Hæstiréttur íslands

Mál nr. 443/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Sjálfræði


Föstudaginn 17. júlí 2015.

Nr. 443/2015.

A

(Egill Stephensen hrl.)

gegn

Félagsþjónustu Norðurþings

(Berglind Svavarsdóttir hrl.)

Kærumál. Lögræði. Sjálfræði.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í sex mánuði. 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. júní 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2015 þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í sex mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.

Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir efni vottorða tveggja geðlækna. Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt vottorð B, prófessors í geðlæknisfræði, 8. júlí 2015 sem aflað var af hálfu varnaraðila. Kemst hann einnig að þeirri niðurstöðu að sjálfræðissvipting sé nauðsynleg til þess að unnt sé að veita sóknaraðila nauðsynlega læknismeðferð. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og þóknun talsmanns varnaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Egils Stephensen hæstaréttarlögmanns, 124.000 krónur, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Berglindar Svavarsdóttur hæstaréttarlögmanns, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2015.

Með beiðni, sem barst dóminum 1. júní sl. hefur sóknaraðili, Félagsþjónusta Norðurþings, Ketilsbraut 7-9, Húsavík, krafist þess að varnaraðili, A, með lögheimili að [...],[...], en dvalarstað á Landspítalanum við Hringbraut, Reykjavík, verði með vísan til a- liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sviptur sjálfræði í sex mánuði. Um aðild sóknaraðila vísast til d-liðar 2. mgr. 7. gr. sömu laga.

Af hálfu varnaraðila er því hafnað að krafa sóknaraðila nái fram að ganga. 

Í kröfu um sjálfræðissviptingu kemur m.a. fram að varnaraðili, sem er fæddur 1992, sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og sé mjög veikur. Hann hafi ekkert innsæi í sjúkdóm sinn og sé ekki til neinnar samvinnu. Hann sé talinn hættulegur sjálfum sér og öðrum. Hann sé nú nauðungarvistaður á bráðageðdeild, sbr. 19. gr., sbr. 20. og 21. gr. laga nr. 71/1997.

Beiðni sóknaraðila fylgdi læknisvottorð C, geðlæknis á bráðageðdeild 32C á Landspítalanum, frá 29. maí sl. Þar kemur fram að þegar varnaraðili hafi verið 17-18 ára hafi fjölskyldumeðlimir farið að taka eftir breytingum á honum. Hann hafi verið dapur og reiður út í margt í kringum sig. Hann hafi klárað vélstjórnarréttindi en síðan flosnað upp úr námi. Hann fari nú öðru hverju í róðra með föður sínum sem geri út bát. Á síðustu 2-3 árum hafi farið að halla verulega undan fæti hjá varnaraðila. Hann hafi einangrast mikið félagslega gagnvart ættingjum og fyrrum vinum. Hann virðist hafa misst vilja og getu til náms og vinnu. Lögregla hafi oft haft afskipti af honum, m.a. vegna hótana um ofbeldi. Hann hafi m.a. hótað því að taka „Breivik“ á [...]. Í fyrrasumar hafi hann verið nauðungarvistaður á geðdeild í þrjár vikur í kjölfar þess að hann missti stjórn á sér og hótað fólki alvarlega. Hafi gengið illa að tala við hann og hafi honum fundist innlögnin algerlega óþörf. Hann hafi ekki þegið frekari meðferð. Hann hafi búið hjá móður sinni um sex mánaða skeið sl. vetur en flust aftur til föður síns þar sem móðir hans hafi ekki treyst sér til að hafa varnaraðila á heimilinu vegna hegðunar hans. Á heimili föður síns hafi hegðan varnaraðila verið svipuð, hann hafi einangrað sig og tekið reiðiköst. Aðdragandi innlagnar á Landspítalann hafi verið sá að varnaraðili hafi stolið bifreið og kastað flösku í gegnum rúðu á heimili kunningja síns 12. maí sl. Þá hafi hann lamið í gegnum rúðu á verslun. Hann hafi verið mjög ósamvinnuþýður og ógnandi og samhengislaus í tali. Hann hafi neitað aðstoð læknis, til að búa um sár á höndum, og verið mjög ógnandi í garð læknisins. Við komu á geðdeildina hafi varnaraðili lýst því yfir að hann hefði enga þörf á að dveljast þar. Um fyllerísrugl hefði verið að ræða. Niðurstaða rannsóknar hefði verið sú að hann væri líklega alvarlega veikur með ranghugmyndir, ofheyrnir og geðsjúkdóm í þróun. Hafi hann verið metinn hættulegur sjálfum sér og öðrum og því farið fram á nauðungarvistun. Hann hafi verið rólegur á geðdeildinni. Í viðtölum hafi hann harðneitað að alvarlegir atburðir hefðu átt sér stað, þetta væri allt lygi. Þá segir í niðurlagi vottorðs C að þegar farið sé yfir sögu varnaraðila síðustu árin sé skýrt að hann uppfylli greiningarskilmerki fyrir geðlofasjúkdóm. Hann hafi breyst í háttum, tapað fyrri færni, einangrað sig og verið með ranghugmyndir og á tímabilum ofskynjanir. Rætt hafi verið við fjölskyldu hans og heilsugæsluna. Þá hafi verið rætt við lögregluna á [...] sem telji hann hættulegan. Fyrir liggi að íbúar á [...] sé hræddir um að hann eigi eftir að skaða sjálfan sig eða aðra. Hann verði á tímabilum mjög órólegur, ógnandi og hótandi. Hann hafi misst stjórn á sér og skeytt skapi sínu á hlutum heima hjá sér, m.a. eyðilegt tölvu og síma. Hann sé sjálfur algerlega innsæislaus. Er það mat læknisins að það sé óhjákvæmilegt vegna alvarlegra veikinda varnaraðila að hann verði vistaður áfram á geðdeild. Hann sé með virk geðrofseinkenni sem hafi áhrif á og stjórni hegðan hans og gjörðum. Hann sé hættulegur sjálfum sér og öðrum. Þar sem hann sé ekki til samvinnu sé sjálfræðissvipting nauðsynleg til að unnt verði að koma meðferð við. Læknirinn staðfesti vottorð sitt fyrir dóminum og ítrekaði að brýn nauðsyn sé á að varnaraðili verði sviptur sjálfræði. Aðspurð tók hún fram að ekki væri nægilegt að hann gengist undir áfengismeðferð enda valdi áfengi ekki geðklofasjúkdómi. Varnaraðili hafi sýnt af sér ofbeldishegðun þótt hann sé ekki undir áhrifum áfengis.

Með heimild í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 71/1997 aflaði dómari vottorðs D, sérfræðings í geð- og embættislækningum. Í niðurlagi vottorðs hans, dagsettu 7. júní sl., kemur fram að grunur sé um byrjun geðklofasjúkdóms ellegar geðklofalíka persónuleikaröskun, sem og áfengismisnotkun, hjá varnaraðila. Af gögnum að dæma hafi hann breyst mikið í hegðun og atferli sl. 2-3 ár. Hann hafi verið ógnandi með sérkennilega hegðun og atferli gagnvart fjölskyldu og öðrum. Sé horft til lýsinga sem skráðar séu í sjúkraskrá, og séu m.a. hafðar eftir lögreglu og fjölskyldu varnaraðila, séu merki um geðrofssjúkdóm til staðar. Enn fremur endurtekin hættuleg hegðun og hótanir hans gagnvart öðrum og mögulega sjálfum sér. Virðist ljóst að varnaraðili sé með alvarlegan geðsjúkdóm sem þarfnist meðferðar og eftirlits til að koma í veg fyrir endurtekningar á alvarlegum atburðum sem upp hafi komið og til þess að hann nái fótfestu í lífi sínu. Fyrir þessu sé ekkert innsæi hjá varnaraðila. Sé því mælt með að hann verði sviptur sjálfræði. Læknirinn staðfesti vottorð sitt fyrir dóminum. Hann kvað sjúkdóm varnaraðila erfiðan í greiningu. Varnaraðili bæri af sér góðan þokka og því hefði læknirinn þurft að taka við hann nokkur viðtöl og fara vandlega yfir sjúkragögn áður en hann komst að niðurstöðu. Nauðsynlegt væri að nauðungarvista varnaraðila til að veita honum viðeigandi meðferð. Ekki væri nægilegt að senda hann í áfengismeðferð.

Varnaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum. Hann kannast ekki við að eiga við andleg veikindi að stríða. Þá mótmælti hann því að hafa hótað fólki ofbeldi.

Með heimild í 6. mgr. 11. gr. laga nr. 71/1997 aflaði dómari gagna um afskipti lögreglu af varnaraðila. Í þeim kemur fram að lögregla hefur ítrekað haft afskipti af varnaraðila vegna ógnandi hegðunar.

Niðurstaða:

Eins og að framan er rakið liggur fyrir mat tveggja geðlækna um að varnaraðili eigi við alvarlegan geðsjúkdóm að etja sem þarfnist meðhöndlunar og að varnaraðili sé hættulegur sjálfum sér og öðrum. Var framburður læknanna afdráttarlaus um að þörf væri á tímabundinni sjálfræðissviptingu varnaraðila til þess að unnt væri að veita honum fullnægjandi læknismeðferð en vegna skorts á innsæi í sjúkdóm sinn og ástand hefði varnaraðili ekki skilning á að meðferð sé honum nauðsynleg. Með hliðsjón af framangreindu telur dómurinn því að sýnt hafi verið fram á að uppfyllt séu skilyrði a-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 hvað varðar getu varnaraðila til að ráðstafa persónulegum hagsmunum sínum. Er því óhjákvæmilegt að svipta varnaraðila sjálfræði tímabundið svo tryggja megi honum viðeigandi meðferð. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila um að varn­ar­aðili verði sviptur sjálfræði í sex mánuði.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1971 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað málsins, þar með talda þóknun skipaðs talsmanns aðila, eins og nánar er kveðið á um í úrskurðarorði. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Varnaraðili, X, er sviptur sjálfræði í sex mánuði.

Kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Berglindar Svavarsdóttur hrl., og skipaðs verjanda varnaraðila, Egils Stephensen hrl., 150.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.