Hæstiréttur íslands

Mál nr. 423/2006


Lykilorð

  • Leigusamningur
  • Fasteign
  • Erfðafesta


         

Fimmtudaginn 7. júní 2007.

Nr. 423/2006.

Finnbogi Ottó Guðmundsson og

Jón Guðmundsson

(Jón Höskuldsson hrl.)

gegn

Blönduósbæ

(Heimir Örn Herbertsson hrl.)

 

Leigusamningur. Fasteign. Erfðafesta.

Aðilar deildu um hvort ræktunarland í eigu B, sem faðir F og J hafði fengið ráðstafað frá upphaflegum leigutaka, hefði verið selt á leigu eða erfðaleigu og um lögmæti ákvörðunar B um innlausn þess. Ekki var talið að F og J hefðu sýnt fram á að upphaflegur leigutaki spildunnar hefði fengið hana á erfðaleigu, en skriflegur samningur hafði ekki verið gerður á milli hans og B. Var lagt til grundvallar að leigukjör hefðu að öðru leyti verið hin sömu og aðrir fengu á sama tíma á ræktunarlóðum í eigu B, þar á meðal að leigt hefði verið til óákveðins tíma. Samkvæmt því hefðu réttindi samkvæmt samningi fallið niður við andlát föður F og J á árinu 1983. Fyrir lá að B hélt áfram að innheimta fasteignagjöld í sautján ár eftir að faðir F og J lést og að þeir greiddu gjöldin. Þá tók B sérstaka ákvörðun um innlausn landsins og var það í sömu bókun talið vera eign dánarbús föður F og J, auk þess sem fram kom í bréfum B að F og J hefði nú verið sagt upp leiguafnotum af spildunni. Að þessu virtu var talið að B hefði í verki samþykkt að F og J væru leigutakar að spildunni og að leiguréttur hefði ekki fallið niður við andlát föður þeirra. Giltu um leiguna sömu samningsskilmálar og faðir þeirra naut áður, en sá leigusamningur var til óákveðins tíma og varð ekki sagt upp. Ekki var talið að leiddar hefðu verið í ljós vanefndir sem gætu heimilað B riftun samningsins. Að því virtu var viðurkennt að F og J ættu saman leigurétt að umræddu landi og ógilt ákvörðun B um innlausn þess.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 3. ágúst 2006. Þeir krefjast þess að viðurkennt verði að þeir eigi saman erfðafesturétt að ,,ræktuðu landi nr. 86 á Blönduósi (landnúmer 145238)“ og að ógilt verði ákvörðun bæjarráðs Blönduósbæjar 22. júlí 1998 um innlausn á því landi. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Í héraðsdómi er greint frá málsatvikum og málsástæðum aðila. Eins og þar kemur fram leigði Kári Snorrason umdeilt land af Blönduóshreppi á árinu 1958, en ekki virðist hafa verið gerður skriflegur samningur þeirra á milli. Kári ráðstafaði landinu til Guðmundar Jónssonar, föður áfrýjenda, á árinu 1962 eða 1963 og telja áfrýjendur sig hafa farið með eignarráð yfir því á grundvelli erfða frá andláti föður þeirra í maí 1983. Stefndi hélt áfram að innheimta lóðarleigu og önnur fasteignagjöld vegna landsins allt fram til ársins 2000 og greiddu áfrýjendur gjöldin. Þegar áfrýjendur leituðu upplýsinga um hvers vegna innheimtu fasteignagjalda hafi verið hætt var þeim tilkynnt um bókun bæjarráðs stefnda frá 22. júlí 1998 þess efnis að samþykkt hefði verið að ,,innleysa“ umrætt land og var það í bókuninni nefnt ,,eign dánarbús Guðmundar Jónssonar.“ Reis í kjölfarið ágreiningur aðila um hvort umrætt land hefði upphaflega verið selt á leigu eða erfðaleigu og um lögmæti ákvörðunar stefnda um innlausn þess.

II.

Lagðir hafa verið fram í málinu sautján samningar frá árunum 1942 til 1974, þar sem hreppsnefnd Blönduóshrepps seldi á leigu spildur á Blönduósi til ræktunar. Þeir eru  á stöðluðu samningsformi og því í öllum tilvikum lýst yfir í upphafi að land sé selt á leigu / erfðaleigu með skilmálum, sem síðan eru raktir. Var misjafn háttur hafður á við gerð þeirra að því leyti að ýmist var strikað yfir orðið „leigu“ eða „erfðaleigu“ eða bæði orðin látin standa óhögguð. Í öllum samningunum var tekið fram að lóðin væri leigð til óákveðins tíma og að leigutaki hefði rétt til að selja eða veðsetja afnotarétt sinn að henni ásamt húsum og öðrum mannvirkjum. Lóðin skyldi girt og ræktuð innan nánar tiltekins árafjölda.

Af framburði vitnanna Kára Snorrasonar og Jóns Ísberg, sem var í hreppsnefnd Blönduóshrepps þegar samningurinn var gerður, verður ekki ráðið hvort um hafi verið að ræða leigusamning eða erfðaleigusamning. Í framburði þess síðarnefnda kom hins vegar fram að í munnlegum samningi við þann fyrrnefnda hafi ekki falist nein annars konar réttindi en þau, sem veitt voru öðrum í samningum, sem gerðir voru á svipuðum tíma. Í skýrslu Skarphéðins H. Einarssonar fyrir dómi kom fram að hann hafi með heimild áfrýjenda nytjað spilduna frá 1994 eða 1995 til slægna og hrossabeitar. Hann hafi lagfært girðingu og jafnframt sett upp rafmagnsgirðingu. Í yfirlýsingu vitnisins 30. nóvember 2004, sem það staðfesti fyrir dómi, segir jafnframt að vitnið hafi heyjað landið öll árin að undanskildu sumrinu 2004, nýtt það til beitar og haldið girðingum við.

Áfrýjendur mótmæltu innlausn stefnda á spildunni í bréfi 31. október 2002 og töldu að Kári Snorrason hefði fengið hana á erfðaleigu. Í svari 12. febrúar 2003 var af hálfu stefnda tekið fram að ræktunarlóðir hafi verið leigðar til óákveðins tíma, en við fráfall rétthafa féllu þær til stefnda að nýju. Í sumum tilvikum geti leigutaki átt rétt á greiðslu vegna framkvæmda á lóð. Sagði jafnframt í bréfinu að stefndi hafi nú ákveðið að innleysa spilduna þar sem hún hafi ekkert verið nýtt í mörg ár og sé í órækt. Í síðari bréfum stefnda til áfrýjanda var bókun bæjarráðs 22. júlí 1998 skýrð þannig að leigu á spildunni hafi verið sagt upp þar sem hún hafi ekki verið girt með fullnægjandi hætti. Sú skýring stefnda er einnig fram komin að spildan sé á svæði, sem samkvæmt aðalskipulagi sé skilgreint sem fyrirhugað íbúðasvæði og að stefndi leitist við að hætta að leigja þar út ræktunarlóðir.

III.

Fallist verður á með stefnda að áfrýjendur hafi sönnunarbyrði fyrir því að upphaflegur leigutaki spildunnar, sem um ræðir, hafi fengið hana á erfðaleigu. Sú sönnun hefur ekki tekist. Eins og málið liggur fyrir verður lagt til grundvallar að leigukjör hafi að öðru leyti verið hin sömu og aðrir fengu á sama tíma á ræktunarlóðum í eigu stefnda, þar á meðal að leigt hafi verið til óákveðins tíma. Samkvæmt því hefðu réttindi samkvæmt samningi fallið niður við andlát föður áfrýjenda á árinu 1983.

Kemur þá til úrlausnar hvort stefndi hafi engu að síður viðurkennt í raun að leiguréttur hafi ekki fallið niður við andlát rétthafans, heldur haldið áfram í höndum áfrýjenda. Eins og að framan greinir hélt stefndi áfram að innheimta fasteignagjöld af lóðinni í sautján ár eftir að faðir áfrýjenda lést og voru þau greidd af áfrýjendum, sem voru lögerfingjar hans. Þá tók stefndi sérstaka ákvörðun um svokallaða innlausn landsins, sem í sömu bókun var talin vera eign dánarbús Guðmundar Jónssonar. Sú afstaða fær ekki samrýmst síðari skýringum hans að leigusamningur hafi fallið niður við andlát Guðmundar. Þá sagði í bréfi stefnda til áfrýjandans Finnboga 12. mars 2004 að í fyrra bréfi stefnda 12. febrúar 2003 hafi honum verið sagt upp leiguafnotum af spildunni því stefndi hafi ákveðið að innleysa hana. Var tekið fram að sú uppsögn væri nú ítrekuð. Að því virtu, sem að framan er rakið, verður fallist á með áfrýjendum að stefndi hafi í verki samþykkt að þeir væru leigutakar að spildunni og gilda um leiguna sömu samningsskilmálar og faðir þeirra naut áður. Sá leigusamningur var til óákveðins tíma og varð ekki sagt upp. Engar vanefndir af hálfu áfrýjenda eru í ljós leiddar, sem geta heimilað stefnda riftun samningsins. Samkvæmt því verður viðurkenningarkrafa áfrýjenda tekin til greina að öðru leyti en því að ekki er um erfðaleigurétt að ræða.

Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Viðurkennt er að áfrýjendur, Finnbogi Ottó Guðmundsson og Jón Guðmundsson, eigi saman leigurétt að ræktunarlandi númer 86 á Blönduósi með landsnúmeri 145238. Er jafnframt ógilt ákvörðun stefnda, Blönduósbæjar, um innlausn á því 22. júlí 1998.

Stefndi greiði áfrýjendum samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 10. maí 2006.

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms 24. mars sl., er höfðað af Finnboga Guðmundssyni, Frostaskjóli 99, Reykjavík, og Jóni Guðmundssyni Látraströnd 12, Seltjarnarnesi, 5. apríl sl. á hendur Blönduósbæ.

Dómkröfur stefnenda

Stefnendur krefjast þess að viðurkennt verði með dómi að þeir eigi saman erfðafesturétt að ræktuðu landi nr. 86 á Blönduósi (landnúmer 145238). Þá krefjast stefnendur þess að ógilt verði með dómi ákvörðun bæjarráðs Blönduósbæjar frá 22. júlí 1998 um innlausn á ræktuðu landi nr. 86 á Blönduósi (landnúmer 145238). Loks krefjast stefnendur málskostnaðar, að meðtöldum áhrifum 24,5% virðisaukaskatts, úr hendi stefnda.

Dómkröfur stefnda

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnenda. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnenda samkvæmt málskostnaðarreikningi sem miðaður er við gjaldskrá Lögmannsstofu Stefáns Ólafssonar ehf.

II

Málavextir

Hinn 29. mars 1958 kom hreppsnefnd Blönduóshrepps saman til fundar. Meðal þess sem lá fyrir fundinum voru ,,lóðamál“ og samþykkti hreppsnefndin erindi frá Kára Snorrasyni sem sótti um ræktunarlóð á holtinu norðan við lóð Einars Guðmundssonar. Lóð þessi var síðar skráð sem ræktað land nr. 86 á Blönduósi. Skriflegur samningur milli hreppsnefndar Blönduóshrepps og Kára Snorrasonar hefur ekki fundist þrátt fyrir ítrekaða leit. Nefndur Kári ráðstafaði landspildunni ásamt mannvirkjum sem hann hafði þar reist til föður stefnenda, Guðmundar J. Jónssonar, á árinu 1962 eða 1963. Samningur þeirra í milli liggur ekki fyrir en vottfest yfirlýsing Kára Snorrasonar hefur verið lögð fram í málinu. Guðmundur J. Jónsson lést á árinu 1983 en stefnendur eru einu erfingjar hans. Stefnendur greiddu fasteignagjöld af landinu og mannvirkjum allt til ársins 2000 en stefnandinn Finnbogi Guðmundsson fékk árlega sendan álagningarseðil frá stefnda vegna þessa. Eftir árið 2000 hætti stefndi að innheimta fasteignagjöld hjá stefnendum.

Stefnendur segjast hafa leitað skýringa hjá byggingafulltrúa stefnda á því hvers vegna þeir væru ekki lengur krafðir um gjöldin og fengið þau svör að spildan hafi verið innleyst og um það hafi verið gerð sérstök bókun í bæjarráði 22. júlí 1998. Stefnendur segjast ekki hafa vitað um þessa bókun fyrr en á þessum tíma en þetta hafi sennilega verið á árinu 2001. Í framhaldi af þessu mótmælti stefnandinn Finnbogi Guðmundsson ákvörðuninni með bréfi dagsettu 31. október 2002. Lögmaður stefnda svaraði bréfinu 12. febrúar 2003. Degi síðar óskuðu stefnendur eftir gögnum frá stefnda varðandi málið jafnframt því sem þeir mótmæltu nokkrum fullyrðingum sem fram komu í bréfi lögmanns stefnda. Með bréfi dagsettu 26. maí 2004 beindu stefnendur þeirri kröfu til stefnda að hann léti skrá annan stefnanda sem rétthafa að landspildunni í skrá Fasteignamats ríkisins. Krafan var síðan ítrekuð með bréfi 8. september sama ár en þá var þess krafist að stefnendur yrðu báðir skráðir fyrir landinu. Hinn 5. október 2004 hafnaði stefndi kröfu stefnenda og ítrekaði fyrri ákvörðun sína um innlausn á landinu og með bréfi bæjarstjóra stefnda, dagsettu 6. október 2004, var stefnendum kynnt þessi ákvörðun stefnda.

III

Málsástæður og lagarök stefnenda

Stefnendur eru einu lögerfingjar Guðmundar Jónssonar, sem lést 13. maí 1983. Halda þeir því fram að frá þeim tíma hafi þeir farið með eignarráð yfir ræktuðu landi nr. 86 á Blönduósi. Ákvörðun stefnda um innlausn landsins hafi beinst að réttindum og eign dánarbús Guðmundar Jónssonar og því hafi stefnendur sem erfingjar Guðmundar af því ótvíræða hagsmuni að skorið verði úr því með dómi hvort þeir eigi þann rétt til landsins sem þeir halda fram. Hið sama gildi um kröfu þeirra um ógildingu á innlausn spildunnar. Stefnendur benda á að við uppskrift hreppstjóra Blönduóshrepps á dánarbúi föður þeirra hafi meðal annars verið tilgreint ,,Ræktað land og útihús“ að matsvirði 27.000 krónur og þessa sé getið í erfðafjárskýrslu. Hvorki uppskriftin né erfðafjárskýrslan hafi sætt andmælum. Byggja stefnendur á því að þeir eigi sama erfðafesturétt til landsins og faðir þeirra átti. Landinu hafi á sínum tíma verið ráðstafað ótímabundið til Kára Snorrasonar af hreppsnefnd Blönduóshrepps með sömu skilmálum og fram koma í skriflegum erfðaleigusamningum stefnda við 11 nafngreinda aðila en afrit samninga þeirra við stefnda hafi verið lögð fram í málinu. Telja stefnendur óhugsandi að réttindi Kára hafi verið önnur og lakari en réttindi þeirra sem fengu úthlutað landi hjá stefnda á svipuðum tíma og hann. Stefnendur halda því fram að þeir eigi ekki að gjalda þess að ekki var gerður skriflegur samningur við upphaflegan rétthafa eða við þá sem tóku við landinu af honum. Þá telja stefndu að afturhvarf stefnda frá því að byggja leikskóla á landinu bendi til þess að réttur föður þeirra til spildunnar hafi staðið í vegi fyrir byggingunni.

Stefnendur halda því fram að ákvörðun stefnda um að innleysa landspilduna hafi skort lagaskilyrði. Af bókun bæjarráðs svo og síðari bréfum lögmanns stefnda verði ekki ráðið í hvaða tilgangi og á hvaða lagagrundvelli ákveðið var að svipta stefnendur eigninni. Í bréfi bæjarstjóra Blönduósbæjar frá 28. október 2004 sé fullyrt að innlausnin sé í fullu samræmi við aðalskipulag fyrir Blönduósbæ og þá stefnu bæjarins að stöðva búfjárhald á þessu svæði. Einnig sé vikið að því að svæðið frá Heiðarbraut að Ennisbraut sé skilgreint sem fyrirhugað íbúðasvæði.

Stefnendur segja að stefndi hafi í fyrsta sinn haldið því fram í umkröfðum rökstuðningi fyrir innlausn spildunnar að gert sé ráð fyrir íbúðabyggð á svæðinu. Hvað sem því líði sé ljóst að engin áform séu uppi um slíka nýtingu svæðisins þrátt fyrir að skipulag bæjarins um íbúðabyggð á þessu svæði hafi verið í gildi í 12 af 20 ára gildistíma. Þessar skýringar stefnda séu því haldlausar enda liggi ekkert fyrir um að stefndi þurfi á landinu að halda. Stefndi haldi því einnig fram að stefna hans sé að stöðva búfjárhald á þeim svæðum sem eru í mikilli nálægð við íbúðabyggð. Þessi viðbára hafi ekki komið fram áður og stefndi hafi ekki vitnað til neinna reglna sem hann hafi sett um þetta málefni og þá hafi ekkert komið fram sem bendi til þess að stefndu hafi brotið slíkar reglur ef einhverjar eru. Stefnendur telja að stefndi geti ekki svipt þá erfðafesturétti að landspildunni og hafnað því að skrá eignina samkvæmt lögum nr. 6/2001, eins og honum ber skylda til, með þeim rökum að friða þurfi spilduna.

Stefnendur byggja á því að landið hafi verið nýtt og girðingum umhverfis það viðhaldið eins og aðstæður kröfðust á hverjum tíma. Síðustu 15 árin hafi nafngreindur aðili nýtt landið til slægna og hrossabeitar. Á þeim tíma eða fyrr hafi ekki verið kvartað undan nýtingu landsins eða viðhaldsleysi girðinga. Stefndi hafi fyrst fundið að viðhaldi girðinga þegar stefnendur gerðu athugasemd við innlausn landsins.

Stefnendur halda því fram að í erfðafesturétti þeirra felist ótímabundinn og óuppsegjanlegur réttur þeirra til að nýta landið á þann hátt sem upphaflegur rétthafi hennar fékk heimild til hjá hreppsnefnd Blönduóshrepps. Stefndi hafi ekki haft heimild til að svipta þá erfðafesturéttinum eins og á stendur í þessu máli og hafna stefnendur því að ákvæði í jarðalögum og húsaleigulögum heimili slíka uppsögn líkt og haldið er fram í bréfi bæjarstjóra frá 24. október 2004 en í bréfinu sé ekki vísað til ákveðinna greina laganna sem byggt er á. Stefnendur halda því fram að erfðafesturéttur þeirra verði aðeins af þeim tekinn með samningum eða fyrir eignarnám.

Stefnendur segja stefnda ítrekað hafa hafnað því að skrá þá sem rétthafa að erfðafesturétti að títtnefndu landi. Því hafi verið haldið fram að landið hafi verið innleyst en um það var öðrum stefnanda tilkynnt með bréfi lögmanns stefnda jafnframt því sem öðrum stefnanda var sagt upp leiguafnotum af landinu en um þetta vitni bréf lögmanns stefnda frá 12. mars 2004. Í bréfinu kemur fram að stefnandanum Finnboga hafi verið sagt upp leiguafnotum af landinu með bréfi frá 12. febrúar 2003. Telja stefnendur að af þessu verði ekki ráðið hvenær eða með hvaða hætti stefndi innleysti landið. Þó liggi fyrir að stefnendur greiddu umkrafin gjöld af eigninni allt fram til ársins 2000 eða í tvö til þrjú ár eftir að bæjarráð ákvað að innleysa landið. Síðar hafi stefnendum verið sagt upp leiguafnotum af landinu af bæjarlögmanni og enn fremur með ákvörðun stefnda frá 5. október 2004. Í þessu felist bein viðurkenning stefnda á því að réttindi föður þeirra hafi færst yfir til stefnenda.

Stefnendur benda á að fyrir liggi að ekki var haft samband við þá og ekki óskað eftir afstöðu þeirra til innlausnarinnar áður en landið var innleyst þrátt fyrir að stefnda hafi mátt vera kunnugt um erfðafesturétt þeirra. Þegar leiguafnotum var síðar sagt upp hafi afstaða þeirra heldur ekki verið könnuð og þá hafi heldur ekkert samband verið haft við þá áður en ákvörðun var tekin um að hafna því að láta skrá þá sem rétthafa að landinu. Stefnendur benda í þessu sambandi á að samkvæmt ákvæðum 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 beri stjórnvaldi að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Þá skuli aðili máls eiga kost á að tjá sig um efni þess áður en ákvörðun er tekin sbr. 13. gr. sömu laga. Stefnendur byggja á því að stefndi hafi ekki rannsakað málið með fullnægjandi hætti áður en hann ákvað að innleysa spilduna. Með því að rannsaka málið ekki nægjanlega og með því að leita ekki eftir afstöðu stefnenda hafi stefndi brotið ákvæði nefndrar 10. gr. og því beri að ógilda hina umþrættu ákvörðun og viðurkenna að stefnda beri að skrá stefnendur sem rétthafa erfðafesturéttar að landspildunni eða sem umráðamenn hennar.

Stefnendur halda því fram að ákvörðun stefnda um að svipta þá erfðafesturétti að landinu hafi verið íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun og því beri að gera strangari kröfur en ella til rannsóknar og undirbúnings áður en slík ákvörðun er tekin. Stefnendur benda á að stefndi byggi meðal annars á því að þeir hafi ekki hirt um eignina, meðal annars með því að hirða ekki um girðingar umhverfis spilduna. Þá sé búfjárhald bannað á svæðinu. Stefnendur mótmæla því að þeir hafi ekki hirt um landið og benda í því sambandi á yfirlýsingu Skarphéðins H. Einarssonar sem liggur frammi í málinu. Þá hafi stefndi ekki lagt fram nein gögn sem benda til þess að búfjárhald sé bannað þarna. Meðan svo sé verði að álíta að búfjárhald nefnds Skarphéðins á spildunni, sem aldrei hafi sætt andmælum af hálfu stefnda, sé fyllilega lögmætt og því verði stefnendur ekki sviptir stjórnarskrárvörðum eignarrétti sínum með vísan til þess að búfjárhald sé bannað á landspildunni.

Stefnendur benda á að stefndi viðurkenni ekki erfðafesturétt þeirra að spildunni og hann hafi ítrekað hafnað því að skrá þá sem rétthafa að landinu og vísað til þess að lög hafi heimilað honum uppsögnina. Stefndi hafi vísað til þeirra raka sem áður eru fram komin um bann við búfjárhaldi og að landið sé í órækt. Stefnendur benda á í þessu sambandi að ekki liggi fyrir nein ákvörðun um friðun á þessu svæði og þá liggi ekkert fyrir um byggingaframkvæmdir þarna. Þrátt fyrir þetta haldi stefndi fast við þá ákvörðun sína að svipta stefnendur eigninni og neiti að sinna réttri skráningu landsins samkvæmt lögum nr. 6/2001.

Stefnendur benda á að þeir voru ekki krafðir upplýsinga um fyrirætlanir sínar um nýtingu landsins og þeir hafi ekki fengið tækifæri til að tjá sig um þau atriði sem sýnast hafa ráðið mestu um þá ákvörðun stefndu að innleysa spilduna. Stefnendur halda því fram að stefnda hafi ekki verið heimilt að taka svo íþyngjandi ákvörðun um að svipta þá erfðafesturéttinum nema að því markmiði sem að var stefnt yrði ekki náð með öðru og vægara móti. Telja stefnendur að stefnda hafi verið óheimilt að svipta þá rétti sínum eins og á stóð í þessu máli, enda hafi ekkert komið fram um nauðsyn friðunar eða töku spildunnar til framkvæmda þar. Með háttsemi sinni hafi stefndi brotið meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.

Hvað lagarök varðar vísa stefnendur til Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. stjórnskipunarlög nr. 97/1995, skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001, laga um búfjárhald nr. 103/2002 og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Loks vísa stefnendur til meginreglna samningaréttarins. Kröfu um málskostnað styðja stefnendur með vísan til XXI. kafla laga um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 en stefnendur hafa ekki frádráttarrétt á móti virðisaukaskatti sem þeim ber að greiða.

Málsástæður og lagarök stefnda

Kröfu um sýknu af kröfu stefnenda varðandi erfðafesturétt að ræktuðu landi nr. 86 á Blönduósi byggir stefndi á því að enginn samningur hafi verið gerður við Kára Snorrason en frá honum hafi faðir stefnenda fengið réttindi sín. Kári Snorrason hafi ekki verið með erfðafesturétt að landinu og því hafi hann ekki getað afsalað slíkum rétti til föður stefnenda. Leigusamningar þeir sem aðallega voru í notkun hjá stefnda þegar nefndum Kára var úthlutað lóð árið 1958 hafi verið staðlaðir og báru með sér að þeir gátu bæði verið leigusamningar og erfðaleigusamningar. Slíkir samningar verði ekki hluti af samningi aðila nema báðir aðilar undirriti þá við samningsgerðina. Stefndi heldur því fram að Kári Snorrason hafi eingöngu fengið spilduna á leigu en ekki erfðafestu og telur stefndi að stefnendur beri sönnunarbyrði fyrir því að um erfðafestu hafi verið að ræða. Stefnendum hafi ekki tekist slík sönnun í þessu máli.

Kröfu um sýknu af ógildingu á ákvörðun sinni um innlausn á títtnefndri landspildu, sem tekin var 22. júlí 1998, byggir stefndi á því að enginn hafi talið til réttinda yfir spildunni, enginn skriflegur samningur hafi verið gerður um þessa landspildu og stefnendur geti ekki átt neitt tilkall til landsins. Stefnendur hafi ekki lagt fram nein gögn eða komið með lagarök sem leiði til þess að þeir eigi þann rétt sem þeir halda fram. Stefndi telur þó hugsanlegt að eðlilegt sé að meta bætur til dánarbús Guðmundar Jónssonar fyrir ræktun og girðingar vegna ígildis leiguréttar en þó liggi fyrir að landið sé í órækt og girðingar löngu ónýtar og raunar hættulegar. Stefndi mótmælir því að stefnendur hafi öðlast ótímabundinn erfðafesturétt að landinu. Slík réttindi geti ekki stofnast vegna aðgerðaleysis málsaðila og verða ekki með nokkru móti virk nema með skriflegum samningi aðila. Stefndi byggir einnig á þeirri meginreglu erfðaréttar að leiguréttindi, þ.e. réttindi leigutaka samkvæmt leigusamningi, erfist ekki. Stefndi heldur því fram að stefnendur hafi ekki sýnt fram á að réttur hafi verið brotinn á þeim með bókun bæjarráðs Blönduósbæjar frá 22. júlí 1998. Ekkert sé athugavert við að ákveða að leysa til sín eigið land og vísar stefndi því á bug að með ákvörðuninni hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu, andmælarétti eða meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Stefndi heldur því enn fremur fram að öll hugsanleg réttindi stefnenda varðandi spilduna séu niður fallin sökum tómlætis en allt frá árinu 1983 til ársins 2002 hafi stefnendur ekkert aðhafst til þess að skýra eða sannreyna inntak meintra réttinda sinna til landsins.

Af hálfu stefnda er einnig byggt á því að allar hugsanlegar kröfur stefnenda hafi verið fyrndar hinn 22. júlí 1998 en þá voru liðin u.þ.b. 15 ár frá því að faðir þeirra lést. Ákvörðun stefnda, sem tekin var 22. júlí 1998, hafi því ekki á nokkurn hátt varðað hagsmuni eða réttindi stefnenda. Hvað þetta varðar vísar stefndi til laga nr. 20/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.

Stefndi heldur því fram að ef dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að stefnendur eigi erfðafesturétt að landinu þá séu þeir bundnir af öðrum skilmálum sem fram koma í stöðluðum samningsformum frá þessum tíma. Þeir séu þannig bundnir af 5. gr. þeirra samninga en þar komi fram að lóð skuli vera fullgirt með fjárheldri girðingu, þurrkuð og fullræktuð innan ákveðins tíma en að öðrum kosti falli landið aftur til eiganda án þess að nokkuð greiðist fyrir það sem unnið kann að hafa verið við ræktun þess og þurrkun. Stefndi heldur því fram að ræktað land nr. 86 hafi ekki verið girt fjárheldri girðingu til fjölda ára og vísar stefndi til ljósmynda sem lagðar hafa verið fram í málinu þessu til stuðnings.

Hvað lagarök varðar vísar stefndi til Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og til meginreglna eigna- og samningaréttar, þar með talin lög nr. 7/1936, og til laga nr. 86/1943 um ákvörðun leigumála og söluverð lóða og landa Reykjavíkurkaupstaðar. Krafa um málskostnað byggist á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

IV

Niðurstaða

Við úrlausn máls þessa verður fyrst að skera úr um hvert var inntak leigusamnings milli Kára Snorrasonar og stefnda en af þeim samningi leiddi faðir stefnenda rétt sinn. Stefnendur leiða þann rétt sem þeir telja sig eiga til spildunnar af samningi föður þeirra við Kára. Samningur Kára Snorrasonar og stefnda var gerður á árinu 1958 en ekki er deilt um stærð landsins eða mörk þess.

Kári Snorrason kom fyrir dóminn og taldi víst að einhverra hluta vegna hefði ekki verið gerður skriflegur samningur milli hans og stefnda um landið á sínum tíma. Hann hefði sótt um þetta land og fengið því úthlutað og með einhverjum hætti hafi honum verið tilkynnt um úthlutunina. Hann sagði að skilmálar samningsins hefðu verið þeir að honum hafi verið heimilt að rækta landið og byggja á því kofa og það hafi hann gert. Hann hafi síðan nýtt landið til beitar og verið þar með nokkrar kindur og hænsni. Þá taldi hann víst að hann hefði girt landið af. Vitnið kvaðst hafa látið Guðmund Jónsson hafa spilduna með því sem á henni var en hann mundi ekki til þess að þeir hefðu gert um það skriflegan samning. Vitnið kvaðst ekki hafa velt því fyrir sér á þessum tíma hvort hann hefði fengið landið á leigu eða hvort um erfðafestu var að ræða. Hann hafi einungis verið að hugsa um að fá þetta land til afnota. Vitnið kvaðst hafa gert ráð fyrir að skilmálar samningsins væru þeir sömu og hjá öðrum sem fengu land á þessum tíma og þá í samræmi við reglur sem um þetta giltu. Vitnið mundi ekki hvort hann og Guðmundur ræddu eitthvað um það hvaða réttindi fylgdu landinu.

Vitnið Jón Ísberg, fyrrverandi sýslumaður, var í hreppsnefnd Blönduóshrepps frá 1958 til 1978. Hann bar fyrir dóminum að á þessum tíma hafi hreppurinn átt nægt land og margir hefðu fengið spildur til afnota. Hann sagði að þá hafi enginn greinarmunur verið gerður á því hvort um venjulega leigu var að ræða eða erfðafestu. Það hafi ekki verið gert fyrr en dómur gekk í Kópavogi varðandi leigt land en þann dóm hafi menn skilið svo að erfðaleigu mætti nánast jafna við eignarrétt.

Í málinu hafa verið lagðir fram 15 samningar sem taka til leigu á ræktunarlandi á Blönduósi. Elsti samningurinn er frá 1940 en sá yngsti frá árinu 1974. Samningarnir eru allir nánast samhljóða á stöðluðu samningsformi í 8 tölusettum liðum. Í forminu er sagt að land sé selt á leigu eða erfðaleigu. Hins vegar háttar svo til að ekki er alltaf merkt við hvort um er að ræða leigu eða erfðaleigu og standa bæði orðin þá í samningnum. Svo háttar til í sex af framlögðum samningum en tveir þeirra eru frá árinu 1952, einn frá 1953, tveir frá 1959 og einn frá 1967. Fjórir samningar eru frá árunum 1971 til 1972 og þar er merkt við að land sé selt á leigu. Í fimm samningum frá árunum 1942, 1952, 1968, 1971 og 1974 er land selt á erfðaleigu. Ekki verður út frá því gengið að samningar þar sem hvorki er merkt við leigu né erfðaleigu séu erfðaleigusamningar. Þegar horft er til þess hversu misjafn háttur var hafður á við gerð leigusamninganna og framburðar vitnanna Kára Snorrasonar og Jóns Ísbergs er það mat dómsins að stefnendur beri sönnunarbyrði fyrir því að samningur sá sem þeir leiða rétt sinn af hafi verið erfðaleigusamningur, enda veitir slíkur samningur meiri rétt en almennt er um leigusamninga. Stefnendum hefur ekki tekist að sanna að samningur Kára Snorrasonar hafi verið erfðaleigusamningur. Verður stefndi því sýknaður af kröfu stefnenda um að þeir eigi erfðafesturétt að títtnefndri landspildu.

Stefnendur krefjast þess að ákvörðun stefnda frá 22. júlí 1998 um innlausn á spildunni verði ógilt. Ákvörðun stefnda um að leysa til sín landið verður ekki skilin á annan veg en þann að verið sé að segja upp afnotum af landinu. Slík ákvörðun er einkaréttarlegs eðlis og því eiga ákvæði stjórnsýslulaga ekki við um hana eins og stefnendur halda fram. Hvort ákvörðunin um að segja upp afnotum af spildunni var kynnt stefnendum fyrir hönd dánarbús föður þeirra á eðlilegan máta þannig að bindandi væri fyrir þá er hins vegar ekki til úrlausnar hér og ekki heldur hvort síðari uppsögn leigusamningsins hafi farið fram með lögformlegum hætti. Stefndi er því einnig sýknaður af þessari kröfu stefnenda.

Með hliðsjón af málavöxtum öllum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómarans. Aðilar hafa skriflega lýst því yfir að þeir telji ekki þörf á endurflutningi málsins vegna þessa.

DÓMSORÐ

Stefndi, Blönduósbær, er sýkn af kröfum stefnenda, Finnboga Guðmundssonar og Jóns Guðmundssonar.

Málskostnaður fellur niður.