Hæstiréttur íslands

Mál nr. 756/2017

Stapi lífeyrissjóður (Lára V. Júlíusdóttir lögmaður)
gegn
Kára Arnóri Kárasyni (Reimar Pétursson lögmaður)

Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Riftun

Reifun

Aðilar deildu um rétt K til launa í uppsagnarfresti eftir starfslok hans hjá lífeyrissjóðnum S, en K hafði látið frá sér fara yfirlýsingu um starfslok sín sem framkvæmdastjóra S á heimasíðu sjóðsins vegna fyrirhugaðrar umfjöllunar fréttaskýringaþáttarins Kastljóss um hin svonefndu Panamaskjöl. Byggði K á því að hann hefði óskað eftir starfslokum hjá S með hagsmuni sjóðsins í huga og án þess að afsala sér neinum þeim réttindum sem hann hafi notið samkvæmt ráðningarsamningi. S byggði á hinn bóginn á því að K hefði að fyrra bragði og án fyrirvara óskað eftir að ljúka störfum hjá sjóðnum. Þá hefði K brotið gegn lögum nr. 129/1997 svo og trúnaðarskyldum sínum gagnvart S með því að upplýsa ekki um tilvist tveggja erlendra félaga sem óumdeilt var að K tengdist sem réttlætt hafi fyrirvaralausa brottvikningu hans úr starfi. Héraðsdómur taldi að K hefði mátt líta svo á að stjórn S væri ljóst að hann væri ekki að hverfa frá starfi sínu án þess að til vinnuframlags hans eða launagreiðslna í uppsagnarfresti kæmi. Þá yrði yfirlýsing K ekki skilin þannig að hann hefði talið sér skylt að láta af störfum án samningsbundins uppsagnarfrests. Taldi dómurinn ennfremur að ekki hefði verið sýnt fram á að K hefði brotið svo af sér í starfi að varðað gæti fyrirvaralausum brottrekstri og riftun ráðningarsamnings, sem telja yrði að S hefði í raun gert. Var krafa K um ógreidd laun í uppsagnarfresti því tekin til greina og var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Arngrímur Ísberg héraðsdómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. desember 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda, en til vara að þær verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málsatvikum og málsástæðum aðila er skilmerkilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Fyrir Hæstarétti hefur stefndi lagt fram gögn um skráningu þeirra tveggja erlendu félaga sem tengdust stefnda, en þar kemur fram að öðru félaginu hafi verið slitið 15. janúar 2003 en hinu 30. apríl 2006.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Stapi lífeyrissjóður, greiði stefnda, Kára Arnóri Kárasyni, 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 8. nóvember 2017.

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 13. september 2017 er höfðað 22. nóvember 2016 af Kára Arnóri Kárasyni, Dvergagili 32, Akureyri, á hendur Stapa lífeyrissjóði, Strandgötu 3, Akureyri. Fyrir hönd stefnda er stefnt Inga Björnssyni framkvæmdastjóra, Flatasíðu 7, Akureyri.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 26.518.139 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 3.924.203 krónum frá 1. júní 2016 til 1. júlí 2016, af 5.870.071 krónu frá þeim degi til 1. ágúst 2016, af 7.815.939 frá þeim degi til 1. september 2016, af 9.761.807 frá þeim degi til 1. október 2016, af 11.707.675 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2016, af 13.653.543 krónum frá þeim degi til 1. desember 2016, af 15.860105 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2017, af 17.805.973 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2017, af 19.751.841 krónu frá þeim degi til 1. marz 2017, af 21.697.709 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2017 en af 26.518.139 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara verulegrar lækkunar þeirra.

Hvor aðili krefst málskostnaðar úr hendi hins.

Málavextir

Stefnandi hóf störf sem framkvæmdastjóri stefnda hinn 1. janúar 2007 er sjóðurinn varð til við samruna Lífeyrissjóðs Norðurlands og Lífeyrissjóðs Austurlands, en áður hafði stefnandi verið framkvæmdastjóri fyrr nefnda sjóðsins. Störfum stefnanda fyrir stefnda lauk í apríl 2016, svo sem síðar verður rakið. Deila aðilar um hvort stefnandi eigi rétt til greiðslu launa um tólf mánaða skeið eftir starfslok.

Í málinu liggja tveir ráðningarsamningar aðila og taka til starfs stefnanda sem framkvæmdastjóra stefnda. Fyrri samningurinn er dagsettur 25. febrúar 2013 og undirritaður af stefnanda og Ágústi Torfa Haukssyni fyrir hönd stefnda. Í þeirri grein sem fjallar um lengd ráðningartíma og samningsslit segir að samningurinn taki við af samningi sömu aðila sem gerður hafi verið 9. apríl 2010. Svo segir: „Ráðning samkvæmt samningi þessum er ótímabundin. Samningi þessum geta samningsaðilar sagt upp með 6 mánaða uppsagnarfresti. Öll ákvæði samnings þessa geta þó verið til endurskoðunar án fyrirvara, séu báðir samningsaðilar því sammála. Uppsögn samnings þessa skal vera skrifleg.“ Samkvæmt 6. gr. samningsins skyldu laun framkvæmdastjóra vera 1.442.393 krónur á mánuði og breytast í samræmi við launabreytingar í nánar greindum kjarasamningum. Síðari samningurinn er dagsettur 14. marz 2016 og undirritaður af stefnanda og Þórarni Sverrissyni fyrir hönd stefnda. Í þeirri grein samningsins sem fjallar um lengd ráðningartíma og samningsslit er vísað til fyrri samnings frá 25. febrúar 2013 og skyldi hinn nýi samningur taka gildi 1. apríl 2016. Að öðru leyti er ákvæðið orðrétt eins og úr fyrri samningi með þeirri breytingu að uppsagnarfrestur er lengdur úr sex mánuðum í tólf. Ákvæði samningsins um launakjör er samhljóða samsvarandi ákvæði fyrra samnings. Í stefnu byggir stefnandi á að þar hafi fyrir mistök verið skráð óbreytt fjárhæð frá fyrri samningi en ekki litið til þeirra launabreytinga sem orðið hefðu á samningstímanum í samræmi við það ákvæði að launin skyldu breytast í samræmi við launabreytingar í tilteknum kjarasamningi. Stefnandi hafi síðast fengið almenn laun frá stefnda í apríl 2016, 1.625.103 krónur, og hafi sú fjárhæð átt að standa í yngri ráðningarsamningnum. Stefndi lýsti yfir við aðalmeðferð að hann vefengdi þetta ekki.

Þá segir í samningnum, undir liðnum „Orlof og önnur kjör“, að stefnandi skuli fá greiddan bifreiðastyrk sem nemi 700 km akstri á mánuði og skuli hann miðaður við ákvörðun ferðakostnaðarnefndar um akstursgjald ríkisstarfsmanna, 110 krónur fyrir kílómetrann. Í sömu grein samningsins segir að stefndi skuli „greiða 15% mótframlag í viðbótarlífeyrissparnað fyrir [stefnanda]“. Sömu ákvæði um bifreiðastyrk og greiðslu mótframlags í viðbótarlífeyrissparnað voru í eldri samningi aðila.

Óumdeilt er að stefnandi hafi um tíma verið tengdur tveimur erlendum félögum. Mun annað hafa verið stofnað árið 1999 en hitt árið 2004. Í yfirlýsingu sinni vegna starfsloka segir stefnandi eldra félagið hafa starfað í þrjú ár en þá hafi því verið „lokað“ en yngra félagið hafi aldrei verið „notað“. Í málavaxtalýsingu í stefnu lýsir stefnandi fyrirtækjunum með sambærilegum hætti og í yfirlýsingu sinni 23. apríl 2016.

Yfirlýsing stefnanda 23. apríl 2016

Laugardaginn 23. apríl 2016 var svolátandi texti birtur á vefsíðu stefnda, undir fyrirsögninni „Framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs hættir störfum“, og var tekið fram að væri yfirlýsing stefnanda:

„Ég hef gert stjórn lífeyrissjóðsins Stapa grein fyrir þeirri ákvörðun minni að hætta störfum hjá sjóðnum og mun í framhaldinu óska eftir að samráði við hana um fyrirkomulag starfsloka minna. Ástæðu uppsagnar minnar rek ég í meðfylgjandi yfirlýsingu og hef ég engu við hana að bæta.

Fyrir skömmu fékk ég upphringingu frá Kastljósi þar sem mér var tjáð að nafn mitt sé í hinum svokölluðu Panamaskjölum og tengist þar tveimur félögum. Annars vegar er félag sem stofnað er í Lúxembúrg árið 1999 af Kaupþingi. Þar gaf ég starfsmönnum Kaupþings fullt og óskorað umboð til að eiga viðskipti fyrir hönd félagsins. Eftir því sem mér er tjáð virðist félagið hafa starfað í 3 ár en þá hafi því verið lokað. Sennilega hafa fjárfestingar þess ekki gengið vel. Raunar hef ég engin gögn um viðskipti þessa félags. Kastljós hefur einhver gögn um félagið en vill ekki veita mér aðgang að þeim. Þótt erfitt sé að fullyrða um atburði sem áttu sér stað fyrir 16-17 árum tel ég samt nokkuð víst að ég lagði aldrei neina fjármuni í þetta félag og fékk enga fjármuni greidda frá því. Hitt félagið var stofnað af MP banka fyrir mína hönd árið 2004. Ég sé í gögnum að ég mun hafa greitt 305.200 kr. fyrir stofnun þess félags. Félagið var aldrei notað. Það var talið fram á framtölum á verðmæti stofnkostnaðar og afskrifað þremur árum síðar, sem tapað fé. Ég hafði því engan ávinning af þessum félögum og þau tengjast engum skattaundanskotum.

Eflaust bar mér að tilkynna um tilvist þessara félaga til minna yfirmanna. Um er að ræða löngu liðna atburði, sem erfitt er að fullyrða um, en ég tel þó víst að svo hafi ekki verið gert. Því má segja að ég hafi að því leyti ekki uppfyllt starfskyldur mínar. Ítarlegar reglur eru nú um hagsmunaskráningu og vel fylgst með að eftir þeim sé farið. Því var ekki til að dreifa fyrir 12-17 árum síðan.

Það voru mörg gylliboð í gangi hér á Íslandi á áratugnum fyrir bankahrunið. Á þessu má sjá að ég hef ekki verið ónæmur fyrir slíku þótt í þessum tilfellum væru það ekki ferðir til fjár. Ég er ekki stoltur af því að hafa látið glepjast af slíkum boðum. Ég vil þó taka fram að með því er ég ekki afsaka sjálfan mig enda við engan annan að sakast í þessu efni. Ég ber sjálfur ábyrgð á mínum gjörðum.

Þótt eflaust megi deila um hversu alvarlegir þeir hlutir eru sem ég hef hér lýst, þá met ég þá umræðu sem nú er í samfélaginu um aflandsfélög og skattaskjól þannig að ekki sé boðlegt að maður sem er í minni stöðu, þ.e. forstöðumaður aðila sem varslar lífeyrissparnað fyrir almenning, hafi tengst slíkum félögum. Skiptir þá engu máli þótt langt sé um liðið, hvort þetta var löglegt eða ólöglegt eða hvort viðkomandi hafi hagnast á slíkum viðskiptum eða ekki. Í ljósi þessa hef ég ákveðið að stíga til hliðar sem framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs. Það er að mínu mati eina leiðin sem mér er fær til að axla ábyrgð, enda tengist vinnuveitandi minn ekki á neinn hátt þessum málum.

Ég er leiður yfir þessu máli öllu og vil ég biðja fjölskyldu mína, vini, samstarfsfólk og kollega afsökunar á þeim óþægindum sem þau munu eflaust verða fyrir vegna umræðu um þennan dómgreindarbrest minn. Að lokum vil ég þakka öllu því góða fólki sem ég hef starfað með í gegnum tíðina fyrir samstarfið og óska því góðs gengis í framtíðinni.

Kári Arnór Kárason“.

Í málinu liggur fundargerð stjórnar stefnda 27. apríl 2016. Undir liðnum „Starfslok framkvæmdastjóra“ er bókað: „Formaður fór yfir mál [stefnanda] – sem sl. föstudag tilkynnti formanni og varaformanni um aflandsfélög sem hann hefði verið skráður fyrir og aldrei upplýst um í skráningu hagsmunatengsla og að hann myndi koma fyrir í umfjöllun Kastljóss um „Panamaskjöl“. Formaður rakti samskipti við [stefnanda] síðan þá. Stjórnarmenn ræddu málið ýtarlega. Stjórn samþykkti síðan samhljóða: „Með vísan til yfirlýsingar [stefnanda] um uppsögn og starfslok og með tilliti til þess hversu alvarleg trúnaðarbrot hans eru samþykkir stjórn að starfslok [stefnanda] séu tafarlaust og að öllum aðgangi hans að upplýsingakerfum [stefnda] svo og bankareikningum og öðrum kerfum sjóðsins og húsnæði verði lokað. Stjórn telur að [stefnandi] hafi fyrirgert rétti sínum til frekari launagreiðslna en að honum verði greidd full laun fyrir apríl mánuð svo og að gert verði upp við hann ótekið orlof. Formanni og varaformanni er falið að eiga samskipti við [stefnanda] varðandi viðskilnað við sjóðinn að öðru leyti.“ – Þannig samþykkt samhljóða. Formanni sjóðsins var falið að að ræða við [stefnanda] um þessa niðurstöðu að loknum stjórnarfundi.“ Í fundargerðinni kemur jafnframt fram að stjórnin fæli Guðmundi Baldvin Guðmundssyni, sem hefði „starfað sem staðgengill framkvæmdastjóra frá og með sl. föstudegi“, að starfa sem framkvæmdastjóri þar til nýr framkvæmdastjóri tæki til starfa.

Undir liðnum „Fréttatilkynning“ er í fundargerðinni bókað að stjórnin hafi ákveðið að hringja til nafngreinds fjölmiðlafulltrúa og „fela honum uppsetningu fréttatilkynningar. Skýrði stjórn honum frá niðurstöðu fundarins varðandi starfslok [stefnanda] og fól honum að gera tillögu að fréttatilkynningu frá stjórn sjóðsins.“ Síðar í fundargerðinni, undir liðnum „Fréttatilkynning – framhald“ er bókað að starfandi framkvæmdastjóri hefði lagt fram tillögu fjölmiðlafulltrúans að fréttatilkynningu. Stjórnin hafi stytt tilkynninguna og samþykkt að „hún yrði send fjölmiðlum eftir að stjórnarformaður hefði rætt við fráfarandi framkvæmdastjóra. Óskað var eftir að formaður greindi stjórn frá samtali við [stefnanda] þá um kvöldið.“ Fundargerðinni fylgir, í gögnum málsins, frásögn undir yfirskriftinni „Framhaldsfundur stjórnar í síma kl 21:00 miðvikudaginn 27. apríl 2016.“ Þar segir meðal annars: „Formaður fór yfir viðbrögð [stefnanda] við samþykkt stjórnarfundar þess efnis að starfslok yrðu tafarlaus og ekki yrði um að ræða launagreiðslur frá lokum apríl mánaðar fyrir utan uppgjör orlofsréttar. Viðbrögð [stefnanda] voru á þá lund að hann sætti sig ekki við þessi málalok og myndi leita réttar síns fyrir dómstólum væri þess þörf. Komu þessi viðbrögð stjórn nokkuð á óvart þar sem skilningur sem lagður hafði verið í yfirlýsingu um starfslok var á þá lund að [stefnandi] væri sjálfur að segja upp og óska eftir tafarlausri lausn frá störfum. Nokkrar umræður sköpuðust um málið. Formaður stjórnar stakk upp á því að hann og varaformaður hefðu samband við lögfræðinga með sérhæfingu í réttindum á vinnumarkaði og óskuðu eftir minnisblöðum varðandi málið og hvaða skyldur stjórn hefur annarsvegar og hvaða rétt fráfarandi framkvæmdastjóri hefur hins vegar. Var það samþykkt. [...] Stjórn samþykkti að bíða með tilkynningu á vef sjóðsins þar til fyrir lægi minnisblað frá lögfræðingum svo stjórn hefði fyrir því vissu að farið væri að öllu eftir lögum og reglum á vinnumarkaði við úrlausn málsins.“

Hinn 2. maí 2016 sendi stefnandi stjórnarformanni stefnda tölvubréf og mun jafnframt hafa sent öðrum stjórnarmönnum stefnda afrit bréfsins. Í bréfinu segir: „Ég vísa til samtals okkar í gær þar sem fram kom af þinni hálfu að þú litir svo á að ég hafi hætt störfum og ætti ekki rétt til launa í uppsagnarfresti. Í framhaldi af því var öllum aðgangi mínum að starfsstöð og gögnum lokað. Þessari afstöðu er mótmælt. Eins og fram kom í yfirlýsingu minni frá 23. apríl sl., sem ég hafði samráð við þig og varaformann sjóðsins um, þá tók ég ákvörðun um að hætta störfum og óskaði samráðs um fyrirkomulag starfsloka, enda engar tímasetningar þar um hvenær mín starfslok yrðu. Tilgangur þessarar ákvörðunar var að sýna ábyrgð og lágmarka það tjón sem sjóðurinn yrði fyrir. Þar sem ég var að fara erlendis í einkaerindum var það að samkomulagi okkar þriggja að við myndum hittast þegar ég kæmi heim og ganga frá samkomulagi um starfslok. Í fjarveru minni áttum við nokkur símtöl/símafundi þar sem afstaðan var ýmist að stjórnin liti svo á að ég hefði hætt störfum, hún myndi ekki óska eftir frekara vinnuframlagi af minni hálfu og ekki yrði um neinar greiðslur að ræða á uppsagnarfresti, eða sú að menn vildu leysa starfslok mín í sátt þar sem samið væri um hvaða greiðslur ég fengi og hverjar mínar skyldur væru á uppsagnarfresti. Ég vil minna á að ég tók það fram bæði áður en ég fór út og ítrekað í samtölum sem við höfum átt að ég óskaði þess að við næðum samkomulagi um starfslokin enda vildi ég gera þau eins auðveld og mögulegt væri fyrir sjóðinn og starfsmenn hans – ekki síst vegna ýmissa verkefna sem eru á viðkvæmu stigi í vinnslu. Ég hef ekki sagt upp störfum, heldur óskaði ég eftir viðræðum um fyrirkomulag starfsloka og gerði mér grein fyrir skyldum mínum á uppsagnarfresti. Mér hefur heldur ekki verið sagt upp störfum með formlegum hætti. Engin skrifleg afstaða hefur frá ykkur komið, aðeins símtöl sem hafa verið ruglingsleg, svo ekki sé meira sagt. Mér er sagt að stjórn hafi tekið ákvörðun, en ég hef ekki fengið að sjá hana, né nokkrar upplýsingar um það á hverju hún er byggð, þrátt fyrir loforð þess efnis. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum og tel þau hvorki í samræmi við það samkomulag sem við gerðum, þegar gengið var frá yfirlýsingu minni, né skriflega samninga okkar á milli. En þrátt fyrir að ég hafi ekki sagt upp, eða verið sagt upp með formlegum hætti af sjóðsins hálfu, verður afstaða þín í samtali okkar í gær og lokun á aðgengi að starfsstöð og öllum gögnum ekki skilin með öðrum hætti en þeim að ráðningarsamningi mínum hafi verið rift einhliða, af ykkar hálfu eins og ég fór skilmerkilega yfir með þér í gær. Þessa afstöðu staðfestir þú raunar í Morgunblaðinu í dag. Í ljósi ofanritaðs áskil ég mér hér með allan rétt til að krefjast launa í uppsagnarfresti. Ég hef nú falið lögmanni að annast öll samskipti við ykkur í framhaldinu vegna þessa máls og mun hann setja sig í samband við ykkur. Þótt bréfið sé stílað til þín Þórarinn þá set ég aðra stjórnarmenn sem cc.“

Hinn 9. júní 2016 ritaði lögmaður stefnda lögmanni stefnanda bréf. Í bréfinu er rakin bókun stjórnarfundar stefnda 27. apríl um starfslok stefnanda en því næst segir að í framhaldi af bréfi stefnanda til stjórnar stefnda 2. maí hafi formaður og varaformaður stjórnarinnar haldið fund með lögmönnum aðila 11. maí. Þar hafi lögmanni stefnanda verið kynnt bókun stjórnarfundarins og málin rædd. Lögmaður stefnanda hafi óskað eftir að „gengið yrði til samkomulags um starfslok þar sem [stefnanda] yrðu greidd laun út uppsagnarfrest.“ Þessu hafi verið hafnað en jafnframt sagt að málið yrði rætt í stjórn. Því næst segir að á stjórnarfundi stefnda hinn 8. júní júní hafi málið verið rætt að nýju en niðurstaðan hafi orðið sú sama.

Hinn 3. ágúst 2016 ritaði lögmaður stefnda lögmanni stefnanda að nýju. Í upphafi bréfsins segist lögmaðurinn hafa fengið bréf, dags. 18. júlí 2016, þar sem sett hafi verið fram krafa stefnanda um laun í uppsagnarfresti. Er því næst vísað til fyrra bréfs lögmannsins, dags. 9. júní, þar sem lýst hafi verið þeirri niðurstöðu stjórnar stefnda að stefnandi hefði fyrirgert rétti sínum til frekari launagreiðslna. Er svo vísað til þess að í yfirlýsingu „til fjölmiðla 23. apríl 2016 þegar fyrir lá að nafn hans tengdist tveimur félögum í svokölluðum Panamaskjölum lýsti [stefnandi] því sjálfur yfir að sér hefði borið að tilkynna um tilvist þessara félaga til yfirmanna sinna, en það hefði hann ekki gert. Ekki væri boðlegt að maður í hans stöðu, þ.e. forstöðumaður aðila sem varslar lífeyrissparnað fyrir almenning, hefði tengsl við slík félög.“ Hann myndi því hætta störfum hjá störfum hjá stefnda sem hann og hafi gert í kjölfarið. Er loks ítrekuð sú niðurstaða stefnda að ekki verði um frekari launagreiðslur að ræða og því bætt við að „starfsmaður sem ákveður einhliða að láta af störfum án þess að vinna út uppsagnarfrest [eigi] ekki kröfu til launa á uppsagnarfresti.“

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveðst byggja á því að sér beri laun á uppsagnarfresti samkvæmt ráðningarsamningi sínum. Sá frestur sé 12 mánuðir og sé dómkrafa hans við það miðuð.

Stefnandi segir að stefndi telji stefnanda hafa framið alvarleg trúnaðarbrot og að því sé stefnda heimilt að rifta ráðningarsamningum án fyrirvara. Þetta standist hinsvegar ekki. Um sé að ræða félög erlendis sem stefnandi hafi átt hlut í að stofna löngu áður en hann hafi verið ráðinn til starfa hjá stefnda. Aðild hans á sínum tíma í þessum félögum hafi að öllu leyti verið lögum samkvæmt og hann hafi aldrei notið nokkurs fjárhagslegs ávinnings af starfsemi þeirra. Hvorki á líftíma félaganna né síðar hafi verið ólöglegt hér á landi að eiga peninga erlendis. Stefnandi segir að svo virðist sem stjórn stefnda hafi orðið fyrir einhvers konar geðhrifum af því að um slíkt væri fjallað í innlendum fjölmiðli, áratugum eftir að þau atvik hafi orðið sem um hafi verið fjallað. Ástæða þess að stefnandi hafi óskað eftir starfslokum hjá stefnda hafi verið sú að honum hafi verið ljóst að í samfélaginu hefði orðið til andrúmsloft sem hafi gert óheppilegt að hann væri í forsvari fyrir stefnda, en stefndi stundi störf sem séu viðkvæm fyrir slíku. Hafi stefnandi viljað leggja sitt af mörkum til að minnka þann skaða sem stefndi kynni að telja sig verða fyrir vegna þessa hugarástands. Með þessu hafi hann ekki á neinn hátt afsalað sér þeim réttindum sem hann hafi notið samkvæmt ráðningarsamningi. Hann hafi ekki brotið gegn neinum starfskyldna sinna samkvæmt honum og hafi engar forsendur verið fyrir riftun samningsins af hálfu stefnda. Þess vegna beri að gera upp við stefnanda samkvæmt ákvæðum samningsins.

Stefnandi segir aðalkröfu sína lúta að því að sér beri samkvæmt ráðningar¬samningi réttur til fullra launa í allt að 12 mánuði. Mánaðarlaun stefnanda hjá stefnda hafi numið 1.625.103 krónum en einnig hafi verið gert ráð fyrir bifreiðastyrk, mótframlagi í lífeyrissjóð, orlofsuppbót, desemberuppbót og uppsöfnuðu orlofi. Sé krafan miðuð við tímabilið frá maí 2016 til og með apríl 2017. Stefnandi sundurliðar kröfuna svo að samanlagðar mánaðarlaunagreiðslur nemi 19.501.236 krónum, bifreiðastyrkur 924.000 krónum, 15% mótframlag í lífeyrissjóð 2.925.180 krónum, orlofsuppbót 76.967 krónum, desemberuppbót 189.595 krónum og uppsafnað 33 daga orlof 2.640.467 krónum. Samanlagðar nemi fjárhæðir þessar stefnufjárhæð málsins. Í sundurliðun dómkrafna, sem hann lagði fram á sérstöku dómskjali við þingfestingu málsins, tiltekur stefnandi alls 450.289 króna kröfu vegna desemberuppbótar en í sundurliðun í stefnu hafði sem fyrr segir einungis verið tiltekin 189.595 króna krafa vegna desemberuppbótar. Ef miðað er við kröfu um 450.289 króna kröfu vegna desemberuppbótar nema samanlagðar fjárkröfur stefnanda stefnufjárhæð málsins.

Stefnandi segir stjórn stefnda hafa lýst því yfir á fundi 27. apríl 2016 að hún liti svo á að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til frekari launagreiðslna en að honum yrðu greidd full laun fyrir aprílmánuð sem og ótekið orlof. 

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi segir sýknukröfu sína í fyrsta lagi byggða á því að stefnandi hafi sjálfur og að fyrra bragði óskað eftir að ljúka störfum hjá stefnda án fyrirvara vegna yfirvofandi sjónvarpsumfjöllunar um eignarhald hans á aflandsfélögum. Í yfirlýsingu stefnanda vegna starfsloka segi að stefnandi hafi tilkynnt stjórn stefnda um ákvörðun sína að hætta störfum og að hann muni í framhaldinu óska eftir samræðum við hana um fyrirkomulag starfsloka. Í yfirlýsingunni tali stefnandi jafnframt um uppsögn „sína“ en af því orðalagi megi ráða að hann hafi sjálfur litið svo á að með tilkynningu til stjórnar hafi hann sagt upp starfi sínu hjá stefnda. Aðilar hafi ekki náð samkomulagi um starfslok samkvæmt kröfu stefnanda enda hefði slíkt samkomulag meðal annars falið í sér að stefnanda yrðu greidd laun út uppsagnarfrest en það hafi stjórn stefnda ekki samþykkt. Yfirlýsing stefnanda, svo og málatilbúnaður hans sjálfs í stefnu, séu skýr um að stefnandi hafi sjálfur ákveðið að hætta störfum fyrir stefnda tafarlaust og vinna ekki fyrir stefnda á uppsagnarfresti. Krafa stefnanda hafi verið að sú hann legði niður störf þá þegar og sliti ráðningarsamningi sínum án nokkurs fyrirvara. Ráðningarsamningur sé tvíhliða samningur starfsmanns og vinnuveitanda sem leggi skyldur á beggja herðar, rétt eins og hann veiti þeim réttindi. Þegar aðili tvíhliða samnings segi honum upp, fyrirgeri hann rétti sínum samkvæmt samningnum, rétt eins og hann komi sér undan samningsskyldum. Starfsmaður sem ákveði einhliða að láta af störfum án þess að vinna út uppsagnarfrest geti ekki gert kröfu til að sér séu greidd laun á uppsagnarfresti. Þá skipti ekki máli þótt stefnandi lýsi því yfir síðar í stefnu að það hafi verið skilningur hans að sér hefði borið skylda til að vinna út frestinn hefði stjórn stefnda óskað eftir því. Vísist um þetta almennra reglna vinnuréttar.

Stefndi segist byggja sýknukröfu sína í öðru lagi á því að jafnvel þótt ekki yrði miðað við að stefnandi hafi haft frumkvæði að því að segja upp ráðningarsamningi sínum, eins og gögn málsins bendi eindregið til, þá hafi stefnandi brotið gegn 31. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sbr. reglur nr. 180/2013 með því að upplýsa ekki um tilvist félaganna. Stefndi taki við skyldubundnum framlögum sjóðfélaga, samkvæmt 1. gr. laga nr. 129/1997. Hann varðveiti og ávaxti iðgjöld og greiði lífeyri samkvæmt 20. gr. sömu laga. Hann beri því mikla ábyrgð gagnvart sjóðsfélögum. Framkvæmdastjóri sé talsmaður sjóðsins út á við í samræmi við hefðir og eðli máls, samkvæmt ákvæði 6.1 í starfsreglum stjórnar stefnda. Samkvæmt ákvæði 4.5.1. í samþykktum stefnda annist framkvæmdastjóri daglegan rekstur stefnda í samræmi við mótaða stefnu og ákvarðanir stjórnar. Hann ráði starfsmenn til sjóðsins og fari með atkvæði hans á fundum hlutafélaga sem sjóðurinn eigi hluti í, nema stjórn ákveði annað í einstökum tilvikum. Framkvæmdastjóri beri ábyrgð á að bókhald sjóðsins sé fært í samræmi við lög og viðurkenndar venjur. Honum beri einnig að fylgja fjárfestingarstefnu og þeim útlánareglum sem stjórnin setji, sbr. ákvæði 4.6.1. í samþykktum stefnda. Framkvæmdastjóra sé óheimilt að taka þátt í atvinnurekstri nema að fengnu leyfi stjórnar. Með vísan til hinnar miklu ábyrgðar sem stefndi beri gagnvart sjóðsfélögum og hinu umfangsmikla hlutverki sem framkvæmdastjóra sjóðsins sé falið sé tvímælalaust hagur allra sjóðsfélaga að ekki leiki minnsti vafi á hæfi framkvæmdastjóra. Stefndi segir að í 7. gr. reglna fjármálaeftirlitsins um framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna lífeyrissjóða nr. 180/2013, sem tekið hafi gildi í febrúar 2013, segi að framkvæmdastjórar megi ekki hafa sýnt af sér háttsemi, athöfn eða athafnaleysi sem gefi efni til að draga megi í efa hæfni þeirra til að standa fyrir traustum og heilbrigðum rekstri eða líkur séu til að þeir muni hugsanlega misnota aðstöðu sína eða skaða lífeyrissjóðinn. Við matið sé meðal annars litið til háttsemi aðila sem kunni að rýra trúverðugleika hans og skaða orðspor lífeyrissjóðsins. Jafnframt sé höfð hliðsjón af fyrri afskiptum fjármálaeftirlitsins vegna starfa aðila eða vegna starfshátta eftirlitsskylds aðila sem hann hafi verið í forsvari fyrir eða borið ábyrgð á. Samkvæmt 19. gr. sömu reglna skuli framkvæmdastjórar á hverjum tíma uppfylla hæfisskilyrði laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og ákvæði reglnanna.

Stefndi segir að eignarhald stefnanda „á félögum í skattaskjóli“ hafi valdið því að hann hafi ekki uppfyllt hæfisskilyrði til setu í stóli framkvæmdastjóra, þar sem slíkt feli í sér háttsemi sem gefi tilefni til að efa hæfni hans til að standa fyrir traustum og heilbrigðum rekstri eða gefi líkur til að viðkomandi muni hugsanlega misnota aðstöðu sína eða skaða lífeyrissjóðinn. Um leið og eignarhald stefnanda á félögum hafi orðið ljóst, hafi blasað við að stefnandi gæti ekki gegnt stöðu framkvæmdastjóra.

Stefndi segir að stefnandi hafi sjálfur, án nokkurs vafa, gert sér grein fyrir mögulegum áhrifum sem eignarhald hans í aflandsfélögum gæti haft á skoðun almennings á stefnda og rýrt trúverðugleika stefnda og skaðað orðspor hans. Þessi skilningur hafi augljóslega búið að baki þeirri ákvörðun stefnanda að láta af störfum hjá stefnda og senda út tilkynningu 23. apríl 2016. Stefndi vísar sérstaklega til þess hluta tilkynningar stefnanda, þar sem hann segist meta þá umræðu, sem þá sé í samfélaginu, þannig að ekki sé boðlegt að maður sem hafi verið tengdur slíkum félögum sé forstöðumaður lífeyrissjóðs. Stefndi segir að samkvæmt 29. gr. laga nr. 129/1997 beri stjórn stefnda ábyrgð á að starfsemi hans sé í samræmi við lög, reglugerðir samkvæmt þeim og samþykktir sjóðsins. Þegar í ljós hafi komið að stefnandi uppfyllti ekki hæfiskröfur sem til hans væru gerðar samkvæmt lögunum, reglum fjármálaeftirlitsins eða samþykktum stefnda, hafi stjórn stefnda borið lagalega ábyrgð á að sjá til þess að stefnandi starfaði ekki lengur fyrir stefnda. Hefði stefnandi haldið áfram störfum fyrir sjóðinn eftir að vanhæfi hans hafi verið orðið ljóst, hefðu stjórnarmenn stefnda getað skapað sér persónulega ábyrgð gagnvart stefnda, sbr. ákvæði fyrrgreindra laga.

Stefndi segir sýknukröfu sína í þriðja lagi byggða á því að stefnandi hafi með háttsemi sinni brotið gegn trúnaðarskyldum sínum gagnvart stefnda með alvarlegum hætti sem réttlæti að víkja honum úr starfi án frekari fyrirvara. Stefnandi hafi ekki verið almennur starfsmaður heldur framkvæmdastjóri hjá lífeyrissjóði sem beri gríðarmikla ábyrgð gagnvart sjóðsfélögum. Um það vitni ákvæði laga, reglna og samþykkta. Starfi framkvæmdastjóra fylgi sérstök trúnaðarskylda gagnvart sjóðnum, enda ráði stjórn framkvæmdastjóra til að fara með daglega starfsemi sjóðsins og megin verkefni framkvæmdastjóra sé að gæta hagsmuna stefnda. Öll kjör stefnanda hjá stefnda hafi verið miðuð við þessa ríku ábyrgð sem hann hafi borið. Með því að halda upplýsingum um eignarhald sitt á aflandsfélögum leyndum fyrir stjórn stefnda, hafi stefnandi brotið trúnaðarskyldur sínar með svo stórkostlegum hætti að hann hafi ekki lengur getað gegnt framkvæmdastjórastarfinu.

Stefndi kveðst til vara krefjast þess að fjárkrafa stefnanda verði lækkuð verulega. Kröfu um greiðslu til handa stefnanda sem nemi mótframlagi í lífeyrissjóð sé hafnað enda sé stefnandi ekki réttur eigandi kröfunnar. Að öðru leyti kveðst stefndi styðja varakröfu sína sömu málsástæðum og aðalkröfu. Stefndi kveðst byggja málskostnaðarkröfu sína á þeirri meginreglu einkamálaréttarfars að sá sem tapi máli í öllu verulegu skuli að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað, sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi segist vísa til laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sérstaklega 31. gr. laganna. Þá kveðst stefndi vísa til reglna um framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna lífeyrissjóða nr. 180/2013, sérstaklega 7. gr. og 19. gr. reglnanna. Jafnframt sé vísað til almennra reglna vinnuréttar. Krafa um málskostnað sé byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða

Við starfslok stefnanda hjá stefnda gilti ráðningarsamningur aðila, dags. 14. marz 2016. Í 3. gr. samningsins segir að uppsögn hans skuli vera skrifleg. Í málinu liggur ekki fyrir slík skrifleg tilkynning sem stefnandi hafi beint að stefnda. Á hinn bóginn liggur fyrir texti yfirlýsingar sem undirrituð er af stefnanda og birt var á heimasíðu stefnda laugardaginn 23. apríl. Yfirlýsingunni er ekki sérstaklega beint að stefnda. Í upphafi yfirlýsingarinnar segir stefnandi að hann hafi gert stjórn stefnda grein fyrir þeirri ákvörðun sinni að hætta störfum hjá stefnda og að hann muni óska eftir samráði við stjórnina um fyrirkomulag starfslokanna. Í lok yfirlýsingarinnar biður stefnandi fjölskyldu sína, vini og samstarfsfólk afsökunar á óþægindum sem þau muni eflaust verða fyrir vegna umræðu um „þennan dómgreindarbrest“ stefnanda.

Fyrir dómi sagðist stefnandi hafa átt frumkvæðið að yfirlýsingunni og hefði hún „í sjálfu sér“ verið unnin af sér og almannatengslafyrirtæki en hann hefði haft „samráð um þetta við ja aðallega formanninn og reyndar einnig varaformanninn. Við fórum yfir þetta áður en að yfirlýsingin var birt og það var breytt ýmsu í henni, meðal annars að þeirra frumkvæði.“ Stefnandi hefði verið á leið úr landi í einkaerindum og þeir verið sammála um að þeir myndu „setjast niður yfir málið þegar [stefnandi] kæmi aftur og klára það að ganga frá, með hvaða hætti starfslokin yrðu, hverjar yrðu [skyldur stefnanda] í framhaldinu á uppsagnarfresti og bara ganga almennt frá málinu.“ Fyrir dómi sagði Þórarinn Guðni Sverrisson, sem á umræddum tíma var stjórnarformaður stefnda, að stefnandi hefði sent sér drög að yfirlýsingu sinni. Þórarinn Guðni sagðist hafa talið drögin það afdráttarlaus að mögulega yrðu þau túlkuð sem „fyrirvaralaust brotthvarf úr starfi og það gæti þýtt að menn túlkuðu það sem svo að hann væri búinn að fyrirgera rétti sínum til launa frá og með þessum tíma.“ Í framhaldi af þessu hefði stefnandi sett „þá yfirlýsingu í viðbót“ þess efnis að hann „mundi semja nánar um sín starfslok“. Hefði Þórarinn Guðni þá talið „að það væri mögulega hægt að byggja á einhverju svona við hann ef um einhverja samninga væri að ræða. Og ég lýsi því yfir á þessum tímapunkti að þá hefði ég haft vilja til þess, en auðvitað gat ég ekki lofað neinu.“ Þegar á framanritað er horft verður hvorki talið að með yfirlýsingu sinni, sem birt var á heimasíðu stefnda laugardaginn 23 apríl, né á annan hátt, hafi stefnandi lýst yfir gagnvart stefnda að hann hefði ákveðið að hverfa frá starfi sínu með þeim hætti að hvorki kæmi til vinnuframlags af sinni hálfu né launagreiðslna af hálfu stefnda á þeim tólf mánuðum sem í hönd færu. Af vitnisburði Þórarins Guðna verður þvert á móti ráðið að stefnandi hafi, eftir ábendingu stjórnarformannsins þáverandi, breytt yfirlýsingu sinni, fyrir birtingu hennar, til þess að hún yrði ekki skilin með þeim hætti. Í ljósi þessara samskipta stefnanda og stjórnarformanns stefnda mátti stefnandi líta svo á að stjórn stefnda yrði ljós þessi skilningur stefnanda.

Stefnandi ákvað að láta af starfi sínu og óskaði viðræðna við stefnda um hvernig starfslokunum yrði háttað, svo sem hann greindi frá í yfirlýsingu sinni 23. apríl. Hinn 27. apríl 2016 gerði stjórn stefnda þá samþykkt, að með vísan til yfirlýsingar stefnanda „um uppsögn og starfslok og með tilliti til þess hversu alvarleg trúnaðarbrot hans“ væru, yrðu starfslok hans tafarlaus, öllum aðgangi hans að kerfi og húsnæði skyldi lokað og hefði hann fyrirgert rétti sínum til frekari launagreiðslna. Í ljósi framanritaðs verður að líta svo á, að það hafi verið ákvörðun stefnda en ekki stefnanda að stefnandi hvorki ynni fyrir stefnda á uppsagnarfresti né fengi þá launagreiðslur.

Í greinargerð sinni byggir stefndi á því að stefnandi hafi brotið gegn 31. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. reglur nr. 180/2013 með því að upplýsa ekki um tilvist hinna erlendu félaga. Stefndi vísar til hlutverks framkvæmdastjóra samkvæmt starfsreglum stefnda, þar á meðal þeirri reglu að framkvæmdastjóri megi ekki taka þátt í atvinnurekstri án leyfis stjórnar, og segir að með vísan til hinnar miklu ábyrgðar sem stefndi beri gagnvart sjóðfélögum og hins umfangsmikla hlutverks framkvæmdastjóra sé tvímælalaust hagur allra sjóðsfélaga að ekki leiki minnsti vafi á hæfi framkvæmdastjóra. Þá vísar stefndi til 7. gr. reglna um framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna lífeyrissjóða nr. 180/2013, sem tekið hafi gildi í febrúar 2013, en þar segir að framkvæmdastjóri megi ekki hafa sýnt af sér háttsemi, athöfn eða athafnaleysi, sem gefur tilefni til að draga megi í efa hæfni hans til að standa fyrir traustum og heilbrigðum rekstri eða að líkur séu til að hann muni hugsanlega misnota aðstöðu sína eða skaða lífeyrissjóðinn. Við matið sé meðal annars litið til háttsemi aðila sem kynni að rýra trúverðugleika hans og skaða orðspor lífeyrissjóðsins. Jafnframt sé höfð hliðsjón af fyrri afskiptum Fjármálaeftirlitsins vegna starfa aðila eða vegna starfshátta eftirlitsskylds aðila sem hann hafi verið í forsvari fyrir eða borið ábyrgð á.

Stefndi byggir á, í þessu sambandi, að eignarhald stefnanda „á félögum í skattaskjóli“ sé þess valdandi að hann uppfylli ekki hæfisskilyrði til setu í stóli framkvæmdastjóra, þar sem slíkt feli í sér háttsemi er gefi tilefni til að draga í efa hæfni hans til að standa fyrir traustum og heilbrigðum rekstri eða gefi líkur til að hann muni hugsanlega misnota aðstöðu sína eða skaða lífeyrissjóðinn. Um leið og eignarhaldið hafi orðið bert hafi orðið ljóst að stefnanda væri ekki sætt í stöðu framkvæmdastjóra. Hafi stefnanda vafalaust verið ljós þau áhrif sem eignarhald hans í aflandsfélögum gæti haft á skoðun almennings á stefnda og rýrt trúverðugleika stefnda og skaðað orðspor hans. Vísar stefndi sérstaklega til orða stefnanda í yfirlýsingu þar sem hann meðal annars kveðst meta „þá umræðu sem [sé] í samfélaginu“ þannig að ekki sé boðlegt að forstöðumaður lífeyrissjóðs hafi verið tengdur slíkum félögum og skipti þá engu þótt langt sé um liðið eða hvort eignarhaldið hafi verið lögmætt og svo framvegis.

Fyrir dómi sagði stefnandi megintilgang sinn með þeirri yfirlýsingu sem hann sendi frá sér 23. apríl hafa verið þann að verja hagsmuni stefnda, „gera yfirlýsinguna þannig úr garði að þetta mál myndi beinast að mér en ekki mínum vinnuveitanda sem átti enga aðild að þessu.“ Í því hefði ekki verið fólgið nokkurt „mat á einhverjum lagalegum atriðum varðandi hæfi eða eitthvað slíkt.“ Meginmarkmiðið hefði verið að kastljósið færi á stefnanda en ekki stefnda. Hann hefði verið „að bregðast við andrúmsloftinu í samfélaginu og reyna að gera þetta eins bærilegt og mögulegt væri fyrir [stefnda].“ Fram kom hjá Þórarni Guðna Sverrissyni fyrir dómi að hann hefði nefnt við stefnanda að sér fyndist betra að hann óskaði eftir launalausu leyfi „á meðan að þessi mál væru skoðuð“, en stefnandi hefði verið „alveg ákveðinn“. Stefnandi kvaðst fyrir dómi líta svo á að hann hefði farið eftir öllum reglum sjóðsins, svo sem um eftirlit og eftirlitsferla. Í yfirlýsingu sinni segir stefnandi meðal annars að hann meti „þá umræðu sem nú er í samfélaginu“ þannig að ekki sé boðlegt að maður sem gegni starfi eins og hann hafi verið tengdur aflandsfélögum. Í því ljósi hafi hann ákveðið að láta af starfi. Yfirlýsingin verður ekki skilin þannig að stefnandi telji sér skylt að láta af starfinu án samningsbundins uppsagnarfrests.

Í yfirlýsingu sinni segir stefnandi að „eflaust“ hafi sér borið að tilkynna um tilvist umræddra félaga til yfirmanna sinna sinna. Kveðst hann telja víst að það hafi hann ekki gert og því megi segja að hann hafi að því leyti ekki uppfyllt starfsskyldur sínar. Hann tekur fram að deila megi um alvarleika þeirra hluta sem fjallað er um í yfirlýsingunni en hins vegar meti hann „þá umræðu sem nú er í samfélaginu“ þannig að „ekki sé boðlegt“ að maður sem tengdur hafi verið slíkum félögum sé forstöðumaður lífeyrissjóðs. Í þessum orðum hans felst ekki viðurkenning hans á því að hann hafi brotið svo af sér að réttlætt gæti fyrirvaralausa brottvikningu úr starfi eða riftun einstakra ákvæða ráðningarsamnings hans. Við mat á alvarleika þess að hafa ekki tilkynnt um „tilvist umræddra félaga“ til yfirmanna, verður að hafa í huga að ekkert hefur komið fram í málinu sem gefur til kynna að rangt sé að félögunum hafi báðum verið slitið áður en stefnandi hóf störf hjá stefnda. Ekkert handfast liggur fyrir í gögnum málsins um þá starfsemi sem kann að hafa farið fram í félögunum. Sjálfur segir stefnandi að síðara félagið hafi aldrei verið notað og hefur ekkert komið fram í málinu um að það sé rangt. Hefur ekki verið sýnt fram á í málinu að stefnandi hafi, með því að tilkynna ekki um félögin, brotið svo af sér að varðað gæti fyrirvaralausum brottrekstri og riftun ráðningarsamnings.

Stefndi vísar ekki til sérstakra viðskipta sem félögin hafi stundað en byggir á því að eignarhald stefnanda á „félögum í skattaskjóli“ geri að verkum að hann uppfylli ekki hæfisskilyrði þar sem hann hafi sýnt af sér háttsemi sem gefi tilefni til að draga í efa hæfni hans til að standa fyrir heilbrigðum rekstri eða veiti líkur fyrir því að hann muni hugsanlega misnota aðstöðu sína eða skaða stefnda. Við mat á þessu verður að hafa í huga, að þá sem nú var Íslendingum heimilt að eiga félög sem starfa utan landsteina, hvort sem er í svokölluðum lágskattaríkjum eða öðrum. Ekkert hefur komið fram í málinu um að stefnandi hafi haft nokkurn hagnað af félögunum. Hvorki hefur verið sýnt fram á að stefnandi hafi notað félögin til að koma verðmætum undan skattgreiðslum eða auðgast á annan ólöglegan hátt né að slíkt hafi vakað fyrir honum. Ekki er hægt að miða við í málinu að allir þeir sem átt hafa slíkt félag, hvort sem er um lengri eða skemmri tíma, verði um alla framtíð sjálfkrafa taldir óhæfir til starfa eins og þess sem stefnandi gegndi eða öðrum líklegri til að misnota aðstöðu sína eða skaða vinnuveitanda sinn á annan hátt. Að öllu samanlögðu hafa ekki verið færðar sönnur á það í málinu að háttsemi stefnanda hafi réttlætt riftun ráðningarsamnings hans, en telja verður að það hafi stefndi í raun gert með einhliða ákvörðun sinni um að ekki kæmi til neinna greiðslna til stefnanda eftir aprílmánuð 2016. Verður því að taka til greina kröfu stefnanda um ógreidd laun á því tólf mánaða tímabili sem tiltekið er í stefnu. Stefndi byggir á því að stefnandi sé ekki réttur eigandi kröfu um mótframlag í lífeyrissjóð. Mótframlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð er lögbundið, sbr. lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Viðkomandi lífeyrissjóður fer með forræði slíkra krafna en ekki launþegi. Verða kröfur stefnanda sem varða framlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð og nema alls 2.925.180 krónum ekki teknar til greina í þessu máli. Má hér hafa nokkura hliðsjón af dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 472/2007. 

Öðrum liðum endanlegrar fjárkröfu stefnanda hefur ekki verið mótmælt sérstaklega en undir rekstri málsins breytti stefnandi vaxtakröfu sinni sem stefndi hafði mótmælt í greinargerð. Með vísan til alls framanritaðs verður að taka til greina kröfur stefnanda, aðrar en þær sem lúta að framlagi í lífeyrissjóð. Ekki þykja efni til að lækka kröfur stefnanda að öðru leyti. Að fenginni þeirri niðurstöðu verður stefnda gert að greiða stefnanda tvær milljónir króna í málskostnað og hefur þá verið litið til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun. Gætt var 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Af hálfu stefnanda fór Hlynur Jónsson hdl. með málið en af hálfu stefnda Lára V. Júlíusdóttir hrl. Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Stapi lífeyrissjóður, greiði stefnanda, Kára Arnóri Kárasyni, 23.592.959 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 3.436.673 krónum frá 1. júní 2016 til 1. júlí 2016, af 5.138.776 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2016, af 6.840.879 krónum frá þeim degi til 1. september 2016, af 8.542.982 krónum frá þeim degi til 1. október 2016, af 10.245.085 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2016, af 11.947.188 krónum frá þeim degi til 1. desember 2016, af 13.909.985 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2017, af 15.612.088 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2017, af 17.314.191 krónu frá þeim degi til 1. marz 2017, af 19.016.294 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2017 en af 23.592.959 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda tvær milljónir króna í málskostnað.