Hæstiréttur íslands
Mál nr. 9/2003
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Örorka
- Skaðabætur
- Uppgjör
|
|
Fimmtudaginn 12. júní 2003. |
|
Nr. 9/2003. |
Helena Fuglö(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Bifreiðir. Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur. Uppgjör.
H slasaðist í umferðarslysi á árinu 1990. Gekk H til uppgjörs við vátryggingafélagið V hf. á árinu 1991 um bætur vegna slyssins á grundvelli örorkumats læknis um 10% varanlega örorku, en þá hafði annar læknir einnig metið örorku hennar og talið hana vera 15%. H, sem taldi örorku sína að miklum mun meiri en uppgjörið var miðað við, höfðaði mál á hendur V hf. á árinu 2000. Mátu dómkvaddir matsmenn læknisfræðilega örorku H 20% á árinu 2001. Talið var að H hafi ekki sýnt fram á að forsendur hafi brostið fyrir bótauppgjörinu og því væru engin efni til að taka það upp af þeim ástæðum. Hún hafi tekið við bótum frá V hf., sem hafi verið fullnaðartjónsbætur, án nokkurs fyrirvara. Þá hafi hún ekki sýnt fram á að skilyrði væru til að víkja því til hliðar á grundvelli 36. gr. samningalaga. Var V hf. því sýknað af kröfu H.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. janúar 2003. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér aðallega 7.417.420 krónur, en til vara 3.671.210 krónur, með nánar tilgreindum ársvöxtum frá 15. febrúar 1996 til 25. október 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í matsgerð dómkvaddra manna er lýst margs konar heilsubresti, sem áfrýjandi á við að stríða, og er ýmist afleiðing slyssins eða alls ótengdur því. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2002.
Mál þetta var höfðað 10. febrúar 2000 og var dómtekið 1. nóvember sl.
Stefnandi er Helena Fuglö, Brekkustíg 6, Sandgerði.
Stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda slysatryggingabætur að fjárhæð 7.417.420 krónur með 0,65% ársvöxtum frá 15. febrúar 1996 til 1. október 1996, með 0,75% ársvöxtum frá þeim degi til 21. janúar 1997, með 9,0% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 1997, með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 1. apríl 1998, með 0,7% ársvöxtum frá þeim degi til 21. október 1998, með 0,6% ársvöxtum frá þeim degi til 11. apríl 1990, með 0,7% ársvöxtum frá þeim degi til 21. janúar 2000, með 1,2% ársvöxtum frá þeim degi til 21. ágúst 2000, með 1,3% ársvöxtum frá þeim degi til 21. nóvember 2000, með 1,7% ársvöxtum frá þeim degi til 25. október 2001, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda slysabætur að fjárhæð 6.146.190 með sömu vöxtum og að ofan greinir til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt gjaldskrá Landslaga, lögfræðistofu.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og að því verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins, en til vara að stefnukröfur verði stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Málavextir
Málsatvik eru þau að 16. febrúar 1990 var ekið aftan á bifreið stefnanda, R-12818, sem hún hafði stöðvað við gangbraut yfir Garðabraut í Garði til að hleypa skólabörnum yfir götuna. Við áreksturinn kveðst stefnandi hafa fundið eins og eitthvað hrykki til í hálsinum og kveðst hún hafa fengið hitatilfinningu aftan til í hálsinum. Nokkrum klukkustundum síðar hafi hún fengið mikinn verk í háls, hnakka og höfuð. Einnig hafi hún fundið fljótlega fyrir verkjum út í axlir og niður í hendur.
Samkvæmt matsgerð Atla Þórs Ólasonar leitaði stefnandi ekki læknis fyrr en haustið 1990, fyrst til Arinbjörns Ólafssonar og síðan til Páls Þorgeirssonar 27. nóvember það ár. Samkvæmt vottorði Páls, dags. 20.desember 1990, lýsti stefnandi því að hafa fengið mikinn hnykk á hálsinn, þegar áreksturinn varð, og fundist eins og eitthvað hrykki þar til. Síðan hafi farið að bera á verk aftan í hálsinum með leiðni upp í hnakka. Samkvæmt vottorði Páls Þorgeirssonar læknis, dags. 30. apríl 1991, var tekin röntgenmynd af hálsliðum stefnanda 21. febrúar 1991. Reyndust vera hrörnunarbreytingar í hálsi stefnanda, óviðkomandi slysinu, sem lýstu sér í samruna milli C:IV og C:VII og þrengingu á rótargöngum milli liðbola V og VI og beinnabbamyndun á afturbrún liðbolanna.
Stefnandi var 42 ára að aldri á slysdegi og heimavinnandi húsmóðir með 3 börn. Hinn 29. janúar 1991 mat Atli Þór Ólason læknir stefnanda 10% varanlega örorku af völdum slyssins. Hinn 22. maí 1991 mat Björn Önundarson læknir stefnanda 15% varanlega örorku af sömu sökum. Segir í matsgerð Björns, að við áreksturinn hafi stefnandi fengið hnykk á háls og herðar. Beri slasaða nú töluverð einkenni afleiðinga slyssins, nær stöðugan verk í hnakka, meiri vinstra megin, og óþægindi í vinstri öxl. Geti hún og lítt beitt vinstri hendi, bæði vegna óþæginda frá axlarsvæði, herðum og hnakkafestum vinstra megin, en einnig vegna kraftskerðingar í gripi vinstri handar.
Þáverandi lögmaður stefnanda fékk Guðjón Hansen tryggingafræðing til að reikna út örorkutjón stefnanda á grundvelli örorkumats Atla Þórs Ólasonar læknis annars vegar miðað við heimilisstörf og hins vegar miðað við algengar launatekjur kvenna. Bifreið stefnanda var skylduvátryggð hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf., þmt. slysatrygging ökumanns. Samdi lögmaður stefnanda við stefnda um bætur fyrir slysið á grundvelli örorkumats Atla Þórs og útreiknings Guðjóns Hansen sem miðaðist við heimilisstörf. Tók lögmaðurinn hinn 3. september 1991 við greiðslu bótanna og kvittaði fyrir þeim sem fullnaðartjónbótum og að allar kröfur vegna tjónsins væru að fullu greiddar.
Er fram liðu stundir taldi stefnandi bótauppgjörið frá 3. september 1991 vera of lágt. Hinn 20. febrúar 2000 höfðaði hún mál þetta með birtingu stefnu til að rjúfa 10 ára fyrningarfrest á frekari bótakröfum vegna slyssins. Hafði stefndi synjað um endurupptöku málsins.
Samkvæmt matsbeiðni, dags. 15. nóvember 2000, sammæltust málsaðilar um að biðja læknana Ragnar Jónsson og Sigurjón Sigurðsson að meta læknisfræðilega og fjárhagslega örorku stefnanda eftir slysið og hvenær endanlegar afleiðingar þess hefðu verið komnar fram og tímabært að framkvæma örorkumat. Áskildi stefndi sér samt rétt til að bera fyrir sig fyrningu á frekari bótakröfum og að með aðild að matsbeiðninni væri ekki verið að viðurkenna rétt til endurupptöku málsins, enda hefði fyrirvaralaust uppgjör þegar farið fram.
Samkvæmt matsgerð læknanna tveggja, dags. 15. september 2001, töldu þeir varanlega örorku stefnanda af völdum slyssins hafa verið metna of lágt með tilliti til þeirra einkenna sem hún væri með er matið fór fram og rekja mætti til slyssins. Í matsgerð þeirra er vitnað til vottorðs Ingólfs Sveinssonar sérfræðings í geðlækningum þar sem segi að slysið hafi svipt hana heilsu sinni að mjög verulegu leyti. Telja þeir að tímabært hafi verið að meta afleiðingar slyssins 1 ári eftir slysið, eða samkvæmt venju 1-3 árum eftir slysið. Varanlega læknisfræðilega örorku hennar vegna slyssins telja þeir vera 20%. Fjárhagslega örorku mátu þeir 30%.
Á grundvelli þessa örorkumats reiknaði Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur höfuðstólsverðmæti meints örorkutjóns stefnanda af völdum slyssins miðað við 20% og 30% varanlega örorku og jafnframt miðað við 15. febrúar 1996 í stað slysdags. Þá var tjónið bæði reiknað út miðað við að stefnandi væri útivinnandi og ynni fullt starf á heimili. Setti stefnandi fram endanlega kröfugerð á hendur stefndu á grundvelli þessara gagna með kröfugerð 25. okt. 2001. Er í kröfugerð miðað við að stefnandi væri útivinnandi.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Um bótarétt stefnanda á hendur stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., vísar stefnandi til 1. mgr. 92. greinar umferðalaga nr. 50 /1987, en stefnandi hafi keypt lögboðna slysatryggingu ökumanns hjá félaginu. Stefnandi hafi búið við verulega skerta heilsu allt frá slysdegi og nær algera starfsorkuskerðingu frá hausti 1997.
Krafa um endurupptöku byggist á því að vegna aukinnar örorku stefnanda séu forsendur brostnar fyrir fyrra skaðabótauppgjöri auk þess sem í því hafi ekki verið byggt á ólögfestum reglum íslensks skaðabótaréttar, byggðum á dómvenju, um útreikning tjóns og frádrátt vegna skatthagræðis.
Stefnandi byggir einkum á því að örorka hennar sé miklum mun meiri en hún hafi verið þegar uppgjör slysamáls hennar fór fram árið 1991 og afleiðingar slyssins mun alvarlegri en ráð hafi verið fyrir gert þá. Forsendur fyrir uppgjörinu séu því algjörlega brostnar og stefnanda beri að fá greiddar auknar bætur. Stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., beri samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar að bæta stefnanda allt það tjón sem hún varð fyrir í fyrrnefndu umferðarslysi, en aðeins lítill hluti þess hafi enn verið bættur.
Stefnandi styður kröfur sínar við matsgerð Ragnars Jónssonar og Sigurjóns Sigurðssonar bæklunarlækna auk þeirra álitsgerða og læknisvottorða sem fyrir liggi. Uppgjör skaðabótamáls stefnanda árið 1991 hafi, a.m.k. að nafninu til, byggst á örorkumati Atla Þórs Ólasonar, dags. 29.1.1991. Eins og áður segi hafi afleiðingar slyssins aukist mikið síðan þá, líkt og fyrirliggjandi gögn vitni um.
Um miðja blaðsíðu 8 í fyrrnefndu örorkumati þeirra Ragnars Jónssonar og Sigurjóns Sigurðssonar segi svo:
"Undirritaðir telja að örorka Helenu hafi verið metin of lágt með tilliti til þeirra einkenna sem hún hefur í dag og rekja má til slysins. Í læknisvottorði Ingólfs Sveinssonar sérfræðings í geðlækningum segir að slysið sem um ræðir hafi svift hana heilsu sinni að mjög verulegu leyti. Í skýrslu Hreyfigreiningar frá 17. mars 2001 kemur fram í samantekt að Helena hafi hlotið tognunaráverka á hálshrygg aðallega C. 4 og 5 vinstra megin og þessi tognun valdi stöðugum verk á þessu svæði svo og í vinstri axlargrindarsvæði.”
Athygli sé vakin á því að þetta sé niðurstaða Ragnars Jónssonar, ráðgefandi trúnaðarlæknis stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., sem hér sé vitnað til. Með matsgerðinni og öðrum framlögðum skýrslum og vottorðum hafi stefnandi sýnt fram á að heilsufari hennar hafi hrakað mjög af völdum umferðarslyssins 1990 og varanleg læknisfræðileg örorka hennar aukist. Þessi mikli munur réttlæti að málið sé endurupptekið og stefnandi fái skaðabætur vegna hinnar auknu örorku sinnar.
Einnig sé ljóst, þegar bótauppgjörið frá 1991 sé skoðað, að það sé í engu samræmi við þágildandi reglur um skaðabætur fyrir líkamstjón, en þær hafi byggst á skýrri og almennt viðurkenndri dómvenju. Virðist Vátryggingafélag Íslands hf. hafa náð að knýja fram einhvers konar geðþóttaákvörðun sína í málinu með því að neita nokkurri greiðslu ef fyrirvari væri gerður við uppgjörið. Vísar stefnandi að þessu leyti til almennra reglna skaðabótaréttar um endurupptöku skaðabótamála vegna líkamstjóna, sem að nokkru eigi rót sína að rekja til almennra reglna kröfuréttar um brostnar forsendur.
Þá byggir stefnandi á 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og sjónarmiðum að baki henni, þar sem telja verði að uppgjör stefnanda hafi verið henni afar ósanngjarnt og fjarri því að veita henni fullar bætur fyrir það líkamstjón, sem sannanlega sé afleiðing slyss hennar árið 1990. Sé því sanngjarnt og eðlilegt að því verði vikið til hliðar svo að rétt uppgjör á líkamstjóni stefnanda geti átt sér stað, þótt seint sé.
Þá hefur stefndi með framgöngu sinni í þessu máli, bæði í upphaflegu uppgjöri og synjun á endurupptöku þess, brotið freklega gegn góðum viðskiptaháttum og venjum í vátryggingaviðskiptum sem lögfest séu í 12. gr. l. um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994.
Við ákvörðun bótafjárhæðarinnar vegna skaðabótaábyrgðar stefndu beri að líta til ólögfestra reglna íslensks skaðabótaréttar um mat á fjárhæðum skaðabóta fyrir líkamstjón, enda hafi slys stefnanda gerst fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 28. gr. laganna. Þessar reglur séu skýrar og byggðar á áralangri dómvenju í íslenskum skaðabótarétti og uppgjörum vátryggingafélaganna, byggðum á þeirri dómvenju. Dómstólar hafi jafnan byggt á örorkumati sérfróðs læknis, sem metið hafi líklegar afleiðingar tiltekins áverka á framtíðaraflahæfi þess slasaða. Mörg fordæmi Hæstaréttar á síðustu árum styðji þessa dómvenju.
Í máli þessu geri stefnandi aðallega kröfu um greiðslu skaðabóta að fjárhæð 7.417.420 krónur vegna þess tjóns sem ekki hafi þegar verið bætt, þ.e. fjárhæð heildartjóns stefnanda af slysinu 16. desember 1990 að frádregnum þeim bótum sem þegar hafi verið greiddar við uppgjör þann 30. ágúst 1991. Byggt sé á því að með matsbeiðni hafi stefndi fallist á að greiða stefnanda fjártjón hennar af völdum slyssins 16. febrúar 1990.
Miskabótakrafan sé byggð á dómvenju í íslenskum skaðabótarétti og sett fram með stoð í þágildandi l. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eftir slysið hafi stefnandi þjáðst af stöðugum verkjum í hálsi, sem leiði út í herðar, niður á milli herðablaða og út í vinstri öxl. Hún þoli hvorki álag né kyrrstöður, sé með stöðuga verki í baki og þjáist af vefjagigt og svefnleysi. Um einkenni stefnanda vísist nánar til örorkumats og framlagðra gagna.
Krafan sundurliðist þannig:
Vegna 20% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku 7.374.900 kr.
20% frádráttur vegna skattagr. og þ.h. - 1.474.980 kr.
Töpuð lífeyrisréttindi 442.500 kr.
Miskabætur 1.500.000 kr.
Að frádreginni innborgun stefnda - 425.000 kr.
7.417.420 kr.
Forsendur varakröfu stefnanda eru þær að dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi eigi ekki rétt til bóta fyrir heildartjón sitt að frádregnum þegar greiddum skaðabótum. Byggi varakrafan á því að stefnandi eigi ávallt rétt á bótum fyrir uppgjör á þeirri 10% viðbótarörorku sem sönnuð sé í matsgerð læknanna Ragnars Jónssonar og Sigurjóns Sigurðssonar.
Sundurliðist krafan þannig:
Vegna 10% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku 3.687.450 kr.
20% frádráttur vegna skattagr. og þ.h. - 737.490 kr.
Töpuð lífeyrisréttindi 221.250 kr.
Miskabætur 1.500.000 kr.
6.146.190 kr.
Málsástæður stefnda og lagarök
Stefndi bendir á að frumskilyrði réttar til viðbótarbóta ofan á áður umsamdar og greiddar fullnaðarskaðabætur fyrir líkamsslys sé það að heilsufarslegar afleiðingar slyssins hafi í verulegum mæli orðið aðrar og meiri en ráð hafi verið fyrir gert þegar samið var um bæturnar. Fyrr teljist forsendur bótauppgjörs ekki brostnar.
Er sýknukrafa stefnda á því byggð að þetta frumskilyrði sé ekki fyrir hendi í tilviki stefnanda og að hún sé bundin við fyrirvaralaust samningsuppgjör og fullnaðarkvittun lögmanns síns 3. september 1991 um endanlegt uppgjör skaðabóta á slysinu. Ekki séu heldur skilyrði til þess að víkja bótauppgjörinu til hliðar á grundvelli 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, en bótauppgjörið hafi verið í samræmi við uppgjörsvenjur síns tíma og stefnandi hafi notið lögmannsaðstoðar við uppgjörið. Í annan stað er sýknukrafa stefnda byggð á því, að stefnukröfurnar séu fyrndar samkvæmt 4 ára fyrningarreglu 99. gr. umfl. nr. 50/1987.
Sé ljóst af fyrirliggjandi læknisvottorðum og örorkumötum í málinu að einkenni stefnanda eftir bílslysið 16. febrúar 1991 hafa alltaf verið þau sömu, þ.e. frá hálsi, höfði, vinstri öxl og vinstri handlim, og hafi þessi einkenni verið grundvöllur örorkubóta við skaðabótauppgjörið 3. september 1991, sbr. 10% örorkumat Sigurjóns (sic, en telja verður að átt sé við örorkumat Atla Þórs Ólasonar, dags. 29. janúar 1991), sem uppgjörið hafi byggst á, og sama gildi um 15% örorkumat Björns Önundarsonar, sem einnig hafi legið fyrir þegar bótauppgjörið fór fram. Enn sé byggt á sömu einkennum í 20% örorkumati Ragnars og Sigurjóns. Engar nýjar eða aðrar afleiðingar slyssins hafi hins vegar komið í ljós eftir að uppgjörið fór fram né nokkur veruleg versnun upphaflegra einkenna. Sé þannig ekki tilfellið að nýjar eða ófyrirsjánlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda eftir að bótauppgjörið fór fram eða að örorka hennar sé í raun orðin verulega hærri en þá hafi verið tilfellið. Aðeins sé um það eitt að ræða að matslæknarnir leggi mismunandi mat á sömu einkenni sjúklings. Telji Ragnar og Sigurjón fyrri möt of lág, en nefni hvergi að ný einkenni hafi komið í ljós eða að þau sem frá upphafi hafi verið til staðar hefðu versnað verulega frá því uppgjörið fór fram. Telji þeir enda að tímabært hafi verið að meta afleiðingar slyssins 1-2 árum eftir að það varð. Sé þannig alveg ósannað að nokkur umtalsverð raunveruleg versnun á heilsufari stefnanda hafi átt sér stað frá því bótauppgjörið fór fram eða að nýjar afleiðingar slyssins hafi komið í ljós sem ekki hafi verið reiknað með þegar gengið var frá uppgjöri. Þá séu örorkumöt ekki nein nákvæmnisvísindi og geti munur á mötum um 5-10 örorkustig aldrei talist verulegur. Ekki verði heldur séð að örorkumat Ragnars og Sigurjóns sé eitthvað réttara en örorkumöt þeirra Atla Þórs og Björns Önundarsonar.
Þá séu engin skilyrði til þess að víkja bótauppgjörinu 3. september 1991 til hliðar á grundvelli 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Sé skilyrði þess að svo megi gera að það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera bótauppgjörið fyrir sig. Því sé ekki að heilsa í tilviki stefnanda. Fyrir það fyrsta hafi stefnandi notið lögmannsaðstoðar við bótauppgjörið. Í annan stað hafi bótauppgjörið verið hefðbundið og í takt við uppgjörsvenjur síns tíma, en það hafi verið byggt á örorkumati læknis og höfð hliðsjón af tjónsútreikningi tryggingafræðings, sem stefnandi hafi aflað. Þá hafi verið samkomulag um það við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku að hafa eingöngu til hliðsjónar útreikning „tekjutaps vegna heimilisstarfa” miðað við fullt starf á heimili, enda stefnandi heimavinnandi og ekki útlit fyrir að hún færi út á vinnumarkað. Þá hafi verið samkomulag um að virða til lækkunar útreiknuðu tjóni, hagræði vegna skattfrelsis og eingreiðslu og draga frá bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Hafi það verið í samræmi við dómvenju þess tíma. Til hækkunar hafi síðan verið miski sem ákveðinn hafi verið í takt við dómvenju. Hafi bætur þannig verið fundnar, síðan hækkaðar nokkuð, eins og fram komi í lokauppgjöri. Sé þannig fjarri lagi, sem haldið sé fram af hálfu stefnanda, að bótauppgjörið hafi ekki verið í neinu samræmi við þágildandi reglur um skaðabætur fyrir líkamstjón, eða að stefndi hafi náð fram einhverri geðþóttaákvörðun um bæturnar. Sé rangt og ósannað að stefndi hafi neitað greiðslu, ef fyrirvari væri gerður við uppgjörið, eins og haldið sé fram af hálfu stefnanda. Hafi ekki komið til umræðu eða álita að gera einhvern fyrirvara við samkomulagsuppgjörið, sem lögmaður stefnanda hafi kvittað fyrir án nokkurs fyrirvara og án nokkurrar þvingunar eða skilyrða af hálfu stefnda. Sé bótauppgjörið þannig fjarri því að vera ósanngjarnt gagnvart stefnanda eða að það hafi ekki verið í samræmi við góðar viðskiptavenjur.
Þá sé ljóst að stefnukröfur séu fyrndar samkvæmt 4 ára fyrningarreglu 99. gr. umfl. nr. 50/1987 og leiði það til sýknu, hvað sem öðru líði. Liggi fyrir samkvæmt matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, að tímabært hafi verið að meta afleiðingar slyssins 3 árum eftir slysið, þ.e. eigi síðar en á árinu 1993. Hafi ekkert komið fram sem hnekki því, eða að hinar umstefndu afleiðingar slyssins hafi komið fram eitthvað síðar. Hafi kröfur stefnanda því verið fyrndar í árslok 1997. Stefna sé hins vegar ekki birt fyrr en 10. febrúar 2000.
Að framangreindu virtu ætti að vera ljóst að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Varakrafa stefndu er byggð á því að hafna beri með öllu aðalkröfu stefnanda sem mótmælt er sem rangri og alltof hárri og stórlækka beri þrautavarakröfu, teljist hún eiga við rök að styðjast, en því er mótmælt.
Eigi aðalkrafa stefnanda engan rétt á sér. Krafan sé sett fram eins og varanleg örorka stefnanda af völdum slyssins hafi alltaf verið 20%, en ekki fyrst verið 10% eða 15% og síðan aukist i 20%, sem stefnandi byggir þó allan málatilbúnað sinn á og réttlæti með viðbótarkröfur sínar. Verði hér ekki bæði sleppt og haldið. Þá sé við kröfugerð þessa gengið framhjá þeirri staðreynd að búið sé að bæta allt tjón stefnanda vegna 10% varanlegrar örorku hennar og verði þær bætur ekki teknar sem innborgun upp í stefnukröfurnar. Ætti hér að réttu lagi að krefjast viðbótarbóta vegna læknisfræðilegrar viðbótarörorku umfram 10%, hafi örorka stefnanda sannanlega aukist, en það sé hins vegar alls ósannað, eins og áður sé komið fram. Skorti sönnun þess að varanleg örorka stefnanda af völdum slyssins sé 20% eða hafi aukist um 5% eða 10% frá því Atli Þór og Björn Önundarson mátu örorkuna á sínum tíma.
Varakrafa stefnanda er byggð á því, að stefnandi hafi í raun hlotið 10% varanlega læknisfræðilega viðbótarörorku af völdum slyssins frá því bótauppgjörið fór fram við stefndu í september 1991. Sé ósannað að varanleg örorka stefnanda hafi í raun aukist frá því uppgjörið fór fram, en fyrirliggjandi örorkumöt beri það ekki með sér, eins og áður segi, heldur hið gagnstæða. Þá beri samkvæmt dómvenju að miða útreikning höfuðstólsverðmætis bóta við slysdag en ekki 15. febrúar 1996 eins og stefnandi miði við. Sé útreikningur Jóns Erlings, sem stefnandi byggi á, því óhæfur til viðmiðunar við bótaákvörðun. Ekki sé heldur neinn grundvöllur til að reikna bætur miðað við meðaltekjur verkafólks, eins og gert sé í útreikningnum, þar sem stefnandi hafi verið heimavinnandi, heldur beri samkvæmt dómvenjunni að miða við taxta starfsfólks í matvælaiðnaði. Loks beri að lækka bætur vegna hagræðis af skattfrelsi og eingreiðslu bótanna.
Vaxtakröfum er sérstaklega mótælt, en eldri vextir en 4 ára frá stefnubirtingu séu fyrndir og dráttarvextir eigi ekki rétt á sér fyrr en frá dómsuppsögudegi eins og kröfugerð stefnanda og málsatvikum er háttað.
Niðurstaða
Stefnandi reisir kröfur sínar á því að örorka hennar sé mun meiri í dag en hún hafi verið þegar uppgjör slysamáls hennar fór fram á árinu 1991 og afleiðingar alvarlegri.
Samkvæmt örorkumati Sigurjóns Sigurðssonar og Ragnars Jónssonar frá 15. september 2001 segir um líðan stefnanda: “Helena kveðst alltaf vera með stöðuga verki í hálsinum og upp í höfuð, með stöðugan höfuðverk en það hafi þó lítillega skánað eftir meðferð hjá Árna Jóni Geirssyni gigtarlækni, hún segir þó mestu verkina vera í hálsinum vinstra megin og niður í vinstra herðablað, út í vinstri öxl og niður í allan vinstri handliminn og fram í vísifingur og þumal.”
Í matsgerð þeirra kemur einnig fram að verkir hafi farið vaxandi hjá stefnanda eftir slysið og hún fundið fyrir vaxandi máttleysi, verið viðkvæm í öxlum, hálsi og jafnframt öllum líkamanum og hafi hún ekki treyst sér aftur til starfa. Verkir í hálsi hafi versnað með leiðniverki upp í höfuð ásamt höfuðverk og leiðniverk niður í báða handlimi, svefn hafi smátt og smátt versnað og nú sofi hún ekki lengur en 5 klst. að nóttu.
Þá segir að stefnandi eigi erfitt með mörg störf, hún geti ekki ryksugað, hún versli ekki sjálf þar sem hún lofti ekki innkaupapoka og geti alls ekki unnið með hendur fyrir ofan höfuð. Hún eigi einnig mjög erfitt með að hræra í matarpottum.
Í ályktunarorðum matsgerðarinnar segir m.a.:
"Undirritaðir telja að örorka Helenu hafi verið metin of lágt með tilliti til þeirra einkenna sem hún hefur í dag og rekja má til slysins. Í læknisvottorði Ingólfs Sveinssonar sérfræðings í geðlækningum segir að slysið sem um ræðir hafi svift hana heilsu sinni að mjög verulegu leyti. Í skýrslu Hreyfigreiningar frá 17. mars 2001 kemur fram í samantekt að Helena hafi hlotið tognunaráverka á hálshrygg aðallega C. 4 og 5 vinstra megin og þessi tognun valdi stöðugum verk á þessu svæði svo og í vinstri axlargrindarsvæði.”
Í matsgerðinni kemur fram að taugaskoðun hafi alltaf verið eðlileg og sé það einnig við skoðun matsmanna. Svefntruflunum sé ekki lýst í frumgögnum fyrr en löngu eftir slysið, eða fyrst um 3 árum eftir slysið.
Matsmenn draga ekki í efa að afleiðingar slyssins hafi dregið úr vinnugetu stefnanda til þeirra starfa sem hún hafði unnið. Telja verði þó líklegt að aðrir þættir en afleiðingar slyssins geti einnig haft áhrif, svo sem félagslegir þættir og annað sem einnig geti haft áhrif á endurkomu á vinnumarkað.
Þar sem hér virðist vera um að ræða afleiðingar hálstognunar án annarra sérstakra afleiðinga, telja matsmenn að tímabært hafi verið að meta afleiðingar slyssins 1 ári eftir slysið, eða samkvæmt venju 1-3 árum eftir slysið.
Fyrir dómi bar Ragnar Jónsson að einkenni stefnanda væru fremur mikil en samt einkenni sem sjáist eftir hálstognun. Eðlilegt taldi hann að meta slíka áverka 1 til 3 árum eftir slys.
Sigurjón Sigurðsson bar fyrir dómi að einkenni stefnanda væru í meira lagi þar sem um væri að ræða útgeislunarverk niður í vinstri handlegg og út í vinstra herðablað. Taldi hann öll einkenni stefnanda heldur meiri en áður hefði verið metið.
Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja hlaut stefnandi hálshnykk við slysið 1990. Í öllum mötum sem fram hafa verið lögð telst taugaskoðun hafa verið eðlileg. Svefntruflunum og öðrum einkennum er, samkvæmt matsgerð matsmanna, ekki lýst í frumgögnum fyrr en löngu eftir slys eða fyrst um 3 árum eftir slysið og því eftir þann tíma sem matsmenn telja afleiðingar slyssins hafa komið fram, en samkvæmt mati þeirra töldu þeir tímabært að meta afleiðingar slyssins 1 til 3 árum eftir slys. Matsmenn draga ekki í efa að afleiðingar slyssins hafi dregið úr vinnugetu stefnanda þó telja þeir líklegt að aðrir þættir geti þar einnig haft áhrif, svo sem félagslegir þættir og annað sem getur haft áhrif á endurkomu á vinnumarkað. Sigurjón Sigurðsson bar fyrir dómi að öll einkenni hefðu orðið öllu meiri en áður var metið sem telja verður í samræmi við það álit læknanna í matsgerð að örorka stefnanda hafi verið metin of lágt með tilliti til þeirra einkenna sem hún hefur í dag.
Í örorkumati Atla Þórs Ólasonar er því lýst að stefnandi finni til verkja í hálsi, höfði, öxlum, herðum og vinstri handlegg eftir slysið. Í örorkumati Björns Önundarsonar segir að stefnandi hafi nær stöðugan verk í hnakka vinstra megin. Einnig hafi hún óþægindi í vinstri öxl og geti lítið beitt vinstri handlim bæði vegna óþæginda frá axlarsvæði, herðum og hnakkafestum vinstra megin en einnig vegna kraftskerðingar í gripi vinstri handar. Telur læknirinn, þegar matið fór fram í maí 1991, að ekki sé að vænta frekari bata á afleiðingum slyssins og því tímabært að meta örorku stefnanda. Í matsgerð læknanna Ragnars Jónssonar og Sigurjóns Sigurðssonar kemur fram að stefnandi er með stöðuga verki í hálsi og upp í höfuð, með stöðugan höfuðverk. Mestu verkirnir séu þó í hálsi vinstra megin og niður í vinstra herðablað, út í vinstri öxl og niður í allan vinstri handliminn og fram í vísifingur og þumal.
Eins og sjá má af lýsingu hér að framan er þeim einkennum sem komið hafa fram hjá stefnanda lýst með nánast sama hætti í þeim mötum sem fyrir liggja í málinu. Af matsgerð læknanna, Ragnars og Sigurðar, og framburði þeirra fyrir dómi, þykir ekki verða ráðið að ný einkenni, sem ekki voru til staðar við fyrri möt og sem hafi haft í för með sér aukna örorku, hafi komið fram hjá stefnanda við matið 2001. Þykir ekki sýnt fram á að verulegar breytingar hafi orðið á heilsufari stefnanda eftir slysið sem ekki var hægt að sjá fyrir þegar örorkumöt Atla Þórs Ólasonar og Björns Önundarsonar voru gerð. Hins vegar þykir ljóst, sbr, framlögð örorkumöt og matsgerð, að læknana greinir á um hvað teljist hæfileg læknisfræðileg örorka í tilfelli stefnanda.
Samkvæmt því sem að framan er rakið þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að forsendur hafi brostið fyrir því uppgjöri sem gert var við hana 3. september 1991 og því engin efni til þess að endurupptaka það á þeim forsendum.
Tjón stefnanda var gert upp á grundvelli örorkumats Atla Þórs um 10% varanlega örorku enda þótt fyrir lægi örorkumat Björns Önundarsonar um 15% varanlega örorku. Samkvæmt framlagðri bótakvittun voru bætur sem þá voru greiddar fullnaðartjónsbætur og greiðsla móttekin án nokkurs fyrirvara.
Óumdeilt er að stefnandi naut aðstoðar lögmanns við uppgjör sitt við stefnda. Hefur stefnanda ekki tekist að sýna fram á að uppgjörið hafi ekki verið í samræmi við uppgjörsvenjur þess tíma. Miðað við þær forsendur er fyrir lágu, hefur ekki verið sýnt fram á að samkomulag málsaðila hafi verið ósanngjarnt eða í ósamræmi við góðar viðskiptavenjur eða að stefndi hafi beitt stefnanda óeðlilegum þrýstingi. Verður uppgjöri málsaðila því ekki vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936.
Með því að stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hún eigi frekari kröfur á hendur stefnda vegna þess tjóns er hún varð fyrir í slysinu 16. febrúar 1990, ber þegar af þeim sökum að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Helenar Fuglö.
Málskostnaður fellur niður.