falist að ógreidd laun yrðu gerð upp við stefnda þegar fjárhagsleg staða félagsins batnaði. Sá tímapunktur hafi því miður ekki komið og því farið svo að þegar félagið var tekið til gjaldþrotaskipta hafði stefndi ekki fengið greidd laun frá félaginu um tæplega fjögurra ára skeið. Stefndi byggir á því að hann eigi gagnkröfu til skuldajafnaðar á móti dómkröfum stefnanda sem nemi ógreiddum launagreiðslum frá 1. janúar 2007 til og með 18. nóvember 2010.
Stefndi kveður kröfu þessa taka mið af þeim kjörum sem hann hafði í árslok 2006. Samkvæmt skattframtali stefnda vegna ársins 2006 hafi hann fengið greidd laun frá Dreifingu ehf. að fjárhæð 6.065.000 krónur, eða 505.417 krónur á mánuði. Við útreikning launakröfunnar sé þeirri hóflegu aðferðafræði beitt að miða við laun stefnda eins og þau hafi verið á árinu 2006 án þess að bæta þar nokkru við þrátt fyrir að launaskrið hafi verið mikið framan af á því tímabili sem hér skipti máli. Krafa stefnda vegna ógreiddra launa sundurliðist með eftirfarandi hætti:
Árið 2007 505.417 kr. x 12 kr. 6.065.000,-
Árið 2008 505.417 kr. x 12 kr. 6.065.000,-
Árið 2009 505.417 kr. x 12 kr. 6.065.000,-
Árið 2010 505.417 kr. x 10,5 kr. 5.306.879,-
Samtals: kr. 23.501.879,-
Að lokum mótmælir stefndi upphafstíma dráttarvaxtakröfu stefnanda. Í stefnu sé þess krafist að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda tiltekna fjárhæð með dráttarvöxtum frá 18. nóvember 2010 til greiðsludags, eins og það er orðað í dómkröfukafla stefnunnar. Stefndi byggir á því að upphafstími dráttarvaxtakröfu stefnanda eigi að taka mið af því tímamarki þegar mánuður var liðinn frá því að riftunaryfirlýsing stefnanda var sett fram, sbr. bréf stefnanda til stefnda, dags. 2. maí 2011. Því sé rétt að miða upphafstíma dráttarvaxta við 2. júní 2011.
Stefndi kveður kröfu sína um málskostnað úr hendi stefnenda vera reista á 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafist sé málskostnaðar, bæði í því tilviki ef stefndi verður sýknaður og eins ef krafa stefnanda verður tekin til greina að mjög takmörkuðu leyti.
IV.
Forsendur og niðurstaða
Fyrir dómi gáfu skýrslu, auk stefnda, Friðbjörn Björnsson, löggiltur endurskoðandi hjá Ernst & Young hf., Eyþór Hjartarson, fyrrum starfsmaður Dreifingar ehf., Helgi Einarsson, fyrrum framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála hjá Dreifingu ehf., Þórdís Jónsdóttir, eiginkona stefnda, sem og Sigurður Reynir Bjarnason og Hafþór Sigurðsson.
Í máli þessu krefst stefnandi riftunar á tilteknum ráðstöfunum í rekstri Dreifingar ehf. og endurgreiðslu á samtals 112.060.835 krónum. Kröfur stefnanda eru að mestu leyti reistar á athugun endurskoðenda Enst & Young hf. á viðskiptareikningi stefnda hjá Dreifingu ehf. og bókhaldi félagsins að öðru leyti en niðurstaða hennar liggur fyrir í skýrslu, dags. 31. mars 2011, sem er undirrituð af Friðbirni Björnssyni, löggiltum endurskoðanda. Í skýrslunni er að finna yfirlit yfir allar færslur á umræddum viðskiptareikningi.
Stefndi var forstjóri og formaður stjórnar Dreifingar hf. Samkvæmt útprenti úr hlutafélagaskrá var stefndi einn í framkvæmdastjórn félagsins og hafði ásamt eiginkonu sinni prókúruumboð fyrir það. Þá verður að leggja til grundvallar að hann hafi í raun haft einn eignarráð yfir félaginu. Breytir engu í því sambandi þó að samandreginn og óendurskoðaður ársreikningur Dreifingar ehf. fyrir árið 2008 gefi til kynna að 92,5% hlutur í félaginu hafi verið í eigu Brúarhöfða ehf., en í sama ársreikningi kemur fram að Dreifing ehf. hafi átt 99,4% hlut í Brúarhöfða ehf. Stefndi var sjálfur skráður fyrir 7,5% hlut í Dreifingu ehf. Stefndi var samkvæmt framansögðu nákominn félaginu í skilningi 5. tölul. 3. gr. laga nr. 21/1991. Stefndi var einnig framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Brúarhöfða ehf. Þá var stefndi jafnframt eigandi og stjórnarformaður Skúlagötu 30 ehf. sem kemur við sögu í máli þessu. Verður hér vikið að einstökum þáttum kröfugerðarinnar og afstaða tekin til þeirra.
Lækkun á skuld stefnda við félagið 3. janúar 2010 að fjárhæð 25.973.705 krónur:
Gögn málsins bera með sér að stefndi hafi keypt hlutbréf í Birgðaversluninni Gripið og Greitt ehf. 25. mars 2004 fyrir 23.440.980 krónur. Stefndi heldur því fram að kaupin hafi verið fjármögnuð með yfirdrætti á tékkareikningi stefnda hjá Landsbanka Íslands, en að fyrirhugað hafi verið að gefa síðar út skuldabréf vegna viðskiptanna. Samkvæmt skattframtali stefnda fyrir árið 2005 seldi hann Skúlagötu 30 ehf. umrædd hlutbréf í Birgðaversluninni Gripið og greitt ehf. 1. júlí 2005. Kaupandinn, Skúlagata 30 ehf., var í eigu stefnda, eins og að framan greinir. Söluverðið var 28.000.000 króna.
Hinn 25. nóvember 2005 gaf stefndi út skuldabréf til Landabankans að fjárhæð 25.000.000 króna. Skyldu vextir greiddir af skuldinni mánaðarlega en höfuðstólinn bar að greiða við lok lánstímans. Stefndi fullyrðir að þetta skuldabréf hafi verið gefið út til að greiða yfirdráttinn sem til varð vegna kaupa hans á fyrrgreindum hlutabréfum. Um það hafi verið samið að Skúlagata 30 ehf. greiddi skuldabréfið og að með því yrði kaupverð bréfanna gert upp milli stefnda og Skúlagötu 30 ehf. Ekki liggja fyrir skrifleg gögn um þetta samkomulag. Þá er óupplýst hver hafi greitt þá vexti sem greiddir voru mánaðarlega af bréfinu. Hins vegar er ljóst að Skúlagata 30 ehf. greiddi skuldabréfið upp 28. júlí 2008, samtals 25.973.709 krónur, en sú fjárhæð greindist í áfallna vexti á gjalddaga 20. sama mánaðar, 373.507 krónur, og eftirstöðvar skuldabréfsins, 25.600.202 krónur.
Hinn 31. ágúst 2008 var ofangreind fjárhæð, 25.973.709 krónur, færð til gjalda í bókhaldi Skúlagötu 30 ehf. og sem skuld stefnda á viðskiptareikning hans hjá félaginu. Um þessar færslur var í bókhaldinu vísað til fylgiskjals nr. 245. Stefndi telur að ekki hafi átt að færa umrædd viðskipti með þessum hætti í bókhaldi félagsins og að um mistök hafi verið að ræða. Í lok sama árs, eða 31. desember 2008, var skuldastaða stefnda á viðskiptareikningi hans hjá Skúlagötu 30 ehf., sem þá nam 40.147.939 krónum, færð niður í núll krónur og skuldin flutt yfir á viðskiptareikning stefnda hjá Dreifingu ehf. Hækkaði skuldastaða stefnda við Dreifingu ehf. sem því nam. Stefndi hefur ekki gefið neina skýringu á þessari millifærslu og telur að um mistök hafi verið að ræða.
Eins og rakið er í greinargerð endurskoðandans 31. mars 2011 var fyrrgreind fjárhæð, sem áður hafði verið bókfærð sem skuld stefnda á viðskiptareikningi hans hjá Skúlagötu 30 ehf., færð til lækkunar á viðskiptareikningi stefnda hjá Dreifingu ehf. 3. janúar 2010. Á fylgiskjali er færslan útskýrð með eftirfarandi hætti: „Lr. 245/2008 skbr. G&G.“ Á móti var krafa Dreifingar ehf. á viðskiptareikningi Gripið & Greitt ehf. hækkuð sem þessu nam. Stefndi byggir á því að með þessu hafi rangfærsla, sem upphaflega hafi verið í bókhaldi Skúlagötu 30 ehf., verið leiðrétt.
Bókunin ber vissulega með sér að vera leiðrétting vegna umræddrar færslu sem átti sér stað 31. ágúst 2008 í bókhaldi Skúlagötu 30 ehf. Hins vegar hafa ekki verið færðar neina sönnur á að Skúlagata 30 ehf. hafi greitt kaupverð hlutabréfanna í Gripið & Greitt ehf. með því að yfirtaka skuldbindingar stefnda samkvæmt skuldabréfinu sem hann gaf út til Landsbankans að fjárhæð 25.000.000 króna. Verður stefndi að bera hallann af skorti á sönnun um það atriði. Fyrir liggur að Skúlagata 30 ehf. hefur einnig verið tekið til gjaldþrotaskipta og bókhald þess verið athugað af sömu endurskoðendum og bókhald Dreifingar ehf. Í skýrslu Friðbjörns Björnssonar, löggilts endurskoðanda, fyrir dómi staðhæfði hann að kaupverð hlutabréfanna í Gripið & Greitt ehf. hafi verið greitt strax við kaupin 2005 með lækkun á viðskiptaskuld stefnda við Skúlagötu 30 ehf. Þó að gögn um þetta atriði hafi ekki verið lögð fram í málinu verður að leggja þennan framburð endurskoðandans til grundvallar. Að teknu tilliti til þess sem hér hefur verið rakið liggur ekki fyrir að fyrrgreind færsla til lækkunar á viðskiptareikningi stefnda hjá Dreifingu ehf., sem stefndi lét gera 3. janúar 2010, hafi átt nokkurn rétt á sér.
Eins og að framan greinir var skuld stefnda við Dreifingu ehf. færð af viðskiptareikningi hans yfir á viðskiptareikning Gripið & Greitt ehf. með hinni umdeildu færslu í bókhaldi Dreifingar ehf. 3. janúar 2010. Birgðaverslunin Gripið & Greitt ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 20. desember 2006. Við umrædda lækkun á skuld stefnda við Dreifingu ehf. rýrnuðu eignir félagsins sem þessu nam, enda ljóst að krafa á hendur hinu gjaldþrota félagi var einskis virði. Samsvarandi auðgun varð hjá stefnda, þó að hann hafi ekki fengið bein verðmæti afhent, þar sem hann varð laus undan greiðsluskyldu gagnvart stefnda sem þessu nam. Eins og rakið hefur verið hefur ekki verið í ljós leitt að lækkunin hafi átt rétt á sér með vísan til fyrri viðskipta stefnda við Skúlagötu 30 ehf. með hlutabréf í Gripið & Greitt ehf. Verður því ekki annað séð en að tilgangur færslunnar hafi verið að ívilna stefnda, sem var nákominn Dreifingu ehf., auk þess sem hann samþykkti hana sjálfur með áritun á fylgiskjal með færslunni. Telur dómurinn í ljós leitt að örlætisgerningur þessi feli í sér gjöf í merkingu 131. gr. laga nr. 21/1991. Hún átti sér stað innan þess frests sem kveðið er á um í 2. mgr. 131. gr. laganna, en frestdagur vegna skiptanna var 4. nóvember 2010, þegar krafa um gjaldþrotaskipti barst Héraðsdómi Reykjavíkur. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að félagið hafi verið gjaldfært þegar gjöfin var afhent og það þrátt fyrir hana. Af þessum sökum verður fallist á kröfu stefnanda um riftun gjafagerningsins að fjárhæð 29.973.705 krónur.
Lækkun á skuld stefnda við félagið 1. júlí 2010 að fjárhæð 7.624.662 krónur:
Eins og rakið er í greinargerð endurskoðandans 31. mars 2011 var skuld stefnda á viðskiptareikningi hans hjá Dreifingu ehf. lækkuð 1. júlí 2010 um 7.624.662 krónur. Í skýringum í bókhaldi félagsins segir orðrétt um þessa færslu: „Áb.gj. af lán v. Kjötb. f.f.ári.“ Stefnandi telur lækkun þessa tilefnislausa. Við aðalmeðferð málsins skýrði stefndi lækkunina á þann veg að Kjötbankinn hefði verið dótturfélag Dreifingar ehf. og að Dreifing ehf. hafi gengist í ábyrgð vegna viðskipta Kjötbankans við Sláturhúsið á Hellu. Þetta hafi verið gert á þann hátt að Dreifing ehf. gaf út skuldabréf til Skúlagötu 30 ehf. að fjárhæð 8.000.000 króna sem var framselt Sláturhúsinu á Hellu. Stefndi hafi síðan gengist í ábyrgð fyrir greiðslu skuldarinnar með áritun á skuldabréfið. Þegar hin umdeilda færsla átti sér stað 1. júlí 2010 hafi verið ljóst að stefndi myndi þurfa að greiða skuldina við Sláturhúsið á Hellu.
Engin gögn liggja fyrir um að stefndi hafi samið við Dreifingu ehf. um þóknun fyrir ábyrgðina sem hann veitti á efndum á framangreindu skuldabréfi og er það ósannað. Samkvæmt fram lögðum gögnum samdi stefndi um greiðslu skuldabréfsins við Sláturhúsið á Hellu 3. apríl 2012. Þar kemur fram að stefndi hafi greitt inn á skuldabréfið 29. ágúst 2011 og 9. mars 2012, samtals 2.500.000 krónur. Eftirstöðvarnar myndi stefndi greiða með nánar tilgreindum hætti. Á þeim tíma sem sem skuld stefnda var lækkuð 1. júlí 2010 hafði hann því ekki greitt ábyrgðarkröfuna og gat því ekki átt kröfu á hendur Dreifingu ehf. vegna ábyrgðar sinnar á efndum skuldabréfsins. Ekki hefur því verið sýnt fram á réttmæti þeirrar ráðstöfunar.
Við framangreinda ráðstöfun rýrnuðu eignir félagsins sem nam lækkun á kröfum Dreifingar ehf. á hendur stefnda. Samsvarandi auðgun varð hjá stefnda þar sem hann varð laus undan greiðsluskyldu sem þessu nam. Ekki verður annað séð en að tilgangur færslunnar hafi verið að ívilna stefnda, sem var nákominn Dreifingu ehf., sbr. 4. tölul. 3. gr. laga nr. 21/1991, auk þess sem hann samþykkti hana sjálfur með áritun sinni á fylgiskjal með færslunni. Telur dómurinn í ljós leitt að örlætisgerningur þessi feli í sér gjöf í merkingu 131. gr. laga nr. 21/1991. Hún fór fram innan þess sex mánaða frests sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 131. gr. laganna. Að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið verður fallist á kröfu stefnanda um riftun þessa gjafagernings að fjárhæð 7.624.662 krónur.
Lækkun á skuld stefnda við félagið 1. júlí 2010 að fjárhæð 20.776.443 krónur:
Skuld stefnda á viðskiptareikningi hans hjá Dreifingu ehf. var einnig lækkuð 1. júlí 2010 um 20.776.443 krónur. Í skýringum í bókhaldi félagsins segir orðrétt um þessa færslu: „Áb.gj. af lán v. Dreifingar f.f.ári.“ Stefnandi byggir á því að þessi lækkun á skuld stefnda hafi verið tilefnislaus. Stefndi gefur þá skýringu á lækkuninni að hann hafi, að kröfu erlendra birgja Dreifingar ehf., þurft að ábyrgjast persónulega allar skuldbindingar Dreifingar ehf. við þá. Af þeim sökum hafi verið ákveðið, með samþykki stjórnar félagsins, sem kynnt hafi verið hluthöfum, að greiða stefnda ábyrgðargjald sem næmi 7% af heildarskuldbindingum Dreifingar ehf. við umrædda birgja miðað við stöðu þeirra í árslok. Hafi hin umdeilda lækkun á skuld stefnda við Dreifingu ehf. átt rætur að rekja til uppgjörs á þessu ábyrgðargjaldi sem miðaðist við árslok 2008 og 2009. Vísar stefndi til útreiknings á ódagsettu og óundirrituðu skjali þessu til stuðnings, framburðar vitnisins Helga Einarssonar sem og framlagðra yfirlýsinga frá tveimur erlendum birgjum.
Ekki liggja fyrir í málinu samningar stefnda við umrædda birgja um þá skuldbindingu sem hann kveðst hafa tekið á sig gagnvart þeim. Tvær yfirlýsingar hafa þó verið lagðar fram er stafa frá erlendum söluaðilum matvöru, annars vegar frá Lanca Sales Inc., dags. 21. september 2011, og hins vegar frá Peka Kroef B.V., dags. 23. september 2011. Í fyrri yfirlýsingunni kemur fram að stefndi hafi að kröfu Lanca Sales Inc. ábyrgst persónulega fulla greiðslu (e. personally guarantee full payments) á vörusendingum til Dreifingar ehf. á árunum 2008 til 2010 þegar bankar voru ekki reiðubúnir að veita slíka ábyrgð. Í lok yfirlýsingarinnar segir orðrétt: „We hereby confirm that all conditions of said guarantee has been fulfilled to our expectation and satisfaction.“ Í síðari yfirlýsingunni kemur fram að Peka Kroef B.V. hafi átt í viðskiptum við Dreifingu ehf. í yfir tuttugu ár. Allt til loka þeirra viðskipta hafi stefndi gert allt sitt til að tryggja að greitt væri fyrir þær vörur sem seldar voru Dreifingu ehf. Hafi orð hans verið þeim trygging fyrir efndum. (e. His word has been our guarantee). Í yfirlýsingunni segir síðan orðrétt: „I hereby confirm that as far as possible Mr. Haukur Hjaltason fulfilled all agreements to our expectation.“
Í skýrslu Helga Einarssonar fyrir dómi upplýsti hann að hann hafi gegnt starfi framkvæmdastjóra sölu- og markaðsmála hjá Dreifingu ehf. Fullyrti hann að stefndi hafi ábyrgst persónulega greiðslur til hinna erlendu birgja á árinu 2008. Þá gerði hann grein fyrir því að stefndi hefði rætt við hann í byrjun um að Dreifing ehf. myndi greiða honum ábyrgðargjald og að það yrði reiknað út með nánar tilgreindum hætti. Af skýrslu hans mátti þó ráða að það hafi ekki verið hluti af störfum hans að semja um atriði af þessu tagi í rekstri Dreifingar ehf. Virðist hann ekki hafa komið að gerð samkomulagsins fyrir hönd félagsins.
Óljóst er af fram lögðum gögnum hvort stefndi hafi gefið skuldbindandi loforð um ábyrgð sína fyrir greiðslu Dreifingar ehf. á vörusendingum umræddra birgja til félagsins. Varpa yfirlýsingar tveggja erlendra birgja ekki nægjanlega skýru ljósi á það en þær eru misvísandi hvað það varðar. Þá er ekki upplýst hvort reynt hafi á slíka ábyrgð í viðskiptum Dreifingar ehf. við hina erlendu birgja. Þó að stefndi kunni sjálfur að hafa lofað að greiða einhverjum þessara aðila fyrir vörur í þágu Dreifingar ehf., í því skyni að halda rekstri fyrirtækisins gangandi, leiddi það út af fyrir sig ekki til þess að hann ætti kröfu um þóknun úr hendi félagsins. Engin skrifleg gögn liggja fyrir er fært geta sönnur á að samið hafi verið með gildum hætti um slíka greiðsluskyldu félagsins. Fyrrum starfsmaður Dreifingar ehf. gat aðeins borið um það sem stefndi hafði tjáð honum um ætlaða tilhögun á þessum greiðslum. Að mati dómsins veitir framburður hans ekki nægar sönnur fyrir því að Dreifing ehf. hafi með gildum hætti verið skuldbundið til að greiða stefnda 20.776.443 krónur í ábyrgðarþóknun vegna ætlaðra ábyrgða hans á viðskiptum við erlenda birgja. Með hliðsjón af framangreindu er ósannað að stefndi hafi átt kröfu á hendur Dreifingu ehf. á þeim grundvelli sem hann heldur fram. Ekki liggur því fyrir að sú lækkun sem stefndi lét gera 1. júlí 2010 á skuld hans við Dreifingu ehf. að fjárhæð 20.776.443 krónur hafi átt rétt á sér.
Við framangreinda ráðstöfun rýrnuðu eignir félagsins sem nam lækkun á kröfum Dreifingar ehf. á hendur stefnda á viðskiptareikningi hans hjá félaginu. Samsvarandi auðgun varð hjá stefnda þar sem hann varð laus undan greiðsluskyldu sem þessu nam. Ekki verður annað séð en að tilgangur færslunnar hafi verið að ívilna stefnda, sem var nákominn Dreifingu ehf., sbr. 4. tölul. 3. gr. laga nr. 21/1991, auk þess sem hann veitti sjálfur samþykki sitt fyrir henni með áritun á fylgiskjal með færslunni. Telur dómurinn í ljós leitt að örlætisgerningur þessi feli í sér gjöf í merkingu 131. gr. laga nr. 21/1991. Hún fór fram innan þess sex mánaða frests sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 131. gr. laganna. Að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið verður fallist á kröfu stefnanda um riftun þessa gjafagernings að fjárhæð 20.776.443 krónur.
Lækkun á skuld stefnda við félagið 1. júlí 2010 að fjárhæð 33.447.550 krónur:
Skuld stefnda á viðskiptareikningi hans hjá Dreifingu ehf. var jafnframt lækkuð 1. júlí 2010 um 33.447.550 krónur. Í skýringum í bókhaldi félagsins segir orðrétt um þessa færslu: „Keypt áhöld og tæki til matv.framl.“ Stefnandi vísar til þess að engin gögn hafi fundist að baki þessari færslu nema tilbúið fylgiskjalablað. Það fylgiskjal er samþykkt af stefnda. Óumdeilt er að kostnaður við kaupin á umræddum tækjum hafi verið gjaldfærður í bókhaldi Dreifingar ehf. sem erlend vörukaup.
Ekki er ágreiningur milli aðila um að þau tæki sem um er rætt í þessu sambandi hafi verið tiltekin vélasamstæða sem einkum hafi verið ætluð til framleiðslu á kínverskum vorrúllum. Í málinu liggur fyrir afsal, dags. 30. september 2009, þar sem stefndi afsalar til Dreifingar ehf. tilteknum áhöldum og tækjum samkvæmt lista sem mun hafa fylgt afsalinu. Kaupverðið þar var ákveðið 270.000 Bandaríkjadalir. Stefndi heldur því fram að þessi gerningur lúti að fyrrgreindri vélasamstæðu og að færslan í bókhaldi Dreifingar ehf. eigi rætur að rekja til þessara viðskipta eftir að kaupverðið hafði verið umreiknað yfir í íslenskar krónur.
Stefndi telur að þessi ráðstöfun sé riftanleg þar sem tilgangur lækkunarinnar á hafi verið að ívilna honum. Með þessum gerningi hafi hann losað sig við verðlaus tæki en fengið í staðinn niðurfellda skuld. Þessu mótmælir stefndi, ekkert liggi fyrir um að tækin hafi verið verðlaus, enda um afkastamikla vélasamstæðu til matvælaframleiðslu að ræða með fjölbreytta notkunarmöguleika. Þá hafi tækin verið í góðu lagi, en unnið hafi verið að lagfæringum á þeim þegar bú Dreifingar ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta.
Óumdeilt er í málinu að þessa vélasamstæðu hafi stefndi keypt notaða til landsins árið 2000 og að hún hafi verið í geymslu síðan þá. Því er ljóst að samstæðan hafi aldrei verið sett upp eða notuð í matvælaframleiðslu síðan hún kom til landsins.
Vitni komu fyrir dóminn og gáfu skýrslu um fyrrgreinda vélasamstæðu. Eyþór Hjartarson, fyrrum starfsmaður Dreifingar ehf., bar að hún hefði verið keypt notuð til landsins vorið 2000 eða 2001. Hafi hún fyrst verið geymd í húsnæði að Vatnagörðum 16 en ekki verið sett upp. Ári síðar hafi vitnið flutt samstæðuna í stærra húsnæði uppi á Granda en þá hafi ætlunin verið að selja hana. Síðan hafi hún verið sett í þrjá óupphitaða gáma þar sem hún hafi verið í fimm til sex ár. Hún hafi ekki verið tekin inn í sal að Brúarvogi 1 3 fyrr en árið 2009. Húsnæðið hafi verið óupphitað en frostfrítt og veggir ómúraðir. Bar hann að allir hlutar samstæðunnar sem gátu ryðgað hafi verið ryðgaðir á þessum tíma. Tók hann fram að það ætti við um alla mótora, tjakka og raflagnir. Þá hafi færibönd verið orðin trosnuð og illa farin. Vitnið bar að hann hafi fengið Sigurð Reyni Bjarnason til að reyna að selja hluti úr vélasamstæðunni árið 2009, en ekkert hafi gengið að selja þá. Fenginn hafi verið maður til að lagfæra hluti í samstæðunni og hafi hann gert við þrjá skammtara sem stefndi hafi fengið. Að lokum hafi vélasamstæðunni verið fargað eftir að Dreifing ehf. hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta.
Þá gaf Sigurður Reynir Bjarnason, starfsmaður fyrirtækis sem selur notaðar vinnsluvélar, skýrslu í málinu. Bar hann að stefndi hefði leitað til sín fyrir um tveimur árum og beðið hann um að selja fyrir sig umrædda vélasamstæðu. Hann hafi reynt að selja tækin með því að setja auglýsingu á vefsíðu fyrirtækisins en án árangurs. Einhverjir hafi skoðað tækin. Þetta hafi verið gömul tæki og illa útlítandi og engum hafi litist á þau. Eyþór hafi síðan leitað til hans og beðið hann aftur um að reyna að selja tækin. Vitnið hafi þá verið með kaupanda að svona vélasamstæðu en honum hafi ekkert litist á þessi tæki. Kvað hann ástand samstæðunnar hafa verið þannig að ekki hafi borgað sig að reyna að gera við hana. Enginn færi í að laga svona „ferlíki“. Ráðlagði hann Eyþóri að leita til fyrirtækisins Málmar til að láta endurvinna málminn í samstæðunni.
Hafþór Sigurðsson, sem rekur fyrirtækið Málmar, gaf einnig skýrslu í málinu. Hann staðfesti að hann hefði verið fenginn til að taka við umræddri vélasamstæðu til endurvinnslu. Hafi flutningur hennar úr húsnæðinu farið fram á sinn kostnað en ekki hafi verið greitt neitt fyrir samstæðuna. Hefði honum sýnst sem tækin væru orðin úrelt og úr sér gengin.
Með vísan til framburðar Eyþórs er upplýst að umrædd vélasamstæða hafi verið geymd um langt árabil við ófullnægjandi aðstæður. Ljóst er af framburði hans að hlutar hennar hafi verið orðnir illa farnir þegar hún var tekin inn í Brúarvog 1 3 árið 2009. Með hliðsjón af framburði hans og Sigurðar er óhætt að slá því föstu að sem samstæða hafi hún verið ónothæf til matvælaframleiðslu. Þá verður ráðið af skýrslu Eyþórs að húsnæðið að Brúarvogi hafi á þeim tíma ekki verið búið til slíkrar framleiðslu. Einnig hafa verið færðar sönnur á að tilraunir hafi verið gerðar á árinu 2009 eða 2010 til að selja samstæðuna eða hluta hennar. Þær tilraunir hafi ekki skilað neinum árangri þó að þær hafi staðið yfir um alllangt skeið. Sölutilraunir á þessum tíma samrýmast ekki því sem stefndi heldur fram um að ætlunin hafi verið að nota samstæðuna til að framleiða matvæli á vegum Dreifingar ehf. Einnig verður sú ályktun dregin af þessu að í raun hafi samstæðan verið lítils eða einskis virði þegar hér var komið sögu. Aðili sem stefndi kveðst hafa fengið til að lagfæra hluti í samstæðunni gaf ekki skýrslu í málinu til að staðfesta tölvuskeyti 5. október 2012 um vinnu sína við lagfæringarnar. Þegar á allt framangreint er litið verður að leggja til grundvallar að kaupverð vélasamstæðunnar, 33.447.550 krónur, hafi verið víðs fjarri raunverulegu verðmæti hennar.
Stefni seldi vélasamstæðuna félagi sem laut alfarið hans stjórn. Á sama tíma virðist félagið hafa átt í töluverðum rekstrarvanda, en samkvæmt árshlutareikningi félagsins 1. janúar til 30. júní 2009 varð tap á rekstrinum um rúmlega 29 milljónir króna, eftir að tekið hafði verið tillit til fjármagnsliða. Á sama tíma námu skammtímaskuldir þess tæplega 640 milljónum króna, en af þeim námu gjaldfallnar skuldir rúmlega 53 milljónum króna. Samkvæmt framansögðu þykir í ljós leitt að umrædd lækkun á kröfum Dreifingar ehf. á hendur stefnda 1. júlí 2010, rúmum fjórum mánuðum áður en félagið var úrskurðað gjaldþrota hafi verið með öllu tilefnislaus og eingöngu gerð í því skyni að ívilna stefnda. Við þá ráðstöfun rýrnuðu eignir félagsins sem nam lækkun á kröfum Dreifingar ehf. á hendur stefnda á viðskiptareikningi hans hjá félaginu. Samsvarandi auðgun varð hjá honum þar sem hann varð laus undan greiðsluskyldu sem þessu nam. Verður að meta ráðstöfunina sem gjöf í merkingu 131. gr. laga nr. 21/1991. Hún fór fram innan sex mánaða frests sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 131. gr. laganna. Að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið verður fallist á kröfu stefnanda um riftun þessa gjafagernings að fjárhæð 33.447.550 krónur.
Peningagreiðslur til stefnda.
Eins og ráða má af skýrslu endurskoðandans frá 31. mars 2011 fékk stefndi greiddar samtals 15.232.356 krónur úr sjóðum Dreifingar ehf. í átta skipti á tímabilinu frá 23. nóvember 2007 til 29. október 2010. Allar þessar greiðslur voru færðar í bókhaldi félagsins sem skuld stefnda á viðskiptareikningi hans. Stefndi heldur því fram að í einu tilviki hafi ekki átt að bókfæra greiðsluna á þennan hátt heldur til gjalda í bókhaldi Dreifingar ehf. Þar vísar stefndi til færslu 23. nóvember 2007 að fjárhæð 6.300.000 krónur. Með þeirri greiðslu hafi félagið verið að efna loforð um skaðleysi Guðjóns Heiðars Haukssonar af hlutafjárkaupum í Birgðaversluninni Gripið & Greitt ehf., eins og nánar er lýst í greinargerð stefnda. Þá hafi aðrar færslur undir þessum lið átt rætur að rekja til peningalána Dreifingar ehf. til annarra fyrirtækja í fyrirtækjasamsteypunni sem farið hafi í gegnum viðskiptareikning stefnda. Hafi lánin byggst á viðskiptalegum forsendum og verið til hagsbóta fyrir Dreifingu ehf. með vísan til eignatengsla. Þá hafi öll þessi lán verið endurgreidd. Því telur stefndi að í engu tilviki sé um riftanlegan gjafagerning að ræða.
Áður hefur verið gerð grein fyrir stöðu stefnda hjá Dreifingu ehf. á því tímabili sem hér um ræðir. Samkvæmt þeirri stöðu sinni bar hann ábyrgð á því að bókhald félagsins væri fært með réttum hætti, sbr. 5. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald. Þegar félagið var tekið til gjaldþrotaskipta bar viðskiptareikningur hans með sér að hann skuldaði félaginu umrædda fjármuni sem teknir höfðu verið úr rekstri þess. Engin gögn liggja fyrir um að Dreifing ehf. hafi verið skuldbundið til að tryggja skaðleysi fyrrgreinds Guðjóns af þeim viðskiptum sem vísað er til af hálfu stefnda. Ekki hefur því verið sýnt fram á að færsla þeirrar greiðslu á viðskiptareikningi stefnda hjá Dreifingu ehf. hafi verið röng.
Stefnandi krefst riftunar á öllum þessum greiðslum aðallega með vísan til þess að um gjafagerninga sé að ræða, sbr. 131. gr. laga nr. 21/1991, en til vara að þær séu ótilhlýðilegar samkvæmt 141. gr. sömu laga. Fyrstu þrjár greiðslurnar voru bókfærðar 23. nóvember 2007, 14. febrúar 2008 og 26. júní 2008. Samtals nema þessar greiðslur 11.300.000 krónum. Frestdagur vegna skiptanna var eins og áður greinir 4. nóvember 2010, en þá barst krafa um gjaldþrotaskipti félagsins Héraðsdómi Reykjavíkur. Því er augljóst að þessar greiðslur voru inntar af hendi á tíma sem fellur utan tveggja ára frests samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Því eru ekki lagaskilyrði til að rifta þessum greiðslum samkvæmt 131. gr. fyrrgreindra laga. Þá skortir á að sýnt hafi verið fram á að skilyrðum 141. gr. sömu laga sé fullnægt hvað þessa gerninga varðar.
Síðari fimm greiðslurnar áttu sér stað innan fyrrgreinds tveggja ára frests. Hins vegar er ekki efni til að draga í efa að þessum fjármunum hafi verið ráðstafað úr sjóðum Dreifingar ehf. sem peningalánum til stefnda, eins og færsla bókhalds félagsins ber með sér, en ekki sem gjöf. Af þeim sökum verður ekki fallist á að efni sé til að rifta þessum greiðslum á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991. Þá er heldur ekki upplýst að skilyrðum sé fullnægt til að rifta þeim á grundvelli 141. gr. laganna.
Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög er hvorki heimilt að veita hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félags eða móðurfélags þess lán né setja tryggingu fyrir þá. Áður er vikið að stöðu stefnda hjá Dreifingu ehf. og er ljóst að ekki var heimilt að veita honum lán úr sjóðum félagsins. Ákvæðið tekur þó ekki til venjulegra viðskiptalána, eins og segir í umræddu ákvæði. Peningalán sem veitt er í því skyni að lántaki geti bætt tap þriðja aðila í viðskiptum telst ekki venjulegt viðskiptalán. Þá getur peningalán til eiganda og stjórnanda félags, sem hann notar til að fjármagna rekstur annarra félaga í sinni eigu, ekki heldur talist vera venjulegt viðskiptalán. Lánveitingar þær sem hér um ræðir til stefnda voru því óheimilar og ber honum með vísan til 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 að endurgreiða lánin. Heildarfjárhæð þeirra nema 15.232.356 krónum. Stefndi kveðst hafa verið búinn að greiða umrædd lán að öðru leyti en því sem lýtur að greiðslu félagsins 23. nóvember 2007 á 6.300.000 krónum, sem hann telur að rétt hafi verið að færa til gjalda í bókhaldi Dreifingar ehf. Í dómkröfum stefnanda er við það miðað að umræddar innborganir komi til frádráttar fjárkröfu stefnanda. Síðar í dóminum verður vikið að úrlausn fjárkröfunnar með tilliti til þessa.
Greiðslur á ýmsum kostnaði sem bókfærðar voru sem skuld á viðskiptareikningi stefnda:
Í skýrslu endurskoðandans er gerð grein fyrir 90 færslum á viðskiptareikningi stefnda hjá Dreifingu ehf. frá 1. nóvember 2007 til 30. september 2010, samtals að fjárhæð 5.850.607 krónur, sem stefnandi telur að eigi rætur að rekja til greiðslu félagsins á ýmsum einkakostnaði stefnda. Stefnandi krefur stefnda um greiðslu á skuld vegna þessara færslna, enda sé um ólögmæt lán að ræða sem skylt sé að endurgreiða í samræmi við 77. gr. og 79. gr. laga nr. 138/1994. Stefndi mótmælir því að um einkakostnað hafi verið að ræða og telur að allar þessar greiðslur séu rangfærðar í bókhaldi félagsins. Rétt hafi verið að færa þær til gjalda í rekstri félagsins. Um mótbárur stefnda að þessu leyti er vísast til framangreindrar lýsingar á málsástæðum hans.
Hvað þennan þátt málsins ber að árétta að samkvæmt stöðu sinni bar stefndi ábyrgð á því að bókhald Dreifingar væri fært með réttum hætti, sbr. 5. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald. Þegar félagið var tekið til gjaldþrotaskipta bar viðskiptareikningur hans með sér að hann skuldaði félaginu umrædda fjármuni vegna greiðslu þess á reikningum vegna notkunar stefnda á kreditkorti félagsins, greiðslu áskriftar að ýmsum fjölmiðlum, greiðslur vegna trygginga og lífeyris, greiðslu lyfjakostnaðar o.fl. Verður að leggja til grundvallar að þessar færslur séu réttilega færðar til bókar sem skuld stefnda við félagið, enda hefur hann ekki lagt fram gögn er færa sönnur á að rétt hafi verið að gjaldfæra umræddar greiðslur í bókhaldi Dreifingar ehf. Gildir þetta einnig um tvær færslur er lúta að bifreiðinni UF-511, en stefndi var skráður umráðamaður bifreiðarinnar.
Hvað varðar skuldfærslu á viðskiptareikningnum 31. nóvember 2009 að fjárhæð 366.000 krónur, vegna sölu á bifreiðinni DX-435, liggur fyrir að umrædd bifreið var skráð eign Dreifingar ehf. frá maí 2009 þar til hún var seld fyrirtækinu Ásós ehf. 8. október sama ár. Í málinu er upplýst með yfirlýsingu söluaðila bifreiðarinnar að veittur hafi verið afsláttur af söluverði hennar að fjárhæð 366.000 krónur vegna bilaðrar vélar. Með þessum gögnum þykir nægilega í ljós leitt að færa hefði átt þennan lið til gjalda í rekstri Dreifingar ehf. en ekki sem skuld á viðskiptareikningi stefnda. Ber því að hafna kröfu stefnanda að þessu leyti.
Að öðru leyti verður á það fallist að færslur, samtals að fjárhæð 5.484.607 krónur (5.850.607 - 366.000), séu réttilega færðar til skuldar á viðskiptareikningi stefnda hjá Dreifingu ehf. Með því að félagið greiddi kostnað, sem stefndi átti með réttu að bera er leiddi til þess að greiðslurnar voru færðar til bókar sem skuld stefnda við félagið, verður að líta svo á að félagið hafi veitt honum lán sem stangaðist á við 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Stefnda verður því gert að endurgreiða þetta lán, sbr. 4. mgr. sömu greinar.
Vöruúttektir stefnda sem bókfærðar voru sem skuld á viðskiptareikningi hans:
Í fyrrgreindri skýrslu endurskoðandans er jafnframt gerð grein fyrir 15 færslum á viðskiptareikningi stefnda hjá Dreifingu ehf., samtals að fjárhæð 628.663 krónur, sem bera með sér að vera vegna vöruúttekta. Fyrsta færslan af þessu tagi er færð til bókar 28. nóvember 2007 en sú síðasta 31. desember 2009. Stefnandi krefur stefnda um greiðslu þessarar skuldar þar sem um ólögmætt lán sé að ræða sem skylt sé að endurgreiða í samræmi við 77. gr. og 79. gr. laga nr. 21/1991, en til vara á grundvelli meginreglu kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga. Stefndi mótmælir því að hann skuldi þessa fjármuni. Telur hann allar umræddar færslur ranglega hafa verið skuldfærðar á viðskiptareikning hans enda sé um að ræða kostnað vegna kynningar- og þróunarmála hjá Dreifingu ehf. Með réttu hafi átt að færa þær sem kostnað félagsins í bókhaldi þess.
Þegar félagið var tekið til gjaldþrotaskipta bar viðskiptareikningur stefnda með sér að hann skuldaði félaginu 628.663 krónur vegna vöruúttekta. Stefnda bar að sjá til þess að bókhald félagsins væri fært með réttum hætti eins og rakið hefur verið. Hann hefur ekki fært fram nein sönnunargögn sem geta hnekkt því sem bókhald félagsins ber með sér um þessar færslur á viðskiptamannareikningi hans. Ekki er fyllilega ljóst að um lán í skilningi 79. gr. laga nr. 138/1994 sé að ræða. Verður stefnda gert að greiða stefnanda umrædda skuld með skírskotun til meginreglunnar um efndir fjárskuldbindinga.
Ætlaður einkakostnaður stefnda sem var gjaldfærður í bókhaldi Dreifingar ehf.:
Í skýrslu endurskoðandans er einnig gerð grein fyrir því að við skoðun á bókhaldi Dreifingar ehf. hafi komið í ljós þrjár gjaldfærslur sem líklega séu vegna einkakostnaðar stefnda, en umræddir reikningar hafi verið greiddir og gjaldfærðir af Dreifingu ehf.
Í fyrsta lagi er hér vísað til þess að 19. október 2010 hafi verið bókaður ferðakostnaður vegna ferðar til Tenerife 13. til 27. nóvember 2010 að fjárhæð 222.908 krónur. Hafi þessi greiðsla verið færð til gjalda á gjaldalykilinn 4530 „Ferðakostnaður erlendur“.
Í öðru lagi er hér vísað til þess að 30. júní 2008 hafi verið bókaður ferðakostnaður að fjárhæð 2.140.141 króna á sama gjaldalykil. Hafi þessi kostnaður verið bókaður eftir greiðslukortayfirliti frá stefnda, en kortið hafi verið gefið út á Dreifingu ehf. Ekki hafi verið gefnar neinar frekari skýringar á þessum kostnaði í bókhaldinu.
Í þriðja lagi vísar stefnandi til þess að 26. mars 2009 hafi verið bókaður kostnaður að fjárhæð 163.800 krónur á gjaldalykilinn 11230 „Námskeið, fundir og sjúkrakostn.“ Hér sé um gleraugu að ræða fyrir stefnda og sé reikningurinn stílaður á hann.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að þessar greiðslur séu án fullnægjandi skýringa á því hvers vegna þær eigi að teljast hluti af eðlilegum rekstri Dreifingar ehf. Krefst stefnandi endurgreiðslu þessa kostnaðar með vísan til 77. og 79. gr. laga nr. 138/1994. Þessu er mótmælt af hálfu stefnda sem telur allar þessar færslur vera réttar í bókhaldi félagsins. Hvað varðar ferðakostnað að fjárhæð 222.908 krónur hafi einungis verið um að ræða kostnað hans af umræddri ferð en ekki eiginkonu hans. Ferðin hafi verið farin til að stefndi gæti kynnt sér nýjungar í framleiðslu veitinga á veitingastöðum og hótelum. Hún hafi því verið nýtt til þróunar- og hugmyndavinnu fyrir félagið og farin í þágu þess. Sama eigi við um færslu ferðakostnaðar að fjárhæð 2.140.141 krónu sem eigi rætur að rekja til ferðar sem farin hafi verið á stóra vörusýningu í Minneapolis og Chicago í Bandaríkjunum. Þá hafi kostnaður vegna gleraugnakaupa verið réttilega færður til gjalda hjá félaginu þar sem um það hafi verið samið að félagið greiddi hann.
Ekki hafa verið færðar sönnur á að samið hafi verið um það með gildum hætti að Dreifing ehf. greiddi kostnað vegna gleraugnakaupa fyrir stefnda. Því getur þessi kostnaður ekki talist eðlilegur rekstrarkostnaður félagsins og verður að líta svo á að stefndi hafi með réttu átt að bera hann en ekki félagið. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að ferð stefnda á þekktan sumardvalarstað í tvær vikur hafi verið farin í þágu Dreifingar ehf. Gat kostnaður af þeirri ferð því ekki talist eðlilegur rekstrarkostnaður félagsins heldur átti stefndi að bera hann. Á það er fallist að stefnda beri að endurgreiða stefnanda lán vegna þessara tveggja liða, sbr. 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, sem samtals nemur 386.708 krónum.
Hvað varðar greiðslu félagsins á kostnaði að fjárhæð 2.140.141 krónu, sem færður var til bókar 20. júní 2009, er upplýst með vætti Helga Einarssonar og annarra gagna málsins að stefndi fór ásamt Helga og Alberti Magnússyni, fjármálastjóra félaga á vegum stefnda, á matvælasýningu í Bandaríkjunum í maí 2009. Jafnframt er upplýst að kostnaður vegna þessarar ferðar þremenninganna var að stórum hluta greiddur með kreditkorti Dreifingar ehf. Stefnandi hefur ekki dregið í efa að gjaldfærslan 20. júní 2009 eigi rætur að rekja til þessarar ferðar. Ekki hafa verið færðar viðhlítandi sönnur á að umræddur ferðakostnaður hafi verið ranglega færður til gjalda í bókhaldi Dreifingar ehf. og að stefndi hefði með réttu átt að bera hann. Þessi hluti kröfugerðar stefnanda verður því ekki tekinn til greina.
Fjárkrafa stefnanda, dráttarvextir og málskostnaður:
Í máli þessu hefur verið fallist á riftun á gjafagerningum er fólu í sér lækkun á kröfum Dreifingar ehf. á hendur stefnda að fjárhæð 87.822.360 krónur (25.973.705 + 7.624.662 + 20.776.443 + 33.447.550). Stefnandi krefst endurgreiðslu riftanlegra ráðstafana á grundvelli 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Í því ákvæði er mælt fyrir um að sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun, sem er rift með stoð í 131. til 138. gr. laganna, skuli greiða þrotabúinu fé sem svari til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins. Fyrrgreind lækkun á kröfum Dreifingar ehf. á hendur stefnda kom honum að notum, enda var hann með þessum ráðstöfunum leystur undan greiðsluskyldu á 87.822.360 krónum. Nam tjón félagsins sömu fjárhæð og verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda þessa fjárhæð.
Þá hefur verið fallist á að stefnda beri með vísan til 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 að endurgreiða stefnanda peningalán, samtals að fjárhæð 15.232.356 krónur, og greiðslur Dreifingar ehf. á kostnaði, sem stefndi átti með réttu að bera, samtals 5.871.315 krónur (5.484.607 + 386.708). Samtals nemur þessi skuld stefnda við stefnanda 21.103.671 krónu. Þá á stefnandi kröfu á hendur stefnda að fjárhæð 628.663 krónur vegna vöruúttekta.
Heildarkrafa stefnanda á hendur stefnda nemur samkvæmt framansögðu 109.554.694 krónum. Málatilbúnaður stefnanda byggist ekki á heildaruppgjöri á viðskiptareikningi stefnda hjá Dreifingu ehf. heldur einstökum færslum á reikningnum. Stefndi bar ábyrgð á færslu bókhalds bæði hjá Dreifingu ehf. og Skúlagötu 30 ehf. Ekki verður séð að efni sé til þess að lækka kröfu stefnanda á hendur stefnda um 40.147.939 krónur vegna millifærslu á skuld stefnda, sem upphaflega var við Skúlagötu 30 ehf., en var flutt yfir á viðskiptareikning stefnda hjá Dreifingu ehf. 31. desember 2008. Þá er ósannað að stefndi hafi samið á þann veg við Dreifingu ehf. í árslok 2006, þegar hann hætti að fá greidd laun frá félaginu, að hann geti nú, þegar félagið er komið í þrot, átt gagnkröfu vegna ógreiddra launa frá þeim tíma. Þessum kröfum stefnda er því hafnað.
Í dómkröfum stefnanda er við það miðað að greiðslur stefnda að fjárhæð 9.216.625 krónur komi til frádráttar fjárkröfu stefnanda. Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 18. nóvember 2010 af allri fjárkröfunni óháð því hvort hún á rætur að rekja til 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 eða 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Upplýst er fyrrgreindar greiðslur, sem eiga að koma til lækkunar á skuld stefnda, voru inntar af hendi á tímabilinu 16. október 2009 til 27. september 2010. Þar sem greiðslurnar fóru fram áður en stefnandi krefst þess að dráttarvextir falli á kröfuna verða þær dregnar frá stefnufjárhæðinni. Samkvæmt framansögðu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda 100.338.069 krónur (109.554.694 - 9.216.625).
Um upphafstíma dráttarvaxta á endurgreiðslukröfu samkvæmt 142. gr. laga nr. 21/1991 fer eftir fyrirmælum 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Sama á við um kröfu vegna vöruúttekta stefnda hjá Dreifingu ehf. Stefnandi krafði stefnda um greiðslu með bréfi 2. maí 2011. Samkvæmt því ber að leggja til grundvallar að þessi hluti fjárkröfunnar byrji að bera dráttarvexti 2. júní 2011. Samkvæmt 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 ber að endurgreiða ólögmæt lán til hluthafa og stjórnenda einkahlutafélags með dráttarvöxtum. Eins og kröfugerð stefnanda er háttað ber sá hluti kröfugerðar stefnanda, 11.886.962 krónur (21.103.671 - 9.216.709), dráttarvexti frá 18. nóvember 2010.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 900.000 krónur.
Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Aðilar og dómari töldu hins vegar ekki þörf á því að málið yrði flutt að nýju.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Rift er gjöfum Dreifingar ehf. til stefnda, Hauks Hjaltasonar, að fjárhæð samtals 87.822.360 krónur.
Stefndi greiði stefnanda, þrotabúi Dreifingar ehf., 100.338.069 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 11.886.962 krónum frá 18. nóvember 2010 til 2. júní 2011 og af 100.338.069 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 900.000 krónur í málskostnað.