Hæstiréttur íslands

Mál nr. 409/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Samaðild
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. október 2004.

Nr. 409/2004.

Landeigendur Reykjahlíðar ehf.

(Jónas Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Landsvirkjun

(Hreinn Loftsson hrl.)

 

Kærumál. Samaðild. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

LR ehf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli þess á hendur L til heimtu skaðabóta vegna töku þess síðarnefnda á köldu vatni og jarðefnum úr landi þess fyrrnefnda á tímabilinu 1993 til 2003 var vísað frá dómi á þeirri forsendu að LR ehf. hefði borið að stefna, auk L, íslenska ríkinu, til varnar í málinu. Hæstiréttur tók fram að í málinu væri deilt um túlkun á samningum þar sem jarðhitaréttur og aðstaða til mannvirkjagerðar til nýtingar hans á landi LR ehf. hefði verið framseldur íslenska ríkinu á árinu 1971 sem síðan framseldi L þennan rétt árið 1985, en í síðargreinda tilvikinu var jarðhitarétturinn takmarkaður við 70 MW. Ágreiningslaust væri að L hefði tekið og nýtt fyrrnefnd landsgæði úr landi LR ehf. á umræddu tímabili en krafa þess síðarnefnda beindist eingöngu að þeirri nýtingu. Varð því ekki séð að efnisleg úrlausn málsins varðaði hagsmuni íslenska ríkisins með þeim hætti að aðild þess að málinu væri nauðsynleg. Þá var ekki fallist á að málið væri vanreifað af hálfu LR ehf. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. september 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. næsta mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2004, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Þar sem varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti kemur krafa hans um málskostnað í héraði ekki til úrlausnar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði gerðu íslenska ríkið og eigendur jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi með sér samning 18. mars 1971. Í 1. gr. samningsins var meðal annars kveðið á um að jarðhitaréttindi í landi Reykjahlíðar á jarðhitasvæði því, sem afmarkað var á uppdrætti er fylgdi samningnum „ásamt jarðhita þeim, sem þar er að finna, og aðstaða til mannvirkjagerðar til nýtingar hans“ skyldi ríkissjóði til frjálsra umráða og ráðstöfunar. Var Kröfluvirkjun síðar reist á umræddu landsvæði. Með samningi 26. júlí 1985 seldi og afsalaði íslenska ríkið Landsvirkjun jarðgufuaflstöðinni við Kröflu ásamt eignum, sem aflstöðinni tilheyrðu. Tók Landsvirkjun við Kröfluvirkjun með öllu sem henni fylgdi ásamt þeim réttindum og skyldum sem nánar var getið í samningnum. Samkvæmt 3. gr. hans taldist með mannvirkjum þeim og eignum sem tilheyrðu Kröfluvirkjun og Landsvirkjun eignaðist, „fullur og ótakmarkaður réttur til hagnýtingar á þeirri jarðhitaorku sem finnast kann á Kröflusvæðinu og sem nú er óbreytt í umráðum ríkisins, að afli sem svarar allt að 70 MW, til raforkuframleiðslu.“ Var óheimilt án samþykkis Landsvirkjunar að stofna þar til annarrar vinnslu, er haft gæti áhrif á þessa nýtingu. Með eignum og mannvirkjum Kröfluvirkjunar yfirtók Landsvirkjun ennfremur til eignar „öll landsréttindi og aðstöðu til mannvirkjagerðar á Kröflusvæðinu, sem nauðsynleg eru eða kunna að reynast vegna Kröfluvirkjunar og nú tilheyra ríkinu eða umráðum þess, ásamt þeim mannvirkjum sem gerð hafa verið á landinu við Kröflu ...“, sbr. 4. gr. samningsins.

Í máli þessu krefur sóknaraðili varnaraðila um greiðslu skaðabóta vegna töku varnaraðila á köldu vatni og jarðefnum úr landi hans. Með hinum kærða úrskurði var kröfu sóknaraðila vísað frá dómi á þeirri forsendu að honum hefði borið að stefna, auk varnaraðila, íslenska ríkinu, til varnar í málinu.

II.

Sóknaraðili heldur því fram í héraðsdómsstefnu að taka varnaraðila á köldu vatni og jarðefnum úr landi hans sé óheimil án hans samþykkis. Beinir sóknaraðili kröfu sinni að varnaraðila vegna töku á tilteknu magni af fyrrgreindum landsgæðum á árunum 1993 til 2003. Kröfu sína kveðst hann byggja á upplýsingum frá varnaraðila sjálfum varðandi magn þeirra landsgæða, sem krafist er greiðslu fyrir. Þá heldur sóknaraðili því fram að óumdeilt sé að frá upphafi Kröfluvirkjunar hafi íslenska ríkið og nú varnaraðili tekið kalt vatn úr landi sóknaraðila til kælingar á túrbínum virkjunarinnar. Nánar tiltekið hafi varnaraðili tekið vatn úr lindum í Sandabotnum sem sé u.þ.b. 6 km utan þess svæðis sem samningur sóknaraðila og ríkissjóðs tilgreindi. Jafnframt hafi varnaraðili og íslenska ríkið tekið gjallmöl, steypumöl og sand úr Grænugilsöxl í landi sóknaraðila til vegagerðar, til byggingar borplana o.fl. Að mati sóknaraðila hafi þessi notkun á landshlunnindum hans verið óheimil enda hafi einungis jarðhitaréttindum verið afsalað til íslenska ríkisins og aðstöðu til mannvirkjagerðar. Hvergi hafi verið samið um notkun á köldu vatni og jarðefnum hvað þá um notkun á köldu vatni utan umsamins jarðhitasvæðis. Heldur hann því fram að það hafi ávallt verið vitað að kalt vatn úr lindum Sandabotna væri hvorki íslenska ríkinu né varnaraðila til frjálsra afnota. Máli sínu til stuðnings vísar hann til bréfs Rafmagnsveitna ríkisins 11. febrúar 1980 þar sem sótt hafi verið um leyfi til að nýta vatnslindir í Sandabotnum. Vegagerðinni hafi einnig verið kunnugt um eignarrétt sóknaraðila en hún hafi frá upphafi greitt sóknaraðila fyrir jarðvegsnám á svæðinu en ekki varnaraðila. Íslenska ríkinu og varnaraðila hafi jafnframt ávallt verið ljóst að sóknaraðili hafi viljað leyfa nýtingu lindanna í Sandabotnum gegn því að gerður yrði sérstakur samningur þar um. Fyrir Hæstarétti bendir sóknaraðili á að íslenska ríkið eigi engan hlut að því efnisnámi sem krafa hans beinist að. Hafi þau réttindi sem um sé deilt í málinu aldrei verið eign íslenska ríkisins eða því til frjálsrar ráðstöfunar. Þau réttindi sem íslenska ríkið hafi átt, það er jarðhitaréttindi samkvæmt samningi þess og landeiganda frá 1971, hafi verið framseld varnaraðila en þau snerti ekki álitaefni þessa máls. Liggi fyrir að leyfi varnaraðila til jarðhitanýtingar á svæðinu hafi verið takmarkað við 70 MW eins og þágildandi orkulög nr. 58/1967 hafi kveðið á um, en um það sé ekki deilt. Um sé að ræða skaðabótakröfu vegna efnisnáms innan jarðhitaréttindasvæðisins og vegna töku kalds vatns utan þess. Snerti mál þetta því ekki hagsmuni íslenska ríkisins.

Í greinargerð varnaraðila fyrir héraðsdómi bendir hann á að vatnstaka hafi sérstaklega verið heimiluð með samningi íslenska ríkisins og sóknaraðila. Þá hafi bæði íslenska ríkið og varnaraðili litið svo á að fullt endurgjald hafi komið fyrir vatn og jarðefni innan jarðhitaréttindasvæðisins og fyrir vatnstöku úr Sandabotnalindum með fyrrgreindum samningum. Uppi séu áætlanir um að auka nýtingu jarðhita til raforkuvinnslu á Kröflusvæðinu og hafi varnaraðili fengið heimild Alþingis til stækkunar Kröfluvirkjunar. Hafi varnaraðili tjáð sóknaraðila að hann væri að undirbúa viðræður við iðnaðarráðuneytið um frekari nýtingu jarðhita innan jarðhitaréttindasvæðisins en hvað landeigendur í Reykjahlíð varðar hafi hann áhuga á að ræða við þá um jarðhitavinnslu á svæði utan réttindasvæðis ríkisins og varnaraðila. Tekur varnaraðili fram að í málinu sé krafist túlkunar á samningi sem íslenska ríkið gerði við landeigendur í Reykjahlíð árið 1971 sem bindi málsaðila. Íslenska ríkið hafi ekki framselt öll réttindi samkvæmt þeim samningi og öðrum samningum við landeigendur í hendur varnaraðila og muni niðurstaðan í málinu varða réttindi ríkisins. Telur varnaraðili að íslenska ríkið hafi einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins og verið sé að krefjast dóms um hagsmuni, sem með réttu tilheyri íslenska ríkinu, og af þeim sökum beri að vísa málinu frá dómi. Fyrir Hæstarétti bendir varnaraðili á að framkvæmd samningsins frá 1971 hafi frá upphafi verið í samræmi við þá túlkun að í orðalaginu „aðstaða til mannvirkjagerðar til nýtingar hans“ í 1. gr. samningsins felist nýting vatns og efnis á því svæði sem um ræðir. Ljóst sé að sóknaraðili byggi málshöfðun sína á 1. gr. fyrrgreinds samnings og túlkun á henni. Þá liggi fyrir að íslenska ríkið hafi einungis framselt til varnaraðila rétt sinn til hagnýtingar jarðhitaorku sem finnst á Kröflusvæðinu, að afli sem svarar allt að 70 MW til raforkuframleiðslu. Réttur til hagnýtingar jarðhitaorku umfram 70 MW, ásamt jarðhita og aðstöðu til mannvirkjagerðar til nýtingar hans, sé enn í umráðum íslenska ríkisins og því til frjálsrar umráða og ráðstöfunar í dag samkvæmt fyrrgreindum samningi.

III.

Í máli þessu er eins og áður greinir deilt um greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir vegna töku varnaraðila á köldu vatni og jarðefnum úr landi hans á tímabilinu 1993 til 2003. Er deilt um túlkun á áðurnefndum samningum þar sem jarðhitaréttur og aðstaða til mannvirkjagerðar til nýtingar hans á landi sóknaraðila var framseldur íslenska ríkinu á árinu 1971 sem síðan framseldi varnaraðila þennan rétt árið 1985, en í síðargreinda tilvikinu var jarðhitarétturinn takmarkaður við 70 MW. Ágreiningslaust er að varnaraðili hefur tekið og nýtt umrædd landsgæði úr landi sóknaraðila á þessu tiltekna tímabili. Beinist krafa sóknaraðila eingöngu að þeirri nýtingu. Með vísan til þessa verður ekki séð að efnisleg úrlausn málsins varði hagsmuni íslenska ríkisins með þeim hætti að aðild þess að málinu sé nauðsynleg. Breytir engu í þessu sambandi að réttur varnaraðila til nýtingar jarðhita hafi verið takmarkaður við 70 MW. Verður þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu varnaraðila um að vísa skuli frá dómi kröfu sóknaraðila vegna þess að nauðsyn hafi verið á samaðild varnaraðila og íslenska ríkisins.

Varnaraðili reisir frávísunarkröfu sína ennfremur á því að málið sé svo vanreifað af hálfu sóknaraðila að í bága brjóti við 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 auk þess sem sóknaraðili hafi ekki lagt fram gögn sem hann hafði undir höndum og vörðuðu málið og voru málstað hans ekki til bóta. Fallast má á það með héraðsdómi að varnaraðili hafi bætt úr þeim ágalla sem var á málatilbúnaði sóknaraðila varðandi framlagningu gagna. Grundvöllur málatilbúnaðar sóknaraðila er skýr að því leyti að ljóst er að hann krefur stefnda um greiðslu fyrir nýtingu landsgæða umfram það sem hann telur samninga heimila. Loks er í stefnu gerð grein fyrir hvernig fjárhæð kröfu sóknaraðila er fundin. Eru því ekki efni til að vísa málinu nú frá dómi af þeim sökum að forsendur fjárkröfu sóknaraðila séu óljósar eða óraunhæfar.

Að gættu því sem að framan greinir verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði vegna þessa þáttar málsins ásamt kærumálskostnaði, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og er lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili, Landsvirkjun, greiði sóknaraðila, Landeigendum Reykjahlíðar ehf., samtals 200.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2004.

I

          Mál þetta var höfðað 30. desember 2003 og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda þann 3. september 2004.

          Stefnandi er Landeigendur Reykjahlíðar ehf. kt. 550402-3860, Reykjahlíð, Mývatni en stefndi er Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Háaleitisbraut 68, Reykjavík.

          Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 122.550.456 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 78.740.401 krónu frá 23. maí 2002 til 31. desember 2002, af 100.687.178 krónum frá þeim degi til 31. desember 2003 og af 122.550.456 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

          Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi.  Til vara krefst hann þess að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda og til þrautavara að dómkrafa stefnanda verði lækkuð verulega og vaxtakrafa felld niður eða lækkuð.  Í öllum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar.

          Í þessum þætti málsins er eingöngu til umfjöllunar krafa stefnda um frávísun og krefst stefnandi þess að þeirri kröfu verði hafnað og málskostnaðarákvörðun bíði efnisdóms í málinu.

II

Með samningi dagsettum 18. mars 1971 sömdu eigendur jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi, Suður-Þingeyjasýslu, við íslenska ríkið um frjáls umráð og ráðstöfun íslenska ríkisins á jarðhitaréttindum í landi Reykjahlíðar gegn því að eigendurnir fengju ákveðið magn af heitu vatni þeim að kostnaðarlausu.  Í kjölfar samningsins var hafist handa við byggingu Kröfluvirkjunar á umræddri jörð sbr. lög nr. 21/1974 um jarðgufuvirkjun við Kröflu eða við Námafjall í Suður-Þingeyjarsýslu.

Þann 26. júlí 1985 var undirritaður samningur milli íslenska ríkisins og Landsvirkjunar um kaup þess síðarnefnda á Kröfluvirkjun ásamt tilheyrandi gufuöflunarvirkjum og orkuveitum og tók Landsvirkjun við Kröfluvirkjun 1. janúar 1986 þar með töldum jarðhitaréttindum í landi Reykjahlíðar.  Þá gerðu stefndi og íslenska ríkið með sér samning 17. september 1986 um kaup stefnanda á eignum Jarðvarmaveitna ríkisins í Bjarnarflagi.

Í fyrrgreindum samningi milli eigenda jarðarinnar Reykjahlíðar og íslenska ríkisins frá árinu 1971 segir í 1. gr. að jarðhitaréttindi á nánar tilgreindu jarðhitasvæði í landi Reykjahlíðar, ásamt jarðhita þeim sem þar sé að finna og aðstaða til mannvirkjagerðar til nýtingar hans, séu afhent íslenska ríkinu til frjálsra umráða og ráðstöfunar. 

Eins og áður greinir seldi íslenska ríkið stefnda Kröfluvirkjun og kemur fram í 3. gr. samningsins um þá sölu frá 26. júlí 1985 að með mannvirkjum þeim og eignum sem tilheyri Kröfluvirkjun og stefndi eignist með samningnum teljist fullur og ótakmarkaður réttur til hagnýtingar á þeirri jarðhitaorku sem finnast kunni á Kröflusvæðinu að afli sem samsvari allt að 70 mw til raforkuframleiðslu.  Þá segir þar einnig að með Kröflusvæðinu sé í samningnum átt við allt landsvæði í nánd við Kröflu, þar sem jarðhitaréttindi séu í umráðum ríkisins, að meðtöldum norðurhluta þess svæðis sem markað sé á þeim uppdrætti sem fylgdi samningum frá árinu 1971, þ.e. norðan við línu sem dregin er úr Sandfelli í Hlíðarfjall, en hlutinn sunnan hennar teljist til Bjarnarflags- og Námafjallssvæðis. 

Samkvæmt samningi stefnda og íslenska ríkisins um kaup þess fyrrnefnda á eignum Jarðvarmaveitna ríkisins í Bjarnarflagi þann 17. september 1986 segir í 3. gr. að með mannvirkjum þeim og eignum sem stefndi eignist með samningnum teljist fullur og ótakmarkaður réttur til hagnýtingar í þágu gufuveitunnar á þeirri jarðhitaorku sem finnast kann á jarðhitasvæðinu við Bjarnarflag og Námafjall að magni sem svari allt að 50 kg af gufu á sekúndu við 9 bary þrýsting.  Þá kemur fram að með jarðhitasvæðinu við Bjarnarflag og Námafjall sé átt við allt landssvæði í nánd við Bjarnarflag þar sem jarðhitaréttindi séu í umráðum ríkisins að meðtöldum suðurhluta þess svæðis sem markað sé á þeim uppdrætti sem fylgdi samningnum frá árinu 1971, þe. sunnan við línu sem dregin er úr Sandfelli í Hlíðarfjall.

Stefndi hefur nýtt sér kalt vatn og jarðefni úr landi stefnanda og telur að með samningi íslenska ríkisins og landeigenda frá 18. mars 1971, þar sem jarðhitaréttindum á nánar tilgreindu svæði í landi Reykjahlíðar var afhent íslenska ríkinu til frjálsrar ráðstöfunar, hafi einnig falist réttur til nýtingar á köldu vatni og jarðefni. 

Stefnandi heldur því hins vegar fram að framangreind notkun stefnda á köldu vatni og jarðefni í landi stefnanda sé óheimil enda hafi íslenska ríkinu og síðar stefnda einungis verið afsalað jarðhitaréttindum og aðstöðu til mannvirkjagerðar.  Þá hafi stefndi ennfremur tekið vatn úr landi sem ekki sé innan þess jarðsvæðis sem afsalað var á sínum tíma til íslenska ríkisins.

Samkvæmt þessu lýtur meginágreiningur aðila að því hvort nýting stefnda á köldu vatni og jarðefnum úr landi stefnanda sé honum heimil á grundvelli samnings landeigenda Reykjahlíðar og íslenska ríkisins frá 18. mars 1971 sbr. samningar stefnda við íslenska ríkið 26. júlí 1985 og 17. september 1986 en eins og rakið hefur verið er í þessum þætti málsins eingöngu til umfjöllunar krafa stefnda um frávísun málsins.

III

Stefnandi byggir mál sitt á því að umbjóðendur hans séu þinglýstir eigendur jarðarinnar Reykjahlíðar í Suður-Þingeyjarsýslu.  Sem eigendur jarðarinnar hafi þeir beinan eignarrétt að öllum hlunnindum landsins, sem ekki hafi verið skilin frá eigninni sbr. 3. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu.  Vilji aðrir nýta sér hlunnindi stefnanda verði slíkt að gerast með þeirra samþykki.

Í 1. gr. samningsins milli eigenda jarðarinnar Reykjahlíðar og ríkissjóðs frá árinu 1971 segi orðrétt:  "Jarðhitaréttindi í landi Reykjahlíðar á jarðhitasvæði því sem afmarkað er á viðfestum uppdrætti og landamerkjalýsingu, ásamt jarðhita þeim sem þar er að finna og aðstaða til mannvirkjagerðar til nýtingar hans eru héðan í frá ríkissjóði til frjálsra umráða og ráðstöfunar."

Með hliðsjón af þessu sé augljóst að notkun stefnda á köldu vatni og jarðefnum úr landi stefnanda sé óheimil án hans samþykkis.  Það landssvæði sem stefndi dæli upp köldu vatni sé langt fyrir utan hið afmarkaða svæði.  Þetta hafi stefndi vitað frá því að hann hafi byrjað að nýta sér þessi landgæði stefnda og hafi hann með því að neita að greiða fyrir þessi hlunnindi hagnast óhóflega á kostnað stefnanda.

Verði að túlka öll vafaatriði stefnanda í hag þar sem samningurinn sjálfur hafi verið gerður af íslenska ríkinu auk þeirrar yfirburðastöðu sem íslenska ríkið hafi haft við samningsgerðina.  Hafi í upphafi staðið til að lindir í Sandabotnum ættu að vera íslenska ríkinu til frjálsra afnota hefði þurft að geta um það sérstaklega.  Þar sem stefndi hafi fengið öll réttindi samningsins framseld verði hann sömuleiðis að bera hallann af hinum ófullkomna samningi.  Telji stefndi að vatnslindir í Sandabotnum og jarðvegsnámur í Grænugilsöxl séu hans beri hann sönnunarbyrðina fyrir því.

Stefnandi mótmælir því að krafa hans sé niður fallin vegna tómlætis eða hefðar.  Ekki séu uppfyllt skilyrði laga nr. 46/1905 um hefð þar sem ekki megi vinna hefð með glæp eða óráðvandlegu athæfi sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna.  Þá hafi eignarétturinn ekki verið færður löglega milli manna sbr. 3. gr. laganna og ekki hafi verið um óslitið eignarhald að ræða þar sem stefndi hafi ekki getað útilokað aðra til að ráða yfir eigninni.   Stefnda hafi ávallt verið kunnugt um þennan misbrest.  Hafi jarðeigendur og nú stefnandi árum saman bent stefnda á hina óheimilu sjálftöku eigna og reynt að sætta og semja um deilu þessa án árangurs og geti hann því ekki lengur setið aðgerðarlaus.

Stefnandi krefjist þess að honum verði bættur hver einasti rúmmetri af jarðefni og köldu vatni sem stefndi hafi tekið síðustu 10 ár, en fyrningarfrestur laga nr. 14/1905 komi í veg fyrir að hægt sé að sækja bætur lengra aftur í tímann.  Byggi krafa stefnanda á upplýsingum frá stefnda sjálfum en ljóst sé að stefndi hefði þurft að kaupa hin umdeildu efni af stefnanda á sínum tíma hefði hann viljað nota þau. 

Krafa stefnanda um bætur vegna jarðefnatöku sé byggð á því að árið 1993 hafi Vegagerðin greitt landeigendum 16 kr/m3 en það sé aðeins hærra verð en tíðkast hafi hjá Vegagerðinni samkvæmt orðsendingu Vegagerðarinnar nr. 8/2003 um landbætur, greiðslur fyrir efnistöku og fleira.  Ástæðan fyrir hærra verðmæti jarðefnis stefnanda hafi verið sú að Vegagerðinni hafi þótt það einkar gott burðarlag þar sem ekki hafi þurft að mala það sérstaklega.  Sú fjárhæð hafi síðan verið hækkuð með tilliti til breytinga á vísitölu neysluverðs síðustu 10 árin og þannig fundin fjárhæð sem sé margfölduð með magntölu viðkomandi árs:

 

 

Ár                      Jarðefni m3              VTN                 %                    Verð kr.             Fjárhæð

1993                285                     167,8                1,00                  16,00                        4.560

1994                 12                    170,3                1.01                  16,23                           195

1995                105                     173,2                1,03                  16,51                        1.734

1996                 15                    177,1                1,05                  16,68                           250

1997                 20                    180,3                1,07                  17,19                           344

1998                365                     183,3                1,09                  17,47                        6.377

1999                 20                    189,6                1,12                  18,07                           361

2000                 470                   199,1                1,18                  18,98                        8.921

2001            14.640                    212,4                1,26                  20,25                    296.460

2002            45.547                    222,6                1,32                  21,22                    966.507

2003                                           230,0                1,37                  21,93

Alls            61.479                                                                                       kr.      1.285.709

 

Samkvæmt framangreindri töflu sjáist að tjón stefnanda vegna jarðefnatöku stefnda síðustu 10 árin séu að fjárhæð 1.285.705 krónur en stefnandi áskilji sér rétt til að gefa út framhaldsstefnu vegna jarðefnatöku stefnda árið 2003 þar sem magntölur vegna þess árs liggi ekki fyrir.

Tjón stefnanda vegna töku stefnda á köldu vatni sé þó mun meira.   Krafa vegna þess sé byggð á því að núvirði hvers rúmmeters af köldu vatni kosti 12,38 krónur sbr. gjaldskrá Orkuveitu Húsavíkur en vatnslindir Orkuveitu Húsavíkur séu næstar vatnslindum stefnanda og gefi því besta mynd af raunverulegu markaðsvirði vatnsbirgða hans.  Að öðru leyti sé krafan reiknuð eins út og krafa stefnanda vegna jarðefnatöku stefnda.  Krónufjárhæð vatnsins hafi verið lækkuð til samræmis við breytingar á vísitölu neysluverðs og sú fjárhæð síðan margfölduð við magntölu viðkomandi árs.

 

Ár                       Kalt vatn m3 VTN                 %                  Verð kr.                 Fjárhæð

1993           252.288                   167,8                0,72                  8,91                  2.247.886

1994           252.288                   170,3                0,74                  9,16                  2.310.958

1995           252.288                   173,2                0,75                  9,28                  2.341.232

1996           252.288                   177,1                0,77                  9,53                  2.404.304

1997           252.288                   180,3                0,78                  9,65                  2.434.579

1998        1.009.152                   183,3                0,79                  9,78                  9.869.506

1999        1.766.016                   189,6                0,82                10,15                17.925.062

2000        1.766.016                   199,1                0,86               10,64                18.790.410

2001         1766.016                   212,4                0,92                11,38                20.097.262

2002        1.766.016                   222,6                0,96                11,88                20.980.270

2003        1.766.016                   230,0                1,00                12,38                21.863.278

Alls      11.100.672                                                                               kr.      121.264.747

 

Samkvæmt framangreindum töflum sjáist að samtals tjón stefnanda vegna töku stefnda á köldu vatni nemi 121.264.747 krónum.  Samtals sé því tjón stefnanda vegna töku stefnda á jarðefni og köldu vatni 122.550.456 krónur.  Þá krefst stefnandi dráttarvaxta frá 23. maí 2002 en þann dag hafi verið liðinn mánuður frá því að stefnandi hafi beðið stefnda um magntölur vegna máls þessa sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.  Sé eðlilegast að miða upphafsdag dráttarvaxta við þann dag þar sem stefndi hafi haft allar upplýsingar frá upphafi til að meta sjálfur tjónsatvik og fjárhæð bóta.

Um lagarök að öðru leyti en að framan greinir vísar stefnandi til meginreglu eignaréttar um einkaforræði þinglýsts eiganda á landi sínu.  Ennfremur sé vísað til almennu skaðabótareglunnar og varðandi málskostnað til 1. mgr.130. gr. laga nr. 91/1991 og um varnarþing til 33. gr. sömu laga.

IV

Frávísunarkröfu sína byggir stefndi á því að málatilbúnaður stefnanda uppfylli ekki skilyrði laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og sé hann því ekki tækur til efnismeðferðar.

Í fyrsta lagi byggir stefndi á því að aðrir en stefndi eigi beina og lögvarða hagsmuni af niðurstöðu máls þessa.  Stefnandi byggi í máli þessu á samningi landeigenda Reykjahlíðar og íslenska ríkisins frá 1971 og samningi þess síðarnefnda við Landsvirkjun frá 1985 sbr. lög nr. 21/1974 og síðar lög nr. 102/1985.  Stefndi kveðst byggja á sömu réttarheimildum.  Því til viðbótar megi benda á 6. gr. laga um Landsvirkjun nr. 42/1983 og 2. gr. laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar nr. 38/2002. 

Í máli þessu sé óumdeilt að jarðhitaréttindi í landi Reykjahlíðar á nánar afmörkuðu jarðhitaréttindasvæði ásamt jarðhita þeim sem þar sé að finna og aðstöðu til mannvirkjagerðar til nýtingar hans hafi af hálfu landeigenda verið framseld íslenska ríkinu til frjálsra umráða og ráðstöfunar með 1. gr. samningsins frá 1971.  Séu þessi jarðhitaréttindi ótakmörkuð.  Þá sé jafnframt óumdeilt að með tveim samningum við stefnda um kaup á Kröfluvirkjun og kaup á eignum Jarðvarmaveitna ríkisins hafi ríkið framselt hluta þessara jarðhitaréttinda þe. nýtingu allt að 70 MW jarðhitaorku til raforkuframleiðslu á Kröflusvæðinu og 50 kg af gufu á sekúndu við 9 bary þrýsting við Bjarnarflag og Námafjall.

Í máli þessu sé deilt um það hvort í 1. gr. samningsins frá 1971 hafi einnig falist réttur til efnis- og vatnstöku innan jarðhitaréttindasvæðisins.  Í 3. gr. samningsins sé að finna ákvæði um endurgjald íslenska ríkisins til landeigenda í Reykjahlíð fyrir hin framseldu réttindi auk þess sem vatnstaka hafi sérstaklega verið heimiluð úr Sandbotnalindum með samningi aðila sbr. bréf Rarik-Kröfluvirkjunar til stefnanda 23.maí 1980.  Skuldbindingar ríkissjóðs við landeigendur í Reykjahlíð um afhendingu á heitu vatni á grundvelli samninganna  frá 1971 og 1985 hvíli nú á stefnda sbr. b liður 6. gr. samnings um kaup á eignum Jarðvarmaveitna ríkisins 17. september 1986.

Bæði íslenska ríkið og stefndi hafi litið svo á að fullt endurgjald hafi komið fyrir landsréttindi s.s. jarðefni og vatn innan jarðhitaréttindasvæðisins og fyrir vatnstöku úr Sandabotnalindum, með framangreindum samningum og hvorugur þessara aðila hafi nokkru sinni viðurkennt rétt landeigenda í Reykjahlíð til greiðslu vegna jarðhitanýtingarinnar umfram það sem kveðið sé á um í samningum þeim sem ríkið hafi gert við landeigendur.

Sýni minnisblað stefnanda um umræðuefni á fundi með iðnaðarráðherra 4. apríl 2003 svo ekki verði um villst að stefnandi telji íslenska ríkið einn aðila að samningnum frá 1971 og staðfesti svarbréf ráðherra 27. júní 2003 að íslenska ríkið líti svo á að það eigi enn hagsmuna að gæta hvað þennan samning varði.  Þar komi og skýrt fram að ráðuneytið telji eðlilegt að öllum málsaðilum gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.  Þá vísi ráðuneytið á dómstóla ef uppi verði ágreiningur um túlkun samningsins.

Kveður stefndi vera uppi áætlanir um að auka nýtingu jarðhita til raforkuvinnslu á Kröflusvæðinu og hafi stefndi þegar fengið heimild Alþingis til stækkunar Kröfluvirkjunar.  Stefndi hafi tjáð stefnanda að í undirbúningi séu viðræður við iðnaðarráðuneytið um frekari nýtingu jarðhita innan jarðhitaréttindasvæðisins en hvað landeigendur í Reykjahlíð varði hafi stefndi áhuga á að ræða við þá um jarðhitavinnslu á svæði utan réttindasvæðis ríkisins og stefnda.

Í máli þessu sé krafist túlkunar á samningi sem íslenska ríkið hafi gert við landeigendur í Reykjahlíð árið 1971 sem bindi málsaðila.  Íslenska ríkið hafi ekki framselt öll réttindi samkvæmt þeim samningi eða öðrum samningum við landeigendur í hendur stefnda og því muni niðurstaða í þessu máli, verði fallist á kröfur stefnanda, varða réttindi ríkisins samkvæmt gildandi samningum.  Telur stefndi að íslenska ríkið hafi einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn þessa máls og að stefnandi sé að krefjast dóms um hagsmuni sem með réttu tilheyri ríkinu eða eftir atvikum stefnda.  Því hafi borið að stefna íslenska ríkinu ásamt stefnda og þar sem það var ekki gert beri að vísa málinu frá ex officio á grundvelli meginreglu 18. gr. laga nr. 91/1991.

Í öðru lagi byggir stefndi frávísunarkröfur sínar á vanreifun og því að stefnandi hafi látið undir höfuð leggjast að leggja fram gögn sem hann hafði til sönnunar í málinu sem skýrt hefðu málsástæður stefnanda og grundvöll málssóknar hans.  Þessi gögn séu stefnanda í óhag og af þeim ástæðum verði lýsing málsástæðna stefnanda og annarra atvika svo óskýr og ófullkomin í stefnu að henni beri að vísa frá dómi með vísan til 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Í málsástæðum stefnanda komi fram að stefnandi telji augljóst og óumdeilanlegt með hliðsjón af orðalagi 1. gr. samningsins frá árinu 1971, að notkun stefnda á köldu vatni og jarðefnum úr landi stefnanda sé óheimil án þeirra samþykkis.  Það landsvæði sem stefndi dæli gegndarlaust upp köldu, fersku vatni sé langt fyrir utan hið afmarkaða svæði sem tilgreint hafi verið í samningum aðila.  Öll önnur túlkun sé gegn góðri trú.  Kveður stefndi að hinn 23. maí 1980 hafi Rarik sent bréf til Jóns Illugasonar fyrir hönd Landeigendafélags Reykjahlíðar, en Jón hafi haft umboð félagsins til samninga við Rarik. Í þessu bréfi komi fram að fullt og ótakmarkað leyfi landeigenda sé fyrir vatnstöku í Sandabotnalindum án endurgjalds.  Þetta skjal hafi stefnandi ekki lagt fram en það kollvarpi öllum málatilbúnaði hans eins og hann sé settur fram í stefnu.  Þetta sé mun alvarlegra þegar það sé virt að stefnandi hafi fengið skjöl varðandi þetta mál frá iðnaðarráðuneytinu með bréfi ráðuneytisins 17. mars 2003.  Virðist sem stefnandi hafi valið úr þau skjöl sem honum hafi hentað en látið undir höfuð leggjast að leggja önnur fram.  Þannig sé ekki unnt að draga aðra ályktun en að stefnandi hafi byggt málsástæður sínar og málatilbúnað allan á vondri trú, gagnstætt öllu tali hans um góða trú.  Stefndi hafi komist á snoðir um tilvist þessara skjala þegar óskað hafi verið aðgangs að þeim gögnum sem iðnaðarráðuneytið hefði sent stefnanda með áðurgreindu bréfi.

Skortur á framlagningu gagna sem stefnandi hafði undir höndum kippi stoðum undan kröfugerð hans og málsástæðum.  Stefnanda megi vera ljóst að gerðar séu þær kröfur til hans að hann leggi málið upp með réttum hætti og hafi uppi réttmætar kröfur.  Á grundvelli 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 beri að vísa málinu frá dómi þegar af þeim sökum að stefnandi uppfylli ekki þessar réttarfarskröfur í málssókn sinni.

Þar að auki séu málsástæður vanreifaðar í stefnu og stefnda gert óhægt um vik að átta sig á kröfugerð stefnanda.  Krafa stefnanda vegna vatnstöku miðist við það gjald sem Orkuveita Húsavíkur krefji almenna vatnsnotendur í bænum samkvæmt gjaldskrá.  Hér sé kastað til höndum og fundin krafa sem stefnanda hljóti að vera ljóst að sé fjarstæðukennd.  Rökstuðningur fyrir kröfunni um að vatnslindir Orkuveitu Húsavíkur séu næstar vatnslindum stefnanda og gefi því besta mynd af raunverulegu markaðsvirði vatnsbirgða hans, brjóti gróflega gegn 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og ljóst að kröfur stefnanda séu ekki dómtækar.

Að grípa rökstuðning með kröfu sinni úr lausu lofti, líkt og stefnandi geri, hamli stefnda í að koma að efnisvörnum í málinu.  Þá sé stefnda gert erfitt fyrir varðandi varnir í málinu að öðru leyti.  Krefjist stefnandi þess að öll vafaákvæði í samningum þeim sem liggi til grundvallar orkunýtingu Kröfluvirkjunar verði túlkaðir honum í hag.  Með því virðist stefnandi vera búinn að breyta þeirri meginreglu réttarfars að sá sem haldi fram kröfu í dómsmáli beri jafnframt sönnunarbyrði fyrir henni.  Þessu mótmæli stefndi en í skjóli þessarar framsetningar láti stefnandi undir höfuð leggjast að rökstyðja kröfur sínar til hlítar.  Það sé grundvallarregla íslensks réttar að sá sem krefjist réttinda sér til handa í dómsmáli verði að gera skýra grein fyrir þeim.  Það hafi stefnandi ekki gert og sé málatilbúnaður hans svo óskýr að hann fái ekki samrýmst e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.  Séu svo stórfelldir annmarkar á málatilbúnaði og röksemdafærslu stefnanda að vísa beri málinu frá dómi.

V

Stefndi byggir frávísunarkröfu sína meðal annars á því að málið sé svo vanreifað af hálfu stefnanda að í bága brjóti við 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.  Þá hafi hann látið undir höfuð leggjast að leggja fram gögn sem hann hafði undir höndum og voru honum í óhag en hefðu getað skýrt málatilbúnað hans.  Þau gögn sem stefndi vísar hér til hefur hann sjálfur lagt fram og því hefur hann bætt úr þeim ágalla sem kann að hafa verið á málatilbúnaði stefnanda að því leyti og verður málinu því ekki vísað frá dómi nú af þeim sökum.

Grundvöllur málatilbúnaðar stefnanda er skýr.  Hann krefur stefnda um greiðslu fyrir afnot af landsgæðum, köldu vatni og jarðefni, sem hann telur að falli ekki undir þær heimildir sem landeigendur afsöluðu með samningi við íslenska ríkið 18. mars 1971.  Í stefnu er gerð grein fyrir því hvernig fjárhæð kröfunnar er fundin.  Þykir málatilbúnaður stefnanda vera í samræmi við ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og eru því ekki efni til að vísa málinu frá dómi vegna vanreifunar.

Þá reisir stefndi frávísunarkröfu sína ennfremur á því að efnisleg úrlausn málsins varði hagsmuni íslenska ríkisins með þeim hætti að aðild þess sé nauðsynleg og þar sem málinu sé ekki jafnframt beint gegn þeim aðila beri að vísa málinu frá dómi samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 19/1991. 

Eins og rakið hefur verið lýtur meginágreiningur aðila að því hvort þau landsgæði, kalt vatn og jarðefni, sem stefndi hefur nýtt úr landi stefnanda séu innifalin í þeim réttindum sem íslenska ríkið fékk framseld til sín frá landeigendum með samningnum frá 1971, og íslenska ríkið síðan framseldi stefnda að hluta.

Er ekki deilt um að stefndi hefur nýtt sér þessi réttindi og byggir stefnandi kröfu sína á því að hann eigi að greiða fyrir þau.  Til að leysa úr þeim ágreiningi sem er uppi í máli þessu þarf að staðreyna hvaða réttindum var afsalað til íslenska ríkisins með samningi þess við landeigendur á árinu 1971.  Af gögnum málsins verður ráðið að íslenska ríkið framseldi stefnda einungis hluta fyrrgreindra réttinda með samningunum um Kröfluvirkjun 26. júlí 1985 og eignir Jarðvarmaveitna ríkisins í Bjarnarflagi 17. september 1986.  Eins og mál þetta liggur fyrir dóminum hefur íslenska ríkið því ekki afsalað sér öllum þeim réttindum það fékk til ráðstöfunar á grundvelli samningsins frá árinu 1971 og er því ekki loku fyrir það skotið að íslenska ríkið kunni að hafa hagsmuni af því hvernig ákvæði hins umdeilda samnings eru skýrð og þar með hver niðurstaða þessa máls verður.  Með því að íslenska ríkinu var ekki stefnt í málinu og þannig gefinn kostur á að láta ágreininginn til sín taka verður að vísa málinu frá dómi.

          Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt með hliðsjón af atvikum málsins að fella málskostnað niður.

Af hálfu stefnanda flutti málið Guðmundur Ingvi Sigurðsson hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Ástríður Gísladóttir hdl.

          Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

             Máli þessu er vísað frá dómi.

             Málskostnaður fellur niður.