Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-49

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (Bjarki Már Baxter lögmaður)
gegn
Distu ehf. (Jónas Fr. Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Stjórnarskrá
  • Atvinnufrelsi
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Lögmætisregla
  • Lögskýring
  • Réttmætisregla
  • Jafnræðisregla
  • Valdþurrð
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 20. mars 2025 leitar Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 20. febrúar sama ár í máli nr. 535/2023: Dista ehf. gegn Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um ógildingu ákvörðunar leyfisbeiðanda um að hafna umsókn um sölu á tilteknum áfengum drykk í söluflokknum „reynsluflokkur“. Ákvörðun leyfisbeiðanda var byggð á 4. mgr. 11. gr. laga nr. 86/2011 um verslun með áfengi og tóbak. Samkvæmt ákvæðinu er leyfisbeiðanda heimilt við val á vöru að hafna áfengistegund sem inniheldur koffein eða önnur örvandi efni.

4. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfum gagnaðila en með dómi Landsréttar var ákvörðun leyfisbeiðanda felld úr gildi. Landsréttur féllst ekki á að með 4. mgr. 11. gr. laga nr. 86/2011 hefði löggjafinn veitt leyfisbeiðanda óheft ákvörðunarvald um takmörkun á atvinnufrelsi í andstöðu við 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar eða lögmætisreglu íslenskrar stjórnskipunar. Þá var ekki fallist á að lagaákvæðið væri í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar eða jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Landsréttur vísaði hins vegar til þess að ákvörðunin hefði verið reist á matskenndum lagagrundvelli. Því hefði leyfisbeiðanda borið að byggja hana á málefnalegum sjónarmiðum sem væru til þess fallin að ná því markmiði sem stefnt væri að með lagaheimildinni. Landsréttur tók fram að leyfisbeiðandi hefði heimilað sölu á ýmsum vörum sem hefðu að geyma koffein, þar með talið vörum með meira magni en hin umdeilda vara. Landsréttur féllst ekki á að röksemd leyfisbeiðanda um greinarmun á vörum, sem hefðu að geyma koffein með vísan til bragðeinkenna, væri til þess fallin að ná því markmiði að bæta lýðheilsu og stemma stigu við blöndun áfengis og koffeins. Hefði því ekki verið um að ræða málefnalegt sjónarmið sem leyfisbeiðanda hefði verið heimilt að byggja ákvörðun sína á. Landsréttur taldi ennfremur þá ályktun leyfisbeiðanda að varan hefði helstu einkenni orkudrykkja ekki hafa viðhlítandi stoð í þeim gögnum sem vísað hefði verið til í ákvörðun hans. Hefði því verið leyst úr málinu með óforsvaranlegu mati þó svo að það hefði út af fyrir sig verið málefnalegt að líta til þess hvort um áfengisblandaðan orkudrykk væri að ræða. Loks vísaði Landsréttur til þess að fyrirkomulag flokkunar á vörusafni leyfisbeiðanda og önnur almenn sjónarmið sem vísað væri til gætu ekki verið víðhlítandi stoð undir ákvörðun sem fæli í sér takmörkun á atvinnufrelsi. Komst Landsréttur því að þeirri niðurstöðu að ákvörðun leyfisbeiðanda væri háð verulegum annmörkum að efni til.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Ekki hafi áður reynt fyrir dómi á túlkun 4. mgr. 11. gr. laga nr. 86/2011 sem feli í sér matskennda heimild. Málið hafi jafnframt verulegt gildi um túlkun og skýringu á framkvæmd lögbundins hlutverks leyfisbeiðanda á grundvelli laga nr. 86/2011 en lögin þjóni meðal annars því hlutverki að stuðla að bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð. Einnig hafi þau að markmiði að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu. Málið hafi verulegt fordæmisgildi um þau sjónarmið sem leyfisbeiðanda sé heimilt að leggja til grundvallar við ákvörðun um að hafna áfengistegund, hvernig hann skuli haga mati sínu og hversu ítarlega þurfi að gera grein fyrir og vísa til þeirra gagna og upplýsinga sem ákvörðun sé reist á. Málið hafi jafnframt verulegt fordæmisgildi um skýringu réttarreglna á sviði stjórnsýsluréttar. Þá hafi málið einnig fordæmisgildi um endurskoðunarvald dómstóla á matskenndum ákvörðunum sérfróðra stjórnvalda. Leyfisbeiðandi byggir einnig á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni og að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft verulegt almennt gildi. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.