Hæstiréttur íslands

Mál nr. 451/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Áfrýjunarfjárhæð
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Föstudaginn 2. september 2011.

Nr. 451/2011.

A

(Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.)

gegn

B

(Kristján Stefánsson hrl.)

Kærumál. Fjárnám. Áfrýjunarfjárhæð. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

A kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um ógilt yrði fjárnám sýslumanns sem fram hafði farið kröfu B. Í dómi Hæstaréttar sagði samkvæmt gögnum málsins væri höfuðstóll þeirrar meðlagskröfu sem B leitaði fullnustu á hjá A, 454.797 krónur. Yrði skilyrðum um áfrýjunarfjárhæð í 1. og 2. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 beitt um kæru sem þessa, sbr. 4. mgr. 150. gr. og 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 og næði krafan ekki þeirri fjárhæð. Var málinu því vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Eiríkur Tómasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. júlí 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. júlí 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að ógilt yrði fjárnám, sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði gerði hjá honum 18. mars 2011 fyrir kröfu varnaraðila að fjárhæð samtals 633.165 krónur. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að framangreint fjárnám verði fellt úr gildi og sér dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum málsins var höfuðstóll þeirrar meðlagskröfu, sem varnaraðili leitaði fullnustu á hjá sóknaraðila, 454.797 krónur. Skilyrði um áfrýjunarfjárhæð í 1. mgr. og 2. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður beitt um kæru sem þessa, sbr. 4. mgr. 150. gr. laganna og 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989, svo sem ítrekað hefur verið í dómaframkvæmd Hæstaréttar eftir að dómur gekk, sem birtur er í dómasafni réttarins 1994, bls. 1101. Krafan, sem mál þetta varðar, nær ekki áfrýjunarfjárhæð samkvæmt fyrstnefnda lagaákvæðinu. Verður málinu því vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, B, 250.000 krónur í kærumálskostnað.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. júlí 2011.

                Mál þetta barst dóminum 20. apríl 2011 og var tekið til úrskurðar 9. júní 2011. Sóknaraðili er A, [...],[...]. Varnaraðili er B, [...],[...].

                Sóknaraðili krefst þess að fjárnámsgerð sýslumannsins í Hafnarfirði sem fram fór 18. mars 2011, verði ógilt með úrskurði héraðsdóms. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

                Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hrundið og fjárnámsgerð sýslumannsins í Hafnarfirði standi óbreytt. Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað.

                Er málið var tekið fyrir 9. júní sl. lagði varnaraðili fram greinargerð í málinu ásamt greiðsluáskorunum. Lögmenn aðila lýstu gagnaöflun lokið og töldu ekki þörf á munnlegum málflutningi. Að því loknu var málið tekið til úrskurðar að kröfu lögmanns sóknaraðila og sætti það ekki andmælum af hálfu varnaraðila.

I.

                Í málsatvikalýsingu sóknaraðila segir að aðilar hafi verið í hjónabandi en upp úr því hafi slitnað og gengið hafi verið frá skilnaðarsamningi í maí 2005 þar sem hvort þeirra átti að ábyrgjast greiðslu á lausaskuldum sínum samkvæmt framlögðum skilnaðarsamningi. Skömmu síðar hafi komið í ljós að varnaraðili hafi ítrekað falsað undirskriftir sóknaraðila á lánaskjöl og hún hlotið dóm fyrir það. Áður en þetta kom í ljós hafi varnaraðili tjáð sóknaraðila að hún ætti í greiðsluvanda og fengið hann til að gangast í sjálfskuldarábyrgð á tveimur lánum hjá Íslandsbanka og einnig fengið hann til að taka lán í eigin nafni hjá Sparisjóði vélstjóra sem samkomulag hafi verið um að hún greiddi af. Þrátt fyrir samkomulag um að varnaraðili greiddi af umræddu láni hafi það alfarið komið í hlut sóknaraðila að greiða þessi lán sem nú hafi verið greidd að fullu og nemi greiðslur sóknaraðila vegna þess samtals 7.773.278 kr.

                Í maí 2009 hafi aðilar gert með sér dómsátt í máli sem sóknaraðili hafi höfðað gegn varnaraðila til endurgreiðslu á 1.456.738 kr. sem sé sú upphæð sem sóknaraðili hafi þá greitt sem ábyrgðarmaður á áðurnefndum lánum hjá Íslandsbanka. Í kjölfar réttarsáttar hafi sóknaraðili skuldajafnað kröfu sína við kröfu varnaraðila um viðbótarmeðlag. Í yfirlýsingu um skuldajöfnuð hafi verið lýst yfir skuldajöfnuði viðbótarmeðlagsgreiðslna sóknaraðila til móts við greiðslur hans af ofangreindu láni allt þar til greiðslum af láninu linnti eða börn aðila næðu 18 ára aldri. Í aðfararbeiðni komi fram að sóknaraðili hafi í dag greitt 5.242.297 kr. vegna sjálfskuldarábyrgðar á umræddum lánum varnaraðila. Krafa sóknaraðila sé því hærri en krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila.

                Við fyrirtöku aðfarargerðarinnar hjá sýslumanninum í Hafnarfirði hafi sóknaraðili mótmælt framgangi hennar en lyktir hafi verið þær að gert var árangurslaust fjárnám. Sóknaraðili hafi kært aðfarargerðina til Héraðsdóms Reykjaness.

                Í greinargerð varnaraðila er málsatvikalýsingu sóknaraðila mótmælt og heldur varnaraðili því fram að meint forsaga hafi hér enga þýðingu. Aðilar hafi verið í hjónabandi og eigi saman tvö börn en sóknaraðili hafi ekki staðið skil á meðlagsgreiðslum og því hafi varnaraðila verið nauðugur sá kostur einn að leita fjárnáms.

II.

                Sóknaraðili byggir á því að kröfunni sem beiðnin byggir á hafi verið skuldajafnað við kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila og því væri krafan sem aðfararbeiðnin byggir á fallin niður. Þrátt fyrir það hafi sýslumaðurinn í Hafnarfirði látið aðfarargerðina fara fram og lokið henni með árangurslausu fjárnámi 18. mars 2011.

                Sóknaraðili telur skuldajöfnuð þennan heimilan og vísar í því sambandi til dóms Hæstaréttar uppkveðnum fimmtudaginn 26. febrúar 2009 í máli nr. 369/2008. Ágreiningur í því máli hafi staðið um hvort hjónum hafi verið heimilt í fjárskiptasamningi að semja um að viðbótarmeðlagi væri ráðstafað með þeim hætti að eignarhlutur annars hjóna í fasteign ykist líkt og um eingreiðslu á viðbótarmeðlaginu væri að ræða. Hafi það verið niðurstaða dómsins að heimilt væri að viðbótarmeðlagsgreiðslur yrðu greiddar í eingreiðslu sem eignayfirfærsla við uppgjör aðila við skilnað. Hafi dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að barnalögin banni ekki ótvírætt samninga um að greiðsla viðbótarmeðlags sé innt af hendi í einu lagi og í ljósi meginreglunnar um samningsfrelsi hjóna til að ráðstafa eignum sínum við fjárslit vegna skilnaðar hefði þurft að kveða á um slíka reglu í lögum hafi ætlunin verið að taka hana upp. Sóknaraðili telur að af þessari niðurstöðu Hæstaréttar megi ráða að grundvallarlögfræðilegur munur sé á greiðslu einfalds meðlags og greiðslu viðbótarmeðlags. Um einfalt meðlag segi í lögum að greiða skuli það mánaðarlega fyrirfram nema annað sé löglega ákveðið. Aftur á móti sýni niðurstaða Hæstaréttar að greiðsla viðbótarmeðlags lúti almennum reglum samningaréttar og þar af leiðandi einnig almennum reglum kröfuréttar. Eins telur sóknaraðili að ráða megi af fyrrgreindum dómi að þótt meðlag sé ætlað til framfærslu barns sé það meðlagsþiggjandi sem sé kröfueigandi, enda komi skýrt fram í dóminum að hjónum sé heimilt að ráðstafa eignum sínum, þ.e. viðbótarmeðlagi í þessu tilfelli, við fjárslit hjóna. Sóknaraðili telur því að varnaraðili sé sannanlega kröfueigandi að viðbótarmeðlagi og því séu kröfurnar, sem skuldajafnað hafi verið, á milli sömu aðila.

                Eins telur sóknaraðili óumdeilt að kröfurnar séu samkynja, gildar og fallnar í gjalddaga og að skilyrðum til skuldajafnaðar sé fullnægt.

                Sóknaraðili byggir enn fremur á því að varnaraðili hafi sýnt af sér tómlæti þar sem skuldajafnaðaryfirlýsingu sóknaraðila, dags. 28. maí 2009, hafi ekki verið mótmælt fyrr en tæpu ári eftir að yfirlýsing um skuldajöfnuð hafi borist varnaraðila. Með þessu hafi varnaraðili sýnt af sér slíkt tómlæti sem jafna megi við samþykki við skuldajöfnuðinum. Að öllu framansögðu virtu telur sóknaraðili að hafna hefði átt kröfu varnaraðila um aðför og því beri að ógilda aðfarargerðina.

                Um lagarök vísar sóknaraðili til laga nr. 90/1980 um aðför, einkum XV. kafla laganna, og almennra reglna samninga- og kröfuréttar.

                Um málskostnað vísar sóknaraðili til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Loks styðst kæruheimild sóknaraðila við 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

III.

                Varnaraðili hafnar yfirlýsingu um skuldajöfnuð og byggir á því að ekki séu til staðar skilyrði skuldajafnaðar. Í greinargerð varnaraðila segir að meðlag tilheyri barni og skuli notað í þágu þessi. Sá sem standi straum af útgjöldum vegna framfærslu barns geti hins vegar krafist þess að meðlag sé ákveðið og innheimt, enda hafi viðkomandi forsjá barns eða barn búi hjá honum samkvæmt lögmætri skipun. Varnaraðili fari með forsjá barnanna samkvæmt skilnaðarsamningi og þar hafi verið kveðið á um að greiða skuli tvöfalt meðlag. Í greinargerð sóknaraðila segir enn fremur að í frumvarpi því er hafi orðið að barnalögum komi fram að þýðing þess að meðlag tilheyri barni sé m.a. sú að meðlag verði ekki notað til skuldajafnaðar við skuldir þess foreldris sem fær meðlagið. Þess sé því krafist að gerðin nái fram að ganga.

                Varnaraðili byggir kröfu sína á ákvæðum barnalaga nr. 76/2002. Jafnframt vísar varnaraðili til ákvæða laga nr. 90/1989 um aðför.

                Krafa um málskostnað er byggð á ákvæðum einkamálalaga nr. 91/1991 og lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Nánar tiltekið er málskostnaðarkrafa byggð á 1. mgr. 130. gr. og á grundvelli c-liðar 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.

IV.

                Í máli þessu telur sóknaraðili að honum hafi verið heimilt að skuldajafna viðbótarmeðlagi við skuld samkvæmt skuldabréfi sem aðilar gerðu réttarsátt um. Krafa sóknaraðila sé hærri en viðbótarmeðlag og því hafi ekki verið heimilt að gera fjárnám hjá sóknaraðila. Vísar sóknaraðili máli sínu til stuðnings til dóms Hæstaréttar í máli nr. 369/2008. Málsatvik þar voru þau að aðilar höfðu gert samning um eingreiðslu viðbótarmeðlags, en M krafðist þess svo að samningurinn yrði felldur úr gildi þar sem hann væri bersýnilega ósanngjarn auk þess sem ákvæði um eingreiðslu meðlags væri í andstöðu við ákvæði barnalaga nr. 76/2003. Var kröfu M, um að samningurinn yrði felldur úr gildi, hafnað þar sem barnalög banni ekki ótvírætt samninga um eingreiðslu viðbótarmeðlags. Þá voru ógildingarástæður ekki taldar vera fyrir hendi. Samkvæmt þessu voru málsatvik með öðrum hætti en í máli því sem er hér til úrlausnar og að mati dómsins dregur sóknaraðili of víðtækar ályktanir af dóminum.

                Samkvæmt 2. mgr. 63. gr. barnalaga nr. 76/2003 tilheyrir meðlag barni og skal notað í þágu þess. Það foreldri sem fær meðlagið innheimtir hins vegar meðlagið og ráðstafar greiðslunum til framfærslu barns eftir því sem best hentar. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að barnalögum er sérstaklega tekið fram að þýðing þess að meðlag tilheyri barni sé fyrst og fremst sú að meðlagi verði ekki skuldajafnað við skuldir þess foreldris sem fær meðlagið. Auk þess segir í greinargerðinni að ákvæðið stuðli að því að foreldrar haldi kröfu um meðlag utan við annan ágreining sem þeir kunna að eiga í, í þessu tilviki ágreining um lán sem sóknaraðili var ábyrgðarmaður fyrir og aðilar gerðu réttarsátt um. Af lögunum og ummælum í greinargerð er ekki unnt að draga þá ályktun að ákvæðið eigi aðeins við um einfalt meðlag en ekki viðbótarmeðlag.

                Með vísan til framangreinds verður kröfu sóknaraðila hafnað og getur athafnaleysi varnaraðila við yfirlýsingu um skuldajöfnuð ekki leitt til þess að fallist verði á skuldajöfnuð sem er beinlínis andstæður lögum. Er því staðfest aðfarargerð sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði gerði hjá sóknaraðila 18. mars 2011 í máli nr. 036-2011-00011.

                Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 125.000 krónur.

                Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Staðfest er aðfarargerð sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði gerði hjá sóknaraðila 18. mars 2011 í máli nr. 036-2011-00011.

                Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, B, 125.000 krónur í málskostnað.